Umhverfis- og skipulagsráð - Fundur nr. 320

Umhverfis- og skipulagsráð

Ár 2024, miðvikudaginn 25. september 2024, kl. 9:03 var haldinn 320. fundur umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Dóra Björt Guðjónsdóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Hildur Björnsdóttir, Birkir Ingibjartsson, Pawel Bartoszek og áheyrnarfulltrúarnir Andrea Helgadóttir og Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild: Líf Magneudóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Borghildur Sölvey Sturludóttir, Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, Inga Rún Sigurðardóttir, Þórólfur Jónsson, Sigurjóna Guðnadóttir og Hólmfríður Frostadóttir.
Fundarritari var Glóey Helgudóttur Finnsdóttir.
 

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á fyrirhuguðu hverfi í Keldnalandi.

    Þorsteinn R. Hermannsson og Hrafnkell Á. Proppé frá Betri samgöngum, Magdalena Hedman, Joanna Attvall og Åsa Samuelsson frá FOJAB og Haraldur Sigurðsson deildarstjóri taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    -    kl. 09:08 tekur Kjartan Magnússon sæti á fundinum USK24080321

    Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Uppbygging á Keldnalandi byggir á vinningstillögu FOJAB arkitekta og er hluti af nýuppfærðum samgöngusáttmála og er stærsta og metnaðarfyllsta verkefni Reykjavíkur til að efla byggð í austurhluta borgarinnar. Lagt er upp með að Keldur verði sjálfbært og nútímalegt hverfi með góðu aðgengi að náttúru. Hverfið verður skipulagt í kringum valfrelsi um ferðamáta þar sem Borgarlínan og vistvænar samgöngur eru hryggjarstykkið, mikilvægt er að Keldnalandið byggist upp samhliða uppbyggingu Borgarlínu enda allt skipulagt í kringum mikla notkun vistvænna ferðamáta. Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar lýsa yfir ánægju sinni með vinningstillögu FOJAB arkitekta og hlakka til áframhaldandi þróunar á verkefninu.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Á Keldnalandinu á að verða heilmikil atvinnustarfsemi umfram þá starfsemi sem nú þegar er þar. Það er óskynsamlegt því landið er dýrmætt og ætti því að nýta að langmestu leyti sem íbúðabyggingaland. Hér eru grundvallar þjónustustörf svo sem verslun undanskilin að sjálfsögðu. Auðvelt ætti að vera að sækja vinnu frá hverfinu enda stefnt að góðum samgöngum gegnum hverfið til annarra borgarhluta t.d. í austurhluta Höfðahverfis og Hólmsheiði. Bein leið verður til miðsvæðis m.a. með væntanlegri Borgarlínu samkvæmt áætlun meirihlutans. Fulltrúa Flokks fólksins finnst að skoða ætti að hafa bílastæðakjallara undir húsum þar sem hentar auk þeirra sex bílastæðahúsa sem gert er ráð fyrir í hverfinu. Suðurhluti og meginhluti Keldnalandsins er án efa einna skjólsælasti hlut borgarlandsins og sá eini sem er eftir óbyggður. Þess vegna er sérlega mikilvægt að nýta þann hluta fyrir margt fólk, en hvorki verkstæði né verksmiðjur.
     

  2. Lagt er til að umhverfis- og skipulagsráð samþykki að Faxaflóahafnir komi fyrir veðurstöð á Heimaey samkvæmt meðfylgjandi erindi umhverfis- og skipulagssviðs, ódags.
    Samþykkt og sent til kynningar menningar íþrótta og tómstundaráði. USK24070162

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Um veðurstöð í Viðey vill fulltrúi Flokks fólksins segja að það sleppur til að hafa veðurstöðina á ,,heimaeynni” en ekki á vestureynni en sá hluti Viðeyjar er ósnortinn af mannavöldum. Mastur, 10 metra hátt getur verið heilmikil sjónmengun og þess vegna skiptir staðsetning miklu máli. Öryggisþáttur þessa verkefnis er vissulega ómetanlegur.
     

    Fylgigögn

  3. Lögð fram og skráð í trúnaðarbók tillaga um síðari úthlutun styrkja úr Loftslagssjóði ungs fólks.
    Úthlutun styrkja samþykkt
    Vísað til borgarráðs

    Benedikt Traustason verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    -    Kl. 09:55 víkur Þórólfur Jónsson af fundi USK24030270

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins lagði fram bókun í trúnaðarbók.
     

  4. Lögð fram fundargerð skipulagsfulltrúa dags. 19. september 2024. USK22120094
     

    Fylgigögn

  5. Að lokinni grenndarkynningu er lögð fram að nýju umsókn Sigríðar S. Sigþórsdóttur, dags. 4. janúar 2024, um breytingu á deiliskipulagi Nýlendureits vegna lóðarinnar nr. 42 við Vesturgötu. Í breytingunni sem lögð er til felst að heimilt verði að hækka húsið um eina hæð, stækka byggingarreit vegna byggingu lyftuhúss á austurhlið, bæta við svölum á vesturhlið hússins á 2. og 3. hæð og koma fyrir leik- og dvalarsvæði fyrir íbúa á lóð, samkvæmt deiliskipulags- og skuggavarpsuppdr. Basalt arkitekta, dags. 27. júní 2024. Erindinu var grenndarkynnt frá 23. júlí 2024 til og með 21. ágúst 2024. Eftirtaldir sendu athugasemdir: Ólafur Baldvin Jónsson, Guðlaug Erla Jónsdóttir og Jón Páll Baldvinsson, dags. 8. ágúst 2024, og Húsfélagið Vesturgötu 40 f.h. íbúa, dags. 21. ágúst 2024. Einnig er lögð fram ábending Veitna, dags. 31. júlí 2024. Jafnframt er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 12. september 2024.
    Frestað.

    Olga Guðrún B. Sigfúsdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK24010044
     

  6. Lögð fram fundargerð byggingarfulltrúa dags. 17. september 2024. USK24070166
     

    Fylgigögn

  7. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um aðgerðir við gatnamót Hallsvegar og Strandvegar sbr. 33. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs 29. maí 2024. Einnig lögð fram umsögn skrifstofu samgangna og borgarhönnunar dags. 27. ágúst 2024.
    Felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum og Sjálfstæðisflokksins, fulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins. USK24050370

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Við hörmum að fulltrúar Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Vinstri grænna kjósi að fella tillögu Sjálfstæðisflokksins um aðgerðir í því skyni að auka umferðaröryggi og bæta umferðarflæði við gatnamót Hallsvegar og Strandvegar. Slíkar aðgerðir eiga fullan rétt á sér enda er oft mikil umferð á umræddum gatnamótum eins og íbúar í Grafarvogi hafa bent á.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Við gatnamót Hallsvegar og Strandvegar er einmitt tilvalið að setja hringtorg. Segir í umsögn að slík útfærsla á gatnamótunum hefur ekki komið til skoðunar fram að þessu en þá spyr fulltrúi Flokks fólksins af hverju ekki að skoða þennan möguleika fyrir alvöru? Ef skipulagsyfirvöldum er alvara í að miða stefnumörkum við að fækka alvarlegum umferðarslysum og greiða á sama tíma fyrir umferð allra ferðamáta þá er hér tilvalið tækifæri. Fulltrúi Flokks fólksins hvetur skipulagsyfirvöld að hætta að hugsa svona mikið og fara að framkvæma í meiri mæli. Tíminn líður og tímabært að ræða málið við aðra ábyrgðaraðila eins og Vegagerðina.
     

    Fylgigögn

  8. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sbr. 33. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs 29. maí 2024. Einnig lögð fram umsögn skrifstofu samgangna og borgarhönnunar dags. 27. ágúst 2024.
    Felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum og Sjálfstæðisflokksins, fulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins. USK24050369

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Við hörmum að fulltrúar Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Vinstri grænna kjósi að fella tillögu Sjálfstæðisflokksins um aðgerðir í því skyni að auka umferðaröryggi og bæta umferðarflæði við gatnamót Þúsaldar og Vínlandsleiðar. Slíkar aðgerðir eiga fullan rétt á sér enda er oft mikil umferð á umræddum gatnamótum og þar geta myndast krefjandi aðstæður eins og íbúar í Grafarholti og Úlfarsárdal hafa bent á.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Við gatnamót Þúsaldar og Vínlandsleiðar er mjög líklegt að henti að hafa hringtorg. Af hverju ekki að skoða þann möguleika með opnum huga þ.e. ef skipulagsyfirvöld vilja auka umferðaröryggi, greiða fyrir umferð og auka umferðarflæði. Undarlegt er að vilja ekki vita meira !!!
     

    Fylgigögn

  9. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins sbr. 42. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 14. ágúst 2024. Einnig lögð fram umsögn skrifstofu samgangna og borgarhönnunar dags. 17. september 2024.
    Samþykkt að vísa tillögunni frá með fimm atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum Sjálfstæðisflokks. USK24080108

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins lagði til að komin verði upp fleiri bílastæðum í Þorpinu í Gufunesi. Tillögunni er vísað frá. Það stóð til að fólk lifði bíllausum lífsstíl í Þorpinu en það er með öllu útilokað vegna fjarlægðar frá þjónustu og engar almenningssamgöngur eru á staðnum þrátt fyrir tillögur þar um. Í umsögn kemur fram að búið sé að samþykkja að fjölga stæðum um 61 stæði. Framkvæmdir við bílastæðin eru þegar hafin og áætlað að þeim muni ljúka núna í haust. Fulltrúi Flokks fólksins telur að á meðan framkvæmdum sé ekki lokið skuli ekki sekta fyrir að leggja bílum sínum á svæðinu. Ekki er hægt að búa í Þorpinu án þess að eiga bíl eins og sakir standa vegna skorts á almenningssamgöngum auk þess sem talsverð fjarlægð er í alla almenningsþjónustu.
     

    Fylgigögn

  10. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins sbr. 41. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs dags. 14. ágúst 2024. Einnig lögð fram umsögn skrifstofu samgangna og borgarhönnunar dags. 17. sept. 2024.
    Samþykkt að vísa tillögunni frá með fimm atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum Sjálfstæðisflokks. USK24080107

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að skipulagsyfirvöld setji upp snjallljós við þau gatnamót sem mest á mæðir í Reykjavíkurborg í stað fjögurra stillinga klukkuprógramms sem ekki telst til snjalltækja þótt reynt sé að sannfæra fólk um það. Tillögunni er vísað frá. Í umsögn skipulagsyfirvalda er fullyrt að niðurstaðna Sweco 2020 að vírseglar sem talningarskynjarar samræmist nútímalegum viðmiðum. En Sweco kom aldrei til landsins vegna Covid heldur voru aðeins haldnir örfáir fjarfundir og aðeins rætt við þá starfsmenn Reykjavíkurborgar sem sjá um og verja núverandi kerfi. Sweco fékk þar af leiðandi einhliða útgáfu sem hér er í gangi. Þeim bauðst ekki að ræða við aðra þrátt fyrir óskir þar um. Útilokað að gera raunhæfa úttekt með slíkum takmörkunum. Vírseglar eru eina tegundin sem hér hefur verið notuð frá a.m.k. 2005 þegar síðasta útboð var gert á ljósastýringum. Það eru heldur ekki alls staðar tveir vírseglar á gatnamótum og oftar en ekki bara á annarri götunni á staðnum Öll nútíma tækni sem er notuð í dag, eins og myndavélar, radar, infrarautt - og annar fullnægjandi greiningarhugbúnaður hefur aldrei verið prófaður í Reykjavík. Allar tillögur um slíkt hafa verið felldar af meirihlutanum. í svari er ekki minnst á snjallljós, þótt spurt hafi verið um þau sérstaklega.
     

    Fylgigögn

  11. Lögð fram samþykkt íbúaráðs Breiðholts um fá loftgæðamæli staðsettan í hverfið sem fyrst.
    Vísað inn í stýrihóp um aðgerðaáætlun loftgæða. MSS24080076

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Við styðjum ósk íbúaráðs Breiðholts um að loftgæðamæli verði komið fyrir í hverfinu. Tillagan er í samræmi við tillögur fulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá árunum 2013 og 2014. Tillögurnar hlutu ekki stuðning fulltrúa Samfylkingarinnar á þeim tíma en nú verður vonandi breyting þar á.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúa Flokks fólksins finnst sjálfsagt að skoða kaup á loftgæðamæli í Breiðholti. Alla jafna þegar rætt er um loftmengun þá er miðað við loftmengun við Grensásstöð. Sú stöð hefur lítið gildi í Breiðholti og í öðrum úthverfum. Þess vegna er meira en sjálfsagt að setja upp stöðvar í úthverfum. Hér er varla um háa upphæð að ræða í stóra samhenginu og jafnvel þótt gögn séu ekki 100 % áreiðanleg þá eru það samt sterkar vísbendingar sem sjá má úr þeim.
     

    Fylgigögn

  12. Lögð fram umsókn Hlíðarenda ses, dags. 27. júní 2023, ásamt greinargerð Alark arkitekta ehf., dags. 16. september 2024, um breytingu á deiliskipulagi Hlíðarenda vegna lóðarinnar nr. 3 við Arnarhlíð. Í breytingunni sem lögð er til felst að fjölga íbúðum, fella niður göng undir Flugvallarveg, auka byggingarmagn á jarðhæð, auka hlutfall 5. hæðar af stærð 4. hæðar, koma fylgilóðum vegna djúpgáma fyrir í borgargötum, breyta lóðastærð, mörk skipulagssvæðis færast að lóðamörkum, útbyggingar eru ávarpaðar og leikskólahugmyndir á lóð eru felldar niður, samkvæmt deiliskipulags-, skýringar- og skuggvarpsuppdráttum Alark arkitekta, dags. 27. ágúst 2024 og 16. september 2024, og sólarljósaútreikningum af dvalarsvæði. Einnig er lagt fram uppfært samgöngumat samkvæmt minnisblaði VSÓ ráðgjafar, dags. 18. september 2024.
    Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með þeirri breytingu að tryggt verði aðgengi almennings um reitinn og frá Snorrabrautarás,
    Vísað til borgarráðs.

    Ingvar Jón Bates Gíslason verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23060353
     

    Fylgigögn

  13. Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssvið að breytingu á deiliskipulagi Vesturbæjarlaugar, lóð nr. 54 við Hofsvallagötu. Í breytingunni sem lögð er til felst breyting á skipulagsmörkum. Innan nýja deiliskipulagssvæðisins eru skilgreindar fjórar lóðir, ný afmörkun fyrir lóð Vesturbæjarlaugar og Vesturborgar, ný lóð undir veitingavagn og ný lóð fyrir grenndarstöð, samkvæmt uppdr. Landmótunar, dags. 12. september 2024.
    Samþykkt með fimm atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. að auglýsa framlagða tillögu
    Vísað til borgarráðs.

    Hrönn Valdimarsdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið USK24080295
     

    Fylgigögn

  14. Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að breytingu á deiliskipulagi Elliðaárdals. Í breytingunni sem lögð er til felst að lega samgöngustíga er uppfærð til samræmis við fyrirliggjandi hönnun annars vegar við mislæg gatnamót Arnarnesvegar og Breiðholtsbrautar og hins vegar samgöngustígs með tveimur brúm yfir Dimmu. Báðar brýr fá breytta staðsetningu við nánari hönnun. Þá er ofanvatnstjörn komið fyrir milli stíga norðan við Breiðholtsbraut. Jafnframt er deiliskipulagsmörkum breytt þannig að mörkin fara að vegkanti rampa á Arnarnesvegi. Samgöngustígar norðan Breiðholtsbrautar ásamt fláum verða þannig innan deiliskipulags Elliðaárdals að mörkum þróunarreits. Deiliskipulagsmörk Arnarnesvegar breytast til samræmis við þessa afmörkun, samkvæmt uppdráttum frá Landslagi, dags. 29. ágúst 2024.
    Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
    Vísað til borgarráðs.

    Þórður Már Sigfússon verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið USK24090074

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Hér er um að ræða breytingu á deiliskipulagi í Elliðarárdal og er þetta ágætt dæmi um slakan undirbúning verks að mati fulltrúa Flokks fólksins. Ekki er traustvekjandi að breyta þurfi hönnum þegar framkvæmdir eru hafnar. Svo vekur það sérstaka athygli að koma á fyrir ofanvatnstjörn milli stíga norðan við Breiðholtsbraut til að taka á móti yfirborðsvatni áður en það rennur út í Elliðaár. Það er gott og vel en Flokkur fólksins telur mikilvægt að í slíkum tjörnum sé hægt að gera hólma fyrir fuglalíf. Hægt er að gera hólma fyrir sáralítinn kostnað.
     

    Fylgigögn

  15. Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að breytingu á deiliskipulagi Arnarnesvegar áfanga 3. Í breytingunni sem lögð er til felst að lega stofnstígs (göngu- og hjólastígar) er uppfærð til samræmis við fyrirliggjandi hönnun mislægra gatnamóta Arnarnesvegar og Breiðholtsbrautar sem og deiliskipulags Elliðaárdals. Þá breytast deiliskipulagsmörk Arnarnesvegar innan marka Reykjavíkurborgar til samræmis við nýja afmörkun Elliðaárdals. Alls flyst 1.21ha frá Arnarnesskipulaginu og yfir í deiliskipulag Elliðaárdals. Deiliskipulagsmörkin eru breytt þannig að mörkin fara að vegkanti ramps á Arnarnesvegi. Samgöngustígur norðan Breiðholtsbrautar ásamt fláum færist þar með yfir í deiliskipulag Elliðaárdals og að mörkum íbúðabyggðar ÍB40, samkvæmt uppdráttum frá Eflu, dags. 6. september 2024.
    Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu með sex atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Sjálfstæðisflokks gegn einu atkvæði fulltrúa Vinstri grænna, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
    Vísað til borgarráðs.

    Þórður Már Sigfússon verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið USK24090155

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Líklega eru þetta nauðsynlegar breytingar á annars illa útfærðri framkvæmd. Stór vistlok eru sett fram í áætlunum, en tekið fram að um sé að ræða frátekið land, og því er ólíklegt að slík ,,lok" yfir Arnarnesveginn verði nokkurn tíma að veruleika. Það var því miður ljóst frá upphafi að það að teikna vistlok yfir veginn til að fegra deiliskipulagið, var í raun ekkert annað en yfirvöld að slá ryki í augu íbúa. Slíkan blekkingarleik á ekki að líða. Yfirvöld vissu vel að ekkert fjármagn var til fyrir þessi vistlok og að þau yrðu líklega aldrei framkvæmd. Kostnaðurinn við að byggja þau síðar er án efa margfalt hærri en ef þau væru unnin samhliða vegagerðinni. Ekki var tekið neitt mark á umsögnum íbúa varðandi lagningu 3. áfanga Arnarnesvegar, sem sýnir enn og aftur að samráðsferlið við íbúa er ekkert annað en sýndarlýðræði.
     

    Fylgigögn

  16. Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að nýju deiliskipulagi fyrir göturými á nyrðri hluta Nauthólsvegar. Tillagan er hluti af 1. lotu Borgarlínu og afmarkast af aðliggjandi skipulagsmörkum í norðri, lóðarmörkum í austri og vestri og við lóðarmörk Menntasveigs í suðri. Ásamt því teygjast mörkin til vesturs, um Hlíðarfót yfir Fálkahlíð, suður um nýjan afleggjara að Hótel Reykjavík Natura. Með tilkomu nýs deiliskipulags verður bætt við Borgarlínubrautum frá Arnarhlíð og að lóðarmörkum Menntasveigs við HR, ásamt einni stöð, Öskjuhlíð. Hjóla- og göngustígum er bætt við beggja vegna Borgarlínubrauta og þannig er aðgengi virkra ferðamáta við götuna verulega bætt. Akreinar fyrir almenna bílaumferð verða að mestu leyti einbreiðar nema við gatnamót Nauthólsvegar og Flugvallarvegar. Grænni ásýnd gatnanna er aukin með skilgreindum svæðum fyrir gróður og regnvatnslausnir ofanjarðar, samkvæmt uppdráttum, dags. 23 september 2024 og greinargerð frá Yrki arkitektum, dags. 12. september 2024.
    Samþykkt með fimm atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins
    Vísað til borgarráðs.

    Lilja Guðríður Karlsdóttir verkefnastjóri deiliskipulags Borgarlínu og Þórður Már Sigfússon verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið USK24090203


    Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Nú eru fyrstu deiliskipulagstillögur vegna 1. áfanga Borgarlínu að líta dagsins ljós. Tillögurnar bera vott um mikinn metnað. Borgarlínan verður í sérrými á öllu skipulagssvæðinu, tré verða notuð til að skapa fallega ásýnd og göngu- og hjólastígar beggja vegna götunnar stuðla að fjölbreyttum ferðamátum fyrir alla vegfarendur. Við fögnum þessum áfanga og hlökkum til að sjá næstu tillögur koma fram á næstu vikum. Stefnt er að því að 71% íbúa höfuðborgarsvæðisins muni búa í nálægð við hágæða almenningssamgöngur með 7-10 mínútna tíðni sem mun gera notkun almenningssamgangna að mun raunhæfari kosti fyrir fleiri sem gagnast öllum. Það er mikilvægt loftslagsmál, lýðheilsumál og nauðsynlegt skref til að bregðast við þeirri miklu fjölgun íbúa sem væntanleg er á höfuðborgarsvæðinu.
     

    Fylgigögn

  17. Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að nýju deiliskipulagi fyrir göturými efsta hluta Laugavegar. Tillagan er hluti af 1. lotu Borgarlínu og afmarkast af lóðarmörkum í norðri (Hátún 2-10 og Nóatún 17), deiliskipulagsmörkum fyrir Hlemm í vestur, fyrirhuguðum deiliskipulagsmörkum Borgarlínu um Suðurlandsbraut austan megin, og að lóðarmörkum sunnan við Laugaveg. Með tilkomu nýs deiliskipulags bætast við Borgarlínubrautir frá Suðurlandsbraut að Katrínartúni ásamt einni stöð, Hátún. Hjóla- og göngustígum er bætt við beggja vegna Borgarlínubrauta og þannig er aðgengi virkra ferðamáta við götum verulega bætt. Öryggi allra vegfarenda er verulega bætt. Akreinar fyrir almenna bílaumferð verða að mestu leyti einbreiðar, nema við gatnamót Kringlumýrarbrautar og Suðurlandsbrautar. Grænni ásýnd gatnanna aukin með skilgreindum svæðum fyrir gróður og regnvatnslausnir ofanjarðar ásamt torgsvæði, samkvæmt uppdráttum og greinargerð frá Yrki arkitektum, dags. 12. september 2024.
    Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með fimm atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins,
    Vísað til borgarráðs.

    Lilja Guðríður Karlsdóttir verkefnastjóri deiliskipulags Borgarlínu og Þórður Már Sigfússon verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið USK24090202

    Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Nú eru fyrstu deiliskipulagstillögur vegna 1. áfanga Borgarlínu að líta dagsins ljós. Tillögurnar bera vott um mikinn metnað. Borgarlínan verður í sérrými á öllu skipulagssvæðinu, tré verða notuð til að skapa fallega ásýnd og göngu- og hjólastígar beggja vegna götunnar stuðla að fjölbreyttum ferðamátum fyrir alla vegfarendur. Við fögnum þessum áfanga og hlökkum til að sjá næstu tillögur koma fram á næstu vikum. Stefnt er að því að 71% íbúa höfuðborgarsvæðisins muni búa í nálægð við hágæða almenningssamgöngur með 7-10 mínútna tíðni sem mun gera notkun almenningssamgangna að mun raunhæfari kosti fyrir fleiri sem gagnast öllum. Það er mikilvægt loftslagsmál, lýðheilsumál og nauðsynlegt skref til að bregðast við þeirri miklu fjölgun íbúa sem væntanleg er á höfuðborgarsvæðinu.
     

    Fylgigögn

  18. Lagðar fram tillögur að nýrri íbúðarbyggð við Sóleyjarrima.
    Samþykkt að vinna áfram með tillögu Esju með fimm atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Hjördís Sóley Sigurðardóttir teymisstjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK24050141
    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna því að til standi að ráðast í frekari uppbyggingu í úthverfum borgarinnar þar sem innviðir þola aukna byggð. Ef vel er staðið að verki getur slík uppbygging styrkt hverfin verulega og skapað þar skilyrði fyrir aukinni verslun og þjónustu. Það er þó algert skilyrði að slíkt húsnæðisátak verði ekki þvingað fram á forsendum ofurþéttingar heldur útfært í góðri sátt og með raunverulegu samráði við íbúa viðkomandi hverfa. Varðandi Grafarvog þarf t.d. að taka ríkt tillit til staðaranda hverfisins og hagsmuna núverandi íbúa, t.d. með því að ganga ekki á græn svæði sem mörg hver eru rótgróin og ein helsta ástæða þess að fólk hefur valið hverfið til búsetu. Ljóst er að margir þeir þéttingarreitir, sem borgarstjóri hefur kynnt að séu til skoðunar í Grafarvogi, ganga gegn þessum sjónarmiðum og koma því ekki til greina að mati borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Dómnefndin mælir með einni tillögu og ekki er hægt að vera ósammála henni. Hins vegar er áberandi hversu nefndin fellur fyrir stöðluðum klisjum í tillögunni. Dómnefndir ættu að meta sjálfstætt hversu mikið fullyrðingar standist, sama hversu flottar þær þykja. T.d. er sagt: ,,Hér er gróðursettur staðargróður sem leyft er að vaxa frjálsum til að búa til sem mestan líffræðilegan fjölbreytileika. En staðreynd er að líffræðilegur fjölbreytileiki verður ekki búinn til með gróðursetningu á lítil svæði og ,,staðargróður” verður ekki til frambúðar með breyttu umhverfi. Síðan er gert ráð fyrir hænsnarækt og sagt að tækifæri séu til býflugnabúskapar. Í samþykkt um hænsnahald í Reykjavík er sagt að hænur megi aðeins vera fjórar á lóð og hanar eru bannaðir. Þetta eru kallaðar: ,,Áhugaverðar hugmyndir um borgarbúskap” Ólíklegt er að býflugnarækt verði ,,borgarbúskapur”.
     

    Fylgigögn

  19. Lögð fram samþykkt íbúaráðs Breiðholts um samþættingu vetrarþjónustu hjólastíga við Kópavogsbæ.
    Vísað til mats og meðferðar skrifstofu borgarlandsins MSS24080078
     

    Fylgigögn

  20. Lögð fram samþykkt íbúaráðs Breiðholts um safnstæði fyrir rafskútur í hverfinu.
    Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgangna og borgarhönnunar MSS24080077

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir þessa tillögu og bókun íbúaráðs Breiðholts um að beina því til umhverfis- og skipulagsráðs að koma fyrir safnstæðum fyrir rafskútur innan hverfisins þar sem mikil notkun er eins og við skiptistöðina í Mjódd, Sundlaugina í Breiðholti, Fjölbraut í Breiðholti, íþróttamannvirki ÍR og Leiknis og verslunarkjarna eins og við Lóuhóla, Mjódd, Völvufell og Seljabraut. Fulltrúi Flokks fólksins býr í Breiðholti og hefur lengi tekið eftir að víða má sjá rafskútur á miðri gangstétt, lagt þannig að þær eru stórhættulegar þeim sem ekki hafa fulla sjón eða hreyfigetu. Finna þarf þeim öruggan stað á þeim stöðum þar sem notkun er mikil. Rafskútur á víðavangi er ávísun á slys fyrir hópa sem eru með stoðtæki eins hjólastóla, göngugrindur sem og þá sem eru með skerta sjón, sérstaklega þegar skyggja fer.
     

    Fylgigögn

  21. Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um hávaða og mengun við Skúlagötu sbr. 23. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs dags. 4. september 2024. Einnig lagt fram svar skrifstofu samgangna og borgarhönnunar dags. 16. september 2024. USK24090052
     

    Fylgigögn

  22. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um svifryksmengun, sbr. 51. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs dags. 14. ágúst 2024. Einnig er lagt fram svar skrifstofu umhverfisgæða dags. 13. september 2024 USK24080119

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins spurði um hvort gerðar hafi verið mælingar á hversu mikið hlutfall svifryks má rekja til umferðartafa með öðrum orðum hversu stór orsakavaldur slakt flæði umferðar er á svifryksmengun. Fram kemur í svari að það sé ekki hægt að meta hversu stórt hlutfall svifryks eða annarrar umferðartengdrar mengunar í andrúmslofti í Reykjavík megi rekja til umferðatafa. Þetta þykir fulltrúa Flokks fólksins áhugavert því sífellt er nagladekkjum kennt um að menga hvað mest. Mengun er sannarlega háð aðstæðum. Gera má ráð fyrir að svifryk sé í miklum mæli vegna þess hversu umferðarflæði er slæmt víða í borginni. Á mestu umferðargötum eru ljósastýringar sem ekki lesa umferðina, fjölda bíla og gangandi eða aðstæður almennt séð. Bílar mynda langar raðir þar sem þeir hökta áfram í hægagangi með tilheyrandi eyðslu, mengun og malbiksskemmdum. Svona er ástandið klukkutímum saman á sólarhring. Það er mikilvægt að fá einhverja tölfræði sem tekur á öllum áhrifabreytum ekki bara einhverri einni. Þá er hægt er að leggja áherslu á þann þátt og þá þætti sem menga hvað mest frekar en að álykta eitthvað út í loftið eða einblína aðeins á einn þátt s.s. nagladekk sem vissulega er orsakavaldur ásamt mörgu fleiru.
     

    Fylgigögn

  23. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um lagfæringu og/eða endurnýjun gangstétta á köflum í Stekkjahverfi, sbr. 25. liður fundargerðar umhverfis og skipulagsráðs 18. september 2024.
    Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds. USK24090232
     

  24. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að loka fyrir bílaumferð á álagstímum á vinstri beygju inn á og út af Reykjanesbraut við Bústaðaveg, sbr. 24. liður fundargerðar umhverfis og skipulagsráðs 18. september 2024.
    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgangna og borgarhönnunar.

    -     Kl. 11:58 víkur Líf Magneudóttir af fundi USK24090230
     

  25. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að úrbætur verði gerðar á gatnalýsingu við Hringbraut, sbr. 26. liður fundargerðar umhverfis og skipulagsráðs 18. september 2024.
    Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu borgarlandsins. USK24090231
     

  26. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að endurgerð gatnamóta Reykjanesbrautar og Bústaðavegar verði hraðað, sbr. 23. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs 18. september 2024.
    Vísað frá með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum Sjálfstæðisflokks. USK24090229

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Við hörmum að meirihluti Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar skuli vísa frá tillögu Sjálfstæðisflokksins um að hraða undirbúningi við endurgerð gatnamóta Reykjanesbrautar og Bústaðavegar í því skyni að auka umferðaröryggi, bæta umferðarflæði og draga úr mengun. Vel væri hægt að flýta hönnun gatnamótanna og ljúka framkvæmdum við þær árið 2026 í stað 2030 eins og nú er miðað við. Frávísunin er greinilega í samræmi við þá stefnu meirihlutans að tefja fyrir samgöngubótum í borginni eins og kostur er og koma jafnvel í veg fyrir þær.
     

  27. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um gönguleið barna fram hjá byggingarsvæði á Sigtúnsreit, sbr. 27. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs dags. 18. september 2024.
    Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu stjórnsýslu og gæða, deildar afnota og eftirlits. USK24090228
     

  28. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um gangstéttaviðgerðir í Jafnaseli sbr. 28. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs 18. september 2024.
    Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds. USK24090227
     

  29. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
    Lagt er til að þegar í stað verði komið í veg fyrir leka úr vatnshana vestan megin við Nauthól. Þá er lagt til að skýrar varúðarmerkingar verði settar upp þar sem akbraut niður að Ylströndinni þverar fjölfarinn göngu- og hjólastíg Sólarleiðar. Það verði t.d. gert með því að lita stíginn svo það fari ekki fram hjá ökumönnum að þeir séu að þvera göngu- og hjólastíg á þessum stað. Greinargerð fylgir tillögu.
    Frestað. USK24090320
     

    Fylgigögn

  30. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
    Lagt er til að í tengslum við viðgerð á gangstéttarkafla á Háaleitisbraut, milli Fellsmúla og Miklubrautar verði ljósastaurar færðir af miðri gangstéttinni á hentugri stað, þar sem þeir eru ekki beinlínis fyrir hjólandi og gangandi vegfarendum. Greinargerð fylgir tillögu.
    Frestað. USK24090319
     

    Fylgigögn

  31. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Flokkur fólksins leggur til að í þeirri ofanvatnstjörn sem koma á fyrir norðan við Breiðholtsbraut verði gerður hólmi í þeim tilgangi að búa fuglum öruggt griðland. Greinargerð fylgir tillögu.

    Frestað. USK24090314
     

    Fylgigögn

  32. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir yfirliti og dæmum á hraðamælingum, brotið niður eftir farartækjum og samgöngumátum. Spurt er jafnframt um hvernig geta segulmælingar af þessu tagi greint á milli farartækja og hvernig greina þær gangandi vegfarendur? Hverskonar rauntímastýring verður á Höfðabakka og Hringbraut eftir að snjallljósakerfið verður sett upp. Gott væri að skipulagsyfirvöld lýstu þeim breytingum til bóta sem verða eftir að snjallljósakerfið verður komið upp á Höfðabakka. Spurt er af hverju búnaðurinn sem er löngu búið að kaupa hefur ekki verið sett upp. Greinargerð fylgir fyrirspurn. USK24090315
     

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 12:30

Dóra Björt Guðjónsdóttir Aðalsteinn Haukur Sverrisson

Hildur Björnsdóttir Kjartan Magnússon

Birkir Ingibjartsson Pawel Bartoszek

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 25. september 2024