Umhverfis- og skipulagsráð - Fundur nr. 351

Umhverfis- og skipulagsráð

Ár 2025, miðvikudaginn 3. september, kl. 9:00 var haldinn 351. fundur umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Dóra Björt Guðjónsdóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Birkir Ingibjartsson, Einar Sveinbjörn Guðmundsson, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon og áheyrnarfulltrúinn Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild: Hildur Björnsdóttir og áheyrnarfulltrúinn Stefán Pálsson. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Brynjar Þór Jónasson, Guðmundur Benedikt Friðriksson, Hjördís Sóley Sigurðardóttir, Inga Rún Sigurðardóttir, Sunna Stefánsdóttir og Hólmfríður Frostadóttir og Sigurjóna Guðnadóttir.
Fundarritari var Auðun Helgason.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á rannsóknar- og greiningarvinnu fyrir tilraunaverkefni um kjarnasamfélög.
    Þórhildur B. Guðmundsdóttir tekur sæti með rafrænum hætti undir þessum lið.

    -    Kl. 09:22 Aftengist Stefán Pálsson fjarfundarbúnaði og tekur sæti á fundinum.
    -    Kl. 09:39 Víkur Auðun Helgason af fundi
    -    Kl. 09:39 tekur Glóey Helgudóttir Finnsdóttir sæti á fundinum og tekur við fundarritun
    -    Kl. 09:39 Tekur Ólöf Örvarsdóttir sæti á fundinum. USK25060141

    Fulltrúar Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Í samstarfssáttmála Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokksins, Flokks fólksins og Vinstri grænna er kveðið á um að huga skuli að fjölbreyttu búsetuformi og kjarnasamfélögum (e. co-housing). Kjarnasamfélög eru til þess fallin að styðja við félagsleg tengsl, samvinnu og samnýtingu og vinna gegn einangrun og er þannig félagslega og umhverfislega sjálfbært búsetuform. Gerð hefur verið greining og samantekt á mismunandi formum kjarnasamfélaga til grundvallar tilraunaverkefnis um kjarnasamfélög á tveimur reitum í borginni sem stefnt er að því að fleyta af stað með haustinu.

    Fylgigögn

  2. Lagt fram til leiðréttingar á bókun, tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að breytingu á deiliskipulagi Fossvogshverfis vegna lóðarinnar nr. 26 við Haðarland. Í breytingunni sem lögð er til felst að skilgreindur er byggingarreitur fyrir viðbyggingu við álmuna Miðland, sem ætlað er að hýsa matsal Fossvogsskóla, ásamt því að settir eru skilmála um uppbyggingu reitsins, samkvæmt uppdr. Hornsteina arkitekta ehf., dags. 19. maí 2025.
    Leiðrétt bókun frá fundi umhverfis- og skipulagsráðs frá 13. ágúst 2025, liður 6.
    Rétt bókun er: Samþykkt að grenndarkynna tillögu. USK25050357

    Fylgigögn

  3. Lagt fram í trúnaði 6 mánaða uppgjör umhverfis- og skipulagssviðs fyrir janúar - júní 2025.
    Kristján Ólafur Smith tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK25030162

  4. Lagðar fram fundargerðir afgreiðslufunda skipulagsfulltrúa, dags. 21. ágúst 2025 og 28. ágúst 2025. USK22120094

    Fylgigögn

  5. Að lokinni kynningu er lögð fram að nýju skipulagslýsing umhverfis- og skipulagssviðs, dags. í maí 2025, vegna nýrra deiliskipulagsáætlana og deiliskipulagsbreytinga fyrir Sæbrautarstokk. Til stendur að setja Sæbraut í stokk á um 1 km löngum kafla, frá Miklubraut og norður fyrir gatnamót Kleppsmýrarvegar og Skeiðarvogs. Eitt af markmiðum með gerð vegstokka er að bæta umhverfisgæði í aðliggjandi byggð og tengja betur saman hverfi sem eru aðskilin með umferðarþungum stofnbrautum. Á yfirborði stokksins er fyrirhugaður nýr borgargarður sem myndar græna tengingu milli Vogahverfis og Vogabyggðar. Með tilkomu stokksins verða hljóðvist og loftgæði á svæðinu betri og tækifæri skapast fyrir nýja byggð meðfram austurhluta stokksins. Lýsingin var kynnt frá 5. júní 2025 til og með 3. júlí 2025. Athugasemdir og umsagnir bárust.

    Umsagnir sem bárust á kynningartíma skipulagslýsingar kynntar fyrir umhverfis- og skipulagsráði. USK25050165

    Fulltrúar Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Sæbrautarstokkur milli Kleppsmýrarvegar og Miklubrautar mun gjörbreyta aðstæðum á þessum vegkafla til hins betra, bæði fyrir akandi vegfarendur og íbúa í nærliggjandi íbúðahverfum. Grænn almenningsgarður mun tengja hverfin tvö saman sem í dag eru aðskilin af stofnbrautinni og verður það dýrmæt lífsgæðabót fyrir íbúa. Í áframhaldandi vinnu við stokkinn er þarft að skoða nánar útfærslu gatnamóta Kleppsmýrarvegar og Skeiðarvogs við Sæbraut þannig að umfang þeirra verði takmarkað eins og kostur er um leið og óvarðir vegfarendur eru hafðir í öndvegi og öryggi þeirra tryggt. Eins er mikilvægt að skýra betur hvernig unnið verður með hjáleiðir á framkvæmdatíma og áhrif þeirra á núverandi byggð, t.a.m. húsið við Dugguvog 42, sem þekkt er af lágmyndum sínum eftir Gerði Helgadóttur.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram drög að samþykkt um skilti í Reykjavík.
    Samþykkt að birta drög að samþykkt í samráðsgátt.
    Birgitta Rut Skúladóttir Hjörvar tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK25050098

    -    Kl. 11:01 víkur Hjördís Sóley Sigurðardóttir af fundi.

    Fulltrúar Viðreisnar, Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Viðreisnar, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks þakka fyrir góða kynningu á fyrirhugaðri skilta samþykkt. Gott er að sjá að margar ábendingar sem komu fram á fundi í vor skiluðu sér í nýrri útgáfu og þá sérstaklega á stærðarmörkum skilta í borgarlandinu. Fulltrúarnir vilja hins vegar benda á að ástæða fyrir því, hversvegna farið er í þessa vinnu hjá borginni er ekki skýr og markmið eru óljós, auk þess virðast sumar tillögur í samþykktinni ekki virða reglur um meðalhóf. Sem dæmi í stað þess að banna stafræn auglýsingaskilti alfarið á Íþróttasvæðum þá væri bæði hægt með nútímatækni að vinna með tímastýringum á auglýsingaskilti sem takmarkar verulega áhrif þeirra á íbúa ýmist með stýringum á birtustigi eða með því að hafa slökkt á skilti yfir ákveðin tíma. Fulltrúar flokkanna telja að hægt sé að ná mörgum þeim markmiðum sem samþykktin stefnir að með því nýta tækni og auka eftirlit í stað þess að leggja út i bannaðgerðir.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar samgöngustjóra dags. 20. ágúst 2025 ásamt fylgigögnum. USK25010025

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun við fyrsta lið fundargerðar Samgöngustjóra:

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins minna á ítrekaðar tillögur sínar um að gripið verði til aðgerða til að stemma stigu við hraðakstri á göngu- og hjólastígum. Mikil brögð eru að því að léttum bifhjólum, bæði rafknúnum og bensíndrifnum, sé ekið eftir göngu- og hjólastígum, langt yfir þeim 25 kílómetra hámarkshraða sem gildir þar. Meirihluti bifhjólamanna fer að reglum en ljóst er að of margir virða ekki hraðareglur. Mörg dæmi eru um að rafhjólum sé ekið svo hratt nálægt gangandi eða hjólandi vegfarendum að liggi við stórslysi. Þá eru dæmi um að foreldrar banni ungum börnum sínum að fara út á hjólastíga borgarinnar því þeir séu orðnir að hraðbrautum fyrir vélknúin farartæki, þ.e. rafhjól. Setja þarf skýrar merkingar upp við göngu og hjólreiðastíga borgarinnar um að á þeim gildi 25 km hámarkshraði léttra bifhjóla.

    Fylgigögn

  8. Lagðar fram fundargerðir afgreiðslufunda byggingarfulltrúa dags. 19. ágúst 2025 og 26. ágúst 2025. USK24070166

    Fylgigögn

  9. Fram fer kynning í trúnaði á niðurstöðu valnefndar um úthlutun námsstyrks Ellýjar Katrínar Guðmundsdóttur. Trúnaður ríkir um málið fram yfir afhendingu úthlutunar.
    Margrét Lára Baldursdóttir og Hrönn Hrafnsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. USK24090178

  10. Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs dags. 29. ágúst 2025 um að hafinn verði undirbúningur að því að Reykjavíkurborg taki þátt í Náttúruborgarsamningi Berlínar (Berlin Urban Nature Pact).
    Samþykkt og vísað til borgarráðs
    Benedikt Traustason og Þórólfur Jónsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK25080284

    Fylgigögn

  11. Kjörnir fulltrúar eru hvött til að skrá sig á umhverfisþing sem haldið verður 15-16. september í Silfurbergi í Hörpu. Skráning fer fram á vefslóð:
    https://www.stjornarradid.is/verkefni/umhverfi-og-natturuvernd/vidburdir/umhverfisthing/. USK25080318

    -    Kl. 11:29 víkur Guðmundur Benedikt Friðriksson af fundi. 

  12. Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. maí 2025 ásamt kæru nr. 69/2025, dags. 2. maí 2025, þar sem kærð er ákvörðun byggingarfulltrúa í Reykjavík dagsett 2. apríl 2025 vegna afgreiðslu erindis kærenda um beitingu þvingunarúrræða en málið varðar girðingu á milli lóða að Einimel 9 og 11 í Reykjavík. Einnig er lögð fram greinargerð Reykjavíkur dags. 4. júní 2025. Jafnframt er lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 7. ágúst 2025. Úrskurðarorð: Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 2. apríl 2025 um að aðhafast ekki frekar vegna girðingar á mörkum lóðanna Einimels 9 og 11. USK25050040

    Fylgigögn

  13. Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. maí 2025 ásamt kæru nr. 73/2025, dags. 8. apríl 2025, þar sem kærð er ákvörðun byggingarfulltrúa í Reykjavík um að samþykkja umsókn um leyfi til endurbyggingar stálgrindahúss að Grettisgötu 87. Einnig er lögð fram greinargerð Reykjavíkurborgar, dags. 16. júní 2025. Jafnframt er lagður fram bráðabirgðaúrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 20. júní 2025. Úrskurðarorð: Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða á grundvelli ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. apríl 2025 um að samþykkja umsókn um leyfi til að endurbyggja stálgrindarhús að Grettisgötu 87. USK25050122

    Fylgigögn

  14. Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. maí 2025 ásamt kæru nr. 82/2025, dags. 26. maí 2025, þar sem kærð er ákvörðun byggingarfulltrúa í Reykjavík, dagsett 6. maí 2025 þar sem kæranda er gert að fjarlægja bakhúsið við Leifsgötu 4b í Reykjavík fyrir 6. júní n.k. Einnig er lögð fram greinargerð Reykjavíkur dags. 9. júlí 2025. USK25060052

    Fylgigögn

  15. Lagt fram afgreiðslubréf borgarráðs, dags. 21. ágúst 2025, vegna samþykktar borgarráðs s.d. á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Vogabyggðar svæðis 1 vegna lóðarinnar nr. 54 við Stefnisvog. USK25070041

  16. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um gatnamót Höfðabakka og Bæjarháls, sbr. 35. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 13. ágúst 2025. Einnig er lagt fram svar skrifstofu samgangna og borgarhönnunar, dags 21. ágúst 2025.
    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins gegn tveimur atkvæðum Sjálfstæðisflokksins. Fulltrúi Framsóknarflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins. USK25080117

    Fulltrúar Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Eins og fram kemur í umsögn ganga þessar framkvæmdir út á að bæta umferðaröryggi og flæði með snjöllustu umferðarstýringu sem völ er á. Nú eru framkvæmdir að klárast og því ekki unnt né ástæða til að sveigja af leið að svo stöddu. Framkvæmdir hafa skapað tafir á svæðinu en þegar þeim er lokið og ljósin hafa verið tekin í notkun eiga aðstæður að batna til muna.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Ófremdarástand ríkir á gatnamótum Höfðabakka og Bæjarháls eftir að gatnamótin voru þrengd og tveimur beygjuakreinum lokað. Breytingin hefur í för með sér umferðaröngþveiti á gatnamótunum og stórauknar umferðartafir á stóru svæði í austurhluta borgarinnar. Breytingin virðist hafa verið gerð í því skyni að tefja vísvitandi fyrir umferð. Unnt er að stórbæta öryggi gangandi og hjólandi á gatnamótunum án þess að þrengja þau og fjarlægja umræddar beygjuakreinar. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 26. mars 2025 lögðust borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins gegn því að umræddar beygjuakreinar yrðu fjarlægðar og bentu á að slík breyting myndi draga úr umferðarflæði og valda óþarfa töfum á umferð. Um leið og beygjuakreinunum var lokað jukust umferðartafir gífurlega á gatnamótunum og þar er nú hreinasta umferðaröngþveiti á annatímum. Slíkt ástand er óviðunandi og því hafa fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lagt fram tillögu um að umræddar beygjuakreinar verði opnaðar að nýju. Meirihluti Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokksins, Flokks fólksins og Vinstri grænna hefur nú fellt tillögu Sjálfstæðisflokksins um að gerðar verði tafarlausar úrbætur á gatnamótum Höfðabakka og Bæjarháls í því skyni að draga úr umferðartöfum þar. Með því sýnir meirihlutinn að vegna kreddufullrar afstöðu til umferðarmála, er hann ekki fær um að horfast í augu við eigin mistök og leiðrétta þau.

    Fylgigögn

  17. Lögð fram fyrirspurn Sjálfstæðisflokksins um afkastagetu gatnamóta Höfðabakka og Bæjarháls, sbr. 24. liður fundargerðar borgarráðs dags. 21. ágúst 2025. Tillögunni var vísað til umhverfis- og skipulagsráðs til meðferðar. Einnig er lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgangna og borgarhönnunar. MSS25080056

    Fylgigögn

  18. Lögð fram tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um göngustíg við Árskóga 1-3, sbr. 19. liður fundargerðar borgarráðs dags. 24. júlí 2025. Tillögunni var vísað til umhverfis- og skipulagsráðs til meðferðar.
    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins gegn tveimur atkvæðum Sjálfstæðisflokksins. Fulltrúi Framsóknarflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins. MSS25070090

    Fulltrúar Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Þegar er búið að bregðast við athugasemdum íbúa og gera úrbætur á göngustígnum og fór sú vinna af stað í sumar. Úrbæturnar voru kynntar á síðasta ráðsfundi. Því er tillögunni vísað frá.

    Fylgigögn

  19. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
    Lagt er til að ráðist verði í holuviðgerð á Grjóthálsi, nálægt fjölförnum gatnamótum við Hálsabraut.

    Frestað. USK25090045

  20. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Lagt er til að ráðist verði í viðgerð á göngustíg við Eiðsgranda (Mánaleið). Allnokkrar skemmdir urðu á stígnum í óveðri síðasta vetur og flettist m.a. malbik af honum á um 250 metra kafla. Jafnframt er lagt til að ráðist verði í viðgerð á göngustíg við Skildinganes (Sólarleið) en þar eyðilagðist malbik á stuttum kafla.

    Frestað. USK25090044

  21. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Framsóknarflokksins:
    Framsókn leggur það til við umhverfs- og skipulagssvið að koma með tillögur að
    því hvernig megi útfæra skammtíma sleppistæði í miðborginni í nálægð við
    veitingastaði og verslanir, til að greiða aðgengi að heimsendingarþjónustu og
    styðja við rekstrarmöguleika veitingastaða og verslana í miðborginni. Greinargerð
    fylgir tillögu.
    Frestað. USK25090041

    Fylgigögn

  22. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn fulltrúa Framsóknarflokksins:

    Hvernig er staðan á vinnu við gerð hverfisskipulags fyrir Kjalarnes sem að fór í gang í apríl sl. ? Tímalína gerði ráð fyrir að vinnutillögur væru klárar í haust. Áhugi landeigenda Hofs og Gróartúns að fara af stað með skipulagsvinnu er mikil. Þar gefst borginni tækifæri til að fara í fjölbreyttari uppbyggingu á íbúðarhúsnæði en á fyrirhuguðum þéttingarreitum. íbúar Kjalarnes lögðu mikla áherslu á samráðsfundinum að á Kjalarnesi yrði áfram "sveit í borg" upplifun i framtíðarskipulagi. USK25090040

    -    Kl. 11:52 víkur Hjálmar Sveinsson af fundi

Fundi slitið kl. 11:54

Dóra Björt Guðjónsdóttir Aðalsteinn Haukur Sverrisson

Birkir Ingibjartsson Einar Sveinbjörn Guðmundsson

Hildur Björnsdóttir Kjartan Magnússon

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 3. september 2025