Umhverfis- og skipulagsráð - Fundur nr. 359

Umhverfis- og skipulagsráð

Ár 2025, miðvikudaginn 5. nóvember, kl. 9:00 var haldinn 359. fundur umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Líf Magneudóttir, Andrea Helgadóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon og áheyrnarfulltrúarnir Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir og Einar Sveinbjörn Guðmundsson,. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild:  Hildur Björnsdóttir og Aðalsteinn Haukur Sverrisson. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Brynjar Þór Jónasson, Guðmundur Benedikt Friðriksson, Hjördís Sóley Sigurðardóttir, Inga Rún Sigurðardóttir, Sigurjóna Guðnadóttir og Hólmfríður Frostadóttir.
Fundarritari var Glóey Helgudóttur Finnsdóttir.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf borgarstjórnar Reykjavíkur dags. 5. nóvember 2025 þar sem tilkynnist að Líf Magneudóttir tekur sæti sem formaður umhverfis- og skipulagsráðs í stað Dóru Bjartar Guðjónsdóttur. Jafnframt tilkynnist að Alexandra Briem taki sæti sem aðalmaður stað Dóru Bjartar Guðjónsdóttur, Stefán Pálsson verði varamaður í stað Ástu Bjargar Björgvinsdóttur og að Einar Sveinbjörn Guðmundsson verði áheyrnarfulltrúi og Helga Þórðardóttir til vara. MSS22060046

    Fylgigögn

  2. Fram fer kynning á Ljósvistarstefnu Reykjavíkurborgar, Aðgerðaáætlun 2025–2030.

    Rósa Dögg Þorsteinsdóttir, Sólveig Lísa Tryggvadóttir og Ársæll Jóhannsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    -    Kl. 09:04 tekur Birkir Ingibjartsson sæti á fundinum.
    -    Kl. 09:04 tekur Ólöf Örvarsdóttir sæti á fundinum.
    -    Kl. 09:04 tekur Guðmundur Benedikt Friðriksson sæti á fundinum.
    -    Kl. 09:11 tekur Hildur Björnsdóttir sæti á fundinum og aftengist fjarfundabúnaði.
    -    USK25090023

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Unnið hefur verið að fyrirliggjandi ljósvistarstefnu í tólf ár með mikilli fyrirhöfn og ærnum tilkostnaði. Frá því að stefnan var kynnt í núverandi mynd árið 2022 hefur götulýsingu hrakað verulega í Reykjavík vegna þrálátra bilana og ónógs viðhalds. Mörg dæmi eru um að ljósastaurar hafi verið óvirkir mánuðum og jafnvel árum saman, sem veldur óþægindum og hættu. Ástandið er ekki skárra í nýjum hverfum eins og Vogabyggð er dæmi um. Vegna þessarar öfugþróunar í ljósvistarmálum Reykjavíkurborgar undanfarin ár, vaknar sú spurning hvort tilgangur stefnumótunarinnar hafi verið sá að gefa meirihluta borgarstjórnar tækifæri til að láta ljós sitt skína, fremur en að knýja fram raunverulegar úrbætur í málaflokknum. Brýnasta verkefnið í ljósvistarmálum Reykjavíkurborgar er að bæta peruskipti og viðhald götulampa í öllum hverfum borgarinnar. Í ljósi mikilvægis málsins er æskilegt að fjallað verði sérstaklega um þennan þátt í ljósvistarstefnunni og sett fram markmið um peruskipti og annað viðhald. Það ætti að vera óþekkt að borgarfulltrúar þurfi að flytja sérstakar tillögur um peruskipti eða einfalt viðhald á einstökum ljósastaurum, sem hafa verið óvirkir mánuðum og jafnvel árum saman, en svo er því miður ekki.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram verklýsing skipulagsgerðar og drög að umhverfismati Hallar og nágrenni, frekari þróun íbúðabyggðar í Úlfarsárdal, fyrir aðalskipulag Reykjavíkur 2040, dags. október 2025.
    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska eftir að málinu sé frestað.
    Frestunartillaga felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins.
    Verklýsing staðfest með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Sósíalistaflokk Íslands og Vinstri grænna. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
    Vísað til borgarráðs.

    Haraldur Sigurðsson og Margrét Lára Baldursdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. USK25080064

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lýsa miklum áhyggjum af áformum borgarstjóra, sem staðfest voru í borgarráði í liðinni viku, um uppbyggingu allt að 4.000 íbúða á reit M22 í Úlfarsárdal. Reiturinn er 58,5 hektarar að stærð og almennt talinn rúma 2.000 íbúðir miðað við núverandi þéttleika í nærliggjandi byggð. Þá lýsa fulltrúarnir jafnframt áhyggjum af því að ekki verði tryggð nægilega góð félagsleg blöndun í hverfinu. Rannsóknir hafa ítrekað sýnt hvernig börn sem alast upp í félagslega aðskildum og tekjulægri hverfum búa ekki við jöfn tækifæri - þau reynast ólíklegri til að sækja sér æðri menntun, tekjumöguleikar þeirra til framtíðar reynast skertir og félagslegur hreyfanleiki minni. Skipulag sem þetta mun fyrirsjáanlega ýta undir stéttaskiptingu og takmarka tækifæri fólks til að bæta lífskjör sín. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa jafnframt áhyggjur af því hve lítil áhersla er lögð á séreignastefnu í húsnæðisáætlunum borgarinnar. Um 21% af húsnæðismarkaði eru nú leiguíbúðir en aðeins 8% leigjenda vilja vera á leigumarkaði. Sú áhersla borgaryfirvalda að auka hlut leiguíbúða í Reykjavík er því nokkuð sérkennileg. Telja fulltrúar Sjálfstæðisflokks mun æskilegra að leggja stóraukna áherslu á séreignarstefnu - enda séreign besta leiðin fyrir fjölskyldur að tryggja sér fjárhagslegt öryggi og stöðuga búsetu.

    Fulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúi Framsóknar undrast hvað skipulag Halla og nágrenni er keyrt áfram af miklum hraða enda er um að ræða afdrifaríka ákvörðun og mikilvægt að málið fái vandaða umfjöllun. Því er furðulegt að meirihlutinn skuli ekki verða við óskum minnihlutans um frestun málsins um viku.

    Fylgigögn

  4. Fram er kynning á samráðsferli við aðalskipulagstillögu á vinnslustigi og næstu skref Kelda og nágrennis.

    Hrafnkell Á. Proppé, Haraldur Sigurðsson og Margrét Lára Baldursdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið USK24080321

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lýsa miklum áhyggjum af fyrirhuguðu samgönguskipulagi Keldnalands þar sem ráðgert er að íbúar hafi ekki bílastæði við heimili sín, heldur þurfi að nálgast þau í miðlægum bílastæðahúsum. Telja fulltrúarnir fjarstæðukennt að ætla 12.000 íbúum og 6.000 starfsmönnum svæðisins aðeins 2.230 bílastæði. Íbúar og hagaðilar virðast taka undir sjónarmið sjálfstæðismanna enda hefur komið í ljós að helstu athugasemdir frá íbúum og hagaðilum um vinnslutillöguna sneru að samgöngumálum, fjölda og fyrirkomulagi bílastæða. Mikilvægt verður að gera yfirgripsmiklar breytingar á samgönguskipulaginu svo það þjóni betur þörfum borgarbúa.

    Fylgigögn

  5. Að lokinni grenndarkynningu er lögð fram umsókn Ragnars Magnússonar, dags. 10. desember 2024, ásamt greinargerð, ódags., um breytingu á deiliskipulagi Reynisvatnsáss vegna lóðarinnar nr. 1 við Döllugötu. Í breytingunni sem lögð er til felst að í stað húsgerðar Ep-Ib verði lóðin skilgreind fyrir húsgerð E-IIb, þ.e. að heimilt verði að reisa einbýlishús á tveimur hæðum á lóð í stað einbýlishúss á pöllum, samkvæmt uppdr. i62, dags. 10. desember 2024, br. 25. október 2025. Einnig er lagt fram skuggavarp, dags. 28. október 2025. Erindið var grenndarkynnt frá 30. janúar 2025 til og með 17. mars 2025. Athugasemdir bárust. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 28. október 2025.
    Samþykkt með þeim breytingum sem koma fram í umsögn skipulagsfulltrúa dags. 28. október 2025, með vísan til a. liðar 1. gr. í viðauka 1.1 um fullnaðarafgreiðslur umhverfis- og skipulagsráðs án staðfestingar borgarráðs.

    Sigríður Maack tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK24120088

    Fylgigögn

  6. Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs skrifstofu samgangna og borgarhönnunar dags. 13. október 2025, þar sem lagt er til að umhverfis- og skipulagsráð samþykki uppsögn á samningum bílastæðasjóðs um rekstur gjaldskyldu fyrir eftirtalda einkaaðila, gjaldsvæði 4  (P4). Þetta eru eftirtaldir aðilar: Landspítalinn, stæði við Eiríksgötu 5 og í Fossvogi, HR við Menntaveg og Húsfélagið Borgartúni 8-16 og Katrínartúni 2.
    Samþykkt með vísan til c liðar 1. gr. í viðauka 1.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, um fullnaðarafgreiðslur umhverfis- og skipulagsráðs án staðfestingar borgarráðs í samræmi við 1. mgr., 84. gr. umferðarlaga nr. 77/2019. USK25090342

     

  7. Lagðar fram fundargerðir afgreiðslufunda byggingarfulltrúa, dags. 21. október 2025 og 28. október 2025. USK24070166

    Fylgigögn

  8. Lagðar fram fundargerðir afgreiðslufunda skipulagsfulltrúa dags. 21. október 2025 og 28. október 2025.

    -    Kl. 10:47 víkur Hjördís Sóley Sigurðardóttir af fundi USK22120094

    Fylgigögn

  9. Lagðar fram fundargerðir afgreiðslufunda samgöngustjóra dags. 20. október 2025 og 30. október 2025 ásamt fylgigögnum. USK25010025

    Fylgigögn

  10. Lagðar fram fundargerðir Sorpu bs. nr. 519, dags. 8. september 2025, 520, dags. 22. september 2025 og 521, dags. 13. október 2025, ásamt fylgigögnum. USK23010167

    Fylgigögn

  11. Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. október 2025 þar sem kæra nr. 75/2025 er afturkölluð. USK25050159

    Fylgigögn

  12. Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. júlí 2025 ásamt kæru nr. 115/2025, dags. 22. júlí 2025, þar sem kærð er ákvörðun frá 25. júní s.á. um beitingu þvingunarúrræða vegna smáhýsis á lóð nr. 67 við Ásvallagötu. Einnig er lögð fram greinargerð Reykjavíkur dags. 29. ágúst 2025. Jafnframt er lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 23. október 2025. Úrskurðarorð: Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 25. júní 2025 um að krefjast þess að smáhýsi á lóð nr. 67 við Ásvallagötu verði fjarlægt eða fært 3 m frá lóðarmörkum Ásvallagötu 69. USK25080021

    Fylgigögn

  13. Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. október 2025 ásamt kæru nr. 164/2025, dags. 24. október 2025, þar sem kærð er ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar, dagsett 24. september 2025, um álagningu dagsekta að fjárhæð 150.000 krónur á dag frá og með 26. september 2025 fyrir hvern dag sem það dregst að slökkva á skilti og fjarlægja það af lóð nr. 6 við Álfabakka í Reykjavík. USK25100413

    Fylgigögn

  14. Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. október 2025 ásamt kæru nr. 165/2025, dags. 27. október 2025, þar sem kærð er ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjavíkur dagsett 17. desember 2024 um samþykkt byggingarleyfi vegna reits 1.182.1 Grettisgata 20A og 20B. USK25100432

    Fylgigögn

  15. Lagt fram afgreiðslubréf borgarráðs, dags. 16. október 2025, vegna samþykktar borgarráðs s.d. á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Háskólans í Reykjavík vegna Borgarlínu og frekari uppbyggingar á svæði 1a og 1b. SN220056

    Fylgigögn

  16. Lagt fram afgreiðslubréf borgarstjórnar, dags. 23. október 2025, vegna samþykktar borgarstjórnar frá 21. október 2025 á auglýsingu á tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir lóðirnar nr. 10 og 12 við Holtsgötu og nr. 16 við Brekkustíg. USK25070082

    Fylgigögn

  17. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um götubreytingar við gatnamót Víkurvegar, Þúsaldar og Reynisvatnsvegar, sbr. 20. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs dags. 1. október 2025. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu samgangna og borgarhönnunar, dags 23. október 2025.
    Frestað. USK25100002

    Fylgigögn

  18. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að falla frá bílastæðasektum á messutíma, sbr. 21. liður fundargerðar borgarráðs, dags. 18. september 2025. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu samgangna og borgarhönnunar, dags 27. október 2025.
    Frestað. MSS25090087

    Fylgigögn

  19. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um áhættumat vegna fyrirhugaðrar Fossvogsbrúar, sbr. 16. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs dags. 8. október 2025. Einnig er lögð fram umsögn Betri Samgangna, dags. 29. október 2025.
    Frestað. USK25100129

    Fylgigögn

  20. Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um skýrsluna ,,Capacity Analysis of Höfðabakki", sbr. 22. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs dags. 1. október 2025. Einnig er lagt fram svar skrifstofu samgangna og borgarhönnunar, dags 15. október 2025. USK25100005

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægt er að upplýsingagjöf til kjörinna fulltrúa sé vönduð, enda bera þeir ábyrgð á pólitískum ákvörðunum. Í lögum og ýmsum samþykktum er kveðið á um að kynna þurfi mál nægilega til að kjörnir fulltrúar geti tekið upplýsta afstöðu til þeirra. Við undirbúning þrengingar gatnamóta Höfðabakka og Bæjarháls var verkfræðistofan Cowi fengin til að greina áhrif af mismunandi útfærslum væntanlegra breytinga. Cowi skilaði skýrslu um málið í desember 2024 og þar kom skýrlega fram að lokun beygjuakreina myndi lengja bílaraðir og valda stórauknum umferðartöfum á gatnamótunum. Ekki verður um það deilt að mikilvægar upplýsingar um hugsanlegar breytingar á gatnamótunum voru í skýrslunni, þótt þar væri ekki fjallað nákvæmlega um þá útfærslu, sem varð á endanum fyrir valinu. Augljóst er að umrædd greining Cowi var lykilgagn þegar að því kom að meta afleiðingar hugsanlegra breytinga þar. Þrátt fyrir það var greiningin ekki kynnt fyrir kjörnum fulltrúum í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur þegar ákvörðun var tekin um þrenginguna 26. mars 2025. Í þessu máli voru kjörnir fulltrúar ekki upplýstir um lykilgögn, þriggja mánaða gamla verkfræðilega greiningu á áhrifum mismunandi breytinga á umræddum gatnamótum þegar ákvörðun var tekin. Slík stjórnsýsla er óviðunandi.

    Fylgigögn

  21. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um viðgerðir á ljósastaurum við Hverfisgötu, sbr. 22. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs dags. 22. október 2025.
    Samþykkt USK25100349

    Fylgigögn

  22. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um viðgerðir á ljósastaurum við Austurstræti, sbr. 23. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs dags. 22. október 2025.
    Samþykkt USK25100350
     

    Fylgigögn

  23. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Lagt er til að horn girðingar við geymsluhús Reykjavíkurborgar við Skeljanes, sem liggur milli hjólastígs (Sólarleiðar) og hjólavísa við fyrrnefnda götu, verði merkt á áberandi hátt, t.d. með glitmerki. Girðingin skagar út í hjólaleiðina, getur verið torséð í myrkri og þannig valdið hættu.

    Frestað. USK25110068

  24. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Lagt er til að gripið verði til aðgerða í því skyni að draga úr óþægindum, sem íbúar í Dalhúsum verða fyrir vegna mikillar aðsóknar að skíðasvæðinu í Húsahverfi. Athugað verði hvort unnt sé að koma skammtímastæði (sleppistæði) fyrir við brekkuna án þess að íbúar verði fyrir óþægindum. Þá verði skoðað hvort hægt sé að setja stöðubann við mjóa kafla götunnar og fylgja þeim eftir með skýrum merkingum og jafnvel grindum til að draga úr óþægindum fyrir íbúa og koma í veg fyrir að þeir lokist inni í eigin götu.

    Frestað. USK25110067

  25. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Lagt er til að gönguþverun á Hamrastekk verði merkt sem gangbraut. Gönguþverunin tengir göngustíg, sem liggur milli Urðastekks og Hólastekks annars vegar og Lambastekks og Skriðustekks hins vegar. Umrædd gönguþverun verði merkt með viðeigandi umferðarmerkjum, þ.e. umferðarskilti nr. 140 (gangbraut) og yfirborðsmerkingum (hvítum samhliða röndum langsum á gangbraut) í samræmi við reglugerð nr. 250/2024 um umferðarmerki og notkun þeirra.

    Frestað. USK25110066

Fundi slitið kl. 11:02

Líf Magneudóttir Aðalsteinn Haukur Sverrisson

Andrea Helgadóttir Birkir Ingibjartsson

Hildur Björnsdóttir Hjálmar Sveinsson

Kjartan Magnússon

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 5. nóvember 2025