Umhverfis- og skipulagsráð - Fundur nr. 360

Umhverfis- og skipulagsráð

Ár 2025, miðvikudaginn 12. nóvember, kl. 9:00 var haldinn 360. fundur umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Líf Magneudóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon og áheyrnarfulltrúinn  Einar Sveinbjörn Guðmundsson. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild: Andrea Helgadóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Hildur Björnsdóttir og áheyrnarfulltrúinn Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, Guðmundur Benedikt Friðriksson, Inga Rún Sigurðardóttir, Sunna Stefánsdóttir og Hólmfríður Frostadóttir.
Fundarritari var Glóey Helgudóttur Finnsdóttir.

Þetta gerðist:

  1. Leiðrétt bókun - Uppsögn á samningum bílastæðasjóðs um rekstur gjaldskyldu fyrir einkaaðila 2025
    Leiðrétt bókun frá fundi umhverfis- og skipulagsráðs, liður 6, dags. 5. nóvember 2025, vegna afgreiðslu á uppsögn á samningum bílastæðasjóðs um rekstur gjaldskyldu fyrir einkaaðila 2025.
    Rétt bókun er: Frestað.

    -    Kl. 09:03 tók  Brynjar Þór Jónasson sæti á fundinum.
    -    Kl. 09:03 tók Hjördís Sóley Sigurðardóttir sæti á fundinum
    -    Kl. 09:03 tók Ólöf Örvarsdóttir sæti á fundinum. USK25090342

  2. Lögð fram til afgreiðslu, borgarhönnunarstefna Reykjavíkur.
    Samþykkt.
    Vísað til borgarráðs.
    Rebekka Guðmundsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK22100027

    Fulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Vinna við borgarhönnunarstefnu var sett í gang snemma á kjörtímabilinu enda höfðu á umliðnum árum risið hús þar sem gæði uppbyggingar höfðu ekki verið tryggð hvað varðar birtuskilyrði í íbúðum, hljóðvist og fleira. Þessi stefna á að hafa það að markmiði að tryggja og auka gæði í húsnæðisuppbyggingu. Leggja átti áherslu á að tryggja betri birtuskilyrði í íbúðum, vanda betur samspil húsnæðis og grænna svæða og bæta hljóðvist og aðra umgjörð í hverfum borgarinnar. Borgarhönnunarstefna á að vera leiðarljós fyrir uppbyggingaraðila og hraða skipulagsferlinu enda séu sjónarmið borgarinnar um fallega og heilnæma byggð skýr frá upphafi. Framsókn styður stefnuna þó benda megi á eitt og annað sem getur orkað tvímælis. Sér í lagi það sem snýr að bílastæðum og hönnun gatna. Stefnan þarf að vera raunhæf og taka mið af raunverulegum þörfum íbúa, aðgengi snjómoksturstækja og sorphirðu svo fátt eitt sé nefnt.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgangna- og borgarhönnunar dags. 16. október 2025, þar sem lagt er til að umhverfis- og skipulagsráð samþykki tillögu um að Grjótagata verði einstefna frá Aðalstræti að Garðastræti.
    Samþykkt með vísan til c liðar 1. gr. í viðauka 1.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, um fullnaðarafgreiðslur umhverfis- og skipulagsráðs án staðfestingar borgarráðs í samræmi við 1. mgr. 84. gr. umferðarlaga nr. 77/2019.

    -    Kl.09:17 aftengist Andrea Helgadóttir fjarfundarbúnaði og tekur sæti á fundinum. USK25010001

    Fylgigögn

  4. Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar skipulagsfulltrúa dags. 4. nóvember 2025. USK22120094

    Fylgigögn

  5. Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 25. júní 2025, br. 20. október 2025, að breytingu á deiliskipulagi Breiðholts III, Hólahverfi, Norðurdeild, vegna reits við Suðurhóla. Við vinnu hverfisskipulags Breiðholts, sem unnið var í miklu samráði við íbúa, var reiturinn við Suðurhóla skilgreindur sem þróunarreitur þar sem uppbygging yrði útfærð síðar. Hér er lagt til að byggja 42 íbúðir í raðhúsum og sérhæðum við Suðurhóla með áherslu á vandaðan arkitektúr, grænt yfirbragð og gæði íbúða. Unnið er vel með landslagið og form þess. Byggðin verður aðlögunarhæf þar sem íbúar geta mótað íbúðirnar og stækkað eftir þörfum. Vistgata liðast um svæðið sem skilur eftir grænt og barnvænt umhverfi á meginþorra svæðisins. Einnig er lagt fram skýringarhefti, dags. 20. október 2025. Tillagan var auglýst frá 17. júlí 2025 til og með 28. ágúst 2025. Athugasemdir bárust. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 24. október 2025. Lagt er til að tillagan verði samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa.
    Samþykkt sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 fulltrúi Framsóknarflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins.
    Vísað til borgarráðs. USK25040245

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks  fagna áformum um uppbyggingu raðhúsa í Breiðholti en lítið hefur borið á uppbyggingu húsagerða af þeim toga síðustu árin. Fulltrúarnir lýsa þó áhyggjum af því að þéttleiki reitsins verði of mikill. Leggja fulltrúarnir áherslu á að hugað verði að sjónarmiðum nágrennis við uppbygginguna og að tryggð verði gæði þess græna svæðis sem verður skipulagt samhliða.

    Áheyrnarfulltrúi Viðreisnar leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Viðreisnar fagnar uppbyggingu við Suðurhóla. Svæðið er í dag að mestu ónýtt, með uppbyggingu má vænta jákvæðra áhrifa af áður þekktri óæskilegri hegðun sem hefur notað inn á nærsvæði. Virkilega ánægjulegt er að horft sé til þess að ný heimili séu byggð með tilliti til ólíkra þarfa en ekki er mikið úrval af heimilum fyrir hreyfihamlaða í Breiðholti von er um að áfram verði sú hugmyndafræði nýtt við uppbyggingu á reitum sem þessum. Sem og einnig til fyrirmyndar hve mikið var leitað til álita innan hverfis.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. október 2025 ásamt kæru nr. 152/2025, dags. 27. september 2025, þar sem kærð er ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar þann 10. júlí 2025 um að hafna kröfu kærenda um afturköllun byggingarleyfis (USK25020149) Haukahlíð 18. Einnig er lagður fram bráðabirgðaúrskurður umhverfis- og auðlindamála dags. 31. október 2025. Úrskurðarorð: Kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda að Haukahlíð 18 í Reykjavík til bráðabirgða er vísað frá úrskurðarnefndinni. USK25100136

    Fylgigögn

  7. Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. október 2025 ásamt kæru nr. 164/2025, dags. 24. október 2025, þar sem kærð er ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar, dagsett 24. september 2025, um álagningu dagsekta að fjárhæð 150.000 krónur á dag frá og með 26. september 2025 fyrir hvern dag sem það dregst að slökkva á skilti og fjarlægja það af lóð nr. 6 við Álfabakka í Reykjavík. Einnig er lagður fram bráðabirgðaúrskurður umhverfis- og auðlindamála dags. 4. nóvember 2025. Úrskurðarorð: Frestað er réttaráhrifum ákvörðunar skipulags- og byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. september 2025, um beitningu dagsekta að fjárhæð 150.000 kr. frá og með 26. september 2025.

    -    Kl. 09:34 víkur Hjördís Sóley Sigurðardóttir af fundi. USK25100413

    Fylgigögn

  8. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um áhættumat vegna fyrirhugaðrar Fossvogsbrúar, sbr. 16. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs dags. 8. október 2025. Einnig er lögð fram umsögn Betri Samgangna, dags. 29. október 2025.
    Tillagan er felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Pírata, Vinstri grænna og Sósíalistaflokks Íslands gegn tveimur atkvæðum Sjálfstæðisflokks. Fulltrúi Framsóknarflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins. USK25100129

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Í skýrslu um vindafar á fyrirhugaðri Fossvogsbrú kemur fram að gera megi ráð fyrir 15-20% meiri vindstyrk á brúnni en á Reykjavíkurflugvelli. Haraldur Ólafsson, prófessor í veðurfræði, telur að búast megi við enn hvassari vindi á brúnni en áðurnefnd skýrsla gefur til kynna, enda sé viðnám, sem vindurinn fær af jörðu, mun meira á flugvellinum en yfir sjó. Einnig verði brúin í töluverðri hæð yfir yfirborði sjávar, sem geti aukið vindstyrk verulega. Þá hefur verið bent á að þrenging, sem unnið er að í Fossvogi vegna brúarsmíðinnar, auki straumhraða undir brúnni og að slíkur straumur geti orðið illviðráðanlegur fyrir litla báta og seglskútur. Í umsögn Betri samgangna um tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um áhættumat vegna fyrirhugaðrar Fossvogsbrúar, kemur fram að búast megi við að vindstyrkur verði verulegur á brúnni og til greina komi að ,,setja lokunarpósta á stíga í verstu veðrum.” Gæti verið varhugavert fyrir gangandi og hjólandi að nota brúna um 255 klst. á ári, sem svarar til 10-11 sólarhringum. Tímalengd áætlaðs varúðarstigs fyrir strætisvagna er áætlað 45 klukkustundum á ári, sem svarar til tæplega tveimur sólarhringum. Með hliðsjón af ofangreindu telja Betri samgöngur rétt að rekstraraðili geri áhættumat m.t.t. notkunar brúarinnar og vindafars, sem setur fram viðmið fyrir notkun hennar. Eðlilegt er að slíkt mat fari fram sem fyrst og áður en lengra er haldið með verkefnið.

    Fylgigögn

  9. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að falla frá bílastæðasektum á messutíma, sbr. 21. liður fundargerðar borgarráðs, dags. 18. september 2025. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu samgangna og borgarhönnunar, dags 27. október 2025.
    Tillagan er felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Pírata, Vinstri grænna og Sósíalistaflokks Íslands gegn þremur atkvæðum Sjálfstæðisflokks og 
    Framsóknarflokksins. MSS25090087

    Fylgigögn

  10. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um götubreytingar við gatnamót Víkurvegar, Þúsaldar og Reynisvatnsvegar, sbr. 20. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs dags. 1. október 2025. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu samgangna og borgarhönnunar, dags 23. október 2025.
    Tillagan er felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Pírata, Vinstri grænna og Sósíalistaflokks Íslands gegn tveimur atkvæðum Sjálfstæðisflokks.
    Fulltrúi Framsóknarflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins. USK25100002

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks harma að fulltrúar Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokksins, Flokks fólksins og Vinstri grænna felli tillögu um úrbætur á gatnamótum Víkurvegar, Þúsaldar og Reynisvatnsvegar. Íbúar í Grafarholti og Úlfarsárdal hafa lengi óskað eftir úrbótum á umræddum gatnamótum í þágu aukins umferðaröryggis og bætts umferðarflæðis. Árum saman hefur verið sagt að málið sé í skoðun hjá Vegagerðinni og Reykjavíkurborg án nokkurrar sýnilegrar framvindu. Reykjavíkurborg þarf því að taka málið upp við Vegagerðina og óska eftir því að úrbætur á umræddum gatnamótum verði settar í forgang. Með því að fella fyrirliggjandi tillögu Sjálfstæðisflokksins um málið, sýnir vinstri meirihlutinn í borgarstjórn að hann er algerlega áhugalaus um úrbætur á umræddum gatnamótum.

    Fylgigögn

  11. Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um afhendingu ástandsmats vegna viðhalds gangstétta, sbr. 32. liður umhverfis- og skipulagsráðs dags. 10. september 2025. Einnig er lögð fram kynning sem fór fram 30. apríl 2025 og minnisblað dags. 23. október 2025. USK25090150

    Áheyrnarfulltrúi Viðreisnar leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Viðreisnar fagnar auknu aðgengi að stöðumati á gangstéttum í borgarlandinu. Staðan er grafalvarleg og mikilvægt að setja áherslu á að bæta möguleika borgarbúa að ferðast um gangandi. Eins og staðan er í dag er stór hluti gangstétta gerónýtur eða undir 10% í lagi mv. meðfylgjandi gögn. Af þessu stafar augljós hætta og takmarkar lífsgæði borgarbúa og þá sérstaklega þeirra sem eiga ekki gott með gang fyrir. Fulltrúinn vonast eftir að aðgerðir sem snúa að stéttum og stígum fái í kjölfarið aukið vægi í umræðum borgarfulltrúa áherslum sviðsins.

    Fylgigögn

  12. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um Hamrastekk, sbr. 25. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs dags. 5. nóvember 2025.
    Tillagan er felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Pírata, Vinstri grænna og Sósíalistaflokks Íslands gegn tveimur atkvæðum Sjálfstæðisflokks.
    Fulltrúi Framsóknarflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins. USK25110066

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Við hörmum að fulltrúar Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokksins, Flokks fólksins og Vinstri grænna skuli fella tillögu Sjálfstæðisflokksins um að umferðaröryggi verði aukið á Hamrastekk með því að merkja gönguþverun þar sem gangbraut. Það hefur ítrekað komið í ljós að umræddur staður er hættulegur og þar þarf því að auka umferðaröryggi. Um er að ræða fjölfarna leið barna og ungmenna og lýsir það afar slæmu viðhorfi til umferðaröryggismál að fulltrúar meirihlutans vilji ekki einu sinni að skoðað verði að ráðast í úrbætur á þessum stað.

    Fylgigögn

  13. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um Dalhús, sbr. 24. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs dags. 5. nóvember 2025.
    Tillagan er felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Pírata, Vinstri grænna og Sósíalistaflokks Íslands gegn tveimur atkvæðum Sjálfstæðisflokks. Fulltrúi Framsóknarflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins. USK25110067

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Við hörmum að fulltrúar Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokksins, Flokks fólksins og Vinstri grænna skuli fella tillögu Sjálfstæðisflokksins um að gripið verði til aðgerða í því skyni að draga úr óþægindum, sem íbúar í Dalhúsum verða fyrir vegna mikillar aðsóknar að skíðasvæðinu í Húsahverfi. Mikil þörf er fyrir slíkar aðgerðir eins og íbúar í Húsahverfi hafa bent á.

    Fylgigögn

  14. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um Skeljanes, sbr. 23. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs dags. 5. nóvember 2025.
    Tillagan er felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Pírata, Vinstri grænna og Sósíalistaflokks Íslands gegn þremur atkvæðum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokksins. USK25110068

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Við hörmum að fulltrúar Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokksins, Flokks fólksins og Vinstri grænna skuli fella tillögu Sjálfstæðisflokksins um úrbætur vegna augljósrar slysagildru á hjólaleið við Skeljanes. Slys hafa orðið á umræddum stað og lýsir það slæmu viðhorfi til umferðaröryggismála að fulltrúar meirihlutans vilji ekki einu sinni að skoðað verði að ráðast í úrbætur á þessum stað.

    Fylgigögn

  15. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Lagt er til að ráðist verði í úrbætur í þágu gangandi og hjólandi vegfarenda á gatnamótum Kirkjuteigs og Reykjavegar. Gangbrautarljós eða snjallljósabúnaður verði sett upp á gangbrautinni yfir Reykjaveg. Um er að ræða fjölfarna gönguleið skólabarna.
    Frestað. USK25110170

  16. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Lagt er til að gangstétt og hjólarein verði lagðar meðfram suðurkanti Guðbrandsgötu. Annars vegar á kaflanum milli Birkimels og Bændahallarinnar og hins vegar á kaflanum milli Arngrímsgötu og Suðurgötu.
    Frestað. USK25110173

  17. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Lagt er til að ráðist verði í viðgerðir á götulömpum við vesturkant Kringlumýrarbrautar. Sex ljósastaurar eru óvirkir á kaflanum frá Suðurlandsbraut að Sigtúni.
    Frestað. USK25110172

  18. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Lagt er til að ráðist verði í víðtækar viðgerðir á götulömpum á eftirfarandi stöðum í Miðbænum í því skyni að tryggja viðunandi götulýsingu.
    Í Austurstræti og á Lækjartorgi eru allir götulampar óvirkir, þar á meðal lampar, sem eiga að þjóna hinni fjölförnu skiptistöð Strætó, sem þar er.
    Í Lækjargötu eru allir götulampar óvirkir á kaflanum milli Laugavegar og Hverfisgötu, um tíu talsins.
    Á Laugavegi eru hátt á fjórða tug ljósastaura óvirkir, þar af allir á kaflanum frá Frakkastíg vestur að Bankastræti.
    Í Bankastræti eru allir götulampar óvirkir en þeir eru um átján talsins.
    Á Skólavörðustíg eru um 38 ljósastaurar óvirkir, þar af allir á kaflanum frá Bergstaðastræti að Laugavegi.
    Í Pósthússtræti eru flestir ljósastaurar í götunni óvirkir eða um 22 talsins.
    Í Tryggvagötu er um 21 götulampi óvirkur, þar af allir milli Pósthússtrætis og Lækjargötu.
    Í Hafnarstræti eru um ellefu götustaurar óvirkir, þar af allir milli Pósthússtrætis og Tryggvagötu.
    Allir sjö ljósastaurarnir í Veltusundi eru óvirkir og tveir af þremur í sundinu milli Veltusunds og Thorvaldsensstrætis.
    Um fimmtán götulampar eru óvirkir við austanverða Vesturgötu, Mjóstræti og Grófina.
    Fjórir götulampar eru óvirkir við horn Geirsgötu, Tryggvagötu og Miðbakka.
    Ekki er um tæmandi upptalningu að ræða.

    Frestað USK25110174

Fundi slitið kl. 10:08

Líf Magneudóttir Aðalsteinn Haukur Sverrisson

Andrea Helgadóttir Dóra Björt Guðjónsdóttir

Hildur Björnsdóttir Hjálmar Sveinsson

Kjartan Magnússon

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 12. nóvember 2025