Umhverfis- og skipulagsráð - Fundur nr. 263

Umhverfis- og skipulagsráð

Ár 2023, miðvikudaginn 22. mars, kl. 09:01 var haldinn 263. fundur umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Pawel Bartoszek, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Björn Gíslason, Elísabet Guðrún Jónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon og áheyrnarfulltrúarnir Andrea Jóhanna Helgadóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild: Líf Magneudóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Björn Axelsson, Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, Guðmundur Benedikt Friðriksson, Gunnar Hersveinn Sigursteinsson og Dagný Alma Jónasdóttir.
Fundarritari var Erna Hrönn Geirsdóttir.

Þetta gerðist:

 1. Lögð fram svohljóðandi tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða dags. 16. mars 2023: Lagt er til við umhverfis- og skipulagsráð eftirfarandi fyrirkomulag fyrir sérbýlishús þar sem fyrir eru ein eða tvær sorptunnur í dag:
  Séu þrír eða færri íbúar í húsi verða sett tvö tvískipt sorpílát við húsið – annað fyrir blandað sorp og lífrænan eldhúsúrgang, hitt fyrir pappír og plast.
  Séu fjórir eða fleiri íbúar í húsi verða sett eitt tvískipt sorpílát fyrir blandað sorp og lífrænan eldhúsúrgang, eitt blátt sorpílát fyrir pappír og eitt grænt sorpílát fyrir plast. Samtals þrjú sorpílát.
  Samþykkt. USK22080136

  Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

  Hér er lagt til fyrirkomulag sorphirðu við sérbýli í ljósi þess að verið er að hefja sérsöfnun lífræns úrgangs. Breytingunum er ætlað tryggja fumlausa hirðu sorps og að koma í veg fyrir að plast sem hefur verið þjappað of mikið festist í tunnum. Heimili fá þannig 2 eða 3 tunnur eftir fjölda íbúa í húsi og munu útskiptingin eiga sér stað sjálfkrafa. Við teljum að fara ætti þá leið sem nefnd er í tillögunni að íbúar geti skoðað fyrirhugaðan fjölda tunna í sínu húsi og óskað eftir lagfæringum áður en til útskiptingar kemur.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Skipulagsyfirvöld vilja hafa fyrirkomulag sorphirðu við sérbýli þannig að séu þrír eða færri íbúar í húsi verða sett tvö tvískipt sorpílát við húsið – annað fyrir blandað sorp og lífrænan eldhúsúrgang, hitt fyrir pappír og plast. Séu fjórir eða fleiri íbúar í húsi verða sett eitt tvískipt sorpílát fyrir blandað sorp og lífrænan eldhúsúrgang, eitt blátt sorpílát fyrir pappír og eitt grænt sorpílát fyrir plast. Samtals þrjú. Flokkur fólksins telur að það kunni að vera erfitt að hella plasti úr tunnu og vel kann að vera að hönnun tunnanna sé ekki sú besta í þessu sambandi, því gert er ráð fyrir að ekki verði hægt að hella plasti úr tunnunni. Ef ílát eru með þeim hætti að þau mjókki niður á við er lítil hætta á að efni sitji fast í þeim þegar þeim er hvolft.

 2. Lagt fram bréf Umhverfisstofnunar, dags. 1. nóvember 2022 um tilnefningu í vatnasvæðisnefnd í samræmi við lög nr. 36/2011 og reglugerð nr. 935/2011 um stjórn vatnamála þar sem óskað er eftir tilnefningu í nefndina, m.a. frá ráðgjafanefndum.
  Samþykkt að tilnefna Aðalstein Hauk Sverrisson í vatnasvæðisnefnd fyrir hönd umhverfis- og skipulagsráðs. USK22120084

  Fylgigögn

 3. Lögð fram fundargerð embættisafgreiðslufundar skipulagsfulltrúa, dags. 16. mars 2023. USK23010150

  Fylgigögn

 4. Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa, dags. 14. mars 2023. USK22120096

  Fylgigögn

 5. Lögð fram fundargerð Sorpu bs. nr. 478, dags. 14. mars 2023, ásamt fylgiskjölum. USK23010167

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Nú á að kanna hvort hægt væri að byggja sorpbrennslustöð. Vonandi mun það verkefni ganga upp, óæskilegum efnum eytt og að varminn verði nýttur. Fulltrúi Flokks fólksins er nú ekki rólegur og má rekja áhyggjur og kvíða til fyrri vandamála Sorpu. Sorpbrennsla er sannarlega eitthvað sem þarf að gera og gera það í sátt við náttúruna. Það vantar ekki að stjórn fái hugmyndir en því miður hafa þessar stærstu ekki orðið farsælar. Hvert klúðrið hefur rekið annað. Flokkur fólksins telur að breyta þurfi Sorpu í grunnin. Byggðarsamlagskerfið hefur reynst Reykvíkingum dýrkeypt. Eitt lítið dæmi er kaupin á Kára, vindflokkunarvélinni sem nú sé sagt að vitað var að myndi ekki virka. Það nálgast, þegar upp er staðið, að vera bara einn stór brandari. Hvað næst?

  Fylgigögn

 6. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um vetrarþjónustu og innviði í Vogabyggð og öðrum uppbyggingarreitum sem merkir eru sem vistvænir, sbr. 14. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 8. febrúar 2023 ásamt svari skrifstofu borgarlandsins, dags. 15. mars 2023. USK23020100

  Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

  Bagalegt er að sjá að ekki sé hægt að tryggja það að fólk sem flyst í vistvæn hverfi borgarinnar á byggingartíma þeirra geti ferðast um hverfin sín, inn í þau og út úr þeim, á annan máta en á einkabíl að vetri til. Að mati fulltrúa Sósíalista skyldi leggja sérstaka áherslu á að það sé tryggt, annað hvort með því að leggja sig sérstaklega fram við hreinsun gönguleiða eða með sérstöku aðhaldi við byggingaraðila. Ef hvorugu yrði komið við að brugðist yrði við með öðrum sértækum ráðum. Eins að það sé tryggt frá upphafi að almenningssamgöngur þjónusti slík hverfi á viðunandi máta. Uppbyggingartími hverfa er í flestum tilfellum meira en aðeins eitt eða tvö ár eftir að fólk hefur búsetu í þeim og ekki á íbúa leggjandi að búa við viðvarandi samgönguleysi í svo langan tíma.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Vetrarþjónustu hefur ekki verið sinnt vel í Vogabyggð og gefur skrifstofustjóri sínar skýringar á því. Líklega væri hægt að gera betur en áður var gert. Ef vetrarþjónusta og önnur þjónusta við borgarbúa ef háð því að verktakar standi sig vel þarf að skerpa á vinnulaginu. Hópur sem yfirfór þjónustuna hefur nýlega lokið störfum og gert tillögur að betrumbótum sem vonandi ganga eftir eins og smurð vél.

  Fylgigögn

 7. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um stafræna umbreytingu á umhverfis- og skipulagssviði, sbr. 30. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 24. ágúst 2022 ásamt svari skrifstofu upplýsinga- og skjalastýringar, dags. 15. mars 2023. USK22090142

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Flokkur fólksins spurði eftirfarandi: Hvernig miðar verkefninu Átak í teikniskönnun þ.e. þeim hluta sem snýr að skönnun, Fulltrúinn man ekki betur en að hafa rekist reglulega á kynningar á þessu verkefni alveg frá árinu 2021 án þess að mikið hafi gerst síðan. Samkvæmt yfirliti yfir netspjall þá snýr helmingur afgreiðslna að vandamálum með aðgengi að teikningum. Einnig var spurt hvar ábyrgðin liggur í seinagangi stafrænnar umbreytingar Reykjavíkurborgar. Fram kemur að verkefnið sé í vinnslu. Af tölum um netspjall má sjá að óþreyja og pirringur ríkir hjá borgarbúum vegna slæms aðgengis að teikningum. Í stað þess að sýna ákveðna ábyrgð í framgangi stafrænnar umbreytinga, bendir þjónustu- og nýsköpunarsvið á umhverfis- og skipulagssvið n.t.t. byggingarfulltrúa. Frumkvæði stafrænnar umbreytingar kemur frá sviðunum sjálfum, stjórnendum þeirra eins og segir í svari. Með þessu er einfaldlega verið að varpa ábyrgðinni á frumkvæði og framkvæmd stafrænna umbreytinga yfir á aðra. Það er Þjónustu og nýsköpunarsvið sem er ábyrgðaraðili á frumkvæði og framkvæmd stafrænnar umbreytingar Reykjavíkurborgar og hefur fengið til þess úthlutað milljörðum á milljarða ofan. Ábyrgðin á öllum þeim töfum og beinum vandræðagangi sem seinkað hafa innleiðingu margra lausna, hlýtur þess vegna að falla eingöngu á þjónustu og nýsköpunarsvið en ekki aðra. 

 8. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um lýsingu við battavellina við Ingunnarskóla og Sæmundarskóla í Grafarholti, sbr. 23. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 15. mars 2023.
  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds. USK23030223

 9. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um inniaðstöðu farþega og vagnstjóra í Spönginni, sbr. 18. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 8. mars 2023. Greinargerð fylgir tillögunni. 
  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar. USK23030089

  Fylgigögn

 10. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að skoða aðra möguleika en stokk, sbr. 19. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 8. mars 2023.
  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar. USK23030091

 11. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um stæði fyrir hreyfihamlaða, sbr. 19. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 1. mars 2023.
  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar. USK23030013

 12. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um byggingarkostnað vegna íbúða fyrir Félagsbústaði, sbr. 21. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 8. mars 2023.
  Vísað til umsagnar Félagsbústaða. USK23030092

 13. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um kostnað vegna flokkunarstöðvarinnar í Álfsnesi, sbr. 24. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 8. mars 2023.
  Vísað til umsagnar Sorpu bs. USK23030096

 14. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um blómaker í borginni, fjölda, kostnað og umfangi almennt í kringum þau, sbr. 24. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 22. febrúar 2023.
  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu borgarlandsins. USK23020264

 15. Lögð fram vöktunarskýrsla Jóhanns Óla Hilmarssonar og Ólafs Karls Nielsen um vöktun fuglalífs Tjarnarinnar árið 2022. USK23030224

  Þórólfur Jónsson, deildarstjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  Fulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

  Það er áhyggjuefni að fuglastofnum fækkar við Tjörnina og sér í lagi stofnum sem hafa um árabil dvalið við hana. Það er mikilvægt að halda vöktun áfram og skoða í framhaldinu bestu mótvægisaðgerðirnar til að vinda ofan af þessari dapurlegu þróun og endurheimta fjölbreytt og ríkulegt fuglalíf við Tjörnina. Það er staðreynd að loftslagsbreytingar af mannavöldum hafa áhrif á hnignun búsvæða og fæðuöryggi lífvera og ekki er nóg gert til að taka þær föstum tökum og vinda ofan af þeirri ógnvænlegu þróun sem við finnum fyrir og sjáum allt í kringum okkur. Betur má ef duga skal. 

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Umhverfi Tjarnarinnar er manngert. Hér er ekki um náttúrulegt umhverfi að ræða, en það hefur lengst af verið með þeim hætti að það má teljast vera vin í annars ónáttúrulegri borg. Halda á svæðinu þannig og gera margt til að styðja við fjölbreytt fuglalíf. Margt er sagt í skýrslunni sem tekið er undir og að lögð verði vinna í vöktun lífríkis og ,,endurbætur á vistkerfinu”. Halda þarf mjög stórum og ágengum plöntutegundum frá svæðinu, en vernda gulstararflákana. Ekki er minnst á að bæta við hólmum en fjallað um þá sem þegar eru. Hólmar veita fuglsungum vernd gegn köttum og hvatt er til þess að kannað verði hvort ekki megi gera fleiri hólma. 

  Fylgigögn

 16. Lögð fram skipulagslýsing umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa, dags. 7. mars 2023, vegna nýs deiliskipulags fyrir Veðurstofureit. Í tillögunni sem lögð er til felst að koma fyrir nýrri íbúabyggð ásamt þjónustu á Veðurstofuhæð. Að greina núverandi horf Veðurstofuhæðar og næsta nágrennis svo byggja megi undir heildstætt nýtt íbúðahverfi á miðsvæði ásamt þjónustu með sterkum vistvænum áherslum í sátt við núverandi umhverfi. Að leita uppi styrkleika rýmisins á svæðinu og flétta saman við borgarsamhengið næst reitnum í Hlíðum og Kringlu. Að koma fyrir nýrri 7m breiðri tengingu sem þjónar öllum virkum ferðamátum undir Bústaðaveg og tengja saman norður–suðurás milli Stigahlíðar og Beykihlíðar/Birkihlíðar (Suðurver og Klettaskóli). Að skoða þróunar- og uppbyggingarmöguleika lóða á reitnum, hæðir húsa, stakstæð eða í klösum ásamt samnýtingu rýma. Að finna hæfilegt nýtingarhlutfall nýbygginga á reitnum. Að skoða bílastæðakröfur og bílastæðahús ásamt fyrirkomulagi á aðgengi ökutækja inn á íbúðareitinn sem gengur í aðalatriðum út á samnýtingu með Veðurstofunni.Að deilihagkerfið eigi að geta þjónað öllum íbúum reitsins. Að staðsetja 5-7 íbúa sambýli fyrir fatlaða. Að skilgreina útivistarsvæði fyrir íbúa reitsins og núverandi nágranna. Gert er ráð fyrir að byggingarmagn á reitnum skiptist á milli Græns húsnæðis framtíðarinnar á veðurhæðinni, Variat - hagkvæms húsnæðis og Bjargs íbúðafélags.Gert er ráð fyrir að starfsemi þjónustustofnunar á Veðurstofureit (Veðurstofa Íslands) muni alfarið færast yfir á lóð nr. 7 við Bústaðaveg með nýbyggingarreit vestan við núverandi byggingu. Byggingarreitur Veitna ohf. undir framtíðarstækkun kaldavatnsgeymis verður staðsettur sunnan við hlið núverandi geymis. Einnig er lögð fram húsakönnun Borgarsögusafns Reykjavíkur frá 2021, skýrsla 208, og fornleifaskrá Borgarsögusafns Reykjavíkur frá 2022, skýrsla 209. Lagt er til að lýsingin verði kynnt og leitað umsagna þeirra aðila sem taldir eru upp í henni.
  Samþykkt er að kynna lýsingu fyrir nýtt deiliskipulags í samræmi við 1. og 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Leita skal umsagna um lýsinguna hjá Skipulagsstofnun og helstu umsagnar- og samráðsaðilum, sbr. umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 7. mars 2023, ásamt því að kynna hana fyrir almenningi.

  Ingvar Jón Bates Gíslason, verkefnastjóri og Borghildur Sölvey Sturludóttir, deildarstjóri taka sæti á fundinum undir þessum lið. USK23030053

  Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

  Með skipulagslýsingu fyrir er hafin vinna við að skipuleggja Veðurstofuhæð undir heildstætt nýtt íbúðahverfi með þjónustu og sterkum vistvænum áherslum. Mikilvægt er að þetta sé gert í sátt við nærliggjandi umhverfi og samráði við íbúa. Markmiðið er að byggja upp fjölbreyttar íbúðargerðir, sem henta námsmönnum, tekjulægra fólki og sem eignaríbúðir, í samræmi við fyrirliggjandi húsnæðisáætlanir. Reiknað er með að deiliskipulagstillaga fyrir svæðið geti legið fyrir næsta vor.

  Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

  Sósíalistum þykir gleðilegt að sjá í þeim myndum sem fylgja kynningunni, um skiptingu á veðurstofureit, að honum verði úthlutað mjög ríflega undir annars vegar hagkvæmt og hins vegar samfélagslega mikilvægt húsnæði. Verður áhugavert að fylgjast með því hvernig skipulagi reiðir af á síðari stigum málsins hvað það varðar.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Skipulagsyfirvöld óska eftir að skipulagslýsing fyrir Veðurstofureit verði send í kynningu. Fækka á bílastæðum sérstaklega mikið, meira en í öðrum þéttingar hverfum og setja bílastæðahús. Gert er ráð fyrir að þarna búi þeir sem vilja lifa bíllausum lífsstíl. Fulltrúa Flokks fólksins finnst með þessu að verið sé að útiloka mikilvæga valmöguleika. Blönduð byggð skal vera þarna t.d. stúdentaíbúðir og sambýli sem Flokki fólksins finnst jákvætt. Stefnt er að þarna rísi 250 íbúðir jafnvel meira. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af því að kvartað verði yfir því sama og heyrst hefur frá t.d. íbúum Vogabyggðar, að erfitt sé að komast í og út úr hverfinu. Athugasemdir hafa komið um mögulega of mikið skuggavarp og það eru sömu kvartanir og víða heyrist og þar sem þétt hefur verið meira en góðu hófi gegnir.

 17. Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 14. mars 2023, að umhverfis- og skipulagsráð samþykki að bifreiðastæði við Skógarveg 8 verði merkt sem stæði fyrir hreyfihamlaðan einstakling.
  Bifreiðastæðið verði merkt með viðeigandi umferðarmerki og yfirborðsmerkingu í samræmi við reglugerð nr. 289/1995, um umferðarmerki og notkun þeirra, með áorðnum breytingum. Greinargerð fylgir tillögunni.
  Samþykkt með vísan til c liðar 1. gr. í viðauka 1.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, um fullnaðarafgreiðslur umhverfis- og skipulagsráðs án staðfestingar borgarráðs í samræmi við 1. mgr. 84. gr. umferðarlaga nr. 77/2019. USK23010018

 18. Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar dags. 14. mars 2023, að umhverfis- og skipulagsráð samþykki að bifreiðastæði við Skólavörðustíg 16a verði merkt sem stæði fyrir hreyfihamlaðan einstakling. Ofangreind ráðstöfun verði merkt með viðeigandi umferðarmerkjum og yfirborðsmerkingu þar sem það á við, í samræmi við reglugerð 289/1995 um umferðarmerki og notkun þeirra ásamt áorðnum breytingum.
  Samþykkt með vísan til c liðar 1. gr. í viðauka 1.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, um fullnaðarafgreiðslur umhverfis- og skipulagsráðs án staðfestingar borgarráðs í samræmi við 1. mgr. 84. gr. umferðarlaga nr. 77/2019. USK23010018

 19. Lögð fram umsókn UNDRA ehf., dags. 2. september 2022, ásamt greinargerð, dags. 5. september 2023, um breytingu á deiliskipulagi Ártúnshöfða iðnaðarsvæðis vegna lóðarinnar nr. 29 við Vagnhöfða. Í breytingunni sem lögð er til felst að núverandi byggingar á lóðinni verði fjarlægðar og í staðinn verði heimilt að byggja 7 hæða byggingu þar sem tvær efstu hæðirnar verða inndregnar að stórum hluta. Aðkoma að byggingunni verður bæði frá göturýminu og inngarðinum. Auk þess er gerð lítils háttar breyting á lóðarmörkum ásamt því að heimilt verði að nota þak sem dvalarsvæði, samkvæmt deiliskipulags- og skýringaruppdráttum (6 stk.) UNDRA ehf., dags. 5. september 2022. Lagt er til að tillagan verði afgreidd í auglýsingu.
  Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
  Vísað til borgarráðs.

  Hrafnhildur Sverrisdóttir, verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  -    Kl. 10:30 víkur Líf Magneudóttir af fundi. SN220544

 20. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Óskað er eftir stuttri greinargerð um fyrirkomulag gangstéttarviðhalds í borginni. Þar komi m.a. fram upplýsingar hvernig sé fylgst með ástandi gangstétta og gönguleiða frá ári til árs. Hvernig er staðið að eftirliti og skráningu með hellum, kantsteinum og hleðslusteinum, sem eru laus eða þurfa viðgerð af öðrum orsökum? Er markvisst leitað að skörðum eða holum í gangstéttum og gönguleiðum, þar sem vantar hellur eða hleðslusteina? USK23030292

 21. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Óskað er upplýsinga um stöðu verkefnisins AldinBioDome í Elliðarárdalnum. Hefur rekstraraðilar hætt við þau áform? Á sínum tíma lögðust Landvernd, Hollvinasamtök Elliðaárdalsins og Stangaveiðifélag Reykjavíkur gegn skipulaginu í Elliðaárdal. Enn fremur gagnrýndu Umhverfisstofnun og Skipulagsstofnun áformin á sínum tíma, enda yrði það óafturkræft fyrir ósnortna náttúruna ef gengið yrði á dalinn með umfangsmikilli gróðurhvelfingu fyrir verslunarrekstur og atvinnustarfsemi. USK23030294

 22. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Óskað er eftir upplýsingum um trjáfellingu tveggja silfurreyni við Grettisgötu fyrir nokkrum vikum og hvort hún hafi verið óhjákvæmileg. Umrædd tré voru mjög gömul en þó ekki að falli komin. Var leyfi veitt fyrir trjáfellingunni og þá á hvaða forsendum? USK23030293

 23. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Til stóð að boðað yrði til formlegs kynningarfundar á forhönnun rammaskipulagsins á Gufunesi fyrir uppbygginguna á síðari áföngum, miðvikudaginn 22. mars, kl. 17, en fundinum var síðar frestað. Óskað er eftir skýringum af hverju fundinum var frestað. USK23030295

 24. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Fyrirspurnir vegna breytinga á gatnamótunum Kleppsmýrarvegar/Skeiðarvogs og Sæbrautar. Meðal annars á að fella niður aðra af af tveimur vinstri beygjuakreinum frá Kleppsmýrarvegi til suðurs inn á Sæbraut. Þar fara vöruflutningar um frá ýmsum stórfyrirtækjum og myndast gjarnan teppur á álagstímum. Flokkur fólksins óskar upplýsinga um hvort þessi áform sem eiga að stuðla að bættu umferðaröryggi geti í raun ekki aukið slysahættu en hitt? Áhyggjur eru af því að þetta muni hreinlega auka áhættuna á því að bílstjórar fari yfir á rauðu ljósi þegar færri bílar komast yfir gatnamótin hverju sinni en er í dag. Vogabyggð hefur byggst hratt upp og er stórt íbúðahverfi og eiga íbúar þar í erfiðleikum með að komast út úr hverfinu á álagstímum. Sama má segja um viðskiptavini fyrirtækja sem þarna eru. Það eru umferðarteppur niður í Kjalarvog og Skútuvog á álagstímum og beygjuljósin anna vart umferð. Um þessi gatnamót er keyrt stórum hluta af byggingarefni inn á höfuðborgarsvæðið. Þeir sem þekkja best til þarna furða sig á þessum vinnubrögðum og telja að ef þessi breyting verði mun meiri umferð beinast í gegnum Vogabyggðina með tilheyrandi aukningu á mengun og slysahættu. USK23030285

 25. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Flokkur fólksins óskar upplýsinga um af hverju ekki er gefinn afsláttur á fargjaldi nema að skilja eftir persónulegar upplýsingar sem ættu ekkert að koma því við að fara frá A til B með strætisvagni. Bent er á að 30 daga kort er ekki hægt að kaupa nema skilja eftir persónulegar upplýsingar hjá stjórnendum strætó og undirmönnum þeirra. Af hverju er talið nauðsynlegt að safna auk nafns, kennitölu, símanúmeri, heimilisfangi og tölvupósti notenda Strætó. Hægt er að fá kort sem gildir í 30 daga og kostar það 9000. Hvort er meira keypt af 30 daga korti eða 10 miða korti? Einnig er spurt af hverju 10 daga fargjaldakort gefur engan afslátt? Tíu daga fargjaldakort kostar 5.500 kr. en stök ferð kostar, þ.e. 550 kr. Til hvers að kasta pening í að prenta kort ef það skilar farþegum engum hagnaði? Til hvers er farið í þennan leiðangur? USK23030287

 26. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Fulltrúi Flokks fólksins er oft spurður um hvort hann telji að meirihlutinn taki ákvörðun um að láta hreinsa tjörnina, t.d. fjarlægja rusl, hreinsa rusl úr tjörninni sjálfri, klippa runna og fjarlægja illgresi í kringum tjörnina. Mörgum finnst tjörnin hreinlega sóðaleg oft á tíðum. Til að hlúa að lífríki hennar þarf tjörnin að vera hrein og laus við mengun. Hættuleg efni geta auðveldlega ratað í tjörnina. Spurt er hvað er langt síðan tjörnin var hreinsuð rækilega? Einnig hversu reglulega er tjörnin hreinsuð? Óskað er eftir lýsingu á hreinsun og hvað er það helst sem hreinsað er úr og í kringum tjörnina. Vitað er að vöktun er á þessum málum að einhverju leyti en fróðlegt væri að fá skriflegt svar um t.d. hvaða efni hafa fundist í tjörninni og hvaðan er talið að þau haf komið? USK23030291

 27. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Fram hefur komið í svari frá þjónustu- og nýsköpunarsviði við fyrirspurn Flokks fólksins um hvernig verkefninu Átak í teikniskönnun miðar á umhverfis og skipulagssviði, þeim hluta sem snýr að skönnun. Einnig var spurt hvar ábyrgðin liggur í seinagangi stafrænnar umbreytingar á sviðinu. Fram kemur hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði að verkefnið sé í vinnslu og við svari um hvar ábyrgðin liggur í seinagangi stafrænna umbreytingar á umhverfis- og skipulagssviði kemur fram að ábyrgðin sé hjá umhverfis- og skipulagssviðinu sjálfu n.t.t. byggingarfulltrúa. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort það sé rétt að sviðsstjóri og byggingarfulltrúi beri ábyrgð á að sviðið sé ekki komið lengra í stafrænni umbreytingu en raun ber vitni? Að um hafi verið að ræða seinagang í undirbúningi fyrir að meðtaka stafrænar lausnir sem ÞON bauð upp á? Frumkvæði stafrænnar umbreytingar á að koma frá sviðunum sjálfum, stjórnendum þeirra eins og segir í svari frá þjónustu- og nýsköpunarsviði. USK23030290

 28. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Nú stendur til að byggja upp Gufunesið með glæsibrag. Fulltrúi Flokks fólksins hefur í því sambandi áhyggjur af mengun á svæðinu. Óskað er upplýsinga um hvort til standi að hreinsa svæðið áður en lengra er haldið? Sorpa er þarna með móttökustöð og því fylgir mikið drasl. Eins og stendur er erfitt að sjá að þarna í grennd verði einhver sælureitur. Hluti nessins er manngert með urðuðu sorpi til áratuga. Almennt er svæðið sóðalegt og hefur lengi verið. Síðan er asbest í sumum gömlum byggingum þarna frá tímum Áburðarverksmiðjunnar sem gæti valdið miklum skaða ef hreyft er við. Spurt er hver mun bera ábyrgð ef það veldur heilsutjóni? USK23030284

Fundi slitið kl. 10:50

Pawel Bartoszek Aðalsteinn Haukur Sverrisson

Björn Gíslason Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir

Hjálmar Sveinsson Kjartan Magnússon

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 22.03.2023