No translated content text
Umhverfis- og skipulagsráð
Umhverfis- og samgönguráð
Ár 2011, þriðjudaginn 28. júní kl. 14.00 var haldinn 85. fundur umhverfis- og samgönguráðs í Borgartúni 12-14. Fundinn sátu Karl Sigurðsson, Kristín Soffía Jónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Páll Hjaltason, Hildur Sverrisdóttir, Gísli Marteinn Baldursson og Þorleifur Gunnlaugsson. Enn fremur sátu fundinn Kolbrún Jónatansdóttir, Ellý Katrín Guðmundsdóttir, Örn Sigurðsson, Ólafur Bjarnason, Stefán Finnsson, Guðmundur B. Friðriksson og Þórólfur Jónsson sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Hverfapottar.
Ámundi Brynjólfsson kynnti áætlanir vegna svo kallaðra hverfapotta.
2. Umhverfi Hörpu.
Ámundi Brynjólfsson kynnti stöðu mála.
3. Biðsvæði – kynning á verkefnum.
Hans Heiðar Tryggvason kynnti stöðu svo kallaðra biðsvæðaverkefna (“meanwhile”)
4. Tækifæri til sameiningar bækistöðva Umhverfis- og samgöngusviðs og Framkvæmda- og eignasviðs.
Kynnt niðurstaða starfshóps.
5. Eyjar á Sundunum.
Kynnt fyrirkomulag útleigu og samstarf við Framkvæmda- og eignasvið.
6. Sorpmál.
Lögð fram á ný drög að verklagsreglum dags. 14. júní 2011.
Lagðar fram á ný tillögur um breytt fyrirkomulag 15 metra reglu og um breytingu á gjaldskrá fyrir sorphirðu í Reykjavík.
Ráðið samþykkti verklagsreglur með 4 atkvæðum.
Fulltrúi VG lagði fram eftirfarandi tillögu ásamt greinargerð:
Fulltrúi VG í Umhverfis- og samgönguráði leggur til að tillögum um aukaþjónustugjald í tengslum við svonefnda 15 metra reglu verði frestað á meðan gjaldtaka borgarinnar vegna sorphirðu verður endurskoðuð frá grunni.
Greinargerð:
Það kemur æ betur í ljós að tillögur um fimmtánmetra regluna svonefndu voru ekki nógu vel ígrundaðar. Hætt hefur verið við fyrirhugaðar undanþágur, viðbótagjald var lækkað í samræmi við athugasemdir borgarlögmanns og ætla má að áætlun sviðsins um hagnað af sorphirðunni séu ekki í samræmi við lög og reglur. Ef á annað borð stendur til að leggja á gjald vegna aukins kostnaðar við hirðuna sem tengdur er við fjarlægð frá sorphirðubílum væri nær að endurskoða allt kerfið og miða það við fleiri möguleika en 15 metra. Þegar upp er staðið er það ósanngjarnt að sá aðili sem er með sorpgeymslu í tveggja metra fjarlægð frá sorphirðubíl eigi að borga jafn mikið og sá sem er með geymsluna í 15 metra fjarlægð og að sama skapi og það er ósanngjarnt að sá sem er með sorpgeymslu 16 metra frá sorphirðubíl greiði sama gjald og sá sem er með hana í 100 m fjarlægð. Lagt er til að frestað verði gildistöku á aukaþjónustugjaldi í tengslum við 15 metra á meðan gjaldtaka vegna sorphirðu verði endurskoðuð frá grunni.
Tillagan var felld með 4 atkvæðum gegn 3.
Fulltrúar Sjálfstæðismanna lögðu fram eftirfarandi tillögu:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í umhverfis- og samgönguráði leggja til að horfið verði frá innleiðingu svokallaðrar 15 metra reglu í sorphirðu.
Tillagan var felld með 4 atkvæðum gegn 3.
Lögð fram á ný tillaga um breytt fyrirkomulag 15 metra reglu.
Tillagan var samþykkt með 4 atkvæðum gegn 3.
Lögð fram á ný tillaga um breytingu á gjaldskrá fyrir sorphirðu í Reykjavík.
Tillagan var samþykkt með 4 atkvæðum gegn 3.
Fulltrúi VG lagði fram eftirfarandi bókun:
Það hefði farið vel á því að allir fulltrúar umhverfis- og samgönguráðs hefðu leiðrétt mistök sín varðandi ákvörðun um þjónustugjald vegna sorphirðu og gefið sér tíma til að fara yfir tillögurnar með tilliti til margar réttmætra athugasemda borgarbúa. Það kemur æ betur í ljós að tillögur um hina svokölluðu fimmtán metra reglu voru ekki nægjanlega ígrundaðar. Hætt hefur verið við fyrirhugaðar undanþágur, viðbótargjald var lækkað í samræmi við athugasemdir borgarlögmanns og með tilliti til þeirra athugasemda má ætla að áætlun umhverfis- og samgöngusviðs um hagnað af sorphirðunni, sem sjá má í fjárhagsáætlun yfirstandi árs, séu ekki í samræmi við lög og reglur. Úr því að á annað borð stóð til að leggja á gjald vegna aukins kostnaðar við hirðuna, tengdan við fjarlægð frá sorphirðubílum, hefði verið nær að endurskoða allt kerfið og miða það við fleiri möguleika en 15 metra. Þegar upp er staðið staðið er það ósanngjarnt að sá aðili sem er með sorpgeymslu í tveggja metra fjarlægð frá sorphirðubíl eigi að borga jafn mikið og sá sem er með geymsluna í 15 metra fjarlægð og að sama skapi og það er ósanngjarnt að sá sem er með sorpgeymslu 16 metra frá sorphirðubíl greiði sama gjald og sá sem er með hana í 100 m fjarlægð.
Það eru vonbrigði að meirihluti ráðsins hafi fellt tillögur um frestun á gildistöku á aukaþjónustugjaldi í tengslum við 15 metra á meðan gjaldtaka vegna sorphirðu yrði endurskoðuð frá grunni. Þar með eru málefnalegar athugasemdir hundsaðar og stefnt í áframhaldandi átök um málið. Fulltrúi VG vill enn og aftur minna á meginstefnu VG í úrgangsmálum sem er flokkun, nýting verðmæta, gas og moltugerð og að rekstur sorphirðunnar og úrlausna úrgangsmála verði í öruggum höndum almannafyrirtækis.
Fulltrúar Sjálfstæðismanna lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í umhverfis – og samgönguráði ítreka þá skoðun sína að ekki sé hægt að leggja svokallað 15 metra gjald á borgarbúa miðað við fyrirliggjandi forsendur. Grunnhugsunin á bak við regluna er skiljanleg og jákvætt er að leitað sé leiða til að sorphirða standi undir sér á sanngjarnan hátt. Sanngjarnt er að þeir sem valda auknum kostnaði við sorphirðu hafi val um að annað hvort bregðast við til að lækka þann auka kostnað, eða greiða fyrir hann, í staðinn fyrir að sé sett flöt gjaldheimta á alla borgarbúa. Því miður hefur ekki tekist að tryggja að útfærsla reglunnar uppfylli þau skilyrði sem eru nauðsynleg eru til þess að regla sem þessi sé bæði sanngjörn og standi undir tilgangi sínum. Þrátt fyrir ítrekaðar óskir fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um frestun gildistöku reglunnar til að bæta framkvæmd hennar hefur það ekki tekist og ýmis lykilatriði í framkvæmdinni eru enn í uppnámi, ásamt því að upplýsingagjöf til borgarbúa hefur verið ábótavant. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í umhverfis- og samgönguráði telja því að hverfa eigi frá innleiðingu reglunnar.
Fulltrúar meirihlutans lögðu fram eftirfarandi bókun:
Í dag greiða allir borgarbúar sama sorphirðugjald óháð kostnaði við hirðuna. Tilgangurinn með 15m þjónustunni er að lækka kostnað við sorphirðuna, svo hún standi betur undir sér, en gefa borgarbúum um leið færi á því að njóta slíkrar hagæðingar. Brugðist hefur verið við ábendingum borgarlögmanns með nákvæmari útreikningum sem tryggja að gjaldtaka fyrir þá þjónustu að sækja tunnur lengra en 15m sé í fullu samræmi við þann kostnað sem hlýst af. Fulltrúar Sambest eru stoltir af því að stuðla að minni kostnaði við sorphirðuna. Með innleiðingu 15m þjónustunnar er flestum borgarbúum sem geyma sínar tunnur utan 15m gefið val um að kaupa þá viðbótarþjónustu af borginni að fá tunnuna sótta, færa sorpgerði eða færa tunnurnar á sorphirðudegi.
Fulltrúi VG lagði fram eftirfarandi fyrirspurn:
Í fjárhagsáætlun umhverfis- og samgöngusviðs fyrir yfirstandandi ár kemur fram að gjöld vegna sorphirðu eru áætluð kr. 897.907 milljónir en tekjur kr. 961 893 milljónir. Því er reiknað með að tekjur umfram gjöld verði kr. 63.986 milljónir. Borgarlögmaður hefur úrskurðað að Reykjavíkurborg sé óheimilt að hafa tekjur umfram gjöld af sorphirðu. Því er spurt hvort löglega hafi verið staðið að málum við gerð fjárhagsáætlunar sviðsins hvað þetta varðar ?
7. Reglur um bílastæði fyrir visthæfa bíla.
Lagðar fram til samþykktar tillaga um breytingu á reglum um bílastæði fyrir visthæfa bíla.
Samþykkt með lítilsháttar breytingum á fundinum.
Fulltrúar Sjálfstæðismanna lögðu fram eftirfarandi bókun:
Við fögnum því að áfram skuli haldið með gjaldfrjáls stæði fyrir visthæfa bíla, en slíkt kerfi var tekið í notkun í Grænu skrefunum árið 2007. Mikilvægt er að heimildir fyrir önnur vistvæn ökutæki en bíla verði einnig skilgreindar. Þá skiptir miklu máli að kynning á þessum reglum verði vönduð og að borgarbúar sig átti sig á kostum þess að aka á visthæfum ökutækjum.
8. BSÍ. – breytt leiðakerfi Strætó bs.
Lögð fram drög að umsögn Umhverfis- og samgöngusviðs.
Ráðið samþykkti umsögn Umhverfis- og samgöngusviðs einróma.
Fulltrúar Sjálfstæðismanna lögðu fram eftirfarandi bókun:
Mikilvægast fyrir almenningssamgöngur er að samfella og stöðugleiki sé í kerfinu. Stórar breytingar eru mjög varhugaverðar, eins og sýndi sig því miður þegar grafið var undan almenningssamgöngum með slæmum ákvörðunum og kúvendingum á kerfinu í tíð r-listans. Mikilvægt er að læra af þeim mistökum. Tilfærsla miðstöðvar Strætó frá Hlemmi að BSÍ getur orðið vel heppnuð, en ef borgin gætir ekki að sér getur hún einnig orðið verulega skaðleg. Því miður gefa ákvarðanir núverandi meirihluta borgarstjórnar ekki tilefni til að ætla að almenningssamgöngur séu í nauðsynlegum forgangi. Auk ágætra ábendinga sem koma fram í umsögn umhverfis- og samgöngusviðs er nauðsynlegt að hnykkja á eftirfarandi atriðum:
1. Skiptingum í kerfinu má ekki fjölga, eins og nú virðist stefnt að á leiðum 1, 3 og 6.
2. Ekki verður fallist á að það geti verið meginröksemd fyrir tilfærslunni að strætókerfið gangi betur þá örfáu daga sem miðborgin er lokuð fyrir bílaumferð. Almenningssamgöngur á að skipuleggja útfrá daglegu lífi fólks, en ekki örfáum undantekningatilvikum, þar sem miðbærinn er lokaður bílaumferð. Frekar ætti að leita leiða til að greiða aðgang strætó að miðbænum þótt lokað sé fyrir aðra umferð.
3. Miðborgarstrætó hefur verið reyndur, með misjöfnum árangri. Miklu betri greining á þeirri þörf þarf að fara fram áður en ráðist verður í þær breytingar.
Fulltrúar meirihlutans lögðu fram eftirfarandi bókun:
Með því að flytja skiptistöð Strætó frá Hlemmi að BSÍ getur Strætó í auknum mæli nýtt sér stofnbrautarkerfið í borginni og minnkað akstur um götur í miðborginni. Þeir vagnar sem munu þjóna miðborginni samkvæmt tillögunni eru rafmagnsvagnar sem bæði eru hljóðlausir og lausir við útblástur. Það er mikilvægt að almenningssamgöngur skili farþegum sínum fljótt og vel milli staða því öðruvísi eiga þær erfitt með að keppa við aðra ferðamáta. Í dag er aðkoman að Hlemmi takmörkuð og ekki er hægt að bjóða upp á biðlausar skiptingar milli vagna þar sem allar leiðir komast ekki að stöðinni á sama tíma. Þrátt fyrir að skiptingum muni fjölga þýðir það ekki að ferðatími muni lengjast enda munu vagnar geta nýtt sér afkastameiri götur og skiptingar við BSÍ án þess að farþegar þurfi að bíða eftir næsta vagni. Mikilvægt er að styðja vel við almenningssamgöngur í borginni og gera þær að raunhæfum valkosti og haga leiðakerfinu þannig að kerfið þjóni sem flestum hratt og vel.
9. Reglur um bílastæði sendiráða.
Lagðar fram til samþykktar endurskoðaðar reglur um úthlutun sérmerktra bílastæða fyrir sendiráð.
Ráðið samþykkti reglurnar einróma.
10. Hjólastígar 2011
Lögð fram tillaga um lagningu hjólastíga 2011.
Ráðið samþykkti með 6 samhljóða atkvæðum.
Fulltrúar Sjálfstæðismanna lögðu fram eftirfarandi bókun:
Kúvending virðist hafa orðið á stefnu borgarinnar í uppbyggingu Reykjavíkur sem hjólaborgar, eftir að meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins tók við völdum. Áætlun hans um lagningu 1,6 km af hjólastígum á þessu ári er blaut tuska í andlit þeirra sem hjóla og trúað hafa á uppbyggingu Reykjavíkur sem framúrskarandi hjólaborgar. Fyrir liðlega ári samþykktu allir flokkar í borgarstjórn að árlega skyldi 10 km af hjólastígum bætt við kerfið, næstu 3 árin. Að auki samþykkti öll borgarstjórn í janúar á síðasta ári hjólaáætlunina Hjólaborgin Reykjavík, þar sem gert er ráð fyrir fimmföldun hjólastíga á næstu 5 árum og tíföldun á næstu 10 árum. Gott hefði verið ef Samfylkingin hefði strax þá látið vita að hún ætlaði ekki að fylgja henni eftir. Ávinningur borgarinnar af stórauknum hjólreiðum er öllum ljós, en hann birtist bæði í beinhörðum sparnaði, bættri heilsu borgarbúa og betri borgarmynd. Það gerist hinvegar ekki sjálfkrafa, og stjórnmálamenn þurfa að hafa kraft og þor til að forgangsraða í þágu þess sem mestu skiptir.
11. Einstefna á Haðarstíg.
Lögð fram tillaga Umhverfis- og samgöngusviðs dags. 10. júní 2011.
Afgreiðlsu frestað og sviðinu falið að kynna tillöguna fyrir íbúum.
12. Götutré.
Kynnt staða mála
13. Klambratún
Kynntar teikningar af fyrirhuguðum framkvæmdum.
14. Fjárhagsáætlun 2012 og starfsdagur 16. ágúst n.k.
15. Hundagerði.
Lögð fram tillaga um staðsetningu hundagerðis við Ægissíðu.
Samþykkt að vísa tillögunni til hverfisráðs Vesturbæjar með þeim skilaboðum að til greina komi að. Einnig var samþykkt að fela sviðinu að senda öllum hverfisráðum bréf og þau beðin að meta þörf og/eða óskir um hundagerði í viðkomandi hverfi.
16. Fundadagatal umhverfis- og samgönguráðs 2011.
Fleira gerðist ekki.
Fundi slitið kl. 18.50
Karl Sigurðsson
Kristín Soffía Jónsdóttir Hjálmar Sveinsson
Páll Hjaltason Gísli Marteinn Baldursson
Hildur Sverrisdóttir Þorleifur Gunnlaugsson