Umhverfis- og skipulagsráð - Fundur nr. 309

Umhverfis- og skipulagsráð

Ár 2024, miðvikudaginn 22. maí, kl. 9:05 var haldinn 309. fundur umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Dóra Björt Guðjónsdóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Líf Magneudóttir, Pawel Bartoszek og áheyrnarfulltrúarnir Ásta Þósdís Skjalddal og  Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild: Hildur Björnsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Ámundi V Brynjólfsson Björn Axelsson, Brynjar Þór Jónsson, Guðmundur Benedikt Friðriksson, Eva Kristinsdóttir, Hjalti Jóhannes Guðmundsson, Hreinn Ólafsson, Ásdís Ásbjörnsdóttir, Tómas, Guðberg Gíslason, Kristín Anna Þorgeirsdóttir, Kristjón Ólafur Smith og Jóhanna Guðjónsdóttir.
Fundarritari var Glóey Helgudóttur Finnsdóttir.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram skipulagslýsing umhverfis- og skipulagssviðs, dags. í apríl 2024, vegna vegna fyrirhugaðrar breytingar á deiliskipulagi sem nær yfir afmarkað svæði í Elliðaárdal. Deiliskipulagstillagan nær yfir svæði frá Árbæjarstíflu upp fyrir Blásteinshólma og neðan frá stíflunni meðfram Rafstöðvarvegi að Elliðaárvirkjun. Markmið með deiliskipulagsbreytingunni er að uppfæra deiliskipulag fyrir Elliðaárdalinn þar sem árbæjarlónið verður ekki lengur til staðar og náttúrulegir árfarvegir eru endurheimtir. Fjallað verður um nýtt hlutverk Árbæjarstíflu sem aðgengileg tenging yfir dalinn ásamt mögulegum dvalar og áningarstöðum. Í deiliskipulagsvinnunni verður lögð áhersla á lífríkið á svæðinu og hugsanlegar mótvægisaðgerðir vegna frárennslis frá byggð í Elliðaárnar. Neðan stíflunnar er markmið breytts skipulags að auka umferðaröryggi um Rafstöðvarveg meðan staðinn er vörður um sjónræn tengsl Árbæjarstíflu og Elliðaárvirkjunar. Markmiðið er að umhverfi og dalurinn allur verði áfram einstök náttúru og útivistarperla.

    Samþykkt að kynna lýsingu nýs deiliskipulags í samræmi við 1. og 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Leita skal umsagna um lýsinguna hjá Skipulagsstofnun, Minjastofnun Íslands, Hafrannsóknarstofnun, hverfisráða og íbúasamtaka, Orkustofnun, Umhverfisstofnun, Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Veiðifélagi Elliðavatns, Stangveiðifélagi Reykjavíkur, Náttúrufræðistofnun, Hollvinasamtaka Elliðaárdalsíbúaráða og einnig kynna hana fyrir almenningi. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. USK24050182

    Hrönn Valdimarsdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    -    Kl. 09:28 víkur Hildur Björnsdóttir af fundinum og Friðjón R Friðjónsson tekur sæti. 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Markmið deiliskipulagsbreytingarinnar er að uppfæra deiliskipulag fyrir Elliðaárdalinn þar sem Árbæjarlón verður ekki lengur til staðar. Tekið skal fram að tæming Árbæjarlóns var gerð án framkvæmdaleyfis og braut gegn gildandi deiliskipulagi Elliðaárdalsins. Mikil óánægja hefur verið með tæminguna meðal íbúa í nágrenni lónsins og ekki síst vegna þess að ekkert íbúasamráð átti sér stað vegna hennar. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítreka þá skoðun sína að Árbæjarlón verði fyllt að nýju.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Breyting á deiliskipulagi - Deiliskipulagstillagan nær yfir svæði frá Árbæjarstíflu upp fyrir Blásteinshólma og neðan frá stíflunni meðfram Rafstöðvarvegi að Elliðaárvirkjun. Fjallað er í gögnum um nýtt hlutverk Árbæjarstíflu en með niðurlagningu virkjunarinnar er hlutverki hennar lokið. Nú á að finna henni annað hlutverk, einhvers konar tengihlutverk. Það er skoðun margra að stíflan slíti í sundur dalinn og ætti að rífa hana en hluti af henni er friðaður. Á meðan stíflan stendur er varla hægt að tala um að umhverfið verði komið í fyrra horf. Stíflan getur heldur varla virkað sem tengibrú eða brú af neinu tagi enda ekki hönnuð til slíks.  Auðveldara væri að byggja fallega brú þarna í stað stíflunnar. Forvitnilegt verður að sjá hvaða umsagnir berast við lýsingunni. Þegar á heildina er litið er ekki beinlínis séð að verið sé að koma Elliðaárdalnum í fyrra horf  samkvæmt þessum tillögum.

     

    Fylgigögn

  2. Dóra Björt Guðjónsdóttir formaður umhverfis- og skipulagsráðs opnar fundinn og segir frá fyrirkomulagi dagsins. USK24050213

  3. Erik Tryggvi Striz Bjarnason skrifstofustjóri  áætlana og hagmála hjá FAS kynnir nýtt verklag við fjárhagsáætlunargerð 2025 - 2028.

    -   Kl. 09:45 tekur Bjarni rúnar Ingvarsson sæti á fundinum.

    -   Kl. 09:45 tekur Steinunn Rögnvaldsdóttir sæti á fundinum. USK24050213

  4. Hreinn Ólafsson fjármálastjóri kynnir áskoranir sviðsins og  rammaúthlutun USK 2025. USK24050213

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Unnt er að ná fram verulegri hagræðingu og sparnaði í borgarkerfinu með bættu skipulagi, verklagi og ekki síst meiri aga í rekstri. Launagreiðslur eru afar hátt hlutfall af útgjöldum og tækifæri hljóta að felast í betri mannauðsstjórnun, t.d. með auknu samstarfi á milli sviða. Almennt er óæskilegt að fjölga starfsfólki frekar en orðið er. Líklegt er að tækifæri felist í betri nýtingu mannauðs borgarinnar, t.d. með bættri stjórn og skipulagi. Skoða þarf hagkvæmni þess að nýta útboð verkefna í auknum mæli. Til dæmis er Reykjavíkurborg líklega eina sveitarfélag landsins, sem býður ekki út sorphirðu. Þá má knýja fram hagræðingu í borgarkerfinu með auknu eftirliti og eftirfylgni með innvistuðum sem útvistuðum verkefnum. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram fjölmargar tillögur um hagræðingu og sparnað í tengslum við vinnu að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar undanfarin ár. Meirihluti Samfylkingar, Framsóknarflokksins, Pírata og Viðreisnar hefur ekki tekið þessum tillögum vel og fellt þær flestar. Vonandi verður breyting á því viðmóti meirihlutans í þeirri fjárhagsáætlunargerð, sem nú er hafin. Sem fyrr eru borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins reiðubúnir til samvinnu við meirihlutann um raunverulegar aðgerðir í því skyni að ná stjórn á fjármálum borgarinnar og hætta taprekstri. Til þess þarf að endurskoða allan rekstur og ráðast í víðtækan sparnað og hagræðingu.

    Fylgigögn

  5. Steinunn Rögnvaldsdóttir sérfræðingur kynnir áætlun um greiningar KFS 2025-2029 og jafnréttisskimanir áskorana vegna fjárhagsáætlunar 2025. USK24050213

  6. Skrifstofustjórar USK kynna forgangsröðun verkefna og svigrúm fyrir nýtt og breytt verklag í rekstri hjá sínum skrifstofum/embættum 10 mín max á hverja skrifstofu:



    1.    Sviðsstjóri og miðlægar skrifstofur: Ólöf Örvarsdóttir

    2.    Skrifstofa skipulagsfulltrúa: Björn Axelsson

    3.    Skrifstofa byggingafulltrúa: Brynjar Þór Jónasson

    4.    Skrifstofa samgangna og borgarhönnunar: Bjarni Rúnar Ingvarsson

    5.    Skrifstofa framkvæmda og viðhalds: Ámundi V. Brynjólfsson

    6.    Skrifstofa borgarlandsins: Hjalti J. Guðmundsson

    7.    Skrifstofa umhverfisgæða: Guðmundur B. Friðriksson

    8.    Skrifstofa heilbrigðiseftirlits: Tómas Guðberg Gíslason USK24050213

  7. Fulltrúar í Umhverfis- og skipulagsráði forgangsraða tillögum með stigagjöf. USK24050213

  8. Dóra Björt Guðjónsdóttir formaður umhverfis- og skipulagsráðs, lokaorð.

    - Kl. 11:48 víkur Ólöf Örvarsdóttir af fundi. USK24050213

  9. Áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Flokkur fólksins leggur til að settar verði upp eftirlitsmyndavélar í nánd við helstu verðmæti af listrænum toga í Reykjavík. Greinargerð fylgir tillögunni.

    Frestað USK24050277

    Fylgigögn

  10. Áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að snarlega verði bætt úr aðgengismálum að leikskólanum Sunnuási en þar sárlega er vöntun á bílastæðum/sleppistæði svo foreldrar geti lagt bíl sínum  og farið með barn sitt inn í leikskólann. Athuga verður að margir foreldrar eru að koma með börn sín úr öðrum hverfum.

    Einnig er lagt til að fundnar verði lausnir til að létta á umferðarþunga í nágrenni við leikskólann.  Umferðin er sérstaklega mikil um Laugarásveg seinni partinn. Greinargerð fylgir tillögunni.

    Frestað USK24050278

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 12:12

Dóra Björt Guðjónsdóttir Aðalsteinn Haukur Sverrisson

Hjálmar Sveinsson Friðjón R. Friðjónsson

Kjartan Magnússon Líf Magneudóttir

Pawel Bartoszek

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 22. maí 2024