Umhverfis- og skipulagsráð - Fundur nr. 308

Umhverfis- og skipulagsráð

Ár 2024, miðvikudaginn 15. maí, kl. 10:45 var haldinn 308. fundur umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Dóra Björt Guðjónsdóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Líf Magneudóttir, Pawel Bartoszek og áheyrnarfulltrúarnir Ásta Þórdís Skjalddal og  Helga Þórðardóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Gunnar Hersveinn Sigursteinsson og Hólmfríður Frostadóttir. Eftirtaldir embættismenn og starfsmenn sátu fundinn í gegnum fjarfundabúnað: Björn Axelsson, Bjarni Rúnar Ingvarsson, og Guðmundur Benedikt Friðriksson. Fundarritari var Auðun Helgason.

Þetta gerðist:

 1. Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa dags. 7. maí 2024. USK22120096

  Fylgigögn

 2. Fram fer kynning á fyrirhuguðum framkvæmdum á umferðarljósum árið 2024 og endurnýjunarþörf næstu ára.

  Grétar Þór Ævarsson ráðgjafaverkfræðingur, Nils Schwarzkopp byggingartæknifræðingur og Bjarni rúnar Ingvarsson deildarstjóri taka sæti á fundinum undir þessum lið.

  -    Kl. 11:13 tekur Hildur Björnsdóttir sæti á fundinum USK24050009

  Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

  Samkvæmt yfirliti yfir umferðarljós á höfuðborgarsvæðinu er langflestum umferðarljósum stýrt út frá skynjurum og magni umferðar. Aðeins 12% eru enn klukkustýrð og stefnt er að því að bæta úr því. Með breytingunni í ár er verið að taka í notkun nýja skynjaralausn í þessum efnum og stefnt er að því að skoða áhrifin á flæði umferðar í samanburði við hefðbundinn búnað.

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Úrbætur á stýringu umferðarljósa í Reykjavík eru löngu tímabærar í því skyni að auka umferðaröryggi, bæta umferðarflæði og draga úr mengun í borginni. Nýta þarf kosti tölvutækni betur en nú er gert til að ná þessum markmiðum. Miklir möguleikar eru fyrir hendi til að besta stýringu umferðarljósa út frá gögnum, sem aflað verði með skynjurum á umferðarljósum. Ánægjulegt er að verið sé að stíga skref í þessu skyni í Reykjavík en í ljósi góðrar reynslu erlendis frá er full ástæða til að stíga stærri skref og hraða innleiðingu þessarar tækni við umferðarljósastýringu í borginni.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Endurnýja þarf umferðarljós á fjölmörgum stöðum í Reykjavík. Umferðarljós skipta sköpum þegar horft er til þess að liðka fyrir umferð gangandi og akandi. Lengi hefur verið kvartað yfir ljósastýringu í borginni sem á köflum er stórundarleg og ekki er vitað hvort það sé  hugsanlega vegna bilunar. Flokkur fólksins hefur oft tekið dæmi um gönguljós sem loga allt of lengi, hinn gangandi vegfarandi löngu kominn yfir og horfinn sjónum þegar enn logar á rauðu ljósi og bílaröðin lengist með hverri sekúndu. Aðeins örfáir bílar ná að taka af stað áður en næsti gangandi vegfarandi ýtir á hnappinn og aftur kemur rautt ljós sem logar óþarflega lengi og áfram lengist bílaröðin. Það hljóta allir að sjá að í þessu er ekkert vit. Nú þegar endurnýja á umferðarljós, uppfæra einhver og setja LED þarf að skoða þetta vandamál. Því miður er vinnunni dreift á nokkur ár allt til 2030 og er ekki endilega séð að verkefnum sé forgangsraðað með það að leiðarljósi að minnka  umferðarteppur.

  Fylgigögn

 3. Fram fer kynning á  tölum um fjölda hjólandi vegfarenda í borginni.
  Kristinn Jón Eysteinsson verkefnastjóri, Björg Helgadóttir verkefnisstjóri og Bjarni Rúnar Ingvarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið. USK24050073

  Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

  Mælingar sýna að þeim fjölgar sífellt sem hjóla. Samkvæmt sjálfvirkum hjólateljurum á lykilstöðum sést að aldrei hafa jafn margir hjólað í upphafi árs. Nú eru komnir 42 km af aðgreindum hjólastígum í Reykjavík og mun þeim fjölga umtalsvert í sumar þegar við bætast stígar í Skógarhlíð, Réttarholtsvegi, Suður-Hlíðum og syðst í Elliðaárdal. Markmið hjólreiðaáætlunar eru því á góðri leið með að nást sem er gríðarlega ánægjulegt.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Hjólandi fólki fer fjölgandi, hægt og bítandi og ber að fagna því. Í könnun 2022 mældust þeir sem hjóla vera 5% en eru nú um 6%. Reyndar fer bílum einnig fjölgandi og einkabíllinn er langvinsælasti ferðamátinn í borginni. En því fleiri valmöguleikar sem bjóðast fólki til að koma sér milli staða því betra. Nú hefur hægst á sölu rafbíla vegna aukinna álagninga á rafbíla. Það er bagalegt og má segja að með því dragi úr þeim hraða sem vonast var eftir að orkuskiptin væru á. Fjölgun bíla kemur ekki á óvart í ljósi þess að ekki er um annan alvöru valkost að ræða þegar kemur að almenningssamgöngum.  Strætó bs. hefur dregið saman þjónustu sína vegna fjárhagserfiðleika og aðeins 5% notar strætó sem eru einu almenningssamgöngur borgarinnar (í könnun 2022). Ekkert er að frétta af borgarlínu, hvenær fyrstu vagnar fara af stað. Í huga margra er borgarlína ekki raunhæfur kostur. Það hlýtur þess vegna að þurfa að gera eitthvað róttækt til að hressa upp á einu almenningssamgöngurnar sem til eru hér. Eigendur Strætó bs munu þurfa að leggja til há fjárframlög ef Strætó á að geta verið starfrækt áfram.  

  Fylgigögn

 4. Lögð fram tillaga Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar um fjölgun gatna þar sem heimilt er að hjóla gegn einstefnu
  Samþykkt. USK24050118

 5. Lögð fram umsókn Bjargs Íbúðafélags, dags. 17. janúar 2023 ásamt bréfi, dags. 16. janúar 2023, um breytingu á deiliskipulagi Hlíðarenda vegna reits I við Haukahlíð, lóð nr. 6 við Haukahlíð. Í breytingunni sem lögð er til felst fjölgun íbúða úr 70 íbúðum í 85 leiguíbúðir. Einnig breyting; á hlutföllum íbúðastærða fyrir lóðina, á skilmálum um randbyggð og útlit á þann hátt að norður og suðurhlið verði deilt í fjórar einingar í stað fimm, á skilmálum um frágang innan lóða, á skilmálum um ofanvatnslausnir og jarðvegsdýpt auk þess sem deiliskipulagsmörk verða færð að lóðamörkum. Einnig fjölgun bílastæða í kjallara í 54 stæði ásamt útlistingu á fyrirkomulagi aðgengis í bílakjallarann sbr. niðurstöðu á uppfærslu samgöngumats, samkvæmt uppdr. ASK arkitekta, dags. 30. apríl 2024. Einnig er lagt fram samgögnumat Eflu, dags. 30. apríl 2024.
  Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
  Vísað til borgarráðs. USK23010208

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Þetta mál gengur út á breyting á breyting á deiliskipulagi - Haukahlíð 6. Lögð fram umsókn Bjargs Íbúðafélags sem felst í fjölgun íbúða úr 70 íbúðum í 85 leiguíbúðir ásamt mörgu fleiru þessu tengt. Fram kemur í gögnum að “hafa ber þó í huga að þrátt fyrir að viðmið um fjölda bílastæða séu uppfyllt þá verða 31 íbúðir án bílastæða og því er mikilvægt að huga að því að gera aðgengi að vistvænum samgöngum eins hátt undir höfði og mögulegt er til að auðvelda íbúum að lifa bíllausum lífsstíl.”  Hér staldrar fulltrúi Flokks fólksins við því við vitum öll að við búum ekki yfir þeim lúxus að hafa nógu góðar almenningssamgöngur. Það er ekki hægt að ætlast til að allir fari um á hjóli. Það eru ekki aðstæður til staðar til að hægt sé að ætlast til að allir lifi bíllausum lífsstíl. Stungið er upp á ýmsu s.s. að samnýta bílastæði eða veita aðstöðu til hjólaviðgerða nú eða tryggja íbúum aðgengi að deilibíl. Þetta er eins gott og það nær. Staðreyndir tala máli sínu. Bílum fer fjölgandi og að er ekki að ástæðulausu. Fulltrúa flokks fólksins finnst sem verið sé að þvinga borgarbúa allt of mikið til að leggja bílnum.

  Fylgigögn

 6. Lögð fram skipulagslýsing fyrir Sóleyjarima dags. í maí 2024. Um er að ræða deiliskipulagslýsingu vegna nýrrar íbúðabyggðar við Sóleyjarima. Viðfangsefnið er að deiliskipuleggja lóð þannig að unnt verði að koma fyrir íbúðabyggð með 65-96 íbúðum.
  Samþykkt er að kynna lýsingu nýs deiliskipulags í samræmi við 1. og 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Leita skal umsagna um lýsinguna hjá Skipulagsstofnun, Minjastofnun Íslands, Borgarsögusafns, Veitna ohf., Umhverfisstofnunar, íbúaráða og einnig kynna hana fyrir almenningi. USK24050141

  -    Kl. 12:08 víkur Gunnar Hersveinn Sigursteinsson af fundi. 

  Fylgigögn

 7. Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 17. apríl 2024 ásamt kæru nr. 47/2024, dags. 16. aríl 2024, þar sem kærð er samþykkt breyting á deiliskipulagi á Skúlagötusvæði – Endastöð Strætó við Skúlagötu. Einnig er lögð fram greinargerð Reykjavíkurborgar, dags. 19. apríl 2024. Jafnframt er lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 6. maí 2024. Úrskurðarorð: Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða á grundvelli ákvörðunar skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar frá 22. mars 2024 um að veita framkvæmdaleyfi vegna tímabundinnar skiptistöðvar strætó og lóðafrágangs. USK24040176

  Fylgigögn

 8. Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 10. maí 2024 ásamt kæru nr. 54/2024, dags. 10. maí 2024, þar sem kærð er ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjavíkur að kærendum, þinglýstum eigendum að Laugarásvegi 63, sé gert að fjarlægja skjólvegg við lóðarmörk Laugarásvegar 61 að viðlögðum dagsektum. USK24050124

  Fylgigögn

 9. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sbr. 21. lið fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs dags. 18. október 2023. Einnig er lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds dags. 6. maí 2024.
  Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds. USK23100225

  Fylgigögn

 10. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sbr. 29. lið fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs dags. 4. október 2023. Einnig er lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds, dags. 4. maí 2024.
  Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds. USK23100061

  Fylgigögn

 11. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um bætta lýsingu í Elliðaárdal, sbr. 37. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 15. nóvember 2023. Einnig er lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofa borgarlandsins, dags. 6. desember 2023.
  Tillögunni er vísað frá með  fimm atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna.
  Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. USK23110182

  Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

  Tillögunni er vísað frá þar sem þegar hefur verið bætt úr lýsingu á þessum stað eins og kemur fram í umsögn.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Flokkur fólksins lagði til eftir að hafa fengið ábendingu að engin lýsing sé við göngustíga í Elliðaárdal í norður frá Fella- og Hólakirkju sett verði upp hið snarasta lágmarkslýsing. Fólk sem þarna gengur  eftir að myrkva tekur sér ekki handa sinna skil. Í svari kemur fram að seinkun á afhendingu lampa varð til þess að lýsingu var ábótavant á stígnum sem vísað er til hér að ofan. Nú hafa lamparnir verið afhentir og settir upp og lýsingin ætti þar með að vera nægjanleg á stígnum. Þessu ber að fagna og minnt er á að huga þarf e.t.v. að öðrum tilfellum þar sem koma þyrfti upp lágmarkslýsingu. Góð lýsing skiptir máli fyrir margar sakir. Góð lýsing er öryggisatriði og mun auðvitað stuðla að enn meiri nýtingu svæðisins.

  Fylgigögn

 12. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sbr. 30. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 8. maí 2024.
  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgangna og borgarhönnunar. USK24050094

 13. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sbr. 31. liður fundargerðar umhverfi- og skipulagsráðs dags. 8. maí 2024.
  Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds. USK24050095

 14. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins sbr. 32. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 8. maí 2024.
  Tillagan er felld. USK24050093

  Fylgigögn

 15. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins sbr. 33. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs 8. maí 2024.
  Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvað íbúar í Bólstaðarhlíð geti gert til þess að snúa þeirri ákvörðun skipulagsyfirvalda við að fjarlægja gáma fyrir plast og pappír úr sorpgerðinu – safnað undirskriftum? Greinargerð fylgir fyrirspurn.
  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða. USK24050101

  Fylgigögn

 16. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

  Lagt er til að ráðist verði í framkvæmdir við göngu- og hjólastíg, sem liggur frá gangbraut við íþróttahús Fram upp að Urðarbrunni 100 og hann fullgerður á árinu. Einungis neðsti hluti stígsins hefur verið lagður, þ.e. tröppur frá Úlfarsbraut upp að neðanverðum Gerðarbrunni. Um er að ræða fjölfarna gönguleið barna og ungmenna.

  Frestað USK24050186

 17. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

  Eftirfarandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins var lögð fram í borgarstjórn 20. september 2022. Eftir góðar umræður vísaði borgarstjórn tillögunni til meðferðar umhverfis- og skipulagsráðs. Þar hefur hún þó ekki enn verið tekin fyrir og er óskað eftir því að úr því verði bætt sem fyrst. Greinargerð með upphaflegri tillögu fylgir.

  Frestað USK24050187

  Fylgigögn

 18. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að frekari hraðahindrun og merkingar um hámarkshraða verði settar upp á Laugarásvegi. Eftir þessari götu aka sumir á ofsahraða og allt um kring búa barnafjölskyldur. Greinargerð fylgir tillögu.

  Frestað USK24050184

  Fylgigögn

 19. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

  Flokkur fólksins leggur til að bílastæðum verði fjölgað við Dalslaug  í Úlfarsárdal og íþróttasvæðið þar í kring. Við laugina eru allt of fá stæði sem skapar öngþveiti. Greinargerð fylgir tillögu.

  Frestað USK24050185

  Fylgigögn

Fundi slitið kl. 12:28

Dóra Björt Guðjónsdóttir Hildur Björnsdóttir

Hjálmar Sveinsson Kjartan Magnússon

Líf Magneudóttir Pawel Bartoszek

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 15. maí 2024