Umhverfis- og skipulagsráð - Fundur nr. 290

Umhverfis- og skipulagsráð

Ár 2023, miðvikudaginn 29. nóvember, kl. 9:09 var haldinn 290. fundur umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Dóra Björt Guðjónsdóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir, Kjartan Magnússon, og áheyrnarfulltrúarnir Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir og Andrea Helgadóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild: Líf Magneudóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Björn Axelsson, Brynjar Þór Jónsson, Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, Guðmundur Benedikt Friðriksson, Gunnar Hersveinn Sigursteinsson, Inga Rún Sigurðardóttir, Sigurjóna Guðnadóttir og Hólmfríður Frostadóttir.    
Fundarritari var Glóey Helgudóttur Finnsdóttir.

Þetta gerðist:

 1. Fram fer kynning á fyrirhugaðri legu 3. lotu Borgarlínu og samspil við útfærslur á gatnamótum Reykjanesbrautar og Bústaðavegar.

  Berglind Hallgrímsdóttir EFLU, Kristján Árni Kristjánsson og Bryndís Friðriksdóttir frá Vegagerðinni taka sæti á fundinum undir þessum lið.
  Fulltrúar íbúaráðs Háaleitis og Bústaðahverfis Ívar Orri Aronsson og Birkir Ingibjartsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. USK23030330

 2. Fram fer kynning á forhönnun Sæbrautarstokks.
  Kristján Árni Kristjánsson og Bryndís Friðriksdóttir og frá Vegagerðinni taka sæti á fundinum undir þessum lið.
  Fulltrúar íbúaráðs Háaleitis og Bústaðahverfis Ívar Orri Aronsson og Birkir Ingibjartsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. USK23100034

 3. Lagt er til að umhverfis- og skipulagsráð samþykki að tvær núverandi biðstöðvar strætó í Austurbrún, Austurbrún og Dragavegur verði sameinaðar í eina stöð, Austurbrún. Greinargerð fylgir tillögunni.
  Samþykkt með fimm atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum Sjálfstæðisflokksins. USK23100019

  Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

  Mikilvægt er að Strætó sé skilvirkur samgöngukostur. Tillaga um sameiningu stöðvanna tveggja í eina stöð, Austurbrún, er liður í því að minnka tafir á leið 14 sem hafa verið miklar undanfarin misseri. Mikið hefur verið kvartað undan óstundvísi leiðarinnar. Ein ástæðan er sú að í sumum tilvikum er mjög stutt milli biðstöðva og vagninn þarf því sífellt að vera að stoppa og taka aftur af stað. Sameiningin gæti þýtt örlítið lengri gönguvegalengd fyrir einhverja notendur Strætó, en styttri fyrir aðra, eins og gengur. Tilfærslan er um 100 m í báðum tilfellum. Nýja stöðin verður öruggari fyrir notendur Strætó.

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Fækkun biðstöðva í Langholtshverfi felur í sér skerðingu á strætisvagnaþjónustu í hverfinu. Í október sl. var ákveðið að leggja niður biðstöð við Hólsveg og nú er lögð til frekari fækkun. Tilviljanakennd fækkun biðstöðva er ekki rétta leiðin til að bæta stundvísi leiðar 14. Raunveruleg lausn felst í því að bæta vagni inn á leiðina enda liggur rót vandans í of stífri tímaáætlun hennar eins og vagnstjórar hafa ítrekað bent á.

  Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúa Sósíalistaflokksins líst illa á að lengja gönguleið íbúa Austurbrúnar 6 að strætóbiðstöð, nema borgin bregðist við breytingunni á einhvern hátt. Til dæmis með lagningu upphitaðs göngustígs yfir lóð Austurbrúnar 6 í átt að hinni nýju biðstöð. Réttara væri að í stað almennrar hverfiskynningar væru ákvarðanir af þessu tagi lagðar undir mat þeirra borgarbúa sem sannarlega verða fyrir mestum áhrifum af breytingunum.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Verið er að skerða þjónustu strætó enn frekar með þessari aðgerð, sameiningu stoppistöðva. Það kann að vera að hana megi réttlæta en þegar á allt er litið er búið að skerða þjónustu strætó að undanförnu allt of mikið. Í ofanálag eru borgarfulltrúi Flokks fólksins að fá allt of margar ábendingar frá farþegum sem kvarta yfir aksturslagi og skorti á þjónustulund hjá einstaka bílstjóra. Fulltrúi Flokks fólksins hefur rætt þau mál við framkvæmdastjóra sem segist ætla að skoða málin. Dæmi eru um að fólk treystir sér ekki í strætó af ótta við að detta í vagninum og slasast og einnig að stundum sé ekið of hratt og með litla tillitssemi að leiðarljósi.
   

  Fylgigögn

 4. Fram fer kynning á niðurstöðum úr Ferðavenjukönnun Gallup sem gerð var í 6. - 30. október 2023.
  Ólafur Veigar Hrafnsson frá Gallup og Hrönn Hrafnsdóttir deildarstjóri taka sæti á fundinum undir þessum lið. USK23110225

  Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

  Í nýrri ferðavenjukönnun Gallups kemur skýrt fram að sífellt fleiri borgarbúar fara gangandi og hjólandi á leið sinni í og úr skóla eða vinnu. Nánar til tekið 74% þeirra sem eru á leið í og úr skóla og 24% þeirra sem fara til vinnu. Þetta er mikil breyting frá árinu 2008 þegar aðeins 11%  nýttu sér þessa fararmáta í og úr vinnu. Þróunin frá 2008 sýnir líka að æ færri nota einkabílinn á leið í vinnu, Þótt þau sé enn býsna mörg. Ýmislegt áhugavert kemur fram í könnuninni. Konur fara frekar fótgangandi til vinnu og karlar frekar á hjóli. 45 ára og eldri eru mun líklegri til að ferðast með bíl til vinnu heldur en þau sem eru yngri.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Þessi könnun hefur enga samantekt og erfitt er að lesa úr sumum myndum hennar. Niðurstöður þessarar könnunar er býsna afdráttarlaus. Bíllinn er hástökkvari í öllum spurningum og meira en búist hefði mátt við í raun því talið var að hjólin væru að koma sterkar inn. Gott er að sjá að börn eru að ganga heilmikið í skólann en í mörgum hverfum væri gaman að sjá meira um hjól. Nú í skammdeginu fara ung börn vissulega ekki í skólann á hjóli. Þeir sem búa langt frá vinnu og almennt í efri byggðum, í Breiðholti, Árbæ, Grafarvogi og Kjalarnesi  eru eðlilega að nota bílinn í yfirgnæfandi meirihluta. Vel kann að vera að fleiri gætu mögulega verið að nota almenningssamgöngur væru þær að mæta þörfum fleira fólks hvað varðar tíðni, aðgengi,  leiðakerfið og bættrar þjónustulundar. Þeir sem eru efnaminni samkvæmt þessari könnun eru að nota minnst hjól og hlaupahjól. Það vekur upp spurningar.
   

 5. Lagt fram árshlutauppgjör janúar-september 2023.

  Hreinn Ólafsson fjármálastjóri umhverfis- og skipulagssviðs tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23060105

   

 6. Lagt er fram yfirlit yfir ferðakostnað Umhverfis- og skipulagssviðs júlí - september 2023.
  Hreinn Ólafsson fjármálastjóri umhverfis- og skipulagssviðs tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23060105

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Flokkur fólksins vill aðeins fagna því að umhverfis- og skipulagssvið hefur staðfest að draga á úr ferðakostnaði. Í yfirliti yfir hagræðingaraðgerðir umhverfis- og skipulagssviðs  2024 kemur fram að lækka á ferðakostnað.  Það er til fyrirmyndar.

   

  Fylgigögn

 7. Lögð fram að nýju skýrsla um rammahluta aðalskipulags Reykjavíkur 2040; Fyrsta lota borgarlínu: Ártún - Fossvogsbrú, drög að tillögu, dags. nóvember 2023.
  Frestað. USK23110203

 8. Lögð fram fundargerð embættisafgreiðslufundar skipulagsfulltrúa, dags. 23. nóvember 2023. USK23010150

  Fylgigögn

 9. Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að breytingu á deiliskipulagi Safamýrar – Álftamýrar. Í breytingunni sem lögð er til felst að skilgreind er ný lóð með staðfanginu Safamýri 58-60 fyrir fjölbýlishús með allt að 40 íbúðum, samkvæmt uppdráttum Grímu arkitekta og A2F arkitekta, dags. 13. nóvember 2023. Einnig er lagt fram minnisblað Önnu Máfríðar Jónsdóttur brunaverkfræðings M.Sc, dags. 31. ágúst 2023, um aðkomu slökkviliðs, tvö minnisblöð Myrru hljóðstofu, dags. 27. september 2023, um hljóðvist og athugun brokkr studio, ódags. á ytri áhrifum. Lagt er til að tillagan verði afgreidd í auglýsingu.
  Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
  Vísað til borgarráðs.
  Sigríður Maack verkefnastjóri tekur sæti undir þessum lið. USK23100313

  Fylgigögn

 10. Lögð fram fundargerð afgreiðslufunda byggingarfulltrúa, dags. 21. nóvember 2023. USK22120096

  Fylgigögn

 11. Lagt fram málskot Arnars Pálssonar og Sólveigar Sifjar Halldórsdóttur, dags. 8. ágúst 2023, vegna neikvæðrar afgreiðslu skipulagsfulltrúa frá 17. maí 2023 um að setja bílastæði fyrir framan húsið á lóð nr. 57 við Hofsvallagötu. Einnig er lagt fram bréf, ódags. og yfirlitsmynd ásamt ljósmyndum. Jafnframt er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 17. maí 2023.
  Umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 17. maí 2023, staðfest með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins. USK23080021

  Fylgigögn

 12. Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 17. nóvember 2023 ásamt kæru nr. 130/2023, dags. 16. nóvember 2023, þar sem kærð er ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Teigahverfis vegna lóðarinnar nr. 30 við Hraunteig. USK23110206

  Fylgigögn

 13. Lagt fram erindi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis um tillögu um stækkun svæðis í Grafarvogi sem falla ætti undir friðlýsingu Grafarvogs, dags. 20. júní 2023 ásamt umsögn Náttúrufræðistofnun Íslands, dags. 13. júní 2023 og samantekt Minjastofnunar ódags.
  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða. USK23080213

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Fyrirhuguð friðlýsing Grafarvogs felur í sér að grunnsævi, leirur og fjörur í voginum verði friðlýstar, auk menningarminja og skilgreinds útivistarsvæðis Grafarvogsbúa. Niðurstöður alþjóðlegrar skipulagssamkeppni um Keldnaland voru kynntar borgarstjórn í október sl. Ljóst er að í verðlaunatillögunni er skautað fram hjá mörgum atriðum, sem varða aðstæður í Grafarvogi og hagsmuni núverandi íbúa hverfisins. Því miður er fyrirhuguð friðlýsing Grafarvogs eitt þessara atriða.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Flokkur fólksins styður stækkun á friðlýstu svæði við Grafarvog. Ekki eru mörg strandsvæði óröskuð eða lítt röskuð í Reykjavík.  Friðlýsing eykur á gildi Grafarvogs sem fæðusvæði fugla að vetri til en þá eru sjávarleirur mikilvæg fæðusvæði.
   

  Fylgigögn

 14. Lagt fram erindisbréf umhverfis- og skipulagssviðs dags. 27. nóvember 2023 um starfshóp um skipulagsbreytingar Vinnuskóla Reykjavíkur. USK23110272

 15. Fram fer umræða um stofnun stýrihóps um borgarhönnunarstefnu. USK23110270

 16. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sbr. 15. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs þann 18. október 2023. Einnig lögð fram umsögn skrifstofu samgangna og borgarhönnunar dags. 23. nóvember 2023.
  Tillaga felld með 4 atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Fulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins. USK23100173

  Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

  Tillagan er felld með vísan í meðfylgjandi umsögn. Þessi útfærsla var hönnuð með það í huga að auka umferðaröryggi allra vegfarenda, ekki síst óvarðra vegfarenda. Þeim vegfarendum hefur fjölgað til muna með tilkomu Vogabyggðar og ljóst er að þeim mun halda áfram að fjölga á næstu árum. Meðal þeirra eru mörg börn á leið sinni í skóla og frístundir. Gatnamótin hafa síðustu ár verið á lista Samgöngustofu yfir þau gatnamót þar sem flest meiðslaslys verða og voru þau þar í fimmta til sjöunda sæti. Það er skilningur fyrir neikvæðum áhrifum á aðila sem standa að atvinnustarfsemi á svæðinu en það er óverjandi að bregðast ekki við þeim slysum sem þarna sem hafa orðið. Ljóst er að börnum og unglingum á svæðinu mun fjölga talsvert vegna mikillar íbúðauppbyggingar.

      Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Ófremdarástand ríkir á gatnamótum Sæbrautar og Kleppsmýrarvegar og anna þau nú engan veginn mikilli umferð frá atvinnuhverfinu sunnan Sæbrautar né ört vaxandi íbúabyggð þar. Er því ljóst að mistök voru gerð þegar ákveðið var að þrengja gatnamótin og fækka vinstribeygjuakreinum af Kleppsmýrarvegi inn á Sæbraut til suðurs. Brýnt er að þessi mistök verði leiðrétt sem fyrst og umræddum vinstribeygjuakreinum fjölgað á ný. Jafnframt er brýnt að tryggja öryggi skólabarna og annarra gangandi vegfarenda á leið yfir Sæbraut, t.d. með hnappastýrðu og/eða snjallstýrðum gangbrautarljósum.
   

  Fylgigögn

 17. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um betrumbætur á skiltum við göngugötur, sbr. 33. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 11. október 2023. Einnig lögð fram umsögn skrifstofu samgangna og borgarhönnunar dags. 23. nóvember 2023.
  Tillaga felld með 4 atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins. USK23100143

  Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

  Umferðarmerki eru almennt ætluð til að sýna fram á boð, bönn, viðvaranir og undantekningar frá reglum og umferðarlögum en ekki til að vekja athygli á því hvað sé heimilt. Reynt er að halda skiltum í borgarlandi í lágmarki til að minnka áreiti og truflun í samræmi við alþjóðlega hefð og reglur um að hafa umferðarmerkingar skýrar og auðlesanlegar.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Það er miður að hvorki núgildandi reglugerð um umferðarmerki  né tillaga að nýrri reglugerð  gerir ráð fyrir sérstöku merki til að árétta að umferð handhafa stæðiskorta hreyfihamlaðra sé heimil á göngugötum. Nauðsynlegt er að hafa skýrar merkingar til að varna óþarfa óþægindum og til að fólk viti almennt séð hvað er heimilt. Í þeim tilfellum hlýtur að vera hægt að gera undantekningu á reglum. Sjálfsagt er að halda skiltum eins og auglýsingaskiltum í borgarlandinu í lágmarki en það er annað mál.
   

  Fylgigögn

 18. Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins vegna umsagnar samgöngustjóra við tillögu um úrbætur við Elliðabraut, sbr. 34. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 11. október 2023. Einnig er lagt fram svar skrifstofu framkvæmda og viðhalds dags. 16. nóvember 2023. USK23100153

  Fylgigögn

 19. Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um forgangsakreinar, sbr. 19. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 13. september 2023. Einnig lagt fram svar skrifstofu samgangna og borgarhönnunar dags. 23. nóvember 2023. USK23090133

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Forgangsakreinar fyrir strætisvagna í Reykjavík eru nú samtals um fjórir kílómetrar að lengd. Þrátt fyrir að slíkar forgangsakreinar hafi skilað góðum árangri, hefur nýlagning þeirra legið niðri frá árinu 2020. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja brýnt að lagning slíkra forgangsakreina hefjist að nýju á árinu 2024. Áhersla verði lögð á umferðarþunga staði þar sem strætisvagnar verða helst fyrir töfum. Nefna má ákveðna staði við Miklubraut, Hringbraut, Kringlumýrarbraut og Suðurlandsbraut þar sem nýjar forgangsakreinar myndu liðka mjög fyrir akstri strætisvagna.

  Fylgigögn

 20. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um gangstétt milli Hagasels og Seljaskóga, sbr. 35. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 15. nóvember 2023.
  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds. USK23110190
   

 21. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um lagfæringu og endurnýjun göngustígs við Vesturberg, sbr. 24. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 1. nóvember 2023.
  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds. USK23110013

 22. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um gangstéttir við Hofsvallagötu, sbr. 36. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 15. nóvember 2023.
  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds. USK23110191

 23. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um gangstéttir við Laugalæk, sbr. 34. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 15. nóvember 2023.
  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds. USK23110189

 24. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Vinstri grænna um að skoða nafnabreytingu á Hátúni, sbr. 16. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 13. september 2023.
  Vísað til meðferðar til Götunafnanefndar Reykjavíkur. USK23090131

 25. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands vegna hraðaksturs á Sævarhöfða, sbr. 38. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 15. nóvember 2023.
  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgangna og borgarhönnunar. USK23110187

  Fylgigögn

 26. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, sbr. 33. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 22. nóvember 2023.
  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofa samgangna og borgarhönnunar. USK23110254

 27. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um bætta lýsingu í Elliðaárdal, sbr. 37. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 15. nóvember 2023.
  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofa borgarlandsins. USK23110182

 28. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um sérstaka úttekt í Úlfarsárdal, sbr. 28. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 1. nóvember 2023.
  Tillagan er dregin til baka. USK23110007

 29. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um ruslastampa, sbr. 30. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 1. nóvember 2023.
  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu borgarlandsins. USK23110010

 30. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands,  sbr. 34. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 22. nóvember 2023.
  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúi. USK23110258

 31. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um strætótengingar á milli Árbæjar, Grafarholts og Breiðholts, sbr. 42. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 15. nóvember 2023.
  Vísað til umsagnar Strætó bs. USK23110181

 32. Lögð er fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, sbr. 37. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 25. október 2023.
  Vísað til umsagnar Sorpu bs. USK23100291

 33. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um Fossvogsbrú, sbr. 43. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 15. nóvember 2023.
  Vísað til umsagnar Vegagerðarinnar, verkefnastofu borgarlínu. USK23110186

 34. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um innleiðingu nýs leiðarnets Strætó, sbr. 41. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 15. nóvember 2023.
  Vísað til umsagnar Strætó bs. USK23110180

 35. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um malarhaug við Álfabakka, sbr. 39. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 15. nóvember 2023.
  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu stjórnsýslu og gæða, eftirlitsdeildar. USK23110177

 36. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar:

  Lagt er til að umhverfis- og skipulagsráð beini því til stjórnar Strætó bs. að skoða hvort það væri fýsilegt að merkja allar stoppistöðvar með númerum/bókstöfum, til viðbótar við heiti stöðvanna. Tillagan er að erlendri fyrirmynd. Merkingarnar eru hugsaðar til að auðvelda notendum að finna rétta biðstöð miðað við þá átt sem ætlunin er að ferðast í, en biðstöðvar sitthvoru megin við götu bera oft sama heiti. Númerin/bókstafirnir séu einnig merkt inn í leiðakerfi í Klappi og á vefsíðu. Þannig væru notendur ávallt vissir um að þeir væru staddir við rétta biðstöð við upphaf ferðar og yrði þetta þeim til þægindaauka.
  Frestað.

 37. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

  Lagt er til að ráðist verði í úrbætur á gatnamótum Knarrarvogs og Súðarvogs í þágu öryggis gangandi og hjólandi vegfarenda. Mikil umferð er um gatnamótin af ökutækjum, sem eru á leið til eða frá bílastæðum fjölsóttra atvinnufyrirtækja við Knarrarvog. Setja þarf upp skýrar varúðarmerkingar þar sem Knarrarvogur þverar fjölfarinn hjólastíg Kelduleiðar, t.d. með merki um hjóla- og göngustíg og/eða með því að lita hjólareinina á þessum stað. Þá er lagt til að stöðvunarskylda verði tekin upp á gatnamótunum gagnvart umferð frá Knarrarvogi í stað biðskyldu. 
   

 38. Lögð fram svohljóðandi tillaga Flokks fólksins:

  Flokkur fólksins leggur til að gerð verði  breyting á samráðsfyrirkomulagi í kjölfar hönnunarsamkeppni. Lagt er til að um leið og vinningstillaga liggur fyrir skuli  gera deiliskipulag í samræmi við vinningstillöguna til þess að hægt sé að gefa almenningi kost á að senda inn formlegar athugasemdir áður en að fullnaðarhönnun fer af stað. Nauðsyn þess að breyta þessu ferli kom glöggt í ljós í verkefni um Fossvogsbrú. Nú í september 2023 tæpum tveim árum eftir að vinningstillagan var tilkynnt var auglýst breyting á deiliskipulagi við brúna. Þá var hönnun brúarinnar nánast fullkláruð í trássi við gildandi deiliskipulag og athugasemdir almennings nánast tilgangslausar. Búið er að eyða allt of miklum tíma í hönnun  til að hægt sé að breyta nokkru núna. Óhæft er með öllu að svör við athugasemdum séu að koma fram á sama fundi og samþykkt er að mæla með breytingunni fyrir borgarráð. Þeir sem senda inn athugasemdir gefst ekki kostur á að skoða svörin og koma með andmæli/viðbrögð við þeim. Til hvers er fólki boðið að koma með athugasemdir ef ekkert er gert við þær?

  Frestað. USK23110322

 39. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

  Eigendur nærri 3.400 íbúða vítt og breitt um landið hafa fengið leyfi til heimagistingar í allt að þrjá mánuði á ári. Það er helmingi meira en þegar mest var á árunum fyrir faraldur. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvort samræmi sé milli þeirra sem veita leyfin og stefnu borgarinnar í að draga úr heimagistingum  á meðan húsnæðisskortur er svo mikill. Eins og kemur fram hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun þá hefur þeim fjölgað um 70 prósent það sem af er ári. Leyfin voru rúmlega 1.200 í fyrra en eru orðin tæplega 2.200 í ár. Þessi mikli fjöldi leyfa hefur komið á óvart. Það er mikilvægt að öll áhersla sé á að byggja íbúðir fyrir fólk sem býr og starfar í borginni. USK23110323
   

Fundi slitið kl. 12:40

Dóra Björt Guðjónsdóttir Hjálmar Sveinsson

Kjartan Magnússon Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 29. nóvember 2023