Umhverfis- og skipulagsráð - Fundur nr. 364

Umhverfis- og skipulagsráð - Fundur nr. 364

Umhverfis- og skipulagsráð

Ár 2025, miðvikudaginn 10. desember, kl. 9:01 var haldinn 364. fundur umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Líf Magneudóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Andrea Jóhanna Helgadóttir, Hjálmar Sveinsson, og áheyrnarfulltrúinn Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Brynjar Þór Jónasson, Hjördís Sóley Sigurðardóttir, Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, Inga Rún Sigurðardóttir, Sigurjóna Guðnadóttir og Hólmfríður Frostadóttir
Fundarritari var Jóhanna Kristrún Birgisdóttir.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram fundardagatal umhverfis- og skipulagsráðs frá janúar til maí 2026. USK23030154

    Fylgigögn

  2. Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar skipulagsfulltrúa, dags. 2. desember 2025.

    -    Kl. 09:03 tekur Hildur Björnsdóttir sæti á fundinum
    -    Kl. 09:04 tekur Alexandra Briem sæti á fundinum
    -    Kl. 09:04 tekur Kjartan Magnússon sæti á fundinum USK22120094

    Fylgigögn

  3. Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa, dags. 2. desember 2025. USK24070166

    Fylgigögn

  4. Að lokinni grenndarkynningu er lagt fram erindi frá afgreiðslufundi byggingarfulltrúa frá 18. mars 2025 þar sem sótt er um leyfi fyrir áður gerðum stoðvegg á lóðarmörkum að lóð nr. 59, pergólu og steyptum heitum potti á steyptri verönd við einbýlishús á lóð nr. 63 við Laugarásveg. Erindið var grenndarkynnt frá 29. júlí 2025 til og með 27. ágúst 2025. Athugasemdir bárust. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 2. desember 2025.
    Samþykkt með þeim breytingum sem koma fram í umsögn skipulagsfulltrúa dags. 2. desember 2025, með vísan til a. liðar 1. gr. í viðauka 1.1 um fullnaðarafgreiðslur umhverfis- og skipulagsráðs án staðfestingar borgarráðs.

    -    Kl. 09:09 tekur Guðmundur Benedikt Friðriksson sæti á fundinum. USK24090041

    Fylgigögn

  5. Fram fer kynning á tillögum úr samráðsgátt vegna uppfærslu á verklagsreglum vegna starfsemi stöðvalausra hjóla- og smáfaratækjaleiga á borgarlandi Reykjavíkur.

    Magnús Ársælsson  tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    -    Kl. 09:16 tekur Einar Sveinbjörn Guðmundsson sæti á fundinum. USK21120013

    Fylgigögn

  6. Lögð fram skipulagslýsing umhverfis- og skipulagssviðs, dags. í desember 2025, fyrir nýtt deiliskipulag Lambhagalands við Vesturlandsveg. Deiliskipulagssvæðið, Lambhagareitur, er staðsett austan við Vesturlandsveg. Með nýju deiliskipulagi verður afmörkun deiliskipulags samsíða Úlfarsá endurskoðuð. Sérstaða svæðisins skal varðveitast sem mest í borgarmyndinni, góð ræktunarskilyrði eru á svæðinu og rík hefð hefur verið fyrir ræktun og skal það endurspegla hugmyndafræðina að breyttu deiliskipulagi.
    Samþykkt er að kynna lýsingu nýs deiliskipulags í samræmi við 1. og 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Leita skal umsagna um lýsinguna hjá Skipulagsstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Veitum, Minjastofnun, Skrifstofur og svið Reykjavíkurborgar: Skrifstofa framkvæmda og viðhalds, Skrifstofa reksturs og umhirðu, Skrifstofa umhverfisgæða, Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, Skóla- og frístundasvið, velferðasvið, íbúasamtökum Grafarholts og Úlfarsárdal  og kynna hana fyrir almenningi.

    Valný Aðalsteinsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK25120007

    Fylgigögn

  7. Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um kostnað við Brákarborg, sbr. 18. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs dags. 15. október 2025. Einnig er lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds, dags. 20. nóvember 2025. USK25100235

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Heildarkostnaður við endurbyggingu leikskólans Brákarborgar við Kleppsveg er kominn í 3.202 milljónir króna. Kostnaðurinn á enn eftir að hækka þar sem framkvæmdir standa enn yfir við leikskólann en áætlað er að þeim ljúki ekki fyrr en í mars nk. Ljóst er að endurbyggingin er eitt mesta klúður í byggingarsögu Reykjavíkurborgar. Vonandi tekst að ljúka framkvæmdum við Brákarborg án mikils viðbótarkostnaðar og gera leikskólann vel úr garði. Þó verður að spyrja að leikslokum í þeim efnum. Ljóst er að verkefnið er víti til varnaðar fyrir borgarkerfið en ekki síður borgarstjórn. Upplýst hefur verið að á verktíma voru stjórnendur hjá borginni undir miklum pólitískum þrýstingi að ljúka framkvæmdum með hraði, sem kom niður á gæðum verksins. Ljóst er að sá þrýstingur hefur kostað reykvíska skattgreiðendur gífurlegt fé.

    Fulltrúar Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Ljóst er að framkvæmdir við endurbyggingu Brákarborgar hafa farið verulega úr skorðum. Heildarkostnaður nemur nú um 3,2 milljörðum króna, þar af um 500 milljónir vegna lagfæringa sem rekja má beint til mistaka í burðarþolshönnun.  Kostnaðurinn heldur áfram að hækka og óvissa ríkir enn um endanlegt umfang verkefnisins. Borgaryfirvöld verða að draga lærdóm á þessu verkefni. Hér var farið af stað í tíð vinstri meirihlutans 2018 -2022 með einskonar tilraunaverkefni í hönnun byggingar. Virðingarleysi gagnvart skattpeningum borgarbúa er sláandi og ljóst er að þetta má ekki endurtaka sig.

    Fylgigögn

  8. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um Lokinhamra, sbr. 18. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs dags 3. desember 2025.
    Vísað inn í vinnu við gerð umferðaröryggisáætlunar USK25120046

    Fylgigögn

  9. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um Gufunesbryggju, sbr. 17. liður fundar umhverfis- og skipulagsráðs dags. 3. desember 2025.
    Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu eignastýringar. 
    USK25120045

    Fylgigögn

  10. Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að nýju deiliskipulagi fyrir göturými Suðurlandsbrautar frá gatnamótum við Skeiðarvog og til vesturs að gatnamótum við Lágmúla. Tillagan er hluti af 1. lotu Borgarlínu og er í samræmi við markmið og stefnu landsskipulagsstefnu, svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins 2040, Aðalskipulag Reykjavíkur 2040 og rammahluta Aðalskipulags Reykjavíkur 2040 - Fyrsta lota Borgarlínu: Ártún - Fossvogsbrú. Samkvæmt tillögunni fer Borgarlínan um Suðurlandsbraut á tveimur miðjusettum sérakreinum (almenningssamgangna) og er gert ráð fyrir göngu- og hjólastígum beggja vegna göturýmisins og gróðri á svæðum inn á milli. Þrjár Borgarlínustöðvar verða á svæðinu við Glæsibæ, Laugardalshöll og Lágmúla, samkvæmt uppdráttum Yrki arkitekta, dags. 27. nóvember 2025, og greinargerð Yrki arkitekta, dags. 28. nóvember 2025.
    Samþykkt með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Pírata, Vinstri grænna og Sósíalistaflokks Íslands að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins greiða atkvæði gegn tillögunni.
    Vísað til borgarráðs.

    Þórður Már Sigfússon og Hildur Inga Rós Guðmundsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. USK24090201

    Fulltrúar Samfylkingu, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Við fögnum tillögu að deiliskipulagi göturýmis Suðurlandsbrautar sem verður nú sett í auglýsingu. Nýjar verklagsreglur eiga að tryggja að íbúar á svæðinu verði vel upplýstir um hana. Tillagan er hluti af 1. lotu Borgarlínu og er í samræmi við svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins og Aðalskipulag Reykjavíkur 2040. Tillagan er einnig í samræmi við þá yfirlýst stefnu borgarinnar að efla vistvæna og virka samgöngumáta.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks greiða atkvæði gegn fyrirliggjandi deiliskipulagi við Suðurlandsbraut þar sem gert er ráð fyrir því að teknar verði tvær akreinar af almennri umferð undir sérakreinar Borgarlínu. Fulltrúarnir telja mikilvægt að fjölga sérakreinum fyrir almenningssamgöngur í Reykjavík en telja það vel mega útfæra án þess að þrengja að almennri umferð, einn fararmáti þurfi ekki að vega að öðrum. Fulltrúarnir lýsa jafnframt andstöðu við þau áform að fjarlægja um 70% bílastæða af svæðinu en á Suðurlandsbraut starfar fjöldi fyrirtækja og fjöldi borgarbúa sækir þangað verslun og þjónustu. Mikilvægt er að tryggja gott aðgengi að rekstri á svæðinu enda geta afleiðingar fyrirliggjandi deiliskipulags verið alvarlegar fyrir fyrirtækin á Suðurlandsbraut. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja rétt að endurhugsa deiliskipulagið frá grunni, með það fyrir augum að koma sérakreinum fyrir á jaðri akbrauta, án þess að þrengt sé að stofnbrautum og fjölda bílastæða á svæðinu.

    Fulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Framsókn hafnar þessari útfærslu á legu Borgarlínunnar um Suðurlandsbraut. Um er að ræða alvarlega aðför að þjónustu- og verslunarrekstri á svæðinu, þar sem fjölmörg fyrirtæki hafa starfað og byggt upp starfsemi sína í áratugi. Nú þegar er mikill skortur á bílastæðum á svæðinu. Þessi tillaga er reist á óraunsærri sýn á samgöngumál og mikilvægi Suðurlandsbrautar sem einnar af lykilumferðaræðum borgarinnar. Fyrirliggjandi hugmyndir taka hvorki mið af nauðsynlegu aðgengi né viðkvæmum rekstraraðstæðum þessara fyrirtækja þar sem fækkun bílastæða er veruleg, og horfa fram hjá þeim samfélagslegu og efnahagslegu áhrifum sem slík truflun hefði í för með sér. Framsókn greiðir atkvæði gegn tillögunni og óskar þess að ný útfærsla sé unnin enda styður Framsókn samgöngusáttmálann og verkefni hans.

    Fylgigögn

  11. Fram fer tilnefning umhverfis- og skipulagsráðs í valnefnd um námsstyrk Ellýjar Katrínar, sem starfsmaður fyrir hönd valnefndarinnar.
    Samþykkt að Orri Páll Jóhannsson verði tilnefndur í valnefndina. USK24090178

    Fylgigögn

  12. Fram fer umræða um framkvæmdir og viðhald í borgarlandinu.

    Guðni Guðmundsson og Rúnar Gísli Valdimarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    -    Kl. 10:51 víkur Hjördís Sóley Sigurðardóttir af fundi. USK25110339

  13. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Lagt er til að ráðist verði í peruskipti/viðgerð ljósastaura á göngustígum í Elliðaárdal, Víðidal, Árbæ, Ártúnsholti og Seláshverfi. Á Árbæjarstíflu logar ljós á einum lampa en fjórtán eru óvirkir. Að auki eru flestir ljósastaurar óvirkir á kafla á syðri bakkanum, frá stíflunni vestur að Höfðabakkabrú. Ljósastaurar eru óvirkir á kafla á göngustíg fyrir neðan Laxakvísl í Ártúnsholti. Þá eru götulampar óvirkir á kaflanum milli Höfðabakkabrúar og Bæjarháls, n.t.t. við biðstöðvar strætisvagna sem þar eru. Fjöldi ljósastaura er óvirkur á gönguleið austan Vatnsveitubrúarinnar, fyrir neðan Klapparás, Sauðás og Vesturás. Um tuttugu ljósastaurar eru óvirkir við brýrnar yfir Dimmu uppi undir Breiðholtsbraut og á gönguleiðum frá þeim til vesturs.

    Frestað. USK25120164

  14. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Lagt er til að ráðist verði í peruskipti/viðgerð götulampa við Jöfursbás. Að minnsta kosti sex ljósastaurar eru óvirkir í götunni á kaflanum milli nr. 5-9.

    Frestað. USK25120163

  15. Tekið inn með afbrigðum tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um Hamrastekk, sbr. 25. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs dags. 5. nóvember 2025.
    Samþykkt að vísa inn í vinnu við gerð umferðaröryggisáætlunar. USK25110066

Fundi slitið kl. 11:23

Líf Magneudóttir Aðalsteinn Haukur Sverrisson

Alexandra Briem Andrea Helgadóttir

Hildur Björnsdóttir Hjálmar Sveinsson

Kjartan Magnússon

PDF útgáfa fundargerðar
Umhverfis- og skipluagsráð 10.12.2025 - prentvæn útgáfa