Umhverfis- og skipulagsráð
Ár 2025, miðvikudaginn 15. október, kl. 9:02 var haldinn 357. fundur umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Hjálmar Sveinsson, Andrea Jóhanna Helgadóttir, Einar Sveinbjörn Guðmundsson, Þorvaldur Daníelsson og áheyrnarfulltrúinn Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild: Hildur Björnsdóttir og áheyrnarfulltrúinn Stefán Pálsson. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Brynjar Þór Jónasson, Hjördís Sóley Sigurðardóttir, Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, Guðmundur Benedikt Friðriksson, Hreinn Ólafsson, Kristján Ólafur Smith, Ásdís Ásbjörnsdóttir, Eva Kristinsdóttir, Hjalti J. Guðmundsson, Guðni Guðmundsson, Oddrún Helga Oddsdóttir, Óli Jón Hertervig, Sunna Stefánsdóttir og Sigurjóna Guðnadóttir.
Fundarritari var Glóey Helgudóttur Finnsdóttir.
Þetta gerðist:
-
Lögð fram í trúnaðarbók fjárhagsáætlun umhverfis- og skipulagssviðs fyrir árin 2026 - 2030, drög að gjaldskrá fyrir umhverfis- og skipulagssvið árið 2026, drög að greinargerð umhverfis- og skipulagssviðs með fjárhagsáætlun 2026 og drög að rekstraryfirliti aðal- og eignasjóðs fyrir árið 2026. Einnig er lögð fram tillaga að úthlutun fjárheimilda árið 2026, forsendur fjárhagsáætlunar 2026 - 203 og tíma- og verkáætlun fjárhagsáætlunar 2026.
- Kl. 9:05 tekur Kjartan Magnússon sæti á fundinum.
- Kl. 9:06 aftengist Hildur Björnsdóttir fundi með rafrænum hætti og tekur sæti á fundinum.
- Kl. 9:07 tekur Alexandra Briem sæti á fundinum með rafrænum hætti.
- Kl. 9:24 aftengist Stefán Pálsson fundi með rafrænum hætti og tekur sæti á fundinum.Umhverfis- og skipulagsráð staðfestir að drög að starfs- og fjárhagsáætlun séu í samræmi við ákvarðanir fagráðs um áherslur og forgangsröðun og markaða stefnu í málaflokknum. USK25030162
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar skipulagsfulltrúa dags. 7. október 2025. USK22120094
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa, dags. 7. október 2025. USK24070166
Fylgigögn
-
Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgangna og borgarhönnunar dags. 3. október 2025, þar sem lagt er til að umhverfis- og skipulagsráð samþykki sérákvæði um umferð: Bílastæði við Laugardalsvöll - eingöngu ætlað fólksbifreiðum. Undanþegin banninu verði vöruafhending og hópbifreiðar í akstri vegna Laugardalsvallar.
Samþykkt. USK25010001
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á niðurstöðu loftlagsbókhalds Reykjavíkur fyrir árið 2024.
- Kl. 9:58 víkur Alexandra Briem af fundi og Dóra Björt Guðjónsdóttir tekur sæti á fundinum og tekur jafnframt við fundarstjórn.
Hrönn Hrafnsdóttir, Þórhildur Ósk Halldórsdóttir, Böðvar Þórisson og Stefán Þór Kristinsson taka sæti á fundinum undir þessum lið. USK25100139
-
Lögð fram lýsing skipulagsgerðar og drög að tillögu fyrir aðalskipulag Reykjavíkur 2040 - Íbúðarbyggð á Álfheimum 49 – Niðurfelling verslunar- og þjónustusvæðis (VÞ32) og stækkun íbúðarbyggðar (ÍB26) í Laugardal, dags. október 2025. Lagt er til að lýsingin verði kynnt og leitað umsagna þeirra aðila sem taldir eru upp í henni.
Frestað.Margrét Lára Baldursdóttir og Valný Aðalsteinsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. USK25100086
-
Lagt fram bréf byggingarfulltrúa fyrir hönd götunafnanefndar dags. 10. október 2025 þar sem lagt er til nýtt götuheiti fyrir Bjargargötu.
Samþykkt að gatan fái nafnið Kristínargata. USK25020274
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf byggingarfulltrúa fyrir hönd götunafnanefndar dags. 10. október 2025 þar sem lagt er til nýtt götuheiti fyrir Fífilsgötu.
Samþykkt að Hlíðarfótur haldi áfram norðan Hringbrautar að Vatnsmýrarvegi. USK25020273
Fylgigögn
-
Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju umsókn THG Arkitekta ehf., dags. 11. júní 2024, um gerð deiliskipulags fyrir 1. áfanga uppbyggingar á Kringlusvæði á lóðunum Kringlan 1-3 og 5 fyrir allt að 418 íbúða byggð í bland við verslun- og þjónustu með áherslu á fjölbreytt og aðlaðandi borgarumhverfi, samkvæmt deiliskipulags- og skýringaruppdráttum THG Arkitekta, dags. 21. febrúar 2025, br. 15. september 2025. Einnig er lögð fram greinargerð og skilmálar, dags. 5. febrúar 2025, br. 15. september 2025 og hönnunarhandbók, dags. í október 2025. Tillagan var auglýst frá 25. apríl 2025 til og með 24. júní 2025. Umsagnir og athugasemdir bárust. Einnig er lögð fram hönnunarhandbók, dags. febrúar 2025. Tillagan var auglýst frá 25. apríl 2025 til og með 24. júní 2025. Umsagnir og athugasemdir bárust. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 7. október 2025. Lagt er til að tillagan verði afgreidd með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa.
Samþykkt sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með þeim breytingum sem koma fram í umsögn skipulagsfulltrúa dags. 7. október 2025.
Vísað til borgarráðs.Sigríður Maack og Ólöf Guðbjörg Söebech taka sæti á fundinum undir þessum lið.
- Kl. 10:52 víkur Hjördís Sóley Sigurðardóttir af fundi. USK24060140
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á endurskoðun Grænna skrefa.
Hildur Sif Hreinsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK24040177
Lögð fram svohljóðandi bókun fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og áheyrnarfulltrúa Vinstri grænna:
Grænu skrefin er verkefni sem hefur verið unnið að hjá Reykjavík síðan 2011. Umhverfis- og skipulagsráð fól spretthópi að taka að sér uppfærslu á Grænum skrefum í apríl 2024 til að gera verkefnið nútímalegra, einfaldara, skýrara og skilvirkara og til að stuðla að auknum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda í rekstri Reykjavíkurborgar og ná markmiðum borgarinnar í loftslagsmálum. Nú er sú vinna að klárast og er það ánægjulegt.
Fylgigögn
-
Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. október 2025 ásamt kæru nr. 152/2025, dags. 27. september 2025, þar sem kærð er ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar þann 10. júlí 2025 um að hafna kröfu kærenda um afturköllun byggingarleyfis (USK25020149) Haukahlíð 18. USK25100136
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Framsóknarflokksins um bættar almenningssamgöngur frá stúdentagörðunum við Háskóla Íslands, sbr. 27. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs dags. 26. mars 2025. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu samgangna og borgarhönnunar, dags 7. október 2025.
Vísað til umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgangna og borgarhönnunar og inn í vinnu við nýtt leiðarnet Strætó bs. USK25030363
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Framsóknarflokksins um sjálfhreinsandi salernisaðstöðu miðsvæðis í Reykjavík, Borgartúni og meðfram Sæbraut, sbr. 34. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs dags. 25. júní 2025. Einnig er lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu borgarlandsins dags. 3. október 2025.
Vísað til umhverfis- og skipulagssviðs, fjármálaskrifstofu, inn í vinnu við gerð fjárfestingaráætlunar. USK25060359
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um áhættumat vegna fyrirhugaðrar Fossvogsbrúar, sbr. 16. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs dags. 8. október 2025. Greinargerð fylgir tillögu.
Vísað til umsagnar Betri samgangna ohf. USK25100129
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Framsóknarflokksins í borgarráði um að bílastæði fylgi hverri íbúð í Reykjavík, sbr. 4. liður fundargerðar borgarráðs dags. 7. október 2025. Tillögunni var vísað til umhverfis- og skipulagsráðs.
Vísað til umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgangna og borgarhönnunar, inn í vinnu við uppfærslu bílastæðareglna. MSS25090066
Fylgigögn
-
Lagt fram afgreiðslubréf borgarráðs, dags. 2. október 2025, vegna samþykktar borgarráðs s.d. á auglýsingu á tillögu að breytingu á skilmálum deiliskipulags Vogabyggðar, svæðis 3. USK25070021
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Ábendingar hafa borist um að mikil brögð hafi verið að því að undanförnu að íbúar í miðborginni, með greidd og gild íbúakort, hafi ítrekað verið sektaðir að ósekju á kortasvæði sínu af Bílastæðasjóði. Óviðunandi er að borgarar þurfi ítrekað að verja tíma og fyrirhöfn í að verjast slíkri ásókn og leiðrétta ranga álagningu umræddrar borgarstofnunar, ef rétt er. Óskað er eftir skýringum á þessum vinnubrögðum og hvort gripið verði til ráðstafana í því skyni að koma í veg fyrir slík mistök framvegis. Einnig er óskað eftir upplýsingum um fjölda beiðna til Bílastæðasjóðs á árinu frá handhöfum íbúakorta, um endurupptöku ákvörðunar vegna álagningar stöðvunarbrotagjalds/aukastöðugjalds, ásamt samanburði við fyrri ár. Jafnframt er óskað eftir upplýsingum um heildarfjölda beiðna til Bílastæðasjóðs á árinu um endurupptöku ákvörðunar vegna álagningar stöðvunarbrotagjalds /aukastöðugjalds, ásamt samanburði við fyrri ár. USK25100236
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Óskað er eftir sundurliðuðum upplýsingum um heildarkostnað vegna leikskólans Brákarborgar við Kleppsveg 150-152. Gerð verði grein fyrir kostnaði við kaup á mannvirkjum og endurbyggingu þeirra, húsa jafnt sem lóða. Gerð verði grein fyrir öllum kostnaði við verkefnið, þ.m.t. skýrslur ráðgjafa, hönnun, umsjón, eftirlit, sem og kostnaður við flutning leikskólans og leigu á öðru húsnæði á viðgerðartímanum. Óskað er eftir því að allar upplýsingar um kostnað verði gefnar upp á gildandi verðlagi. USK25100235
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í umhverfis- og skipulagsráði hafa í rúmlega tvo mánuði margítrekað óskað eftir kynningu á yfirstandandi framkvæmdum við Brákarborg við Kleppsveg. Ekki hefur enn verið orðið við þessari ósk þeirra þrátt fyrir að réttur kjörinna fulltrúa til upplýsinga sé mjög ríkur. Þá samþykkti ráðið einróma á fundi sínum 24. september sl. að það fengi kynningu á umræddum framkvæmdum og að þeim fulltrúum, sem áhuga hefðu, yrði gefinn kostur á að sjá og kynna sér framkvæmdir á verkstað. Spurt er: af hverju hefur umrædd kynning ekki enn farið fram þrátt fyrir margítrekaðar óskir fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og einróma samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs þar að lútandi? Er ætlunin að tefja vísvitandi umrædda kynningu og þar með framlagningu upplýsinga um yfirstandandi framkvæmdir við Brákarborg, þar til þær verða yfirstaðnar? USK25100234
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn fulltrúa Framsóknarflokksins:
Fulltrúi Framsóknar hefur fengið kvartanir um vöntun á ruslatunnum í borgarlandinu. Því er óskað eftir yfirliti yfir staðsetningu ruslatunna í borgarlandi. Einnig er óskað eftir upplýsingum um hvaða forsendur eru hafðar að leiðarljósi við val á staðsetningu þeirra. USK25100233
- Kl. 11:15 víkja Brynjar Þór Jónasson og Sunna Stefánsdóttir af fundi.
- Kl. 11:22 víkur Guðmundur Benedikt Friðriksson af fundi.
Fundi slitið kl. 11:28
Dóra Björt Guðjónsdóttir Andrea Helgadóttir
Einar Sveinbjörn Guðmundsson Hildur Björnsdóttir
Hjálmar Sveinsson Kjartan Magnússon
Þorvaldur Daníelsson
PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 15. október 2025