Umhverfis- og skipulagsráð - Fundur nr. 323

Umhverfis- og skipulagsráð

Ár 2024, miðvikudaginn 16. október, kl. 9:00 var haldinn 323. fundur umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Pawel Bartoszek, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Alexandra Briem, Hjálmar Sveinsson, Líf Magneudóttir og áheyrnarfulltrúarnir Andrea Helgadóttir og  Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Björn Axelsson, Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, Guðmundur Benedikt Friðriksson, Inga Rún Sigurðardóttir, Sunna Stefánsdóttir og Hólmfríður Frostadóttir.
Fundarritari var Glóey Helgudóttur Finnsdóttir.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram í trúnaðarbók drög að gjaldskrám fyrir umhverfis- og skipulagssvið árið 2025, drög að greinargerð umhverfis- og skipulagssviðs með fjárhagsáætlun 2025 og drög að rekstraryfirliti aðal- og eignasjóðs fyrir árið 2025.
    Hreinn Ólafsson, fjármálastjóri, Kristín Anna Þorgeirsdóttir, fjármálasérfræðingur, Ásdís Ásbjörnsdóttir, Eva Kristinsdóttir, Hjalti Jóhannes Guðmundsson og Halldóra Traustadóttir, skrifstofustjórar taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins lagði fram bókun sem færð var í trúnaðarbók.

    -    Kl. 09:06 tekur Marta Guðjónsdóttir sæti á fundinum
    -    Kl. 09:08 tekur Kjartan Magnússon sæti á fundinum USK24050008

  2. Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að nærþjónustukjarna innan íbúðarbyggðar (ÍB7) í Skerjafirði.
    Samþykkt að auglýsa, sbr. 3. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. 
    Vísað í borgarráð USK24020304

    Haraldur Sigurðsson deildarstjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram verklýsing og drög að breytingu að landnotkunarheimildum við Hringbraut. Hringbraut sem aðalgata frá Bjarkargötu að Ánanaustum.
    Samþykkt að auglýsa, sbr. 1-2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
    Vísað í borgarráð. USK24100121

    Haraldur Sigurðsson deildarstjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa, dags. 8. október 2024. USK24070166

    Fylgigögn

  5. Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar samgöngustjóra dags. 7. október 2024 ásamt fylgiskjölum. USK24010019

    Fylgigögn

  6. Fram fer kynning á minnisblaði um umferðaröryggi og aðgengi í Vogabyggð.
    Bjarni Rúnar Ingvarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK24100088

    -    Kl. 10:44 víkur Ólöf Örvarsdóttir af fundi

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins minna á fyrri tillögur sínar og ábendingar í þágu aukins umferðaröryggis í Vogabyggð. Auka þarf umferðaröryggi á fjölförnum gatnamótum í hverfinu með snjallstýringu gangbrautarljósa. Um er að ræða gatnamót Sæbrautar-Kleppsmýrarvegar-Skeiðarvogs, Sæbrautar-Súðarvogs og Kleppsmýrarvegar-Dugguvogs-Skútuvogs. Þá þarf að ráðast í úrbætur á gatnamótum Knarrarvogs og Súðarvogs í þágu óvarinna vegfarenda. Þarna er slysahætta vegna mikillar umferðar um gatnamótin af ökutækjum, sem eru á leið til eða frá bílastæðum fjölsóttra atvinnufyrirtækja við Knarrarvog. Setja þarf upp skýrar varúðarmerkingar þar sem Knarrarvogur þverar fjölfarinn hjólastíg Kelduleiðar, t.d. með merki um hjóla- og göngustíg og með því að lita hjólareinina á þessum stað. Þá þarf að taka upp stöðvunarskyldu á gatnamótunum gagnvart umferð frá Knarrarvogi í stað biðskyldu. Enn og aftur skal minnt á fyrri tillögur Sjálfstæðisflokksins um að leitast verði við að leggja sérmerktar hjólareinar milli götu og gangstéttar í Vogabyggð þar sem aðstæður leyfa. Við hönnun og skipulag Vogabyggðar fórst fyrir að gera ráð fyrir slíkum hjólareinum, sem hefði verið hægðarleikar því gangstéttar í hverfinu eru flestar breiðar og rúmgóðar. Æskilegt er að slíkar hjólareinar verði lagðar við þær götur, sem enn eru ófrágengnar í hverfinu. Við hörmum að meirihluti Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar skuli vísa frá tillögu Sjálfstæðisflokksins um að hraða undirbúningi við endurgerð gatnamóta Reykjanesbrautar og Bústaðavegar í því skyni að auka umferðaröryggi, bæta umferðarflæði og draga úr mengun. Vel væri hægt að flýta hönnun gatnamótanna og ljúka framkvæmdum við þær árið 2026 í stað 2030 eins og nú er miðað við. Frávísunin er greinilega í samræmi við þá stefnu meirihlutans að tefja fyrir samgöngubótum í borginni eins og kostur er og koma jafnvel í veg fyrir þær.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins lagði fram 2. október s.l. tillögu um að setja göngubrú yfir Sæbraut sem forgangsverkefni í  ljósi hörmulegs banaslyss sem varð við Sæbraut fyrir skemmstu. Sú framkvæmd er að hefjast.  Koma verður  strax upp snjallstýrðum gangbrautarljósum sem lesa umferðarflæði, aðstæður og hreyfingar vegfarenda. Aðgerðir til lengri tíma snúa að Sæbraut í stokk því vitað var að að göngubrú yrði yfir Sæbraut milli Tranavogs og Snekkjuvogs, yrði hæðarlega erfið. Stokkur myndi tengja saman Vogabyggðina við Vogana vestan Sæbrautar, og gera göngubrúna óþarfa.  Skóla- og frístundasvið Reykjavíkur heldur úti akstri skólabíls milli Vogabyggðar og Vogaskóla á virkum dögum, sem þó fullnægir ekki ferðaþörf allra nemanda í Vogabyggð, s.s. í tengslum við frístund.  Sæbrautarstokkur mun bæta úr vandamálum en fram að þeim tíma ætti að nota snjallljósakerfi til að stýra umferðinni. Vogabyggð er orðin fjölmenn byggð og börnin í hverfinu þurfa daglega að fara yfir Sæbrautina til að sækja skóla, frístundir og fleira. Íbúar hafa lengi verið að kalla eftir úrbótum. Þetta er hættulegar aðstæður fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur.  Íbúar Vogabyggðar hafa þurft að takast á við ótta um öryggi barna sinna allt of lengi og gangandi vegfarendur eru í stöðugri hættu.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Læra þarf af umferðarvandamálum Vogabyggðar og bæta sig við uppbyggingu af þessu tagi þar sem stórar íbúðabyggingaframkvæmdir eru gerðar. Tryggja að gengið sé frá gangstéttum, hjóla- og gönguleiðum sem geti þjónustað íbúa á meðan á framkvæmdaraski stendur. Þetta er nauðsynlegt til þess að vetrarþjónusta geti farið fram og íbúar sem ekki ferðast á bíl komist leiðar sinnar innan hverfis, og inn og út úr hverfinu. Gangstétt norðan við Kleppsmýrarveg hefði tengt Gelgjutanga og hefði verið hægt að hefja vetrarþjónustu á honum, í 3 ár hefur Bátavogur og Gelgjutangi nokkru skemur verið nánast samfleytt verið ótengdir fyrir óvarða vegfarendur sem nota götuna, og bílastæði við Bónus til þess að komast leiðar sinnar. Réttast hefði verið að fara strax í að byggja þar gangstétt, sem forgangsmál fyrir þá þéttu byggð sem vitað var að myndi byggjast upp við og neðan við Kleppsmýrarveg sem á erindi á Skútuvog eða yfir Sæbraut. Þá hefði verið hægt að hefja vetrarþjónustu um leið fyrir þann hluta byggðarinnar sem enn er illa tengdur fyrir gangandi, hjólandi og fólk með börn og barnavagna. Beygjuljós/rautt ljós til vesturs á Kleppsmýrarveg úr norðri og beygjuakrein á Skútuvogi ætti að koma til skoðunar til þess að létta á gatnamótum Skútuvogs og Kleppsmýrarvegar.
     

    Fylgigögn

  7. Lagt er til að umhverfis- og skipulagsráð samþykki að afturkalla gjaldskyldu á eftirfarandi götum, þar til Háskóli Íslands hefur gjaldtöku á nærlægum svæðum:
    •    Aragata
    •    Oddagata
    •    Sæmundargata

    Samþykkt með vísan til c liðar 1. gr. í viðauka 1.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, um fullnaðarafgreiðslur umhverfis- og skipulagsráðs án staðfestingar borgarráðs í samræmi við 86. gr. umferðarlaga nr. 77/2019. Fulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins. USK24040128

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Lögð er fram tillaga um að afturkalla gjaldskyldu á eftirfarandi götum, þar til Háskóli Íslands hefur gjaldtöku á nærlægum svæðum: • Aragata • Oddagata • Sæmundargata. Flokkur fólksins fagnar þessari afturköllun og vill láta ganga lengra og afturkalla gjaldskyldu í kringum alla skóla og sjúkrastofnanir. Gengið hefur verið of langt í að seilast í vasa þeirra sem verða og vilja nota bíl ekki síst meðan ljóst þykir að almenningssamgöngur eru langt því frá að vera viðunandi.

    Fylgigögn

  8. Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar skipulagsfulltrúa, dags. 10. október 2024. USK22120094

    Fylgigögn

  9. Fram fer kynning á vinningstillögu að hugmyndaleit fyrir Leirtjörn Vestur og stöðu deiliskipulagsvinnu.

    Magnea Guðmundsdóttir frá teiknistofunni Stiku og Þórhildur Þórhallsdóttir frá Landmótun ásamt Hrönn Valdimarsdóttir verkefnastjóra og Borghildi Sölvey Sturludóttur deildarstjóra taka sæti á fundinum undir þessum lið. USK24060028

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúa Flokks fólksins líst vel á ef byggðin verður að stórum hluta fyrir eldra fólk með allri þeirri þjónustu sem eldra fólk þarfnast og langar að hafa nálægt sér. Fyrir liggja samningar um uppbyggingu lífsgæðakjarna, húsnæðisuppbyggingar fyrir eldri borgara með fjölbreyttu framboði af þjónustu í nærumhverfinu, meðal annars á þessu svæði. Ef lífsgæðakjarni verður þarna er ekki þörf á skólum og leikskólum. Gæta þarf einnig að samráði og fara snemma af stað í samtalið við nærliggjandi byggðar og þeim hugmyndir og möguleika sem eru um þróun þar. Bent er loks á að í nýjum hverfum er þörf á bílastæðum oft stórlega vanmetin og má nefna Þorpið í Gufunesi og mögulega mun skorta  bílastæði í Keldnalandinu. Bílastæðahús inn í hverfum í stað bílastæða við heimilin og deilibílakerfi hefur ekki almennilega náð að virka hér enn sem komið er og þarf að horfa til þess þegar ný hverfi eru skipulögð. Hönnuðir þurfa að aðlaga sig að þörfum og óskum borgarbúa, þeirra sem þarna er ætlað að búa.

  10. Að lokinni kynningu er lögð fram að nýju skipulagslýsing umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 29. maí 2024, vegna gerð deiliskipulags fyrir Borgarspítalareit. Skipulagssvæðið afmarkast af Háaleitisbraut til vesturs, suður jaðri Borgarspítalans til norðurs, núverandi íbúðabyggð við Markarveg og Kjarrvegar til suðurs og Álftalandi til austurs. Skipulagslýsing þessi nær til breytingar á gildandi deiliskipulagi Eyrarland. Staðgreinir 1.840, samþykkt í borgarráði 30. desember 1973. Breytingin felur í sér að deiliskipuleggja reitinn sunnan Borgarsjúkrahússins undir nýja íbúðabyggð með áherslu á fjölbreytta og spennandi byggð fyrir unga sem aldna sem tekur mið af staðháttum og umhverfi. Einnig er lagður fram tölvupóstur Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar, f.h. íbúaráðs Háaleitis og Bústaða, dags. 26. júní 2024, um framlengingu á umsagnarfresti. Lýsingin var kynnt frá 13.  júní 2024 til og með 1. október 2024. Umsagnir bárust.
    Kynning á athugasemdum

    Ingvar Jón Bates Gíslason verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið

    -    Kl. 11:50 víkur Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir af fundi USK24050386

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi sósíalista vill taka fram að það er algjört lykilatriði að sjúklingar á Borgarspítala fái að njóta gróins umhverfis sunnan við spítalann á meðan hann er enn í starfsemi. Að framkvæmdir og hávaði og streita sem þeim fylgja hefjist ekki á þessum reit upp við spítalann fyrr en starfsemin sé flutt á nýjan stað, nema það sé gert af mikilli nærgætni við sjúklinga sem dvelja á spítalanum.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Deiliskipuleggja á reitinn sunnan Borgarsjúkrahússins undir nýja íbúðabyggð og segir í gögnum að leggja eigi áherslu á  fjölbreytta og spennandi byggð fyrir unga sem aldna. Fulltrúi Flokks fólksins vill sjá þarna fyrst og fremst kjarna fyrir eldri borgara enda nú þegar komin slík byggð sem reynst hefur vel. Þessi staðsetning hentar mjög vel fyrir íbúðabyggð fyrir eldra fólk sbr. það sem fyrir er á Sléttuvegi og nágrenni. Þarna gæti verið skemmtilegur lífsgæðakjarni fyrir eldri borgara. Öll svæði eiga vissulega að vera lífsgæðasvæði/-kjarnar. Flokkur fólksins lagði til árið 2021 að skipuleggja byggð fyrir eldra fólk víðsvegar í Reykjavík. Fjölmargir vilja einmitt að íbúðasvæði í borginni verði skipulögð þar sem sérstök áhersla er lögð á þjónustu við eldra fólk og þeirra þarfir. Þessi reitur sem hér um ræðir hentar vel þegar horft er til nærþjónustu og afþreyingarmöguleika.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. febrúar 2024 ásamt kæru nr. 23/2024, dags. 26. febrúar 2025, þar sem kærð er ákvörðun Reykjavíkurborgar að hafna beiðni kæranda að taka upp ákvörðun um veitingu byggingarleyfis sem veitt var Apartments og rooms ehf. 30. ágúst 2022 og varðar Hraunberg 4. Einnig er lögð fram greinargerð Reykjavíkurborgar, dags. 26. mars 2024. Jafnframt er lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. maí 2024. Úrskurðarorð: Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. febrúar 2024 um að hafna kröfu um að taka upp ákvörðun um samþykki byggingaráforma, dags. 9. nóvember 2021, vegna breytinga á annarri hæð fjöleignarhúss á lóð nr. 4 við Hraunberg. Að öðru leyti er kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni. USK24020285

    Fylgigögn

  12. Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindarmála dags. 29. febrúar 2024 ásamt kæru nr. 24/2024 þar sem kærð er ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 30. janúar 2024 um að samþykkja leyfi fyrir áðurgerðum breytingum á húsi á lóð Túngötu 36A. Einnig er lögð fram greinargerð Reykjavíkurborgar dags. 19. mars 2024. Jafnframt er lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. júní 2024. USK24020298

    Fylgigögn

  13. Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 10. maí 2024 ásamt kæru nr. 54/2024, dags. 10. maí 2024, þar sem kærð er ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjavíkur að kærendum, þinglýstum eigendum að Laugarásvegi 63, sé gert að fjarlægja skjólvegg við lóðarmörk Laugarásvegar 61 að viðlögðum dagsektum. Einnig er lögð fram greinargerð Reykjavíkurborgar dags. 23. maí 2024. Jafnframt er lagður fram bráðabirgðaúrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. maí 2024. Úrskurðarorð: Frestað er réttaráhrifum ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. apríl 20204 um að kærendum bæri að fjarlægja skjólvegg við lóðarmörk Laugarásvegar 61 innan 14 daga að viðlögðum dagssektum að fjárhæð kr. 25.000.
    Þá er lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. júní 2024. úrskurðarorð: Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. apríl 2024 um að krefjast þess að kærendur fjarlægi skjólvegg við lóðarmörk Laugarásvegar 61. Að öðru leyti er máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni. USK24050124

    Fylgigögn

  14. Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. ágúst 2024 ásamt kæru nr. 84/2024, dags. 8. ágúst 2024, þar sem kært er samþykkt byggingarleyfi fyrir Sólvallagötu 14. Einnig er lagt fram uppfært erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 14. ágúst 2024 ásamt uppfærðri kæru í máli nr. 84/2024, dags. 8. ágúst 2024. USK24080058

    Fylgigögn

  15. Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. ágúst 2024 ásamt kæru nr. 83/2024, dags. 1. ágúst 2024, þar sem kærð er ákvörðun byggingaryfirvalda í Reykjavík vegna umsóknar kæranda um byggingu bílskúrs á eignarlóð hans að Stýrimannastíg 14 í Reykjavík. Einnig er lögð fram greinargerð Reykjavíkurborgar, dags. 2. september 2024. Jafnframt er lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. september 2024. Úrskurðarorð: Hafnað er kröfu kæranda um að ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. júlí 2024 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir tvöfaldri bílageymslu á lóð nr. 14 við Stýrimannastíg, Reykjavík. USK24080014

    Fylgigögn

  16. Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. ágúst 2024 ásamt kæru nr. 87/2024, dags. 10. ágúst 2024, þar sem kærð er ákvörðun ákvörðun um útgáfu lokaúttektarvottorðs byggingarfulltrúa Reykjavíkur vegna Tangabryggju 13 – 15 sem gefið var út 18. júlí 2024. Einnig er lögð fram greinargerð Reykjavíkurborgar, dags. 13. september 2024. USK24080100

    Fylgigögn

  17. Lagt fram afgreiðslubréf borgarráðs, dags. 3. október 2024, vegna samþykktar borgarráðs s.d.  á auglýsingu á tillögu um breytingu á deiliskipulagi Hlíðarenda vegna lóðarinnar nr. 3 við Arnarhlíð. USK23060353

    Fylgigögn

  18. Lagt fram afgreiðslubréf borgarráðs, dags. 3. október 2024, vegna samþykktar borgarráðs s.d. á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Vesturbæjarlaugar, lóð nr. 54 við Hofsvallagötu. USK24080295

    Fylgigögn

  19. Lagt fram afgreiðslubréf borgarráðs, dags. 3. október 2024, vegna samþykktar borgarráðs s.d. á auglýsingu á tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir göturými efsta hluta Laugavegar vegna 1. lotu Borgarlínu. USK24090202

    Fylgigögn

  20. Lagt fram afgreiðslubréf borgarráðs, dags. 3. október 2024, vegna samþykktar borgarráðs s.d. á auglýsingu á tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir göturými á nyrðri hluta Nauthólsvegar vegna 1. lotu Borgarlínu. USK24090203

    Fylgigögn

  21. Lagt fram afgreiðslubréf borgarráðs, dags. 3. október 2024, vegna samþykktar borgarráðs s.d. á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Elliðaárdals. USK24090074

    Fylgigögn

  22. Lagt fram afgreiðslubréf borgarráðs, dags. 3. október 2024, vegna samþykktar borgarráðs s.d. á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Arnarnesvegar áfanga 3. USK24090155

    Fylgigögn

  23. Lagt fram afgreiðslubréf borgarstjórnar, dags. 3. október 2024, vegna samþykktar borgarstjórnar frá 1. október 2024 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi reits 1.240, Hlemmur og nágrenni, og Hlemmur, umferðarskipulag, vegna breytinga á gatnamótum Laugavegs og Katrínartúns. USK24080215

    Fylgigögn

  24. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hólma í ofanvatnstjörn norðan við Breiðholtsbraut, sbr. 31. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs 25. september 2024. Einnig er lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða, dags. 9. október 2024.
    Tillagan er felld með fimm atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna.
    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. USK24090314

    Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Tillagan er felld með hliðsjón af umsögn sviðsins.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að hólmar yrðu gerðir í ofnavatnstjörn norðan við Breiðholtsbraut. Tillagan er felld sem er miður. Umsögn er neikvæð. Í henni segir: að ekki sé heppilegt að laða fuglalíf sérstaklega að svæðum sem eru hönnuð til þess að taka á móti mengun úr byggðu umhverfi og að hólmi minnki vatnið,  Í ljósi ofangreinds er mælt með því að tillagan verði felld. Fulltrúi Flokks fólksins er ekki sáttur við þessi rök enda ekki góð rök. Ekkert er því til fyrirstöðu að stækka tjörn sem nemur því rúmmáli sem hólminn tekur og eru því rök um að hann dragi úr virkni settjarna haldlítil. Þetta er spurning um hönnun mannvirkja og líffræðilega hugsun, en ekki bara verkfræðilega.  Margar fuglategundir synda ekki, svo sem allar spörfuglategundir, og munu því ekki ,,mengast” af vatninu, en í hólma finna þær frið fyrir t.d.  köttum og geta alið upp unga. Það er ekki í þágu fuglalífs að halda því frá tjörnum. Þvert á móti. Skynsamlegt væri fyrir umhverfis- og skipulagsyfirvöld að endurskoða þessa umsögn sína og leita frekari ráðgjafar.

    Fylgigögn

  25. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um kynningu á búsetuúrræði í JL húsinu, sbr. 16. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 9. október 2024.
    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu stjórnsýslu og gæða og skipulagsfulltrúa USK24100101
     

  26. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að úrbætur verði gerðar þegar í stað á gatnalýsingu við norðanverða Hofsvallagötu, vestanverða Túngötu og austanverða Holtsgötu, sbr. 18. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 9. október 2024.
    Vísað til mats og meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs skrifstofu borgarlandsins USK24100106

  27. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að fækkun bílastæða við Sólvallagötu fari í kynningu og samráð við íbúa , sbr. 17. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 9. október 2024.
    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgangna og borgarhönnunar. USK24100105

  28. Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um JL húsið, sbr. 19. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 9. október 2024.
    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa USK24100100

  29. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um niðurtekin plaköt, sbr. 20. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 9. október 2024.
    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifsstofu þjónustu og samskipta. USK24100107

  30. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að ráðist verði í úrbætur á gatnamótum Úlfarsbrautar og Urðarbrunns í því skyni að auka umferðaröryggi. Úrbæturnar miði m.a. að því að því að það verði alveg skýrt í huga þeirra, sem um gatnamótin fara, hvort þar sé um hringtorg eða venjuleg gatnamót að ræða. Nú virðist nokkur óvissa ríkja um það, sem getur tvímælalaust valdið misskilningi og hættu. Áhersla verði lögð á að tryggja öryggi óvarinna vegfarenda við gatnamótin.
    Frestað USK24100169

  31. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er eftir upplýsingum um ástæður þess að gatnalýsingu hefur verið ábótavant í Vesturbænum að undanförnu. Um er að ræða kafla við Hringbraut, Hofsvallagötu, Túngötu, Holtsgötu og e.t.v. fleiri götur, sbr. nýlegar tillögur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um málið. Er um að ræða þörf á peruskiptum eða víðtækari bilanir og ef svo er, í hverju felast þær? USK24100171

  32. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er eftir greinargerð um fyrirkomulag gatnalýsingar í Reykjavík. Þar komi m.a. fram hvernig viðhaldi sé háttað, bæði peruskiptum og viðgerðum, og hvaða verkferlar gildi um þessi atriði. Hvernig er fylgst með því hvar þörf er á peruskiptum eða viðgerðum hverju sinni og hversu skjótt er brugðist við þegar um slíkt er að ræða? USK24100170

  33. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hversu miklu fé hefur verið varið í endurbætur á húsnæði leikskólans Laugasól í Reykjavík?
    Flokkur fólksins spyr einnig hvort ekki  hafi verið hægt að sjá og meta burðarstyrk í jarðvegi og undirstöðum  áður en ráðist var í framkvæmdirnar?Greinargerð fylgir fyrirspurn. USK24100167

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 12:24

Pawel Bartoszek Aðalsteinn Haukur Sverrisson

Hjálmar Sveinsson Líf Magneudóttir

Alexandra Briem Marta Guðjónsdóttir

Kjartan Magnússon

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 16, október 2024