Umhverfis- og skipulagsráð
Ár 2025, miðvikudaginn 29. janúar, kl. 9:04 var haldinn 332. fundur umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Dóra Björt Guðjónsdóttir, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Pawel Bartoszek og áheyrnarfulltrúarnir Andrea J. Helgadóttir og Einar Sveinbjörn Guðmundsson. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild: Líf Magneudóttir og Unnur Þöll Benediktsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Björn Axelsson, Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, Sunna Stefánsdóttir og Sigurjóna Guðnadóttir.
Fundarritari var Auðun Helgason.
Þetta gerðist:
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 23. janúar 2025, þar sem kemur fram að Alexandra Briem taki sæti sem varamaður í umhverfis- og skipulagsráði í stað Elísabetar Guðrúnar Jónsdóttur. MSS22060046
Fylgigögn
-
Lagt er til að umhverfis- og skipulagsráð samþykki að veita heimild fyrir áframhaldandi undirbúningi, verkhönnun og gerð útboðsgagna vegna breytinga á fyrirkomulagi á gatnamótum Grensásvegar og Ármúla/Skeifunnar.
Samþykkt. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Lögð fram svohljóðandi bókun fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar:
Við fögnum fyrirhuguðum breytingum á gatnamótum Grensásvegar og Ármúla/Skeifunnar sem er ætlað að tryggja aðgengi og öryggi þeirra sem eru fótgangandi. Fjöldi gangandi vegfarenda sem fara um þessi gatnamót hefur aukist. Vegna mikillar uppbyggingar íbúða við þessi gatnamót, skólahúsnæði á svæðinu og fyrirhugaðrar uppbyggingar í sjálfri Skeifunni verður ekki hjá því vikist að fara í þessar framkvæmdir. Við vekjum jafnframt athygli á því að æskilegt er að fara í sambærilegar breytingar á gatnamótum Fellsmúla og Grensásvegar og einnig að gera Grensásveg milli Miklubrautar og Suðurlandsbrautar öruggari og þægilegri fyrir gangandi vegfarendur áður en langt um líður.
Lögð fram svohljóðandi bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja aðgerðir í því skyni að auka öryggi gangandi vegfarenda við gatnamót Grensásvegar og Ármúla, t.d. með miðeyjum og upphækkuðum og vel lýstum gangbrautum. Unnt væri að ná enn meiri árangri með skynjaratengdri snjallljósastýringu og er sviðið hvatt til að innleiða slíka tækni á umræddum gangbrautum. Hins vegar er líklegt er að þrenging Grensásvegar hafi í för með sér auknar umferðartafir og stíflur. Því er varað við slíkri þrengingu og lagst gegn henni.
Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Fulltrúi Flokks fólksins fagnar öllum þeim aðgerðum sem auka aðgengi og öryggi gangandi vegfarenda. Miklar breytingar hafa átt sér stað á þessu rótgróna verslunar- og þjónustusvæði og því tímabært að huga að þeim þáttum sem þarna er um rætt. Á þessu svæði er eins og allir vita, oft mikil umferð að verslunum og þjónustu og einnig á annatímum vegna stórra stofnbrauta í næsta nágrenni. Það er því ljóst að þétting byggðar á umferðarþungum svæðum sem þessum, þarf að tryggja öryggi gangandi vegfarenda eins og kostur er - eins og þarna er verið að gera. Það hefur því miður ekki alltaf verið svo eins og sorgleg dæmi eru um. En þarna á líka að fækka akreinum í báðar áttir á Grensásvegi sem þýðir að sú umferð sem þar hefur farið um gæti mögulega orðið enn þyngri en nú er. Vegna þess gæti svo einhver hluti þeirrar umferðar leitað annað með tilheyrandi álagi á þau svæði sem fyrir því verða. Þó að fagnað sé bættu aðgengi og öryggi gangandi vegfarenda á þessum gatnamótum gætu orðið til önnur vandamál á öðrum svæðum í kjölfarið - og alls óvíst hvernig aðgengi og öryggi gangandi vegfarenda á þeim svæðum er háttað.
Höskuldur Rúnar Guðjónsson ráðgjafaverkfræðingur tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK24090294
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar skipulagsfulltrúa dags. 23. janúar 2025. USK22120094
Fylgigögn
-
Lögð fram drög að yfirliti verkefnis og hlutverks vinnuhóps um yfirferð umsókna til Húsverndarsjóðs Reykjavíkurborgar 2025. Þar kemur fram að Sigrún Reynisdóttir frá embætti byggingarfulltrúa, Sólveig Sigurðardóttir frá embætti skipulagsfulltrúa og Bjarki Þór Wíum f.h. borgarsögusafns skipi vinnuhópinn auk tveggja fulltrúa umhverfis- og skipulagsráðs. Lagt er til að umhverfis- og skipulagsráð skipi tvo fulltrúa í vinnuhópinn.
Samþykkt að skipa Einar Sveinbjörn Guðmundsson og Kjartan Magnússon í vinnuhópinn.- Kl. 9:59 víkur Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir af fundi. USK25010158
- Kl. 10:03 tekur Ólöf Örvarsdóttir sviðsstjóri sæti á fundinum.
-
Að lokinni grenndarkynningu er lögð fram að nýju umsókn Auðar Hreiðarsdóttur/Esju Architecture, dags. 9. janúar 2023, um breytingu á deiliskipulagi Heimahverfis vegna lóðarinnar nr. 36 við Sólheima. Í breytingunni sem lögð er til felst að byggingarreitur fyrir bílskúr er færður til vesturs og staðsettur í vesturhorni lóðar á mörkum Sólheima 34, 36 og Glaðheima 18, ásamt því að notkun hans er breytt í tómstundahús, og byggingarreitur fyrir íbúðarhús er færður neðar á lóðina til að passa núverandi íbúðarhúsi ásamt því að hægt verði að stækka húsið, samkvæmt uppdráttum Esju Architecture, deiliskipulags- og skuggavarpsuppdrættir, dags. 27. nóvember 2024. Tillagan var grenndarkynnt frá 16. desember 2024 til og með 13. janúar 2025. Athugasemdir bárust. Einnig eru lögð fram tillaga Esju Architecture að hönnunarbreytingu tómstundarhúss, dags. 19. nóvember 2024, skuggaáhrif á Glaðheima 18, dags. 15. nóvember 2025, og minnisblað, dags. 14. janúar 2025. Jafnframt er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 23. janúar 2025. Lagt er til að tillagan verði samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa.
Samþykkt með vísan til a. liðar 1. gr. í viðauka 1.1 um fullnaðarafgreiðslur umhverfis- og skipulagsráðs án staðfestingar borgarráðs.Olga Guðrún B. Sigfúsdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK24010104
-
Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa dags. 21. janúar 2025. USK24070166
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar samgöngustjóra dags. 20. janúar 2025 ásamt fylgigögnum. USK25010025
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð SORPU nr. 510, dags. 15. janúar 2025 ásamt fylgigögnum. USK23010167
Fylgigögn
-
Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. desember 2024 ásamt kæru nr. 179/2024, dags. 20. desember 2024, þar sem kærð er ákvörðun skipulagsfulltrúa að samþykkja breytingu á skilmálum deiliskipulags reits 1.520, Lýsisreits vegna lóðarinnar Hringbraut 121. Einnig er lögð fram greinargerð Reykjavíkurborgar dags. 6. janúar 2025. Jafnframt er lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 22. janúar 2025. Úrskurðarorð: Felld er úr gildi ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 28. nóvember 2024 um að samþykkja tillögu að breytingu á skilmálum deiliskipulags reits 1.520, Lýsisreits, vegna lóðar nr. 121 við Hringbraut. USK24120215
Fylgigögn
-
Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. október 2024 ásamt kæru nr. 122/2024, dags. 18. október 2024, þar sem kærð er ákvörðun byggingarfulltrúa um synjun umsóknar kæranda um endurnýjun á áður gerðir samþykkt er varðar eign kæranda að Njarðargötu 43. Einnig er lögð fram greinargerð Reykjavíkurborgar, dags. 21. nóvember 2024. Jafnframt er lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 21. janúar 2025. Úrskurðarorð: Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. október 2024 um að synja umsókn um byggingarleyfi vegna áður gerðra framkvæmda að Njarðargötu 43, Reykjavík. USK24100216
Fylgigögn
-
Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. janúar 2025 ásamt kæru nr. 6/2025, dags. 13. janúar 2025, þar sem kærð er ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar, dagsett 20. desember 2024, þar sem kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda að Álfabakka 2A var synjað. Einnig er lögð fram greinargerð Reykjavíkurborgar dags. 21. janúar 2025. USK25010114
Fylgigögn
-
Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. janúar 2025 ásamt kæru nr. 181/2024, dags. 24. desember 2024, þar sem kærð er ákvörðun deildar afnota og eftirlits á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar. USK25010033
Fylgigögn
-
Lagt fram afgreiðslubréf borgarráðs, dags. 16. janúar 2025, vegna samþykktar borgarráðs s.d. á tillögu að breytingu á hverfisskipulagi Árbæjar, hverfi 7.1 Ártúnsholt vegna lóðarinnar nr. 9 við Straum. USK23120094
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um úrbætur á gatnamótum Úlfarsbrautar og Urðarbrunns, sbr. 30 liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs 16. október 2024. Einnig lögð fram umsögn skrifstofu samgangna og borgarhönnunar dags. 23. desember 2024.
Tillagan er felld með fimm atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiða atkvæði með tillögunni. USK24100169Lögð fram svohljóðandi bókun fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar:
Vegna vinstribeygju strætó á þessum stað er ekki æskilegt að hafa þarna hefðbundið hringtorg. Talið er að forgangur Úlfarsbrautar fram yfir Urðarbrunn valdi auknum umferðarhraða og þar með auka líkur á alvarlegri umferðarslysum. Því er tillagan felld. Slys á árinu 2024 virðist ekki hafa haft með útfærslu gatnamótanna að gera.
Lögð fram svohljóðandi bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna hafa fellt tillögu Sjálfstæðisflokksins um úrbætur á gatnamótum Úlfarsbrautar og Urðarbrunns. Fjölmargir íbúar hafa óskað eftir úrbótum á umræddum gatnamótum þar sem ekki er skýrt hvort þar sé um hringtorg eða venjuleg gatnamót að ræða. Óvissa um slíkt hefur ítrekað valdið misskilningi og hættu. Umsögn samgöngustjóra um tillöguna, þar sem segir að ekki sé talin ástæða til að bregðast sérstaklega við, lýsir skilningsleysi á ríkjandi aðstæðum. Í umsögninni kemur að samkvæmt slysaskrá Samgöngustofu hafi orðið tvö umferðarslys á eða í nágrenni gatnamótanna, sem haft hafi í för með sér meiðsli á fólki. Upplýsingar vegna 2024 liggja ekki fyrir en 3. október það ár var ekið var á dreng á leið í skólann á umræddum gatnamótum. Drengurinn var fluttur á slysadeild í sjúkrabíl. Í frétt Vísis um málið kemur fram að lögreglan telji æskilegt að fyrirkomulag gatnamótanna verði skoðað m.t.t. öryggisaðstæðna. Samkvæmt slysakorti Samgöngustofu urðu fimm skráð óhöpp á gatnamótunum eða við þau á árinu 2023, tvö árið 2022, eitt árið 2021 og eitt árið 2019. Þar af var þrisvar ekið á fótgangandi við biðstöð og þrem sinnum var um að ræða árekstur tveggja bifreiða. Svo virðist sem óhöppum í og við umrædd gatnamót fari fjölgandi og er ábyrgðarlaust að bregðast ekki við slíkri þróun.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um viðgerð á tröppum við Seljaskóla, sbr. 29. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 11. október 2023. Vísað til umsagnar, umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds. Einnig er lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds, dags. 4. mars 2024.
Tillögunni er vísað til meðferðar skrifstofu framkvæmda og viðhalds. USK23100148Lögð fram svohljóðandi bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Brýnt er að ráðist verði í viðgerðir og endurbætur á steinsteyptum tröppum við norðanverðan Seljaskóla. Umræddar tröppur eru fyrir neðan Hnjúkasel og Kambasel og er hluti þeirra svo illa farinn að hættu stafar af, ekki síst þegar hálka myndast í þeim að vetri vegna frosts og snjóa. Jafnframt er lagt til að snjóbræðslukerfi verði sett í umræddar tröppur eða a.m.k. hluta þeirra. Fyrirliggjandi tillaga Sjálfstæðisflokksins um málið var lögð fram 11. október 2023. Rúma fimmtán mánuði hefur því tekið að fá umsögn um tillöguna! Í umsögninni kemur þó hvorki fram skýr afstaða til þess hvort þörf sé á því að gera við tröppurnar né hvenær unnt verði að ráðast í verkið. Ljóst er að þessi sjálfsagða framkvæmd verður hvorki dýr né tímafrek og hvetja borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins til þess að gengið verði í hana sem fyrst. Áður fluttu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins tillögu um sama efni í borgarráði í júlí 2017 en án árangurs. Er með ólíkindum hvað langan tíma virðist ætla að taka að ganga í þetta einfalda og sjálfsagða viðhaldsmál.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um úrskurð Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. 34. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs dags. 26. júní 2024. Einnig er lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa dags. 9. janúar 2025. USK24060430
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um mótmæli íbúa Grafarvogs, sbr. 37. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs dags. 26. júní 2024. Einnig er lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa dags. 9. janúar 2025. USK24060434
Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Fulltrúi Flokks fólksins vill enn og aftur minna á að samráð við íbúa á þeim svæðum þar sem verið er að þétta byggð í trássi við þá íbúa sem fyrir eru, getur oft valdið ákveðnum vandræðum. Stundum hafa ákveðin “skipulagsslys” átt sér stað einmitt þegar rokið er af stað í framkvæmdir án ítarlegra grenndarkynningar og viðunandi samráðs við íbúa - eins og nýlegt dæmi við Álfabakka sannar. Íbúar hafa lýst yfir áhyggjum varðandi það græna svæði sem þarna er - ásamt því að fyrirhuguð byggð muni ógna þeim innviðum sem fyrir eru í hverfinu. Fulltrúinn ítrekar þá skoðun að þörf er á ákveðinni endurhugsun hvað varðar skipulagsmál og þéttingu byggðar á þeim svæðum þar sem mikil uppbygging hefur átt sér stað fyrir. Það þarf virkilega að virkja enn frekar skapandi hugsun hvað varðar heildar skipulag Reykjavíkur. Það eru svo margir samspilandi þættir sem huga þarf að. Það einlæg von fulltrúans að hlustað verði betur á þá íbúa sem á þessum svæðum búa. Það er einfaldlega öllum í hag þegar til lengri tíma er litið.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um bryggju yfir leirur í Grafarvogi, sbr. 35. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 13. nóvember 2024. Einnig er lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa dags. 9. janúar 2025. USK24110148
Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Fulltrúi Flokks fólksins þakkar svarið en vill um leið minna á að þétting byggðar þarf líka að eiga sér stað í meira mæli í þeim hverfum borgarinnar þar sem innviðir eru til staðar ásamt óskum íbúa um meiri byggð eins og á Kjalarnesi - í stað þess að halda áfram að þétta byggð á þeim svæðum þar sem mikil uppbygging hefur nú þegar átt sér stað. Það er ekkert því til fyrirstöðu að skoða þéttingu á þeim svæðum seinna. Það þarf að hugsa þetta í stærra samhengi og huga að aukinni umferð og álagi á innviði sem óhjákvæmilega fylgir þéttingu byggðar í fjölmennari hverfum. Lagning Sundabrautar ásamt uppbyggingu nýrra hverfa í Keldnaholti og á Kjalar- og Geldinganesi er það sem Höfuðborgarsvæðið þarf virkilega á að halda þegar litið er til þéttingu byggðar - burtséð frá því hvenær borgarlínan verður til. Það er hægt að skipuleggja hverfi þrátt fyrir að borgarlínan sé komin eða ekki. Í því samhengi vill fulltrúinn minna á að nú þegar er smærri útgáfa af borgarlínu í gangi á höfuðborgarsvæðinu - undir nafninu Strætó Bs.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um Álfabakka 2a, Suður Mjódd, sbr. 29. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs 18. desember 2024. Einnig er lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa dags. 9. janúar 2025. USK24120175
Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Fulltrúi Flokks fólksins vill taka fram að þrátt fyrir ítarlegt svar er alveg ljóst að röð mistaka virðist hafa átt sér stað hvað þessa framkvæmd varðar. Það versta í þessu öllu er það að framkvæmdir skuli ekki hafa verið stöðvaðar strax þegar þess var óskað - þó að ekki væri nema rétt á meðan málið væri til umfjöllunar og leiðir skoðaðar til úrbóta - ef einhverjar eru. Skipulagsslys sem þetta eru í raun sjaldséð. Það er með hreinum ólíkindum að nánast hvergi á leiðinni hafi einhver skipulagseining innan borgarinnar gert við þetta athugasemdir. Það er öllum ljóst að iðnaðar- og geymsluhúsnæði af þessari stærðargráðu á alls ekki heima á þessum stað. Sambland íbúabyggðar, létts iðnaðar og þjónustu getur stundum hentað - en þetta er eitthvað allt annað og meira. Í svari er rakin ákveðin tímalína sem og hin og þessi stig framkvæmda. Nú er búið að kæra framkvæmdina og þess vegna ljóst að þessu máli er alls ekki lokið. Nú þarf að ítreka þá ósk að framkvæmdir verði stöðvaðar til þess að reyna að minnka þann skaða sem nú þegar er orðinn. Það eru borgarbúar sem á endanum sitja uppi með þann kostnað sem mögulega af þessum ósköpum öllum mun verða.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Viðreisnar:
Lagt er til að við endurskoðun hjólreiðaáætlunar verði bætt við hjólatengingu frá sveitarfélagamörkum við Leirvogsá og upp að Esjurótum. Greinargerð fylgir tillögu. USK25010255
Samþykkt að vísa inn í endurskoðun hjólreiðaáætlunar.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um viðgerð snjallgangbrauta, sbr. 25. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs 22. janúar 2025.
Vísað til meðferðar skrifstofu framkvæmda og viðhalds. USK25010235
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um sparkvöll við Landakotstún, sbr. 24. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs 22. janúar 2025.
Vísað til umsagnar skrifstofu framkvæmda og viðhalds. USK25010233
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Lagt er til að aðkoma að Hlemmi verði bætt þegar í stað. Greiður aðgangur að inngöngum mathallarinnar verði tryggður eftir því sem kostur er. Þá verði leitast við að draga úr tjóni rekstraraðila þar með eftirgjöf á leigu í samvinnu við leigutaka hússins. Greinargerð fylgir tillögu.
Vísað til umsagnar skrifstofu samgangna og borgarhönnunar. USK25010265
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:
Skilgreindur verði sérstaklega í skipulagi jaðar skipulagssvæða sem ætluð eru fyrir atvinnustarfsemi, þar sem hann sem er í beinni snertingu við íbúðabyggð eða viðkvæma almannaþjónustu, svo sem stofnanir þar sem börn, veikt fólk eða á annan hátt viðkvæmir hópar dveljast í lengri tíma. Skipulagsmörk atvinnu- eða athafnatengdra skipulagssvæða við slíka viðkvæma byggð yrðu flögguð sem “við íbúðabyggð” þar sem skipulagssvæðin snertast. Allar atvinnulóðir upp við skipulagsmörk “við íbúðabyggð” tækju við þeirri skilgreiningu og hertum skilmálum um að starfsemi eða uppbygging valdi ekki verulega skertum lífsgæðum, hættu, mengun eða ónæði fyrir íbúa og viðkvæma hópa á aðliggjandi lóðum, umfram þá skilmála sem giltu skipulagssvæðið fyrir. Á slíkum lóðum þurfi í skipulagsferlinu að fá samþykki kjörinna fulltrúa áður en skrifað er undir byggingarleyfi eða starfsleyfi, og þurfi forhönnun að liggja fyrir og/eða áform um starfsemi á því stigi. Greinargerð fylgir tillögu.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, deildarstjóra aðalskipulags. USK25010290
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um kostnað við strætóleiðir, sbr. 27. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs 22. janúar 2025.
Vísað til umsagnar Strætó bs. USK25010237
-
Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um gatnalýsingu, sbr. 26. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs 22. janúar 2025.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu borgarlandsins. USK25010236
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Óskað er eftir upplýsingum um fyrirkomulag endurnýjunar íbúakorta Bílastæðasjóðs. Æskilegt er að slík endurnýjun gangi greiðlega fyrir sig og hafi sem minnsta fyrirhöfn í för með sér fyrir íbúa. Er rétt að íbúar þurfi árlega að leggja fram nýja umsókn um íbúakort þótt hvorki sé skipt um bíl né heimilisfang og allar upplýsingar liggi fyrir? Hversu langan tíma tekur að afgreiða umsókn um íbúakort þegar sótt er um endurnýjun íbúakorts og allar upplýsingar liggja fyrir? Er hægt að koma því við að Bílastæðasjóður staðfesti móttöku netumsókna um íbúakort? USK25010311
- Kl. 10:40 víkur Hjálmar Sveinsson af fundi.
- Kl. 10:43 víkur Hildur Björnsdóttir af fundi.
Fundi slitið kl. 10:57
Dóra Björt Guðjónsdóttir Líf Magneudóttir
Kjartan Magnússon Pawel Bartoszek
Unnur Þöll Benediktsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 29. janúar 2025