Umhverfis- og skipulagsráð - Fundur nr. 268

Umhverfis- og skipulagsráð

Ár 2023, miðvikudaginn 3. maí, kl. 09:04 var haldinn 268. fundur umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Alexandra Briem, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Líf Magneudóttir, Pawel Bartoszek og áheyrnarfulltrúinn Helga Þórðardóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild: Hildur Björnsdóttir og áheyrnarfulltrúinn Trausti Breiðfjörð Magnússon. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Björn Axelsson, Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, Inga Rún Sigurðardóttir og Dagný Alma Jónasdóttir.
Fundarritari var Glóey Helgudóttur Finnsdóttir.

Þetta gerðist:

  1. Kynning á tímabundinni göngu- og hjólabrú yfir Sæbraut við Vogabyggð.

    Frestað. USK23040164

  2. Lagt fram erindi skrifstofu framkvæmda og viðhalds, dags. 21. desember 2022, um nýtt deiliskipulag fyrir Norðurströnd, strandsvæði milli Faxagötu og Laugarness. Með deiliskipulagstillögunni er verið að festa í sessi núverandi stíga, listaverk og áningarstaði við strandlengjuna, og tryggja að útsýni og sjónlínur frá svæðinu út á sundin og til fjalla, haldist óskert. Þá er gert ráð fyrir að lagfæringar fari fram á sjóvarnargarðinum, en í stað þess að garðurinn verði hækkaður, er stefnt á að hann verði breikkaður út í sjó, þar sem þess er þörf, með sambærilegum hætti er nú þegar hefur verið gert við Eiðsgranda og Ánanaust. Auk þess eru bílastæði við Sólfarið lögð niður ásamt því að staðsettur er áningarstaður til móts við Kringlumýrarbraut, og hjólastígur sveigður í kringum hann, m.a. til þess að bæta öryggi. Að öðru leyti er vísað til skilmálatexta á deiliskipulagsuppdrætti VSÓ ráðgjafar, dags. 12. desember 2022. Lagt er til að tillagan verði afgreidd í auglýsingu.

    Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

    Vísað til borgarráðs. USK22123006

    Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Þetta er spennandi tillaga sem festir í sessi og þróar áfram græna svæðið norðan Sæbrautar, milli Faxagötu og Laugarness. Þannig er verið að staðfesta núverandi stíga, listaverk og áningarstaði við strandlengjuna, og tryggja að útsýni og sjónlínur frá svæðinu út á sundin og til fjalla, haldist óskert. Þessari tillögu fylgir líka hækkun og úrbætur á sjóvarnargarðinum og gert ráð fyrir að gróður verði meira áberandi í yfirbragði svæðisins. Gróðursvæðið verði byggt upp með líffræðilega fjölbreytni að leiðarljósi og stuðlað að fjölbreyttri gróðurþekju tegunda sem þrífast við sjávarsíðuna. Svæðið verði óslegið og stuðlað að sjálfbærari gróðurframvindu.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Skipulagssvæðið er á landfyllingu sem er leitt. Flokkur fólksins hefur ítrekað bókað að það er óásættanlegt að enn sé verið að ganga á fjörur og hér að litlu tilefni sbr þetta; Þá er gert ráð fyrir að lagfæringar fari fram á sjóvarnargarðinum, en í stað þess að garðurinn verði hækkaður, er stefnt á að hann verði breikkaður út í sjó. Þetta er ekki lagfæring heldur misþyrming á strandlengju. Þarna er eins og segir útivistarsvæði og mikið og fallegt útsýni.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa, dags. 25. apríl 2023. USK22120096

    Fylgigögn

  4. Lagt fram erindi á íbúaráðs Laugardals, dags. 25. apríl 2023 um umferðaröryggi við göngustíg milli World Class í Laugum og Laugardalsvallar, dags. 25. apríl 2023, ásamt fylgiskjölum.

    Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar inn í vinnu um umferðaröryggisáætlun. MSS23030027

    Umhverfis- og skipulagsráðs leggur fram svohljóðandi bókun;

    Ráðið tekur undir áhyggjur foreldra í hverfinu. Akstur vélknúinna ökutækja er bannaður um þennan veg, annar en sorphirða, birgðaflutningar og neyðarakstur. Nauðsynlegt er að koma í veg fyrir óleyfisakstur um þennan veg.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins hvetur skipulagsyfirvöld til að taka erindi íbúaráðsins alvarlega. Íbúar óttast um öryggi barna og annarra vegna fjölmargra tilfella þar sem gestir World Class hafa ekið gáleysislega t.d. yfir göngustíginn, þrátt fyrir merkingar um að slíkt sé óheimilt. Ekki allir bílstjórar virða merkingar. Keyrt hefur verið utan í fólk og árið 2018 var keyrt á barn á þessum stíg. Fara þarf í frekari aðgerðir. Erindi íbúaráðs Laugardals er ákall um aðgerðir strax. Öryggismál eiga að hafa forgang og taka ber athugasemdir íbúa alvarlega. Að ekið sé á gangandi fólk á göngustíg er ekki boðlegt. Nú þarf að láta hendur standa fram úr ermum. Það þarf að aðgangsstýra þessari leið. Ein hugmynd að setja niðurgrafna staura sem hægt er að stýra upp/niður með fjarstýringu. Það þarf einhverja slíka lausn því að óbreyttu verður þarna alvarlegt slys.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram í trúnaðarbók umhverfis- og skipulagsráðs tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 18. apríl 2023, að úthlutun styrkja úr Húsverndarsjóði árið 2023. Trúnaði verður aflétt að úthlutun lokinni.

    Samþykkt og fært í trúnaðarbók. USK23010048

    Sólveig Sigurðardóttir, verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

  6. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um úrbætur á hjólreiðabraut við Laugaveg, sbr. 24. lið fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 24. ágúst 2022. Einnig lögð fram umsögn skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar dagsett 21. apríl 2023.

    Tillagan er felld með þremur atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar með vísan til umsagnar samgöngustjóra, dags. 21. apríl 2023 gegn þremur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna.

    Fulltrúi Framsóknar situr hjá við afgreiðslu málsins. USK22090060

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins harma að fulltrúar meirihlutans styðji ekki tillögu um að bæta aðstæður hjólandi vegfarenda við Laugaveg. Þótt umrædd hjólarein sé hin fyrsta sinnar tegundar í Reykjavík er mikilvægt að halda henni vel við, laga ójöfnur, merkja hana með fullnægjandi hætti og setja varúðarmerki þar sem við á. Gangstéttir við Laugaveg eru víða þröngar og erfitt að hjóla þar vegna mikillar gangandi umferðar. Gatan sjálf er einnig þröng en töluverð bílaumferð um hana og því æskilegt að hafa hjólarein þar sem því verður við komið. 

    Fylgigögn

  7. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um úrbætur á hjólreiðabraut á Hverfisgötu, sbr. 41. lið fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 7. september 2022. Einnig lögð fram umsögn skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar dagsett 25. apríl 2023.

    Tillagan er felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar með vísan til umsagnar samgöngustjóra, dags. 21. apríl 2023 gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins

    Fulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins. USK22090080

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Við hörmum að fulltrúar meirihlutans styðji ekki tillögu um að bæta aðstæður hjólandi vegfarenda um Hverfisgötu. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítreka mikilvægi þess að hjólareinum við Hverfisgötu verði vel við haldið og að þær séu m.a. merktar með skýrum og áberandi hætti. Slíkt er öryggisatriði en hefur sáralítinn kostnað í för með sér. Betri merkingar eru einnig nauðsynlegar þar sem töluvert er um að bifreiðum sé lagt á umræddum hjólareinum og. Óæskilegt er að umræddar hjólareinar verði lagðar niður eins og hugmyndir eru uppi um í tengslum við borgarlínu. Að lágmarki þarf að tryggja að ein hjólarein verði áfram við götuna. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fram kemur í svörum við lið 6 og 7 að hjólreiðarbrautir munu fá meira vægi í framtíðinni en nú er. Vonandi verður því framfylgt að skynsemi og með eins hagkvæmni og unnt er. En benda má á að enda þótt að hjóla megi á gangstéttum, eins og bent er á í svörum, er betra að vera með sérstakar hjólabrautir.

    Fylgigögn

  8. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um hönnun og skipulag Vogabyggðar, sbr. 22 lið fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 2. nóvember 2022. Einnig er lögð fram umsögn samgöngustjóra dagsett 21. apríl 2023

    Tillagan er felld með fjórum þremur fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar vísan til umsagnar samgöngustjóra, dags. 21. apríl 2023 gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

    Fulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins. USK22110020

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítreka þá skoðun sína að leitast verði við að leggja sérmerktar hjólareinar í Vogabyggð milli götu og gangstéttar þar sem aðstæður leyfa. Lagning slíkra hjólareina er æskileg vegna öryggissjónarmiða og væri ákjósanleg víðar í hverfinu en einungis í Dugguvogi eins og nú er gert ráð fyrir. 

    Fylgigögn

  9. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um snjallgangbrautir við grunnskóla, sbr. 12. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 9. nóvember 2022. Einnig lögð fram umsögn samgöngustjóra, dags. 21. apríl 2023.

    Tillagan er fellt með fimm atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna vísan til umsagnar samgöngustjóra, dags. 21. apríl 2023 gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. USK22110059

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokki fólksins líst vel á að farið verði í átak við að setja upp snjallgangbrautir við alla grunnskóla í borginni til að auka umferðaröryggi skólabarna. Um er að ræða nýjar tæknilausnir sem skynja þegar gangandi vegfarendur nálgast gangbraut og kveikja þá LED-götulýsingu, sem sett er upp þannig að einungis gangbrautin og sá sem fer yfir verða lýstir upp. Þá kviknar lýsing í gangbrautarmerkinu og viðvörunarljós fyrir akandi umferð. Flokkur fólksins setur ávallt öryggi borgarbúa í forgang.

    Fylgigögn

  10. Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um trjáfellingu tveggja silfurreyna við Grettisgötu, sbr. 22. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 22. mars 2023. Einnig er lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða, dags. 21. apríl 2023. USK23030293

    Fylgigögn

  11. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um álagningu og byggingarkostnað á hvern fermeter við byggingu íbúða, sbr. 31. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 19. apríl 2023. Einnig er lögð fram umsögn Félagsbústaða, dags. 27. apríl 2023. USK23040156

    Fylgigögn

  12. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um umferðaröryggi í Laugardal og Vogabyggð, sbr. 27. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 16. nóvember 2022. Einnig lagt fram svar samgöngustjóra dagsett 21. apríl 2023 USK22110105

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins finnst ekki ásættanlegt hvað svör berast seint við fyrirspurnum hjá skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, stundum svo seint að fyrirspurnin er orðin úrelt. Bæta þarf úr þessu hjá sviðunum enda ekki boðleg stjórnsýsla. Fyrirspurnin laut að umferðaröryggi í Laugardal. Í svari um Reykjaveg segir að samkvæmt leiðbeiningum í handbók um gönguþveranir sem gefin var út í desember 2014 ætti, miðað við talda umferð á Reykjavegi, að vera gangbraut á mikilvægustu gönguleiðum. Þarna er mikil umferð skólabarna á svæðinu þar sem grunnskóli er staðsettur við götuna og svo eru mörg börn á ferð í tengslum við tómstundastarf. Á meðan ástandið er svona þá verður að skoða að ráða gangbrautarvörð. Í máli eins og þessu þar sem allt íbúa- og foreldrasamfélagið hrópar á viðbrögð verða skipulagsyfirvöld að hlusta. Þetta mál þarf að vinnast með fólkinu í hverfinu. Talað er um að skrifstofa samgöngustjóra og borgarhönnunar geti ekki sagt til um hvort ráða eigi gangbrautarverði því það sé í höndum skólanna. En hvað með að skrifstofan hafi samráð og samvinnu við skóla- og foreldrasamfélagið til að finna leiðir sem tryggja öryggi meðan fundnar eru varanlegar lausnir. Íbúaráðið hefur nú þegar tjáð sig um þetta mál og komið með tillögur til lausna.

    Fylgigögn

  13. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um aðgengi að Hlemmi, sbr. 61. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 10. ágúst 2022 ásamt umsögn samgöngustjóra dagsett 21. apríl 2023. USK22090115

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Spurt var um hvort haft hafi verið samráð við íbúa áður en ákveðið var lokun Rauðarárstígs milli Laugavegar og Bríetartúns. Aðgengi verður stórlega skert. Íbúar sem búa í grennd við Hlemmtorg hafa áhyggjur af því að geta ekki lagt bíl við hús sín til að afferma. Fram kemur í svari að íbúar og eða rekstraraðilar við göngugötu og nærliggjandi götur geta fengið leyfi til tilfallandi aksturs á göngugötu utan vörulosunartíma við sérstakar aðstæður t.a.m. við flutninga eða stærri framkvæmdir. Það er því heimild fyrir íbúa á þessum svæðum að aka um og leggja bílum við sérstakar aðstæður. Þetta er gott svo langt sem það nær. En hvað með hluti eins og að bera inn vistir, fólk með börn sem dæmi, hvernig á fólk að geta gengið langar leiðir með matarpoka og börn eða fólk sem notast við hjálpartæki? Það er kannski svoleiðis hlutir, þessir almennu praktísku hlutir sem Flokki fólksins finnst skipulagsyfirvöld ekki skilja.

    Fylgigögn

  14. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hreinsun á tjörninni í Reykjavík, sbr. 26. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 22. mars 2023.

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða. USK23030291

  15. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um það hver beri ábyrgð á seinkun stafrænnar umbreytingar á umhverfis- og skipulagssviði, sbr. 27. liður fundargerðar, dags. 22. mars 2023.

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu stjórnsýslu og gæða. USK23030290

  16. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um niðurrif á Íslandsbankahúsinu, sbr. 22. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 12. apríl 2023.

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, byggingarfulltrúa. USK23040074

    -    Kl. 10:05 víkur Trausti Breiðfjörð Magnússon af fundi. 

Fundi slitið kl. 10:28

Alexandra Briem Aðalsteinn Haukur Sverrisson

Hildur Björnsdóttir Hjálmar Sveinsson

Kjartan Magnússon Líf Magneudóttir

Pawel Bartoszek

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 3. maí 2023