Umhverfis- og skipulagsráð - Fundur nr.93

Umhverfis- og skipulagsráð

Umhverfis- og samgönguráð


Ár 2011, föstudaginn 11. nóvember kl. 12.06 var haldinn 93. fundur umhverfis- og samgönguráðs í Arnarholti á þriðju hæð - austur, Borgartúni 12-14 Fundinn sátu Karl Sigurðsson, Kristín Soffía Jónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Margrét Vilhjálmsdóttir, Gísli Marteinn Baldursson, Hildur Sverrisdóttir og Þorleifur Gunnlaugsson. Enn fremur sátu fundinn Ólafur Bjarnason, Eygerður Margrétardóttir, Örn Sigurðsson og Gunnar Hersveinn sem ritaði fundargerð

Þetta gerðist:

1. Samgönguáætlun 2011 -2022.
Lagt fram á ný bréf borgarstjórans í Reykjavík dags. 30 september s.l. ásamt drögum að umsögn um samgönguáætlun.
Ráðið samþykkti einróma svohljóðandi bókun:
Umhverfis- og samgönguráð tekur undir umsögn Umhverfis- og samgöngusviðs, en tekur jafnframt fram, með tilliti til umfangs málsins og hins skamma tíma sem verið hefur til umfjöllunar þess, að það áskilur sér rétt til að koma að frekari athugasemdum síðar.
Fulltrúar Samfylkingar, Sjálfstæðisflokks og Besta flokksins lögðu fram svohljóðandi bókun:
Í grein 1.2 lið e) segir: „Á áætlunartímabilinu verði breytt skipan gjaldtöku fyrir umferð á vegum könnuð. Greindir kostir og gallar þess að í framtíðinni greiði öll ökutæki í samræmi við ekna vegalengd þar sem að tillit verði tekið til ytri kostnaðar jafnhliða því að núverandi kerfi sérstakra eldsneytisskatta verði lagt niður.“
Þessu er ástæða til að fagna þar sem þetta gæti reynst öflugt tæki í umferðarstýringu í Reykjavík líkt og dæmin sanna frá erlendum borgum. Mikilvægt er þó að hagrænn ávinningur þess að nota sparneytna bíla eða umhverfisvæna orkugjafa hverfi ekki.
Í g) lið segir: „Við vinnslu sjálfbærrar samgönguáætlunnar með sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu munu samgönguyfirvöld leggja áherslu á að skipulag landnotkunar stuðli að breyttum ferðavenjum.“
Umhverfis- og samgönguráð tekur heilshugar undir þennan lið, sem fer mjög vel saman við áherslur borgarinnar um þéttingu byggðar. Með því að bjóða fleirum að búa nærri helstu atvinnukjörnum borgarinnar stuðlar borgin að breyttum og umhverfisvænum ferðavenjum.
Í grein 1.3 lið c) segir: „Auk tæknilegra lausna verði með fræðslu, hagrænum hvötum og skipulagsaðgerðum er stuðlað að breyttum ferðavenjum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.“
Markmiðið með breyttum ferðavenjum er alls ekki eingöngu til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Markmiðið er ekki síður að draga úr óæskilegum afleiðingum mikillar bílaumferðar svo sem svifriksmengun, hljóðmengun og öðrum neikvæðum umhverfisáhrifum
Í grein 1.4 lið c) segir: „Skoðaðir verða möguleika á að tekjur af sektargreiðslum standi undir kostnaði við myndavélar og rekstur þeirra.“
Þessu ber að fagna, enda telur umhverfis - og samgönguráð löngu tímabært að eftirlitsmyndavélar séu notaðar í ríkari mæli við umferðastjórnun í borginni.
Í grein 2.1 þarf að taka fram að árið 2016 mun N-S braut Reykjavíkurflugvallar verða lögð niður. Reykjavíkurflugvöllur dettur við það niður í 83#PR nýtingu og það ætti að koma fram, þar sem að Reykjavíkurflugvöllur er talin hluti af grunnnetinu til ársins 2022 skv samgönguáætlun.

Mikilvægt er að í kaflanum um umferðaröryggi sé tekið fram að aðgerðir til að bæta umferðaröryggi sé ekki á þá vegu að ferðatími gangandi og hjólandi aukist eða umhverfisgæði rýrni. Þvert á móti skal hönnun umferðamannvirkja þannig gerð að hún hvetji til gangandi og hjólandi samgangna. Almennt telur umhverfis - og samgönguráð ekki jákvætt að byggja umferðakerfi upp á hraðbrautum sem ómögulegt er fyrir gangandi vegfarendur að komast yfir. Slíkar hraðbrautir á að leggja niður í þéttri byggð og leggja í stað þeirra borgargötur sem gefa kost á mörgum mismunandi samgöngumátum.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi VG í umhverfis- og samgönguráði tekur undir athugasemdir samgöngustjóra. Fagna ber nýrri forgangsröðun í samgönguáætlun sem felst í stuðningi við almenningssamgöngur og hjólreiðar sem hluta af samgöngukerfinu og jafnframt er fagnað nýjum áherslum og ábyrgð á umhverfisþáttum umferðar svo sem hávaða og loftmengun.

2. Áætlun um vernd og orkunýtingu landssvæða.
Lagt fram á ný bréf borgarstjórans í Reykjavik dags. 26. ágúst 2011 ásamt drögum að umsögn um áætlunina.
Fulltrúar Samfylkingar, Besta flokksins og Vinstri grænna samþykktu svohljóðandi bókun:
Umhverfis- og samgönguráð tekur undir umsögn Umhverfis- og samgöngusviðs, en tekur jafnframt fram, með tilliti til umfangs málsins og hins skamma tíma sem verið hefur til umfjöllunar þess, að það áskilur sér rétt til að koma að frekari athugasemdum síðar.
Fulltrúar Samfylkingar og Besta flokksins lögðu fram svohljóðandi bókun:
1) Mikilvægt er að reyna að leita leiða til þess að hægja á framkvæmdum á Hengilsvæðinu. Rannsaka með vísindalegri yfirvegun hvernig auðlindirnar nýtast okkur til langrar framtíðar og gera framkvæmdaáætlanir í samræmi við þarfir samfélagsins. Í því sambandi á að sjálfsögðu að fara um með mikilli gát og af stakri virðingu fyrir náttúru landsins. Við tökum undir skoðanir stjórnenda OR að best væri að taka Hengilsvæðið allt til skoðunar á ný og setja skipulag svæðisins í endurmat.
2) Reykjavíkurborg fagnar því hversu mörg svæði falla í verndarflokk, þar á meðal svæði í grennd við höfuðborgina sem nú þegar eru vinsæl útivistarsvæði eins og Grændalur inn af Hveragerði og Bitra og Brennisteinsfjöll sem er stærsta óbyggða víðerni í nágrenni höfuðborgarsvæðisins.
Við tökum undir þessi orð sviðsins þar sem mikilvægt er að líta á vernd landsvæðis sem fjárfestingu og ný sóknarfæri til handa borgarbúum og nágrönnum.
3) Í skýrslu heilbrigðisnefndar borgarinnar kemur fram að ónógar upplýsingar liggi fyrir um hvernig á að mæla loftgæði og mengun vegna brennisteinsmengunar. Við teljum mikilvægt að því verði komið í lag þar sem brennisteinsmengun ógnar lífsgæðum íbúa í Reykjavík og nágrenni. Það kemur fram að litil eða jafnvel óveruleg gögn hafi legið fyrir um áhrif margra virkjunarframkvæmda t.a.m. varðandi efnasamsetningu jarðhitavökva og loftmengunar sem tengjast jarðvarmavirkjunum.
Við gerum alvarlega athugasemd við slík vinnubrögð og teljum mikilvægt að vinnubrögð séu ætíð vönduð og fagleg og byggð á bestu tækni hverju sinni.
Svo vitnað sé í skýrsluna:
Loftið í Reykjavík skal vera heilnæmt og standast að minnsta kosti þær kröfur sem gerðar eru um loftgæði sem innleiddar eru hérlendis úr tilskipun Evrópusambandsins auk þess sem stöðugt verður unnið að því að bæta loftgæðin í borginni.#GL
4) Tilvitnun í umsögn:
Á vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins renna 4 vatnsmiklir grunnvatnsstraumar Mosfellsheiðarstraumur, Elliðavatnsstraumur, Kaldárstraumur og Kleifarvatnsstraumur. Straumar þessir liggja hlið við hlið og mörk þeirra eru víða óljós. Utan vatnsverndarsvæðisins rennur Selvogsstraumur sem á upptök sín á Hengilssvæðinu eins og Mosfellsheiðarstraumur.#GL
Það er því nauðsynlegt að Reykjavíkurborg beiti sér fyrir rannsóknum á straumum grunnvatns á svæðinu þar sem öll mengun á svæðinu ógnar lífsgæðum borgarbúa og mikilvægt að tekið sé tillit til þessa við áætlanagerð og við framkvæmdir.
5) Tilvitnun í umsögn: #GLNiðurdæling á affallsvatni frá Hellisheiðarvirkjun, við Húsmúla, hefur undanfarið valdið miklum fjölda jarðskjálfta sem náð hafa styrk allt að 3,5 á Richter. Jarðskjálftar geta aukið líkur á að sprungur og vatnsstraumar breytist. Í affallsvatninu er m.a. efna brennisteinsvetni sem er talið óæskilegt að blandist grunnvatni. Brennisteinsvetni eyðist að vísu fljótt úr vatninu en ef því er dælt í langan tíma i miklu magni út í grunnvatnið, getur verið hætta á að grunnvatnið mengist.#GL
Það er mikilvægt að skoða og rannsaka þennan hluta virkjanaframkvæmda til langs tíma.
6) Við tökum undir þau orð umhverfis- og samgöngusviðs að #GLgera hefði átt verndun vatns og vatnsgæða hærra undir höfði en gert er í áætluninni. Þau gæði sem felast í ástandi grunnvatns og neysluvatns á vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins eru ómetanleg auðlind sem ber að verja til framtíðar með öllum tiltækum aðgerðum. Allar framkvæmdir og aðgerðir sem á einhvern hátt geta ógnað gæðum neysluvatns höfuðborgarbúa eru óásættanlegar.#GL
Mikilvægt er að náttúruvernd og nýting verði í þágu íbúa svæðisins.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar D í usr fagna þeirri ágætu vinnu sem unnin hefur verið í Áætlun um vernd og orkunýtingu landssvæða. Umsögn USS hnykkir á mörgum mikilvægum atriðum sem varða umhverfisgæði, heilsu og útivistarsvæði Reykvíkinga sem heilshugar er tekið undir. Í umsögninni kom hinsvegar einnig fram sjónarmið sem fara gegn þeirri stefnumörkun sem aukinn meirihluti stjórnar OR hefur sett fram, um auknar rannsóknir á mikilvægum og viðkvæmum svæðum. Ekki er fallist á að girt sé fyrir slíkar rannsóknir og fulltrúar D lista sitja því hjá við afgreiðslu málsins.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram svohljóðandi bókun:
Í þeirri þingsályktunartillögu um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða sem hér er til umsagnar eru settar fram hugmyndir um það hvernig Íslendingar eigi að nýta fjölmörg náttúrusvæði til framtíðar. Svæðin eru sett í verndar-, bið- og nýtingarflokk eftir hugmyndum sem sérstakur hópur sem Iðnaðarráðuneytið kom á laggirnar aðhylltist. Þrátt fyrir það að mikil og góð vinna liggi til grundvallar þessari flokkun og mörgu beri að fagna verður að benda á að þar orkar margt tvímælis. Í upphafi skal bent á að hagsmunir orkunýtingar eru forsenda Rammaáætlunar eins og sést á því að svæði eru ekki tekin til mats nema fram hafi komið hugmyndir um að nýta þau til orkuvinnslu. Gögn orkufyrirtækja eru oft mikil að vöxtum meðan alvarlegur gagnaskortur er á öðrum sviðum. Því er hætta á að hagsmunir orkufyrirtækja vegi þyngra en annarra við flokkun virkjunarhugmynda. Því ber að fagna hvað mörg svæði teljist þjóðinni verðmætari ef þau eru vernduð en ekki virkjuð. Hins vegar verður að gagnrýna harðlega hvað mörg svæði eru sett beint í nýtingarflokk þó veigamiklar upplýsingar og forsendur skortir fyrir mati á þeim, þvert ofan í það sem segir að gera eigi, þegar upplýsingar skortir. Það skýtur skökku við að flokkunarhópurinn skuli með þessum hætti skilgreina að ýmsar grundvallarforsendur séu svo léttvægar að engu skipti þó þær liggi ekki til grundvallar endanlegri flokkun. Framtíðarhagsmunir borgarbúa eru illa varðir ef þetta verður niðurstaða Alþingis. Sem dæmi um málaflokka þar sem miklar upplýsingar skortir má nefna eftirfarandi:
Samfélagsáhrif. Mjög litlar upplýsingar liggja fyrir um hvaða áhrif virkjun hefur á samfélagið, bæði nærsamfélag og þjóðfélagið í heild. Ekkert er sérstaklega fjallað um heimamanninn og hvaða áhrif virkjun hefur á hann. Ekki er reynt að meta hag hans af virkjunum né þann skaða sem einstaklingurinn og samfélagið sem hann býr í verður fyrir. Ekkert er fjallað um skert tækifæri, neikvæða upplifun, klofning og átök í samfélagi þegar stórfelld nýting raskar hefðbundinni nýtingu og lífstíl. Ekki er fjallað um skert loftgæði, skerta ímynd og tilfinningar sem er misboðið. Engar rannsóknir voru gerðar til að glöggva sig á þessum málum og lítið var gert til að sækja fróðleik til að styðjast við, jafnvel þó hann lægi fyrir, t.d. í nýlegum doktorsritgerðum. Með því að líta framhjá áhrifum virkjana á samfélagið og rannsaka ekki mögulegar breytingar sem þeim fylgja er gengið á svig við forsendur sjálfbærrar þróunar.
Náttúruvernd sem landnýting. Enginn faghópur fjallaði um náttúruvernd sem slíka. Þar með var lítið komið inn á mikilvægi þess fyrir íbúa landsins að eiga greiðan aðgang að óröskuðu svæði til upplifunar og heilsubótar.
Sjálfbær nýting. Ekki er hægt að fallast á niðurstöður hóps jarðvísindamanna um hvað flokkist sjálfbær nýting jarðhita. Forsendum sem beitt er í skýrslu hópsins var mótmælt í verkefnisstjórninni og sérstök skýrsla skrifuð til að mótmæla ýmsu sem þar er sett fram.
Hagsmunir annarra sem not geta haft af sömu auðlind. Enginn faghópur gerði tilraun til að meta hvort önnur not af svæði en virkjun gæfi þjóðinni meiri arð til lengri eða skemmri tíma.
Ferðamennska og útivist. Gríðarmiklar upplýsingar skortir um ferðamennsku og ferðaþjónustu og hvernig þessi fyrirbæri nýta svæði eða geta nýtt þau. Þetta gildir ekki síst um náttúrusvæði í nágrenni höfuðborgarinnar þar sem óröskuðu svæði minnka jafnt og þétt. Aðferðafræði Rammaáætlunar náði ekki að meta þessa hagmuni að neinu leyti og gagnaskorturinn um þessa þættir er hrópandi. Aðferðafræði faghóps 2 mismunaði röskuðum svæðum nálægt byggð þannig að þau voru vanmetin miðað við óröskuð hálendissvæði. Hér er margháttuðum hagsmunum borgarbúa og fyrirtækja í borginni illa sinnt og þarfir þeirra fyrir borð bornar.
Útivist. Upplýsingar um útivist heimamanna skortir að mestu, jafnt umfang, fjölda, hagræn áhrif ofl. Þetta er sérstaklega bagalegt hér í nágrenni mesta þéttbýlisins þar sem framboð á góðum útivistarsvæðum er hvað mikilvægast.
Ímyndir. Ekkert er fjallað um ímynd svæða og hvernig hún breytist þegar óspilltu svæði er breytt í raskað. Ekkert er reynt að meta hvernig ímynd Reykjavíkur kann að breytast verði ýmsum útivistarsvæðum nálægt borgarinni breytt í orkuvinnslusvæði.
Landslag. Ekkert liggur fyrir um gildi landslags fyrir fólk. Til er flokkun á eðlisrænum þáttum en ekkert er fjallað um upplifunargildi, tilfinningagildi eða fagurfræðilegt gildi landslags sem eru þó þeir þættir sem hvað mestu skipta varðandi það hvernig við metum land og skilgreinum það í hugum okkar. Þrátt fyrir mikla gagnrýni innan verkefnisstjórnar var því haldið til streitu að fara ekki í rannsókn á huglægum þáttum varðandi nýtingu og mat almennings á landslagi, þrátt fyrir mikilvægi þeirra í sambandi við það hvernig landslag virkar á fólk. Þar með skortir eina af stærri forsendum þess að hægt sé að meta svæði til mikilvægis og verðs.

Fulltrúi VG telur að ekki sé hægt að sætta sig við niðurstöður sem verða bindandi um framtíðarnot stórra landsvæða og munu hafa varanleg áhrif á ímynd og þróun landsins, auðlindanýtingar og upplifun fólks meðan grundvöllur ákvarðanatökunnar er jafn veikur og raun ber vitni. Reykjavíkurborg ber því að gera skýlausu kröfu um að öll þau svæði sem sett eru í nýtingarflokk og ekki er víðtæk samstaða um að á þeim megi virkja verði flutt í biðflokk þannig að tóm gefist til að bæta þekkingargloppurnar áður en framtíðarnýting þessara svæða er endanlega ákveðin.

Fundi slitið kl. 12.35

Karl Sigurðsson
Kristín Soffía Jónsdóttir Hjálmar Sveinsson
Margrét Vilhjálmsdóttir Gísli Marteinn Baldursson
Hildur Sverrisdóttir Þorleifur Gunnlaugsson.