Umhverfis- og skipulagsráð - Fundur nr. 273

Umhverfis- og skipulagsráð

Ár 2023, miðvikudaginn 7. júní, kl. 9:07 var haldinn 273. fundur umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Dóra Björt Guðjónsdóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Stefán Pálsson, Pawel Bartoszek og áheyrnarfulltrúarnir Andrea Jóhanna Helgadóttir og Helga Þórðardóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild: Hildur Björnsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Björn Axelsson, Gunnar Hersveinn Sigursteinsson, Guðmundur Benedikt Friðriksson og Sigurjóna Guðnadóttir.
Fundarritari var Glóey Helgudóttur Finnsdóttir.

Þetta gerðist:

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram uppfært fundadagatal umhverfis- og skipulagsráðs fyrir 2023 þar sem tilkynnt er að fundur 9. ágúst fellur niður og að mögulegur aukafundur verði haldinn 5. júlí verði talin þörf þar á. USK23030154

    Fylgigögn

  2. Lagt fram og kynnt minnisblað starfshóps um varanlegan regnboga, dags. 1. júní 2023.
    Edda Ívarsdóttir deildarstjóri borgarhönnunar tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23050277

    Fylgigögn

  3. Lagt er til að umhverfis- og skipulagsráð samþykki eftirfarandi:
    Að varanlegur regnbogi verði áfram á Skólavörðustíg. Hann verði lagður í götuna með slitsterku efni. Það verði endurtekið ef ekki er komið að endurgerð götunnar þegar komið er að því að endurnýja regnbogann.
    Að forhönnun Skólavörðustígs verði aðlöguð að regnboganum og hann tekinn inn í verkhönnun götunnar sem varanlegur hluti götumyndarinnar.
    Að ráðgast verði við hinsegin samfélagið þegar unnið verður að verkhönnun Skólavörðustígs svo tryggt verði að táknmynd réttindabaráttu þess, regnboginn, eigi áfram veglegan sess á þessum stað. Greinargerð fylgir tillögunni. Einnig er lagt fram minnisblað dags. 31. maí 2023.
    Samþykkt.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar, Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Regnboginn á Skólavörðustíg hefur skapað sér sess sem tákn um mannréttindabaráttu hinsegin fólks í Reykjavík og stuðning Reykjavíkurborgar við þá baráttu. Regnboginn er auk þess orðið kennileiti á heimsvísu og er eitt mest myndaða götuverk borgarinnar. Það er niðurstaða starfshóps um varanlegan regnboga að hann verði á sínum stað á Skólavörðustíg til framtíðar. Þessari niðurstöðu er fagnað innilega.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Sumarið 2019 samþykkti borgarstjórn málun varanlegs regnboga við Skólavörðustíg. Málið var afgreitt í þverpólitískri sátt og þótti til marks um eindreginn stuðning borgarinnar við baráttu hinsegin fólks. Aðeins tveimur árum síðar var svo ráðist í endurhönnun götunnar, þar sem gert var ráð fyrir að regnboginn yrði fjarlægður. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks mótmæltu þessum áformum harðlega og töldu þau sannarlega ekki í takti við þann eindregna stuðning sem borgin hafði sýnt baráttu hinsegin fólks aðeins tveimur árum fyrr. Betur hefði farið á því að endurhanna göturýmið með tilliti til regnbogans - í samtali við hinsegin samfélagið – enda regnboginn við Skólavörðustíg þegar fest sig í sessi sem mikilvægt kennileiti í Reykjavík. Hann væri skýr stuðningsyfirlýsing við baráttu hinsegin fólks en jafnframt borgarprýði og vinsæll viðkomustaður ferðamanna - sterk skilaboð um að Reykjavík væri borg mannréttinda og frelsis - og um það yrðu ekki gerðar neinar málamiðlanir. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna því að þessari ákvörðun hafi verið snúið við, og að regnboginn fái að vera áfram við Skólavörðustíg. Mikilvægt er að huga vel að efnisvali svo aðgengilegt og öruggt verði fyrir reiðhjól að fara um götuna.

    Edda Ívarsdóttir deildarstjóri borgarhönnunar tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23050277
     

    Fylgigögn

  4. Kynning á göngugötum Reykjavíkur 2023.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins veltir því upp undir þessum lið hvernig samráði hafi verið háttað. Allir muna án efa hversu erfitt sambærilegt mál var mörgum t.d. fjölda hagaðila við ákvörðun um að gera göngugötur á Laugavegi og Skólavörðustíg. Einnig er nú spurning um kostnað í ljósi slæmrar fjárhagsstöðu borgarinnar. Hvað kostar svona aðgerð? Á mynd er þetta sannarlega glæsilegt en auðvitað ekki brýnt einmitt núna.

    Edda Ívarsdóttir, deildarstjóri borgarhönnunar tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23060024
     

  5. Lagt fram afgreiðslubréf, dags. 13. apríl 2023, vegna samþykktar borgarráðs s.d. á svohljóðandi tillögu borgarstjóra, dags. 11. apríl 2023: Lagt er til að borgarráð samþykki hjálögð drög að viljayfirlýsingu þar sem Reykjavíkurborg, Háskóli Íslands og Vísindagarðar Háskóla Íslands eru sammála um að greiða götu þess að nýsköpunar- og frumkvöðlasetur rísi á lóðum B og E á svæði Vísindagarða Háskóla Íslandsbyggt á fyrirmynd og hugmyndafræði Grósku hugmyndahúss. Gert er ráð fyrir að sömu aðilar, Gróska ehf., komi að uppbyggingu og rekstri hinna nýju mannvirkja. Unnin verði tillaga að breytingu á deiliskipulagi á lóðunum, þróun á forsögn og samgöngumat, ásamt því að haldin verði samkeppni um hönnun bygginga. Einnig er lagt fram minnisblað skipulagsfulltrúa, dags. 25. maí 2023.
    Vísað til meðferðar skipulagsfulltrúa. USK23050038

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins fagnar þessari viljayfirlýsingu sem er um að greiða götu fólks til að þróa hugmyndir sínar. Skoða þarf að hafa leigu þannig að þeir sem hafa minna milli handanna fái einnig tækifæri til að fá vinnuaðstöðu, hvor sem það eru einyrkjar eða hópar.
     

    Fylgigögn

  6. Lagðar fram fundargerðir embættisafgreiðslufunda skipulagsfulltrúa, dags. 25. maí 2023 og 1. júní 2023. USK23010150

    Fulltrúi Viðreisnar leggur fram svohljóðandi bókun:

    Bókun vegna 1. liðar fundargerðar afgreiðslufundar skipulagsfulltrúa frá 25. maí 2023. Í minnisblaði skipulagsfulltrúa vegna neikvæðrar afgreiðslu fyrirspurnar vegna Furugerðis 3 er vitnað til ákvæða í aðalskipulagi og auglýstu en ósamþykktu hverfisskipulagi Háaleitis og Bústaðahverfis þar sem illa er tekið í niðurrif húsa. Fulltrúi Viðreisnar tekur ekki afstöðu til þessarar afgreiðslu en telur að umrædd ákvæði um niðurrif eru ekki og eigi ekki að vera með öllu fortakslaus. Á stöku stöðum hefur verið heimilt að byggja íbúðir ofan á eldra verslunarhúsnæði t.d. í Breiðholti og Árbæ og getur reynslan af því vel verið góð. Vert er að minnast þess að fjölgun íbúða og þétting byggðar eru líka markmið aðalskipulags og auglýsts hverfisskipulags og rétt er að meta þau markmið samhliða markmiðum um endurnýtingu og varðveislu eldra húsnæðis.
     

    Fylgigögn

  7. Lögð fram umsókn VA arkitekta ehf., dags. 18. apríl 2023, um breytingu á deiliskipulagi Hólmsheiðar Landsnets vegna lóðarinnar nr. 151 við Hólmsheiðarveg. Í breytingunni sem lögð er til felst að byggingarreitur I er færður til og honum snúið ásamt því að lögun reitsins er breytt og hann minnkar. Heimilt verður að byggja á reitnum verkstæðisbyggingu. Byggingarreitur II er stækkaður til norðurs og austurs, en áformað er að núverandi grófvöruverslun sem stendur innan reitsins í dag geti stækkað til austurs ef þörf krefur. Einnig er gert ráð fyrir því að bæta við bygginguna til norðurs. Auk þess mun byggingarreitur ná yfir útigeymslusvæði og olíuskilju sem stand utan reitsins í dag. Gerður er nýr byggingarreitur, byggingarreitur V, þar sem heimilt verður að reisa þrjár byggingar yfir núverandi tengivirki. Bygginngarreitir III og IV verða óbreyttir, samkvæmt uppdr. VA arkitekta, dags. 18. apríl 2023. Lagt er til að tillagan verði afgreidd í auglýsingu.
    Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
    Vísað til borgarráðs.

    Hrönn Valdimarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23040131
     

    Fylgigögn

  8. Lögð fram umsókn DAP ehf., dags. 2. apríl 2023, um breytingu á deiliskipulagi Hálsahverfis vegna lóðarinnar nr. 8 við Grjótháls. Í breytingunni sem lögð er til felst að skilgreindur er nýr byggingarreitur á suðurmörkum lóðar, utan um geymslu, og verður heimilt að reisa reisa 15 fm spennustöð innan byggingarreitsins, auk þess er nýtingarhlutfall byggingarreits aukið úr 0,15 í 0,5 vegna mögulegrar byggingar á þvottastöð, smurstöð eða dekkjaverkstæði, samkvæmt uppdr. DAP, dags. 31. mars 2023. Lagt er til að tillagan verði afgreidd í auglýsingu.
    Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
    Vísað til borgarráðs.

    Hrönn Valdimarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23040007
     

    Fylgigögn

  9. Lögð fram umsókn Guðrúnar Rögnu Yngvadóttur, dags. 30. mars 2023, um breytingu á deiliskipulagi Hólalands á Kjalarnesi. Í breytingunni sem lögð er til felst að refahúsin á lóðinni verða rifin og gerður er nýr byggingarreitur lóð sem mun rúma þrjú færanleg hús, samkvæmt uppdr, Ask arkitekta, dags. 29. mars 2023. Lagt er til að tillagan verði afgreidd í auglýsingu.
    Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
    Vísað til borgarráðs.

    Þórður Már Sigfússon verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23030388
     

    Fylgigögn

  10. Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju tillaga Arkþing/Nordic f.h. umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 14. júní 2022, er varðar breytingu á deiliskipulagi Grundarhverfis á Kjalarnesi. Í tillögunni felst uppbygging á íbúðarhúsnæði og nýjar lóðir skilgreindar innan íbúðarsvæðis ÍB57 skv. Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040. Um er að ræða fyrsta áfanga af tveimur möguleikum með allt að 81 íbúðum. Einnig eru lagðir fram deiliskipulags- og skýringaruppdrættir, dags. 14. júní 2022, br. 16. mars 2023 og skuggavarpsuppdráttur, dags. 14. júní 2022. Tillagan var auglýst frá 12. október 2022 til og með 23. nóvember 2022. Eftirtaldir sendu athugasemdir/umsögn: Guðfinna Ármannsdóttir, dags. 14. nóvember 2022, íbúaráð Kjalarness, dags. 11. nóvember 2022, og Veitur, dags. 22. nóvember 2022. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 23. mars 2023. Lagt er til að tillagan verði samþykkt með þeim breytingum sem koma fram í umsögninni.
    Samþykkt sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með þeim breytingum sem koma fram í umsögn skipulagsfulltrúa dags. 23. mars 2023.
    Vísað til borgarráðs. SN220294

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Vinna við hverfisskipulag Kjalarness er ekki hafin sem er slæmt. Í þeim tillögum sem hér koma fram er verið að auka fjölbreytileika lóða og sagt er að verið sé að koma á auknu jafnvægi á íbúðabyggð á svæðinu. Í stað þess að á svæðinu verði í framtíðinni einsleit byggð er mikilvægt að brjóta hana upp með skipulagi heildstæðs hverfis með fjölbreyttri og blandaðri byggð. En það sem vantar hér að mati fulltrúa Flokks fólksins er að reyna að koma á jafnvægi milli íbúafjölda og atvinnutækifæra. Engin ástæða er til að gera þetta hverfi að ,,svefnbæ” með tilheyrandi akstri til borgarinnar að morgni og til Kjalarnes síðdegis. Flokkur fólksins telur að það sé mikilvægt að við uppbyggingu hverfa þá sé lögð áhersla á hverfisskipulag, þar sem allir mannlegir þættir séu teknir með.
     

    Fylgigögn

  11. Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa, dags. 30. maí 2023. USK22120096

    Fylgigögn

  12. Lagt fram afgreiðslubréf, dags. 30. maí 2023, vegna samþykktar borgarráðs þann 25. maí 2023 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Álmgerðis 1 – Grensásdeildar vegna lóðarinnar nr. 1 við Álmgerði. USK23030387

    Fylgigögn

  13. Lagt fram afgreiðslubréf, dags. 30. maí 2023, vegna samþykktar borgarráðs þann 25. maí 2023 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Hálsahverfis. USK23040111

    Fylgigögn

  14. Lagt fram afgreiðslubréf, dags. 30. maí 2023, vegna samþykktar borgarráðs þann 25. maí 2023 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis. USK23040113

    Fylgigögn

  15. Lagt fram afgreiðslubréf, dags. 31. maí 2023, vegna samþykktar borgarráðs þann 25. maí 2023 á breytingu á deiliskipulagi fyrir svæði 3 í Vogabyggð. SN220729

    Fylgigögn

  16. Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. desember 2022, ásamt kæru nr. 135/2022, dags. 2. desember 2022, þar sem kærð er ákvörðun um breytingu á deiliskipulagi fyrir Reynimel 66, sbr. auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda nr. 1218/2022, útgefin 8. nóvember 2022. Einnig er lögð fram greinargerð Reykjavíkurborgar, dags. 3. janúar 2023. Jafnframt er lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 17. mars 2023. Úrskurðarorð: Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun borgarráðs Reykjavíkurborgar frá 22. september 2022 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Mela vegna lóðarinnar nr. 66 við Reynimel. SN220800

    Fylgigögn

  17. Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. desember 2022, ásamt kæru nr. 149/2022, dags. 27. desember 2022, þar sem sem kærð er ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar um uppsetningu bifreiðastæðis fyrir hreyfihamlaða í Bryggjuhverfi. Einnig er lögð fram greinargerð Reykjavíkurborgar, dags. 8. febrúar 2023. Jafnframt er lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 13. apríl 2023. Úrskurðarorð: Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 30. nóvember 2022 um að breyta deiliskipulagi Bryggjuhverfis við Grafarvog vegna bílastæða hreyfihamlaðra. USK22123024

    Fylgigögn

  18. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um viðhald og endurnýjun gangstétta og trappa við íþróttahús Hagaskóla, sbr. 18. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 24. maí 2023.
    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds. USK23050267

  19. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um húsnæði Strætó í Mjódd, sbr. 23. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 24. maí 2023.
    Tillögunni er vísað til borgarráðs. USK23050260

  20. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um Góða hirðinn, sbr. 28. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 31. maí 2023.
    Vísað til umsagnar Sorpu bs. USK23050326

  21. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um stiga í Breiðholti, sbr. 29. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 31. maí 2023.
    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds. USK23050327

  22. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að ráðist verði í eftirfarandi framkvæmdir í því skyni að bæta aðgengi að sjúkrahúsinu Vogi: 1. Vegurinn að Vogi, þ.e. Gamli Gufunesvegurinn, verði lagaður og malbikaður á kaflanum frá Stórhöfða að sjúkrahúsinu. Umræddur vegkafli er í slæmu ásigkomulagi og hafa djúpar holur myndast í honum. 2. Umræddur vegkafli verði settur á snjóruðningslista borgarinnar í því skyni að tryggja öruggt aðgengi að sjúkrahúsinu. 3. Göngu- og hjólreiðatengsl við sjúkrahúsið Vog verði bætt með því að tengja gangstétt meðfram Stórhöfða við gönguleið á lóð sjúkrahússins.

    Frestað. USK23060075

  23. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Ábendingar hafa borist um að laun vegna yfirstandandi sumars hafi enn ekki verið ákveðin hjá Vinnuskóla Reykjavíkur. Slíkt er óheppilegt enda eru aðeins tveir dagar í að nemendur komi til starfa hjá skólanum. Margir unglingar öðlast fyrstu reynslu sína af vinnumarkaði hjá Vinnuskólanum og æskilegt er að upplýsingar um kaup og kjör liggi fyrir þegar þeir skrá sig til starfa. Spurt er: Af hverju hafa umrædd laun ekki enn verið ákveðin? Hvenær verða þau ákveðin?
     

  24. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Í ljósi umræðu um endurvinnslu mjólkurferna sem sögð er vera endurunnin sem er ekki rétt, heldur fer hún í brennslu. Í ljósi  þessara upplýsinga óskar fulltrúi Flokks fólksins eftir svörum við eftirfarandi spurningum: Hver er hlutdeild Sorpu í útflutningi á mjólkurfernum til brennslu? Fram hefur komið að ef fernur fara með pappírsbagga til endurvinnslu þá fæst mun minna verð fyrir pappírsbaggann. Hvert er áætlað tap Sorpu í þessum tilfellum? Neytendur stóðu í þeirri trú að fernur færu í endurvinnslu og hafa neytendur upp til hópa skilað þeim hreinum til Sorpu. Eftir að komið er í ljós að þær eru ekki endurunnar, spyr Flokkur fólksins hvort og þá hvernig Sorpa geti endurunnið traust almennings? USK23060072
     

  25. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsingar um kostnað við dregilinn og fleira það sem til stendur að gera til skrauts á göngötum í sumar. USK23060073
     

Fundi slitið kl. 11:04

Dóra Björt Guðjónsdóttir Aðalsteinn Haukur Sverrisson

Hjálmar Sveinsson Hildur Björnsdóttir

Kjartan Magnússon Stefán Pálsson

Pawel Bartoszek

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 7. júní 2023