Umhverfis- og skipulagsráð - Fundur nr. 363

Umhverfis- og skipulagsráð

Ár 2025, miðvikudaginn 3. desember, kl. 10:01 var haldinn 363. fundur umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Hjálmar Sveinsson, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Alexandra Briem, Andrea Jóhanna Helgadóttir, Kjartan Magnússon, Stefán Pálsson og áheyrnarfulltrúarnir Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir og Einar Sveinbjörn Guðmundsson. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild: Hildur Björnsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Brynjar Þór Jónasson, Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, Þórólfur Jónsson, Sunna Stefánsdóttir, Hólmfríður Frostadóttir og Sigurjóna Guðnadóttir.
Fundarritari var Glóey Helgudóttur Finnsdóttir.
 

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á niðurstöðum borgaraþings Reykjavíkur.

    -     Kl. 10:12 aftengist Hildur Björnsdóttir með rafrænum hætti og tekur sæti á fundinum.
    -     Kl. 10:20 tekur Gunnar Hersveinn Sigursteinsson sæti á fundinum.

    Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir, Hrönn Hrafnsdóttir og Agnes Guðjónsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. MSS25010177
     

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf náttúruverndarstofnunar, dags. 4. nóvember 2025 vegna friðlýsingar Grafarvogs, friðlýsingarskilmálar, kort með afmörkun svæðisins og greinargerð um athugasemdir sem bárust á kynningartíma.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:

    Lagt er til ráðist verði í að færa út mörk þess verndarsvæðis, sem fyrirhugað er að friðlýsa í Grafarvogi, í samræmi við tillögu umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins frá 20. júní 2023. Samkvæmt umræddri tillögu ráðuneytisins myndi verndarsvæðið fylgja göngustíg í norðanverðum Grafarvogi en teygja sig jafnframt inn á skógræktarsvæði við Funaborg. Þaðan fylgdu mörkin göngustíg í átt að Stórhöfða en síðan lóðamörkum meðfram götunni til og með Stórhöfða 45. Þaðan með Stórhöfða að Grafarlæk, síðan meðfram læknum (50-100 metra), og síðan með göngustíg.
        
    Málsmeðferðartillagan er felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins  greiða atkvæði með málferðartillögunni. Fulltrúi Framsóknarflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins.
    Upphafleg tillaga er samþykkt.
    Vísað til borgarráðs.

    Benedikt Traustason tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23080213

    Lögð fram svohljóðandi bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Við hörmum að fulltrúar Samfylkingar, Pírata, Sósíalista og Vinstri grænna kjósi að fella tillögu Sjálfstæðisflokksins um að rýmka mörk þess verndarsvæðis, sem fyrirhugað er að friðlýsa í Grafarvogi. Í fyrirliggjandi tillögu vinstri meirihlutans er miðað við mun þrengri mörk. Um er að ræða afar stórt skipulagsmál, sem snertir íbúa í Grafarvogi og nærliggjandi hverfum enda er vogurinn afar vinsælt útivistarsvæði. Þessi afstaða meirihlutans gengur í berhögg við afstöðu Íbúaráðs Grafarvogs, Íbúasamtaka Grafarvogs sem og afstöðu flestra þeirra Grafarvogsbúa, sem hafa tjáð sig um málið. Afgreiðsla málsins sýnir að háleitar yfirlýsingar vinstri flokkanna um umhverfisvernd og íbúasamráð eru innantómar og merkingarlausar.

    Lögð fram svohljóðandi gagnbókun fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna:

    Því ber að halda til haga að markmiðum um náttúruvernd í Grafarvogi er náð með tillögunni eins og hún var til afgreiðslu. Halda skal til haga að Náttúrufræðistofnun mælir ekki með því að svæðið væri stækkað með þeim hætti sem hér var lagt til.

    Lögð fram svohljóðandi bókun fulltrúa Framsóknarflokksins:

    Framsókn fagnar því að nú sé búið að afgreiða friðlýsingu Grafarvogs. Mikilvægt er að þessum áfanga er lokið til að vernda voginn sem er stórt varpsvæði fugla sem og vinsælt útivistarsvæði. Einnig mun friðlýsingin koma til með að eyða óvissu um framtíðar uppbyggingu í nálægð við voginn.
     

    Fylgigögn

  3. Lagt fram til kynningar, erindisbréf um endurskoðun aðgerðaráætlunar um líffræðilega fjölbreytni.

    -     Kl. 10:46 tekur Guðmundur Benedikt Friðriksson sæti á fundinum.

    Benedikt Traustason tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    -     Kl. 10:51 víkur Gunnar Hersveinn Sigursteinsson af fundi. USK24120039
     

    Fylgigögn

  4. Lagðar fram fundargerðir afgreiðslufunda byggingarfulltrúa, dags. 18 nóvember 2025 og 25. nóvember 2025. USK24070166
     

    Fylgigögn

  5. Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar samgöngustjóra dags. 24. nóvember 2025 ásamt fylgigögnum. USK25010025
     

    Fylgigögn

  6. Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar skipulagsfulltrúa, dags. 25. nóvember 2025.

    -     Kl. 10:57 víkur Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir af fundi og Erlingur Sigvaldason tekur sæti á fundinum. USK22120094
     

    Fylgigögn

  7. Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að breytingu á skilmálum deiliskipulags Norðlingaholts fyrir tvíbýlishús T2 á lóðunum við Kólguvað, Krókavað, Lindarvað og Lækjarvað. Í breytingunni sem lögð er til felst að heimilt verði að stækka íbúðir á 2. hæð ofan á bílageymslu þar sem í dag eru svalir/útipallur annarrar hæðar. Heimilt verður að gera svalir á stækkunina sem snúa inn í garð, samkvæmt uppdr. T.ark arkitekta, dags. 8. september 2025. Einnig er lögð fram skýringarteikning T.ark arkitekta, ódags. og skilmálateikning T.ark arkitekta, ódags.
    Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
    Vísað til borgarráðs.

    Sigríður Maack tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK25110242
     

    Fylgigögn

  8. Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að breytingu á skilmálum deiliskipulags Norðlingaholts fyrir atvinnuhúsnæði A3-01 á lóð nr. 4-12 við Norðlingabraut. Í breytingunni sem lögð er til felst að gera skilmála fyrir húsagerðina A3-01 skýrari, bæði í texta og skýringarmyndum, samkvæmt uppdr. T.ark arkitekta, dags. 10. júlí 2025. Einnig er lögð fram skýringarteikning T.ark arkitekta, ódags. og skilmálateikning T.ark arkitekta, ódags.
    Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
    Vísað til borgarráðs.

    Sigríður Maack tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    -     Kl. 11:11 víkur Einar Sveinbjörn Guðmundsson af fundi. USK25110243
     

    Fylgigögn

  9. Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju umsókn Halldóru Kristínar Bragadóttur, dags. 14. maí 2024, um breytingu á deiliskipulagi fyrir Skeifuna-Fenin vegna lóðanna nr. 7 og 9 við Skeifuna. Í breytingunni sem lögð er til felst m.a. að sameina lóðirnar og afmarka þær í eina nýja lóð að viðbættu borgarlandi að Suðurlandsbraut, rífa niður þær byggingar sem fyrir eru á lóðunum og reisa nýja byggingu með íbúðum og atvinnuhúsnæði á nýrri sameinaðri lóð. Byggingin verður að mestu leyti 4 til 6 hæða með randbyggð umhverfis upplyftan garð, en þó 8 hæðir á norðvesturhorni, samkvæmt deiliskipulags- og skýringaruppdr. Kanon arkitekta, dags. 13. maí 2024, síðast br. 2. október 2024. Einnig er lögð fram greinargerð og skilmálar Kanon arkitekta, dags. 13. maí 2024, síðast br. 2. október 2024, og skuggavarpsuppdrættir Kanon arkitekta, dags. 2. október 2024. Jafnframt er lögð fram tæknileg áreiðanleikakönnun VSÓ ráðgjafar dags. í júní 2020, minnisblað Mannvits, dags. 7. mars 2023, um sig á gólfplötum 2. og 3. hæðar Skeifunnar 7, minnisblað Hnit verkfræðistofu, dags. 19. apríl 2024, um grundun væntra nýbygginga að Skeifunni 7 og 9, hljóðvistarskýrsla Arnheiðar Bjarnadóttir hjá Hljóðvist Ráðgjöf og Hönnun, dags. 6. maí 2024, minnisblað Mannvits, dags. 14. maí 2024, vegna skoðunar og sýnatöku að Skeifunni 7, greinargerð Hnits verkfræðistofu, dags. í maí 2024, um endurnotkunaráætlun og koldíoxíðspor og samgöngumat VSÓ ráðgjafar, dags. í maí 2024. Tillagan var auglýst frá 9. janúar 2025 til og með 20. febrúar 2025. Athugasemdir og umsögn bárust. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 3. júlí 2025.
    Samþykkt sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
    Vísað til borgarráðs.

    Sigríður Maack tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK24050162

    Lögð fram svohljóðandi bókun fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna:

    Fulltrúar samstarfsflokkanna fagna fyrirhugaðri íbúðaruppbyggingu við Skeifuna 7 og 9. Hún byggir á rammaskipulagi Skeifunnar frá 2016 sem gerir ráð fyrir blandaðri byggð íbúða og atvinnuhúsnæðis. Einnig hefur lengi verið ljóst að Borgarlínan keyrir um Suðurlandsbraut og á þessum stað verður stór biðstöð. Fyrirhugað torg við suðvesturhluta byggðarinnar lofar góðu. Mikilvægt er að við útfærslu bygginganna verði borgarhönnunarstefnan höfð að leiðarljósi. Mikilvægt er að vanda fyrirkomulag gróðurs á svæðinu til að skapa mannvænt umhverfi.

    Lögð fram svohljóðandi bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks styðja fyrirliggjandi uppbyggingu en leggja áherslu á að skuggavarp hafi ekki neikvæð áhrif á nærliggjandi byggð. Fulltrúarnir fagna því að bílastæðafjöldi samræmist fjölda íbúða en lýsa þó yfir áhyggjum af samgönguskipulagi borgarinnar fyrir svæðið og sitja hjá af þeim sökum. Af gögnum virðist borgin áforma takmarkað aðgengi fyrir akandi að verslun og þjónustu á svæðinu. Telja fulltrúarnir mikilvægt að samgönguskipulagi verði breytt með þeim hætti að aðgengi að íbúðum, verslun og þjónustu verði gott, óháð þeim fararmáta sem fólk kann að velja sér.

    Lögð fram svohljóðandi bókun fulltrúa Framsóknarflokksins:

    Fyrirhuguð uppbygging á lóðum 7 og 9 í Skeifunni er að mörgu leyti ágæt. Fulltrúi Framsóknar fagnar að skipulag á reitunum gerir ráð fyrir einu bílastæði per íbúð, þó má benda á nauðsyn þess að verslunar- og þjónusturými sem fyrirhuguð er á jarðhæð sé með þeim hætti að hún verði ekki of einsleit. Mikilvægt er að þessi rými bjóði upp á fjölbreytileika í stærð sem gefi stærri rekstraraðilum tækifæri til að reka þar ýmsa þjónustu t.d, stærri matvöruverslanir. Ef ekki er hugað að þessu er hætta á að sama ástand skapist eins og við  Snorrabraut og í Hlíðarendahverfi, þar sem mörg þjónusturými standa tóm.

        Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Viðreisnar:

    Viðreisn gleðst yfir uppbyggingunni á Skeifureitnum, uppbyggingin á lóðum 7 og 9 í Skeifunni er gott framlag til fegrunar svæðisins, en það hefur þurft mikið á upplyftingu að halda í alltof langan tíma.

    Fylgigögn

  10. Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju umsókn Magneu Þóru Guðmundsdóttur, dags. 13. mars 2025, ásamt bréfi, dags. 11. mars 202, um breytingu á deiliskipulagi Teigahverfis norðan Sundlaugavegar vegna lóðanna nr. 74A við Laugarnesveg og nr. 47 við Hrísateig. Í breytingunni sem lögð er til felst að heimilt verði að hækka húsin í þrjár hæðir ásamt því að byggja við Hrísateig 47, suðaustan megin, allt að þrjár hæðir, samkvæmt uppdr. Teiknistofunnar Stiku, dags. 28. apríl 2025, br. 24. nóvember 2025. Tillagan var auglýst frá 22. maí 2025 til og með 8. júlí 2025. Athugasemdir bárust. Einnig er lögð fram ábending Veitna, dags. 11. júní 2025. Jafnframt er lagt fram skuggavarp Teiknistofunnar Stiku, ódags. og umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 25. nóvember 2025.
    Samþykkt sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með þeim breytingum sem koma fram í umsögn skipulagsfulltrúa dags. 25. nóvember 2025. Fulltrúi Framsóknarflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins.
    Vísað til borgarráðs.

    Valný Aðalsteinsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK25030163
     

    Fylgigögn

  11. Fram fer umræða um framkvæmdir og viðhald í borgarlandinu.

    Frestað. USK25110339
     

  12. Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Framsóknarflokksins um ruslatunnur í borgarlandi, sbr. 20. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs dags. 15. október 2025. Einnig er lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu borgarlandsins, dags. 21. nóvember 2025. USK25100233
     

    Fylgigögn

  13. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um göngustíg í Gufunesi, sbr. 25. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 26. nóvember 2025.
    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins greiða atkvæði gegn frávísun. USK25110399

    Lögð fram svohljóðandi bókun fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna:

    Tillögunni er vísað frá þar sem vinna við stígagerð á svæðinu er nú þegar í undirbúningi.

    Lögð fram svohljóðandi bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Við lýsum yfir furðu okkar vegna neikvæðrar afstöðu fulltrúa Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokksins og Vinstri grænna til tillögu Sjálfstæðisflokksins um lagningu göngustíga í Gufunesi. Ljóst er að mikil þörf er á göngu- og hjólaleið meðfram Gufunesvegi sem og að Jöfursbás. Núverandi fyrirkomulag er óviðunandi og hefur augljósa hættu í för með sér fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Þær úrbætur, sem kveðið er á um í tillögunni ættu að vera í algerum forgangi en hér á fundinum fengust engin svör um hvort ráðist verði í þær á komandi ári.
     

    Fylgigögn

  14. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um almenningssalerni, sbr. 24. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 26. nóvember 2025.
    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu borgarlandsins. USK25110398
     

    Fylgigögn

  15. Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um Mjódd, sbr. 26. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 26. nóvember 2025.
    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagsviðs, skrifstofu skipulags- og byggingarmála. USK25110401
     

    Fylgigögn

  16. Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um Gufunes, sbr. 26. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 26. nóvember 2025.
    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu skipulags- og byggingarmála. USK25110400
     

    Fylgigögn

  17. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Lagt er til að ráðist verði í lagfæringar á Gufunesbryggju í því skyni að auka öryggi þeirra, sem um hana fara. Bryggjan er hættuleg á köflum, m.a. þarf að laga timburgólf hennar og fylla í holur og göt, sem skapa augljósa hættu. Jafnframt þarf að koma fyrir bjarghring yst á bryggjunni.

    Frestað. USK25120045

  18. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Lagt er til að gönguþverun á Lokinhömrum við Hamraskóla verði merkt sem gangbraut. Umrædd gönguþverun verði merkt með viðeigandi umferðarmerkjum, þ.e. umferðarskilti nr. 140 (gangbraut) og yfirborðsmerkingum (hvítum samhliða röndum langsum á gangbraut) í samræmi við reglugerð nr. 250/2024 um umferðarmerki og notkun þeirra. Jafnframt verði búnaði með snallljósastýringu komið fyrir á gangbrautinni.

    Frestað. USK25120046
     

  19. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Framsóknarflokksins:

    Fulltrúi Framsóknarflokksins leggur til að umhverfis- og skipulagsráð beini því til borgarstjóra að hefja samtal við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) um hvernig bæta megi móttöku og meðhöndlun lífræns úrgangs á höfuðborgarsvæðinu.

    Greinargerð fylgir tillögu.
    Frestað. USK25120044

    -    Kl. 12:23 víkja Hildur Björnsdóttir, Guðmundur Benedikt Friðriksson og Sunna Stefánsdóttir af fundi.
     

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 12:46

Hjálmar Sveinsson Aðalsteinn Haukur Sverrisson

Alexandra Briem Andrea Helgadóttir

Kjartan Magnússon Stefán Pálsson

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 3. desember 2025