Umhverfis- og skipulagsráð
Ár 2023, miðvikudaginn 11. október, kl. 9:11 var haldinn 284. fundur umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Dóra Björt Guðjónsdóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Hjálmar Sveinsson, Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir, Kjartan Magnússon, Líf Magneudóttir, Marta Guðjónsdóttir og áheyrnarfulltrúinn Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild: áheyrnarfulltrúinn Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Björn Axelsson, Brynjar Þór Jónasson, Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, Guðmundur Benedikt Friðriksson, Inga Rún Sigurðardóttir, Gunnar Hersveinn Sigursteinsson og Dagný Alma Jónasdóttir.
Fundarritari var Glóey Helgudóttur Finnsdóttir.
Þetta gerðist:
-
Lögð fram umsókn Klasa ehf., dags. 18. ágúst 2023, ásamt bréfi, dags. 21. ágúst 2023, um breytingu á deiliskipulagi Heilsuverndareits vegna lóðarinnar nr. 5 við Egilsgötu. Í breytingunni sem lögð er til felst að heimilt verði að reisa þriggja til fimm hæða hús, með aðgengi að dvalarsvæði frá Egilsgötu og með heimild fyrir þaksvölum og kjallara, og allt að 48 íbúða byggingu á horni Snorrabrautar og Egilsgötu, samkvæmt deiliskipulags-, skýringaruppdr. Tendru arkitektúr, dags. 19. og 20. september 2023. Einnig er lögð fram hljóðvistarskýrsla VSÓ ráðgjafar, dags. í júlí 2023, hljóðstigsuppdráttur VSÓ ráðgjafar, dags. 24. júlí 2023, samgöngumat VSÓ ráðgjafar, dags. í september 2023 og húsakönnun Borgarsögusafns Reykjavíkur, skýrsla 226. Lagt er til að tillagan verði afgreidd í auglýsingu.
Kl. 09:31 er tekið hlé á fundi
Kl. 09:44 er fundi framhaldið.Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Vísað til borgarráðs.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Sólveig Sigurðardóttir, verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23080131
Fulltrúar Samfylkingar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Við fögnum því að nú skuli uppbygging íbúðarhúsnæðis á bensínstöðvarreitum hefjast. Í Reykjavík eru mjög margar bensínstöðvar miðað við íbúafjölda. Þær eru sumar hverjar á lykilstöðum innan borgarinnar. Eðli málsins samkvæmt eru þær að verða úrelt mannvirki. Á horni Egilsgötu og Snorrabrautar er verið að heimila íbúðarhús með 48 íbúðum af ýmsum stærðum. Samkvæmt samningsskilmálum sem fulltrúar allra flokka samþykktu í borgarráði verða 20% íbúðanna leigu- eða búseturéttaríbúðir og Félagsbústaðir hafa forkaupsrétt að 5% íbúðanna. Einnig verður þarna atvinnurými sem mun nýtast undir nærþjónustu fyrir hverfið.
Fulltrúi Framsóknar leggur fram svohljóðandi bókun:
Framsókn fagnar uppbyggingu á horni Egilsgötu og Snorrabrautar. Hér er frábært dæmi um þéttingu byggðar þar sem góð blanda er af íbúðum og verslunarrýmum.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð embættisafgreiðslufundar skipulagsfulltrúa, dags. 5. október 2023 USK23010150
Fylgigögn
-
Lögð fram umsókn Sorpu bs., dags. 10. júlí 2023, um breytingu á deiliskipulagi Gufuness vegna lóðarinnar nr. 10 við Gufunesveg. Í breytingunni sem lögð er til felst að bætt er við byggingarreit suðaustan við núverandi byggingu til þess að bæta starfsmannaaðstöðu, auk þess er bætt við byggingarreit norðvestan við núverandi byggingu til þess að byggja yfir núverandi stigahús, samkvæmt uppdr. Nordic, dags. 6. júlí 2023. Lagt er til að tillagan verði samþykkt án grenndarkynningar og auglýsingar þar sem hún varðar ekki hagsmuni annarra en umsækjanda og/eða sveitarfélagsins.
Samþykkt með vísan til a. liðar 1. gr. viðauka 1.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, um fullnaðarafgreiðslur umhverfis- og skipulagsráðs án staðfestingar borgarráðs.Hrönn Valdimarsdóttir, verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23070111
Fylgigögn
-
Lögð fram umsókn VA arkitekta ehf., dags. 18. apríl 2023, um breytingu á deiliskipulagi Hólmsheiðar Landsnets vegna lóðarinnar nr. 151 við Hólmsheiðarveg. Í breytingunni sem lögð er til felst að byggingarreitur I er færður til og honum snúið ásamt því að lögun reitsins er breytt og hann minnkar. Heimilt verður að byggja á reitnum geymsluhúsnæði. Byggingarreitur II er stækkaður til norðurs og austurs, en áformað er að núverandi grófvörugeymsla sem stendur innan reitsins í dag geti stækkað til austurs ef þörf krefur. Einnig er gert ráð fyrir því að bæta við bygginguna til norðurs. Auk þess mun byggingarreitur ná yfir útigeymslusvæði og olíuskilju sem stand utan reitsins í dag. Gerður er nýr byggingarreitur, byggingarreitur V, þar sem heimilt verður að reisa þrjár byggingar yfir núverandi tengivirki. Bílastæði verða færð til og þeim komið fyrir norðar á lóðinni. Byggingarreitir III og IV verða óbreyttir, samkvæmt uppdr. VA arkitekta, dags. 18. apríl 2023, síðast breyttur 20. september 2023. Lagt er til að tillagan verði samþykkt án grenndarkynningar og auglýsingar þar sem hún varðar ekki hagsmuni annarra en umsækjanda og/eða sveitarfélagsins.
Leiðrétt bókun frá fundi umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 7. júní 2023.
Leiðrétt bókun er: Samþykkt með vísan til a liðar 1. gr. viðauka 1.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, um fullnaðarafgreiðslur umhverfis- og skipulagsráðs án staðfestingar borgarráðs.Hrönn Valdimarsdóttir, verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23040131
Fylgigögn
-
Lögð fram umsókn Sveins Ragnarssonar, dags. 24. maí 2023, um breytingu á deiliskipulagi Elliðaárdals, athafnasvæðis hestamanna, vegna lóðarinnar nr. 12 við Faxaból. Í breytingunni sem lögð er til felst að heimilt verði að gera skýli yfir hluta af gerði við hesthús, samkvæmt uppdr. Landslags dags. 23. maí 2023. Einnig er lagt fram samþykki nágranna, ódags. Lagt er til að tillögunni verði synjað.
Synjað.Hrönn Valdimarsdóttir, verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23050272
Fylgigögn
-
Lagður fram tölvupóstur skrifstofu borgarstjórnar, dags. 14. júlí 2023, þar sem óskað er eftir umsögn um frumgreiningu á mögulegri legu græna stígsins í græna trefli höfuðborgarsvæðisins, sem var sent umhverfis- og skipulagssviði til meðferðar. Einnig er lagt fram bréf Samtaka sveitarfélaga á Höfuðborgarsvæðinu, dags. 10. júní 2023 um græna stíginn og umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 5. október 2023.
Hrönn Valdimarsdóttir, verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23090070
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fram kemur í fyrirliggjandi gögnum að ekki megi malbika á vatnsverndarsvæðum en stígurinn liggur um þau meira og minna. Kannski ætti að skoða þann möguleika meira. Skiljanlega er lagningin sjálf vandamál vegna mengunar sem hún veldur en síðan ekki malbikið sjálft. Spurning er hvort ekki sé hægt að leggja malbik án leysiefna, þeim sem berast út í jarðveginn? Hjólafólki finnst örugglega erfiðara að hjóla á malarstígum en malbikuðum stígum. Það hlýtur að hafa tálmandi áhrif á framkvæmdina ef ekki má malbika stiginn á löngum köflum.
Fylgigögn
-
Lögð fram umsókn Brimgarða ehf., og Teiknistofunnar Storð ehf., dags. 7. júní 2023, ásamt skipulagslýsingu Brimgarða ehf. og Teiknistofunnar Storð ehf., dags. 7. júní 2023, um gerð nýs deiliskipulags í landi Tindstaða í Eilífsdal. Tilgangur deiliskipulagsáætlunar er að koma á formlegu deiliskipulagi fyrir nýtt hænsnabú á landspildunni milli Eyrarfallsvegar nr. 460 og Miðdalsár í Eilífsdal í landi Tindstaða. Lagt er til að lýsingin verði kynnt og leitað umsagna þeirra aðila sem taldir eru upp í henni.
Samþykkt að kynna lýsingu nýs deiliskipulags í samræmi við 1. og 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Leita skal umsagna um lýsinguna hjá Skipulagsstofnun, umsagnaraðilum, íbúaráðum ásamt því að kynna hana fyrir almenningi.Hrönn Valdimarsdóttir, verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23060091
Fylgigögn
-
Lögð fram umsókn SORPU bs., dags. 10. júlí 2023, um breytingu á deiliskipulagi Stekkjarbrekkna - Hallsvegar vegna lóðarinnar nr. 14 við Lambhagaveg vegna nýrrar endurvinnslustöðvar Sorpu á lóð. Í breytingunni sem lögð er til felst að fyrirkomulagi byggingarreits er breytt, bætt er við byggingarreit fyrir afgreiðslu auk þess sem byggingarreitur er stækkaður og byggingarmagn aukið, samkvæmt uppdr. Nordic, dags. 6. júlí 2023. Lagt er til að tillagan verði afgreidd í auglýsingu.
Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Vísað til borgarráðs.Þórður Már Sigfússon, verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23070113
Fylgigögn
-
Kynning á verkefninu Pikkolo, ferskari og umhverfisvænni leið við dreifingu á matvöru.
Ragna Guðmundsdóttir frá Pikkolo og Edda Ívarsdóttir deildarstjóri taka sæti á fundinum undir þessum lið. USK23070175
Fylgigögn
-
Lögð fram drög að tillögu að aðalskipulagsbreytingu fyrir skotæfingarsvæði Álfsnesi, sbr. 2. mgr. 30 gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Einnig er lagt fram minnisblað borgarstjóra um stöðu verkefnis, dags. 29. september 2023 og áfangaskýrsla EFLU um kostamat fyrir mögulegar staðsetningar, dags. 21. júní 2023.
Haraldur Sigurðsson og Rósa Magnúsdóttir, deildarstjórar taka sæti á fundinum undir þessum lið. USK23030130
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Hvernig sem á þetta mál er litið er ljóst að þetta svæði hentar ekki fyrir þetta sport. Finna þarf svæði þar sem hvorki er byggð né fuglar. Það er í raun skandall að blýhöglum skuli vera skotið yfir fjörusvæði. Fuglar halda að þetta sé sandur og gleypa! Í gögnum kemur fram að enn eru notuð blýhögl og hluti þeirra berst í fjörusvæðið, þar sem fuglar éta þau að einhverju marki. Reykjavík hefur kostað uppbyggingu á skotveiðisvæðinu í Álfsnesi. Í beinni tilvitnun segir að það þurfi að finna efni til að binda mengun. Er hér verið að ýja að því að Reykjavíkurborg eigi að leysa mengunarvandamál vegna blýhagla, og greiða fyrir hana? Hvað sem þessu líður er þetta mikið áfall fyrir landeigendur sem þurfa að lifa með neikvæðum umhverfisáhrifum vegna skotæfinga næstu 5 ár í það minnsta. Búið er að skoða önnur svæði sem framtíðarstaðsetningu og komu nokkur til greina. Hefði ekki mátt skoða eitthvert þeirra til skammtímanotkunar?
Fylgigögn
-
Lögð fram og kynnt greinargerð vinnuhóps um uppbyggingu hjólaleiðar milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar.
Kristinn Jón Eysteinsson, byggingartæknifræðingur tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK22020028
Fylgigögn
-
Lagðar fram fundargerðir afgreiðslufunda byggingarfulltrúa, dags. 26. september 2023 og 3. október 2023. USK22120096
Fylgigögn
-
Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. júní 2022 ásamt kæru nr. 63/2022, dags. 28. júní 2022 þar sem kærð er ákvörðun byggingarfulltrúans frá Reykjavík frá 7. júní 2022 að synja umsókn BN59441 um byggingarleyfi fyrir stækkun á stofum allra íbúða til suðurs, lengja svalir á 1. og 2. hæð að nýbyggingu, einangra að utan og klæða með bárujárni íbúðarhús nr. 15 við Hrísateig. Einnig er lögð fram greinargerð Reykjavíkurborgar dags. 23. ágúst 2022 og úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 16. desember 2022. Úrskurðarorð: Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. júní 2022 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir breytingum á fasteigninni Hrísateig 15, Reykjavík. Að auki er lögð fram endurupptökubeiðni, dags. 29. ágúst 2023, þar sem farið er fram á að fá endurupptekinn úrskurð, mál nr. 63/2022, ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. júní 2022 um að synja um byggingarleyfi fyrir breytingum á fasteigninni Hrísateigi 15. Átt er við synjun um að einangra húsið að utan og klæða það með bárujárni eða álklæðningu. Jafnframt er lagt fram svar úrskurðarnefndar umhverfis og auðlindamála við beiðni um endurupptöku, dags. 5. október 2023, þar sem ekki var fallist á að niðurstaða úrskurðarnefndarinnar í málinu hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölulið 24. gr. stjórnsýslulaga eða að atvik málsins hafi breyst verulega frá uppkvaðningu úrskurðar í málinu, sbr. 2. tölulið 1. mgr. ákvæðisins. Er því beiðni um endurupptöku úrskurðar í málin nr. 63/2022 hafnað. SN220433
Fylgigögn
-
Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 11. apríl 2023 ásamt kæru nr. 46/2023, dags. 10. apríl 2023, þar sem kærð er ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. febrúar 2023 að samþykkja leyfi til að reisa hitaveitugeymi á lóð nr. 16 við Mjódalsveg. Einnig er lögð fram greinargerð Reykjavíkurborgar dags. 18. apríl 2023 sem og úrskurður umhverfis- og auðlindamála dags. 29. júní 2023. Úrskurðarorð: Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 21. febrúar 2023 um að samþykkja leyfi til að reisa hitaveitugeymi á lóð nr. 16 við Mjódalsveg, Reykjavík. Að auki er lögð fram endurupptökubeiðni, dags. 28. september 2023, þar sem farið er fram á að fá endurupptekinn úrskurð, mál nr. 46/2023, ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 21. febrúar 2023, að samþykkja leyfi til að reisa hitaveitugeymi á lóð nr. 16 við Mjóadalsveg og að ákvörðunin verði ógild. USK23020091
Fylgigögn
-
Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 11. september 2023 ásamt kæru nr. 108/2023, dags. 11. september 2023 þar sem kærð er ákvörðun Reykjavíkurborgar 24. ágúst 2023 um að synja kæranda um að fá að nýta áfram bílastæði á lóð fasteignar hans að Njálsgötu 54. Einnig er lögð fram greinargerð Reykjavíkurborgar, dags. 25. september 2023 og úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. október 2023. Úrskurðarorð: Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. USK23070119
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um úrbætur fyrir gangandi og hjólandi við Elliðabraut, sbr. 17. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 24. maí 2023. Einnig lögð fram umsögn skrifstofu samgangna og borgarhönnunar dagsett 4. október 2023.
Vísað frá með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Fulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins. USK23050265Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Þessar úrbætur eru í skýrum farvegi og því er málinu vísað frá.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Lagt er til að ráðist verði í eftirfarandi úrbætur sem fyrst í þágu gangandi og hjólandi vegfarenda við Elliðabraut. Í svari kemur fram Norðlingaholtshverfið er eitt af þeim hverfum í Reykjavík sem er enn í uppbyggingu. Fyrirhugað er að gera steypta gangstétt meðfram Elliðabraut nr. 2 – 22. Nú hefur fulltrúi Flokks fólksins þær upplýsingar að það sé ekki skynsamlegt að steypa gangstéttar heldur ætti frekar að malbika þær. Víða eru steyptir kantar illa farnir og stórhættulegir. Viðhaldi hefur þess utan verið ábótavant. Fulltrúi Flokks fólksins hefur fengið kvartanir vegna misfellna í steyptum gangstéttum frá fötluðum einstaklingum sem nota hjólastóla eða rafknúin hjálpartæki. Bent hefur verið á sérstaklega slæmar misfellur á gangstéttum austan megin við Kringlumýrarbraut sem dæmi og fleiri dæmi mætti nefna.
Fylgigögn
-
Samþykkt að taka eftirfarandi umsögn um tillögu áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um niðurfellingu gjaldtöku í bílastæðahúsum fyrir handhafa stæðiskort hreyfihamlaða á dagskrá.
Lögð fram að nýju tillaga og greinargerð áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um niðurfellingu gjaldtöku í bílastæðahúsum fyrir handhafa stæðiskort hreyfihamlaðra, sbr. 41. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 29. júní 2022. Einnig lögð fram umsögn skrifstofu samgangna og borgarhönnunar dags. 5. október 2023.
Vísað frá. USK22090061Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Frá og með 20 mars sl. var ákveðið að falla frá gjaldtöku af handhöfum stæðiskorta í bílastæðahúsum Reykjavíkurborgar. Þannig er þetta í farvegi og er vísað frá.
Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokk Ísland leggur fram svohljóðandi bókun:
Sósíalistaflokkur Íslands vill minna á að þó að gjaldtaka fyrir bílastæði hreyfihamlaðra hafi verið felld niður þá þarf að kynna fyrirkomulagið betur. Það er ekki alltaf hagkvæmt eða auðvelt að þurfa að hringja í hvert skipti sem bíl er lagt í bílastæðahúsi, í raun eru þetta auka kvaðir á þá einstaklinga sem verið er að reyna að auðvelda tilveruna og aðgengið. Við hvetjum borgina til að gera betur.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Því ber að fagna að frá og með 20 mars sl. var ákveðið að falla frá gjaldtöku af handhöfum stæðiskorta í bílastæðahúsum Reykjavíkurborgar. Það er hins vegar ótækt að núverandi aðgangsbúnaður í bílastæðahúsum Reykjavíkurborgar býður ekki upp á að handhafar stæðiskorta geti með sjálfvirkum hætti notað bifreiðastæði húsanna án greiðslu en unnið er að útfærslu sem gerir það kleift. Enn verra er að fólk veit ekki um þetta og hefur fulltrúi Flokks fólksins nokkrum sinnum komið að bílstjórum í öngum sínum við að reyna að komast út úr bílastæðakjallara/húsi með sjálfvirkum hætti sem það telur að sé komið í virkni
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um vistlokin, sbr. 49. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 28. júní 2023. Einnig lagt fram svar skrifstofu samgangna og borgarhönnunar dags. 5. október 2023. USK23060357
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Það var því miður ljóst frá byrjun að það að teikna vistlok yfir veginn til að fegra deiliskipulagið var í raun ekkert annað en yfirvöld að slá ryki í augu íbúa. Ósannindi á ekki að líða. Þeim var ljóst frá byrjun að ekkert fjármagn var til fyrir þessi vistlok og þau því eitthvað sem verður aldrei framkvæmt. Sérstaklega í ljósi þess að kostnaðurinn við að gera þau síðar er örugglega margfalt hærri en að gera þau samhliða vegagerðinni. Ekki var tekið neitt mark á umsögnum íbúa varðandi lagningu 3. kafla Arnarnesvegar og sannar í enn eitt skiptið að samráðsferlið við íbúa er ekkert annað en sýndarlýðræði.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um lengd kaflans, 3. áfanga Arnarnesvegar, sbr. 50. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 28. júní 2023. Einnig lagt fram svar skrifstofu samgangna og borgarhönnunar dags. 5. október 2023 USK23060358
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins spurði um lengd kaflans, 3. áfanga Arnarnesvegar. Fram kemur í svari að ekki er ljóst hvaðan upplýsingar um að kaflinn sé 1,3 km langur eru upprunar en sé leitað á netinu sést að sú tala kemur fyrir á nokkrum stöðum”. Þetta er athyglisvert og veltir fulltrúi Flokks fólksins því upp hverjir hafa mögulega haft hagsmuni af því að vegurinn sé sagður 1,3 km.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að verðlaunatillögur vegna Keldnalands verði kynntar í Grafarvogi, sbr. 29. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 4. október 2023.
Samþykkt og vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs til framkvæmdar í samvinnu við Betri samgöngur. USK23100060 -
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins vegna efnishauga í Syðri-Mjódd, sbr. 31. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs dags. 4. október 2023.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu stjórnsýslu og gæða, eftirlitsdeildar. USK23100062 -
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um Langholtsveg, sbr. 30. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs dags. 4. október 2023.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds. USK23100061 -
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um bílastæðakort fyrir rekstraraðila, sbr. 28. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 4. október 2023.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgangna og borgarhönnunar. USK23100063 -
Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um kostnaðaráætlun vegna nýrrar stöðvar að Lambhagavegi, sbr. 28. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 20. september 2023.
Vísað til umsagnar SORPU bs. USK23090217 -
Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um kostnað vegna ferðar Sorpu til Svíþjóðar til að skoða endurvinnslustöð, sbr. 29. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 20. september 2023.
Vísað til umsagnar SORPU bs. USK23090219 -
Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Umhverfis- og skipulagsráð samþykkir að gerðar verði úrbætur við sinn hvorn enda göngustígs sem liggur milli Hofsvallagötu og Kaplaskjólsvegar, meðfram leikskólanum Ægisborg. Um er að ræða fjölfarinn stíg barna í Vesturbæ sem ferðast gangandi eða hjólandi til skóla, íþrótta og tómstunda. Tryggt verði að hlið við Kaplaskjólsveg hægi á vegfarendum sem leið eiga eftir göngustígnum og yfir Kaplaskjólsveginn, en jafnframt að komið verði fyrir betri varúðarmerkingum fyrir ökumenn sem aka yfir gangbrautina. Nýleg dæmi sýna töluverða slysahættu á svæðinu þar sem gangandi/hjólandi umferð mætir þeirri akandi.
Frestað. USK23100144
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Lagt er til að malarstígur, sem liggur milli milli Laufengis og Reyrengis verði lagfærður og malbikaður. Um er að ræða grófan malarstíg, sem nú er ógreiðfær barnavögnum og reiðhjólum. Stígurinn tengir syðri hluta Engjahverfis við leikskóla og grunnskóla hverfisins, þ.e. Engjaborg og Engjaskóla, Stígurinn verði jafnframt settur á snjóruðningslista borgarinnar.
Frestað. USK23100146
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Lagt er til að úrbætur verði gerðar strax á opnu niðurfalli, sem er á göngu- og hjólastíg, sunnan við göng undir Korpúlfsstaðaveg, nálægt hringtorgi við Víkurveg. Ljóst er að þetta opna ræsi skapar slysahættu enda er það í krappri beygju við illa upplýst stígamót. Slysahættan eykst eftir því sem dimmir og líkur aukast á frosti og snjókomu. Jafnframt er lagt til að gert verði við holur og ójöfnur sunnan megin við niðurfallið.
Frestað. USK23100147
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Lagt er til að ráðist verði í viðgerðir og endurbætur á steinsteyptum tröppum við norðanverðan Seljaskóla. Umræddar tröppur eru fyrir neðan Hnjúkasel og Kambasel og er hluti þeirra svo illa farinn að hættu stafar af, ekki síst þegar hálka myndast í þeim að vetrinum vegna frosts og snjóa. Jafnframt er lagt til að snjóbræðslukerfi verði sett í umræddar tröppur eða a.m.k. hluta þeirra.
Frestað. USK23100148
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Lagt er til að árið 2024 verði ráðist í átak við að setja fláa í gangstéttarbrúnir, sem víðast í Reykjavík þar sem von er á hjólum, hjólastólum og barnavögnum, í því skyni að bæta aðstæður viðkomandi vegfarenda. Margir slíkir fláar hafa verið gerðir í borginni og skilað góðum árangri en þeir mættu vera mun víðar. Leita skal eftir ábendingum frá hjólreiðafólki og öðrum hvar slíkra fláa sé þörf.
Frestað. USK23100151
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Lagt er til að úrbætur verði gerðar á gangbraut við Úlfarsbraut á móts við íþróttahús Fram. Bæta þarf lýsingu við gangbrautina og gera ráðstafanir til að draga úr hraðakstri við hana, t.d. setja hraðamælingaskilti þar upp að nýju. Jafnframt er æskilegt að setja upp grind fyrir neðan tröppur, sem liggja að umræddri gangbraut. Um er að ræða helstu aðkomuleið barna og unglinga úr hinu ört vaxandi íbúarhverfi í Úlfarsárdal niður að íþróttasvæði Fram og Dalslaug.
Frestað. USK23100150
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:
Umhverfis- og skipulagsráð samþykkir að fela umhverfis- og skipulagssviði að skoða heimildir og reglugerðir um hvernig skal staðið að bifreiðastæðum hreyfihamlaðra á einkalóðum og skoða sérstaklega hvort að borgin hefur heimild til að senda áminningar til húseigenda sem ekki fara að gildandi byggingarreglugerð nr. 112/2012 m.s.br.,5.2.4.gr.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Frestað. USK23100145Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:
Umhverfis og skipulagsráð samþykkir að koma upp skiltum við göngugötur í Reykjavík sem kveði á um að umferð handhafa stæðiskorta hreyfihamlaðra sé þar heimil.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Frestað. USK23100143Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Þakkað er fyrir umsögn samgöngustjóra vegna tillögu Sjálfstæðisflokksins um úrbætur við Elliðabraut frá 17. maí 2023. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja brýnt að steypt gangstétt verði lögð meðfram Elliðabraut nr. 2 – 22 sem fyrst og óska eftir upplýsingum um hvenær það verði gert. Jafnframt telja þeir æskilegt að hjólarein verði einnig á svæðinu. Spurt er:1. Hvenær er fyrirhugað að leggja steypta gangstétt meðfram Elliðabraut nr. 2 – 22? 2. Hvenær er fyrirhugað að gera umræddar upphækkanir með gönguþverunum, þ.e. á Elliðabraut við Þingtorg og fyrir miðju Elliðabrautar, til móts við hús nr. 12 og Sandvað. Verða umræddar gönguþveranir vel merktar og upplýstar? USK23100153
Fundi slitið kl. 12:13
Dóra Björt Guðjónsdóttir Aðalsteinn Haukur Sverrisson
Hjálmar Sveinsson Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir
Kjartan Magnússon Líf Magneudóttir
Marta Guðjónsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 11. október 2023