Umhverfis- og skipulagsráð - Fundur nr. 303

Umhverfis- og skipulagsráð

Ár 2024, miðvikudaginn 3. apríl, kl. 9:02 var haldinn 303. fundur umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Dóra Björt Guðjónsdóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Líf Magneudóttir, Pawel Bartoszek og áheyrnarfulltrúarnir Halldóra Hafsteinsdóttir og Rúnar Sigurjónsson. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild: Hildur Björnsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Björn Axelsson, Guðmundur Benedikt Friðriksson, Gunnar Hersveinn Sigursteinsson og Sigurjóna Guðnadóttir.
Fundarritari var Auðun Helgason

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram ársuppgjör fyrir árið 2023.

    Hreinn Ólafsson fjármálastjóri og Ásdís Ásbjörnsdóttir mannauðsstjóri taka sæti á fundinum undir þessum lið. USK24030117
     

  2. Lagt fram yfirlit yfir ferðakostnað umhverfis- og skipulagssviðs fyrir október - desember 2023.

    Hreinn Ólafsson fjármálastjóri og Ásdís Ásbjörnsdóttir mannauðsstjóri taka sæti á fundinum undir þessum lið. USK24030117

    -    Kl. 9:17 tekur Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, samgöngustjóri sæti á fundinum. 

    Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Samtals ferðakostnaður á áætlun umhverfis- og skipulagssviðs árið 2023 var alls 12.123.675 kr. Þetta er of hátt.  Í yfirliti yfir hagræðingaraðgerðir umhverfis- og skipulagssviðs 2024 kemur fram að lækka á ferðakostnað. Fulltrúi Flokks fólksins hlakkar til að sjá næsta yfirlit og er þess vænst að heildarferðakostnaður mun lækka til muna.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram og kynnt skýrsla innri endurskoðunar Reykjavíkur um vetrarþjónustu Reykjavíkur og samantekt umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu borgarlands á kostnaði og þróun í vetrarþjónustu.

    Ingunn Ólafsdóttir og Guðjón Hlynur Guðmundsson frá Innri endurskoðun Reykjavíkur, Hjalti Jóhannes Guðmundsson skrifstofustjóri, Karl Eðvaldsson deildarstjóri, Hreinn Ólafsson fjármálastjóri, Ásdís Ásbjörnsdóttir mannauðsstjóri og Ámundi V. Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið. USK23100191

    -    Kl. 10:14 tekur Inga Rún Sigurðardóttir sérfræðingur sæti á fundinum. 

    Lögð fram svohljóðandi bókun fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar:

    Við þökkum skýrslu IER um kostnað vegna vetrarþjónustu. Þökkum einnig viðbrögð skrifstofu borgarlands, meðfylgjandi minnisblað og kostnaðargreiningu. Kostnaður við vetrarþjónustu hefur hækkað undanfarin ár vegna hækkaðs þjónustustigs og hækkaðs einingaverðs um 50%-100% milli útboða, þar að auki hefur snjómagn aukist. Búið er að greina kostnaðinn í samræmi við skýrsluna og mögulegar leiðir til að draga úr kostnaði sem verið er að undirbúa. Einnig er unnið að reiknilíkani til að skapa aukinn fyrirsjáanleika í kostnaði vegna vetrarþjónustunnar.

    Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Skýrsla Innri endurskoðunar (IE) liggur fyrir. Fjöldi ábendinga eftir áhættuskori eru fjórar, tvær  í flokknum „Mikil áhætta“ og tvær  í flokknum „nokkur áhætta“.  Fulltrúi Flokks fólksins er hugsi yfir þeim síðarnefndu frekar en þeim fyrrnefndu. Ábending snýr að tvöföldu samþykki reikninga en við  úrtaksskoðun kom í ljós að deildarstjóri var eini samþykkjandi á fjórum reikningum vegna vetrarþjónustu. Fulltrúi Flokks fólksins hefur staðið í þeirri trú að ávallt sé krafist tvöfalds samþykkis reikninga hvort sem um tímabundna framkvæmd er að ræða eða ekki. Það er í samræmi við verklag fjármálaskrifstofu. Ítrekað hefur komið fram í svörum við fyrirspurn um fjármál að tvöfalt samþykki sé skýr og ófrávíkjanleg regla. Þessi ábending IE kemur því mjög á óvart. Sama má segja um síðari ábendinguna í þessum flokki sem snýr að ábyrgð seinni samþykktaraðila reiknings á að fjárheimildir séu fyrir útgjöldum. Á árinu 2022 voru  61801  verk í snjóhreinsun gatna og á meðal þeirra verkefna voru mörg sem fóru verulega yfir fjárheimild. Lýst er undrun yfir þessu og vakna spurningar hvort víðar í borgarkerfinu sé líka pottur brotinn.  
     

    Fylgigögn

  4. Fram fer kynning á greiningu sem unnin var á samsetningu heimilisúrgangs frá íbúðarhúsum og árangur í flokkun.

    Lögð fram svohljóðandi bókun fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar:

    Þökkum kynningu á árangri af flokkun úrgangs. Óflokkaður úrgangur hefur minnkað verulega undanfarin ár. Söfnun matarleifa hefur gengið mjög vel, en hreinleiki flokkaðra matarleifa með pappírspokum er 98%. Undanfarin áratug hefur náðst góður árangur í söfnun plasts og pappírs en síðasta árið hefur orðið 65% aukning á flokkuðu plasti í Reykjavík sem safnað er við heimili eftir innleiðingu nýja flokkunarkerfisins. Ávinningurinn fyrir loftslagið af þeim árangri sem náðst hefur er sparnaður um 3250 tonn af koltvíoxíði ár hvert og hundruð tonna af næringarríkri moltu fyrir vistkerfið.

    Gyða Sigríður Björnsdóttir og Gunnar Dofri Ólafsson frá Sorpu og Inga Rún Sigurðardóttir sérfræðingur taka sæti á fundinum undir þessum lið. USK24030294
     

  5. Lagt fram til kynningar, Samræmd samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Reykjavík, ódags. USK24010250

  6. Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar skipulagsfulltrúa 21. mars 2024. USK23010150

    Fylgigögn

  7. Fram fer kynning á skipulagslýsingu fyrir 1. áfanga Kringlureitar skv. samþykktu rammaskipulagi fyrir Kringlusvæðið. Rammaskipulagið gerir ráð fyrir alls 6 áföngum og verða skipulagslýsingar fyrir seinni áfanga gerðar eftir því sem uppbyggingu vindur fram.

    -     Kl. 11:05 víkur Hildur Björnsdóttir af fundi.
    -     Kl. 11:12 tekur Marta Guðjónsdóttir sæti á fundinum með rafrænum hætti.

    Sigríður Maack verkefnastjóri og Borghildur Sölvey Sturludóttir deildarstjóri taka sæti á fundinum undir þessum lið. USK23100038
     

  8. Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að nýju deiliskipulagi fyrir lóðirnar nr. 19 og 21-23 við Laufásveg. Í tillögunni sem lögð er til felst breyta notkun á húsnæðinu sem áður hýsti sendiráð Bandaríkjanna við Laufásveg 21-23 ásamt skrifstofum á baklóð Laufásvegar 19 í íbúðarhúsnæði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd, samkvæmt uppdrætti Alta, dags. 22. nóvember 2023. Húsnæðið verði eingöngu nýtt til þessarar nota og óheimilt að leigja það út á almennum markaði. Tillagan var auglýst frá 11. janúar 2024 til og með 22. febrúar 2024. Eftirtaldir sendu athugasemdir/umsögn: Guðrún Erla Geirsdóttir, dags. 21. febrúar 2024, Arnar Guðmundsson, dags. 21. febrúar 2024, ásamt viðauka við athugasemd, dags. 22. febrúar 2024, Karl Pétur Jónsson f.h. Framkvæmdasýslunnar - Ríkiseigna, dags. 22. febrúar 2024, Sigrún Tryggvadóttir, dags. 22. febrúar 2024, Dóra Haraldsdóttir, dags. 22. febrúar 2024, Alda Björk Valdimarsdóttir, Filippía Ingibjörg Elísdóttir og Guðni Elísson, dags. 22. febrúar 2024, Guðlaug Gísladóttir f.h. Auðrún ehf., dags. 22. febrúar 2024, Hafliði Þór Pétursson og Snærós Vaka Magnúsdóttir og Íbúaráð Miðborgar og Hlíða, dags. 22. febrúar 2024. Auk þess er lögð fram bókun fulltrúa íbúasamtaka í íbúaráði Miðborgar og Hlíða, dags. 23. febrúar 2024. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 21. mars 2024. Lagt er til að tillagan verði samþykkt.
    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram tillögu um að málinu verði frestað. Tillagan er felld með fimm atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna. gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
    Tillaga um deiliskipulag samþykkt sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fimm atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
    Vísað til borgarráðs.

    Borghildur Sölvey Sturludóttir deildarstjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23100130

    Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Samkvæmt tillögunni er um að ræða tímabundið íbúðarhúsnæði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Gert er ráð fyrir starfsmanni með reglulega viðveru sem er íbúum til aðstoðar eftir atvikum. Einnig er heimilt að nýta bílskúra á lóðinni undir framangreint búsetuúrræði. Heildarfjöldi íbúa að hverju sinni að hámarki 80. Borgarfulltrúum hafa borist skeyti vegna þessa máls og all margar athugasemdir hafa verið sendar inn. Í gær barst okkur skeyti þar sem borgarfulltrúar voru hvattir til að svara ákveðnum spurningum við afgreiðslu málsins. Enda þótt fulltrúi Flokks fólksins hefur ekki atkvæðarétt í þessu máli leggur hann áherslu á að vandað verði til verka og rætt verði við alla sem að málinu koma. Horfa þarf m.a. til öryggismála s.s. flóttaleiða, brunavarna, hreinlætisaðstöðu og eldunaraðstöðu.
     

    Fylgigögn

  9. Að lokinni grenndarkynningu er lögð fram að nýju umsókn Plúsarkitekta ehf. og Fring ehf., dags. 3. nóvember 2022, um breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis vegna lóðarinnar nr. 14 við Lindargötu. Í breytingunni sem lögð er til felst að heimilt verður að hækka húsið um eina hæð, samkvæmt uppdr. Plúsarkitekta dags. 13. febrúar 2023, br. 24. mars 2024. Einnig er lagt fram skuggavarp Plúsarkitekta dags. 13. febrúar 2023. Tillagan var grenndarkynnt frá 17. apríl 2023 til og með 17. maí 2023. Eftirtaldir sendu athugasemdir: Fjórir eigendur og leigjendur að Klapparstíg 14, dags. 14. maí 2023, Guðni Pálsson, dags. 15. maí 2023, Ólafur Th. Ólafsson og Birna Eggertsdóttir, dags. 16. maí 2023, Friðrik Steinn Kristjánsson og Ingibjörg Jónsdóttir f.h. Silfurbergs ehf. og Berg Contemporary ehf. og Kristinn Pálmarsson f.h. K16 ehf., dags. 15. maí 2023 og danska sendiráðið, dags. 15. maí 2023. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 21. mars 2024. Lagt er til að tillagan verði samþykkt með þeim breytingum sem koma fram í umsögninni.
    Samþykkt sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með þeim breytingum sem koma fram í umsögn skipulagsfulltrúa dags. 21. mars 2024.
    Vísað til borgarráðs.

    Sigríður Maack verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. SN220704

    Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Þetta hverfi er nú þegar frekar skuggsýnt og jafnvel á köflum drungalegt. Þétting byggðar hefur ekki komið vel út þarna. Þröngt er á milli húsa og þrengsl víða. Bein áhrif breytinga eru á einstaka íbúðir. Athugasemdir eru ekki margar en snúa að áhyggjum af því að  birtuskilyrði í íbúðum muni skerðast með tilkomu ofanábyggingar sökum nálægðar hennar. Ennfremur muni útsýni og kvöldsól skerðast. Ofanábyggingin að Lindargötu 14 mun fá mikið útsýni á kostnað þeirra sem eru að missa  útsýni sem þeir hafa núna. Einnig mun við ofanábygginguna og væntanlegri tilkomu svala á breyttu húsnæði skapast innsýn inn í núverandi íbúðir sem ekki var til staðar áður eins og segir í athugasemdum. Fulltrúi Flokks fólksins leggur höfuðáherslu á að birta sé ekki skert. Skerðing birtu getur gjörbreytt íbúð sérstaklega smáum búðum. Birta í híbýlum hefur mikil áhrif á andlega líðan fólks.   Í svari við athugasemdum segir að “við þéttingu byggðar má búast við því að útsýni úr einstökum húseignum geti tekið breytingum og að nýbyggingar geti haft í för með sér innsýn inn í íbúðir sem fyrir eru.” Þetta eru engin rök að mati fulltrúa Flokks fólksins. Komin er fram málamiðlunartillaga og vonar Flokkur fólksins að málið fái góðar málalyktir.
     

    Fylgigögn

  10. Lögð fram umsókn Eignarhaldsfélagsins Arctic ehf., dags. 17. apríl 2023, um breytingu á deiliskipulagi reits 1.171.0 vegna lóðarinnar nr. 1 við Laugaveg. Í breytingunni sem lögð er til felst að fella úr gildi heimild til að rífa steinhús á bakhluta lóðar, Laugavegur 1A, ásamt því að núverandi leyfilegt byggingarmagn er fært til. Hluti leyfilegs byggingarmagns verður aukið neðanjarðar ásamt að leyfa rishæð yfir jarðhæð fyrir miðri lóð, samkvæmt uppdr. Tvíeykis ehf., dags. 5. apríl 2023. Einnig er lagt fram skuggavarpsuppdráttur, ódags, samantekt og vangaveltur hönnuðar, dags. ódags og umsögn Minjastofnunar Íslands, dags. 19. maí 2022. Lagt er til að tillagan verði afgreidd í auglýsingu.
    Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
    Vísað til borgarráðs.

    Sigríður Maack verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23040127
     

  11. Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju umsókn Páls Kristjáns Svanssonar dags. 13. apríl 2022 um nýtt deiliskipulag fyrir lóðirnar nr. 10 og 12 við Holtsgötu og 16 við Brekkustíg. Í breytingunni sem lögð er til felst uppbygging íbúðarhúsnæðis á lóðunum ásamt heimild til niðurrifs húsa að Holtsgötu 10 og Brekkustíg 16, samkvæmt deiliskipulags- og skýringaruppdráttum Axels Kaaber, dags. 24. mars 2023, br. 22. mars 2024. Einnig er lögð fram Fornleifaskrá og húsakönnun Borgarsögusafns Reykjavíkur, skýrsla nr. 214, umsagnir Minjastofnunar Íslands, dags. 11. júní 2019 og 25. apríl 2022, og samgöngumati verkfræðistofunnar Eflu, dags. 16. ágúst 2022. Tillagan var auglýst frá 4. júlí 2023 til og með 15. ágúst 2023. Eftirtaldir sendu athugasemdir: Fríða Jóhanna Ísberg, dags. 4. júlí 2023, Bergþóra Snæbjörnsdóttir, dags. 7. júlí 2023, Árni Björn Helgason, dags. 10. júlí 2023, Guðjón Björn Haraldsson, dags. 12. júlí 2023, Kári Harðarson, dags. 12. júlí 2023, Bjarnheiður S. Bjarnadóttir, dags. 12. júlí 2023, Aðalbjörg Anna Stefánsdóttir, dags. 12. júlí 2023, Áslaug Torfadóttir, dags. 12. júlí 2023, Hanna Dóra Hólm Másdóttir, dags. 12. júlí 2023, Aðalbjörg Hlín Brynjólfsdóttir, dags. 13. júlí 2023, Heiðbjört Arney Höskuldsdóttir, dags. 14. júlí 2023, Vilhjálmur Guðlaugsson, dags. 15. júlí 2023, Sigrún Laufey Baldvinsdóttir, dags. 26. júlí 2023, Anna Pratichi Gísladóttir, dags. 28. júlí 2023, Katrín Þorsteinsdóttir, dags. 28. júlí 2023, Jónína Óskarsdóttir, dags. 29. júlí 2023, Þórunn Júlíusdóttir, dags. 29. júlí 2023, Eyjólfur Már Sigurðsson, dags. 7. ágúst 2023, Hallur Örn Jónsson, dags. 8. ágúst 2023, Una Margrét Jónsdóttir (2 póstar), dags. 8. ágúst 2023, Brynhildur Bergþórsdóttir, dags. 9. ágúst 2023, Jóda Elín V. Margrétardóttir, dags. 11. ágúst 2023, Þórir Hrafnsson, dags. 11. ágúst 2023, Elís Vilberg Árnason, dags. 12. ágúst 2023, Ingibjörg Anna Arnarsdóttir, dags. 12. ágúst 2023, Finnur Egilsson, dags. 12. ágúst 2023, Guðrún Erla Sigurðardóttir, dags. 14. ágúst 2023, Þorgeir J. Andrésson, dags. 14. ágúst 2023, Helgi Þorláksson, dags. 14. ágúst 2023, Gunnþóra Guðmundsdóttir, dags. 14. ágúst 2023, Arngunnur Árnadóttir, dags. 15. ágúst 2023, Guðrún Birna Brynjarsdóttir, dags. 15. ágúst 2023, Guðríður Lára Þrastardóttir f.h. 28. íbúa við Holtsgötu, Brekkustíg, Bræðraborgarstíg og Framnesveg, dags. 15. ágúst 2023, Þorbjörg Erna Mímisdóttir, dags. 15. ágúst 2023, Kjartan Steinn Gunnarsson, dags. 15. ágúst 2023, Vala Thorsteinsson og Ingi Garðar Erlendsson, dags. 15. ágúst 2023, Pétur Marteinn U. Tómasson, dags. 15. ágúst 2023, Þorsteinn Geirharðsson, dags. 15. ágúst 2023 og Birgir Þ. Jóhannsson og Astrid Lelarge, dags. 15. ágúst 2023. Einnig er lögð fram umsögn Veitna, dags. 14. ágúst 2023 og umsögn Borgarsögusafns Reykjavíkur, dags. 17. ágúst 2023. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 29. febrúar 2024. Lagt er til að tillagan verði samþykkt með þeim breytingum sem koma fram í umsögninni.
    Samþykkt sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Fulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins.
    Vísað til borgarráðs.

    Sigríður Maack verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. SN220212

    Lögð fram svohljóðandi bókun fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar:

    Fyrirhuguð uppbygging á horni Holtsgötu og Brekkustígs hefur tekið miklum breytingum undanfarin ár. Tekið hefur verið tillit til athugasemda íbúa á auglýsingatíma. Horfið er frá niðurrifsheimild á íbúðahúsinu við Brekkustíg 16 og ásýnd húsanna aðlöguð ásýnd hverfisins. Við teljum niðurstöðuna ágæta málamiðlun og vonum að sátt verði um hana.

    Lögð fram svohljóðandi bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Fyrirliggjandi tillaga felur m.a. í sér byggingu 15 íbúða fjölbýlishúss í afar rótgrónu hverfi þar sem hluti götumyndar og byggingarlistar frá árdögum hverfisins hefur varðveist. Rétt væri að varðveita eldra byggðamynstur og hús á þessum gamla og viðkvæma reit í Gamla Vesturbænum. Um er að ræða of mikið byggingarmagn miðað við grunnflöt og heildaryfirbragð aðliggjandi byggðar. Æskilegt væri að yfirbragð og fjölbreytileiki Gamla Vesturbæjarins yrðu ríkjandi á umræddum reit. Í húsakönnun Borgarsögusafns á umræddum reit segir á bls. 24: ,,Af þeirri steinbæja- og timburhúsabyggð, sem reis á reitnum í byrjun 20. aldar standa nú einungis eftir tvö hús, Sæmundarhlíð við Holtsgötu 10 og húsið Brekkustígur 10 á horni Brekkustígs og Öldugötu." Í könnuninni er gildi Sæmundarhlíðar (Holtsgötu 10) metið hátt út frá menningarsögulegu gildi, umhverfisgildi og varðveislugildi en miðlungsgildi varðandi byggingarlist og upprunalega gerð. Sæmundarhlíð hefur staðið á þessum stað frá árinu 1883, upphaflega lítill steinbær, sem er líklega fyrsti áfanginn að núverandi húsi er var fullgert 1912. Brekkustígur 16 er talinn hafa miðlungsgildi út frá öllum áðurnefndum þáttum. Þrátt fyrir mikla uppbyggingu á reitnum er ekki gert ráð fyrir almennum bílastæðum þar samkvæmt tillögunni, sem ljóst er að mun auka mjög á bílastæðaskort í hverfinu.

    Lögð fram svohljóðandi bókun fulltrúa Vinstri grænna:

    Þó deiliskipulagstillagan hafi tekið ágætum breytingum og fallið hefur verið frá áformum um niðurrif eldri húsa er hún engu að síður enn of groddaraleg á þessu viðkvæma svæði í gróinni byggð í Vesturbænum og byggingarmagn of mikið.

    Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Tugir athugasemda hafa borist og fjölmargar háalvarlegar. Hér er greinilega um afar erfitt mál að ræða og tilfinningalegt fyrir marga sem ekki skal gera lítið úr. Skoða á allar athugasemdir hvort sem þær teljast efnislegar eða ekki.  Athugasemdir eru auk þess mjög samhljóða og ganga m.a. út á að deiliskipulagstillagan sé ekki í samræmi við þá byggð sem fyrir er. Í mörgum athugasemdanna er minnst á mikilvægi þess að haldið verði í sögulegt samhengi byggðar. Þétting og skuggavarp er sem áður litið alvarlegum augum. Í athugasemdum kemur fram gagnrýni á byggingarmagn í deiliskipulagstillögu. Gamli Vesturbærinn er hvað þéttbýlastur af hverfum Reykjavíkur. Íbúar lýsa jafnframt yfir áhyggjum af því að hæð byggingar á horni reitsins auki umferðarhættu og að fjöldi bílastæða á borgarlandi sé ekki nægur til að anna svo miklum fjöldi íbúða til viðbótar því sem fyrir er eins og fram kemur í samantekt. Athugasemdir ná yfir mörg önnur atriði. Mæta á hluta athugasemdanna sem virðist ekki leysa aðalvandamálin.  Flokki fólksins finnst að hætta ætti einfaldlega við fyrirhugaðar framkvæmdir. Blokk þarna er sögð vera byggingarsögulegt slys.  Hér þarf að staldra við og hlusta á borgarbúa, virða skoðanir þeirra hafa alvöru samráð.  
     

  12. Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa 19. mars 2024. USK22120096

    Fylgigögn

  13. Lagt fram afgreiðslubréf, dags. 14. mars 2024, vegna samþykktar borgarráðs s.d. á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Síðumúla 2-6 vegna lóðar nr. 6 við Síðumúla. SN220763

    Fylgigögn

  14. Lagt fram afgreiðslubréf, dags. 14. mars 2024, vegna samþykktar borgarráðs s.d. á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Safamýrar-Álftamýrar vegna nýrrar lóðar að Safamýri 58-60. USK23100313

    Fylgigögn

  15. Lagt fram afgreiðslubréf, dags. 14. mars 2024, vegna samþykktar borgarráðs s.d. á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi reits 1.171.4 vegna lóðarinnar nr. 9 við Skólavörðustíg. USK23110160

    Fylgigögn

  16. Lagt fram afgreiðslubréf, dags. 14. mars 2024, vegna samþykktar borgarráðs s.d. á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Kjalarness, Mógilsár og Kollafjarðar vegna Klettastígs í Esju. USK23110296

    Fylgigögn

  17. Lagt fram afgreiðslubréf, dags. 14. mars 2024, vegna samþykktar borgarráðs s.d. á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Slippa- og Ellingsenreits vegna lóðarinnar nr. 2 við Grandagarð. USK23120061

    Fylgigögn

  18. Lagt fram afgreiðslubréf, dags. 14. mars 2024, vegna samþykktar borgarráðs s.d. á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Skipholtsreits vegna lóðarinnar nr. 30 við Brautarholt. USK24020228

    Fylgigögn

  19. Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. febrúar 2024 ásamt kæru nr. 23/2024, dags. 26. febrúar 2025, þar sem kærð er ákvörðun Reykjavíkurborgar að hafna beiðni kæranda að taka upp ákvörðun um veitingu byggingarleyfis sem veitt var Apartments og rooms ehf. 30. ágúst 2022 og varðar Hraunberg 4. USK24020285

    Fylgigögn

  20. Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindarmála dags. 29. febrúar 2024 ásamt kæru nr. 24/2024, dags. 28. febrúar 2024, þar sem kærð er ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá um að samþykkja leyfi fyrir áðurgerðum breytingum á húsi á lóð Túngötu 36A. USK24020298

    Fylgigögn

  21. Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 6. febrúar 2024 ásamt kæru nr. 14/2024, dags. 4. febrúar 2024, þar sem kærð er ákvörðun byggingarfulltrúa að aðhafast ekkert og loka málinu er vegna kvartana kæranda til borgarinnar er varðar norðurhlið glugga Lálands 20. Einnig er lögð fram greinargerð Reykjavíkurborgar, dags. 7. febrúar 2024. USK24020033

    Fylgigögn

  22. Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 19. janúar 2024 ásamt kæru nr. 8/2024, dags. 19. janúar 2024, þar sem kærð er deiliskipulagsbreyting að Almannadal 9, snúningur á húsi innan sameiginlegrar lóðar húsa nr. 9-15. Einnig er lögð fram greinargerð Reykjavíkurborgar, dags. 29. janúar 2024. Jafnframt er lagður fram úrskurður Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. febrúar 2024. Úrskurðarorð: Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda og vísað frá kröfu um að úrskurðað verði að byggingarfulltrúa sé óheimilt að taka til umfjöllunar og samþykkja teikningar á grundvelli hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar. USK24010201

    Fylgigögn

  23. Fram fer kynning á skýrslu starfshóps um aðgerðir til að draga úr þjófnaði á reiðhjólum.

    Kristinn Jón Eysteinsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK22090084

    Lögð fram svohljóðandi bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Starfshópi um aðgerðir til að draga úr reiðhjólaþjófnaði í Reykjavík er þakkað fyrir vel unnin störf og greinargóða skýrslu. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fluttu tillögu um stofnun starfshópsins á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 14. september 2022. Afgreiðslu var frestað og eftir að hafa ítrekað tillöguna 11. janúar og 21. júní 2023, var hún loks samþykkt 28. júní s.á. eftir að hafa þá verið frestað í rúma níu mánuði. Nú hefur skýrsla starfshópsins litið dagsins ljós og binda fulltrúar Sjálfstæðisflokksins vonir við að hún muni skila góðum árangri við að stemma stigu við reiðhjólaþjófnaði í borginni.

    Lögð fram svohljóðandi gagnbókun fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar:

    Umrædd tillaga var hluti af Hjólreiðaáætlun Reykjavíkur 2021 - 2025.

    Lögð fram svohljóðandi gagnbókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Fulltrúum Sjálfstæðisflokksins er fullkunnugt um kveðið var á um aðgerðir til að stemma stigu við reiðhjólaþjófnaði í Hjólreiðaáætlun Reykjavíkur 2021-2025, enda kom það skýrt fram í tillögu Sjálfstæðisflokksins. Tillagan var flutt í september 2022 til þess að koma málinu til framkvæmdar enda hafði meirihlutinn þá ekki sýnt neina tilburði til þess. Reyndar frestaði meirihlutinn síðan afgreiðslu tillögunnar í rúma níu mánuði áður en hún var samþykkt.

    Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Fulltrúi Flokks fólksins finnst þær tillögur um aðgerðir til að draga úr hjólaþjófnaði sem birtar eru í skýrslu starfshópsins flestar góðar. Hjólum er stolið af ýmsum ástæðum, oft ekki þeirri að ætla að hagnast á þeim heldur vegna þess að fólk þarf að koma sér milli staða. Ef almenningssamgöngur væru betri, tíðari og dreifðari væri kannski minna um hjólaþjófnað hjá þessum hópi. Allir græða á góðum almenningssamgöngum. Hjólaskápar eru góð tillaga og að fjölga stæðum við opinberar stofnanir. Einnig að skapa aðstæður þar sem auðvelt er að læsa hjólum t.d. nota aðgangsstýrðar hjólageymslur. Það er góð tillaga að búa til hvatningu til að íbúðir vilji sameinast í að hafa læstar hjólageymslu. Hægt er að hugsa sér að borgin veitti styrki í slík verkefni  frekar en að krefjast þess að gefið verði af hendi bílastæði. Forvarnir eru vissulega góðar en hvernig mundu auknar forvarnir skila beinum árangri nema til þeirra sem selja dýran öryggisbúnað kannski?  Hjólabúðir eiga að skrá öll hjól sem keypt eru séu skráð í gagnagrunn. Það auðveldar að geta flett upp hjóli til að finna eigandann. Öll hjól ættu samt í rauninni að bera á stellinu skráningarnúmer og þannig einfaldlega uppflettanleg og skráð á eigendur sína.
     

    Fylgigögn

  24. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Lagt er til að ráðist verði í lagfæringu og/eða endurnýjun gangstétta við Kleppsveg, þar sem þær eru eyddar, sprungnar og ójafnar. Brýnust er þörfin á kaflanum við Kleppsveg 2 – 50 og 118 – 144. 

    Frestað. USK24040025

  25. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Lagt er til að ráðist verði í lagfæringu og/eða endurnýjun gangstétta við Laugarnesveg, þar sem þær eru eyddar, sprungnar og ójafnar. Þörfin er brýnust á kaflanum við Laugarnesveg 76 – 118.

    Frestað. USK24040026

  26. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Lagt er til að þegar í stað verði ráðist í lagfæringar og endurbætur á brotinni og illa farinni gangstétt fyrir framan biðstöðvar strætisvagna við horn Langholtsvegar og Drekavogs. Slíkt getur skapað óþægindi og hættu, auk þess sem óheppilegt er að biðstöðvar strætó hafi á sér slæma ásýnd.

    Frestað. USK24040027
     

  27. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Lagt er til að ráðist verði í breytingu á aðalskipulagi, sem heimili rekstur matvöruverslunar á reit M9c, sem er á skilgreindu miðsvæði við Lambhagaveg-Vesturlandsveg. Nú er óheimilt að vera með matvöruverslun á umræddum reit samkvæmt aðalskipulagi.

    Frestað. USK24040028
     

  28. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir skýringum á því af hverju búið er að fjarlægja pappa og plastgáma úr nýuppsettu sorpgerði í Bólstaðarhlíð. Greinargerð fylgir fyrirspurn. USK24040021

    -    Kl. 12:57 víkur Aðalsteinn Haukur Sverrisson af fundi.
    -    Kl. 13:00 víkur Líf Magneudóttir af fundi.
    -    Kl. 13:00 víkur Marta Guðjónsdóttir af fundi.
     

Fundi slitið kl. 13:21

Dóra Björt Guðjónsdóttir Hjálmar Sveinsson

Kjartan Magnússon Pawel Bartoszek

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 3. apríl 2024