Umhverfis- og skipulagsráð - Fundur nr. 311

Umhverfis- og skipulagsráð

Ár 2024, miðvikudaginn 5. júní, kl. 9:00 var haldinn 311. fundur umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Pawel Bartoszek, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir, Friðjón R. Friðjónsson, Hjálmar Sveinsson,  og áheyrnarfulltrúarnir Ásta Þórdís Skjalddal og  Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Björn Axelsson, Brynjar Þór Jónasson Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, Guðmundur Benedikt Friðriksson, Gunnar Hersveinn Sigursteinsson og Hólmfríður Frostadóttir. Fundarritari var Glóey Helgudóttur Finnsdóttir.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram fundargerð skipulagsfulltrúa dags. 30 maí 2024 USK23010150

    Fylgigögn

  2. Lögð fram skipulagslýsing umhverfis- og skipulagssviðs, dags. í maí 2024. Skipulagslýsing þessi nær til breytinga á gildandi deiliskipulagi fyrir Safamýri-Álftamýri sem samþykkt var í borgarráði 14. nóvember 1961, með síðari breytingum fyrir Framsvæðið, samþykkt 10. júní 2003. Í breytingunni felst gerð deiliskipulags fyrir nýja íbúðarbyggð með sérlegri áherslu á vistvæna íbúðarbyggð fyrir bíllausan lífsstíl og grænt útivistar- og leiksvæði fyrir hverfið.

    Samþykkt er að kynna lýsingu nýs deiliskipulags í samræmi við 1. og 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Leita skal umsagna um lýsinguna hjá Skipulagsstofnun, Minjastofnun Íslands, Borgarsögusafni, Veitum ohf., Umhverfisstofnun, Vegagerðarinnar, íbúaráða og einnig kynna hana fyrir almenningi. Sjálfstæðisflokkurinn situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Sigríður Maack sérfræðingur tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    -    Kl. 09:05 tekur Líf Magneudóttir sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði
    -    Kl: 09:05 tekur Hildur Björnsdóttir sæti á fundinum
    -    Kl: 09:15 tekur Ólöf Örvarsdóttir sæti á fundinum USK24050280

    Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Við samþykkjum að kynna skipulagslýsingu á breyttu skipulagi fyrir Safamýri-Álftamýri. Við teljum mikilvægt að leitað verði samráðs hverfisráðs Háaleitis og Bústaða eins og raunar stendur til. Við áréttum einnig þá hugmynd að þegar hugmyndaleit verður sett af stað verði hún látin taka til stærra svæðis, þótt fyrirhuguð deilskipulagsbreyting nái til afmarkaðs reits.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks sitja hjá við afgreiðslu málsins enda er enn útistandandi ágreiningur milli íþróttafélagsins Fram og Reykjavíkurborgar um svæðið. Hinn 17. september 2017 undirrituðu Knattspyrnufélagið Fram og Reykjavíkurborg samning sem byggðist á sameiginlegri viljayfirlýsingu aðila frá 2. mars 2004. Samkvæmt 7. gr. samningsins átti Reykjavíkurborg að eignast íþróttahús og félagsaðstöðu Fram við Safamýri þegar Reykjavíkurborg hefði staðið við skuldbindingar sínar gagnvart Fram í Úlfarsárdal. Í ljósi þess að Reykjavíkurborg hefur ekki enn staðið við samningsskuldbindingar sínar gagnvart íþróttastarfi í Úlfarsárdal verður að teljast sérkennilegt að borgin hafi þegar hafið skipulag svæðis sem Fram hefur ekki formlega afhent borginni.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

     Núverandi deiliskipulag er að stofni til frá árinu 1961 og síðari breyting fyrir Framsvæðið, frá  2003. Nú á að breyta svæðinu að mestu í íbúðabyggð. Áætlun framkvæmda er sýnd í gögnum. En komið hefur fram að stefnt er að því að leggja Miklabraut í stokk og við þá framkvæmd skapast færi á mikilli íbúðauppbyggingu og væri ekki rétt að tengja þessi uppbyggingaráform saman? Ef það væri gert væri kannski hægt að halda meira í græna hluta þessa svæðis sem hér um ræðir.  Áhyggjur eru að verið sé að þétta byggð of mikið á kostnað rýmis fyrir aðgengi og góð birtuskilyrði.  Fólk þarf að komast í og úr hverfum með góðu móti. Íbúðabyggð fyrir bíllausan lífsstíl hefur kannski kosti en einnig mikla annmarka því ekki geta allir haft slíkan lífsstíl sérstaklega þar sem almenningssamgöngur eru ekki betri en raun ber vitni. Hér er því verið að útiloka ákveðinn hóp fólks. Þrengsl mega ekki verða slík að tafir og öngþveiti myndist á annatímum. Ef litið er yfir athugasemdir þeirra nýju byggða sem risið hafa eru kvartanir býsna ámóta. Athugasemdir snúa að þrengslum, ófullnægjandi birtuskilyrðum og skuggavarpi.  Skerðing birtu getur gjörbreytt íbúð sérstaklega smáum búðum. Birta í híbýlum hefur mikil áhrif á andlega líðan fólks.
     

    Fylgigögn

  3. Lögð fram skipulagslýsing umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 29. maí 2024, vegna gerð deiliskipulags fyrir Borgarspítalareit. Skipulagssvæðið afmarkast af Háaleitisbraut til vesturs, suður jaðri Borgarspítalans til norðurs,  núverandi íbúðabyggð við Markarveg og Kjarrvegar til suðurs og Álftalandi til austurs. Skipulagslýsing þessi nær til breytingar á gildandi deiliskipulagi Eyrarland. Staðgreinir 1.840, samþykkt í borgarráði 30. desember 1973. Breytingin felur í sér að deiliskipuleggja reitinn sunnan Borgarsjúkrahússins undir nýja íbúðabyggð með áherslu á fjölbreytta og spennandi byggð fyrir unga sem aldna sem tekur mið af staðháttum og umhverfi.

    Samþykkt er að kynna lýsingu nýs deiliskipulags í samræmi við 1. og 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Leita skal umsagna um lýsinguna hjá Skipulagsstofnun, Minjastofnun Íslands, Borgarsögusafni, Veitum ohf., Umhverfisstofnunar, Vegagerðarinnar, íbúaráða og einnig kynna hana fyrir almenningi. USK24050386

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hvetja skipulagsyfirvöld til að þróa Borgarspítalareit, sunnan Borgarspítala, með þjónustu og íbúðir fyrir eldri Reykvíkinga í huga. Borgin er í dauðafæri við að þróa lóðina, sérstaklega vesturhluta hennar, sem lífsgæðakjarna. Tækifæri er til að byggja upp þétt hverfi sem myndar forsendur fyrir allskyns þjónustu í göngufæri fyrir íbúa. Slík uppbygging myndi losa um fjölskylduíbúðir og einbýli á svæðinu sem ekki er vanþörf á.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Hér er um afar dýrmætt svæði að ræða og sjálfsagt að byggja á því en þó ætti að fara varlega í uppbyggingu, allavega að ganga ekki á allt hið græna svæði sem þarna er eins og víða hefur verið gert annars staðar í borginni. Einhvers staðar verður jú að fá að vera griðastaður lífríkis.  Talað eru um í gögnum að byggja lágreista byggð allt að 5 hæða hús. Fimm hæða hús telst ekki sérlega lágreist hús eða byggð. Skoða ætti fyrir alvöru að byggja þarna búsetukjarna fyrir eldra fólk sambærilegt því sem fyrir er á Sléttuvegi.  Ítrekað er talað um vistvæna íbúðabyggð og er þá sennilega helst átt við vistvæn byggingarefni og aðferðir. Talað er einnig um að þessi byggð sé fyrir þá sem vilja tileinka sér vistvænan lífsstíl í meira mæli en áður hefur tíðkast. Ekki er ljóst hvað átt er við hér, eða hvort hér sé aðeins verið að tala um bíllausan lífsstíl? Það sem er þó alveg ljóst er að aðgengi þarf að vera gott fyrir hvers lags ferðamáta á þessum stað ekki síst fyrir einkabílinn enda er spölur í verslanir og þjónustu.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa dags. 28. maí 2024 USK22120096

    Fylgigögn

  5. Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar samgöngustjóra dags. 28. maí 2024 ásamt fylgigögnum. USK24010019

    Fylgigögn

  6. Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindarmála dags. 22. mars 2024 ásamt kæru nr. 31/2024, ódags. þar sem kærð er ákvörðun byggingarfulltrúa um að aðhafast ekki vegna erinda kæranda til borgarinnar sem varða steyptan vegg/skýli á lóðinni nr. 63 við Laugarásveg og á lóðinni nr. 59 við Laugarásveg. Einnig er lögð fram greinargerð Reykjavíkurborgar dags. 4. apríl 2024. Jafnframt er lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 30. maí 2024. Úrskurðarorð: Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. febrúar 2024 um að aðhafast ekki frekar vegna steypts veggjar á lóðamörkum Laugarásvegar 63 og 59, Reykjavík. USK24030296

    Fylgigögn

  7. Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindarmála dags. 22. maí 2024 ásamt kæru nr. 56/2024, 15. apríl 2024. þar sem kærð er ákvörðun byggingarfulltrúa þess efnis að stöðva framkvæmdir á lóð nr. 54 við Leiðhamra. Einnig er lögð fram greinargerð Reykjavíkurborgar dags. 30. maí 2024. Jafnframt er lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 31. maí 2024. Úrskurðarorð: Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. USK24050257

    Fylgigögn

  8. Lagt fram afgreiðslubréf borgarráðs, dags. 23. maí 2024, vegna samþykktar borgarráðs s.d. á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Hlíðarenda vegna reits I við Haukahlíð, lóð nr. 6. USK23010208

    Fylgigögn

  9. Lagt fram afgreiðslubréf borgarráðs, dags. 23. maí 2024, vegna samþykktar borgarráðs s.d. á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Breiðholts I vegna lóðanna nr. 2-6, 8 og 10 við Arnarbakka. USK24030341

    Fylgigögn

  10. Lagt fram afgreiðslubréf borgarráðs, dags. 23. maí 2024, vegna samþykktar borgarráðs s.d. á auglýsingu á breytingu á deiliskipulagi fyrir Breiðholt hverfi 6.1. USK24050012

    Fylgigögn

  11. Lögð fram að nýju tillaga íbúaráðs Háaleitis- og Bústaðahverfis um lækkun hámarkshraða á Suðurlandsbraut sem lögð var fram og samþykkt var á fundi íbúaráðsins, dags. 28. september 2023 og vísað til afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs og tekin fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs sbr. 23. dagskrárliður fundargerðar dags. 4. október 2023. Einnig lögð fram umsögn skrifstofu samgangna og borgarhönnunar dags. 21. febrúar 2024 sem vísað var til umsagnar íbúaráðs Laugardals. Jafnframt er lögð fram umsögn íbúaráðs Laugardals, dags. 14. maí 2024.

    Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga.

    Lagt er til að hámarkshraði Suðurlandsbrautar verði endurskoðaður í samræmi við gildandi hárkshraðaáætlun í tengslum við hönnun og uppbyggingu fyrsta áfanga Borgarlínu.

    Frestað MSS23090113

  12. Fram fer kynning á fyrirhuguðum verkefnum sumarsins hjá deild borgarhönnunar.
    Sara Bjarnason, verkefnastkóri og Salóme Rósa Þorkelsdóttir borgarhönnuður taka sæti á fundinum undir þessum lið. USK24050281

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þegar hugsað er til verkefna sumarsins dettur fulltrúa Flokks fólksins helst í hug þrif. Þrífa þarf borgina rækilega eftir veturinn. Nýta ætti einnig sumarið í að planta Trjárækt er eitt af þeim verkefnum sem borgin mætti leggja mun meiri  áherslu á en gert hefur verið. Öll græðum við á að hafa gróðursælt og snyrtilegt umhverfi. Skoða má að planta meira af stórum trjám.  Stór tré þurfa mikið pláss og þess vegna þarf að planta þeim á stórum opnum svæðum. Í borginni eru víða opin svæði svo sem meðfram vegum sem sjálfsagt er að setja stór tré. Mikill kostur er ef hægt er að setja stór tré þar sem fólk er ekki. Til dæmis setja stór tré á eyjur milli akreina þar sem þau draga úr mengun og svifryki en hindra ekki aðra umferð. Stór tré eru líka góð til að mynda skjólbelti, til að hindra skafrenning, t.d. meðfram þeim vegum sem eru útsettir fyrir skafrenningi. Slík skjólbelti væru þá í hæfilegri fjarlægð frá vegi þannig að bundinn snjór færi ekki á veginn. Sérstaklega ætti að planta sígrænum trjám en slík tré mynda skjól allt árið en ekki bara á sumrin. En falleg lauftré eru til prýði í borginni.

    Fylgigögn

  13. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Vinstri grænna sbr. 16. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs 13. september 2023 um nafnabreytingu á Hátúni. tillögunni var vísað til meðferðar götunafnanefndar Reykjavíkurborgar. Einnig er lögð fram fundargerð götunafnanefndar Reykjavíkurborgar sbr.  fimmtudaginn 23. maí 2024 nr. 58 þar sem tillagan var lögð fram.
    Tillagan er felld með sex atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Sjálfstæðisflokksins gegn einu atkvæði fulltrúa Vinstri grænna. USK24050380

    Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar og Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Í umsögn nafnanefndar er lagt til að nafni norður-suðurhluta Hátúns verði ekki breytt í Ólafartún líkt og lagt var til í tillögu Vinstri grænna heldur að nafn götunnar verði óbreytt. Að mati nafnanefndar Reykjavíkur er Hátún rótgróið götuheiti í hjarta Reykjavíkur sem hefur staðist tímans tönn og á sér sérstakan stað í huga margra borgarbúa. Í ljósi neikvæðar umsagnar um tillöguna þykir því ekki rétt að breyta nafninu.

    Fylgigögn

  14. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sbr. 33. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs 29. maí 2024.
    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgangna og borgarhönnunar. USK24050370

  15. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sbr. 34. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs 29. maí 2024.
    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgangna og borgarhönnunar. USK24050369

  16. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sbr. 35. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs 29. maí 2024.
    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgangna og borgarhönnunar. USK24050371

  17. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins sbr. 9. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs 22. maí 2024.
    Tillagan er felld USK24050277

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins lagði til að  settar verði upp eftirlitsmyndavélar í nánd við helstu verðmæti af listrænum toga í Reykjavík.  Nú síðast var skemmdarverk unnið á styttunni Útlögum, styttu Einars Jónssonar myndhöggvara á horni Suðurgötu og Hringbrautar. Tillagan er felld með þeim rökum að ekki sé þörf á slíku þar sem ekki sé mikið um skemmdarverk af þessu tagi í Reykjavík.  Ítrekað eru framin skemmdarverk á hinum ýmsu verðmætum í borginni. Mikilvægt er að ná í skemmdarvargana og að þeir axli ábyrgð. Ein besta leiðin til þess er að hafa eftirlitsmyndavélar og hefur Flokkur fólksins talað fyrir því í mörg ár. Dauðir hlutir njóta oft ekki griða í Reykjavík. Nefna má veggjakrot og aðrar skemmdir. Eignaspjöll fá að þrífast án nokkurrar refsingar þar sem skemmdarvargar nást sjaldan. Ef kostnaður af skemmdarverkum á opinberum eignum borgarinnar væri tekinn saman hlypi upphæðin  hundruð milljóna króna.  Flokkur fólksins hefur áður lagt til að gripið skuli til aðgerða. Einnig að myndaður yrði starfshópur sem leggjast myndi yfir hvaða kostir eru í stöðunni til að spyrna fótum við skemmdarverkum í borginni. Ef heldur áfram sem horfir þá munu skemmdarverk s.s. veggjakrot verða sem aldrei fyrr og hreinsun mun valda borginni gríðarlegum kostnaði.

    Fylgigögn

  18. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins sbr. 36 liður fundargerðar umhverfis- og skipulagssviðs 29. maí 2024.
    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgangna og borgarhönnunar. USK24050374

    Fylgigögn

  19. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands sbr. 37. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs 29. maí 2024.
    Vísað til umsagnar strætó bs. USK24050368

    Fylgigögn

  20. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins sbr. 38. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagssviðs 29. maí 2024.
    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds

    -    Kl. 10:15 víkur Brynjar Þór Jónasson af fundi
    -    Kl. 10:18 Víkur Gunnar Hersveinn Sigursteinsson af fundi USK24050365

    Fylgigögn

  21. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    1. Að  skoða önnur útivistarsvæði  þar sem má hafa lausa hunda því það hentar ekki öllum hundum að vera í gerði
    2. Að hundagerði í Reykjavík verði almennt stækkuð, flest eru einfaldlega of lítil.
    3. Að sett verði í forgang að stækka hundagerði í Grafarvogi
    4. Að girðingum verði breytt þannig að smáhundar sleppi ekki út. Til dæmis þarf að minna bil undir hliðum
    5. Að bætt verði lýsing í hundagerðum fyrir næsta vetur en það vantar ljós hjá þeim flestum. Sérstaklega þarf að bæta lýsingu í Laugardalsgerðinu.
    6. Að gera þannig hundagerði úr garði að þau verði ekki eitt drullusvað, bekkir hálfsokknir í drullu svo bæði menn og hundar verða skítug þegar blautt er í veðri
    7. Að hætta að nota trjákurl yfir moldina eins og sjá má víða í hundagerðum því litlir hundar éta það og getur það gert þeim mikinn skaða
    8. Að slétta svæðið meira í gerðinu í Grafarvogi. Grindverki hefur verið skellt upp í kringum þúfur. Sjálfsagt er að hafa einhverjar þúfur en þarna má standa betur að verki. Greinargerð fylgir tillögu USK24060044

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 10:30

Pawel Bartoszek Aðalsteinn Haukur Sverrisson

Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir Hildur Björnsdóttir

Hjálmar Sveinsson Friðjón R. Friðjónsson

Líf Magneudóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Umhverfis- og skipulagsráð 5. júní 2024 - prentvæn útgáfa