Umhverfis- og skipulagsráð
Ár 2025, miðvikudaginn 22. janúar, kl. 9:10 var haldinn 331. fundur umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Dóra Björt Guðjónsdóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Pawel Bartoszek og áheyrnarfulltrúarnir Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir og Einar Sveinbjörn Guðmundsson. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild: Hildur Björnsdóttir og Líf Magneudóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Björn Axelsson, Brynjar Þór Jónasson, Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, Guðmundur Benedikt Friðriksson, Inga Rún Sigurðardóttir, Sunna Stefánsdóttir og Hólmfríður Frostadóttir.
Fundarritari var Glóey Helgudóttur Finnsdóttir.
Þetta gerðist:
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 20. janúar 2025, þar sem kemur fram að Einar Sveinbjörn Guðmundsson taki sæti sem áheyrnarfulltrúi í umhverfis- og skipulagsráði í stað Kolbrúnar Áslaugar Baldursdóttur. MSS22060046
Fylgigögn
-
Lögð fram drög að erindisbréfi þar sem lagt er til að valnefnd verði skipuð Hrönn Hrafnsdóttur deildarstjóra sem verði formaður hópsins, Hjálmari Sveinssyni borgarfulltrúa og Brynhildi Davíðsdóttur prófessor. Upphæð styrksins árið 2025 verði 500.000.
Samþykkt USK24090178Fylgigögn
-
Fram fer kynning á athugasemdum sem bárust vegna húsnæðisuppbyggingar í Grafarvogi ásamt kynning á þróun vinnu við tillögur í Grafarvogi.
Hjördís Sóley Sigurðardóttir, teymisstjóri, Margrét Lára Baldursdóttir sérfræðingur og Þorlákur Jón Ingólfsson sérfræðingur taka sæti á fundinum undir þessum lið.- Kl. 09:18 tekur Haraldur Sigurðsson sæti á fundinum USK24070182
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram bókun sem færð hefur verið í trúnaðarbók.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram bókun sem færð hefur verið í trúnaðarbók. -
Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa, dags. 14. janúar 2025. USK24070166
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar samgöngustjóra dags. 13. janúar 2025 ásamt fylgigögnum. USK25010025
Fylgigögn
-
Lagt er til að umhverfis- og skipulagsráð samþykki að unnið verði með Vegagerðinni að gerð forgangsakreinar fyrir almenningssamgöngur (Strætó) vestanmegin á Kringlumýrarbraut, milli Háaleitisbrautar og Miklubrautar fyrir akstursstefnu til suðurs í samræmi við meðfylgjandi frumdrög.
Bjarni Rúnar Ingvarsson deildarstjóri, Katrín Halldórsdóttir frá Betri samgöngum, Grétar Mar Hreggviðsson ráðgjafaverkfræðingur, Daði Baldur Ottósson frá EFLU og Cecilía Þórðardóttir frá Vegagerðinni taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Samþykkt- Kl. 10:33 víkur Brynjar Þór Jónasson af fundi USK24120037
Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Sérakrein fyrir almenningssamgöngur á Kringlumýrarbraut í suðurátt er fagnaðarefni. Hins vegar er rétt að benda á að Kringlumýrarbraut sker á bilinu milli Miklubrautar og Háaleitisbrautar tvö íbúðahverfi í sundur. Aðstæður fyrir gangandi vegfarendur sem þurfa að þvera Kringlumýrarbraut eru afleitar. Úr því er mikilvægt að bæta. Með nýrri göngutengingu yfir götuna myndi skapast tækifæri til að hafa stoppistöðvar sunnar sem gæti þjónað hverfinu vel.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja fyrirliggjandi tillögu um forgangsakrein fyrir strætisvagna og aðrar almenningssamgöngur, vestan megin á Kringlumýrarbraut (milli Háaleitisbrautar og Miklubrautar), fyrir akstursstefnu til suðurs. Þessi framkvæmd er í samræmi við stefnu og tillögur Sjálfstæðisflokksins um að hefja skuli að nýju lagningu slíkra forgangsakreina við stofnbrautir í borginni eftir of langt hlé.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins líst vel á þessa tillögu - nema að því leyti að ekki virðist vera hugað að flæði gangandi vegfarenda sem eiga leið á milli hverfa yfir Kringlumýrarbraut. Einungis er um tvær leiðir að ræða - í sitt hvorum enda Kringlumýrarbrautar og það getur tekið langan tíma fyrir bæði gangandi og hjólandi vegfarendur að komast þarna yfir. Betur hefði farið á því að gert hefði verið samhliða ráð fyrir göngu- og hjólabrú miðsvæðis yfir Kringlumýrarbraut og stoppistöð strætó staðsett miðað við þá brú. Kringlumýrarbraut er ein af umferðarþyngstu götum í Reykjavík og þar þarf virkilega að bæta aðgengi gangandi fólks sem þar á leið um.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar skipulagsfulltrúa dags. 16. janúar 2025. USK22120094
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á framfylgd aðalskipulags – lykilmælikvarða.
Haraldur Sigurðsson deildarstjóri og Margrét Lára Baldursdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. USK25010169
Fylgigögn
-
Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að nærþjónustukjarna innan íbúðarbyggðar (ÍB7) í Skerjafirði.
Samþykkt sbr. 1. og 2. mgr. 32 gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Vísað til borgarráðs.Haraldur Sigurðsson deildarstjóri og Margrét Lára Baldursdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. USK24020304
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýsa yfir ánægju með að fallist hafi verið á ósk eiganda Einarsness 36 um að breyta skilgreiningu á hluta hússins úr atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði. Frá upphafi málsins hafa fulltrúar Sjálfstæðisflokksins viljað fallast á ósk húseigandans og m.a. lögðust þeir gegn neikvæðri umsögn skipulagsfulltrúa um málið, sem samþykkt var með atkvæðum Framsóknarflokks, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna á fundi ráðsins 7. júlí 2022. Ánægjulegt er að fulltrúar meirihlutans hafi séð að sér og skipt um skoðun í málinu og er þeim hrósað fyrir það.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins er sammála umsögn íbúaráðs Vesturbæjar að leiðinlegt sé að ekki hafi tekist nægilega vel að reka nærþjónustukjarna þarna. Það er ljóst að virkir nærþjónustukjarnar geta verið ákveðin lífsgæði fyrir íbúa á slíkum svæðum. Í raun er þetta svæði svolítið sér á parti vegna flugvallarins í næsta nágrenni sem augljóslega hindrar vöxt íbúabyggðar og þannig fólksfjölgunar á svæðinu - sem þá líklega skerðir um leið rekstrargrundvöll öflugrar nærþjónustu. Vert er að minna á að í umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er tekið fram að ákveðin hávaðamengun sé þarna til staðar sem hafa þarf í huga varðandi breytingu nærþjónustukjarna í íbúabyggð. Þó er ljóst að þarna er fyrir rótgróin byggð sem sætir sama álagi. Auðvitað hefði verið betra að geta byggt upp öflugan nærþjónustukjarna næst flugvellinum og stækka þá byggð fjær þeirri hávaðamengun sem talað er um - en slíkt er ákveðnum takmörkunum háð hvað þetta svæði varðar. Fulltrúi Flokks fólksins gerir að öðru leyti engar athugasemdir við þessa breytingartillögu.
-
Lögð fram umsókn Yrki arkitekta, dags. 29. október 2024, ásamt bréfi Reita fasteignafélags, dags. 29. október 2024, um breytingu á deiliskipulagi Laugavegs 168-176 vegna lóðarinnar nr. 176 við Laugaveg. Í breytingunni sem lögð er til felst breyting á lóðamörkum lóðarinnar, breyting á skipulagsmörkum sem nemur breyttri lóð og skilgreiningu á aðkomu leigubíla að lóðinni, samkvæmt uppdr. Yrki arkitekta, dags. 29. október 2024. Einnig er lögð fram skýringarmynd Landslags, dags. 24. september 2024, sem sýnir bílastæði og aðkomu og skýringarmynd Yrki arkitekta, ódags., sem sýnir samhengi tillagna við Laugaveg.
Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Vísað til borgarráðs. USK24100337Fylgigögn
-
Lögð fram umsókn Teiknistofunnar Storð ehf., dags. 14. maí 2024, ásamt bréfi Hermanns Georgs Gunnlaugssonar, dags. 14. maí 2024, um breytingu á deiliskipulagi Grafarlækjar-Stekkjarmóa-Djúpadals vegna lóðarinnar nr. 2-4 við Grafarlæk. Í breytingunni sem lögð er til felst að koma fyrir byggingarreit fyrir vélageymslu Golfklúbbs Reykjavíkur og og steypt hólf eða grifjur fyrir efnislager, samkvæmt uppdr. Teiknistofunnar Storð ehf., dags. 15. janúar 2025.
Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Vísað til borgarráðs.Þórður Már Sigfússon, verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK24050161
Fylgigögn
-
Að lokinni kynningu er lögð fram að nýju skipulagslýsing umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa, dags. í nóvember 2024, vegna fyrirhugaðrar breytingar á deiliskipulagi Elliðaárvogs fyrir Geirsnef. Svæðið afmarkast af skipulagsmörkum í gildandi skipulagi í austri og suðri. Það er frá Elliðaá í austri og Vesturlandsvegi í suðri. Að skipulagsmörkum Vogabyggðar 5 í norðvestri og að skipulagsmörkum Vesturlandsvegar, Knarrarvogar og Vogabyggðar 3. Tilgangur deiliskipulagsvinnunnar er að koma á skipulagi á Geirsnefið sem fjölbreyttu útivistarsvæði. Lýsingin var kynnt frá 14. nóvember 2024 til og með 5. desember 2024. Athugasemdir og umsagnir bárust. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dag. 16. janúar 2025.
Athugasemdir kynntarHrönn Valdimarsdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK24100368
Fulltrúar Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Athugasemdir um skipulagslýsingu leggja mikla áherslu á gæði svæðisins sem útivistarsvæðis fyrir hunda og hundaeigendur. Dýraþjónusta Reykjavíkur býður fram ráðgjöf við útfærslu til frambúðar. Þessar athugasemdir ber að taka alvarlega og halda í lausagöngusvæði fyrir hunda og jafnvel hafa þarna flottan almenningsgarð með heimild fyrir lausagöngu. Dýr eru hluti af borgarlífinu og síðustu ár hefur Reykjavíkurborg stigið skref í þá átt að huga betur að þörfum dýra og dýraeigenda og bjóða dýr velkomin í borginni.
Fylgigögn
-
Lagt fram afgreiðslubréf borgarstjórnar, dags. 9. janúar 2025, vegna samþykkar borgarstjórnar frá 7. janúar 2025 á tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir Veðurstofureit. USK23030053
Fylgigögn
-
Lagt fram afgreiðslubréf borgarráðs, dags. 9. janúar 2025, vegna samþykkar borgarráðs s.d. á auglýsingu á tillögu að breytingu deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar. USK24120041
Fylgigögn
-
Lagt fram afgreiðslubréf borgarráðs, dags. 9. janúar 2025, vegna samþykkar borgarráðs s.d. á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Lokastígsreits 4, vegna lóðarinnar nr. 61 við Njarðargötu. USK23070148
Fylgigögn
-
Lagt fram afgreiðslubréf borgarráðs, dags. 9. janúar 2025, vegna samþykkar borgarráðs s.d. á auglýsingu á auglýsingu á tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir göturými á Ártúnshöfða 2 vegna 1. lotu Borgarlínu. USK24120106
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa í ungmennaráði Árbæjar og Holta um innleiðingu nýrrar strætóleiðar fyrir úthverfi Reykjavíkurborgar, sbr. fundargerð borgarráðs, dags. 27. febrúar 2024. Einnig er lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgangna og borgarhönnunar, dags. 20. janúar 2024 ásamt fylgigögnum.
Felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar, gegn tveimur atkvæðum Sjálfstæðisflokksins. Fulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins. MSS24020129
Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Sú leið sem beðið er um myndi kosta 600-800 milljónir árlega en hægt er að tengja þessi svæði saman með einni skiptingu. Með nýju leiðarneti Borgarlínu er áætlað að leiðir sem tengjast öllum þeim stöðum sem nefndir eru í tillögunni mætist við Krossamýrartorg á Ártúnshöfða. Þar er því kjörin skiptistöð fyrir þau sem þurfa að komast á milli þeirra svæða sem nefnd eru án þess að það þurfi að hlykkja leiðir til en almennt er það keppikefli við skipulag almenningssamgangna að leiðir vagnanna séu sem beinastar og að sem fæstir og minnstir krókar séu á þeim. Það er svo að þeir sem sitja í vögnunum þurfi sem fæsta króka að taka og almenningssamgöngur séu þannig raunverulegri valkostur fyrir vegfarendur t.d. í samanburði við það að aka í bíl. Vegna ofangreinds er ekki talið skynsamlegt að verja 800 milljónum á ári í þessa nýju strætóleið að svo stöddu.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja tillögu ungmennaráðs Árbæjar og Holta um bættar almenningssamgöngur fyrir íbúa Árbæjar, Norðlingaholts og Grafarholts vera athyglisverða og að full ástæða sé til að skoða hana betur. Beinum tengingum milli eystri hverfa borgarinnar er ábótavant og er það ákveðinn veikleiki á strætisvagnakerfinu. Rétt er að skoðað verði til hlítar hvort hægt sé að bæta úr þessum veikleika með því að koma á beinni tengingu milli Árbæjar, Norðlingaholts og Grafarholts og jafnvel fleiri hverfa í austurhluta borgarinnar, t.d. Grafarvogs og Breiðholts.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Svör til ungmennanna koma mjög seint því það er ár síðan þessar tillögur voru lagðar fram. Fulltrúanum finnst líka það vera frekar lélegt að afskrifa þessa tillögu með því að tala um að þetta sé dýrt og að engar úrbætur séu mögulegar fyrr en borgarlína kemur. Í framhaldi væri fróðlegt að vita hver er samanlagður kostnaður vegna þeirra 11 leiða sem um þessa borgarhluta aka. Spurningar vakna hvort hægt væri að skoða þessa tillögu ungmennaráðsins í samhengi við þær leiðir m.t.t. hvort mögulega væri þarna tækifæri til endurbóta á því 11 leiðakerfi sem nú þegar er í notkun? Finnst fulltrúanum því þarna vera algjörlega gengið framhjá vilja og tillögu ungmennaráðsins - sem n.b. eru fulltrúar mikils fjölda viðskiptavina Strætó bs.Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa í ungmennaráði Kjalarness um aukna tíðni strætóferða til og frá Kjalarnesi, sbr. fundargerð borgarráðs, dags. 27. febrúar 2024. Einnig er lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgangna og borgarhönnunar, dags. 20. janúar 2024 ásamt fylgigögnum.
Samþykkt og umhverfis- og skipulagssviði falið að útfæra tillögu um aukna tíðni í samráði við Strætó bs. í tilraunaskyni til eins árs. MSS24020132
Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Vilji er til að stíga skref til að mæta þörfum fyrir aukna tíðni í tilraunaskyni. Sömuleiðis er vilji til þess að mæta þeirri þörf að koma upp strætóskýli á svæðinu. Tillagan er því samþykkt og umhverfis- og skipulagssviði er falið að útfæra auknu tíðnina í samráði við Strætó bs.
Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Á Kjalarnesi er afskaplega vindasamt í ákveðnum áttum og óboðlegt að þurfa að standa óvarinn útivið á meðan beðið er eftir akstri. Það er bráðnauðsynlegt að bjóða upp á að hægt sé að bíða í skjóli fyrir veðrum og vindum auk þess sem við teljum nauðsynlegt að auka tíðni ferða á svæðinu til að koma til móts við þann hóp ungmenna, auk annarra, sem ekki eiga annan kost á að koma sér á milli staða.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins bendir á að líkt og í fyrri svörum Strætó til annars ungmennaráðs, eru svör að koma seint og bent á kostnað sem fyrirstöðu. Ótrúlegt hvað illa gengur að bæta almenningssamgöngur þrátt fyrir ítrekaðar óskir margra borgarbúa. Hér er ungmennaráðið einnig að óska eftir bættri biðaðstöðu á akstursleiðum, þá líklega með uppsetningum á biðskýlum eða endurbótum á þeirri aðstöðu sem fyrir er - ef einhver. Það má alveg taka það fram að akkúrat á þessum vegarkafla eru veður hvað vályndust á höfuðborgarsvæðinu. Fulltrúi Flokks fólksins minnist ummæla á sínum tíma í borgarstjórn varðandi það hversu langt á eftir öðrum norrænum borgum Reykjavík er hvað varðar gæði þeirrar biðaðstöðu sem í boði er í borginni. Veðurfar á Íslandi er einfaldlega með þeim hætti að borgin ætti miklu frekar að skara fram úr hvað þetta varðar - frekar en hitt. Einnig er bent á í umsögn að ef tíðni ferða yrði aukin samkvæmt vilja ungmennaráðsins, myndi það bitna á bílum pöntunarþjónustu - sem þá yrðu væntanlega strandaglópar í hinni alræmdu umferðarteppu höfuðborgarsvæðisins sem virðist ekki hafa gert annað en að aukast ár frá ári. Það er því að mörgu að hyggja hvað þetta varðar og alveg rétt hjá ungmennaráði að úrbóta er þörf.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um tröppur við Laufásveg, sbr. 35. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs 6. nóvember 2024. Einnig er lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds, dags. 14. nóvember 2024.
Vísað til mats og meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds. USK24110055
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Brýnt er að ráðast í viðgerð og endurbætur á skemmdum, steinsteyptum tröppum, sem liggja milli Fríkirkjuvegar 1 og Mæðragarðsins, upp á Laufásveg. Umræddar tröppur eru brattar og jafnvel hættulegar, ekki síst í hálku. Fyrirliggjandi umsögn skrifstofu framkvæmda og viðhalds um málið er bæði nafnlaus og óskýr. Í umsögninni kemur hvorki fram skýr afstaða til þess hvort þörf sé á því að gera við tröppurnar né hvenær það verði gert. Einungis að tillagan verði metin í borgarkerfinu. Æskilegt hefði verið að í umsögninni hefði skýr afstaða verið tekin til þess hvort þörf sé á umræddri viðgerð og hvenær verði unnt að ráðast hana. Ljóst er að þessi sjálfsagða framkvæmd verður hvorki dýr né tímafrek og hvetja borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins til þess að gengið verði í hana sem fyrst.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um grundvallar endurskoðun á uppbyggingaráformum í Grafarvogi, sbr. 33. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 13. nóvember 2024. Greinargerð fylgir tillögu. Einnig er lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu Aðalskipulags og loftlagsmála, húsnæðisátakshóps, dags. 10. janúar 2025.
Vísað frá með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins. USK24110156
Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Tillögunni er vísað frá enda málið í skýrum farvegi þar sem umfangsmikið samráðsferli er hluti máls og verið að vinna úr ábendingum íbúa og leggja grunn að uppfærslu tillagna á þeim grunni.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins lýsir vonbrigðum sínum með frávísun tillögunnar sem lögð var fram fyrst og fremst með hagsmuni íbúa svæðisins í huga. Einnig verður að minna á þá staðreynd enn og aftur að þétting byggðar í Reykjavík hefur oft á tíðum gengið aðeins of langt hvað varðar land og rými. Allt of mikið skuggavarp hefur átt sér stað á milli húsa sem skert hefur verulega lífsgæði íbúa margra nýrra bygginga sem virðast hafa verið reistar með það að markmiði að auka byggingarmagn á lóðum eins mikið og hægt er - með fyrrgreindum afleiðingum. Er það þó von fulltrúans að í áframhaldandi vinnu varðandi uppbyggingaráform í Grafarvogi verði allt gert til þess að taka sem mest tillit til sjónarmiða íbúa hverfisins.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Vinstri grænna um friðlýsingu Laugarnestanga, sbr. 5. liður fundargerðar borgarstjórnar 19. nóvember 2024. Einnig er lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða, dags. 16. janúar 2025.
Frestað MSS24110121
-
Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um endurskoðun fyrirhugaðra uppbyggingu vestan við Smyrilshlíð, sbr. 37. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 15. janúar 2025.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa USK25010133
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hálkuvarnir, sbr. 39. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs 2025.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu borgarlandsins. USK25010134
- Kl. 12:28 víkur Hildur Björnsdóttir af fundi
- Kl. 12:35 víkur Hjálmar Sveinsson af fundi -
Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Lagt er til að Reykjavíkurborg leggi sparkvöll með gervigrasi á Landakotstún, sem nýtist börnum og unglingum í hverfinu til leikja og íþróttaiðkunar. Greinargerð fylgir tillögu.
Frestað. USK25010233
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Lagt er til að ráðist verði í viðgerðir á búnaði eftirtalinna snjallgangbrauta en búnaður þeirra hefur ekki virkað sem skyldi um skeið; gangbraut yfir Fjallkonuveg við Foldaskóla, gangbraut yfir Rofabæ við Árbæjarskóla og Ársel og gangbraut yfir Seljaskóga, milli Miðskóga og Seljabrautar.
Frestað. USK25010235
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Óskað er eftir upplýsingum um fyrirkomulag gatnalýsingar í borginni og skýringum á því hvers vegna henni hefur verið verulega ábótavant að undanförnu. Óvirkir ljósastaurar eru áberandi víða í borginni, ekki síst við stofnbrautir eins og Hringbraut, Miklubraut og Vesturlandsveg. Að kvöldi 20. janúar sl. gat t.d. að líta 27 óvirka ljósastaura við Vesturlandsveg, einungis á kaflanum milli Sæbrautar og Höfðabakka. A: Er um að ræða þörf á peruskiptum eða víðtækari bilanir og ef svo er, í hverju felast þær? B: Hvernig er eftirliti háttað með óvirkum ljósastaurum? Er slíkt eftirlit reglubundið og við hvaða tíma er þá miðað? C: Hvaða verkferlar eru í gildi um viðhald og viðgerðir á óvirkum ljósastaurum? USK25010236
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Óskað er eftir upplýsingum um fyrirkomulag gatnalýsingar í borginni og skýringum á því hvers vegna henni hefur verið verulega ábótavant að undanförnu. Óvirkir ljósastaurar eru áberandi víða í borginni, ekki síst við stofnbrautir eins og Hringbraut, Miklubraut og Vesturlandsveg. Að kvöldi 20. janúar sl. gat t.d. að líta 27 óvirka ljósastaura við Vesturlandsveg, einungis á kaflanum milli Sæbrautar og Höfðabakka. A: Er um að ræða þörf á peruskiptum eða víðtækari bilanir og ef svo er, í hverju felast þær? B: Hvernig er eftirliti háttað með óvirkum ljósastaurum? Er slíkt eftirlit reglubundið og við hvaða tíma er þá miðað? C: Hvaða verkferlar eru í gildi um viðhald og viðgerðir á óvirkum ljósastaurum? USK25010236
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Óskað er eftir upplýsingum um kostnað við strætisvagnaakstur á höfuðborgarsvæðinu, sundurliðað eftir leiðum Strætó bs. og einnig afkomumat einstakra leiða. USK25010237
Fundi slitið kl. 12:36
Dóra Björt Guðjónsdóttir Pawel Bartoszek
Aðalsteinn Haukur Sverrisson Kjartan Magnússon
Líf Magneudóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 22. janúar 2024