Umhverfis- og skipulagsráð - Fundur nr. 267

Umhverfis- og skipulagsráð

Ár 2023, miðvikudaginn 26. apríl, kl. 09:05 var haldinn 267. fundur umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Alexandra Briem, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Pawel Bartoszek og áheyrnarfulltrúarnir Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir og Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild: Hildur Björnsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, Guðmundur Benedikt Friðriksson, Gunnar Hersveinn Sigursteinsson og Sigurjóna Guðnadóttir.
Fundarritari var Harri Ormarsson.

Þetta gerðist:
 

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram að nýju erindi Félags atvinnurekanda um samstarfsverkefni um nýtingu rafbíla við vörudreifingu í miðborg Reykjavíkur sbr. 10 liður fundar umhverfis- og skipulagsráðs þann 25. janúar 2023. Einnig lögð fram umsögn skrifstofu samgöngustjóra dagsett 12. apríl 2023.

    Leiðrétt bókun frá fundi dags. 19. apríl 2023, sbr. liður 5.

    Leiðrétt bókun er:

    Samþykkt með vísan til umsagnar skrifstofu samgöngustjóra. MSS22100082

    Umhverfis- og skipulagsráð leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Umhverfis og skipulagsráð tekur undir umsögn sviðsins og vísar til frekari útfærslu. Ráðið fagnar notkun rafbíla við vörudreifingar en áréttar að vörubifreiðum verði ekki heimilt að aka eftir sérreinum sem eru ætlaðar almenningssamgöngum og neyðarakstri. Ráðið leggur enn fremur áherslu á að reglur um vörulosunartíma verði virtar. Á því hefur því miður orðið misbrestur.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Flokkur fólksins fagnar öllu samstarfi af þessu tagi. Samstarf við hagsmunafélög eru ávallt af hinu góða og leiða til betri og sanngjarnari útkomu. Fulltrúi Flokks fólksins hefði viljað sjá meirihlutann í borginni vera t.d. í meira samstarfi við Félag íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB), en þar liggur reynslan og sérþekkingin sem meirihlutinn gæti nýtt sér mun betur gert hefur hingað til.

     

  2. Samgöngustjóri leggur til að umhverfis- og skipulagsráð samþykki eftirfarandi tillögu um samþykkt á leiðbeiningum um hvílustæði dags. 19. apríl 2023: Leiðbeiningar þessar eru hugsaðar til að einfalda og skýra út ferlið við gerð og uppsetningu hvílustæða í borgarlandi sem og að samræma meðferð umsókna og tryggja að kröfum um aðgengi, öryggi og ásýnd sé mætt. Einnig eru lagðar fram leiðbeiningar um hvílustæði.

    -    Kl. 9:14 tekur Líf Magneudóttir sæti á fundinum.

    Samþykkt.

    Edda Ívarsdóttir, deildarstjóri borgarhönnunar tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23040081

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hvílustæði hafa gefist vel í miðbæ Reykjavíkur. Þau hafa verið vinsæl bæði hjá rekstraraðilum, íbúum og gestum. Hér eru formgerðar leiðbeiningar fyrir rekstraraðila sem sækja um að breyta bílastæðum fyrir framan veitingastaði og kaffihús í útisvæði. Þó skal tekið fram að slíku leyfi fylgir ekki sjálfkrafa útiveitingaleyfi. Sækja þarf um slíkt leyfi til sýslumanns. Þessi hvílustæði hafa sett svip á miðborgina og glætt hana auknu lífi, enda eru þau opin gestum og gangandi.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Gott er að hafa leiðbeiningar fyrir þá rekstraraðila sem hugsanlega vilja nýta sér þennan kost. Kostnaður borgarinnar er óverulegur. Óþarft virðist að það þurfi að vera fimm metrar frá hvílustæði  að gangbraut. Er ekki gott að tengja hvílustæði gangbrautum og tengja þau þar með gangandi umferð en síður eða ekki bílastæðum?. En svo má skoða fleiri fleti á málinu t.d. að sums staðar kann að vera að þetta passi illa í aðstæður eða hvort það sé sniðugt að taka bílastæði í hvílustæði. Það er skoðun fjölmargra að sífellt sé verið að  ganga á bílastæði í borginni. Ánægðastir með það eru kannski þeir sem búa á svæðinu og túristar.  þeir sem búa fjarri miðbænum og eru á bíl eiga sífellt erfiðara með að fá stæði í miðbænum. Hvílustæði eru sennilega vinsælust þegar sólin skín. Það er líka sjónarmið að það sé fráleitt að taka bílastæði undir hvílustæði allt árið um kring á stöðum þar sem fyrir er skortur á bílastæðum. Í mörgum tilfellum er þetta sniðugt til tímabundinnar notkunar yfir sumarmánuðina ef það skapar ekki hættu og torveldar aðgengi slökkvi og björgunarliðs eins og þetta sem búið er að gera varanlega  á Frakkastígnum. 

     

    Fylgigögn

  3. Lögð fram fundargerð embættisafgreiðslufundar skipulagsfulltrúa, dags. 18. apríl 2023. USK23010150

    Fylgigögn

  4. Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa, að breytingu á deiliskipulagi Háskóla Íslands, Vísindagarða. Í tillögunni sem lögð er til felst stækkun skipulagssvæðis utan um nýja lóð sem fær bókstafinn N, samkvæmt uppdr. ASK arkitekta ehf., dags. 28. mars 2023. Lagt er til að tillagan verði afgreidd í auglýsingu.

    Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Fulltrúi Viðreisnar situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Vísað til borgarráðs. USK23040073

    Fylgigögn

  5. Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa, dags. 18. apríl 2023. USK22120096

    Fylgigögn

  6. Lögð fram að nýju fyrirspurn Vinstri grænna um aðgerðaráætlun loftlagsmála 2021 - 2025, sbr. 20. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 8. mars 2023. Einnig er lagt fram svar frá umhverfis- og skipulagssviðs, deildarstjóra loftslagsmála, dags. 29. mars 2023. USK23030102

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Svar við fyrirspurn um aðgerðaráætlun loftlagsmála 2021. Þetta svar lýsir einna helst því að aðgerðir séu í skötulíki. Aðeins er hægt að hrósa sér af því að Gaja hafi hafið rekstur. En löngu er ljóst að Gaja var misheppnuð framkvæmd. En ef mjög miklu er kostað til kemur eflaust eitthvað á móti. En á meðan hafa margir kostir til að draga úr kolefnislosunarjöfnuði verið hunsaðir, vel að merkja sem ekki hefðu kostað mikið. Gaja var milljarða framkvæmd. Flokkur fólksins vill sjá einfaldar og ódýrar aðgerðir svo sem bindingu kolefnis í skógrækt.

     

    Fylgigögn

  7. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um tafir á nýjum tunnum, sbr. 20. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 15. febrúar 2023. Einnig er lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða, dags. 15. apríl 2023. USK23020174

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fram kemur að ekki verða tafir á nýjum tunnum og innleiðing verður lokið um miðjan sept. Allt er sem sagt á áætlun bæði hjá umhverfis- og skipulagssviði og SORPU. Fram kemur í svari að “nýjar tunnur verða teknar í gagnið um leið og þeim er dreift til íbúa” Það hlýtur að vera lógískt, varla er hægt að taka tunnur í notkun hafi þeim ekki verið dreift til íbúa. Einnig segir að ekki sé hægt að endurmerkja sorpílát og dreifa nýjum að vetri til og að beðið hafi verið eftir sumri til að ganga í það verk. Það finnst nú fulltrúa Flokks fólksins sérkennilegt. Þótt veður hafi nú oft verið válynd þá hafa verið mýmörg tækifæri til að flytja til tunnur. Fulltrúi Flokks fólksins hefur verið í sambandi við hagsmunasamtök vegna áhyggna að aðgengi þeirra, sem eru hreyfiskertir eða hamlaðir, að nýju flokkunarkerfi. Til dæmis er ekki ljóst hvernig fyrirkomulag er í sérbýlum og hvort þar sé gott aðgengi t.d. hjólastóla að tunnum. Í sumum blokkum eru e.t.v. enn sorplúgur á hæðum sem varla verða áfram í notkun þar sem um eina lúgu er að ræða og þar með ekki hægt að flokka.

     

    Fylgigögn

  8. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um kostnað vegna flokkunarstöðvarinnar í Álfsnesi, sbr. 24. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 8. mars 2023. Einnig er lagt fram svar Sorpu bs. dags. 14. apríl 2023. USK23030096

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Því miður voru þau mistök gerð í fyrirspurninni að Álfsnes kom í stað Gufuness. En það þarf ekki að leiða til útúrsnúnings í svari eins og hér er gert. Það hefur komið fram að flokkunarstöðin í Gufunesi var rangt hugsuð og rangt hönnuð í upphafi og borgarbúar súpa seyðið af því. Þessi mistök hafa verið viðurkennd og þau mistök þarf að gera upp. Hér var um milljarða að tefla. Hvar er vindvélin Kári sem átti að blása plasti úr óflokkuðu sorpinu og hvar eru seglarnir sem áttu að draga málma úr sama sorpi? Nýtist þessi búnaður kannski við að bagga frauðplast og margt, margt fleira. En líklega er töluvert til af tækjum og tólum í flokkunarstöðinni sem voru hugsuð til að flokka úr grárri tunnu og í hrein efni. Hluti af þeim tækjum munu væntanlega ekki nýtast og verða aflögð. Stöðin breytist og fer í að taka við flokkuðu efni samkvæmt nýjum reglum og til þess þarf sjálfsagt ný og endurbætt tæki. Í raun er SORPA þarna að fara loksins þá leið sem átti að fara fyrir 10 árum síðan. Vísað er í tillögu Flokks fólksins á fyrsta ári síðasta kjörtímabil um að innleiða þriggja tunnu flokkunarkerfi.

     

    Fylgigögn

  9. Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Vinstri grænna um upplýsingar og samanburð sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu við Reykjavík um tilhögun sumarstarfa ungs fólks frá aldrinum 13 ára og upp úr, sbr. 30. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 19. apríl 2023.

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða. USK23040154

  10. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um álagningu og byggingarkostnað á hvern fermeter við byggingu íbúða, sbr. 31. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 19. apríl 2023.

    Vísað til umsagnar Félagsbústaða. USK23040156

  11. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um strætókort og kostnað, sbr. 25. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 22. mars 2023.

    Vísað til umsagnar Strætó bs. USK23030287

  12. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um breytingar á gatnamótunum Kleppsmýrarvegar/Skeiðarvogs og Sæbrautar, sbr. 24. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 22. mars 2023.

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar. USK23030285

  13. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Nýtt flokkunarkerfi verður innleitt bráðlega þar sem  fjórum úrgangsflokkum verður safnað við hvert heimili. Með því að bæta við fleiri tunnum við heimili er hætta á að það torveldi enn frekar fötluðu fólki að skila  úrgangi. Óskað er upplýsinga um hvort ráðstafanir verði gerðar til að tryggja aðgengi hreyfihamlaðs fólks að tunnunum. Verður aðgengi hjólastóla að tunnunum fullnægjandi? Er umhverfis- og skipulagsráð í samvinnu við velferðarráð að leita leiða til að aðstoða þá sem þess þurfa að flokka og koma frá sér flokkuðu sorpi í viðeigandi tunnur? Hvernig er útfærsla þessara mála í fjölbýli þar sem sorplúgur hafa verið til staðar? Í tilkynningu á vef Sorpu segir að Íbúar þurfi ekki að aðhafast neitt í tengslum við þessa breytingu annað en að tileinka sér nýja flokkunarsiði. Tunnum fyrir þessa fjóra flokka verður komið fyrir við íbúðarhús eftir þörfum. Fólk með hreyfifötlun á margt hvert  erfitt með að henda sorpi. Aðstoð við það hefur ekki verið hluti af t.d. heimilishjálpinni. Nú er krafan að flokka sorp og koma því í viðeigandi tunnu. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af því að þetta mun reynast mörgum erfitt og einnig er spurt um aðgengi t.d. hjólastóla að tunnum. USK23040215

     

  14. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins telur að nauðsynlegt sé að gera úttekt á málefnum SORPU en sér ekki að það verði  gert frekar en í öðrum tilvikum þar sem gerð hafa verið stórfelld mistök í fyrirtækjum í meirihlutaeigu borgarinnar. Mörgum spurningum um flokkunarstöðina og feril hennar er ósvarað. Flokkur fólksins vill freista þess að fá einhver svör. Hvaða tæki og tól breyttrar flokkunarstöðvar mun nýtast áfram? Hvað kostaði þessi óþarfa vinnsla (niðurkeyrsla) á meðan hún á og átti sér stað og hvað kostaði rekstur GAJA sem í raun nýttist ekki til moltugerðar þótt  metan hafi verið nýtt? Hver var fjármagnskostnaður af GAJA á meðan hún var eingöngu nýtt fyrir Metan? Var fólki sagt upp, sett í önnur verk og ef svo var hvað kostaði það? Það væri frábært ef SORPA og umhverfis- og skipulagsráð eftir atvikum einbeittu sér að því að svara spurningum borgarfulltrúa og upplýsa borgarbúa um alla hluti líka þá sem fara úrskeiðis en leggja minni áherslu á að vera með útúrsnúninga í garð borgarfulltrúa sem eru að reyna að sinna sínu hlutverki sem kjörnir fulltrúar. USK23040216

     

  15. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Stjórn SORPU lét bóka eftirfarandi (minnisblaði sem fylgdi fundargerð 477. fundar stjórnar SORPU): „Í ljósi fyrirséðra breytinga á söfnun matarleifa við heimili á höfuðborgarsvæðinu og þeirra krafna sem eru gerðar til moltuvinnslu er ljóst að vinnsla á lífrænum úrgangi úr blönduðum heimilisúrgangi verður ekki hluti af starfsemi SORPU til framtíðar.” Í framhaldi óskar fulltrúi Flokks fólksins upplýsinga hvort SORPA muni slíta sig út úr þessu? Hefur verið skoðað hvað kostar að setja aðra í þetta? Ef að einhver hluti af rekstri SORPU verður boðin út í framtíðinni verður þá boðið út einnig böggun og annað eða þarf þá útboðið eingöngu að miða við að sækja sorp í heimili eða starfrækja endurvinnslustöðvar? Ætti það efni að fara til SORPU flokkunarstöðvar eða verða boðið út? Mun uppsetning þessara tækja minnka möguleika SORPU á að bjóða þetta út þar sem að tæki væri þá illa nýtt? USK23040217

     

Fundi slitið kl. 09:49

Alexandra Briem Aðalsteinn Haukur Sverrisson

Hildur Björnsdóttir Hjálmar Sveinsson

Kjartan Magnússon Líf Magneudóttir

Pawel Bartoszek

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 26. apríl 2023