Umhverfis- og skipulagsráð - og skipulagsráð

Umhverfis- og skipulagsráð

Ár 2001, miðvikudaginn 27. júní kl. 14.00 var haldinn 17. fundur samgöngunefndar í Ráðhúsinu. Þessir sátu fundinn: Kristín Blöndal, Sigrún Magnúsdóttir, Helgi Pétursson, Kjartan Magnússon og Pétur Friðriksson.

Fundarritari var Elísabet J. Þórisdóttir.

Þetta gerðist:

1. Formaður samgöngunefndar, Helgi Pétursson óskaði bókað: " Ég undirritaður, formaður samgöngunefndar Reykjavíkur, fer þess hér með á leit við borgarráð, að framferði og málatilbúnaður Kjartans Magnússonar, borgarfulltrúa, vegna fyrirhugaðrar gjaldskrár Strætó b.s. verði tekinn til umfjöllunar á vettvangi borgarráðs og til þess séð, að borgarfulltrúinn biðjist afsökunar opinberlega á tilhæfulausum fullyrðingum um stjórn mína á starfi samgöngunefndar á fundi hennar 25. júní s.l.: Í fréttatilkynningu, sem Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi og fulltrúi minnihluta Sjálfstæðisflokksins í samgöngunefnd hefur dreift til fjölmiðla, segir hann að sér hafi verið meinað að leggja fram fyrirspurnir og bókanir vegna fyrirhugaðra gjaldskrárbreytinga Strætó b.s. og að fundinum hafi verið slitið í skyndi. Auk þess heldur Kjartan því fram, að ég, formaður nefndarinnar, hafi ekki viljað segja til um hvort haldinn yrði aukafundur í nefndinni. Þetta eru hrein ósannindi. Á fundinum voru fjórir nefndarmenn, Kjartan og Kristján Guðmundsson frá minnihluta og ég og Kristín Blöndal frá meirihluta. Kristján vék af fundi kl. 12:00 en skömmu áður hafði Kjartan tilkynnt að hann ,,væri með nokkur mál". Það varð að ráði að tvær bókanir Kjartans yrðu afgreiddar, en jafnframt tilkynnti Kristín, að hún yrði að sækja nefndarfund annars staðar og yrði því að víkja af fundi, sem þá hafði staðið í tvær klukkustundir. Þá voru aðeins tveir nefndarmenn eftir og framhald fundar því ekki lögmætt. Ég sleit þá fundi, en jafnframt svaraði ég beiðni Kjartans um aukafund á þann veg, að hann yrði haldinn eins fljótt og auðið yrði. Sá fundur var haldinn 27. júní sl. Hvað sem um furðulegan málflutning Kjartans Magnússonar borgarfulltrúa um málefni Strætó b.s. verður að öðru leyti sagt, skal hér látið liggja milli hluta, en ég sætti mig ekki við að vera brigslað um lögbrot og yfirgang í pólitísku starfi og krefst þess því að borgarfulltrúinn verði áminntur fyrir þetta framferði sitt. "

Kjartan Magnússon óskaði bókað:

,,Ég stend við allar fullyrðingar mínar um brotalamir sem formaður samgöngunefndar varð uppvís að á síðasta fundi hennar. Á fundinum kom það okkur sjálfstæðismönnum á óvart að fulltrúar R-listans ætluðu sér ekki að ræða yfirvofandi gjaldskrárhækkanir Strætó bs. á strætisvagnaþjónustu á nokkurn hátt. Við sjálfstæðismenn tókum því málið upp á fundinum sem sérstakt mál undir 11. lið. Tillögu okkar um að leitað yrði álits hagsmunasamtaka á umræddum fargjaldahækkunum var vísað frá. Við sjálfstæðismenn boðuðum þá að við myndum einnig leggja fram fyrirspurn og bókun vegna umræddra gjaldskrárhækkana undir þessum sama lið. Formaður og varaformaður nefndarinnar spurðu þá undirritaðan um efni fyrirspurnarinnar og bókunarinnar. Þegar ég hafði sagt þeim það, var ljóst að þeim mislíkaði stórum og sögðu að þetta fengist ekki fram lagt og slíta þyrfti fundi í skyndingu. Undirritaður benti þá á að löng og athugasemdalaus venja væri fyrir því í nefndum og ráðum borgarinnar að menn kynntu bókanir undir ákveðnum liðum en gæfu sér síðan næði til þess að fundi loknum að skrifa bókanirnar og koma þeim í hendur ritara. Ég taldi mig vera búinn að kynna fyrirspurn og bókun okkar sjálfstæðismanna og var ekkert því til fyrirstöðu að leggja þær fram áður en varaformaðurinn yfirgæfi fundinn. Formaður og varaformaður samgöngunefndar neituðu eigi að síður að taka við bókununum þrátt fyrir að ég hafði þegar kynnt efni þeirra og varaformaður flýtti sér að útgöngudyrunum um leið og formaður sleit fundi. Undirritaður man ekki eftir því að stjórnarfundi hjá Reykjavíkurborg hafi verið slitið svo skyndilega, þ.e.a.s. áður en yfirstandandi liður er afgreiddur. Ég lít því svo á að mér hafi verið meinað að leggja umræddar bókanir fram vegna efnis þeirra. Ég stend því fullkomlega við þær fullyrðingar sem fram komu í umræddri fréttatilkynningu. Um leið og fundi var slitið óskaði ég eftir að haldinn yrði aukafundur í nefndinni hið fyrsta en fékk engin svör um það á fundinum frá formanni nefndarinnar hvort af því yrði. Formaður samgöngunefndar ber sig illa og kvartar yfir því að vera brigslað um lögbrot og yfirgang í pólitísku starfi. Því er til að svara að formaðurinn hefur yfirleitt staðið sig illa við stjórn funda og orðið uppvís að ótrúlegri fákunnáttu í almennum fundarsköpum. Hafa fulltrúar sjálfstæðismanna margoft þurft að gera athugasemdir við fundarstjórn hans í samgöngunefnd og áður í stjórn SVR, forvera samgöngunefndar. Geta aðrir fundarmenn borið vitni um það en eðli málsins samkvæmt hafa athugasemdir okkar sjaldnast verið færðar til bókar. Skemmst er þá að minnast hvernig umræddur formaður braut hvað eftir annað rétt á einum fundarmanni í stjórn SVR þrátt fyrir mótmæli hans og fulltrúa sjálfstæðismanna. Á endanum var því málið skotið til borgarlögmanns sem felldi þann úrskurð að formaðurinn, Helgi Pétursson, hefði brotið gegn rétti umrædds fundarmanns. Síðasti fundur samgöngunefndar er því ekki fyrsti fundurinn þar sem formaðurinn verður uppvís að óviðunandi vinnubrögðum á sviði fundarstjórnunar svo vægt sé til orða tekið."

Samþykkt með 3 atkvæðum gegn 2 að vísa bókun Helga Péturssonar, formanns samgöngunefndar til borgarráðs.

2. Kjartan Magnússon lagði fram svofellda fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í samgöngunefnd: "Sjálfstæðismenn óska eftir því að fulltrúi borgarstjóra í stjórn Strætó bs. og formaður samgöngunefndar rökstyðji þær fullyrðingar sínar, sem komið hafa fram í fjölmiðlum síðustu daga, að fyrirhuguð fargjaldahækkun á strætisvagnaþjónustu muni aðeins skila nýju fyrirtæki 10% hækkun á fargjaldatekjum. Samkvæmt upplýsingum SVR koma um 70% af fargjaldatekjum fyrirtækisins frá staðgreiðslufargjöldum eða farmiðakortum og a.m.k. 60% strætisvagnafarþega greiða fargjöld sín með þeim hætti. 33-100% hækkun á staðgreiðslu og farmiðakortum hlýtur því að þýða meiri tekjuaukningu nema grundvallarbreyting verði á fargjaldasamsetningu fyrirtækisins. Óskað er eftir skriflegu svari sem fyrst."

Fulltrúar Reykjavíkurlistans óskuðu bókað:

,,Eins og svo oft áður, gætir ótrúlegs tvískinnungs í málflutnings sjálfstæðismanna hvað varðar almenningssamgöngur og þróun þeirra. Eina ferðina enn er þess krafist, að gjöld verði lækkuð, en hvergi bent á leiðir til tekjuöflunar og því rökrétt að ætla, að sjálfstæðismenn vilji hækka skatta á borgarbúa til þess að standa undir sameiginlegri þjónustu. Reykjavíkurborg leggur á þessu ári 621 milljón króna til almenningssamgangna. Rétt er að ítreka eftirfarandi, fulltrúum sjálfstæðismanna í samgöngunefnd til glöggvunar: Við setningu nýrrar gjaldskrár fyrir hið nýstofnaða fyrirtæki, Strætó b.s. hafði stjórn þess tvennt að höfuðmarkmiði; annars vegar að miða við að gjaldskrárbreytingar myndu færa fyrirtækinu u.þ.b. 10% tekjuauka m.v. núgildandi gjaldskrá, og hins vegar þótti rétt að leggja alveg nýjar áherslur að þessu sinni til þess að gjaldskráin væri betra tæki til að þjóna tryggustu viðskiptamönnum annars vegar og svo hins vegar að hún gæti orðið hvati til að óreglulegir farþegar myndu nýta sér þjónustuna í auknum mæli, eða m.ö.o. fjölga farþegum, en um það snýst auðvitað málið fyrst og fremst. Alger samstaða var í stjórn um þessar áherslur og gjaldskrána í heild. Það er því meðvitað um algerlega nýja gjaldskrá að ræða en ekki einhverskonar einfaldan framreikning á núgildandi gjaldskrám, eins og borgarfulltrúar sjálfstæðismanna hafa stundað undanfarna daga. Vegið meðaltal þeirra breytinga sem nú hafa verið gerðar þýðir u.þ.b. 10% tekjuauka frá því sem nú er ef engin gjaldskrárbreyting hefði verið gerð. Gjaldskrá SVR var síðast breytt í júlí 1999, en hjá AV um síðust áramót. Því var innbyggð meiri hækkunarþörf hjá SVR en AV við þessa sameiningu en verið hefði ef SVR hefði einnig hækkað um ármótin. Almennar verðlagshækkanir frá júlí 1999 til dagsins í dag nema rúmlega 12,5 prósentum, en hækkanir á rekstrarvörum strætisvagnaþjónustu hafa auðvitað hækkað miklu meira á tímabilinu, einkum launaliðir, tryggingar og hráolía, en hún hefur hækkað meira en 100% á tímabilinu, úr 23 kr. í 49 kr. Þrátt fyrir þessar staðreyndir ákvað stjórnin að freista þess að láta fyrrnefnda 10% meðaltalshækkun nægja. Algjör samstaða hefur verið um þessar breytingar í stjórn Strætó b.s. og hlýtur fulltrúum Sjálfstæðisflokksins frá aðildarsveitarfélögum á þjónustusvæðinu í stjórn byggðasamlagsins að þykja málflutningur Kjartans Magnússonar og félaga hans í borgarstjórn Reykjavíkur heldur kaldar kveðjur við upphaf starfsemi félagsins."

3. Kjartan Magnússon lagði fram eftirfarandi bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í samgöngunefnd. ,,Mestu fargjaldahækkanir í sögu almenningssamgangna í Reykjavík síðan á tíma óðaverðbólgu verða að veruleika um leið og nýtt fyrirtæki, Strætó bs. tekur til starfa 1. júlí nk. Við breytingarnar munu almenn fargjöld í strætisvagnana hækka úr 150 í 200 kr. eða um 33% en mun lengra er þó gengið gagnvart þeim sem eiga ekki annan valkost en almenningssamgöngur til að komast leiðar sinnar. Farmiðakort unglinga munu þannig hækka í verði um 100%, farmiðakort öryrkja um 66% og farmiðakort aldraðra um 33%. Þá munu almenn fargjöld barna (6-12 ára) hækka um 66% og farmiðakort barna um 33%. Verð græna kortsins verður lækkað um 200 kr., úr 3.900 í 3.700 kr. eða 5% en græna kortið skilar nú um þriðjungi af fargjaldatekjum Strætisvagna Reykjavíkur. Frá því R-listinn tók við stjórn borgarinnar hefur gjaldskrá Strætisvagna hækkað langt umfram almennar verðlagsbreytingar. Síðasta hækkun á gjaldskrá SVR varð fyrir tveimur árum, í júlí 1999, og sögðu borgarfulltrúar R-listans við það tækifæri að eftir það myndi farmiðaverð einungis fylgja almennum verðlagshækkunum. Hinar miklu verðhækkanir sem nú verða á þjónustu SVR sýna að þessi loforð R-listans voru innan tóm og merkingarlaus." Fulltrúar R-listans vísa til fyrri bókunar og harma hvað mikið misræmi er í málflutningi sjálfstæðismanna í samgöngunefnd.

4. Kjartan Magnússon lagði fram eftirfarandi bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokks í samgöngunefnd: ,,Vakin er athygli á skýrslu Þórarins Flosa Guðmundssonar, vagnstjóra, um fjölda hraðahindrana á akstursleiðum SVR. Þar kemur fram að strætisvagnabílstjóri fer yfir allt að 280 hraðahindranir (öldur) á sömu vaktinni á þeirri leið þar sem mest er um slíkar hindranir. Umrædd skýrsla sýnir að full þörf er á því að samgöngunefnd taki þetta mál til alvarlegrar athugunar og kanni í fullri alvöru hvort slíkar öldur hafi áhrif á heilsufar vagnstjóra." Fulltrúar Reykjavíkurlistans óskuðu bókað: ,,Umhyggja fulltrúa sjálfstæðismanna í samgöngunefnd fyrir heilsu og vellíðan vagnstjóra er eðlileg, sjálfsögð og undir hana er heilshugar tekið. Við teljum rétt, að stjórn Strætó b.s. fjalli um þessa athyglisverðu skýrslu, auk þess sem til hennar verði tekið við umfjöllum um umferðaröryggismál á vegum samgöngunefndar. Hraðahindranir hafa hins vegar reynst árangursríkt tæki til þess að draga úr ökuhraða, eins og reynslan sýnir og borgarbúar treysta því. Má t.a.m. geta þess, að fyrir þessum fundi liggur beiðni Ólafs F. Magnússonar, borgarfulltrúa sjálfstæðismanna, o. fl. um að sett verði niður hraðahindrun á tiltekna götu. Meðalhófið er því vandratað."

5. Kjartan Magnússon lagði fram eftirfarandi bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokks í samgöngunefnd: ,,Enn er skiptistöð SVR í Ártúni aðeins opin til kl. 23:15 á kvöldin. Slíkt er óviðunandi fyrir þá viðskiptavini SVR sem þurfa að ná vagni eftir þann tíma á skiptistöðinni. Sjálfstæðismenn ítreka því ósk sína, sem komið var á framfæri í stjórn SVR á sínum tíma, að úr þessu verði bætt sem fyrst." Samþykkt einróma að vísa málinu til stjórnar Strætó bs.

6. Lagt fram bréf Ólafs F. Magnússonar, dags. 10. júní 2001, fh. íbúa við Vogaland, þar sem þess er farið á leit við samgöngunefnd Reykjavíkur að sett verði upp hraðahindrun í götunni. Vísað til umsagnar umferðardeildar.

Fundi slitið kl. 14:25

Helgi Pétursson
Kristín Blöndal
Sigrún Magnúsdóttir
Kjartan Magnússon
Pétur Friðriksson