Umhverfis- og skipulagsráð - og skipulagsráð

Umhverfis- og skipulagsráð

Ár 2001, mánudaginn 18. júní kl. 10:00 var haldinn 15. fundur samgöngunefndar í Skúlatúni 2. Þessir sátu fundinn: Helgi Pétursson, Einar Skúlason og Kristján Guðmundsson.

Einnig komu á fundinn Þorgrímur Guðmundsson, Ólafur Stefánsson og Stefán Finnsson.

Fundarritari var Ágúst Jónsson.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 12.06.2001, varðandi samþykkt borgarráðs s.d. á umsögn samgöngunefndar frá 11. s.m. um tillögu stjórnkerfisnefndar um breytingar á samþykkt fyrir samgöngunefnd.

Kl. 10:10 tóku Kjartan Magnússon og Helgi Hjörvar sæti á fundinum.

2. Lagt fram bréf Baldvins E. Baldvinssonar og Stefáns Agnars Finnssonar í umferðardeild, dags. 05.06.2001, varðandi aðgerðir í hverfum, þar sem hámarkshraði er 30 km/klst. Ennfremur lagðar fram tillögur Línuhönnunar, dags. í maí 2001, um breytingar innan núverandi 30 km-hverfa í Reykjavík.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svofellda tillögu:

"Umræddar aðgerðir fela í sér uppsetningu margra nýrra hraðahindrana, bæði steinlagðra og malbikaðra. Við leggjum til að áður en slíkar hraðahindranir verða settar upp á strætisvagnaleiðum verði gerð könnun á áhrifum þeirra á heilsufar vagnstjóra. Umrædda könnun skal gera í samráði við vagnstjóra SVR sem nú þegar hafa aflað sér ýtarlegra upplýsinga um hraðahindranir."

Formaður lagði til að tillögu Sjálfstæðismanna verði vísað til stjórnar Strætó bs. Tillaga formanns samþykkt með 3 atkv. fulltrúa Reykjavíkurlistans gegn 2 atkv. fulltrúa Sjálfstæðisflokks.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað: "Við hörmum að R-listinn skuli fella tillögu okkar og kjósa þar með að vísa ábyrgðinni annað og erum ósammála því að nefndin hafi ekkert með heilsufar vagnstjóra að gera. Við teljum aftur á móti að samgöngunefnd eigi að taka mark á síendurteknum ábendingum vagnstjóra um hugsanlegt heilsutjón af völdum hraðahindrana og kanna málið gaumgæfilega áður en fleiri slíkar hindranir verða settar upp. Markmið slíkrar könnunar ætti að vera að finna lausn sem hefur hraðahindrandi áhrif í för með sér á viðkomandi stöðum og vagnstjórar jafnt sem íbúar gætu sætt sig við. Við erum því ósammála því að vísa málinu frá samgöngunefnd sem er óumdeilanlega sá aðili sem tekur ákvörðun um uppsetningu nýrra hraðahindrana."

Fulltrúar Reykjavíkurlista óskuðu bókað: "Það er algjör misskilningur að ofangreind tillaga hafi verið felld. Þvert á móti hefur henni verið vísað til þeirra aðila, sem bera kunna ábyrgð á heilsufari vagnstjóra."

Tillögur umferðardeildar samþykktar með 3 samhljóða atkvæðum (fulltrúar Sjálfstæðisflokks sátu hjá).

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað: "Flestar þær aðgerðir sem hér er gerð tillaga um virðast vera til bóta. Við sitjum hjá þar sem okkur bárust ekki fullnægjandi upplýsingar um aðgerðirnar fyrir fundinn. Einnig vísum við til fyrri bókunar."

3. Stefán Finnson lagði fram lista, dags. 07.02.2001, yfir nokkur mál, sem voru til umfjöllunar í fyrrum umferðaröryggisnefnd. Ennfremur lagðar fram tillögur umferðardeildar, dags. 05.06.2001, um staðbundnar aðgerðir til úrbóta í umferðarmálum 2001. Nefndin frestar ákvörðun um aðgerðir á Njarðargötu, en samþykkir tillögur umferðardeildar að öðru leyti.

4. Lagt fram á ný bréf Ólafs Bjarnasonar, verkfræðings, dags. 04.04.2001, um umferðarskipulag við Vatnsendahvarf. Ennfremur lögð fram á ný skýrsla Línuhönnunar, verkfræðistofu, dags. í mars 2001, um sama efni. Einnig lögð fram umsögn umferðardeildar dags. 18.06.2001, um umferð um Jaðarsel. Samgöngunefnd getur ekki fallist á umferðartengingu frá byggð í Kópavogi inn á Jaðarsel, en gerir að öðru leyti ekki athugasemdir við umferðarskipulag við Vatnsendahvarf.

5. Lögð fram á ný skýrsla gatnamálastjóra og Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. í maí 2001, um tillögur og aðgerðir til að minnka neikvæð áhrif loftmengunar, með sérstöku tilliti til svifryksmengunar. Tillögur gatnamálastjóra og heilbrigðiseftirlits samþykktar með 3 samhlj. atkv. (fulltrúar Sjálfstæðisflokks sátu hjá).

Fultrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svofellda bókun: "Þegar rætt er um aðgerðir til að stemma stigu við notkun nagladekkja hjá almenningi, má ekki gleymast að nagladekk eru mikilvægur öryggisbúnaður. Óþarfi ætti að vera að minna á hið rysjótta veðurfar, sem ríkjandi er í Reykjavík, og á löngum vetri glíma ökumenn við síbreytilegar aðstæður; rigningu, snöggfrystingu, hálku, snjókomu, hláku o.s.frv. Þá teygir byggðin sig frá fjöru til fjalls og er hæðarmunur um 100 metrar. Það er við þessar aðstæður sem 60-70% reykvískra ökumanna kjósa að aka á nagladekkjum yfir vetrarmánuðina. Vísbendingar eru þó um að notkun nagladekkja hafi smám saman farið minnkandi á síðustu árum. Reykjavíkurborg ber mikinn kostnað vegna nagladekkjanotkunar sem kemur einkum fram í miklu viðhaldi gatnakerfisins. Þessi kostnaður, ásamt kenningum um aukna svifryksmengun af völdum nagladekkja, mælir með því að draga úr notkun þeirra. Þarna þarf þó að hafa í huga að flestar rannsóknir benda til þess að umferðaróhöppum fjölgi ef notkun nagladekkja minnkar. Hugsanlegan sparnað þarf því að meta með tilliti til slíkra þátta. Margt bendir til að skynsamlegt sé að draga úr notkun nagladekkja frá því sem nú er. Öfugt við R-listann telja sjálfstæðismenn að borgaryfirvöld eigi ekki að grípa til aukinnar skattheimtu og þvingunarúrræða til að draga úr notkun nagladekkja heldur eigi slíkar aðgerðir að miðast við fræðslu og höfða þannig til skynsemi borgarbúa."

Fulltrúar Reykjavíkurlista óskuðu bókað: "Svifryksmengun er alvarlegt mengunarvandamál í Reykjavík. Sífellt fleiri ökumenn finna til ábyrgðar og aka ekki á nagladekkjum yfir vetrartímann. Enda er það aksturslag sem orsakar slysahættu, en ekki dekkjabúnaður. Hagræn stjórntæki hafa verið nýtt í vaxandi mæli á síðari árum til að launa umhverfisvæna hegðun, enda hafa rannsóknir sýnt að fræðsla ein og sér hefur mjög takmörkuð áhrif."

6. Lagt fram bréf gatnamálastjóra, dags. 28.05.2001, ásamt bréfi Gunnars H. Ingimundarsonar, dags. 22.05.2001, varðandi umferð um Safamýri. Vísað til umferðardeildar.

7. Lagt fram bréf Gunnhildar Björnsdóttur og Sveins Agnarssonar, dags. 08.06.2001, varðandi umferðarhraða á Meistaravöllum. Vísað til umferðardeildar.

Fundi slitið kl. 11:40

Helgi Pétursson
Kristján Guðmundsson.
Helgi Hjörvar
Kjartan Magnússon
Einar Skúlason