Umhverfis- og skipulagsráð - og skipulagsráð

Umhverfis- og skipulagsráð

Fundargerð samgöngunefndar

Ár 2003, mánudaginn 17. febrúar kl. 09:00 var haldinn 50. fundur samgöngunefndar Reykjavíkur í Skúlatúni 2, 5. hæð.

Þessir sátu fundinn: Árni Þór Sigurðsson, Gísli Marteinn Baldursson, Haukur Logi Karlsson, Kjartan Magnússon og Steinunn Valdís Óskarsdóttir.

Einnig komu á fundinn: Ásgeir Eiríksson, Baldvin Baldvinsson, Haraldur Sigurðsson, Jörgen Þormóðsson, Ólafur Bjarnason, Ólafur Stefánsson, Sigurður Skarphéðinsson Stefán A. Finnsson, Stefán Haraldsson, Stefán Hermannsson og Þorgrímur Guðmundsson.

Fundarritari var Þórhildur Lilja Ólafsdóttir.

Þetta gerðist: Mál nr. 2002090044 1. Lagt fram bréf borgarstjóra f.h. borgarráðs dags. 28.01.2003, varðandi samþykkt borgarráðs á stöðubanni við Vitastíg. Mál nr. 2002110040 Lagt fram bréf borgarstjóra f.h. borgarráðs dags. 28.01.2003, varðandi samþykkt borgarráðs á stöðubanni við Þingholtsstræti.

Mál nr. 2003020005 2. Erindi frá íbúum í Hvassaleiti 28-30. Lagt fram bréf Elínu H. Kristjánsdóttur ódags. varðandi aðkeyrslu að Hvassaleiti 28-30. Vísað til umsagnar Verkfræðistofu RUT.

3. Mál nr. Hallsvegur. Lagður fram til kynningar dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. E- 11662- 2002.

4. Gjaldskylda í Þingholtum. Lagt fram að nýju.

Gísli Marteinn Baldursson fulltrúi sjálfstæðismanna í samgöngunefnd óskaði bókað; Þrátt fyrir undirbúning sem um margt hefur verið ágætur, eru ýmsir vankantar á meðferð þessa máls. Skal þrennt nefnt: 1. Meirihluti íbúana er á móti gjaldheimtunni skv. könnun Gallup, nema breytingar komi til. Ekki hefur verið kannað hver sé hugur íbúana til annars forms gjaldheimtunnar. Eru þeir sem segjast hlynntir gjaldheimtu með "rýmri reglum um íbúðakort" að meina að þau séu fleiri ódýrari eða ókeypis?. Afar hæpið er að fullyrða að meirihluti íbúana vilji taka upp gjaldheimtu með tveimur íbúðakortum sem kosta 3000 kr. stykkið, útfrá þeim könnunum sem fyrir liggja. 2. Gjaldskylda hefur mikil áhrif á þá sem búa eða eru með verslunarrekstur utan svæðisins sem um ræðir. Ekki hefur verið leitað álits á breytingunum hjá þeim með fullnægjandi hætti. 3. Algerlega óljóst er hver stefna meirihlutans í borgarstjórn er í þessum málum. Á allstaðar að setja upp stöðumæla þar sem skortur er á bílastæðum?. Hvað með aðra staði á Skólavörðuholtinu t.d. í nágrenni Landsspítalans þar sem viðskiptavinir hans leggja bílum sínum fyrir utan íbúðarhús á Mímisvegi og víðar. Er stefnt að því að leysa þann vanda með stöðumælum líka?.

Kjartan Magnússon, fulltrúi sjálfstæðismanna í samgöngunefnd lagði fram eftirfarandi breytingartillögur við tillögur um breytingar á gjaldskyldu í Þingholtunum; 1. Með vísan til mótmæla skólastjóra Kvennaskólans og íbúa Skothúsvegar 15, sem er eina íbúðarhúsið við Skothúsveg , skal undanskilja Skothúsveg frá gjaldskyldu að svo stöddu. 2. Lagt er til að gjaldskylda á svæðinu verði til kl. 15 á virkum dögum og ekki á laugardögum til þess að koma til móts við gesti íbúa. 3. Samkvæmt fyrirliggjandi tillögu er gert ráð fyrir því að stuttur kafli við Bjargarstíg, þ.e.a.s. götukaflinn milli Bergstaðarstrætis og Óðinsgötu, verði áfram utan gjaldskyldusvæðis. Verði tillagan samþykkt í núverandi mynd, yrði götukaflinn eins konar eyja á gjaldskyldusvæði enda yrðu aðliggjandi götukaflar Bjargarstígs, Bergstaðarstrætis og Óðinsgötu gjaldskyldir. Lagt er til að viðhorf íbúa umrædds götukafla til gjaldskyldu þar verði könnuð og ákveðið í ljósi niðurstöðunar hvort hann verði hafður með á gjaldskyldusvæðinu.

Breytingartillaga nr. 1 við tillögu um gjaldskyldu í Þingholtunum samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum Gísli Marteinn Baldursson fulltrúi sjálfstæðismanna sat hjá við atkvæðagreiðsluna.

Breytingartillaga nr. 2 við tillögu um gjaldskyldu í Þingholtunum felld með 3 samhljóða atkvæðum.

Breytingartillaga nr. 3 við tillögu um gjaldskyldu í Þingholtunum samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum, Gísli Marteinn Baldursson fulltrúi sjálfstæðismanna sat hjá við atkvæðagreiðsluna.

Tillaga um gjaldskyldu í Þingholtunum samþykkt svo breytt með 3 samhljóða atkvæðum. Fulltrúar sjálfstæðismanna sátu hjá við afgreiðslu málsins.

Kjartan Magnússon fulltrúi sjálfstæðismanna í samgöngunefnd óskaði bókað: Breytingar á gjaldskyldu í Þingholtunum eiga að vera í þágu íbúa á svæðinu. Helsti ókostur breytinganna fyrir íbúa er sennilega sá að þær torvelda heimsóknir til þeirra á gjaldskyldutíma. Í ljósi þess er rétt að gjaldskyldan sé aðeins til kl.15 á virkum dögum og gildi ekki á laugardögum. Ljóst er að sú breyting gengur ekki gegn heildarmarkmiðum umræddra breytinga

Fulltrúar sjálfstæðismanna í samgöngunefnd lögðu fram eftirfarandi fyrirspurn til fulltrúa R-listans í samgöngunefnd:

1. Hver er pólitísk stefna R-listans í bílastæðamálum miðborgarinnar? 2. Er stefnan sú að það kosti í öll stæði í miðborginni, eða eiga einhver stæði að vera undanskilin gjaldheimtu, og þá hver? 3. Er það stefna R-listans að fækka eða fjölga bílastæðum í miðborginni?

5. Deiliskipulag Stjörnubíósreits. Stefán Haraldsson framkvæmdastjóri Bílastæðasjóðs lagði fram uppdrátt af breytingum á deiliskipulagi Stjörnubíósreits. Samgöngunefnd samþykkir fyrir sitt leyti deiliskipulag Stjörnubíósreits samhljóða en leggur jafnframt áherslu á að framkvæmdum við reitinn verði flýtt eins og kostur er.

6. Mál nr. 2003020045 Lagt fram bréf Ásgeirs Eiríkssonar, framkvæmdastjóra Strætó bs., dags. 12.02.2003, varðandi strætógötu í Arnarbakka. Frestað

7. Kynning á gjaldskrármálum og leiðarkerfisvinnu Ásgeir Eiríksson framkvæmdastjóri Strætó bs., kynnti nýja gjaldskrá Strætó bs., og nýja leiðarkerfisvinnu.

Haukur Logi Karlsson fulltrúi R-listans í samgöngunefnd lagði fram eftirfarandi fyrirspurn til borgarráðs;

Hvernig ber að skilja 8. tölulið 3.gr. samþykktar fyrir samgöngunefnd með tilliti til gjaldskrárbreytingar Strætó bs.

Árni Þór Sigurðsson og Steinunn V. Óskarsdóttir, fulltrúar R-listans í samgöngunefnd óskuðu bókað: Hörmuð eru þau vinnubrögð stjórnar Strætó bs., að hækka gjaldskrá sína án samráðs við samgöngunefnd. Það hvernig á málum var háttað við undirbúning og kynningu gjaldskrárhækkana Strætó bs. sýnir hversu mikilvægt það er að skýra betur tengsl og samstarf Strætó bs. og samgöngunefndar. Skv. samþykkt nefndarinnar fer hún með mótun stefnu á sviði almenningssamgangna.

Haukur Logi Karlsson fulltrúi R-listans í samgöngunefnd óskaði bókað; Hörmuð eru vinnubrögð stjórnar Strætó bs. að hækka gjaldskrá sína án samráðs við samgöngunefnd. Eins harma ég þá ákvörðun að skerða niður akstur næturvagna um 100% samhliða verulegri hækkun á fargjöldum. Þetta er ekki til þess fallið að fjölga farþegum sem þó hlýtur að teljast mikilvægasta verkefni Strætó bs.

Fulltrúar sjálfstæðismanna í samgöngunefnd óskuðu bókað. Fargjaldahækkanir Strætó bs. sem gildi tóku 10. febrúar sl., eru einhverjar mestu fargjaldahækkanir í sögu almenningssamgangna í Reykjavík. Frá síðustu fargjaldahækkun, í júlí 2001, hefur vísitala neysluverðs hækkað um 4,7% en hækkun fargjalda nú er allt að 25%. Mest notaði greiðslumáti Strætó bs., græna kortið, hækkar í verði um 18.4% eða úr 3.800 í 4.500 krónur. Staðgreiðslufargjöld hækka í verði um 10% og almenn afsláttarkort um 11% Afsláttarkort aldraðra hækka um 12.5% og afláttarkort öryrkja um 11%. Þá hækkar gula kortið um 8,7%. Mest áhersla virðist nú lögð á að hækkunin nái til barnafjölskyldna. Staðgreiðslufargjöld barna og ungmenna hækka um 20% og farmiðakort barna um 25%. Frá því að R-listinn tók við stjórn Reykjavíkurborgar, hefur gjaldskrá strætisvagna hækkað langt umfram almennar verðlagsbreytingar en þjónustunni hrakað verulega. Ekki þarf því að koma á óvart að farþegum strætisvagna fækki eins og raun ber vitni. Sjálfstæðismenn átelja þau vinnubrögð að fargjaldahækkanir Strætó bs. skuli ekki vera ræddar á vettvangi samgöngunefndar og borgarráðs áður en þær koma til framkvæmda. Strætó bs. gegnir lykilhlutverki í almenningssamgöngum í borginni. Fyrirtækið veltir tveimur milljörðum króna og greiða reykvískir skattgreiðendur um 67% af tapi fyrirtækisins eða um 835 milljónir á þessu ári. Í ljósi þessa er óeðlilegt að umræður um fjármál fyrirtækisins skuli ekki eiga sér stað meðal kjörinna fulltrúa Reykvíkinga nema að mjög takmörkuðu leyti. Umrædd fargjaldahækkun var t.d. hvorki rædd í samgöngunefnd né borgarráði áður en hún kom til framkvæmda.

8. Mál nr. Lögð fram umsögn Verkfræðistofu Rut dags. 13.02.2003 varðandi erindi Ingibjargar S. Pálmadóttur f.h. 101 hótel ehf., og Sigurðar A. Benediktssonar f.h. íslensku óperunnar. Samgöngunefnd samþykkir skipulag tillögunnar sem slíkt en óskað verður eftir afstöðu og samþykki lögreglunnar í Reykjavík fyrir stöðubanni við Hverfisgötu og Ingólfsstræti. Samþykkt.

9. Mál nr. Gatnamálastjóri kynnti drög af 3ja ára áætlun og lagði fram rit dags. í febrúar 2003 um götur, gönguleiðir og ræktun framkvæmdaáætlunar.

10. Mál nr. Borgarverkfræðingur kynnti möguleika á flýtingu framkvæmda 2003-2004. Lagt fram bréf dags. 16.02.1003 um flýtingu framkvæmda 2003-2004. Einnig lagt fram drög til umræðu dags. 14.02.2003 varðandi tillögur að samgönguáætlun 2003-2006.

11. Mál nr. Sniglarnir fjárveiting. Lagt fram bréf forstöðumanns Verkfræðistofu Rut dags. 17.02.2003, varðandi styrkveitingu til Sniglanna bifhjólasamtaka lýðveldisins Samþykkt samhljóða.

12. Mál nr. Breyting á framkvæmdaráætlun. Gatnamálastjóri kynnti fyrirhugaða breytingu á framkvæmdaáætlun ársins, þannig að hætt verði við framkvæmdir á Skólavörðustíg en hönnun og gerð útboðsgagna lokið með það fyrir augum að ljúka endurbyggingu götunnar í einum áfanga á næsta ári, einnig að Bankastræti verði endurnýjað að Lækjargötu og gatnamót Lækjargötu og Bankastrætis lagfærð, steinlögð og upphituð.

13. Mál nr. Gatnamálastjóri kynnti svör við fyrirspurn Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar borgarfulltrúa Sjálfstæðismanna varðandi saltnotkun í höfuðborginni.

Fleira gerðist ekki og var fundi slitið kl. 11:55.

Árni Þór Sigurðsson
Haukur Logi Karlsson
Steinunn V. Óskarsdóttir
Kjartan Magnússon
Gísli Marteinn Baldursson