Umhverfis- og skipulagsráð - Fundur nr. 353

Umhverfis- og skipulagsráð

Ár 2025, miðvikudaginn 17. september, kl. 9:00 var haldinn 353. fundur umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Dóra Björt Guðjónsdóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Birkir Ingibjartsson, Einar Sveinbjörn Guðmundsson, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon og áheyrnarfulltrúarnir Erlingur Sigvaldason og Stefán Pálsson. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild: Hildur Björnsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Brynjar Þór Jónasson, Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, Guðmundur Benedikt Friðriksson, Haraldur Sigurðsson, Hjördís Sóley Sigurðardóttir, Sunna Stefánsdóttir, Sigurjóna Guðnadóttir og Hólmfríður Frostadóttir.
Fundarritari var Auðun Helgason.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á skýrslunni Þróun Hvítá til Hvítá svæðisins.
    Ásdís Ólafsdóttir frá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Jóhanna Helgadóttir og Vilhjálmur Leví Egilsson frá Nordic Office and Arcitecture taka sæti á fundinum undir þessum lið. USK25090037

    Fulltrúar Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Þróun byggðar á suðvesturhorni landsins hefur leitt til þess að svæðið frá Hvítá að Hvítá er orðið að einu íbúa-, atvinnu- og áhrifasvæði. Á svæðinu búa í dag um 80% landsmanna og samkvæmt áætlunum um íbúaþróun gæti íbúafjöldi svæðisins orðið um 460.000 manns árið 2050. Skýrslan Hvítá - Hvítá er ítarlegt og mikilvægt innlegg inn í umræðu sem þarf að eiga sér stað meðal bæjarfélaga á suðvesturhorninu. Hvert þau vilja stefna til næstu áratuga hvað varðar þróun og vöxt. Samkvæmt skýrslunni er ljóst að samgöngumálin og aukin umferð verði ein helsta áskorunin sem fylgja vexti svæðisins. Ljóst er að öflugar almenningssamgöngur þurfa koma til milli helstu þéttbýliskjarna á svæðinu og er mikilvægt að hagaðilar leyfi sér að hugsa stórt í þeim efnum.

    Fulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Framsóknar þakkar fyrir afar áhugaverða kynningu um þróun svæðis sem skilgreint er á Hvítá - Hvítá svæðinu. Miðað við spá um stækkun á byggðakjörnum sem getið er í lokaskýrslu er ljóst að huga þarf vel að uppbyggingu samgangna á svæðinu og þurfa yfirvöld að sýna frumkvæði til að ráðast í nauðsynlegar framkvæmdir til koma í veg fyrir framtíðar töfum í umferðinni. Hér þarf að nálgast framtíðar verkefnið með því hugarfari að fjárfest er í samgönguinnviðum inn í framtíðina en ekki fara í verkefnið þegar vandamálin eru komin upp.

    Áheyrnarfulltrúi Viðreisnar leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Viðreisnar þakkar Nordic Office and Architecture fyrir kynningu á Hvítá–Hvítá verkefninu og undirstrikar mikilvægi þess að horfa á suðvesturhorn landsins sem eina heild í skipulags- og samgöngumálum. Viðreisn leggur áherslu á að sjálfbærni, fjölbreyttar samgöngulausnir, aðgengilegt húsnæði og þétt blönduð byggð verði leiðarljós þróunar, og að Reykjavíkurborg taki virkan þátt í samstarfi sveitarfélaga á svæðinu til að tryggja jafnvægi milli samfélags, umhverfis og efnahags.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram fundargerðar afgreiðslufundar skipulagsfulltrúa dags. 11. september 2025.
    Frestað USK22120094

  3. Drög að aðalskipulagsbreytingu ásamt umhverfismati (drög) Einnig er lögð fram í trúnaði drög að umhverfisskýrslu Eflu, dags. 6. september 2025.
    Haraldur Sigurðsson, deildarstjóri og Bryndís Skúladóttir frá VSÓ ráðgjöf taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    -    Kl. 10:37 víkur Hildur Björnsdóttir af fundi
    -    Kl. 10:37 tekur Friðjón R Friðjónsson sæti á fundinum

    Samþykkt að forkynna drög að aðalskipulagsbreytingu sbr. 2.mgr. 30. gr. og lög nr. 111/2021 um umhverfismat áætlana, ásamt drögum að umhverfismati.
    Vísað til borgarráðs. USK23090007

    Fulltrúar  Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar þakka fyrir góða kynningu á drögum að breytingu á aðalskipulagi vegna Sundabrautar. Þar kemur skýrt fram hversu brýnt er að ráðast í framkvæmdina. Rannsóknir sýna að Sundabraut muni skila verulegum samfélagslegum ábata og er ein hagkvæmasta samgöngubótin sem hægt er að ráðast í á landinu. Framkvæmdin mun bæta umferðarflæði, draga úr álagi í Ártúnsbrekku og á Vesturlandsvegi og þar með minnka tafir, sem aftur dregur úr útblæstri og mengun.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram umsókn Nýs Landspítala ohf., dags. 21. júlí 2025, ásamt skipulagslýsingu, dags. september 2025, fyrir breytingu á deiliskipulagi Landspítalans Fossvogi (Borgarspítalans). Skipulagssvæðið afmarkast af Háaleitisbraut til vesturs, suðurjaðri Borgarspítalans til norðurs, núverandi íbúðabyggð við Markarveg og Kjarrveg til suðurs og Álftalandi til austurs. Í breytingunni sem lögð er til felur í sér að deiliskipuleggja reitinn sunnan og austan núverandi Borgarsjúkrahúss / Landspítala í Fossvogi undir nýtt geðsvið LSH með áherslu á fremstu gæði varðandi allan aðbúnað og upplifun fólks við útfærslu sérhæfðs geðsjúkrahúss fyrir starfsmenn, sjúklinga og gesti þeirra. Einnig er lögð fram greinargerð Nýs landspítala/forathugun vegna nýbyggingar, dags. í september 2024, bréf stýrihóps um skipulag framkvæmda við Landspítala og önnur sérhæfð sjúkrahús, dags. 25. nóvember 2024, og áfangaskýrsla Eflu, dags. 10. september 2025, um kostamat fyrir staðsetningar geðþjónustu Landspítala í Fossvogi.
    Ingvar Jón Bates Gíslason tekur sæti á fundinum undir þessum lið

    -    Kl. 10:44 Víkur Dóra Björt Guðjónsdóttir af fundi og Hjálmar Sveinsson tekur við formennsku
    -    Kl. 10:44 Tekur Alexandra Briem sæti á fundinum

    Samþykkt er að kynna lýsingu nýs deiliskipulags í samræmi við 1. og 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Leita skal umsagna um lýsinguna hjá Skipulagsstofnun, Minjastofnun Íslands, Borgarsögusafni, Veitur ohf, Umhverfisstofnun og Vegagerðinni en auk þess skal útfæra skipulagsgerðina í samráði við skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar og skrifstofu umhverfisgæða á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkur, USK, auk skóla og frístundasviðs Reykjavíkurborgar og Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og kynna hana fyrir almenningi. USK25070268

    Fylgigögn

  5. Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju umsókn Ivon Stefáns Cilia, dags. 8. nóvember 2024, um breytingu á deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar vegna lóðarinnar nr. 50-52 við Nauthólsveg. Í breytingunni sem lögð er til felst breyting á notkun hússins sem heimilar starfsemi hjúkrunarheimilis ásamt stækkun á byggingarreitum, samkvæmt uppdrætti T.ark arkitekta, dags. 9. janúar 2025. Tillagan var auglýst frá 27. mars 2025 til og með 13. maí 2025. Umsögn barst frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, dags. 13. maí 2025. Erindinu var vísað til umsagnar verkefnastjóra á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 15. maí 2025 og er nú lagt fram að nýju ásamt bréfi Reita, dags.  21. maí 2025, minnisblaði Myrru hljóðstofu, dags. 4. júlí 2025 og minnisblað Loftgæðamælingar VERKVIST dags. 29. júlí 2025. Jafnframt er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 11. september 2025.
    Ingvar Jón Bates Gíslason tekur sæti á fundinum undir þessum lið
    Samþykkt sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Vísað til borgarráðs. USK24110089

    Fulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Framsóknar telur breytingu á nýtingu húsnæðis við Nauthólsveg 50-52 í hjúkrunarheimili margt af hinu góða þar sem verið er að nýta húsnæði sem annars þyrfti að byggja. En tekur undir áhyggjur HER að ekki sé um hentugustu staðsetningu vegna nálægðar við flugvöllinn. Einnig vill fulltrúi Framsóknar benda á að starfsemi hjúkrunarheimilis í þessu húsnæði, má ekki verða til þess að skerða þurfi starfssemi flugvallarins en frekar, umfram því sem samið hefur verið um.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að breytingu á deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar vegna skilgreiningu nýrra lóða við Nauthólsveg. Í breytingunni sem lögð er til felst að skilgreind er ný lóð, Nauthólsvegur 64-66, þar sem flugstjórnarmiðstöðin og spennistöð standa í dag.  Auk þess er skilgreind lóð á reit Nauthólsvegar 56-60, Nauthólsvegur 58E. Áður skilgreindir byggingarreitir innan nýrrar lóðar 64-66 haldast óbreyttir og helst heildarbyggingarmagn á reitnum/nýrri lóð óbreytt, bæði ofan- og neðanjarðar. Reitarafmörkun fyrir Nauthólsveg 54 minnkar til samræmis og breytast nýtingarhlutföll vegna breyttra lóða/reitastærða. Á nýrri lóð að Nauthólsvegi nr. 58E verður heimilt að setja upp flugvallarbúnað þ.m.t. mastur allt að 30m hátt, skv. uppdr. T.ark arkitekta, dags. 13. ágúst 2025.
    Þórður Már Sigfússon tekur sæti á fundinum undir þessum lið
    Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
    Vísað til borgarráðs. USK25090065

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Sumarið 2023 sendi Isavia þrjú erindi til Reykjavíkurborgar með ósk um minni háttar breytingar á skipulagi í því skyni að auka öryggi á Reykjavíkurflugvelli. Erindin varða breytingar á deiliskipulagi vegna nýrra aðflugsljósa við vesturenda flugvallarins, lítils háttar færslu á eldsneytisgeymum innan flugvallarins, og uppsetningu á myndavélamastri fyrir fjarturn á flugvellinum. Óhæfilegur dráttur hefur orðið á afgreiðslu áðurnefndra erinda. Hafa borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítrekað óskað eftir að úr því verði bætt og umrædd erindi lögð sem fyrst fyrir umhverfis- og skipulagsráð til umfjöllunar og afgreiðslu. Ánægjulegt er að fyrirliggjandi tillaga felur m.a. í sér afmörkun lóðar fyrir umrætt myndavélamastur. Æskilegt er að önnur erindi Isavia um skipulagsbreytingar í þágu flugöryggis hljóti afgreiðslu sem fyrst.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram umsókn Axels Kaaber, dags. 7. júlí 2025, um að gera nýtt deiliskipulag fyrir lóðirnar nr. 10 og 12 við Holtsgötu og 16 við Brekkustíg. Í tillögunni sem lögð er til felst uppbygging á lóð, samkvæmt deiliskipulags- og skýringaruppdr. Arkitekta, dags. 7. maí 2025. Einnig er lagt fram minnisblað Eflu, dags. 16. ágúst 2022, og umsögn Húsafriðunarnefndar, dags. 20. júní 2006.
    Frestað USK25070082

  8. Að lokinni kynningu er lögð fram að nýju skipulagslýsing umhverfis- og skipulagssviðs, dags. maí 2025, vegna nýs deiliskipulags Heiðmerkur. Leiðarljós með gerð deiliskipulags fyrir Heiðmörk er að tryggja öryggi og óbreytt gæði grunnvatns til langrar framtíðar og að svæðið nýtist áfram til útivistar í sátt við vatnsvernd. Að öðru leyti eru markmið deiliskipulagsins margþætt og eiga að tryggja samræmingu landnotkunar innan svæðisins til að forðast hagsmunaárekstra milli núverandi og framtíðar landnotkunar á svæðinu. Lýsingin var kynnt frá 22. maí 2025 til og með 2. júlí 2025. Athugasemdir og umsagnir bárust.
    Drífa Árnadóttir, Hrönn Valdimarsdóttir og Ragnheiður Sigvaldadóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. 
    Umsagnir sem bárust á kynningartíma skipulagslýsingar kynntar fyrir umhverfis- og skipulagsráði.
    Vísað til borgarráðs USK24030262

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Heiðmörk er stærsta og fjölsóttasta útivistarsvæði höfuðborgarsvæðisins. Fjöldi fólks á öllum aldri sækir Mörkina reglulega til að njóta náttúrunnar og kynnast gróðri, dýralífi, tjörnum, vötnum og jarðmyndunum. Greiður aðgangur almennings að grænum svæðum hefur ómetanlegt gildi fyrir lýðheilsu og menntun. Í fyrirliggjandi skipulagslýsingu vegna nýs deiliskipulags fyrir Heiðmörk kemur fram að takmarka eigi stórlega aðgang almennings að Heiðmörk í nafni vatnsverndar. Ekkert bendir hins vegar til þess að núverandi útivist á svæðinu hafi neikvæð áhrif á vatnsgæði. Með slíkri breytingu væri almennur réttur borgara til að njóta stærsta útivistarsvæðis höfuðborgarsvæðisins takmarkaður verulega. Innarlega í Heiðmörk eru mörg falleg svæði, sem langt er að sækja fótgangandi. Margir unnendur svæðisins eiga ekki auðvelt með gang. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að unnt sé að tryggja gæði neysluvatns án þess að skerða stórlega aðgang almennings að Heiðmörk. Fyrirhugaðar lokanir, þar sem loka á öllu grannsvæði vatnsverndar fyrir bílaumferð orka afar tvímælis. Ófullnægjandi kynning og rökstuðningur fyrir takmörkunum á aðgangi að Heiðmörk hefur þegar haft neikvæð áhrif, t.d. vegna skipulagðra ferða skólabarna, sem erfitt er að sjá að ógni vatnsvernd. Tryggja verður greiðan aðgang að friðlandinu í Heiðmörk hér eftir sem hingað til. Óviðunandi væri að takmarka slíkan aðgang eins og nú virðist vera stefnt að.

    Fylgigögn

  9. Lögð fram umsókn ÞG Stálhöfða ehf., dags. 3. júlí 2025, ásamt bréfi ÞG verks, dags. 2. júlí 2025, um breytingu á deiliskipulagi Elliðavogs-Ártúnshöfða, svæði 1, vegna lóðarinnar nr. 2 við Stálhöfða. Í breytingunni sem lögð er til felst að heimilt verði að fjölga bílastæðum á lóð um 17 í bílakjallara, samkvæmt uppdr. ARCHUS arkitekta. dags. 3. júlí 2025.
    Frestað USK25070055

  10. Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu skipulagsfulltrúa, dags. 11. september 2025, að fegrunarviðurkenningum Reykjavíkurborgar fyrir árið 2025 vegna vandaðra lóða og endurbóta á eldri húsum. Kynning á niðurstöðum.
    Trúnaður ríkir um viðurkenningar þar til afhending fer fram.
    Sólveig Sigurðardóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
    Samþykkt og fært í trúnaðarbók USK25060178

  11. Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa dags. 9. september 2025. USK24070166

    Fylgigögn

  12. Fram fer kynning á endurgerð bílastæða fyrir hreyfihamlaða.
    Bragi Bergsson frá skrifstofu framkvæmda- og viðhalds og Björg Helgadóttir frá skrifstofu samgangna- og borgarhönnunar munu taka sæti á fundinum undir þessum lið. USK25080208

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi flokks fólksins þakkar fyrir góða kynningu á mikilvægu verkefni. Í framhaldi vill fulltrúinn leggja áherslu á að merking þessara stæða í borgarlandinu sé með eins og góðum og skilmerkilegum hætti og hægt er. Þess vegna telur fulltrúinn það mikilvægt að notaður sé blár litur í stæðin, þar sem því verður við komið - til þess m.a. að auka enn betur á sýnileika þeirra í öllum veðrum.

    Fylgigögn

  13. Aflétt úr trúnaðarbók umhverfis- og skipulagsráðs námsstyrkur Ellýjar Katrínar Guðmundsdóttur, sbr. fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs, 9. liður, dags. 28. ágúst 2025. USK24090178

    Fylgigögn

  14. Lagt fram afgreiðslubréf borgarstjórnar, dags. 4. september 2025, vegna samþykktar borgarstjórnar frá 2. september 2025 á tillögu að breytingu á deiliskipulags Reykjavíkurflugvallar. USK24120041

    Fylgigögn

  15. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um minnismerki um Gunnar Gunnarsson rithöfund, sbr. 27. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs dags. 10. september 2025.
    Vísað til umsagnar Menningar og íþróttaráðs. USK25090148

  16. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um grenndargáma við Streng í Ártúnsholti, sbr. 26. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 10. september 2025. Greinargerð fylgir tillögu.
    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða. USK25090141

    Fylgigögn

  17. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um viðgerð á götulömpum í Vogabyggð, sbr. 28. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs dags. 10. september 2025.
    Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu borgarlandsins. USK25090152

  18. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um viðgerð á gangstéttum við Tungusel og Öldusel, sbr. 29. liður umhverfis- og skipulagsráðs dags. 10. september 2025.
    Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds USK25090157

  19. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um viðgerð á gangstéttum við Kaplaskjólsveg, sbr. 30. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs dags. 10. september 2025.
    Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds. USK25090158

  20. Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um bálstofu í Gufuneskirkjugarði, sbr. 31. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs dags. 10. september 2025.
    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu skipulags- og byggingarmála USK25090146

  21. Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um afhendingu ástandsmats vegna viðhalds gangstétta, sbr. 32. liður umhverfis- og skipulagsráðs dags. 10. september 2025.
    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds. USK25090150

  22. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Lagt er til að ráðist verði í viðgerðir á götulömpum í Langholtshverfi. Sjö ljósastaurar eru óvirkir á Kleppsvegi á kafla frá Langholtsvegi að Sæviðarsundi. Þrír götulampar í röð eru óvirkir við norðurenda Langholtsvegar og nokkrir nálægt suðurenda hans, á kafla milli Snekkjuvogs og Skeiðarvogs. Að auki má víða sjá staka óvirka götulampa í hverfinu.
    Frestað. USK25090256

  23. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
    Lagt er til að umhverfis- og skipulagsráð fái kynningu á yfirstandandi framkvæmdum við Brákarborg, Kleppsvegi 150-152, á næsta fundi ráðsins, 24. september. Fyrir fundinn verði þeim fulltrúum í ráðinu, sem áhuga hafa, gefinn kostur á að sjá og kynna sér umræddar framkvæmdir á verkstað.
    Frestað. USK25090255

  24. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
    Lagt er til að ráðist verði í viðgerðir á gangstéttum, köntum, akstursbrautum og stæðum á fjölfarinni skiptistöð strætisvagna í Mjódd. Gangstéttir við skiptistöðina eru víðar eyddar, sprungnar og ójafnar. Margir gangstéttarkantar eru brotnir og akstursbrautir holóttar. Ráðist verði í umræddar viðgerðir fyrir komandi vetur.
    Frestað. USK25090258

Fundi slitið kl. 12:29

Hjálmar Sveinsson Aðalsteinn Haukur Sverrisson

Birkir Ingibjartsson Einar Sveinbjörn Guðmundsson

Friðjón R. Friðjónsson Kjartan Magnússon

Alexandra Briem

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 17. september 2025 - Prentvæn útgáfa