Umhverfis- og skipulagsráð - Fundur nr. 261

Umhverfis- og skipulagsráð

Ár 2023, miðvikudaginn 8. mars, kl. 09:05 var haldinn 261. fundur umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Alexandra Briem, Ásta Björg Björgvinsdóttir, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Líf Magneudóttir, Pawel Bartoszek og áheyrnarfulltrúarnir Kolbrún Baldursdóttir og Trausti Breiðfjörð Magnússon. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Björn Axelsson, Bjarni Rúnar Ingvarsson, Gunnar Hersveinn Sigursteinsson, Inga Rún Sigurðardóttir og Dagný Alma Jónasdóttir.
Fundarritari var Glóey Helgudóttur Finnsdóttir.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram fundargerð embættisafgreiðslufundar skipulagsfulltrúa, dags. 2. mars 2023. USK23010150

    Fylgigögn

  2. Kynning á byggingaráformum og framkvæmdum á Heklureitnum.

    Freyr Frostason og Jóhann Einar Jónsson frá THG Arkitektum og Örn V. Kjartansson frá M3 Fasteignaþróun taka sæti á fundinum undir þessum lið sem og Borgildu Sölvey Sturludóttir, deildarstjóri sem tekur sæti með rafrænum hætti. USK23030057

    Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Við þökkum áhugaverða kynningu á fyrirhugaðri uppbyggingu á Heklureit. Mikilvægt er að vel til takist og að vandað verði til verka hvað varðar áferð og fyrirkomulag húsa, almenningsrými, gegnumganga, inngarða, félagslega blöndun og birtu íbúðanna.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægt er að íbúðaverði sé stillt í hóf þegar íbúðir verða klárar á þessum reit. Þá er átt við að ekki sé lagt óhóflegt álag ofan á byggingarkostnað íbúða. Við höfum dæmi um það að íbúðir séu seldar með 100-200% hagnaði ofan á byggingarkostnað í Reykjavík og við eigum ekki að leyfa því að halda áfram. Slíkt er ósiðlegt og Sósíalistar hvetja borgaryfirvöld til að hafa eftirlit með okri á fasteignamarkaði.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Hér er um milljarðafjárfestingu að ræða, allt á fleygiferð þrátt fyrir blússandi verðbólgu. Talað er um að bjóða húsnæðið fjölbreyttum hópum. Flokkur fólksins óttast að þessar íbúðir verði rándýrar og aðeins fyrir efnameira fólk. Um er að ræða 180 íbúðir í tveimur fyrstu áföngunum á reitnum en þar verði alls um 440 íbúðir. Fyrstu húsin verða um átta hæðir Laugavegsmegin. Íbúðastærð er frá 47 fm í 150 fm. Hér er þétting í algleymingi. Flokkur fólksins sér fyrir sér þrengsli og erfiða aðkomu til og frá svæðinu svo ekki sé minnst á erfiðleika fyrir bíleigendur. Öll vitum við að það sárvantar húsnæði en gæta þarf að því að þrengja ekki svo að fólki að það hafi áhrifa á heilsu þess. Það hafa heyrst gagnrýnisraddir frá arkitektum um að þéttleiki þarna verði of mikill og að þéttleikinn komi niður á gæðum íbúða og göturýmið mun líða. Verður þessi kjarni þannig að stór hluti gólfflatar mun ekki njóta sólarljóss? Eða að skuggar frá aðliggjandi húsum eða húshlutum móti dimm innirými sem geta ekki talist viðunandi? Þessu er bara velt hér upp af Flokki fólksins

  3. Lögð fram tillaga Plúsarkitekta, dags. 6. mars 2023, að breytingu á hverfisskipulagi í Árbæ, hverfi 7.3. Selás, vegna lóðarinnar nr. 98 við Selásbraut. Í breytingunni sem lögð er til felst að lóð er stækkuð til norðurs, á lóðarstækkun er komið fyrir 28 bílastæðum, þar af 3 fyrir hreyfihamlaða og aðstöðu fyrir djúpgáma og á afstöðumynd eru nýbyggingar sýndar ásamt bílastæðum, uppfærðum byggingarreitum og gönguleiðum, auk þess verður heimilt að setja svalir sem snúa í norðaustur og eru á 2. hæð og ofar 160 cm út fyrir byggingarreit, samkvæmt uppdr. Plúsarkitekta, dags. 6. mars 2023. Lagt er til að tillagan verði afgreidd í auglýsingu.
    Samþykkt að auglýsa breytingar á hverfisskipulagi í Árbæ, hverfi 7.3. Selás, skv. 1. mgr. 41. gr., sbr. 5. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
    Vísað til borgarráðs. USK23020273

    Fylgigögn

  4. Samgöngustjóri leggur til að umhverfis- og skipulagsráð samþykki eftirfarandi sérákvæði fyrir umferð:
    Að óheimilt verði að leggja ökutæki í norðurkanti Eggertsgötu, milli Ingunnargötu og Suðurgötu. Að óheimilt verði að leggja ökutæki í suðurkanti Eggertsgötu, milli Suðurgötu og Njarðargötu.
    Frestað. USK23010018

  5. Samgöngustjóri leggur til að umhverfis- og skipulagsráð samþykki að veita heimild fyrir áframhaldandi undirbúning, verkhönnun og gerð útboðsgagna í samvinnu við Vegagerðina vegna breytinga á gönguþverun yfir Ánanaust og nýrra gönguljósa yfir Eiðsgranda í samræmi við meðfylgjandi yfirlitsmynd.
    Samþykkt. USK23020329

    Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Við samþykkjum til bráðabirgða tillögu um bætta ljósastýringu og gönguþverun við gatnamót Hringbrautar og Ánanausta. En betur má ef duga skal. Íbúðum fjölgar mikið á svæðinu næstu misseri. Hringtorgið og næsta nágrenni þess er afleitt og beinlínis hættulegt fyrir fótgangandi vegfarendur. Umferðin á þessum stað er of hröð og hættuleg. Æskileg væri að fækka akreinum með fram ströndinni og breyta hringtorginu í klassísk ljósastýrð T-gatnamót.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa, dags. 28. febrúar 2023. USK22120096

    Fylgigögn

  7. Lagðar fram fundargerðir Sorpu bs. nr. 476, dags. 24. janúar 2023 og nr. 477, dags. 14. febrúar 2023, ásamt fylgiskjölum. USK23010167

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við lið 2 í fundargerð nr. 476:

    Flokkur fólksins ræður af fundargerðinni að stefnumótun Sorpu hafi verið í skötulíki en þar segir. „Stjórn SORPU bs. felur framkvæmdastjóra að hefja vinnu við stefnumótun SORPU í samstarfi við stjórn. Stjórn felur framkvæmdastjóra að leita tilboða hjá ráðgjöfum við stefnumótun og kynna á næsta fundi stjórnar SORPU.“ Sorpa er ekki nýtt fyrirtæki og því er undarlegt að vinna þurfi nú að stefnumótun og leita til ráðgjafarfyrirtækja. Síðan kemur fram að greiða þurfi Ölfusi fyrir að nota Bolaöldur sem urðunarstað. ,,Samkomulag er í höfn um að SORPA greiði tiltekna fjárhæð til Ölfuss fyrir notkun á landi árið 2022 og geri í kjölfarið samkomulag við verktaka á svæðinu og landeiganda um framhald rekstrar í Bolaöldum” Þetta þarf að skýra. Er verið að greiða háar upphæðir til annars sveitarfélaga eingöngu vegna þess að landsvæðið er innan lögsögu þess sveitarfélags. Eða er verið að greiða fyrir einhverja þjónustu og framkvæmdir? Hver er þessi kostnaður? Fram kemur að semja eigi við landeiganda og það er skiljanlegt. Gott væri að það kæmi fram í fundargerðum hvernig staðið er að útflutning á brennanlegum úrgangi. Hver sé kostnaður við hann og hvort stefnt sé að því að nota þennan úrgang innanlands sem orkugjafa? 

    Fylgigögn

  8. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um að borgin dragi til baka útvistanir í snjómokstri, sbr. 31. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 11. janúar 2023. Greinargerð fylgir tillögunni. Einnig er lagt fram svar skrifstofu borgarlandsins, dags. 27. febrúar 2023.
    Tillagan er felld með sex atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Sjálfstæðisflokksins.
    Fulltrúi Vinstri grænni situr hjá við afgreiðslu málsins. USK23010115

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fram kemur að nú er útvistað öllu nema hreinsun á hjólastígum. Öllu öðru er útvistað. Eftirlit þarf að vera innan dyra en sumu er klárlega hægt að útvista. Það hentar að útvista vissum verkefnum t.d. vinnu eins og að fara alltaf sama hringinn til að hreinsa. Best er ef væru staðlar og þá staðla á borgarkerfið að setja. Útboð krefjast þess að verkreglur séu skýrar og að vinnulag sé vel skilgreint. Ýmislegt hefur verið að innan vetrarþjónustunnar á síðustu árum og því kemur ekki á óvart að hún sé gagnrýnd. Taka má allri gagnrýni vel og læra af henni. 

    Fylgigögn

  9. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um kynningu fyrir almenning vegna breytinga á bílastæðum við Rauðarárstíg, sbr. 15. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 1. mars 2023.
    Tillögunni er vísað frá með fimm atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna á móti tveimur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. USK23030008

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins harma að fulltrúar Framsóknarflokks, Pírata, Samfylkingar, Viðreisnar og Vinstri grænna felli tillögu, sem felur í sér að hugmyndir um brotthvarf allra almennra bílastæða við Rauðarárstíg, milli Hverfisgötu og Bríetartúns, verði kynnt fyrir íbúum og rekstraraðilum á viðkomandi götukafla, sem og í næsta nágrenni. Þannig væri viðkomandi íbúum og rekstraraðilum gefinn kostur á að skila athugasemdum um málið áður en gatnafrágangur hefst. Um er að ræða 36 almenn bílastæði. Greinilegt er að borgarstjórnarmeirihlutinn vill lágmarka samráð við íbúa um breytingar, sem augljóslega snerta ríka hagsmuni þeirra.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um kynningu fyrir almenning vegna breytinga á bílastæðum við Rauðarárstíg er felld. Flokkur fólksins er ósáttur við það því hér var aðeins lagt til að almenningi verði kynntar breytingar á bílastæðum við Rauðarárstíg. Það skortir verulega á að almenningur sé upplýstur um hvað skipulagsyfirvöld eru að gera yfir höfuð og ætla að gera. Hér vantar gagnsæi á vinnu skipulagsyfirvalda. Í þessu tilfelli er verið að nánast strípa svæðið af bílum sem margir eru afar ósáttir við og sem kemur fjölmörgum illa. Sjálfsagt er að gefa fólki kost á að skila inn athugasemdum um málið áður en gatnafrágangur hefst. Um er að ræða 36 almenn bílastæði. Leggja þarf áherslu á samráð við íbúa um svo miklar grundvallar breytingar, sem augljóslega snerta ríka hagsmuni þeirra.

  10. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um aukið umferðaröryggi við Fylkissel, sbr. 22. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 22. febrúar 2023.
    Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar inn í vinnu um umferðaröryggisáætlun. USK23020260

  11. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um lagfæringar á Hlemmi fyrir strætófarþega, sbr. 14. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 1. mars 2023.
    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar. USK23030007

  12. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um vagnflota Strætó bs., sbr. 17. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 1. mars 2023.
    Vísað til umsagnar Strætó bs. USK23030010

  13. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um borgarlínu, sbr. 18. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 1. mars 2023.
    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands dregur fyrirspurnina til baka. USK23030012

  14. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um það af hverju SORPA eða einstök sveitarfélög eru ekki búin að skipuleggja eða semja um að flytja út sorp til brennslu, sbr. 16. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 8. febrúar 2023.
    Vísað til umsagnar SORPU bs. USK23020099

  15. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um öryggismál á Laugarásvegi, sbr. 23. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 22. febrúar 2023.
    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar. USK23020258

  16. Fulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Umhverfis- og skipulagsráð samþykkir að fela umhverfis- og skipulagssviði að gera átak í að koma í veg fyrir margs konar stöðubrot sem viðgangast í miðborg Reykjavíkur og öðrum hverfum á öllum tíma sólarhringsins s.s. með þrengingum, götugögnum, gróðri, aksturshindrunum og pollum. Vinna hefjist sem fyrst við að greina svæði þar sem tíð stöðubrot eiga sér stað og samhliða henni verði farið strax í tímabundnar lausnir til að hindra þau.
    Frestað. USK23030097

  17. Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að biðsalur fyrir strætófarþega verði búinn til eða afmarkaður inni á Hlemmi. Erfitt er fyrir strætófarþega að koma sér vel fyrir þegar beðið er eftir vagni og salurinn er þéttsetinn af snæðandi gestum í mathöllinni. Auk þess er ekkert sem gefur til kynna að farþegum sé heimilt að bíða inni, þótt þeir megi það. Því er lagt til að búið verði til sérstakt rými tileinkað strætófarþegum sem og að slíkt verði auglýst vel með skilmerkilegum hætti.
    Frestað. USK23030088

  18. Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að inniaðstöðu fyrir strætófarþega verði komið fyrir í Spönginni. Jafnframt er lagt til að í sömu inniaðstöðu verði kaffiaðstaða fyrir vagnstjóra. Greinargerð fylgir tillögunni.
    Frestað. USK23030089

    Fylgigögn

  19. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Flokkur fólksins leggur til að skoðað verði að hætta með Sæbraut í stokk og setja i staðinn 2 góðar brýr yfir, aðra fyrir strætó og gangandi og hina norðar fyrir gangandi og hjól. Spara þannig 15–20 milljarða í stokka framkvæmdir sem komandi kynslóð þarf að borga. Þá vantar að sjálfsögðu stokk til að byggja yfir en er það þjóðhagslega hagkvæmt að kaupa slíkan stokk á þessu verði. Í staðinn mætti laga útslitna vegi og rykbinda fyrir 15–20 milljarða eða einfaldlega taka minni lán. Stokkar eiga vel við, þegar bæta á umhverfi í borgum, en þeir eru mjög dýrir og valda minnkun umhverfisgæða á framkvæmdatíma sem getur verið ansi langur. Tekjur, umfram umhverfisgæði, geta annars verið þær að nýjar byggingarlóðir verða til þegar umferðarþungur vegur hverfur. Um slíkt má spá með miklu öryggi og ættu slíkar framtíðaráætlanir að vera í stöðugt í skoðun.
    Frestað. USK23030091

  20. Fulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hver er staðan á innleiðingu og framkvæmd aðgerðaráætlunar í loftslagsmálum 2021-2025. Hvaða aðgerðir eru hafnar, er einhverjum aðgerðum lokið og hvaða aðgerðir hafa verið fjármagnaðar? USK23030102

  21. Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fram hefur komið að Félagsbústaðir borgi að meðaltali 583.000kr á hvern fermetra fyrir nýjar íbúðir. Mikilvægt að er að fram komi hver byggingarkostnaður íbúðanna sé hjá verktökunum. Því er spurt hver meðal byggingarkostnaður sé á hvern fermetra nýrra íbúða sem ætlaðar eru Félagsbústöðum? Mikilvægt er að upplýsingar um þetta liggi fyrir. Ef Félagsbústaðir í eigu Reykjavíkur eru að borga mun hærra verð fyrir íbúðir en sem nemur byggingarkostnaði þarf það að koma fram. USK23030092

  22. Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hversu miklum upphæðum hefði í raun átt að veita í viðhald á leik- og grunnskólabyggingum og byggingum fyrir frístundastarf borgarinnar á árunum eftir efnahagshrunið 2008? Á þeim tíma var ákveðið að ráðast í „hagræðingu“ á viðhaldi sem birtist okkur síðan nokkrum árum síðar með enn meiri kostnaði. Því er ljóst að ekki var um umrædda hagræðingu að ræða. Hver var viðhaldskuldinn í krónum eftir hrun á föstu verðlagi? Hversu miklum fjárhæðum í heildina verður eytt í viðhaldsátak borgarinnar sem nú hefur og verður ráðist í? USK23030093

  23. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Veggjakrot er áberandi í miðborginni sem og annars staðar í Reykjavík. Flokkur fólksins óskar upplýsinga um hvernig staðan er í þessum málum. Hver er kostnaður við að hreinsa veggjakrot og hversu hratt er gengið í að hreinsa veggjakrot að þegar það er tilkynnt um slíkt. Til að ná sem bestum árangri á hreinsun á skemmdarverkum af völdum veggjakrots verður að vera samvinna á milli Reykjavíkurborgar, lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, íbúa, rekstraraðila og/eða fasteignaeigenda. Flokkur fólksins spyr líka hvort þarna sé virkt samstarf? Reykjavík er mikil ferðamannaborg og telur Flokkur fólksins mikilvægt að ásýnd borgarinnar sé okkur til sóma. USK23030094

  24. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Flokkur fólksins óskar upplýsinga um hver sé heildarkostnaður flokkunarstöðvarinnar í Álfsnesi frá upphafi til lokunar? Viðurkennt er nú stórfelld mistök varðandi flokkunarstöðina í Álfsnesi. Framkvæmdarstjóri SORPU segir „að mistök hafi verið gerð þegar ákveðið var að kaupa flokkunarkerfi sem vitað var að myndi ekki skila af sér nothæfri moltu. Ákveðið hefur verið að loka stöðinni“ Þrátt fyrir að vitað var að stöðin myndi ekki skila nothæfri moltu var engu að síður haldið áfram með verkefnið. Margsinnis var varað við að aldrei komi nothæf molta út úr þessu kerfi. Hér er ein af mörgum bókunum Flokks fólksins um málið frá 2021. „Spurningar vöknuðu fyrst vegna GAJU sorp- og jarðgerðarstöðina 2016. GAJA átti að taka við öllum úrgangi af höfuðborgarsvæðinu og framleiða hágæða moltu og metangas. GAJU var lýst sem töfrabragði, geta tekið blandað sorp og gert úr því hágæða moltu. Blása átti plasti frá og veiða málma úr sorpinu með segli. Stjórn Sorpu hlustaði ekki á varnarorð um að moltan yrði aldrei laus við plast. Niðurstaðan er plastmenguð molta með þungmálmum og gleri, mengun langt yfir viðmiði. Sorpa hindraði aðgengi að gögnum og neitað að afhenda sýni. Gögn voru loks afhent sem sýnir að 1.7% af moltu var plast, 2 mm eða stærra. Viðmiðið á að vera 0.5%. Moltan er ónothæf. GAJU ævintýrið var bara draumsýn sem kostað hefur borgarbúa ómælt fé”. USK23030096

  25. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsingar um niðurfellingu aukagjalds sorphirðu vegna 15m reglu fyrir öryrkja og eldri borgara? Flokkur fólksins hefur fengið ábendingar um að öryrkjar og eldri borgarar hafa reynt að fá upplýsingar um niðurfellingu aukagjalds sorphirðu vegna 15m regluen ekki haft erindi sem erfiði. Spurt er: Geta eldri borgarar og öryrkja sótt um niðurfellingu á aukagjaldi sorphirðu vegna 15m reglu? Ef já þá hvernig? Er eðlilegt að það taki marga mánuði að fá svar við erindi sem þessu? USK23030100

Fundi slitið kl. 10:55

Alexandra Briem Ásta Björg Björgvinsdóttir

Hildur Björnsdóttir Hjálmar Sveinsson

Kjartan Magnússon Líf Magneudóttir

Pawel Bartoszek

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs þann 8. mars 2023