Umhverfis- og skipulagsráð - Fundur nr. 291

Umhverfis- og skipulagsráð

Ár 2023, miðvikudaginn 13. desember, kl. 9:03 var haldinn 291. fundur umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Dóra Björt Guðjónsdóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Friðjón R. Friðjónsson, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Líf Magneudóttir, Pawel Bartoszek og áheyrnarfulltrúarnir Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir og Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Björn Axelsson, Brynjar Þór Jónsson, Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, Guðmundur Benedikt Friðriksson, Borghildur Sölvey Sturludóttir, Inga Rún Sigurðardóttir, Dagný Alma Jónasdóttir og Hólmfríður Frostadóttir.
Fundarritari var Glóey Helgudóttur Finnsdóttir.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf borgarstjórnar dags. 7 desember 2023 þar sem samþykkt var að Pawel Bartoszek og Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir tækju sæti í umhverfis- og skipulagsráði í stað Jóhönnu Dýrunnar Jónsdóttur og Trausta Breiðfjörðs Magnússonar. Jafnframt var samþykkt að Þórdís Lóa Þórhallsdóttir tæki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Pawels Bartoszek. MSS22060046

    Fylgigögn

  2. Lagt er til að Pawel Bartoszek verði kjörinn varaformaður umhverfis- og skipulagsráðs.
    Samþykkt með fimm atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna.
    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. MSS22060046

  3. Lagt fram erindisbréf stýrihóps um borgarhönnunarstefnu, dags. 13. desember 2023. Lagt er til að erindisbréfið verði samþykkt og eftirfarandi fulltrúar í umhverfis- og skipulagsráði skipaðir í stýrihópinn: Dóra Björt Guðjónsdóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Hjálmar Sveinsson, Líf Magneudóttir og Kjartan Magnússon.
    Samþykkt. USK23110270

    Fylgigögn

  4. Lagt fram erindi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis um tillögu um stækkun svæðis í Grafarvogi sem falla ætti undir friðlýsingu Grafarvogs, dags. 20. júní 2023 ásamt umsögn Náttúrufræðistofnun Íslands, dags. 13. júní 2023 og samantekt Minjastofnunar ódags. Einnig er lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða dags. 7. desember 2023, þar sem lagt er til að umhverfis og skipulagsráð mæli með að haldið verði áfram með þau áform um friðlýsingu Grafarvogs sem lagt var upp með en ráðið leggist gegn tillögu ráðuneytisins um stækkun marka friðlýsingarsvæðisins upp að Grafarlæk.
    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til að málinu verði frestað.
    Frestun hafnað með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar.
    Fulltrúi Vinstri Grænna situr hjá við afgreiðslu málsins.
    Samþykkt að umhverfis og skipulagsráð mæli með að haldið verði áfram með þau áform um friðlýsingu Grafarvogs sem lagt var upp með en ráðið leggist gegn tillögu ráðuneytisins um stækkun marka friðlýsingarsvæðisins upp að Grafarlæk með fimm atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna.
    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Þórólfur Jónsson, deildarstjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23080213

    Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Málið hefur þegar farið í opið umsagnarferli og mun gera það aftur. Umsögn umhverfis- og skipulagssviðs er í meginatriðum samhljóða áliti Náttúrufræðistofnunar. Í umsögninni er lagt til að haldið verði áfram með þau áform um friðlýsingu Grafarvogs sem lagt var upp með en ekki fallist á tillögu ráðuneytisins um verulega stækkun marka friðlýsingarsvæðisins. Við styðjum umsögnina og undirstrikum um leið mikilvægi Grafarlæks í samhengi við skipulagsvinnu Keldnalandsins.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Óviðunandi er að ekki hafi verið fallist á ósk fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um frestun á afgreiðslu umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs um erindi umhverfisráðuneytisins vegna friðlýsingar Grafarvogs, svo fulltrúar í ráðinu gætu kynnt sér gögn málsins með fullnægjandi hætti. Fulltrúar í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur fengu umrædda umsögn senda undir lok vinnudags á mánudag og höfðu því óeðlilega lítinn tíma til að kynna sér þetta mikilvæga mál, ekki síst í ljósi þess að borgarstjórnarfundur var á þriðjudeginum. Því er óviðunandi að ekki hafi verið fallist á frestun á afgreiðslu málsins. Í umræddri umsögn er m.a. skýr afstaða tekin gegn tillögu ráðuneytisins um stækkun marka friðlýsingarsvæðisins upp að Grafarlæk. Tillaga ráðuneytisins verðskuldar ýtarlega skoðun og umræður enda hlýtur það að vera helsta álitaefni málsins hversu stórt svæði skuli friðlýsa. Um er að ræða afar brýnt hagsmunamál fyrir Grafarvogsbúa og aðra, sem nýta það svæði, sem hugmyndir eru uppi um að friðlýsa. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja því rétt að tillaga ráðuneytisins um mörk friðlýsingarsvæðisins verði kynnt fyrir íbúaráði Grafarvogs og Íbúasamtökum Grafarvogs og þessum aðilum gefinn kostur á að veita umsögn um málið áður en lengra er haldið. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins styður stækkun á friðlýstu svæði við Grafarvog. Ekki eru mörg strandsvæði óröskuð eða lítt röskuð í Reykjavík. Friðlýsing eykur á gildi Grafarvogs sem fæðusvæði fugla að vetri til en þá eru sjávarleirur mikilvæg fæðusvæði.

    Fylgigögn

  5. Fram fer kynning á miðlunaráætlun vetrarþjónustu.
    Frestað. USK23110312

  6. Lagðar fram fundargerðir afgreiðslufunda skipulagsfulltrúa dags. 23. nóvember 2023 og 30. nóvember 2023. USK23010150

    Fylgigögn

  7. Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að breytingu á deiliskipulagi 1. áfanga Gufuness vegna endurskipulagningar á bílastæðum. Í breytingunni sem lögð er til felst að við Jöfursbás færast skipulagsmörk til austurs og stækkar skipulagssvæðið um 1,4 ha, auk þess sem bílastæðum við Jöfursbás er fjölgað um samtals 61 stæði, samkvæmt uppdr. Verkís, dags. 20. nóvember 2023. Gert er ráð fyrir gönguleið að og meðfram bílastæðum, til samræmis við aðliggjandi deiliskipulag. Lagt er til að tillagan verði afgreidd í auglýsingu.
    Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
    Vísað til borgarráðs. USK23120026

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Breytingin felur í sér að setja bílastæði á lóð til að mæta þörfum íbúa í hverfinu, setja á 61 bílastæði. Upphaflega áttu engin bílastæði að vera innan lóðar. Það var auðvitað ekki raunhæft á þessum stað. Þarna gengur einn strætisvagn og ekki á að koma þarna nein borgarlína. 

    Fylgigögn

  8. Fram fer kynning á stöðu skipulagsins fyrir Ártúnshöfða, svæði 2.
    Sólveig Sigurðardóttir verkefnastjóri, Björn Guðbrandsson frá Arkís og Þráinn Hauksson frá Landslagi taka sæti á fundinum undir þessum lið. USK23010195

  9. Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að nýju deiliskipulagi fyrir lóðirnar nr. 19 og 21-23 við Laufásveg. Í tillögunni sem lögð er til felst breyta notkun á húsnæðinu sem áður hýsti sendiráð Bandaríkjanna við Laufásveg 21-23 ásamt skrifstofum á baklóð Laufásvegar 19 í íbúðarhúsnæði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd, samkvæmt uppdrætti Alta, dags. 22. nóvember 2023. Húsnæðið verði eingöngu nýtt til þessarar nota og óheimilt að leigja það út á almennum markaði. Lagt er til að tillagan verði afgreidd í auglýsingu.
    Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
    Vísað til borgarráðs. USK23100130

    Fylgigögn

  10. Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju tillaga Plúsarkitekta, dags. 6. mars 2023, að breytingu á hverfisskipulagi í Árbæ, hverfi 7.3. Selás, vegna lóðarinnar nr. 98 við Selásbraut. Í breytingunni sem lögð er til felst að lóð er stækkuð til norðurs, á lóðarstækkun er komið fyrir 28 bílastæðum, þar af 3 fyrir hreyfihamlaða og aðstöðu fyrir djúpgáma og á afstöðumynd eru nýbyggingar sýndar ásamt bílastæðum, uppfærðum byggingarreitum og gönguleiðum, auk þess verður heimilt að setja svalir sem snúa í norðaustur og eru á 2. hæð og ofar 160 cm út fyrir byggingarreit, samkvæmt uppdr. Plúsarkitekta, dags. 6. mars 2023. Tillagan var auglýst frá 29. ágúst 2023 til 10. október 2023. Eftirtaldir sendu athugasemdir/umsögn: Veitur, dags. 4. október 2023, Þórunn Ósk Guðmundsdóttir, dags. 7. október 2023, Eyþór Guðmundsson, dags. 7. október 2023, Kolbrún Hrund Víðisdóttir, dags. 8. október 2023, Elva Bredahl Brynjarsdóttir, dags. 8. október 2023, Hörður Lilliendahl, dags. 8. október 2023, Eva Rós Sigvaldadóttir, dags. 8. október 2023, Berglind Elva Sigvaldadóttir, dags. 8. október 2023, Edda Ýr Guðmundsdóttir, dags. 8. október 2023, Margeir Þórir Sigfússon, dags. 9. október 2023, Hjálmar Ingvarsson og Jóhanna Hulda Jónsdóttir, dags. 9. október 2023, Edda Björk Karlsdóttir, dags. 9. október 2023, Sigurður Reynisson, dags. 9. október 2023, Baldvin Reynisson og Margrét Gunnarsdóttir, dags. 10. október 2023, Catherine Van Pelt, dags. 10. október 2023, Elín Elmarsdóttir Van Pelt, dags. 10. október 2023 og Elmar Hauksson, dags. 10. október 2023. Að loknum athugasemdarfresti barst athugasemd frá Hjálmari Ingvarssyni, Sigurði Reynissyni, Klöru Njálsdóttur og Guðmundi Hermannssyni, mótt. 10. nóvember 2023. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 8. desember 2023, og uppfærður uppdr. Plúsarkitekta, dags. 29. nóvember 2023, ásamt lóðarmynd, dags. 5. desember 2023 og afstöðumynd, dags. 29. nóvember 2023. Lagt er til að breytt tillaga verði auglýst að nýju.
    Samþykkt með sex atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Sjálfstæðisflokksins að auglýsa breytingu á deiliskipulagi fyrir hverfisskipulag í Árbæ, hverfi 7.3. Selás, vegna lóðarinnar nr. 98 við Selásbraut., skv. 43. gr. sbr. 4 mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
    Fulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins.
    Vísað til borgarráðs.
    Ævar Harðarson, deildarstjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23020273

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fjölmargar athugasemdir hafa borist og flestar af svipuðum meiði. Mótmælt er fyrirhugaðri stækkun lóðar við Selásbraut 98 vegna fjölda íbúða sem koma á fyrir á byggingarreitnum sem eru mun fleiri en upphaflega var gert ráð fyrir og nær húseignum í Suðurási og Vesturási. Talið er að svæðið í nálægð við Selásskóla beri ekki þá bílaumferð sem mun við bætast auk þeirrar umferðar sem mun fylgja þeim 70-80 íbúðum sem nú þegar er byrjað að reisa við suðurenda Selásbrautar eins og segir í einni af innsendri athugasemd. Fulltrúi Flokks fólksins telur að þetta þurfi að skoða vandlega. Íbúar þarna þekkja vel reitinn og vita hvað þeir eru að segja.

    Fylgigögn

  11. Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar samgöngustjóra dags. 5. desember ásamt fylgigögnum. USK23040133

    Fylgigögn

  12. Lagt er til að umhverfis- og skipulagsráð samþykki eftirfarandi sérákvæði fyrir umferð:
    Að Bergstaðastræti milli Skólavörðustígs og Laugavegar verði vistgata.
    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Vísað til umsagnar íbúaráðs Miðborgar og Hlíða. USK23010018

    Fylgigögn

  13. Lagt er til að Lagt er til að umhverfis- og skipulagsráð samþykki eftirfarandi sérákvæði fyrir umferð:
    • Að Laugavegur verði óslitin göngugata frá Frakkastíg að Ingólfsstræti.
    • Að undanþága sem heimilar akstur á göngugötu Laugavegar milli Frakkastígs og Klapparstígs vegna vöruafhendinga, aðkomu að baklóðum og annarra sem hafa heimild til að aka á göngugötu, verði frá Frakkastíg til vesturs.
    • Að heimilaður verði akstur á göngugötu Vatnsstígs, frá Hverfisgötu og að lóð nr. 4 við Vatnsstíg, vegna aðkomu að og frá Vatnsstíg 4.
    • Að heimilaður verði akstur yfir göngugötu Laugavegs frá Klapparstíg úr norðri, að Klapparstíg sunnan Laugavegs.
    • Að heimilaður verði akstur yfir göngugötu Laugavegs frá Bergstaðastræti úr suðri að Smiðjustíg norðan Laugavegs.
    Greinargerð fylgir tillögunni
    Vísað til umsagnar íbúaráðs Miðborgar og Hlíða. USK23010018

    Fylgigögn

  14. Lögð fram umsögn Reykjavíkurborgar um tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun 2024-2038 ásamt fimm ára aðgerðaráætlun fyrir árin 2024-2028 dags. 20. nóvember 2023. USK23100165

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Við lestur þessarar umsagnar um tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun er eins og ríkisvaldið sé ekki að ganga í takt við meirihlutann í borginni þegar kemur að borgarlínu. Reykjavíkurborg bendir á í umsögn sinni að í töflu (töflu 8) þar sem listaðar eru upp framkvæmdir samgöngusáttmála, vantar innlegg fyrstu lotu Borgarlínu og kostnað vegna hennar milli Hlemms og Ártúnshöfða og svo áfram milli Ártúnshöfða og Keldna. Segir ennfremur í umsögninni að borgin geri ráð fyrir að þetta séu mistök sem verði leiðrétt þegar áætlunin verður uppfærð vegna samgöngusáttmálans. Fulltrúi Flokks fólksins er ekki viss um að þetta séu nein mistök. Nú þegar hefur komið fram hjá ríkisstjórn að ekki eru til peningar fyrir borgarlínu og búið er að tilkynna um tafir. Í raun má segja að borgarlínuverkefnið sé í miklu uppnámi.

    Fylgigögn

  15. Lagt fram afgreiðslubréf, dags. 30. nóvember 2023 vegna samþykktar borgarráðs s.d. á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Fossvogsbrúar. USK23050037

    Fylgigögn

  16. Lagt fram afgreiðslubréf, dags. 30. nóvember 2023 vegna samþykktar borgarráðs s.d. á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Slippa- og Ellingsenreits og Vesturbugtar, Gömlu hafnarinnar vegna reita 03 og 04. USK23100159

    Fylgigögn

  17. Lagt fram afgreiðslubréf, dags. 23. nóvember 2023, vegna afgreiðslu borgarráðs s.d. á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Saltvíkur á Kjalarnesi. SN220797

    Fylgigögn

  18. Lagðar fram fundargerðir SORPU bs. nr. 486 dags. 26 september 2023 og nr. 487 dags. 3. október 2023 ásamt fylgigögnum. USK23010167

    Fylgigögn

  19. Lagðar fram fundargerðir afgreiðslufunda byggingarfulltrúa dags. 28. nóvember 2023 og 5. desember 2023. USK22120096

    Fylgigögn

  20. Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindarmála dags. 5. desember 2023 ásamt kæru nr. 136/2023 þar sem kærð er ákvörðun byggingarfulltrúa um að kæranda sé gert að fjarlægja LED-skilti að stærð 580x580 sem er staðsett á SV-vegg hússins nr. 6-8 að Lágmúla. USK23120023

    Fylgigögn

  21. Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 5. desember 2023 ásamt kæru nr. 137/2023 þar sem kærð er ákvörðun byggingarfulltrúa að leggja á dagsektir kr. 150.000 fyrir hvern þann dag sem dregst að verða við kröfum um að fjarlægja skilti Ormsson að Lágmúla 6-8. USK23120025

    Fylgigögn

  22. Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. október 2023 ásamt kæru nr. 125/2023, dags. 25. október 2023, þar sem kærð er ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. september 2023 um að synja um byggingarleyfi fyrir rafrænu ljósaskilti á vegg hússins að Lágmúla nr. 6-8. Einnig er lögð fram greinargerð Reykjavíkurborgar dags. 28. nóvember 2023.

    Fylgigögn

  23. Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 30. nóvember 2022 ásamt kæru nr. 133/2022 ódags. þar sem kærð er ákvörðun umhverfis- skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, dagsett 15. nóvember 2022, um að borgaryfirvöld muni ekki aðhafast í máli er varðar kvartanir kæranda vegna aðgengismála og brota varðandi algilda hönnun í byggingu að Kugguvogi 15, á lóð nr. 1 við Trilluvog. Einnig er lögð fram umsögn Reykjavíkurborgar dags. 22. nóvember 2023. SN220799

    Fylgigögn

  24. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um úrbætur á skiptistöðinni Ártúni í þágu strætisvagnafarþega, sbr. 16. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 24. maí 2023. Einnig lögð fram umsögn skrifstofu samgangna og borgarhönnunar dags. 2. nóvember 2023.

    Tillaga um að sett verði upp skjólgóð og upphituð skýli á báðum biðstöðvum skiptistöðvarinnar er felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn þremur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna.
    Tillaga um að upplýsingagjöf til farþega verði bætt, t.d. með uppsetningu leiðakorts, leiðataflna og rauntímabúnaði, sem sýnir hvenær vagnar eru væntanlegir á stöðina er samþykkt.
    Tillaga um að ruslakörfum verði fjölgað og svonefnd stubbahús sett upp til að auka hreinlæti á og við skiptistöðina er samþykkt. USK23050266

    Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
    Með tilkomu Borgarlínu mun þessi biðstöð víkja og því ekki skynsamlegt að ráðast í kostnaðarsamar breytingar. Hins vegar er hægt að koma til móts við þessi sjónarmið um betrumbætur að vissu marki enda mikið notuð stöð, því eru tvær af þremur tillögum samþykktar.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
    Ártún er með fjölförnustu skiptistöðvum strætisvagna í Reykjavík og gegnir afar mikilvægu hlutverki fyrir strætisvagnafarþega í eystri hverfum borgarinnar. Núverandi ástand skiptistöðvarinnar er til skammar og brýnt að bætt verði úr sem fyrst. Það sjónarmið að ekki sé ráðlegt að fjárfesta í nýjum skýlum í Ártúni og/eða upphituðum skýlum vegna borgarlínu lýsir ákveðnu metnaðarleysi í þjónustu við strætisvagnafarþega. Reykjavíkurborg ræður vel við að setja upp ný og betri biðskýli í Ártúni enda hefur slíkt ekki óhóflegan kostnað í för með sér. Ákjósanlegt væri að koma skjólgóðum og upphituðum biðskýlum þarna fyrir eins og fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa lagt til. Slík skýli myndu ekki einungis veita farþegum skjól fyrir veðri og vindum heldur einnig umferðarhávaða, sem er mikill á þessum stað. Rétt er að benda á að auðvelt væri að endurnýta slík skýli með því að flytja þau annað ef og þegar til þess kæmi að skiptistöðin í Ártúni yrði lögð niður. Það hefði því enga sóun í för með sér að setja upp ný og betri biðskýli í Ártúni. Ánægjulegt er að 2. og 3. liðir tillögu Sjálfstæðisflokksins hafi verið samþykktir, sem fela í sér umbætur á upplýsingagjöf til strætisvagnafarþega í Ártúni og aðgerðir til að auka hreinlæti á og við skiptistöðina. Tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins var flutt í ráðinu 24. maí sl. Það tók því tæpa sjö mánuði að afgreiða tillöguna.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Lögð er fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs um tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um úrbætur á skiptistöðinni Ártúni í þágu strætisvagnafarþega. Fram kemur að strætóstöðin við Ártún sé með stærri stöðvum í leiðaneti Strætó. Í umsögninni segir eftirfarandi: . „Fyrirséð er að ný stöð við Krossamýrartorg á Ártúnshöfða taki við sem skiptistöð fyrir leiðir almenningssamgangna, við innleiðingu á nýju leiðaneti strætó í tengslum við Borgarlínu.  Fulltrúa Flokks fólksins finnst þessi umsögn enn eitt dæmið um að ekki eigi að lagfæra eða efla núverandi almenningssamgöngur heldur á að bíða efir borgarlínu sem er alls óvíst hvenær kemur. Það er augljóst að ekki á að fara í fjárfestingar á strætóstöðvum borgarinnar þrátt fyrir þörf um endurbætur því bíða á eftir borgarlínu

    Fylgigögn

  25. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um ósamþykktar íbúðir í Reykjavík, sbr. 24. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 24. maí 2023. Einnig er lagt fram svar byggingarfulltrúa, dags. 6. desember 2023. USK23050261

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Spurt var um hversu margar íbúðir eru ósamþykktar í Reykjavík og hversu margir búa í iðnaðar-eða atvinnuhúsnæði. Það kom á óvart að byggingarfulltrúinn í Reykjavík haldi ekki utan um fjölda ósamþykktra íbúða í Reykjavík. Gott væri að fá upplýsingar um hvar sé hægt að afla slíkra upplýsinga. Í svari var vísað í nýlega skýrslu Húsnæðis-og mannvirkjastofnunar og fleiri þar sem búseta í atvinnuhúsnæði var skoðuð . Samkvæmt skýrslunni er áætlað að það búi 1.868 einstaklingar og þar af 19 börn í atvinnuhúsnæði. Flestir eru búsettir í Reykjavík eða 46% þessara íbúa eða um 860 manns og flestir eru í póstnúmeri 110 Reykjavík. Nýlega var mikill bruni í einmitt þessu hverfi þar sem ungur maður lét lífið. Fulltrúi Flokks fólksins telur mikilvægt að reynt verði að sporna gegn búsetu í iðnaðar-eða atvinnuhúsnæði og að það sé mikilvægt að efla allt eftirlit með eldvörnum svo öryggi íbúa sé tryggt. Það er jafnframt mikilvægt að halda utan um skráningu íbúa svo slökkvilið viti fjölda íbúa ef eldur kviknar.
     

    Fylgigögn

  26. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hvað sé byggingarhæf lóð, sbr. 34. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 25. október 2023. Einnig er lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, byggingafulltrúa dags. 28. nóvember 2023. USK23100286

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins spurði um upplýsingar um byggingarhæfar lóðir og ýmislegt því tengt. Margir vita ekki hvað byggingarhæf lóð er. Það fyrsta sem manni dettur í hug þó er að um sé að ræða lóð sem hægt er að byggja á. Meirihlutinn segir að sjá megi allar þessar lóðir á kortavefsjá. Nú hefur komið í ljós að sumar lóðir eru nú þegar komnar í hendur lóðarhafa með útboði og ætti þ.a.l. ekki að vera á kortavefsjánni eins og henni væri óráðstafað. Það er vægt til orða tekið að segja að margt er óskýrt í umræðunni um lóðir og lóðamál . Nú liggur það fyrir að „byggingarhæf lóð skv. skilgreiningu telst þegar götur hafa verið lagðar bundnu slitlagi og séð hefur verið fyrir rafmagni, vatni og fráveitutengingu og heimild til framkvæmda fæst að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, (nánar má sjá í svari). Þessi mál hafa einfaldlega verið mjög óskýr og villandi. Á sumum lóðanna á kortavefsjánni er t.d. ennþá rekstur í fullum gangi og aðrar ekki tilbúnar því þær bíða eftir framkvæmd borgarlínu. Þessar skýringar þurfa að liggja fyrir og vera aðgengilegar en ekki aðeins þegar kallað er sérstaklega eftir þeim.

    Fylgigögn

  27. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um Fossvogsbrú, sbr. 43. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 15. nóvember 2023. Einnig er lagt fram svar Vegagerðarinnar, Betri samgangna dags. 5. desember 2023. USK23110186

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins fékk ábendingu um að hönnun Fossvogsbrúar þar sem bent er á að göngustíg er betur komið á vesturhluta brúarinnar. Núverandi hönnun gerir ráð fyrir að göngustígur sé austan megin. Eðlilegt þykir að göngustígur sé sjávarmegin eins og algengt er. Svarið ber með sér að ekki hafi verið mikils metið að upplifun gangandi vegfaranda skipti máli. Málið er ekki bara að sjá, það er vissulega útsýni en upplifun af sjávarsýn tapast þegar horft er yfir brú, handrið, strætisvagn að hjólandi vegfarendur. Í svari er gert lítið úr þessu með því að segja að “einhver skuggamyndun verður frá kantbitum í vesturkanti þar sem þeir standa hæst upp fyrir brúargólfið, en þar sem þeir eru lægri verður skuggamyndun ekki veruleg þar sem handrið er fremur gegnsætt”. Þetta er engu að síður “galli” í svo dýru mannvirki. Í svari kemur einnig fram að göngustígurinn austan á brúnni er hluti af 5 km göngu um Fossvoginn. Flokkur fólksins bendir á að það er ekki komið frá Vegagerðinni. Fullyrt er að þessi tilhögun sé til að minnka þveranir. Þessi fullyrðing stenst ekki því að þegar þær eru taldar sést að þær eru jafnmargar hvort sem hjólreiðamenn fara vestan- eða austan megin.

    Fylgigögn

  28. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um fyrirspurnir frá íbúaráði Háaleitis- og Bústaðahverfis, sbr. 36. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 4. október 2023. Einnig er lagt fram svar Íbúaráða Háaleitis- og Bústaðarhverfis, dags. 30. nóvember 2023. USK23100064

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins þakkar svarið en spurt var hvort íbúaráðið hefði heyrt í íbúum og afstöðu þeirra til tveggja tillagna íbúðaráðsins sú fyrri um mótun framtíðarsýnar um þróun Háaleitisbrautar og sú síðari um lækkun hámarkshraða á Suðurlandsbraut? Svar íbúðaráðsins við spurningunum er nei, að ekki hafi verið leitað sérstaklega álits hjá íbúum. Bent er á að í „íbúaráðinu sitja fulltrúar grasrótar s.s. íbúasamtaka og foreldrafélaga. Flestir íbúaráðsfulltrúar eru auk þess íbúar í hverfinu. eins og segir í svari. Fleira er tiltekið í svari sem rennir stoðum undir túlkun íbúaráðsins að „tillögurnar lýsi vel hug stórs hluta íbúa hverfisins til málefna Suðurlandsbrautar og Háaleitisbrautar. Allt er þetta gott og vel. Fulltrúi Flokks fólksins hefur verið talsmaður þess að íbúðaráðin vinni þétt með íbúum hverfisins. Ráðin eru framhandleggur fólksins í pólitíkina ef svo má orða. Vissulega hafa mál mismikil áhrif en fulltrúa Flokks fólksins fannst þær tillögur sem hér um ræðir umfangsmiklar og líklegt að margir hafi á þeim skoðanir, jafnvel ólíkar? Þegar stórmál eru til umræðu og taka á ákvarðanir er t.d. góð hugmynd að hafa íbúafundi, jafnvel fleiri en einn og sjá til þess að þeir séu auglýstir rækilega.

    Fylgigögn

  29. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um mótvægisaðgerðir vegna loftlagsvanda, sbr. 23. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 18. október 2023. Einnig er lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 6. desember 2023. USK23100228

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þetta er áferðarfalleg skýrsla en þó verður að segjast að þar er nokkuð um ótrúverðug markmið. Vandasamt er að enduheimt votlendið muni skipta miklu máli því að Reykjavík er ekki á votlendissvæði, ekki síst þegar þær mýrar sem voru í Reykjavík hafa að mestu verið þurrkaðar upp og vandasamt er að endurheimta þær, svo sem Kringlumýri og Laugarmýri. Þá hefur meirihlutinn ekki verið hlynntur því að auka skógrækt með kolefnisbindingu í huga. Flokkur fólksins bendir einnig á að vandséð er hvernig blágrænar ofanjarðarlausnir dragi í kolefnislosun. En einna skrítnasti hlutinn er að tíundað er að ,, Ráðist verði í eflingu flóðavarna með fram strandlengjunni þar sem þarf og stefnt að því að úr verði útivistarsvæði, strandgarðar og aðstaða til sjávarbaða á völdum stöðum”. Flokkur fólksins spyr hvort meirihlutinn telji þetta vera loftlagsmál? Varla, en þetta þýðir að búa þarf til garða sem sagt landfylla og það kemur kolefnislosun ekkert við.

    Fylgigögn

  30. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um vetrarþjónustu, sbr. 22. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 18. október 2023. Einnig er lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu borgarlandsins, dags. 6. desember 2023. USK23100226

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fyrirspurn Flokks fólksins laut að eftirliti með vetrarþjónustunni en til stendur að stórbæta vetrarþjónustuna m.a. með stórauknu eftirliti. Setja á 50 milljónir í eftirlitið. Spurt var hvort þetta eftirlit væri ekki tímabundið á meðan þeir sem sinna verkinu finna rétta taktinn og borgarbúar finni til ánægju með vetrarþjónustuna og treysta þjónustunni. Í svari kemur fram að til að ná betri árangri og réttri stjórnun í vetrarþjónustu er mikilvægt að miðlæg stýring þess sé innt af starfsmönnum Reykjavíkurborgar í þessu tilfelli eftirlitsmenn vetrarþjónustu. Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir það en sér fyrir sér að ef launaðir starfsmenn borgarinnar á þessu sviði sinni þessu eftirliti og mun það e.t.v. ekki þurfa að kosta tugi milljóna. Hér er ekki verið að tala um að fara í aðkeypta þjónustu, kaupa þjónustu frá utanaðkomandi eftirlitsmönnum. Fulltrúi Flokks fólksins skilur að bæta þurfi hugsanlega við 1-2 stöðugildum sem ætti að vera kannski á bilinu 25-28 milljónir á ári.

    Fylgigögn

  31. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um frágang við aðreinar inn að Álfabakka, sbr. 33. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 25. október 2023. Einnig er lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofa framkvæmda og viðhalds, dags. 24. nóvember 2023. USK23100285

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins óskaði upplýsinga um hvenær standi til að fara í frágang á aðrein Reykjanesbrautar inn að Álfabakka. Hornið á fráreininni frá Reykjanesbrautinni inn á Álfabakkann er sérstaklega hættulegt og “ það er betra að byrgja brunninn áður en barn fellur ofan í hann” Þarna verður að fara í að ljúka frágangi. Í svari kemur fram að búið er að mála stöðvunarlínu og setja upp stöðvunarskilti- og einstefnuskilti á aðreininni til að bæta öryggi. Fleira er í bígerð. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar þessu og hvetur skipulagsyfirvöld til að vinna þetta allt með þeim sem hafa verið að kalla eftir lagfæringunum. Þegar þeim finnst vandamálið leyst þá er vandamálið leyst.

    Fylgigögn

  32. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar, sbr. 36. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 29. nóvember 2023.
    Vísað til umsagnar Strætó bs. USK23110327

  33. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 37. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 29. nóvember 2023.
    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgangna og borgarhönnunar. USK23110328

  34. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um skipulag í Mjódd, sbr. 33. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 15. nóvember 2023.
    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa. USK23110185

  35. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um breytingu á ferli samráðsfyrirkomulaga í kjölfar hönnunarsamkeppni, sbr. 38. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 29. nóvember 2023.
    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa. USK23110322

  36. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um leyfi til heimagistingar og hverjir beri á þeim ábyrgð, sbr. 39. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 29. nóvember 2023.
    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu stjórnsýslu og gæða. USK23110323

  37. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um framkvæmdir við Arnarnesveg, sbr. 40. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 15. nóvember 2023.
    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds. USK23110178

  38. Lögð fram svohljóðandi tillaga Sjálfstæðisflokksins:

    Lagt er til að erindi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins um tillögu um stækkun svæðis, sem falla ætti undir friðlýsingu Grafarvogs, verði kynnt fyrir íbúaráði Grafarvogs og Íbúasamtökum Grafarvogs og þeim gefinn kostur á að skila umsögn um málið áður en umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur samþykkir framlagða umsögn umhverfis- og skipulagssviðs um málið.
    Frestað. USK23120112

  39. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Flokkur fólksins leggur til að gangbraut, undirgöng eð göngubrú verði lögð á mótum Efstaleitis og Bústaðavegar. Í hverfinu sunnan Bústaðavegar í kringum Sléttuveg búa mjög margir fatlaðir einstaklingar sem margir notast við hjólastóla eða önnur hjálpartæki. Þessir einstaklingar þurfa oft að fara yfir Bústaðaveg til að sækja ýmsa þjónustu. Það er langt fyrir þessa einstaklinga að fara alla leiðina að Háaleitisbraut til að þvera götuna
    Frestað. USK23120110

Fundi slitið kl. 12:16

Dóra Björt Guðjónsdóttir Aðalsteinn Haukur Sverrisson

Friðjón R. Friðjónsson Hjálmar Sveinsson

Kjartan Magnússon Líf Magneudóttir

Pawel Bartoszek

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 13. desember 2023