Umhverfis- og skipulagsráð - Fundur nr. 367

Umhverfis- og skipulagsráð

Ár 2026, miðvikudaginn 21. janúar, kl. 9:00 var haldinn 367. fundur umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Líf Magneudóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Andrea Jóhanna Helgadóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Magnús Davíð Norðdahl og áheyrnarfulltrúinn Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir. Eftirtalinn fulltrúi tók sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild: Hildur Björnsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Brynjar Þór Jónasson, Hjördís Sóley Sigurðardóttir, Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, Inga Rún Sigurðardóttir, Sunna Stefánsdóttir og Sigurjóna Guðnadóttir.
Fundarritari var Glóey Helgudóttur Finnsdóttir.
 

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf frá fundi borgarstjórnar dags. 15. janúar 2026 þar sem tilkynnist að Magnús Davíð Norðdahl taki sæti í umhverfis- og skipulagsráði í stað Alexöndru Briem og að Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns taki sæti sem varafulltrúi í ráðinu stað Söru Bjargar Sigurðardóttur. MSS22060046

    Fylgigögn

  2. Fram fer kynning á umferðargreiningu sem gerðar hafa verið í tengslum við Suðurlandsbraut - Borgarlínu.

    -    Kl. 9:03 tekur Kjartan Magnússon sæti á fundinum.
    -    Kl. 9:15 aftengist Hildur Björnsdóttir með rafrænum hætti og tekur sæti á fundinum.

    Ólöf Kristjánsdóttir, Hildur Inga Rós Guðmundsdóttir, Þorsteinn Rúnar Hermannsson, Bjarni Rúnar Ingvarsson, Ólöf Söebech og Lilja Guðríður Karlsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. USK22030185

    Lögð fram svohljóðandi bókun fulltrúa Framsóknarflokksins:

    Framsókn þakkar fyrir ágæta kynningu á umferðargreiningu í Reykjavík með tilkomu Borgarlínu um Suðurlandsbraut. Fulltrúi Framsóknar hefur efasemdir um að niðurstöður greiningarinnar endurspegli þann raunveruleika sem mun líta dagsins ljós þegar og ef núverandi tillaga um breytingu á Suðurlandsbraut verður að veruleika. Stór óvissuþáttur er að sjálfsögðu, hversu mikil notkun verður á Borgarlínunni. Framsókn telur nauðsynlegt að tillaga um breytingu Suðurlandsbrautar verði endurskoðuð með tillit til fjölda akreina akandi umferðar og þeim haldið óbreytt miðað við núverandi skipulag. Það er alltaf hægt að fækka akreinum þegar liggur fyrir hver ávinningur Borgarlínu um Suðurlandsbraut er.
     

    Fylgigögn

  3. Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar skipulagsfulltrúa dags. 13. janúar 2026. USK22120094
     

    Fylgigögn

  4. Lögð fram umsókn Freys Frostasonar, dags. 4. júlí 2024, um breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar vegna lóðarinnar nr. 8-14 við Austurstræti. Í breytingunni sem lögð er til felst m.a. breytt notkun þannig að leyfðar verði íbúðir á efri hæðum þar sem áður voru skrifstofur, ásamt því að áfram verði heimilt að hafa skrifstofur og/eða veitingarými á efri hæðum eftir atvikum. Einnig verði heimilt að breyta útliti húsanna og setja svalir svo húsnæði uppfylli skilyrði fyrir íbúðir og skyggni yfir útisvæði veitingastaða að Austurvelli. Heimilt verði að breyta núverandi kvistum ásamt því að bæta við kvistum á húsin nr. 12 og 12A, samkvæmt uppdr. THG arkitekta, dags. 19. desember 2025. Einnig er lagt fram minnisblað Myrru hljóðstofu, dags. 31. október 2024, umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 11. júlí 2024 og umsögn Minjastofnunar Íslands, dags. 17. desember 2025.
    Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
    Vísað til borgarráðs. USK24070045
     

    Fylgigögn

  5. Fram fer kynning á áætluðum framkvæmdum vegna haftengdrar upplifunar.

    Rebekka Guðmundsdóttir tekur sæti á fundinum undur þessum lið. USK25120141

    Lögð fram svohljóðandi bókun fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna:

    Fulltrúum samstarfsflokkanna líst afar vel á kynntar tillögur um að auka haftengda upplifun í Reykjavík. Fulltrúarnir vilja draga sérstaklega fram að Eiðsvík og Gorvík eru á mörkum friðlandsins Blikastaðakróar - Leiruvogs og því þurfi að stíga mjög varlega til jarðar í framkvæmdum eða leyfisveitingum þar.

    Lögð fram svohljóðandi bókun fulltrúa Framsóknarflokksins:

    Fulltrúi Framsóknar þakkar fyrir afar góða og skemmtilega tillögu um haftengda upplifun. Fulltrúi Framsóknar vill árétta að tillaga um gufubryggju í Bryggjuhverfi þarf að huga vel að þar sem auðvelt er að sjá fyrir sér að rekstur þeirra gufuaðstöðu geti lent í höndum borgarinnar ef rekstur einkaaðila gengur ekki upp.

    Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Viðreisnar:

    Borgarfulltrúi Viðreisnar fagnar að áfram sé horft til möguleika við að bæta borgarupplifun með haftengdri upplifun. Frábært ef hægt er að styðja við þá aðila hvort sem er félög eða fyrirtæki sem vilja auka lífsgleði og gæði borgarbúa með fjölbreyttri þjónustu með virkum hætti. Vinnan sem unnin í þessu verkefni er til fyrirmyndar og vonast fulltrúinn eftir að þetta frábæra verkefni fái að lifa áfram innan kerfisins.
     

    Fylgigögn

  6. Lögð fram svohljóðandi tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgangna og borgarhönnunar, dags. 15. janúar 2026 þar sem lagt er til að umhverfis- og skipulagsráð samþykki tillögu að stækkun á gjaldsvæðum bílastæða Reykjavíkurborgar á gjaldsvæði 2 að Skólavörðuholti, bílaplan við hús Tækniskólans og Hallgrímskirkju.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:

    Lagt er til að fyrirliggjandi tillaga um gjaldskyldu bifreiðastæða við hús Tækniskólans og Hallgrímskirkju verði kynnt fyrir skólaráði og Nemendasambandi skólans, sem og sóknarnefnd kirkjunnar. Verði þessum aðilum gefinn kostur á að veita formlega umsögn um málið áður en tillagan verður afgreidd.

    Tillögunni er vísað frá með 4 atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins greiða atkvæði gegn frávísun breytingartillögunnar.
    Upphafleg tillaga samþykkt með 4 atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiða atkvæði gegn tillögunni. Fulltrúi Framsóknarflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins. USK24040128
     

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf Strætó bs. um Stjörnugróf og Fossvogsbrún dags. 8. sept. 2025 þar sem óskað er eftir því að Reykjavíkurborg og Kópavogur hefji undirbúning að byggingu strætóvegar milli Stjörnugrófar og Fossvogsbrúnar, ásamt fylgigögnum. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu samgangna og borgarhönnunar, dags. 5. janúar 2026. USK23020272

    Lögð fram svohljóðandi bókun fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna:

    Tillaga Strætó bs. er í samræmi við fyrri samþykktir ráðsins og er góð fyrir þróun og þjónustu almenningssamgangna. Hún myndi létta mjög á umferðartöfum á Reykjanesbraut við gatnamót Bústaðavegar þar sem þverandi umferð heftir umferð í suður á háannatíma. Mikilvægt að skoða málið vel og vinna það áfram í samráði við viðeigandi hagaðila og fela umhverfis- og skipulagssviði að skoða málið nánar með Strætó bs. og Kópavogsbæ og viðeigandi hagaðilum.
     

    Fylgigögn

  8. Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa dags. 13. janúar 2026. USK24070166
     

    Fylgigögn

  9. Lagt fram afgreiðslubréf borgarráðs, dags. 9. janúar 2026, vegna samþykktar borgarráðs frá 8. janúar 2026 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi á lóð Lýsis við Grandaveg vegna lóðarinnar nr. 9 við Boðagranda. USK25110303
     

    Fylgigögn

  10. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um Brekknaás, Vatnsveituveg og Selásbraut, sbr. 28. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs dags. 14. janúar 2026.
    Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu borgarlandsins. USK26010207
     

    Fylgigögn

  11. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um Kleppsmýrarveg, sbr. 29. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs dags. 14. janúar 2026.
    Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu borgarlandsins. USK26010208
     

    Fylgigögn

  12. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um bílastæði í Gufunesi, sbr. 27. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs dags. 14. janúar 2026.
    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgangna og borgarhönnunar. USK26010206
     

    Fylgigögn

  13. Að lokinni auglýsingu er lögð fram aðalskipulagsbreyting að Laugardal, breyttri landnotkun - Skilgreining samfélagsþjónustu við Reykjaveg dags. janúar 2025.
    Samþykkt sbr. 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiða atkvæði gegn tillögunni.
    Vísað til borgarráðs.

    Margrét Lára Baldursdóttir, Ágúst Skorri Sigurðsson og Haraldur Sigurðsson taka sæti á fundinum undir þessum lið. USK25030005
     

    Fylgigögn

  14. Að lokinni auglýsingu er lagt fram að nýju tillaga skóla- og frístundasviðs að breytingu á deiliskipulagi Laugardals vegna skólaþorps við Reykjaveg. Í breytingunni sem lögð er til felst að áður skilgreind lóð fyrir Ævintýraborg, tímabundið leikskólaúrræði Reykjavíkurborgar, er breytt í lóð fyrir skólaþorp, tímabundið grunnskólaúrræði Reykjavíkurborgar. Auk þess er lóðin stækkuð út fyrir mörk núverandi bílastæða og yfir aðliggjandi stíg, byggingarheimildir auknar og umferðarfyrirkomulagi breytt á bílastæðum milli Reykjavegar og Laugardalsvallar ásamt því að syðri innkeyrslu á stæðin frá Reykjavegi verður lokað, samkvæmt uppdr. Landslags, dags. 23. janúar 2025, br. 6. janúar 2026. Einnig er lagt fram samgöngumat VSB verkfræðistofu, dags. 10. janúar 2025. Tillagan var auglýst frá 18. september 2025 til og með 30. október 2025. Athugasemdir og ábendingar bárust. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 13. janúar 2026.
    Samþykkt sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með þeim breytingum sem koma fram í umsögn skipulagsfulltrúa dags. 13. janúar 2026. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiða atkvæði gegn tillögunni.
    Vísað til borgarráðs.

    Margrét Lára Baldursdóttir, Ágúst Skorri Sigurðsson og Haraldur Sigurðsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    -    Kl. 10:58 víkur Hjördís Sóley Sigurðardóttir af fundi. USK24100252

    Lögð fram svohljóðandi bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Ráðast þarf í viðgerðir og endurbætur á grunnskólunum í Laugardal: Langholtsskóla, Laugalækjarskóla og Laugarnesskóla. Vel ætti að vera unnt að ráðast í þær framkvæmdir í umræddum skólum án svo mikillar röskunar á skólastarfi, sem fyrirliggjandi tillaga felur í sér, t.d. með notkun færanlegra skólastofa. Var sá kostur talinn vera vel raunhæfur árið 2022 þegar samkomulag náðist milli borgarinnar og foreldrafélaga skólanna um lausn á húsnæðisvanda þeirra samkvæmt svonefndri sviðsmynd 1. Nú hefur meirihluti borgarstjórnar hins vegar rofið það samkomulag og hyggst fara aðra leið, sem mætt hefur mikilli andstöðu meðal foreldra og annarra íbúa í Laugardal. Taka fulltrúarnir undir áhyggjur foreldra af öryggi barna þeirra á leið til skóla og mikilvægt að borgaryfirvöld tryggi öruggar göngutengingar fyrir skólabörn. Jafnframt er ljóst að enn frekari fækkun bílastæða við Laugardalsvöll getur leitt til þess að vallargestir og hallargestir leggi bifreiðum sínum í ríkari mæli en þegar er raunin í nálægu íbúahverfi. Þá er ekki ljóst hvernig aðgengi fatlaðra og hreyfihamlaðra að Laugardalsvelli verður tryggt miðað við fyrirliggjandi tillögu.

    Lögð fram svohljóðandi bókun fulltrúa Framsóknarflokksins:

    Framsókn samþykkir breytingu á deiliskipulagi vegna skólaþorps við Reykjaveg. Um leið vill fulltrúi Framsókn árétta mikilvægi þess að með þeim breytingu sem verið er að ráðast í, þá verði öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda og þá sérstaklega öryggi barna tryggt.
     

    Fylgigögn

  15. Fram fer kynning á gatnalýsingu og lýsingu í borgarlandi, rekstri og viðhaldi.

    Hjalti Jóhannes Guðmundsson og Kristján Hallvarðsson taka sæti á fundinum undir þessum lið. USK26010235

    -    Kl. 11:31 víkur Hjálmar Sveinsson af fundi.


    Lögð fram svohljóðandi bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Þakkað er fyrir kynningu á fyrirkomulagi gatnalýsingar í Reykjavík. Gatnalýsingu hefur verið ábótavant í mörgum hverfum borgarinnar undanfarna vetur vegna tíðra bilana og ónógs viðhalds. Mörg dæmi eru um að ljósastaurar hafi verið óvirkir vikum, mánuðum og jafnvel árum saman, sem veldur óþægindum og jafnvel hættu. Skýringar hafa nú verið gefnar á því af hverju þetta ástand hefur skapast, greint frá umbótastarfi sem stendur yfir í þessum efnum og eru starfsmenn Reykjavíkurborgar hvattir til dáða í þeirri vinnu. Áður fyrr skilaði reglubundin bilanaleit Reykjavíkurborgar með gatnalýsingu góðum árangri og er því ekki fallist á þá skoðun að sú aðferð sé óskilvirk. LED-væðing gatnalýsingar felur í sér mikinn ávinning og verulegan rekstrarhagnað, sem ber að fagna. Ekki má þó slá slöku við varðandi rekstur og viðhald þeirra götulampa, sem byggjast á eldri tækni enda gegna þeir enn mikilvægu hlutverki í borginni. Ótrúlegt er að heyra að ekki sé brugðist við og skipt um perur vegna kostnaðar í stökum, óvirkum götulömpum. Slík vinnubrögð eru algerlega óviðunandi en skýrir vissulega af hverju margir götulampar í borginni hafa verið óvirkir vikum, mánuðum og jafnvel árum saman. Standa verður mun betur að viðhaldi gatnalýsingar en nú er gert og sýna alvöru metnað á því sviði. Þrátt fyrir bága stöðu borgarsjóðs hlýtur borgin að hafa efni á því að viðhalda gatnalýsingu með sómasamlegum hætti.

    -    Kl. 11:33 víkur Magnús Davíð Norðdahl af fundi.
     

Fundi slitið kl. 11:42

Líf Magneudóttir Aðalsteinn Haukur Sverrisson

Andrea Helgadóttir Hildur Björnsdóttir

Kjartan Magnússon

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 21. janúar 2026