Umhverfis- og skipulagsráð - Fundur nr. 300

Umhverfis- og skipulagsráð

Ár 2024, miðvikudaginn 6. mars kl. 9:00 var haldinn 300. fundur umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Dóra Björt Guðjónsdóttir, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Pawel Bartoszek og áheyrnarfulltrúarnir Ásta Skjalddal og  Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild:  Líf Magneudóttir og Unnur Þöll Benediktsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Björn Axelsson, Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, Guðmundur Benedikt Friðriksson, Gunnar Hersveinn Sigursteinsson, Inga Rún Sigurðardóttir og Hólmfríður Frostadóttir. Fundarritari var Auðun Helgason.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á verkefninu GreenInCities, þar sem lagt hefur verið upp með að koma fyrir ræktunarreit á græna svæðinu aftan við Vesturberg 26-54, sbr. bréf Reykjavíkurborgar, dags. 15. febrúar 2024, minnisblað verkefnisins, dags. 14. febrúar 2024 og minnisblað hverfaskipulags Reykjavíkur, dags. 26. nóvember 2021. Lagt er til við umhverfis- og skipulagsráð að haldið verði áfram með vinnu við að koma fyrir ræktunarreit á fyrrnefndu græna svæði í samvinnu við umhverfis- og skipulagssvið.

    Þóra Óskarsdóttir forstöðukona FabLab, Bryndís Steina Friðgeirsdóttir, framkvæmdastjóri verkefnisins GreenInCities, Óskar Dýrmundur Ólafsson framkvæmdastjóri suðurmiðstöðvar taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Samþykkt MSS23070077

    Umhverfis- og skipulagsráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Umhverfis- og skipulagsráð fagnar því að borginni bjóðist að taka þátt í GreenInCities verkefninu. Fyrirhuguðum ætigarði á borgarlandi við Vesturberg er ætlað að virkja og sameina íbúa í hverfinu. Mikið líf er í næsta nágrenni við reitinn, skólar og sundlaug. Gott aðgengi að garðinum er mikilvægt. Ef vel tekst til getur þetta orðið að fyrirmynd fyrir að svipaðri þróun víðar um borgina. Um er að ræða nýtt evrópskt samstarfsverkefni.

     

    Fylgigögn

  2. Fram fer kynning á þróun og stöðu deiliskipulags fyrir áfanga 1 á Kringlureit.

    Sofia Lundeholm, Dorte Buchardt Westergaard, Henning Larsen frá Henning Larsen Architects, Sigurjón Örn Þórsson frá Reitum, Freyr Frostason, Halldór Guðmundsson og Grímur Víkingur Magnússon frá THG, Sigríður Maack og Ólöf Söebch verkefnastjórar taka sæti á fundinum undir þessum lið. USK23100038

  3. Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa, dags. 27. febrúar 2024. USK22120096

    Fylgigögn

  4. Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar samgöngustjóra dags. 29. febrúar ásamt fylgigögnum USK24010019

    Fylgigögn

  5. Lagt fram erindisbréf umhverfis- og skipulagssviðs dags. 29. febrúar 2024, fyrir starfshóp um verklagsreglur um álagningu gjalda vegna stöðubrota í Reykjavík . USK24020064

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins telur að þessi hópur geti unnið þarft verk og tímabært. Tekið er undir margt sem fram kemur í erindisbréfinu s.s. að mikilvægt sé að aðgerðir séu fyrirsjáanlegar og í samræmi við tilefni.  Margir borgarbúar  eru afar ósáttir við bílastæðasjóð og hvernig staðið er að sektum hjá sjóðnum. Sumum finnst að brotið hafi verið á sér og ekki gætt sanngirnis ef um vafamál sé að ræða. Það er nefnilega ekki alltaf ljóst hvort um brot sé að ræða. Rétt er að ítrekað hafa  komið  upp mál þar sem álagning gjalda bílastæðasjóðs koma íbúum á óvart og gjarnan á stöðum þar sem íbúar telja sig hafa verið að leggja löglega eins og segir í erindisbréfinu. Í ágreinismálum verður að gæta meðalhófs og gæta þess  að fara  ekki offari með valdheimildir. Verklagsreglur þurfa að vera þannig úr garði gerðar að áhersla sé á að veita góða þjónustu við íbúa og tryggja jafnræði m.a. þannig að  gæta þess að sambærileg mál séu meðhöndluð með sambærilegum hætti.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram tillaga skrifstofu samgangna og borgarhönnunar þar sem lagt er til að umhverfis- og skipulagsráð samþykki meðfylgjandi reglur um fjölda bíla- og hjólastæða í Reykjavík. Um er að ræða uppfærslu á reglum með sama heiti sem samþykktar voru í skipulags- og samgönguráði 19. desember 2018 og í borgarráði 10. janúar 2019.

    Samþykkt með fimm atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. USK24020219

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Sjálfsagt er að skipuleggja hjóla- og bílastæði með eins skynsamlegum hætti og hægt er í borginni. Best fer á því að bílar séu sem mest í bílastæðahúsum en það hefur einfaldlega ekki tekist að laða fólk nægjanlega að bílastæðahúsum og hefur ástæðan verið margrædd. Mörgum finnst þau ekki nógu aðlaðandi, þröng og einhverjir treysta sér ekki í að nota greiðslukerfið þótt það hafi verið einfaldað. Bílum  fjölgar enda almenningssamgöngur slakar. Gæta þarf þess að borgarbúar hafi gott aðgengi að miðbænum þangað sem þeir sækja þjónustu. Huga þarf betur að aðgengi fatlaðs fólks að miðbænum.  Gjaldskyldusvæði hafa verið stækkuð og bílastæðagjöld snarhækkað sem hefur fælingarmátt. Stór hluti borgarbúa og aðrir forðast að koma í ,,bæinn” eins og heitan eldinn eins og kannanir hafa sýnt. Þetta hefur áhrif á verslun og þjónustu, sérstaklega þær verslanir sem versla með annað en vörur fyrir ferðamenn. Miðbærinn er nú fyrir ferðamenn en Reykvíkingar fara annað til að versla nema kannski ef þeir ætla að nýta veitingastaði og bari. Flokkur fólksins saknar þeirra tíma þegar fjölbreyttari hópur sótti miðbæinn. Flokkur fólksins hefur ekki trú á að deilibílamenning ryðji sér til rúms hér eins og erlendis og geta margar ástæður legið fyrir því.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram að nýju tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgangna og borgarhönnunar um breytingar á Laugavegi, sbr. 13. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 13. desember 2024. Einnig er lögð fram umsögn íbúaráðs Miðborgar og Hlíða, dags. 25. janúar 2024.

    Lagt til að tillagan verði samþykkt.

    Samþykkt með fimm atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. USK23010018

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það er búið að vera ótrúlegur hringlandaháttur með akstursstefnu á Laugavegi. Slíkur hrærigrautur hefur verið á akstursstefnum  við Laugarveg að stundum hefur legið við slysum vegna þessa hringlandaháttar. Ef gera á breytingar eina ferðina enn má búast við að það  taki tíma fyrir fólk að aðlagast og sýna þarf því sérstakt tillit. Nú á að samþykkja að breyta akstursstefnu á Laugavegi milli Frakkastígs og Klapparstígs. Í raun hefur þessi bútasaumur sem þarna er að finna í akstursstefnum leitt til þess að sumir leggja ekki í að nálgast þetta svæði á bíl. Fólk  óttast hreinlega að lokast af í einhverri þröngri götu og þurfa síðan að snúa við. Hvar er göngugötubútur og hvar ekki? Þróun þessa bútasaums hefur verið bæði ruglingsleg og flókin. Skilti hafa ekki alltaf verið nægjanlega skýr. Merkingum eru víða ábótavant. Talað er um fyrirséðar breytingar með borgarlínu en gera má ráð fyrir mörgum árum,  þangað til borgarlínukerfi fer að virka á þessu svæði ef það kemur til með að gera það á annað borð. En sjálfsagt er að vera bjartsýn í því sem öðru.

    Fylgigögn

  8. Lögð fram að nýju tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgangna og borgarhönnunar um að Bergstaðastræti milli Skólavörðustígs og Laugavegar verði vistgata, sbr. 12. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 13. desember 2024. Einnig er lögð fram umsögn íbúaráðs Miðborgar og Hlíða, dags. 25. janúar 2024.

    Lagt til að tillagan verði samþykkt.

    Frestað USK23010018

  9. Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar skipulagsfulltrúa, dags. 29. febrúar 2024. USK23010150

    Fylgigögn

  10. Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, dags. í febrúar 2024, að breytingum á þéttbýlisuppdrætti Aðalskipulags Reykjavíkur 2040. Um er að ræða lagfæringar á skilgreindri landnotkun, sem af tæknilegum ástæðum eða fyrir mistök voru ranglega skráð/afmörkuð í kortagrunni aðalskipulagsins. Í öllum tilvikum er verið að leiðrétta í samræmi við núverandi notkun á viðkomandi lóð/reit eða til samræmis við skilgreiningu AR2010-2030, enda sýnt að ekki hafa verið lagðar fram tillögur um breytingar í þessa veru við vinnslu AR2040 og lagfæring er í samræmi við önnur stefnuákvæði aðalskipulags um viðkomandi svæði, sbr. bindandi stefna í greinargerð AR2040. Breytingar varða eingöngu framsetningu á þéttbýlisuppdrætti aðalskipulagsins.

    Lagt fram sbr. 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga þar sem um óverulegar breytingar á aðalskipulagi er að ræða. Vísað í borgarráð.

    Samþykkt USK24020305

    Fylgigögn

  11. Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindarmála dags. 28. febrúar 2024 ásamt kæru nr. 22/2024 þar sem kærð er ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. júlí 2023 um að hafna byggingarleyfisumsókn USK23050220 frá 17. maí 2023 sem varðar klæðningu á suðurhlið hússins Rofabæ 43-47. USK24020283

    Fylgigögn

  12. Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindarmála dags. 28. febrúar 2024 ásamt kæru nr. 23/2024 þar sem kærð er ákvörðun Reykjavíkurborgar um að hafna beiðni kæranda að taka upp ákvörðun um veitingu byggingarleyfis sem veitt var Apartments og rooms ehf. 30. ágúst 2022 og varðar Hraunberg 4. USK24020285

    Fylgigögn

  13. Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindarmála dags. 29. febrúar 2024 ásamt kæru nr. 24/2024 þar sem kærð er ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 30. janúar 2024 um að samþykkja leyfi fyrir áðurgerðum breytingum á húsi á lóð Túngötu

    36A. USK24020298

    Fylgigögn

  14. Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju tillaga umhverfis- og skipulagasviðs um breytingu á deiliskipulagi Slippa- og Ellingsenreits og Vesturbugtar, Gömlu hafnarinnar vegna reita 03 og 04. Lóðir eru aðgreindar á reitunum. Hámarks byggingamagn ofanjarðar fer úr 18.400 m2 í 18.300 m2. Leyfilegur fjöldi íbúða fer úr 170 íbúðir í 170 + 7 íbúðir fyrir búsetuúrræði og skulu 25% íbúða vera leiguíbúðir. Hæð húsa F4 hækkar úr 4 hæðum í 5 (leikskóli á þakhæð fellur niður). Raðhús R2 á reit 03 eru felld út og inngarður stækkar sem því nemur. Raðhús R2 á reit 04 breytast í fjölbýlishús. Sérafnotarými íbúða á jarðhæð verða eins og almennir skilmálar fyrir svalir, þ.e. 1,5m út fyrir byggingareit og engin takmörk eru fyrir dýpt sérafnotarýmis. Bílkjallarar aðgreindir frá hvor öðrum, minnkaðir og bilastæðum fækkað í samræmi við endurskoðað samgöngumat og skulu rúma bíla- og hjólastæði. Bílastæði á yfirborði eru á borgarlandi. Bílkjallarar ná ekki út fyrir byggingareiti. Jarðlag á almenningsrýmum ofan á bílakjallara skal vera minnst 0,6m. Öll almenn bílastæði á yfirborði og í kjallara skulu verða samnýtt og almenn bílastæði í bílakjöllurum skulu vera aðgengileg fyrir almenning með sérinngangi. Atvinnuhúsnæði á jarðhæð að Mýrargötu, gerð F5 og F6 breytast í íbúðir gerð F5a og F6a. Atvinnuhúsnæði á jarðhæð suðurhliðar reits 4 breytist í íbúðarhúsnæði, þar af allt að 500 m2 ætlað fyrir fyrrgreindrar heimildar um búsetuúrræði. Viðbótarreitur fyrir djúpsorpgáma fyrir reit 07 er komið fyrir sunnan við reit 04. Sérlóð er fyrir alla djúpgáma, samkvæmt uppdráttum Alark arkitekta, dags. 16. nóvember 2023, br. 29. febrúar 2024. Einnig er lagt fram samgöngumat VSÓ ráðgjafar, dags. í september 2023. Tillagan var auglýst frá 14. desember 2023 til og með 31. janúar 2024. Eftirtaldir sendu athugasemdir: Katla Marín Berndsen, dags. 4. janúar 2024, Gunnar Örn Harðarson, dags. 31. janúar 2024, Eyþór Ólafsson, dags. 31. janúar 2024, Anna Eyvör Ragnarsdóttir, dags. 31. janúar 2024, Ásgeir Guðmundsson, dags. 31. janúar 2024, Matthías Þór Óskarsson, dags. 31. janúar 2024 og Guðmundur Björnsson, dags. 31. janúar 2024. Einnig er lögð fram umsögn Veitna, dags. 19. janúar 2024. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 29. febrúar 2024. Lagt er til að tillagan verði samþykkt með þeim breytingum sem koma fram í umsögninni.

    Samþykkt sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með þeim breytingum sem koma fram í umsögn skipulagsfulltrúa dags. 29. febrúar 2024. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. Vísað til borgarráðs. USK23100159

    Ingvar jón Bates Gíslason verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins eru hlynntir uppbyggingu við Vesturbugt en telja að byggingarmagn (lóðanýting, rúmmál og hæð húsa) sé of mikið miðað við grunnflöt og heildaryfirbragð aðliggjandi byggðar. Gamli Vesturbærinn hefur í meira en öld þróast í nánu sambandi við höfnina en þetta hverfi mun einkennast af einsleitum byggingum, sem eiga lítið skylt við eldri byggð og byggingarsögu borgarinnar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja hins vegar að yfirbragð og fjölbreytileiki Gamla Vesturbæjarins eigi að vera ríkjandi á svæðinu. Íbúðum er fjölgað frá gildandi deiliskipulagi sem þó er einungis átta ára gamalt og var mótmælt harðlega af íbúum á sínum tíma fyrir of mikið byggingarmagn. Mikla furðu vekur að hætt sé við byggingu leikskóla á reitnum þótt mikill skortur sé á leikskólarýmum í Gamla Vesturbænum. Lítil áhersla er lögð á opin svæði á reitnum og ekki er gert ráð fyrir sparkvelli eða öðru svæði til íþróttaiðkunar þar eins og borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa ítrekað lagt til í hinu langa skipulagsferli svæðisins. Það er miður að meirihluti Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar skuli vitandi vits ekki nýta þetta tækifæri til að bæta úr miklum skorti á íþróttaaðstöðu í Gamla Vesturbænum heldur leggja áherslu á sem þéttasta uppbyggingu. En Gamli Vesturbærinn er það íbúðahverfi borgarinnar, sem býr við rýrustu íþróttaaðstöðuna þrátt fyrir að þar búi vel á annað þúsund barna og unglinga.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    All margar athugasemdir eru gerðar s.s. röskun á heildarásýnd á þegar fullbyggðu og skipulögðu rólegu hverfi. Bent er á  aukið  skuggavarp og að fjöldi bílastæða verði ekki nægur við íbúðaþéttingu núverandi hverfis. Nefndur er fjárhagslegur skaði íbúa sem fyrir eru á svæðinu og hafa fjárfest í fasteignum á grundvelli samþykktra skipulagsáætlana. Athugasemdir af alvarlegra tagi eru að með breytingunni  skerðist lífsskilyrði og lífsgæði. Mótmælt er hækkun á húsi á F3 (03) norður-vestur úr fjórum í fimm hæðir. Hér er aðeins nefnt brot af athugasemdum og finnst fulltrúa Flokks fólksins að umhverfis- og skipulagssvið ætli ekki að bregðast við þeim og  koma til móts við þær. Þétting byggðar hefur gengið of langt og myndað allt of mörg skuggahverfi. Fækkun bílastæða hefur einnig gengið of langt. Tekið er undir það sem fram kemur frá einum aðila þar sem hann segir að það sé mikilvægt að borgarbúar geti treyst á gildandi deiliskipulag þegar kemur að kaupum á íbúðarhúsnæði.

     

    Fylgigögn

  15. Lögð fram umsókn ÞG verktaka ehf, dags. 20. nóvember 2023, ásamt bréfi Glámu-Kím, dags. 20. nóvember 2023, um breytingu á deiliskipulagi Slippa- og Ellingsenreits vegna lóðarinnar nr. 2 við Grandagarð. Í breytingunni sem lögð er til felst að heimilt verði að stækka kjallara undir byggingum og verður Innkeyrsla í kjallara verði færð af opnu svæði milli Alliance reits og Mýrargötu 26 inn undir nýbyggingu við Rastargötu, salarhæð götuhæðar í stærri nýbyggingum lækki, nýbygging næst Mýrargötu megi hýsa hótel, heimilt verði að tengja nýbyggingar saman á annarri og þriðju hæð með glerjuðum tengigangi og verður skilgreindur byggingarreitur fyrir þann tengigang og að ákvæði um að fundarsalir eða önnur stoðrými fyrir atvinnustarfsemi á efri hæðum sé óheimil verði fellt út, samkvæmt deiliskipulags- og skýringaruppdr. Glámu-Kím, dags. 26. febrúar 2024. Einnig er lagt fram minnisblað VSB verkfræðistofu, dags. 8. febrúar 2024 vegna bílastæðaráðgjafar/samgöngumats. Lagt er til að tillagan verði samþykkt í auglýsingu.

    Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Vísað til borgarráðs. USK23120061

    Ingvar jón Bates Gíslason verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  16. Lögð fram umsókn Guðmundar Odds Víðissonar, dags. 22. febrúar 2024, ásamt bréfi DAP, dags. 21. febrúar 2024, um breytingu á deiliskipulagi Skipholtsreits vegna lóðarinnar nr. 30 við Brautarholt. Í breytingunni sem lögð er til felst breyting á lóðamörkum og aukning á nýtingarhlutfalli lóðar, hækkun byggingarinnar um eina hæð og nýta núverandi takmarkaðan byggingarreit á lóð, ásamt því að gerður er nýr byggingarreitur fyrir hjóla- og vagnageymslu, samkvæmt deiliskipulags- og skýringaruppdr. (skuggavarp) DAP, dags. 21. febrúar 2024.

    Lagt er til að tillagan verði samþykkt í auglýsingu

    Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Vísað til borgarráðs. USK24020228

    Ingvar jón Bates Gíslason verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  17. Lögð fram umsókn Guðmundar Odds Víðissonar, dags. 6. febrúar 2024, um breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar vegna lóðarinnar nr. 3 við Suðurgötu. Í breytingunni sem lögð er til felst breyting á byggingarmagni og aukning á nýtingarhlutfalli lóðar, hækkun byggingar um eina rishæð auk leyfis fyrir garðskála á þaksvölum, samkvæmt deiliskipulags- og skýringaruppdr. (skuggavarp) DAP, dags. 22. febrúar 2024.

    Lagt er til að tillagan verði samþykkt í auglýsingu

    Frestað. USK24020055

    Ingvar jón Bates Gíslason verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  18. Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að breytingu á deiliskipulagi Safamýrar – Álftamýrar. Í breytingunni sem lögð er til felst að skilgreind er ný lóð með staðfanginu Safamýri 58-60 fyrir fjölbýlishús með allt að 40 íbúðum, samkvæmt uppdráttum Grímu arkitekta og A2F arkitekta, dags. 13. nóvember 2023. Einnig er lagt fram minnisblað, dags. 31. ágúst 2023, um aðkomu slökkviliðs, tvö minnisblöð Myrru hljóðstofu, dags. 27. september 2023, um hljóðvist og athugun Brokkr studio, ódags. á ytri áhrifum. Tillagan var auglýst frá 14. desember 2023 til og með 31. janúar 2024. Eftirtaldir sendur athugasemdir/umsögn: Húsfélagið Háaleitisbraut 58-60, dags. 25. janúar 2024, íbúaráð Háaleitis- og Bústaðahverfis, dags. 31. janúar 2024 og Veitur, dags. 19. janúar 2024. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 29. febrúar 2024.

    Lagt er til að tillagan verði samþykkt.

    Samþykkt með fimm atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og

    Vinstri grænna. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. USK23100313

    Sigríður Maack. verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  19. Lögð fram umsókn Fjallafélagsins ehf., dags. 27. nóvember 2023, um breytingu á deiliskipulag Kjalarness, Mógilsár og Kollafjarðar. Í breytingunni sem lögð er til felst að setja upp klettastíg við Fálkaklett í Búahömrum Esju, samkvæmt uppdr. M11 arkitekta, dags. 20. febrúar 2024.

    Lagt er til að tillagan verði afgreidd í auglýsingu.

    Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Vísað til borgarráðs. USK23110296

    Þórður Már Sigfússon verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  20. Lögð fram umsókn Áslaugar Traustadóttur, dags. 13. nóvember 2023, um breytingu á deiliskipulagi reits 1.171.4 vegna lóðarinnar nr. 9 við Skólavörðustíg. Í breytingunni sem lögð er til felst breyting á mörkum deiliskipulags í samræmi við hnitsett lóðarmörk þar sem skipulagsmörk liggja meðfram lóð Skólavörðustígs 9 við Vegamótastíg. Gerður er nýr byggingarreitur á lóð fyrir lága nýbyggingu sem ætluð er fyrir veitingastarfsemi í flokki II og að aðkomuleiðir lóðarinnar verði við báða enda hegningarhússins ásamt aðgengi verður þvert í gegnum húsið fyrir miðju. Við breytinguna hækkar nýtingarhlutfall lóðar og byggingarmagn eykst, samkvæmt uppdr. Landmótunar, dags. 28. desember 2023. Einnig er lögð fram umsögn Minjastofnunar Íslands, dags. 31 janúar 2024, og greinargerð Fornleifastofnunar Íslands vegna fornleifarannsóknar vegna framkvæmda við Hegningarhúsið við Skólavörðustíg, ódags.

    Lagt er til að tillagan verði samþykkt í auglýsingu.

    Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Vísað til borgarráðs. USK23110160

    Valný Aðalsteinsdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  21. Lögð fram að nýju tillaga íbúaráðs Breiðholts um öruggari tengingu fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur yfir Skógarsel og við íþróttamannvirki ÍR, sbr. 2. liður fundargerðar íbúaráðs breiðholts dags. 6. desember 2023. Einnig lögð fram umsögn skrifstofu samgangna og borgarhönnunar dags. 21. febrúar 2024.

    Vísað til umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgangna og borgarhönnunar, inn í vinnu við framkvæmd umferðaröryggisáætlunar.

    Samþykkt MSS23110167

    Fylgigögn

  22. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um gatnamót Víkurvegar, Þúsaldar og Reynisvatnsvegar, sbr. 26. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 7. febrúar 2024. Einnig lögð fram umsögn skrifstofu samgangna og borgarhönnunar dags. 28. febrúar 2024.

    Samþykkt að vísa frá með fimm atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum Sjálfstæðisflokks. USK24020058

    Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Tillögunni er vísað frá þar sem málið er þegar í skoðun í samráði við Vegagerðina.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks harma að fulltrúar Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar kjósi að vísa frá tillögu um úrbætur á gatnamótum Víkurvegar, Þúsaldar og Reynisvatnsvegar. Ljóst er að úrbætur á umræddum gatnamótum eru löngu tímabærar í þágu aukins umferðaröryggis og bætts umferðarflæðis.

    Fylgigögn

  23. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 37. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 29. nóvember 2023. Einnig lögð fram umsögn skrifstofu samgangna og borgarhönnunar dags. 21. febrúar 2024.

    Samþykkt að fella tillögu með með fimm atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum sjálfstæðisflokks. USK23110328

    Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Á svæðinu er þegar upphækkun þverunar óvarðra vegfarenda, biðskylda og málaður kantur á stígnum. Skammt frá gatnamótum er auk þess hraðahindrun og þarna eru almennt góðar sjónlínur. Á komandi árum verður farið í gagngerar breytingar á svæðinu í tengslum við framkvæmdir vegna Borgarlínu. Sérfræðingar telja ekki þörf á að forgangsraða aðgerðum að svo stöddu við þessi gatnamót umfram þær breytingar sem eru á döfinni og er tillagan því felld.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins harma að fulltrúar Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar kjósi að fella tillögu um úrbætur á gatnamótum Knarrarvogs og Súðarvogs í þágu gangandi og hjólandi vegfarenda. Þarna er slysahætta þar sem mikil og oft hröð umferð er um gatnamótin af ökutækjum, sem eru á leið til eða frá bílastæðum fjölsóttra atvinnufyrirtækja við Knarrarvog. Æskilegt er að þarna verði settar upp skýrar varúðarmerkingar þar sem Knarrarvogur þverar fjölfarinn hjólastíg Kelduleiðar, t.d. með því að hjólareinin verði lituð á þessum stað. Þá þyrfti að leggja stöðvunarskyldu á gatnamótin gagnvart umferð frá Knarrarvogi í stað biðskyldu.

    Fylgigögn

  24. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um bílastæðakort fyrir rekstraraðila, sbr. 28. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 4. október 2023. Einnig lögð fram umsögn skrifstofu samgangna og borgarhönnunar dags. 21. febrúar 2024.

    Tillögunni er vísað frá með fimm atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum Sjálfstæðisflokks. USK23100063

    Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Málinu er vísað frá þar sem það er nú þegar í vinnslu.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins harma að fulltrúar Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar skuli vísa frá tillögu um bílastæðakort fyrir rekstraraðila. Gerð er alvarleg athugasemd við hinn mikla drátt sem hefur orðið á afgreiðslu tillögunnar, sem lögð var fram í ráðinu fyrir rúmum fimm mánuðum. Sá tími hefði átt að duga til að skoða málið og afgreiða það með lausnarmiðuðum hætti. Við lýsum yfir furðu okkar á því að umsögn samgöngustjóra skuli ekki fela í sér neina lausn á málinu heldur virðist það eiga að vera áfram til skoðunar í rangölum kerfisins.

    Fylgigögn

  25. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Vinstri grænna um að fjarlægja bílastæði ofanjarðar, sbr. 20. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 24. maí 2023. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu samgangna og borgarhönnunar dags. 19. október 2023.

    Vísað til starfshóps um loftslagsamning Reykjavíkur. USK23050264

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þessi tillaga er í einu orði sagt fullkomlega óraunhæf fyrir það eitt að algerlega ómögulegt er að framfylgja henni. Lagt er til af VG að fjarlægja öll bílastæði ofanjarðar til að framfylgja aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Íbúum hefur fjölgað um u.þ.b. 3% og bílum  fjölgar. Ekki eru margir aðrir valmöguleikar í boði að heitið geti. Vissulega væri gott ef hægt væri að nota bílastæðahúsin betur en nýtingarhlutfall þeirra er lítið á vissum tímum sólarhrings. Þessu væri vel hægt að breyta.

    Fylgigögn

  26. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að lögð verði gangbraut, undirgöng eða göngubrú á mótum Efstaleitis og Bústaðavegar, sbr. 39. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 13. desember 2023. Einnig lögð fram umsögn skrifstofu samgangna og borgarhönnunar dags. 21. febrúar 2024.

    Tillögunni er vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgangna og borgarhönnunar. USK23120110

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins lagði til að gangbraut, undirgöng eð göngubrú verði lögð á mótum Efstaleitis og Bústaðarvegar. Í umsögn segir að áætlað sé að strætóstöð verði í framtíðinni á Bústaðavegi aðeins vestar við umrædd  gatnamót. Vinna sé hafin við að bæta umrædd gatnamót og er þar innifalið bættar þveranir fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Þetta er gott að heyra og þá passar vel að samþykkja þessa tillögu þar sem hún mátast vel við fyrirætlanir meirihlutans. Tillaga er hins vegar felld. Í hverfinu sunnan Bústaðarvegar í kringum Sléttuveg búa mjög margir fatlaðir einstaklingar  og margir notast við hjólastóla eða önnur hjálpartæki. Þessir einstaklingar þurfa oft að fara yfir Bústaðaveg til að sækja ýmsa þjónustu. Það er langt fyrir þessa einstaklinga að fara alla leiðina að Háaleitisbraut til að þvera götuna.

    Fylgigögn

  27. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um breytingu á ferli samráðsfyrirkomulaga í kjölfar hönnunarsamkeppni, sbr. 38. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 29. nóvember 2023. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 27. febrúar 2024.

    Tillaga er felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn þremur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna. USK23110322

    Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Tillagan var auglýst og íbúar fengu mörg tækifæri til að koma athugasemdum sínum til leiðar. Ekki er talin ástæða til að breyta samráðsferlum út frá þessu verkefni.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins lagði til að gerð verði breyting á samráðsfyrirkomulagi í kjölfar hönnunarsamkeppni. Í umsögn með afgreiðslunni segir að ekki sé ástæða til að samþykkja tillöguna. Flokkur fólksins er ekki sammála því. Því sem þarf að breyta, er að um leið og vinningstillaga liggur fyrir skuli gera deiliskipulag í samræmi við vinningstillöguna til þess að hægt sé að gefa almenningi kost á að senda inn formlegar athugasemdir áður en að fullnaðarhönnun fer af stað. Í umsögn skipulagsfulltrúa segir m.a. „Árið 2021 var haldin alþjóðleg samkeppni um hönnun brúarinnar, unnin var forhönnun 2022-2023 og breyting á deiliskipulagi gerð til þess að samræma deiliskipulagið við hönnun brúarinnar. Breyting á deiliskipulagi er í samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkur 2040 og Aðalskipulag Kópavogs 2019-2040.“ Rosalegasta "forhönnun" á þessari öld á Íslandi.  Eini möguleiki almennings til að hafa áhrif á hönnun brúarinnar var frá 1.ágúst til 19.september 2023. Þá var 90% hönnunarvinnunar lokið.  „unnin var forhönnun 2022-2023“. Forhönnun er ekki 90% hönnun. Allar athugasemdir voru tilgangslausar og svör við þeim út í hött. Nú virðist ekki vera hægt að leiðrétta stórgalla í hönnun. Hönnunin er að göngustígur verði austanmegin og hjólabraut vestanmegin. Brúin mun því verða haldinn þessum risagalla rísi hún einhver tímann.

    Fylgigögn

  28. Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Viðreisnar um fyrirspurnir íbúa um breytingar á bílskúrum, sbr. 26. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dagsl 1. febrúar 2023. Einnig er lagt fram svar skipulagsfulltrúa 27. febrúar 2024. USK23020020

    Fylgigögn

  29. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um smáhýsi, sbr. 27. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 7. febrúar 2024. Einnig er lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds, dags. 15. febrúar 2024. USK24020059



    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það er gott að fá fram þessar upplýsingar. Smáhýsin eru 20 á 6 stöðum í borginni. Heildarkostnaður er 846 m. kr. Húsin eru misdýr og fer m.a. eftir staðsetningu. Ekki er tekinn inn í reiknisdæmið kostnaður við lóðina. Þær eru misdýrmætar en gera má ráð fyrir að lóðin í Laugardal sem metin verðmæt. Þetta verkefni var tilraunarinnar virði að mati Flokks fólksins en spurning er samt hvort leita eigi ekki annarra leiða í þessum efnum og þá ekki síst vegna þess að erfitt var að finna þeim stað í borgarlandi. Flokki fólksins er umhugað um málefni heimilislausra og er það eitt helsta baráttumál flokksins að berjast gegn fátækt, ójöfnuði og óréttlæti í víðum skilningi.

    Fylgigögn

  30. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins sbr. 13. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs 31. janúar 2024 um mál 2 í fundargerð skipulagsfulltrúa frá 11. janúar 2024. Einnig er lagt fram svar skipulagsfulltrúa, dags. 27. febrúar 2024.

    Dóra Björt Guðjónsdóttir fulltrúi Pírata víkur af fundi við framlagningu málsins. USK24010345

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins fékk ábendingar um að óeðlileg afgreiðsla hafi átt sér stað á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 11. janúar  s.l. Rætt var um ákveðið mál á fundinum, það samþykkt, en þegar fundargerð fundarins var birt var ekki orð um þetta mál í henni eins og það hefði aldrei verið rætt á fundinum. Segir í svari við fyrirspurn Flokks fólksins „Mál er varðar svalaskýli við vesturgafl Rafstöðvarvegar 31var ekki tekið fyrir á umræddum fundi.“ Þetta er ósatt. Þetta getur sannarlega ekki talist eðlilegt né löglegt ef því er að skipta. Til hvers að gera fundargerð ef velja á svo efni í hana eftir á? Það mál sem hér um ræðir snýst um veitt samþykki á leyfir fyrir svalaskýli við vesturgafl á svölum á Rafstöðvarvegi 31. Að loknum fundinum, þ.e. milli fundar og fundargerðar fékk umsóknaraðili skeyti frá starfsmanni sviðsins um að málið hafi verið samþykkt á fundinum en síðan er búið að afmá öll merki málsins í fundargerðinni. Af svari að dæma  er ljóst að reyna á að þagga fölsun fundargerðarinnar. Ritari fundargerðarinnar 11. janúar, lögfræðingur sviðsins  hefur núna í votta viðurvist viðurkennt að hafa tekið samþykktina fyrir svalaskýlinu út úr fundargerðinni þrátt fyrir að málið hafi verið samþykkt á fundinum.

    Fylgigögn

  31. Umhverfis- og skipulagsráð leggur til að fela skrifstofu borgarlandsins á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkur að leita bestu, skilvirkustu og hagkvæmustu leiða til að bæta enn frekar vetrarþjónustu við gangandi og hjólandi í kjölfar þeirra vetrarþjónustuúrbóta sem þegar hafa verið innleiddar og sem hafa um margt skilað miklum árangri. Þjónusta við gangandi og hjólandi hefur batnað samhliða breytingunum, sér í lagi á göngu- og hjólastofnstígum, en vilji er til að skoða tækifæri til að dýpka vinnuna byggt á ábendingum þar að lútandi svo að aðgengi gangandi og hjólandi sé með sem bestu móti um alla borg á öllum árstíðum.

    Hafa skal virkt samráð við viðeigandi hagsmunasamtök um vinnuna, gera þarfagreiningu um hvar þörfin er brýnust og skoða að hvaða leyti sé mögulegt að flytja til fjármagn til að mæta þessu og nýta fjármagn sem best. Huga skal aukinheldur að góðri upplýsingagjöf og fyrirsjáanleika og möguleg úrbótatækifæri í því samhengi.

    Tillagan er samþykkt USK24030039

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna tillögunni. Þó vissulega hafi vetrarþjónusta tekið framförum í vetur samanborið við síðasta vetur var þjónustu við gangandi og hjólandi vegfarendur víða mjög ábótavant.

    Fylgigögn

  32. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Í október 2023 lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins til að sýning á verðlaunatillögum vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar í Keldnalandi yrði sett upp í Grafarvogi, svo Grafarvogsbúar geti kynnt sér áðurnefndar tillögur í sínu heimahverfi. Tillagan var samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 11. október. Íbúaráð Grafarvogs fagnaði tillögunni á fundi sínum 6. nóvember og hvatti til þess að sýningin yrði sett upp í Grafarvogslaug í Dalhúsum eða bókasafninu í Spönginni. Umrædd sýning hefur ekki enn verið haldin þrátt fyrir að rúmir fimm mánuðir séu nú liðnir frá framlagningu tillögunnar. Um leið og efni tillögunnar er ítrekað er óskað eftir upplýsingum um hvenær Grafarvogsbúar megi eiga von á að sýningin verði haldin. USK24030075

  33. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Lagt er til að upphituðu biðskýli ásamt salernisaðstöðu fyrir farþega verði komið fyrir á fyrirhugaðri skiptistöð Strætó bs. við Skúlagötu. Þar verði einnig aðstaða til bleyjuskipta á ungbörnum.

    Frestað USK24030076

Fundi slitið kl. 13:48

Dóra Björt Guðjónsdóttir Hjálmar Sveinsson

Kjartan Magnússon Líf Magneudóttir

Hildur Björnsdóttir Unnur Þöll Benediktsdóttir

Pawel Bartoszek

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 6. mars 2024