No translated content text
Umhverfis- og skipulagsráð
Ár 2024, miðvikudaginn 9. október, kl. 9:03 var haldinn 322. fundur umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Dóra Björt Guðjónsdóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Hjálmar Sveinsson, Pawel Bartoszek og áheyrnarfulltrúarnir Andrea Helgadóttir og Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild: Marta Guðjónsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Björn Axelsson, Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, Guðmundur Benedikt Friðriksson og Sigurjóna Guðnadóttir.
Fundarritari var Auðun Helgason.
Þetta gerðist:
-
Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar samgöngustjóra dags. 30. september ásamt fylgigögnum. USK24010019
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á útboði eftirlitskerfis Bílastæðasjóðs.
- Kl. 9:05 taka Hildur Björnsdóttir og Líf Magneudóttir sæti á fundinum.
Albert Svanur Heimisson deildarstjóri og Kristín Þórdís Ragnarsdóttir sérfræðingur taka sæti á fundinum undir þessum lið. USK24100001
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Við þökkum fyrir kynningu á nýju stafrænu eftirlitskerfi Bílastæðasjóðs. Það mun auka skilvirkni við eftirlit og auka möguleika á að hafa eftirlit með stöðubrotum þar sem verið er að leggja ólöglega uppi á gangstétt eða of nálægt gönguþverunum. Það getur aukið öryggi og aðgengi óvarinna vegfarenda. Við leggjum áherslu á að leitað verði eftir samstarfi við ríkið til að fundin sé sjálfvirk leið til greina hvaða bílar eru með P-kort fyrir fatlað fólk.
Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Það er á ábyrgð borgarinnar að brjóta ekki á réttindum fólks. Við þróun á þessari tæknilausn hafa ekki verið tekin skref til að tryggja það að handhafar P-korta fyrir hreyfihamlaða séu ekki sektaðir, eða að þeir þurfi ekki að fara í íþyngjandi aðgerðir til þess að standa vörð um sín lögvörðu réttindi, eins og raunin hefur verið varðandi notkun bílastæðahúsa borgarinnar. Þetta er gert með fullri vitund um að ekki sé unnt að tryggja rétt handhafa P-korta. Bílastæðasjóður og Reykjavíkurborg eiga að þróa lausnina á þann hátt að hún tryggi lestur p-korts. Til að mynda gæti lausnin verið þróuð á þann hátt að örflögusendir gæti verið numinn samhliða bílnúmeri. Slíkur örflögukubbur gæti jafnvel verið gefinn út af borginni og afhent gegn framvísun handhafakorts hreyfihamlaðra.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Svo virðist sem kerfið sem hér um ræðir taki ekki mikið tillit til þjónustuþegans. Fulltrúi Flokks fólksins vill á meðan þróun þessara mála er ekki komin lengra en raun ber vitni að Bílastæðasjóður taki aftur upp að leggja sektarmiða undir rúðuþurrku í stað þess að senda rukkun beint í heimabanka. Með þessu fyrirkomulagi eru miklar líkur á því að sektin hafi hækkað þegar fólk áttar sig á að hafa fengið hana. Ef horft er til gjaldskyldra bílastæða þá er þetta eins og frumskógur og ómögulegt að vita hvað er borgarrekið og hvað er einkarekið. Þeir sem aka á P merktum bílum og leggja í P merkt stæði þurfa að greiða í einkarekin stæði sem sem stríðir gegn lögum. Borgin hætti að rukka P-korthafa, sem hafa rétt til þess að leggja án greiðslu í P-stæði og gjaldskyld almenn bílastæði skv. umferðarlögum að því tilskyldu að þeir láti vita af sér fyrirfram (sem er líka gagnrýnivert fyrirkomulag), en einkaaðilar neita að láta af rukkunum. Það vantar stórlega yfirsýn yfir hvaða stæði og hús eru rekin af borginni og hver af einkaaðilum og þá hverjum. Þess utan er álagning sennilega frjáls og er hægt að okra eins og enginn sé morgundagurinn.
-
Fram fer kynning á smáfarartækjum og deilibílum í Reykjavík.
Sæunn Ósk Unnsteinsdóttir frá Hopp, Adam Karl Helgason frá Zolo, Gunnar Hersveinn Sigursteinsson verkefnastjóri, Bjarni Rúnar Ingvarsson deildarstjóri og Natan Freyr Guðmundsson sérfræðingur taka sæti á fundinum undir þessum lið. USK21120013
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Við þökkum fyrir gagnlegar kynningar frá rekstraraðilum smáfarartækja og rafbíla í borgarlandinu og gott samtal. Rafskútur eru hluti af samgöngubyltingu í okkar samfélagi. Þetta er nýtt farartæki sem við erum enn að læra á. Við leggjum ríka áherslu á gott samtal við rekstraraðila um forvarnir og innviði. Við viljum fjölga rafskútustæðum, sér í lagi nálægt strætóskýlum og hjólastígum, til að koma í veg fyrir að rafskútum sé illa lagt. Tillaga um slíka fjölgun er í undirbúningi hjá skrifstofu samgangna og borgarhönnunar. Við hvetjum til þess að leiðir verði skoðaðar til að draga úr slysatíðni, en viljum standa vörð um rafskúturnar sem samgöngutæki. Rafbílar skipta líka máli og við viljum vinna með þær úrbótahugmyndir sem komu fram.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Rafhlaupahjól eða öllu heldur rafskreppur eins og betra er að kalla þessi farartæki hafa verið bannaðar í sumum borgum t.d. París. Þar sem rafskreppur eru leyfðar verður að vera meira regluverk í kringum þær og skoða af alvöru að setja aldurstakmark á þær t.d. að fólki yngra en 18 ára verði óheimilt að fara um á rafhlaupahjólum, nái þau meira en 25 kílómetra hraða. Leigurnar þyrftu sjálfar að beita sér og að ýta við löggjafanum til að fá betra regluverk í kringum skreppurnar og að sett verði á aldurstakmark. Vandamálið er ekki síst að skreppurnar er skildar eftir á gangstéttum miðjum, hjólastígum í andstöðu við lögin. Þetta eru regluleg og ítrekuð tilfelli og kerfisbundið ástand. Slys eru tíð. Fjórðungur allra alvarlegra slysa í umferðinni verða á skreppum. Fram hefur komið í fréttum að Endurhæfingardeild Grensáss tekur á móti alvarlegustu tilfellunum; fólki með mænu- og heilaskaða og sumir ná sér aldrei til fulls. Á sama tíma og innreið rafskreppa markaði ákveðna byltingu í samgöngum fór hópur þeirra sem slasast alvarlega í umferðinni að taka miklum breytingum. Fyrstu slysin á skreppum voru skráð árið 2020 og hlutdeild þeirra í slysatölum hefur vaxið hratt. Faraldur rafhlaupahjóla slysa er staðreynd og sem nálgast tuginn á hverjum sólarhring.
-
Fram fer kynning á minnisblaði Eflu, dags. 27. júní 2024, um tillögur til að efla deilibíla í Reykjavík.
- Kl. 11:09 víkur Marta Guðjónsdóttir af fundi með rafrænum hætti.
- Kl. 11:09 tekur Kjartan Magnússon sæti á fundinum.Daði Baldur Ottósson frá Eflu og Bjarni Rúnar Ingvarsson deildarstjóri taka sæti á fundinum undir þessum lið. USK23060327
Fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Við þökkum fyrir kynningu á skýrslu um leiðir til efla deilibílaþjónustu í Reykjavík sem hefur verið í vinnslu síðastliðið ár. Næsta skref er að senda þessar hugmyndir til umsagnar rekstraraðila og fulltrúa notenda og vinna upp úr því endanlegar aðgerðir. Gott er að taka líka inn í þessa skoðun þær hugmyndir sem komu fram í kynningu fyrr á fundinum.
Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Hugsjónin um deilihagkerfi er af hinu góða, það má þó ekki gleymast að styðja við og hvetja til þess að það skapist á samfélagslegum forsendum, í anda Munasafnsins og „carpooling“ eins og það þekkist erlendis.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Í gögnum málsins er lýst hversu erfitt er að innleiða deilibíla og mun það krefjast mikils stuðnings í styrkjaformi til að eitthvað gangi s.s. að þær bifreiðar sem ganga fyrir rafmagni eða öðrum hreinum orkugjafa séu undanþegnar bílastæðagjaldi o.s.frv. Mikið þarf að koma til ef deilibílakerfi á að virka hér í Reykjavík og velta má því upp að mati Flokks fólksins hvort það sé þess virði. Verið að að leggja til hér að borgað sé umtalsvert með þessu kerfi og að styrkupphæð á hvern deilibíl verði allt að 50.000 kr. á mánuði, þó aldrei meira en 500.000 kr. á 12 mánaða tímabili. Það er þess vegna mat Flokks fólksins að það sé varla hægt að reikna með slíku kerfi á næstunni og spurning hvort það sé jafnvel verjandi ef greiða þarf svo mikið með kerfinu. Í Berlín búa um 3,5 milljónir. Þar eru 2000 deilibílar. Með sama árangri gætu verið um 80 deilibílar í Reykjavík og varla telst það vera bylting í umferðarmálum borgarbúa í ljósi þess að bílum er að fjölga hratt, eða um 60 á viku.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar skipulagsfulltrúa, dags. 3. október 2024. USK22120094
Fulltrúi Viðreisnar leggur fram svohljóðandi bókun við 7. lið:
Í 7. lið fundargerðar afgreiðslufundar skipulagsfulltrúa kemur fram neikvæð umsögn á fyrirspurn á rekstri gistiheimilis við Vesturgötu 26B. Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 segir “Umfang gististarfsemi við aðalgötur skal miðast við Minni gistiheimili, sbr. reglugerð um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.” Vesturgata er aðalgata og fyrirspurnin snýr að minna gistiheimili. Ákvæði aðalskipulags um þjónustu við aðalgötur kann að mörgu leyti að vera matskennt en því var hugsað að stuðla að meiri blöndun þjónustu, atvinnu og íbúða innan hverfa og að mati undirritaðs ætti ekki að túlka þau ákvæði of þröngt.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun við 9. lið:
Gerðar eru athugasemdir við það að Eignaskrifstofa Reykjavíkur sótti um framkvæmdaleyfi 23. ágúst 2024 vegna breikkunar á landfyllingu í Skerjafirði/Fossvogi áður en sveitarfélög höfðu tekið uppfærðan samgöngusáttmála til afgreiðslu og Seltjarnarnes hefur enn ekki tekið hann til endanlegrar afgreiðslu. Þá á Alþingi einnig eftir að samþykkja uppfærða samgönguáætlun.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa, dags. 1. október 2024. USK24070166
Fylgigögn
-
Lagðar fram fundargerðir SORPU nr. 502, dags. 4. september 2024 ásamt fylgiskjali, og nr. 503, dags. 18. september 2024. USK23010167
Fylgigögn
-
Lagt fram afgreiðslubréf borgarráðs, dags. 26. september 2024, vegna samþykktar borgarráðs s.d. á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Skógarhlíðar. USK23020357
Fylgigögn
-
Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 8. júlí 2024 ásamt kæru nr. 72/2024, dags. 7. júlí 2024, þar sem kærð er sú ákvörðun um að breyta bílastæðum við íbúðablokk í Stórholti í safnstæði fyrir leigubíla. Einnig er lögð fram greinargerð Reykjavíkurborgar, dags. 7. ágúst 2024. Jafnframt er lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. október 2024. úrskurðarorð: Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. USK24070091
Fylgigögn
-
Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. júlí 2024 ásamt kæru nr. 73/2024, dags. 9. júlí 2024, þar sem kærð er ákvörðun Reykjavíkurborgar um að breyta bílastæðum í safnstæði fyrir rútur við Stórholt. Einnig er lögð fram greinargerð Reykjavíkurborgar, dags. 7. ágúst 2024. Jafnframt er lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. október 2024. úrskurðarorð: Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. USK24070117
Fylgigögn
-
Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 25. júlí 2024 ásamt kæru nr. 79/2024, dags. 25. júlí 2024, þar sem kærð er ákvörðun Byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar að gefa út lokaúttekt á fjórum íbúðabyggingum Mýrargötu 33-39, 101 Reykjavík. einnig er lögð fram greinargerð Reykjavíkurborgar, dags. 23. ágúst 2024. USK24070288
-
Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um vinnu að stefnu um tjarnir í Reykjavík, sbr. 28. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 24. apríl 2024. Einnig er lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 24. september 2024.
Vísað inn í endurskoðun stefnu um líffræðilegan fjölbreytileika sem hefst árið 2025. USK24040280Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins lagði til að umhverfis- og skipulagsráð samþykki að láta vinna stefnu um tjarnir Reykjavíkur. Lagt var til að skipa starfshóp sem vinnur að stefnumörkun þar sem m.a. verður fjallað um hreinsun og þrif tjarna og hvernig búa megi fuglum öryggi og frið frá köttum t.d. með gerð hólma í tjörnum. Í umsögn um tillöguna er talað um aðra stefnu, stefnu um líffræðilega fjölbreytni og í aðgerðaáætlun með þeirri stefnu sé m.a. fjallað um settjarnir og aðrar ofanvatnslausnir. Segir í umsögn að þau atriði sem hér eru nefnd hjá fulltrúa Flokks fólksins, umhirða í kringum tjarnir og gerð hólma eigi vel heima í aðgerðaráætluninni og ætti því að vísa henni inn í vinnu við endurskoðun stefnunnar og aðgerðaáætlunarinnar. Sú finna mun hefjast á árinu 2025. Með þessu telur fulltrúi Flokks fólksins að verið sé að drepa málinu á dreif og tefja. Það er aðallega tvennt sem borgarfulltrúi Flokks fólksins telur að leggja þurfi áherslu á og það er umhirða í kringum tjarnir annars vegar og gerð hólma í tjörnum til að mynda friðland fyrir fugla hins vegar. Í þeim fjölmörgu litlu tjörnum sem eru til og stendur til að gera mætti vel byggja hólma með litlum tilkostnaði.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um samantekt upplýsinga um bílakjallara og bílastæðahús í Reykjavík, sbr. 26. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 2. október 2024. USK24100018
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgangna og borgarhönnunar.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að byggja skuli bráðabirgða göngubrú yfir Sæbraut, sbr. 25. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 2. október 2024. USK24100017
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgangna og borgarhönnunar.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um fækkun bílastæða fyrir fatlað fólk, sbr. 27. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 2. október 2024. USK24100019
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgangna og borgarhönnunar.
Fylgigögn
-
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
Umhverfis- og skipulagsráðs samþykkir að leita samstarfs við Framkvæmdasýslu ríkisins og Vinnumálastofnun um kynningu á fyrirhuguðu búsetuúrræði í JL húsinu fyrir allt að 400 umsækjendur um alþjóðlega vernd. Úrræðið verði kynnt bæði íbúum og atvinnurekendum sem geta átt hagsmuna að gæta vegna breytinganna og þeim gefinn kostur á að tjá sig um úrræðið innan tilskilins frests sem skal vera a.m.k. fjórar vikur.
Frestað. USK24100101
-
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að fyrirhuguð fækkun bílastæða við Sólvallagötu fari í kynningu og samráð við íbúa svæðisins. Þarna er ein þéttasta byggðin með hvað fæstum bílastæðum úr að moða og löngu komið yfir þolmörk.
Frestað. USK24100105
-
Fulltrúa Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að úrbætur verði gerðar þegar í stað á gatnalýsingu við norðanverða Hofsvallagötu, vestanverða Túngötu og austanverða Holtsgötu. Ljós loga nú ekki á um tíu ljósastaurum við þessa götukafla. Að auki virðist þurfa einnig þurfa að lagfæra tímastillingu gatnalýsingar í þessum götuköflum og fleiri í sama hverfi, t.d. við vestanverða Ásvallagötu. USK24100106
Frestað.
-
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Nú stendur til að breyta JL-húsinu í búsetuúrræði fyrir 400 umsækjendur um alþjóðlega vernd. Óska fulltrúar Sjálfstæðisflokks eftir upplýsingum um það hvort breytt notkun hússins sé í samræmi við gildandi deiliskipulag? Hafa fyrirhugaðar breytingar á húsnæðinu verið lagðar fyrir byggingarfulltrúa til samþykktar? Jafnframt er óskað upplýsinga um það hvort um rekstrarleyfisskylda starfsemi sé að ræða, og hvort þegar hafi verið sótt um slíkt leyfi? USK24100100
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Eftir íbúafundinn í Grafarvogi 7. október sl. höfðu verið sett upp plaköt, uppdrættir og myndir sem nú hefur verið rifið niður. Margir áttu eftir að skoða þetta betur. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga frá skipulagsyfirvöldum hvort vitað sé hverjir tóku þetta niður? Voru það skipulagsyfirvöld sjálf? Stendur til að setja þessa kynningu (bása) upp aftur? Eðlilegast væri að kynning væri uppi jafnlengi og umsagnarfresturinn í skipulagsgátt. USK24100107
Fundi slitið kl. 11:37
Dóra Björt Guðjónsdóttir Aðalsteinn Haukur Sverrisson
Hjálmar Sveinsson Hildur Björnsdóttir
Kjartan Magnússon Líf Magneudóttir
Pawel Bartoszek
PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 9. október 2024