Umhverfis- og skipulagsráð - Fundur nr. 281

Umhverfis- og skipulagsráð

Ár 2023, miðvikudaginn 13. september, kl. 9:44 var haldinn 281. fundur umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Dóra Björt Guðjónsdóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir, Kjartan Magnússon  og áheyrnarfulltrúarnir Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir og Trausti Breiðfjörð Magnússon. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild: Líf Magneudóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Borghildur Sölvey Sturludóttir, Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, Guðmundur Benedikt Friðriksson, Halldóra Traustadóttir, Inga Rún Sigurðardóttir og Sigurjóna Guðnadóttir.
Fundarritari var Glóey Helgudóttur Finnsdóttir.

Þetta gerðist:

 1. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 7. september 2023, þar sem tilkynnt er að á fundi borgarstjórnar þann 7. júní 2023 var samþykkt að Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir taki sæti umhverfis- og skipulagsráði í stað Pawel Bartoszek. Jafnframt var samþykkt að Pawel Bartoszek verði varamaður í ráðinu í stað Þórdísar Lóu Þórhallsdóttur. MSS22060046

  Fylgigögn

 2. Fram fer kosning varaformanns í umhverfis- og skipulagssviðs.
  Lagt er til að Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir taki við sem varaformaður í stað Pawel Bartoszek.
  Samþykkt. USK23090077

 3. Lögð fram fundargerð afgreiðslufunda skipulagsfulltrúa, dags. 7. september 2023. USK23010150

  Fylgigögn

 4. Fram fer kynning á útnefningum til fegrunarviðurkenninga fyrir árið 2023 vegna lóða fjölbýlishúsa og stofnana og vegna endurbóta á eldri húsum. Skráð í trúnaðarmálabók umhverfis- og skipulagsráðs. Lagt er til að umhverfis- og skipulagsráð staðfesti útnefningar og vísar til borgarráðs.
  Samþykkt.
  Vísað til borgarráðs.

  Sólveig Sigurðardóttir og Marta María Jónsdóttir verkefnastjórar taka sæti á fundinum undir þessum lið. USK23010196

 5. Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa, dags. 5. september 2023. USK22120096

  Fylgigögn

 6. Lögð fram og kynnt niðurstaða viðhorfskönnunar Maskínu um göngugötur 2023.

  Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

  Ýtarleg könnun Maskínu sýnir enn og aftur að mikill meirihluti borgarbúa er hlynntur göngugötum og eykst stuðningurinn verulega milli ára. Að sama skapi fækkar þeim mikið sem eru óánægð. Þau eru nú aðeins um níu prósent. Í öllum hverfum eru langtum fleiri jákvæð gagnvart göngugötum en neikvæð. Könnun sýnir einnig að þeim fjölgar sem telja að göngugötusvæðin megi vera stærri.

  Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

  Áhugavert er að sjá að muninn á viðhorfi fólks til göngugatna eftir tekjuhópum og menntunarstigi. Tekjuhæsta fólkið er jákvæðast í garð göngugatna þrátt fyrir minni aðsókn en hjá tekjulágum. Greina þarf stöðuna nánar og sjá til þess að allir tekjuhópar upplifi göngugötur á svipaðan hátt.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Þetta eru sömu niðurstöður og áður hafa komið fram. Óánægðastir eru þeir sem eiga erfitt með að komast á göngugöturnar vegna þess að þeir búa fjarri þeim t.d. í úthverfum. Þeir sem búa fjarri hafa hafa ekki aðgengi að þeim nema með einhverjum erfiðleikum. Þeir sem ekki geta notið göngugatna heldur er aldrað fólk og fólk sem ekki getur gengið í miðbæinn. Fylgni við önnur atriði sem könnuð voru eru ekki eins skýr. Til að bregðast við á því að skoða þarfir þessa fólks, sem ekki notar göngugötur. Hér koma bílastæði utan við göngugötusvæðið fyrst upp í hugann. Núverandi bílastæðahús eru illa nýtt. Þau eru ekki aðlaðandi, en öllum tillögum Flokks fólksins um að bæta þau hafa verið felldar. Það þarf að að nýta þau mun betur, annað er fásinna. Strætókerfið er ekki boðlegt, margir hafa gefist upp á því og enn öðrum dettur ekki í hug að reyna að byrja að nota það. Skoða ætti hvort ekki megi gera bílastæði utan við göngugötusvæðin og þá á svæðum sem ekki er hægt að byggja á núna svo sem vegna flugvallarins eða annarra skipulagsmála. Slík bílastæði hindra ekki uppbyggingu í framtíðinni.

  Þóra Ásgeirsdóttir frá Maskínu og Edda Ívarsdóttir deildarstjóri, taka sæti á fundinum undir þessum lið. USK23090065

  Fylgigögn

 7. Fram fer kynning á stöðu göngugatna í Reykjavík og framtíðarsýn.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Því er ekki mótmælt að mikið er af fólki í miðbænum, á göngugötum og “út um allt.“ Það er krökkt af fólki í miðbænum, stærsti hlutinn eru ferðamenn. Fulltrúa Flokks fólksins langar til að þetta svæði sé einnig fyrir Íslendinga, að landinn hafi gott aðgengi að miðbænum, fólk í efri byggðum og landsbyggðarfólk, allir aldurshópar og að aðgengi fyrir fatlaða verði ekki aðeins viðunandi heldur fullnægjandi. Því miður er það þannig að mjög margir sem ekki búa á þessu svæði finnst aðgengi að svæðinu slæmt. Það eru hópar fólks sem ekki treysta sér að nota bílastæðahúsin, finnst þau þröng, óaðlaðandi og finnst greiðslukerfið erfitt. Enga aðstoð er hægt að fá í bílastæðahúsum ef upp koma vandamál. Fulltrúi Flokks fólksins finnst það verkefni borgarmeirihlutans að gera eitthvað í þessu. Finna þarf leiðir til að laða landann að miðbænum. Miðbærinn er okkar allra en ekki aðeins fyrir ferðamenn eða þá sem þar búa. Það gæti öllum þótt gaman að komast á göngugötu, setjast niður og fá sér kaffi eða mat á góðum degi. Málið er bara að komast á staðinn þ.e. ef fólk er ekki þá þegar staðsett þar og það finnst sumum bara erfitt.

  Edda Ívarsdóttir deildarstjóri, tekur sæti á fundinum. USK23090089

 8. Fram fer kynning á stöðu stafrænnar umbreytingar á umhverfis- og skipulagssviði.

  -    Kl. 11:18 víkur Hildur Björnsdóttir af fundi og tengist með rafrænum hætti.

  Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

  Þakkað er fyrir góða kynningu sem sýnir að mikil vinna er í gangi er varðar stafræna umbreytingu umhverfis- og skipulagssviðs. Rafrænar byggingarleyfisumsóknir hafa snarfækkað komum í þjónustuver. Lögð er áhersla á mikilvægi þess og gagnsemi að innleiða rafrænar tilkynningar í auknum mæli og að til þess verði fundnar leiðir sem standast kröfur persónuverndar.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fram fer kynning á stöðu stafrænnar umbreytingar á umhverfis- og skipulagssviði. Enn eru ekki komnar rafrænar byggingarleyfisumsóknir í gang og þurfa þeir sem sækja um að gera það með “gamla hættinum”. Nú hefur komið í ljós að verkefnið  Átak í teikningaskönnun var stórlega vanáætlað og er krafist meira fjármagns í það og hótað ef það ekki fæst fari þetta mikilvæga verkefni á ís. Vel kann að vera að það sé einfaldlega ekki til fjármagn í þetta verkefni sem hefur tafist mikið. Flest sveitarfélög eru komin með sambærilega stafræna lausn. Fulltrúi Flokks fólksins finnst líka mikilvægt að sjá forgangsröðun þjónustu- og nýsköpunarsviðs á hvaða lausnir eru mikilvægasta og hverjar mega bíða betri tíma í ljósi erfiðrar fjárhagsstöðu borgarinnar. Sumar lausnir eru meira til gamans en nauðsynjar en þær kosta mikið.  Nefnd eru ýmis vandamál s.s. vandamál hjá Þjónustu- og nýsköpunarsviði t.d. með tengingu við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Verkefni HMS og borgarinnar skarast að einhverju leyti. HMS er framarlega í stafrænum lausnum og kannski er spurning að láta HMS um þessa vinnu sem snýr að yfirliti yfir íbúðir og byggingaframkvæmdir í Reykjavík.

  Velina Apostolova sérfræðingur, tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23090085

  Fylgigögn

 9. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um það hver beri ábyrgð á seinkun stafrænnar umbreytingar á umhverfis- og skipulagssviði, sbr. 27. liður fundargerðar, dags. 22. mars 2023. Einnig er lagt fram svar skrifstofu stjórnsýslu og gæða, dags. 3. júlí 2023. USK23030290

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúi Flokks fólksins hefur nú fengið svar frá skrifstofustjóra upplýsinga- og skjalastýringar við fyrirspurn Flokks fólksins um hvort rétt sé að sviðsstjóri og byggingarfulltrúi beri ábyrgð á að sviðið sé ekki komið lengra í stafrænni umbreytingu en raun ber vitni? Áður hefur komið fram í svari frá þjónustu- og nýsköpunarsviði að frumkvæði stafrænnar umbreytingar á að koma frá sviðunum sjálfum og stjórnendum þeirra svo seinagang megi rekja til sviðsins sjálfs. Þjónustu- og nýsköpunarsvið kýs að svara ekki þessum spurningum en fulltrúa Flokks fólksins finnst hvorki rétt né sanngjarnt að kenna sviðum um seinagang í stafrænum lausnum. Þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur fengið gríðarlega mikið fjármagn síðustu ár og þjónustu og nýsköpunarsviði hlýtur þess vegna að eiga frumkvæði að undirbúningi og framkvæmd stafrænnar umbreytingar annarra sviða og sjá til þess að klára innleiðingar tilbúinna lausna en að sjálfsögðu nánu samvinnu og samráði við sviðinn. Einnig ber að hafa í huga að einstök svið og skrifstofur Reykjavíkurborgar hafa ekki verið að fá sérstakar fjárveitingar vegna stafrænnar umbreytingar heldur hefur því mikla fjármagni eingöngu verið veitt til þjónustu og nýsköpunarsviðs sem hlýtur að teljast ábyrgðaraðili verkefnisins.

  Fylgigögn

 10. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um malbikun malarstígs við Strandveg og Gylfaflöt, sbr. 24. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 6. september 2023.
  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgangna og borgarhönnunar USK23090047

 11. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um  lagfæringu gangstétta við efri hluta Drápuhlíðar, sbr. 23. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 6. september 2023.
  Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds. USK23090046

 12. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um borgargarða,  sbr. 29. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 31. ágúst 2023.
  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu náttúru og garða. MSS23080127

  Fylgigögn

 13. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um tæmingu tunna, sbr. 39. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 16. ágúst 2023.
  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða. USK23080098

 14. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um þjónustu Strætó, sbr. 38. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 16. ágúst 2023.
  Vísað til umsagnar strætó. USK23080102

 15. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

  Lagt er til að gerðar verði úrbætur á stýringu umferðarljósa í Reykjavík í því skyni að auka umferðaröryggi, bæta umferðarflæði og draga úr mengun í borginni. Leitast verði við að nýta kosti tiltækrar tölvutækni betur en nú er gert til að ná þessum markmiðum. Það verði m.a. gert með aukinni notkun snjalltækni, sem stýrir viðkomandi umferðarljósum í þágu umferðaröryggis og -flæðis gangandi, hjólandi og akandi vegfarenda. Gervigreind verði notuð til að besta stýringuna út frá gögnum, sem aflað verði með skynjurum á umferðarljósum. Í þessari vinnu verði hafður til hliðsjónar árangur þeirra borga á Norðurlöndunum og fleiri nágrannaríkjum, sem hafa náð góðum árangri við að auka umferðaröryggi, bæta umferðarflæði og draga úr mengun með slíkri snjalltækni.

  Frestað USK23090130

 16. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Vinstri grænna:

  Umhverfis- og skipulagsráð samþykkir að skoða nafnabreytingu á Hátúni. Í raun eru þetta tvær götur. Önnur gatan er norður-suður og hin gatan liggur þvert á, austur-vestur. Lagt er til að sú gata sem liggur í norður-suður fái nafnið Ólafartún í höfuðið á Ólöfu Ríkharðsdóttur ein stofnenda ÖBÍ en skrifstofur ÖBÍ voru til margra ára í Hátúni 10. Ólöf Ríkharðsdóttir var ötul baráttukona og brautryðjandi fyrir réttindum fatlaðs fólks og öryrkja.  Hún lagði mikla áherslu á húsnæðismál sem fatlað fólk nýtur góðs af enn í dag. Eins lyfti hún ásamt fleirum, grettistaki í aðgengismálum fatlaðs fólks að opinberum byggingum, sérmerktum bílastæðum og ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk. Það færi vel á því að heiðra minningu hennar með götunafnagjöf og um leið fjölga götum í Reykjavík sem heita eftir konum.

  Frestað. USK23090131

 17. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

  Lagt er til að fjölmennasta skiptistöð landsins, Mjóddin, þjóni farþegum Strætó og sé opin í samræmi við tímatöflur hennar. Jafnframt verði tryggt að farþegar hafi aðgang að salernisaðstöðu sem tilheyrir húsnæðinu. Greinargerð fylgir tillögunni.

  Frestað. USK23090132

  Fylgigögn

 18. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

  Flokkur fólksins hefur áður lagt til að þessi tvö gönguljós þar sem þverað er yfir Miklabraut verði sérstaklega skoðuð með tilliti til snjallljósa því þarna myndast erfiðar umferðateppur. Gönguljósin loga ekki í neinum takt við hvort einhver er að fara yfir og loga áfram þegar vegfarandi er farinn yfir. Á meðan lengist biðröð bíla. Þarna vantar snjallljósabúnað sem gæti stytt ferðatímann um 15% og enn meira í tilfelli Strætó. Nauðsynlegt er að snjallljósavæða  borgina  og byrja ætti á stöðum þar sem miklar umferðartafir eru. Eins og staðan er núna eru engin snjallljós í Reykjavík. Vísað er hér í grein eftir Ólaf Guðmundsson sem birtist nýlega í Mbl. þar sem hann segir “að í umferðinni eru nemar sem telja umferðina, hversu margir bílar fara um en tekur ekki tillit til þess hvernig umferð er á ferðinni. Í notkun eru klukkukerfi sem ekki virka vel. Í raun þyrfti að vera  nemar með infrarauðri myndavél til að sjá í myrkri og í þeim er einnig radar og myndavél og stýrt af hugbúnaði sem keyrður er yfir netið. Búnaður sem þessi stýrir ljósum m.t.t. þess hvernig umferðin flæðir á hverjum tíma.”

  Frestað. USK23090129

 19. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn fulltrúaa Sjálfstæðisflokksins:

  Óskað er eftir upplýsingum um forgangsakreinar strætisvagna í Reykjavík. Þar komi fram sundurliðað yfirlit um staðsetningu þeirra, lengd og hvað ár þær voru lagðar. Einnig upplýsingar um kostnað við lagningu þeirra á núvirtu verðlagi. USK23090133

 20. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

  Enn á ný eru kynntar niðurstöður viðhorfskönnunar Maskínu um göngugötur 2023. Þetta er árlegt. Niðurstöður eru að mörgu leyti þær sömu í grunninn og í fyrra og í hittifyrra og árið þar áður, þ.e. þeir sem búa fjarri miðbænum og eru eldri eru neikvæðir, þeir sem búa nær og eru yngri eru jákvæðari gagnvart göngugötum. Í raun er sem sagt fátt nýtt hér undir sólinni. Reykjavíkurborg kaupir árlega könnun af þessu tagi frá Maskínu. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsingar um kostnað? Hvað kostar það borgina að láta gera svona könnun? Hvað margar viðhorfskannanir hafa verið gerðar um göngugötur s.l. 10 ára. Gott væri að fá heildarkostnaðinn. USK23090134

  -    Kl. 11:30 víkja Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Hildur Björnsdóttir og Líf Magneudóttir af fundi.

Fundi slitið kl. 11:41

Dóra Björt Guðjónsdóttir Hjálmar Sveinsson

Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir Kjartan Magnússon

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 13. september 2023