Umhverfis- og skipulagsráð - Fundur nr. 283

Umhverfis- og skipulagsráð

Ár 2023, miðvikudaginn 4. október, kl. 9:06 var haldinn 283. fundur umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Dóra Björt Guðjónsdóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Hjálmar Sveinsson, Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir, Kjartan Magnússon. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild: Hildur Björnsdóttir, Lif Magneudóttir og áheyrnarfulltrúinn Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Björn Axelsson, Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, Gunnar Hersveinn Sigursteinsson og Dagný Alma Jónasdóttir.
Fundarritari var Glóey Helgudóttur Finnsdóttir.
 

Þetta gerðist:

  1. Ársfundur náttúruverndarnefnda sveitarfélaga verður haldinn 12. október 2023, kl. 10:00 til 16:00, á Ísafirði. Yfirskrift fundarins er: Hver eru áhrif aukinnar umferðar skemmtiferðaskipa?

    -    Kl. 09:10 tekur áheyrnarfulltrúinn Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir sæti á fundinum með rafrænum hætti. MSS22110148

    Fylgigögn

  2. Kosning í götunafnanefnd Reykjavíkur

    Frestað. USK23090183

  3. Fram fer kynning á tillögu borgarstjóra, dags. 5. september 2023 sem samþykkt var á fundi borgarráðs 7. september s.á. um haftengda upplifun og útivist í Reykjavík - skýrsla starfshóps - næstu skref.

    Frestað. USK22090017

  4. Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar samgöngustjóra, dags. 21. september 2023, ásamt fylgigögnum. USK23040133

    Fylgigögn

  5. Fram fer kynning skrifstofu samgangna og borgarhönnunar um áætlaðar framkvæmdir við strætóstöðvar árið 2023, meðal annars vegna úrbóta á aðgengi við strætóstöðvar.

    Bjarni Rúnar Ingvarsson, deildarstjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23090237

    Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fyrir nokkru var gerð úttekt á aðgengi við biðstöðvar strætó og hefur henni verið fylgt eftir síðan með árlegum úrbótum á strætóskýlum. Að þessu sinni er verið að bæta aðgengi við 33 biðstöðvar ásamt 4 biðstöðvum sem ekki kláruðust á árinu 2022. Þetta er mikilvægt mál þegar kemur að tækifærum fleiri hópa óháð fötlun og færni til að nýta sér strætó. Ánægjulegt er að sjá innleiðingu blindraleturs við stöðvarnar. Við fögnum þessum úrbótum og eftirfylgni úttektarinnar.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:



    Fulltrúi Flokks fólksins fagnar öllum lagfæringum sem auðveldar aðgengi að strætóstöðvum en verkið gengur ansi hægt því fáar stöðvar hlutfallslega eru lagaðar í einu. Árið 2021 voru í heild 556 strætóstöðvar í Reykjavík sem þarfnast lagfæringa. Í því sem lagt er fram núna er talað um 33 aðgengisbætandi aðgerðir og 4 aðgerðir sem eftir á að klára. Það hlýtur að saxast afar hægt hægt á þessar 556 sem nefndar voru að þurfi lagfæringar 2021. Flestar aðgerðir snúa að aðgengi og segir að byggt sé á "hönnun fyrir alla". Fulltrúi Flokks fólksins telur að ef byggja á algildri hönnun hljóti framkvæmdir að vera talsvert umfangsmiklar. Skoða þarf staðsetningu staura og stampa og uppfæra skýli og endurgera yfirborð. Þetta teljast umfangsmiklar aðgerðir myndi maður halda.

    Fylgigögn

  6. Lagt er til að umhverfis- og skipulagsráð samþykki að biðstöð strætó við Hólsveg verði lögð niður.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Samþykkt með fimm atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. USK23060321

    Fylgigögn

  7. Lögð fram umsókn VSÓ ráðgjafar, dags. 4. september 2023, um breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis fyrir tímabundna skiptistöð Strætó. Í breytingunni sem lögð er til felst að byggingarreitir fyrir þjónustu eru felldir út og afmarkað er svæði fyrir skiptistöð Strætó þar sem komið verði fyrir biðstöðvum ásamt strætóskýlum. Auk þess er afmarkaður byggingareitur fyrir aðstöðuhús starfsmanna Strætó, samkvæmt uppdr. VSÓ ráðgjafar, dags. 28. september 2023. Lagt er til að tillagan verði afgreidd í auglýsingu.

    Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

    Vísað til borgarráðs.

    Hrönn Valdimarsdóttir, verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23090029

    Fylgigögn

  8. Fram fer kynning á stöðu hjólreiðaáætlunar 2021-2025.

    Kristinn Jón Eysteinsson, byggingartæknifræðingur tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23090313

    Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar, Sjálfstæðisflokks og áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Þakkað er fyrir áhugaverða kynningu á stöðu hjólreiðaáætlunar 2021-2025. Henni hefur verið dyggilega framfylgt. Síðan hjólreiðaáætlunin var samþykkt hafa um 10 kílómetrar af hjólastígum verið lagðir í borginni. 90% af skólum borgarinnar hafa náð því viðmiði að bjóða hjólastæði fyrir 20% skólabarna. Búið er að fjölga hlaupahjólastæðum við skóla og tilraunaverkefni um hjólaskápa við tvo skóla. Búið er að koma á fjallahjólabraut á Úlfarsfell og fjölga hjólatyllum í borgarlandinu. Mikilvægt er að halda áfram á þessari braut. Eitt það mikilvægasta fram undan er að huga betur að greiðum og öruggum leiðum um gatnamót í borginni.

    Fylgigögn

  9. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar um aðgerðir til að styðja við fjölgun hjólastæða og yfirbyggðra og öruggra hjólaskýla:

    Lagt er til að ráðast í vinnu við að fjölga hjólastæðum og yfirbyggðum og öruggum hjólaskýlum í borginni enn frekar, meðal annars með því að setja á fót sjóð með það markmið að beita fjárhagslegum hvata til uppbyggingar yfirbyggðra og öruggra hjólaskýla. Metið verði hvernig ramma skuli inn umgjörð og umfang sjóðsins og mótaðar um það sérstakar reglur til samþykktar í umhverfis- og skipulagsráði. Einnig verði skoðaðar aðrar leiðir sem stefni að sama marki.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagsráðs, skrifstofu samgangna og borgarhönnunar. USK23100031

    Fylgigögn

  10. Lögð fram drög að erindisbréfi, dags 29. september 2023 fyrir starfshóp til að draga úr þjófnaði á hjólum. USK22090084

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Ástæða er til að fagna því að nú hilli loks undir að starfshópur, til að stemma stigu við þjófnaði á reiðhjólum, taki til starfa. Í aðgerðakafla hjólreiðaáætlunar Reykjavíkur 2021-2025, sem samþykkt var í júní 2021, var kveðið á um að Reykjavíkurborg skyldi kanna leiðir til að draga úr þjófnaði á hjólum í samstarfi við lögreglu, tryggingafélög og grasrótarsamtök hjólreiðafólks. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs fyrir rúmu ári, 14. september 2022, lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins til að starfshópur yrði skipaður með fulltrúum áðurnefndra aðila til að koma málinu í framkvæmd. Afgreiðslu tillögunnar var frestað en fjórum mánuðum síðar, í janúar 2023, var henni vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs. Í júní sl., eftir níu mánaða frestun á afgreiðslu tillögunnar var hún lögð fram að nýju og þá loks samþykkt og vísað til meðferðar sviðsins. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins binda miklar vonir við störf starfshópsins og óska honum velfarnaðar í störfum sínum.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í aðgerðarkafla hjólreiðaáætlunar Reykjavíkur 2021-2025, sem samþykkt var í borgarstjórn 15. júní 2021 er kveðið á um að kanna skuli leiðir til að draga úr þjófnaði á hjólum í samstarfi við lögreglu, tryggingafélög og grasrótarsamtök hjólreiðafólks. Umræða um hjólaþjófnað hefur færst í aukana hér á landi. Þjófnaður á hjólum dregur úr löngun fólks að hjóla. Sá hópur sem hér er settur á laggirnar þyrfti að skoða að koma upp gagnabanka, forriti með raðnúmerum svo auðvelt sé að finna aftur eiganda hjóls.  Hvetja á þá sem eru þolendur hjólaþjófnaðar að tilkynna  hann strax til lögreglu. Um þetta hefur áður verið rætt af “hjólurum”. Sum lönd hafa einmitt hannað kerfi  þar sem að fólk getur skráð raðnúmerin niður. Það fer í einn miðlaðan gagnabanka. Fólk getur þá tilkynnt hjólin sín stolin og lögregla hefur aðgang að þessu kerfi og náð út allskonar tölfræðiupplýsingum. Tölfræði getur hjálpað mikið t.d. er vert að geta áttað sig á hvar  hjólreiðaþjófnaðurinn er. Bæta mætti við að hjólaþjófnaður er refsiverður og eitt ráð til viðbótar væri að refsing yrði hert við hjólaþjófnaði. Það er brýnt því aukning hefur orðið  á notkun rafmagnshjóla sem eru mun dýrari en venjuleg hjól. Þjófnaður á hjóli er því mikill skaði.

    Fylgigögn

  11. Lagt er til að umhverfis- og skipulagsráð samþykki að staða eftirvagna á bifreiðastæði við Kistuhyl verði óheimil.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Samþykkt. USK23060393

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Skipulagsyfirvöld vilja banna á stöðu eftirvagna við Kistuhyl. Kannski er vögnum lagt þarna af því að ekki er um aðra staði að ræða. Ef svo er þarf að skilgreina og merkja staði þar sem hægt er að leggja eftirvögnum.

    Fylgigögn

  12. Lögð fram fundargerð embættisafgreiðslufundar skipulagsfulltrúa, dags. 21. september 2023 og 28. september 2023. USK23010150

    Fylgigögn

  13. Að lokinni grenndarkynningu er lögð fram að nýju umsókn Kristjáns Ásgeirssonar, dags. 13. mars 2023, um breytingu á deiliskipulagi Njálsgötureits, reits 1.190.2, ásamt bréfi, dags. 10. mars 2023, vegna lóðarinnar nr. 38 við Njálsgötu. Í breytingunni sem lögð er til felst að rífa megi núverandi bílgeymslu á baklóð og byggja þess í stað íbúðarhús með stakri íbúð á einni og hálfri hæð með þakverönd að Öskustíg, samkvæmt uppdr. Alark, dags. 10. mars 2023, br. 28. september 2023. Einnig eru lagðar fram athugasemdir og spurningar Rannveigar Pétursdóttur, Öyvinds Glömmi, Silju Glömmi, Viðars Hákonar Sörusonar, Sigríðar Kristjánsdóttur, Margrétar Þormar og Bjarna Rúnars Bjarnasonar, dags. 12. júní 2023, ásamt ósk um framlengingu á athugasemdarfresti. Erindi var grenndarkynnt frá 16. maí 2023 til og með 28. júní 2023. Eftirtaldir sendu athugasemdir: Benedikt Traustason, dags. 19. júní 2023 og Þorgerður Rannveig Pétursdóttir, Öyvind Glömmi, Silja Glömmi, Viðar Hákon Söruson, Sigríður Kristjánsdóttir, Margrét Þormar og Bjarni Rúnar Bjarnason, dags. 27. júní 2023. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 28. september 2023. Lagt er til að tillagan verði samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa.

    Samþykkt með vísan til a. liðar 1. gr. í viðauka 1.1 um fullnaðarafgreiðslur umhverfis- og skipulagsráðs án staðfestingar borgarráðs.

    Sigríður Lára Gunnarsdóttir, verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23030166

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það eru nokkuð margar athugasemdir sem gerðar eru við Njálsgötu ma. er lagst er gegn því að auka byggingarmagn á lóðinni Njálsgötu 38, vegna þess að skv. gildandi deiliskipulagi er töluverð hækkun á framhúsi. Þetta er útskýrt í gögnum og fleiri athugasemdir eru gerðar við hús nr. 40. Sjá má að þetta mál er flókið. Ágæt rök eru nefnd frá þeim sem gera athugasemdir sem vert er að staldra við. Til að mynda er bent á að samkvæmt stefnu Reykjavíkurborgar um að minnka kolefnislosun, væri betra fyrir umhverfið /þ.e minni kolefnislosun og minna rask af því að nýta þá byggingu sem nú þegar er á lóðinni og breyta henni í íbúðarhús. Þetta er gamalt og gróið hverfi og áhyggjur eru af því að ekki takist að vernda byggðamynstur sem skilgreint er í gögnum.  Bent er á að athugasemdir snúast um hagsmuni heildarinnar. Flokkur fólksins vonar að borgin og íbúar nái að lenda þessu máli  í sátt og að það takist að varðveita þessa gömlu byggð eins og kostur er.

    Fylgigögn

  14. Að lokinni grenndarkynningu er lögð fram að nýju umsókn Flóru Vuong Nu Dong, dags. 10. mars 2023, ásamt bréfi bréf Sei, dags. 10 mars 2023, um breytingu á deiliskipulagi Urðarstígsreits vegna lóðarinnar nr. 51 við Bergstaðastræti. Í breytingunni sem lögð er til felst hækkun á rishæð hússins auk gerð nýrra kvista á sitt hvorri hliðinni, samkvæmt uppdrætti Sei, dags. 10 mars 2023. Einnig er lögð fram og umsögn Minjastofnunar Íslands, dags. 23. febrúar 2023, og skuggavarpsuppdrættir, dags. 9. september 2023. Tillagan var grenndarkynnt frá 20. júní 2023 til og með 18. júlí 2023. Eftirtaldir sendu athugasemdir: Þórir Jónsson, dags. 18. júlí 2023 og Sveinn Viðar Guðmundsson, Marie-Helene Communay-Gudmundsson og Agathe Agnes Gudmundsson-Communay, dags. 18. júlí 2023. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 28. september 2023. Lagt er til að tillagan verði samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa.

    Samþykkt með vísan til a. liðar 1. gr. í viðauka 1.1 um fullnaðarafgreiðslur umhverfis- og skipulagsráðs án staðfestingar borgarráðs.

    Sigríður Maack, verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23030161

    Fylgigögn

  15. Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju tillaga umhverfis- og skipulagssvið að nýju deiliskipulagi fyrir Fossvogsblett 2-2A. Í breytingunni sem lögð er til felst að skilgreind er ný lóð og byggingarreitur fyrir leikskóla, auk þess að skilgreindur er tímabundin byggingarreitur fyrir leikskóla, samkvæmt uppdrætti Landmótunar, dags. 21. júní 2023. Einnig er lögð fram húsakönnun Borgarsögusafns Reykjavíkur, dags. 17. janúar 2023. Tillagan var auglýst frá 26. júlí 2023 til og með 7. september 2023. Eftirtaldir sendu inn umsögn: Íbúaráð Háaleitis- og Bústaðahverfis, dags. 29. ágúst 2023. Að loknum athugasemdarfresti barst athugasemd Kristins Kristinssonar, dags. 19. september 2023. Einnig er lögð fram umsögn deildar samgangna, dags. 18. september 2023 og umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 28. september 2023. Lagt er til að tillagan verði samþykkt með þeim breytingum sem koma fram í umsögninni.

    Samþykkt með fimm atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata , Viðreisnar og Vinstri grænna, sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með þeim breytingum sem koma fram í umsögn skipulagsfulltrúa dags. 28. september 2023.

    Vísað til borgarráðs

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Sigríður Maack, verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23050069

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Æskilegt er að svo stórum leikskóla verði fundin heppilegri staðsetning en við Fossvogsblett 2 og 2a. Eins og íbúar í hverfinu benda á er Fossvogsgata þröng, með gangstétt aðeins öðrum megin og hentar því ekki hinni miklu umferð, sem mun óhjákvæmilega fylgja stórum leikskóla. Mikill gróður er á umræddum lóðum og færi betur á því að nýta þær sem útivistarsvæði en nýta aðra möguleika í því skyni að fjölga leikskólarýmum í hverfinu. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins fagnar því megininntaki deiliskipulagstillögunnar að stefnt sé að því að fjölga leikskólaplássum í hverfinu með byggingu nýs leikskólahúsnæðis. Mikill skortur er á leikskólaplássum í hverfinu. Þær athugasemdir sem hér liggja fyrir snúa að skorti á samráði s.s. hvernig var staðið að kynningu tillögu að nýju deiliskipulagi. Mikilvægt er einmitt að standa vel að kynningum svo ekki komi bakreikningar síðar. Það byggir allt á að íbúar fái góðar upplýsingar svo að hver og einn geti undirbúið sig undir breytingarnar og bent á það sem betur má fara.

    Fylgigögn

  16. Lagt fram málskot Grétars H. Hagalín og Kötlu Sifjar Friðriksdóttur, ódags., vegna neikvæðrar afgreiðslu skipulagsfulltrúa frá 20. október 2022 um stækkun lóðarinnar nr. 30 við Lofnarbrunn til vesturs ásamt því að helluleggja gangstétt norðan megin lóðar í stað þess að hún verði steypt. Einnig er lögð fram greinargerð Mansard teiknistofu ehf., dags. 28. september 2022, uppdrættir Mansard teiknistofu ehf., dags. 26. og 28. september 2022 og umsögn skipulagfulltrúa, dags. 20. október 2022.

    Umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 20. október 2022 staðfest. USK23090157

    Fylgigögn

  17. Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa, dags. 19. september 2023. USK22120096

    Fylgigögn

  18. Lögð fram fundargerð 485. fundar SORPU bs., dags. 5. september 2023, ásamt fylgiskjölum. USK23010167

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun um lið 7:

    Uppbygging brennslustöðvar virðist vera á uppnámi. Brennslustöðvar eru  sá valkostur sem nágrannaþjóðir velja til að nýta sorp sem orkugjafa og losna þannig við brennanlegt sorp. Fram kemur að stjórn  Sorpu og fleiri hafi farið til nágrannalanda og skoðað brennslustöðvar en ekki hefur það hjálpað. Samkvæmt fréttum er hætt við að reisa brennslustöð í Álfsnesi og þá ákvörðun þarf að skýra.  Ekki er góður kostur að urða eða senda brennanlegan úrgang utan þótt hann kunni að vera eftirsóknarverður þar. 

    Fylgigögn

  19. Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. júlí 2023 ásamt kæru nr. 83/2023, dags. 3. júlí 2023, þar sem kærð er ákvörðun Reykjavíkurborgar um breytingu á deiliskipulagi fyrir Kirkjusand 2. Einnig er lögð fram umsögn Reykjavíkurborgar, dags. 10. júlí 2023 og úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. september 2023. Úrskurðarorð: Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 16. febrúar 2023 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kirkjusands vegna lóðarinnar nr. 2 við Kirkjusand. USK23070034

    Fylgigögn

  20. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Vinstri grænna um frestun á ráðningu framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, sbr. 20. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 12. október 2022. Einnig er lögð fram umsögn, skrifstofu stjórnsýslu og gæða, dags. 15. ágúst 2023.

    Vísað frá með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins. USK22100051

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins finnst þetta hin fínasta tillaga þ.e. að skoðaðir verði kostir þess að sameina HER við önnur heilbrigðiseftirlit á höfuðborgarsvæðinu. Í umsögn má sjá að fleiri eru sama sinnis. Í sameiningu sem þessari má sjá hagræðingu og skilvirkni.

    Fylgigögn

  21. Lögð fram að nýju fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands vegna bílastæða hreyfihamlaðra sbr. 25. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs dags. 16. ágúst 2023. Einnig er lagt fram svar skrifstofu samgangna og borgarhönnunar dags. 23. september 2023 MSS23070048

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Hætt hefur verið gjaldtöku hjá handhöfum stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða í bílahúsum borgarinnar. Fulltrúi Flokks fólksins veit þó dæmi þess að hreyfihöluðum er gert að greiða gjald í bílastæðahúsum eftir að ákvörðun um að hætta henni hefur verið tekin. Þessi ákvörðun hefur greinilega ekki náð í gegn. Fulltrúi Flokks fólksins telur ekki annað sanngjarnt en að fólki sem gert hefur verið að greiða gjald sem búið er að fella niður eigi að fá það endurgreitt. Nýlegt dæmi um þetta var í Ráðhúsi Reykjavíkur fyrir fáum dögum en þar komst viðkomandi ekki út fyrr en hafa greitt í greiðsluvél. Um var að ræða einstakling á P merktum bíl.

    Fylgigögn

  22. Lögð fram tillaga íbúaráðs Háaleitis- og Bústaðahverfis um mótun framtíðarsýnar um þróun Háaleitisbrautar sem lögð var fram og samþykkt á fundi íbúaráðsins, dags. 26. september 2023 og vísað til afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgangna og borgarhönnunar. MSS23090114

    Fylgigögn

  23. Lögð fram tillaga íbúaráðs Háaleitis- og Bústaðahverfis um lækkun hámarkshraða á Suðurlandsbraut sem lögð var fram og samþykkt var á fundi íbúaráðsins, dags. 28. september 2023 og vísað til afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgangna og borgarhönnunar. MSS23090113

    Fylgigögn

  24. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um bættar göngu- og hjólatengingar í austanverðri Öskjuhlíð, við vestanverðan Bústaðaveg, sbr. 25. lið fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 20. september 2023.

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgangna og borgarhönnunar. USK23090222

  25. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að skíðagöngubraut verði með fram vegi en ekki við garða íbúa í efra Breiðholti, sbr. 45. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 28. júní 2023.

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgangna og borgarhönnunar. USK23060356

  26. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um viðhorfskönnun Maskínu um göngugötur 2023, sbr. 20. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 13. september 2023.

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgangna og borgarhönnunar. USK23090134

  27. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um Valcan ráðgjafafyrirtæki, sbr. 27. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs dags. 20. september 2023.

    Vísað til umsagnar SORPU bs. USK23090216

    -    Kl. 11:54 víkur Líf Magneudóttir af fundi með rafrænum hætti.

    -    Kl. 12:04 víkur Aðalsteinn Haukur Sverrisson af fundi.

  28. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Lagt er til að rekstraraðilar í íbúahverfum á gjaldsvæðum Bílastæðasjóðs, sem sinna beinni og daglegri nærþjónustu við íbúa á gjaldsvæðum Bílastæðasjóðs, t.d. rekstri hverfisverslana, verði gefinn kostur á að kaupa bílastæðakort samkvæmt gjaldskrá sjóðsins.

    Frestað. USK23100063

  29. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Lagt er til að ráðist verði í lagfæringu og/eða endurnýjun gangstétta við Langholtsveg. Víða eru gangstéttir við götuna eyddar, sprungnar og ójafnar. Á það ekki síst við um gangstéttir við biðstöðvar strætisvagna við götuna. Því til viðbótar hefur frágangur ekki farið fram á skurðum á gangstéttum, sem e.t.v. voru grafnir vegna lagningar ljósleiðara.

    Frestað. USK23100061

  30. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Lagt er til að háir haugar af möl og grjóti, sem komið hefur verið fyrir á horni Árskóga og Álfabakka í Syðri-Mjódd, verði fjarlægðir sem fyrst. Margar ábendingar hafa borist um að sandur, mold og ryk fjúki yfir nærliggjandi íbúabyggð við Árskóga og nágrenni og valdi þar óþrifnaði.

    Frestað. USK23100062

  31. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Fyrirspurn í ljósi þess að vaxandi hópur er orðin fráhverfur borgarlínu. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga hvort meirihlutinn hyggist endurskoða samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins með tilliti til niðurstaðna kannanna sem sýnir að fleiri lýsa sig nú andvígir verkefninu? Niðurstöður sýna að fólk vill nú almenningssamgöngur núna sem hægt er að treysta á. Lífið er núna. Samkvæmt könnuninni er nú rúmur þriðjungur mótfallinn framkvæmdinni en við síðustu könnun, sem var gerð í febrúar 2021, var fjórðungur andvígur henni. USK23100051

  32. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvort ekki eigi að endurgreiða þeim einstaklingum á P merktum bílum sem þurft hafa að greiða gjald í bílastæðahúsum eftir að ákveðið var að fella niður gjaldið? Af hverju eru þessi kerfi ekki rafræn og bundin við bílnúmer? Hvar eru stafrænar lausnir í þessu sambandi hjá borginni/þjónustu- og nýsköpunarsviði? Hætt hefur verið gjaldtöku hjá handhöfum stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða í bílahúsum borgarinnar. Fulltrúi Flokks fólksins veit þó dæmi þess að hreyfihömluðum hafi verið gert að greiða gjald í bílastæðahúsum eftir umrædda ákvörðun. Þessi ákvörðun hefur greinilega ekki náð í gegn. Nýlegt dæmi um þetta var í Ráðhúsi Reykjavíkur en þar komst viðkomandi ekki út fyrr en hann hafði  greitt í greiðsluvél. Um var að ræða handhafa stæðiskorts. Það er  því augljóst að það eru einhver  vandræði  með innleiðinguna og ekki hefur tekist að samþætta kerfið. Slík vandræði eiga  ekki að bitna á þjónustuþegum. USK23100054

  33. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Árið 2021 voru í heild 556 strætóstöðvar í Reykjavík sem þörfnuðust lagfæringa.  Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hver staðan er núna. Hvað margar stöðvar af þessum eru fullkláraðar, hvað margar eru í endurgerð um þessar mundir og hvað margar á alfarið eftir að laga með algilda hönnun í huga. USK23100055

  34. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvort enn sé verið að steypa gangstéttir borgarinnar og hvort verið sá að  vinna markvisst að því að lagfæra skemmda steypu á gangstéttum?  Fulltrúi Flokks fólksins hefur fengið kvartanir  vegna misfellna í steyptum gangstéttum frá fötluðum einstaklingum sem nota hjólastóla eða rafknúin hjálpartæki. Bent hefur verið á sérstaklega slæmar misfellur á  gangstéttum austan megin við Kringlumýrarbraut. USK23100052

  35. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Tvær tillögur eru lagðar fyrir fund umhverfis- og skipulagsráð og koma þær báðar frá íbúaráði Háaleitis- og Bústaðarhverfis, sú fyrri um mótun framtíðarsýnar um þróun Háaleitisbrautar og sú síðari um lækkun hámarkshraða á Suðurlandsbraut. Þetta eru tvö umfangsmikil mál, sérstaklega sú fyrri sem varðar alla í hverfinu? Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvort íbúaráðið hefur heyrt í íbúum og afstöðu þeirra? Hefur verið gerð könnun á t.d. hugmyndum íbúanna um framtíðarsýn um þróun Háaleitisbrautar? USK23100064

Fundi slitið kl. 12:16

Dóra Björt Guðjónsdóttir Hildur Björnsdóttir

Hjálmar Sveinsson Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir

Kjartan Magnússon

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 4. október 2023