Umhverfis- og skipulagsráð - og skipulagsráð

Umhverfis- og skipulagsráð

Ár 2002, föstudaginn 26. apríl kl. 10:00 var haldinn 34. fundur samgöngunefndar að Skúlatúni 2, 5. hæð. Þessir sátu fundinn: Helgi Pétursson, Helgi Hjörvar, Kjartan Magnússon, Kristján Guðmundsson og Einar Skúlason. Einnig komu á fundinn: Ólafur Bjarnason, Stefán A. Finnsson, Stefán Haraldsson og Ásgeir Eiríksson. Fundarritari: Elísabet J. Þórisdóttir.

Þetta gerðist: Mál nr. 2002040074 1. Lagt fram bréf borgarstjóra, f.h. borgarráðs, dags. 16. apríl 2002 varðandi tillögu um skipulag og starfsemi Höfuðborgarstofu.

Fulltrúar R - listans lögðu fram eftirfarandi bókun: Við teljum að með tillögum um skipulag og starfsemi Höfuðborgarstofu, sem í grunnatriðum hafa verið kynntar áður í nefndinni, sé verið að koma á mikilvægri samhæfingu allra þátta innan borgarkerfisins sem geti orðið ferðaþjónustu í Reykjavík til framdráttar. Jafnframt er lögð áhersla á samráð við ferðaþjónustuna í hvívetna.

Fulltrúar sjálfstæðismanna í samgöngunefnd óskuðu bókað: Samkvæmt fyrirliggjandi tillögum eru ýmsar forsendur fyrir rekstri fyrirhugaðrar Höfuðborgarstofu óskýrar svo ekki sé meira sagt. Fulltrúar sjálfstæðismanna í samgöngunefnd telja rétt að reynt verði að skýra þessar forsendur og eyða allri óvissu áður en tillögur um skipulag og starfsemi stofunnar verða samþykktar.

Fyrirspurnir vegna Höfuðborgarstofu:

1. Hefur verið gengið frá samkomulagi við ríkisvaldið um þáttöku þess í rekstrarkostnaði stofunnar? 2. Hafa húsnæðismál stofunnar verið leyst? 3. Hver verður áætlaður heildarkostnaður við rekstur stofunnar þegar hún verður kominn í fullan rekstur? Hver verður heildarútgjaldaaukning Reykjavíkurborgar til ferðamála frá því sem nú er eftir að stofan tekur til starfa? 4. Mun starfsmönnum ferðamála á vegum Reykjavíkurborgar fjölga við breytinguna?

Fulltrúar sjálfstæðismanna lögðu fram eftirfarandi bókun: Með fyrirliggjandi tillögum eru lagðar til miklar breytingar á tilhögun ferða- og kynningarmála í Reykjavík. Brýnt er að slík endurskipulagning heppnist vel, ekki síst vegna þeirra stöðu, sem nú ríkir í ferðamálum, en einnig vegna þess að stefnu- og úrræðaleysi hefur einkennt aðkomu Reykjavíkurborgar að málaflokknum á undanförnum árum. Á undanförnum árum hafa borgaryfirvöld ekki sjaldnar en sex sinnum ráðist í eða reynt að ráðast í breytingar á málaflokknum. Allar þessar tilraunir hafa misheppnast og hefur þessi óvissa valdið ýmsum ferðamálaaðilum umtalsverðum óþægindum. Sjálfstæðismenn benda á að í samþykkt fyrir samgöngunefnd Reykjavíkur er kveðið á um að nefndin annist ferðamál og sé borgarráði til ráðuneytis um þau. Því hefur verið eðlilegt að samgöngunefnd ynni sjálf tillögur er lúta að svo afgerandi uppstokkun á ferðamálum í borginni og a.m.k. hefði átt að vinna slíkar tillögur undir forræði hennar. Þrátt fyrir að ferðamál hafi heyrt undir samgöngunefnd frá stofnun hennar árið 2000 og formaður hennar búi yfir víðtækri þekkingu og reynslu í þessum málaflokki er nefndinni ekki treyst til að sinna mikilvægri stefnumótun á þessu sviði. Sjálfstæðismenn lýsa yfir vanþóknun á þessum vinnubrögðum. Sjálfstæðismenn lýsa í aðalatriðum yfir stuðningi við þá meginstefnu að samræma þáttöku borgarstofnana í ferðamálum. Samkvæmt fyrirliggjandi tillögum mun það þó ekki takast betur en svo, að það starf sem Höfuðborgarstofu er ætlað að sinna, mun áfram skiptast á milli margra borgarstofnana og verkefni tengd ferðamálum áfram dreifast um kerfið. Þótt Höfuðborgarstofu sé ætlað að sinna mikilvægum málaflokkum, verður ekki séð að stofna þurfi enn eina nefnd til að setja yfir hana. Væri eðlilegra að hafa hina nýju stofnun undir samgöngunefnd sem myndi þá hafa ferðamál borgarinnar áfram undir sinni stjórn.

Fulltrúar R - listans lögðu fram eftirfarandi bókun: Erlendum ferðamönnum til landsins hefur fjölgað um helming á síðustu tíu árum eða í um 320 þús. Stofnanir og fyrirtæki borgarinnar hafa lagt sitt af mörkum til eflingar spennandi borgarlífs, en það er meginuppistaða í gríðarlegri umfjöllun í erlendum fjölmiðlum um Reykjavík. Framlag borgarinnar til afþreyingar og menningarrengdrar ferðaþjónustu skiptir hundruðum milljóna króna. Má þar nefna Reykjavík menningarborg, menningarnótt, ljósahátíð o.fl. Allt þetta hefur verið gríðarleg lyftistöng fyrir ferðaþjónustu, en hins vegar er nauðsynlegt að samþætta aðgerðir sem hafa aukist að umfangi með hverju ári. Rétt er einnig að minna á að framundan er bygging tónlistar- og ráðstefnuhúss, sem er þýðingarmesta aðgerð í þágu ferðaþjónustu til þessa. Framlag Reykjavíkurborgar til þeirra framkvæmdar skiptir þar lykilmáli.

2. Lögð fram drög að umferðaröryggisáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árin 2002 - 2007. Samþykkt að formaður samgöngunefndar, Helgi Pétursson, boði til vinnufundar með Ólafi Bjarnasyni, forstöðumanni Verkfræðistofu RUT, Baldvin E. Baldvinssyni, yfirverkfræðingi á Verkfræðistofu RUT, Stefáni Finnssyni, verkfræðingi á Verkfræðistofu RUT og Kjartani Magnússyni, fulltrúa Sjálfstæðismanna í samgöngunefnd, til að ljúka vinnu við áætlunina. Stefnt er að því að því verði lokið fyrir næsta fund samgöngunefndar þann 13. maí n.k. 3. Lagðar fram að nýju tillögur Vegagerðarinnar um leyfðan hraða og merkingar á hraða, dags. 22.04.2002, sem og erindi Stefáns A. Finnssonar, verkfræðings á Verkfræðistofu RUT, um höfuðborgarsvæðið, dags. 23. apríl 2002.

Suðurlandsvegur um Breiðholtsbraut - gatnamót að breiðholtsbraut. Leyfður hraði 70 km. Lagt til 50 km, enda um hringtorg að ræða.

Gullinbrú frá Stórhöfða að Hallsvegi. Leyfður hraði 60 km. Tillaga 70 km. Samþykkt að leggja til óbreyttan hraða, þ.e. 60 km. Mál nr. 2001030125 4. Lagt fram bréf dags. 21. mars 2002 frá Línuhönnun, (svar við fyrirspurn Sjálfstæðismanna í samgöngunefnd frá 24. september 2001) varðandi gönguljós á Hofsvallagötu við Sólvallagötu. Stefán A. Finnsson, verkfræðingur á Verkfræðistofu RUT kynnti niðurstöður könnunar sem fram koma í bréfi Línuhönnunar. Fulltrúar Sjálfstæðismanna leggja til að sett verði gangbrautarljós á staðnum. Frestað.

5. Lagðar fram að nýju endurskoðaðar reglur um bílastæðakort íbúa, dags. 26. apríl 2002. Samþykkt samljóða.

6. Lagður fram listi Verkfræðistofu yfir ókláruð mál fyrir samgöngunefnd.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 11:00

Helgi Pétursson
Einar Skúlason
Helgi Hjörvar
Kjartan Magnússon
Kristján Guðmundsson.