Umhverfis- og skipulagsráð
Ár 2025, miðvikudaginn 15. janúar, kl. 9:00 var haldinn 330. fundur umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Dóra Björt Guðjónsdóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Líf Magneudóttir, Pawel Bartoszek og áheyrnarfulltrúarnir Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir og Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Björn Axelsson, Brynjar Þór Jónsson, Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, Guðmundur Benedikt Friðriksson, Inga Rún Sigurðardóttir, Sunna Stefánsdóttir og Hólmfríður Frostadóttir.
Fundarritari var Glóey Helgudóttur Finnsdóttir.
Þetta gerðist:
-
Fram fer kynning frá útilífsborginni um skíðasvæðin í borginni.
Atli Steinn Árnason og Hafsteinn H. Grétarsson frá menningar og íþróttasviði Reykjavíkur, útilífsborginni taka sæti á fundinum undir þessum lið. USK24120182Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Umhverfis- og skipulagsráð fékk í dag kynningu á framtíðaráformum vegna almenningsskíðasvæða í borginni. Með uppbyggingu á Vetrargarðinum í Breiðholti skapast frábær tækifæri til að efla vetraríþróttir í borginni. Á nýja svæðinu verða nokkrar nýjar brekkur, æfingabrekka, aðalbrekka, brettasvæði auk sérstaks byrjendasvæðis. Fyrirhugað er að fjárfestingin í Vetrargarðinum verði áfangaskipt, fyrst verði ráðist í landmótun samhliða framkvæmdum byggingu Arnarnesvegar, því næst verði fjárfest í lyftum, lýsingu sem og annarri aðstöðu og loks að hefja snjóframleiðslu og koma upp yfirborði sem býr til tækifæri til þurrskíðunar stóran hluta ársins.
Fylgigögn
-
Lagt fram erindisbréf stýrihóps um stefnumótun fjölmenningarborgarinnar Reykjavík. MSS24090132
Fylgigögn
-
Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagsráðs um vinnu við samræmingu vetrarþjónustu á stofnstígum höfuðborgarsvæðisins.
Umhverfis- og skipulagsráð samþykkir að hafið verði samtal við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu um að þau vinni að samræmingu vetrarþjónustu á stofnstígum höfuðborgarsvæðisins með sérstakri áherslu á samræmingu þjónustu við stíga sem tengja sveitarfélögin saman.
Samþykkt og vísað til stjórnar sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. USK25010096
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Meirihlutinn leggur til að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu vinni saman að samræmingu vetrarþjónustu á stofnstígum höfuðborgarsvæðisins. Lagt er til að myndaður verði stýrihópur til að fylgja eftir samræmingu á þjónustu við stíga sem tengja sveitarfélögin saman. Þetta er gott mál og Reykjavík getur strax unnið og komið með tillögur um forgangsröðun stíga með tilliti til í hvaða röð og eða á hvaða tíma verk verði unnin. Fram kemur að þetta gæti haft áhrif á kostnað við verkefnið hjá sveitarfélögunum og finnst Flokki fólksins að þessar upphæðir þurfi að liggja fyrir. Það er alltaf betra að vita upphæðir fyrirfram en að bregðast við háum reikningi eftir á. Auðvitað skiptir miklu máli að þjónustan sé skilvirk. Samræming á að leiða til aukinnar skilvirkni og þar með hagræðingar.
Fylgigögn
-
Lagðar fram fundargerðir afgreiðslufunda skipulagsfulltrúa dags. 19. desember 2024 og 9. janúar 2025. USK22120094
Fylgigögn
-
Lagt fram afgreiðslubréf borgarráðs, dags. 19. desember 2024, vegna samþykktar borgarráðs s.d. á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Borgartúnsreits vegna lóðarinnar nr. 3-5 við Bríetartún. USK24100004
Fylgigögn
-
Lagt fram afgreiðslubréf borgarráðs, dags. 19. desember 2024, vegna samþykktar borgarráðs s.d. á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Nauthólsvíkur vegna breytingar á legu Borgarlínu og stoppistöðvar hennar sem færist út af deiliskipulagssvæðinu. USK24050158
Fylgigögn
-
Lagt fram afgreiðslubréf borgarráðs, dags. 19. desember 2024, vegna samþykktar borgarráðs s.d. á auglýsingu á tillögu um breytingu á deiliskipulagi fyrir Skeifuna-Fenin vegna lóðanna nr. 7 og 9 við Skeifuna. USK24050162
Fylgigögn
-
Lögð fram umsókn Yrki arkitekta, dags. 29. október 2024, ásamt bréfi Reita fasteignafélags, dags. 29. október 2024, um breytingu á deiliskipulagi Laugavegs 168-176 vegna lóðarinnar nr. 176 við Laugaveg. Í breytingunni sem lögð er til felst breyting á lóðamörkum lóðarinnar, breyting á skipulagsmörkum sem nemur breyttri lóð og skilgreiningu á aðkomu leigubíla að lóðinni, samkvæmt uppdr. Yrki arkitekta, dags. 29. október 2024. USK24100337
Frestað
Sigríður Maack verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
- Kl. 10:28 víkur Ólöf Örvarsdóttir af fundi -
Lögð fram umsókn Freys Frostasonar, dags. 6. desember 2024, um nýtt deiliskipulag fyrir Ártúnshöfða, Svæði 7A sem staðsett er við Breiðhöfða 3-5. Í nýju deiliskipulagi er gert ráð fyrir íbúðum og valkvæðri atvinnustarfsæmi á jarðhæðum við Breiðhöfða, einnig er gert ráð fyrir varðveislu Fornalundar sem er gróðursælt útivistarsvæði í samræmi við kvöð um varðveislu hans, samkvæmt deiliskipulags- og skýringaruppdráttum THG arkitekta, dags. 7. janúar 2024. Einnig er lögð fram greinargerð og skilmálar fyrir húsbyggingar og mannvirki á lóð, dags. 7. janúar 2024, Húsakönnun, dags. í febrúar 2023, Hljóðvistarskýrsla Cowi, dags. 18. júní 2024, Samgöngumat Verkís, dags. 21. júní 2024, og Umhverfismatsskýrsla Verkís, dags. 15. ágúst 2024. USK24120060
Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Vísað til borgarráðs.Sólveig Sigurðardóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lögð fram umsókn SORPU bs., dags. 10. júlí 2023, um breytingu á deiliskipulagi Stekkjarbrekkna- Hallsvegar suður vegna lóðarinnar nr. 14 við Lambhagaveg vegna nýrrar endurvinnslustöðvar Sorpu á lóð. Í breytingunni sem lögð er til felst að fyrirkomulagi byggingarreits á lóð er breytt ásamt því að byggingarreiturinn er stækkaður og byggingarmagn aukið, samkvæmt uppdr. Nordic, dags. 8. janúar 2025. USK23070113
Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Vísað til borgarráðsÞórður Már Sigfússon verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagðar fram fundargerðir afgreiðslufunda byggingarfulltrúa dags. 17. desember 2024 og 7. janúar 2025. USK24070166
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð Sorpu bs. dags. 4. desember 2024 ásamt fylgigögnum. MSS24010027
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Liður 4: Málefni urðunarstaðar – heimild til að skoða samstarf um rekstur urðunarstaða við önnur byggðasamlög: Þessi liður ber með sér að þrátt fyrir að dregið hafi úr urðun eru enn vandræði með urðun og þau fara vaxandi því að enginn vill bjóða fram land til urðunar. Unnið að því að lágmarka urðun á urðunarstaðnum í Álfsnesi í kjölfar viðauka sem gerður var við eigendasamkomulag Sorpu í nóvember árið 2023. Í viðaukanum segir meðal annars að Sorpa skuli leita að nýjum urðunarstað fyrir höfuðborgarsvæðið. Liður 5: Starfskjaranefnd, Stjórn Sorpu skipar starfskjaranefnd og sitja í henni þrír fulltrúar, tveir óháðir en sá þriðji er formaður stjórnar Sorpu. Þetta hefur komið fram áður en varla er það eðlilegt að formaður stjórnar Sorpu sitji í nefnd sem ákvarðar laun hans.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar samgöngustjóra dags. 6. janúar 2025 ásamt fylgigögnum. USK25010025
Fylgigögn
-
Lagt fram uppfært erindisbréf stýrihóps um stefnu og áætlun um gönguvæna borg þar sem Aðalsteinn Haukur Sverrisson tekur sæti í stýrihóp í stað Hjálmars Sveinssonar. MSS24110133
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Sjálfsagt er að mynda stýrihóp sem tekur saman helstu áherslur um stefnu og áætlun um gönguvæna borg. Það er mjög mikilvægt að auka aðgengi og öryggi fólks um borgina og ekki hvað síst fyrir fatlað fólk. Mikilvægt er að gera gönguleiðir barna í skóla og tómstundir öruggar. Flokkur fólksins hefur lagt til að lýsing við skóla verði bætt en víða er lýsingu ábótavant. Gangstéttir eru mjög víða hættulegar og heppni að ekki hafi orðið fleiri slys á gangandi og hjólandi vegfarendum sem fara um þær. Endurbætur hafa verið látnar reka á reiðanum. Eins hefur hálkuvörnum verið ábótavant í vetur og fólk dottið og meitt sig. Hjólandi fólki hefur fjölgað en þó ekki eins mikið og vænst var. Hins vegar er bílum að fjölga um einhverja tugi á viku og við það ber að una. Þetta er fallegur texti sem birtur er í erindisbréfinu sem lýsir ekki nógu góðu ástandi í þessum málum. Svona stefna er ekki það mikilvægast sem þarf að gera heldur þarf að hlusta á alla þá sem fara um borgina, gangandi, hjólandi eða akandi.
Fylgigögn
-
Lagt fram afgreiðslubréf borgarstjórnar, dags. 9. janúar á tillögu um stjórnsýsluúttekt á Álfabakka 2A-D og endurskoðun skipulagsferla til að tryggja gæði.
Lagt er til að fela umhverfis- og skipulagssviði að vinna erindisbréf um þann hluta verkefnis sem er á verksviði sviðsins.
Samþykkt USK24120135Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins lagði til á fundi borgarstjórnar 7. janúar sl. að borgarstjórn samþykki að fela innri endurskoðun og ráðgjöf Reykjavíkurborgar eða öðrum óháðum aðila að gera stjórnsýsluúttekt á skipulagsferli Álfabakka 2a, eða vöruskemmunni. Tillögunni var vísað frá en þess í stað samþykkti meirihlutinn sína eigin tillögu. Málið á að rannsaka en ekki er vitað hvenær niðurstöður liggja fyrir. En núna þarf að leggja áherslu á hvernig meirihlutinn hyggst beita sér í að fá þennan óskapnað lagaðan nú eða rifinn. Óttast er að ekkert verði gert, málið verði þaggað, beðið verði eftir að fólk gefist upp eins og svo oft áður. Það er ekki aðeins hörmulegt fyrir þá sem búa í blokkinni sem snýr að vöruskemmunni heldur öll nærliggjandi hús en í þeim mörgum búa 60 ára og eldri sem sækja félagsstarf í þjónustumiðstöð í Árskógum 4. Í Árskógum 2 er hjúkrunarheimilið Skógarbær, þar býr margt hreyfihamlað fólk. Í Búsetablokkinni er íbúakjarni fyrir fatlað fólk. Við skemmuferlíkið er íþróttavöllur ÍR fyrir börnin í hverfinu. Aukin umferð flutningabíla við íþróttavöllinn mun skapa hættu fyrir börnin sem sækja íþróttasvæðið hvort sem þau eru gangandi eða hjólandi.
Fylgigögn
-
Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. desember 2024 ásamt kæru nr. 179/2024, dags. 20. desember 2024, þar sem kærð er ákvörðun skipulagsfulltrúa að samþykkja breytingu á skilmálum deiliskipulags reits 1.520, Lýsisreits vegna lóðarinnar Hringbraut 121. USK24120215
Fylgigögn
-
Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. nóvember 2024 ásamt kæru nr. 145/2024, dags. 22. nóvember 2024, þar sem kærð er ákvörðun byggingarfulltrúa um að samþykkja byggingarleyfi fyrir áður steyptum stoðvegg á lóðamörkum lóðanna nr. 63 og 59. Einnig er lögð fram greinargerð Reykjavíkurborgar, dags. 30. desember 2024. USK24110299
Fylgigögn
-
Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. nóvember 2024 ásamt kæru nr. 159/2024, dags. 15. nóvember 2024, þar sem kærandi fer fram á að lokaúttekt frá 15.03.2023 sem var gerð á Brautarholti 18 til 20 verði afturkölluð þar sem ekki hafi verið farið eftir byggingarreglugerðum um fjölbýli. Einnig er lögð fram greinargerð Reykjavíkurborgar, dags. 18. desember 2024. USK24110194
Fylgigögn
-
Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. nóvember 2024 ásamt kæru nr. 158/2024, dags. 13. nóvember 2024, þar sem kærð er ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjavíkur dagsett 15. október 2024 vegna álagningu dagsekta vegna LED-auglýsingaskiltis staðsett á lóð 101 við Miklubraut. Einnig er lögð fram umsögn Reykjavíkurborgar, dags. 17. desember 2024. USK24110169
Fylgigögn
-
Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. október 2024 ásamt kæru nr. 117/2024, dags. 7. október 2024, þar sem kærð er ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að falla frá áformum um álagningu dagsekta vegna girðingu á lóðarmörkum Laugarásvegar 63. Einnig er lögð fram greinargerð Reykjavíkurborgar, dags. 26. nóvember 2024. Jafnframt er lagður fram úrskurður umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. desember 2024. USK24100086
Fylgigögn
-
Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. október 2024 ásamt kæru nr. 145/2024, dags. 25. október 2024, þar sem kærð er ákvörðun byggingarfulltrúa um að aðhafast ekki vegna ábendinga og kvartana eigenda Furugerði 5 og varða frágang sorpgeymslu íbúðar F2034143. Einnig er lögð fram greinargerð Reykjavíkurborgar, dags. 28. nóvember 2024. Jafnframt er lagður fram úrskurður umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. desember 2024. USK24100315
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um úrbætur á gatnamótum Úlfarsbrautar og Urðarbrunns, sbr. 30 liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs 16. október 2024. Einnig lögð fram umsögn skrifstofu samgangna og borgarhönnunar dags. 23. desember 2024.
Frestað USK24100169 -
Lagt er til að umhverfis- og skipulagsráð samþykki að veita heimild fyrir áframhaldandi undirbúningi, verkhönnun og gerð útboðsgagna vegna gerð hjólastígs og framhalds af gönguleið við Vínlandsleið.
SamþykktKristinn Jón Eysteinsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK24120163
Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Hér er um að ræða nýjan 800 metra langan hjólastíg meðfram Vínlandsleið í stað núverandi hitaveitustokks, sömuleiðis á að framlengja göngustíg hinu megin við götuna. Í framtíðinni verður þannig til samfelldur hjólastígur austan Vesturlandsvegar sem mun stórbæta samgöngur hjólandi vegfarenda á norðanverðu höfuðborgarsvæðinu. Hér er um að ræða verkhönnun og er markmiðið að ráðast í útboð síðar á árinu. Við fögnum þessari uppbygggingu.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um friðlýsingarmörk í Grafarvogi, sbr. 32. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs 13. nóvember 2024. Einnig er lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða, deildar náttúru og garða, dags. 2. janúar 2025.
Vísað frá með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum Sjálfstæðisflokksins. Fulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins. USK24110150
Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Tillögunni er vísað frá enda friðlýsingarmálið sem er til komið fyrir tilstuðlan frumkvæðis Reykjavíkurborgar í skýrum farvegi. Boltinn er hjá náttúruverndarstofnun og umhverfis, orku- og loftslagsráðuneytinu um að halda áfram vinnu við friðlýsingu Grafarvogs sem ráðherra stöðvaði í júní 2023.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar hafa ítrekað fellt tillögur Sjálfstæðisflokksins um að hafa mörk þess verndarsvæðis rýmri, sem fyrirhugað er að friðlýsa í Grafarvogi, en hingað til hefur verið miðað við af hálfu Reykjavíkurborgar. Um er að ræða afar stórt skipulagsmál, sem snertir íbúa í Grafarvogi og nærliggjandi hverfum enda er vogurinn afar vinsælt útivistarsvæði. Þessi afstaða meirihlutans gengur í berhögg við afstöðu Íbúaráðs Grafarvogs, Íbúasamtaka Grafarvogs sem og afstöðu flestra þeirra Grafarvogsbúa, sem hafa tjáð sig um málið. Afgreiðsla málsins sýnir að háleitar yfirlýsingar vinstri meirihlutans um umhverfisvernd eru innantómar og merkingarlausar.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Tillaga Flokks fólksins um friðlýsingarmörk í Grafarvogi hefur verið vísað frá af meirihlutanum. Umhverfisstofnun, ALTA ráðgjafar o.fl. hafi sagt að Grafarvogur fyrir innan Gullinbrú sé ein af mestu náttúruperlum Reykjavíkur og fuglalíf þar og leirur einstakar. Umhverfisráðherra lagði til að friðlýsing svæðisins yrði færð frá fjöru og upp að göngustíg, auk þess sem leirur í austri upp Grafarlæk yrðu friðaðar. Í lokakafla umsagnar frá umhverfis- og skipulagssviði má sjá að einhvers misskilnings gæti hvað varðar orð ráðherra. Segir i umsögninni að á “fundi umhverfis- og skipulagsráðs 13. des. 2023 var samþykkt að umhverfis og skipulagsráð mæli með að haldið verði áfram með þau áform um friðlýsingu Grafarvogs sem lagt var upp með en ráðið leggist gegn tillögu ráðuneytisins um stækkun marka friðlýsingarsvæðisins upp með Grafarlæk.” Því skal haldið til haga að ráðherra stöðvaði ekki ferlið í júní 2023 heldur fór fram á viðbótarfriðun, en ekki að hætta við ferlið.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um samantekt upplýsinga um bílakjallara og bílastæðahús í Reykjavík, sbr. 26. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 2. október 2024. Einnig lögð fram umsögn skrifstofu samgangna og borgarhönnunar dags. 2. janúar 2025.
Felld með fimm atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. USK24100018
Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Ýmsar stafrænar þjónustuúrbætur hafa verið í gangi hjá bílastæðasjóði. Ekki er vilji til að hætta við þau verkefni. Næsta skref er að hefja skilvirkara eftirlit með notkun aksturstækja, þá er engin forsenda lengur fyrir notkun sektarmiða undir rúðuþurrkum. Víða mætti upplýsa betur um gjaldskyld bílastæði einkaaðila, hvar þau byrja og enda og um kostnað. Hinsvegar er ekki talið að þessi tillaga mæti þeim áskorunum sem þar birtast.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja óviðunandi að greiðendur stöðugjalda (stöðubrota og aukastöðugjalda), sem ekki hafa aðgang að heimabanka, sé ekki gefinn kostur á að ljúka málinu með því að greiða höfuðstól (byrjunarupphæð) umræddrar kröfu, heldur sé hann fyrst upplýstur um kröfuna þegar innheimtufyrirtæki sendir honum hana ásamt álagi. Ólíklegt er að slík vinnubrögð standist meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Umsögn liggur fyrir um tillögu áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að teknar verða saman upplýsingar um bílastæðahús og bílastæðakjallara í Reykjavík. Einnig, hvaða bílastæðahús eru rekin af borginni og hver eru í einkarekstri. Fram kemur að bílahús borgarinnar eru 7 Stjörnuport, Vitatorg, Kolaport, Vesturgata, Traðarkot, Bergstaðir og Ráðhúskjallari). Til viðbótar við hús borgarinnar eru stór bílahús í rekstri einkaaðila. Má þar t.a.m. nefna Höfðatorg, Hörpu og Hafnartorg. Fram kemur einnig að nær ómögulegt er að taka saman öll bílahús og bílakjallara sem eru í rekstri einkaaðila enda er það undir hverjum lóðarhafa fyrir sig komið hvernig hann heimilar afnot af sínum gæðum. Þetta eru merkilegar upplýsingar. Ef borgin sjálf veit ekki um eða hefur ekki yfirsýn yfir einkarekin bílahús og kjallara hvernig á þá almenningur að vita það. Þetta þarf að bæta. Mikilvægt er að til sé listi yfir þessi bílastæðahús og að hann sé aðgengilegur almenningi sem er sífellt að lenda í vandræðum vegna þess að fólk telur sig vera að greiða til borgarinnar í gegnum app en fær svo reikning inn á einkabanka sinn frá einhverjum einkaaðilum.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hraðamælingar, sbr. 32. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs 25. september 2024. Einnig lagt fram svar skrifstofu samgangna og borgarhönnunar dags. 23. desember 2024 USK24090315
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir yfirliti og dæmum á m.a. hraðamælingum, brotið niður eftir farartækjum og samgöngumátum og hvernig segulmælingar af þessu tagi greini á milli farartækja og hvernig greina þær gangandi vegfarendur? Spurt var jafnframt um snjallljósastýringar. Af svari má dæma þá hefur þetta mál hafi ekki verið sett í forgang. Eins og vitað er hefur verið fjárfest í snjallljósastýrikerfi fyrir Höfðabakka sem er enn í kössum vegna fjárskorts, manneklu og þekkingarleysis. Hefði ekki verið nær þegar að tækjabúnaðurinn er kominn til landsins að fjármagna uppsetningu hans.? Minnt er á hér að ljósastýringar í Reykjavík eru ekki snjallljós heldur aðeins gamaldags klukkukerfi. Það eina sem skynjararnir gera er að breyta hvenær skipt er úr einu klukkukerfi í annað. Slaufuskynjararnir eru einnig gömul tækni sem hvorki greina né telja umferðina. Nútíma skynjarar eru ekki í gangi í Reykjavík, svo sem Radar, Innrauðir skynjarar og myndavélar. Kortið sem fylgir svarinu sýnir að allar helstu umferðaræðarnar í Reykjavík eru ekki með samstíga kerfi og öllu ægir saman. Sumt er tengt og annað ekki. T.d. er Miklabrautin ekki með samstíga kerfi. Svarið undirstrikar að að þetta er í raun verra en haldið var.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um fækkun bílastæða fyrir fatlað fólk, sbr. 27. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 2. október 2024. Einnig lagt fram svar skrifstofu samgangna og borgarhönnunar dags. 23. desember 2024. USK24100019
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins óskað svara við fyrirspurnum um hver sé ástæða þess að stæðum fyrir fatlaða hefur fækkað svo mjög í miðborginni og hvort það sé stefna borgaryfirvalda að halda þessu áfram og loka alveg á fatlaða? Í svari er ekki tekið undir það að stæðum fyrir hreyfihamlaða í miðborginni hafi fækkað og að ekki sé stefna að fækka slíkum stæðum í miðborginni eða annars staðar í Reykjavík. Kannski er það ekki stefna borgarinnar að fækka stæðum en stæðum hefur þó engu að síður fækkað. Það er eiginlega staðfest í svari en þar segir” það liggja ekki fyrir upplýsingar um fjölda og þróun stæða fyrir hreyfihamlaða í borginni”. Það skýtur skökku við, þ.e. að borgin hafi ekki upplýsingar um fjölda og þróun stæða fyrir hreyfihamlaða í borginni. Fötluðu fólki fer ekki fækkandi í Reykjavíkurborg og þarf þess vegna að fjölga stæðum fyrir hreyfihamlað fólk mikið. Nokkur stæði í viðbót á ári duga skammt. Fatlað fólk er líka fólk sem langar að komast um borginna án stórfelldra vandræða. Stæðum hefur fækkað og stæðiskorthafar finna mikið fyrir því. Fatlað fólk hefur ekki mætt nægum skilningi hjá borginni þegar það hefur mótmælt þessari þróun.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um ferðavenjukönnun, sbr. sbr. 26. lið fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs 27. nóvember 2024. Einnig er lagt fram svar deildarstjóra loftslagsmála, dags. 20. desember 2024. USK24110333
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins óskaði upplýsinga um hvað kostar að gera eitt stykki ferðavenjukönnun sem Gallup hefur framkvæmt fyrir Reykjavíkurborg á hverju ári í 16 ár? Fram kemur að kostnaður við ferðavenjukönnunina árið 2024 var 367.200 án VSK. Segir jafnframt í svari að könnunin er ein forsenda að því að Reykjavík varð Pilot borg og fékk 600.000 evra styrk (um 90 milljónir ISK) fyrir verkefnið „Þrætt í gegnum þrengslin“ (e. Piercing through the gridlocks) sem mun ná til september 2026. Styrkurinn verður m.a. nýttur til að greiða fyrir þessa ferðavenjukönnun. Ferðavenjukönnunin er því Reykjavík að kostnaðarlausu árin 2024 og 2025. Það er mat Flokks fólksins að þetta er allt gott og vel. Hins vegar eru niðurstöður þessara kannana afar keimlíkar frá ári til árs og mætti kannski þess vegna nota styrkinn í eitthvað bitastæðara. Það myndi vel nægja að gera þessar kannanir annað hvort ár. Fulltrúi Flokks fólksins hefur fylgst með þessum könnunum í á 7 ár og eins og áður segir, á þeim er varla nokkur marktækur munur milli ára. Fara á vel með fjármagn líka styrki.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um lýsingu á göngustíg milli Úlfarsbrautar og Gerðarbrunns, sbr. 26. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs 18. desember 2024.
Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds. USK24120185
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Vegna fyrirliggjandi tillögu um lýsingu á göngustíg milli Úlfarsbrautar og Gerðarbrunns skal áréttað að lýsingu er ábótavant á öllum stígnum, þ.e. frá Úlfarsbraut upp að Urðarbrunni 100.
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um gangbraut við Melaskóla, sbr. 25. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs 18. desember 2024.
Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds. USK24120186
-
Lögð fram fyrirspurn íbúaráðs Miðborgar og Hlíða um tímamörk áætlana um MIðborgarleikskóla, sbr. 8. liður fundargerðar íbúaráðs Miðborgar og Hlíða dags. 16. desember 2024.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds MSS24120088
Fylgigögn
-
Lögð fram fyrirspurn íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdals um óbyggðar lóðir í Úlfarsárdal, sbr. 9. liður fundargerðar íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdals dags. 16. október 2024.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, byggingafulltrúa. MSS24100151Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins fagnar þessari fyrirspurn íbúaráðsins en fyrirspurnin hefur áður komið fram. Spurt er um hversu margar óbyggðar/hálfbyggðar lóðir eru í Úlfarsárdal og Reynisvatnsás sem þegar hefur verið úthlutað? Fulltrúi Flokks fólksins hefur margoft bókað um sóðaskap við lóðir sem hefur verið úthlutað en ekki enn byggt á og eru aðeins notaðar sem geymslustaður fyrir sorp með tilheyrandi sóðaskap og slysahættu. Árið 2023 lagði fulltrúi Flokks fólksins til að gerð yrði úttekt á þróun Úlfarsárdals. Þetta var lagt til vegna fjölmargra kvartana sem borist höfðu og ná yfir breytt svið m.a. um hversu illa gengur að ljúka uppbyggingu hverfisins. Upplýsingar hafa borist um að lóðarhafar láti lóðir standa auðar árum saman og þær fullar af t.d. byggingarúrgangi. Talað hefur verið um að lóðir hafi farið á ,,vergang í bönkum” eins og það er orðað frá einum íbúa. Hverfið telst varla nýtt lengur og talið er að yfir 30 lóðir séu óbyggðar eða ólokið. Gert var ráð fyrir 15.000 íbúum í hverfinu og fullri sjálfbærni. Langt er í land að svo megi verða. Enn er ekki komin matvöruverslun í hverfið. Hverfið átti að vera blanda af íbúðar- og atvinnuhúsnæði sem heldur ekkert bólar á.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um innheimtu hjá Bílastæðasjóði, sbr. 27. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs 18. desember 2024.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgangna og borgarhönnunar, bílastæðasjóðs. USK24120184 -
Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokk Fólksins um húsnæðisbyggingar í Grafarvogi, sbr. 30. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs 18. desember 2024.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofa aðalskipulags- og loftslagsmála, húsnæðisátakshóps. USK24120177Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um óafgreidd erindi frá Flokki fólksins, sbr. 28. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs 18. desember 2024.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs USK24120176 -
Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um Álfabakka 2a, Suður Mjódd, sbr. 29. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs 18. desember 2024.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa. USK24120175- Kl. 11:35 tekur Ólöf Örvarsdóttir sæti á fundinum
- Kl. 11:50 víkur Hildur Björnsdóttir af fundinumFylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að skipulagsyfirvöld og meirihlutinn í Reykjavíkurborg endurskoði fyrirhugaða uppbyggingu fimm hæða húss á svonefndum I reit vestan við Smyrilshlíð. Greinargerð fylgir tillögu.Frestað USK25010133
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu til á fundi borgarráðs 13. júlí 2023 að Reykjavíkurborg stæði við skuldbindingar sínar um trégrisjun í Öskjuhlíð í þágu flugöryggis og metið yrði hversu mörg há tré þyrfti að grisja í þessu skyni. Tillögunni var vísað til umhverfis- og skipulagsráðs, sem óskaði eftir umsögn skrifstofu umhverfisgæða um málið. Rúmum mánuði síðar, 17. ágúst 2023, vísaði borgarráð erindi Isavia um sama mál til umsagnar umhverfis- og skipulagsráðs, þaðan sem því var einnig vísað til skrifstofu umhverfisgæða. Þrátt fyrir að eitt og hálft ár sé liðið frá því að umrædd erindi Isavia og tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins voru lögð fram, hefur engin umsögn um málið enn verið kynnt. Spurt er hverju þessi óhæfilegi dráttur sæti. Jafnframt er óskað eftir því að öll samskipti milli Reykjavíkurborgar og Isavia og/eða Samgöngustofu um málið verði lögð fram. USK25010138
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Flokkur fólksins óskar upplýsinga um hvernig hálkuvörnum var háttað yfir hátíðirnar m.a. í miðbæ Reykjavíkur. Ábendingar hafa borist um að þeim hafi verið verulega ábótavant og var Laugavegurinn t.d. sagður stórhættulegur á tímabili. Einnig er spurt hvort Reykjavíkurborg hafi upplýsingar um hvað margir leituðu á bráðamóttöku vegna beinbrota eða tognunar sem hlaust af því að detta vegna hálku á götum borgarinnar. USK25010134
Fundi slitið kl. 11:57
Dóra Björt Guðjónsdóttir Aðalsteinn Haukur Sverrisson
Líf Magneudóttir Hjálmar Sveinsson
Pawel Bartoszek Kjartan Magnússon
PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 15. janúar 2025