Umhverfis- og skipulagsráð - Fundur nr. 260

Umhverfis- og skipulagsráð

Ár 2023, miðvikudaginn 1. mars, kl. 09:07 var haldinn 260. fundur umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Alexandra Briem,  Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Marta Guðjónsdóttir, Pawel Bartoszek og áheyrnarfulltrúarnir Einar Sveinbjörn Guðmundsson og Trausti Breiðfjörð Magnússon. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild: Líf Magneudóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Björn Axelsson, Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, Guðmundur Benedikt Friðriksson, Inga Rún Sigurðardóttir og Dagný Alma Jónasdóttir.
Fundarritari var Glóey Helgudóttur Finnsdóttir.

Þetta gerðist:

 1. Samgöngustjóri leggur til að umhverfis- og skipulagsráð samþykki að veita heimild fyrir áframhaldandi undirbúningi, verkhönnun og gerð útboðsgagna vegna endurhönnunar á Lækjartorgi í samræmi við meðfylgjandi kynningu og hönnunarhandbók.
  Samþykkt.
  Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

  Edda Ívarsdóttir, deildarstjóri, Rebekka Guðmundsdóttir, verkefnastjóri og Karl Kvaran frá Sp(r)int studio taka sæti á fundinum undir þessum lið ásamt Darius Reznek, Davor Dusanic og Neil Moncrieff hjá Karres en Brands, sem taka sæti á fundinum með rafrænum hætti.

  - Kl. 9:35 tekur Líf Magneudóttir sæti á fundinum og aftengist fjarfundarbúnaði. USK23020228

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Fyrirliggjandi tillaga um endurhönnun Lækjartorgs er um margt athyglisverð og hefur bæði kosti og galla. Hún verðskuldar nánari skoðun, meðal annars með tilliti til veðurfars á Lækjartorgi, þar sem getur orðið býsna vindasamt. Í næstum öld hefur Lækjartorg verið fjölfarin skiptistöð fyrir strætisvagnafarþega og væri einnig æskilegt að rýna tillöguna út frá því að torgið geti áfram gegnt því hlutverki með sóma, t.d. með því að veita þeim gott skjól. Þá hefði tillagan að ósekju mátt hafa ríkari skírskotun í sögu Reykjavíkur. Í ljósi alvarlegrar fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar orkar tvímælis að halda áfram með kostnaðarsama hönnun að svo stöddu þegar ólíklegt er að tillagan verði að veruleika á næstunni vegna mikils kostnaðar við sjálfa framkvæmdina.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Skipulagsyfirvöld óska heimilda til að hefja undirbúning og verkhönnun á Lækjartorgi og gerð útboðsgagna vegna endurhönnunar, en ekki á að hefja framkvæmdir á þessu ári. Nú er verðbólga hærri en áætlað var og vænta má fleiri aðgerða Seðlabankans í formi hækkana stýrivaxta. Þess vegna telur Flokkur fólksins að bíða eigi með að hefja undirbúning og verkhönnun Lækjartorgs í nokkur ár. Áætlaður kostnaður fyrir þennan hluta er um 355 milljónir og er þá ekki talinn með kostnaður við snjóbræðslu. Þetta er eitt af þeim verkefnum sem má bíða betri tíma. Vissulega er Lækjartorg lykilrými í miðborginni og á sinn sess í hugum fjölmargra. Vinningstillagan er vissulega glæsileg. Um það er ekki deilt. Sama gildir um Kirkjustræti. En nú er staðan þannig að borgin getur ekki sinnt lögbundinni þjónustu sómasamlega. Nú bíða 2291 börn eftir nauðsynlegri þjónustu sálfræðinga og annars fagfólks í skólum. Eitthvað verður undan að láta. Það er ekki alltaf hægt að taka meiri lán og stefna borginni í gjaldþrot. Það segir sig sjálf að meðal slíkra verkefni er hvorki endurgerð Lækjartorgs eða Kirkjustrætis. Þarna er einfaldlega ekki um neyðarástand að ræða og þess vegna á borgin að haga sínum framkvæmdar áformum í takt við fjárhagslega getu hverju sinni.

  Fylgigögn

 2. Fulltrúar Strætó kynna hugmynd að vegtengingu fyrir Strætó um Stjörnugróf og Fossvogsbrún.

  Ragnheiður Einarsdóttir frá Strætó og Soffía Hauksdóttir frá Eflu taka sæti á fundinum undir þessum lið. USK23020272

 3. Samþykkt með afbrigðum að taka inn á dagskrá svohljóðandi tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

  Lagt er til að fyrirliggjandi tillaga um breytingar á umferðarskipulagi við Mjölnisholt verði kynnt fyrir íbúum og rekstraraðilum í götunni og næsta nágrenni hennar áður en tillagan verður tekin til afgreiðslu í ráðinu. Áhersla verði þannig lögð á samráð við íbúa um breytingar, sem augljóslega snerta ríka hagsmuni þeirra og hefðu í för með sér aukna umferð um Mjölnisholt og brotthvarf flestra ef ekki allra almennra bílastæða við götuna. Almenn bílastæði við götuna eru nú 24 talsins.
  Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar á móti tveimur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
  Fulltrúi Vinstri grænna situr hjá. USK23030015

 4. Samgöngustjóri leggur til að umhverfis- og skipulagsráð samþykki að veita heimild fyrir áframhaldandi undirbúningi, verkhönnun og gerð útboðsgagna vegna endurhönnunar á Mjölnisholti á grundvelli meðfylgjandi forhönnunar.
  Samþykkt með fimm atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna á móti tveimur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

  Edda Ívarsdóttir, deildarstjóri, Rebekka Guðmundsdóttir, verkefnastjóri og Fríða Björg Eðvarðsdóttir landslagsarkitekt frá VSÓ ráðgjöf taka sæti á fundinum undir þessum lið. USK23010339

  Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Breyting Mjölnisholts í tvístefnugötu var samþykkt með deiliskipulagi Hlemmssvæðis árið 2020. Fyrir liggur að þegar borgarlína hefur akstur um kafla Laugavegs milli Hlemms og Katrínartúns, verður ekki almennur akstur á þeim kafla og því nauðsynlegt að Mjölnisholt verði tvístefnugata. Tillagan gerir þar að auki ráð fyrir að Mjölnisholtið verði mun grænni gata en hún er í dag.

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks harma að fulltrúar Framsóknarflokks, Pírata, Samfylkingar, Viðreisnar og Vinstri grænna vísi frá tillögu um að kynna veigamiklar breytingar á umferðarskipulagi Mjölnisholts fyrir íbúum í götunni og næsta nágrenni hennar. Framkvæmdir eru áætlaðar á árinu og ljóst er að þær munu hafa í för með sér aukna umferð um Mjölnisholt og brotthvarf flestra ef ekki allra almennra bílastæða við götuna, sem eru nú 24 talsins. Sjálfsagt hefði verið að kynna svo veigamikla breytingu fyrir íbúum og rekstraraðilum á svæðinu og gefa þeim kost á að tjá sig áður en lengra er haldið. Ljóst er að yfirlýsingar borgarstjórnarmeirihlutans um að náið samráð skuli haft við íbúa um mikilvægar breytingar á nærumhverfi þeirra eru innantómar og merkingarlausar. 

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúi Flokks fólksins vill taka fram að þessar tillögur líta mjög vel út og vandað hefur verið til verksins. Það má þó taka fram að vitað er að borgarlína tefst og ekki alveg vitað hvenær fyrsti leggur hennar muni líta dagsins ljós. Þrátt fyrir allt er hér um kostnaðarsamt verkefni að ræða sem áætlað er að kosta muni allavega 180 milljónir. Flokkur fólksins vill benda á að ekki hefur enn náðst að hemja verðbólgu og má þess vegna reikna með enn frekari hækkun stýrivaxta á árinu, sem þýðir að afborganir að lánum eiga eftir að hækka umtalsvert. Reykjavíkurborg sem nú “lifir” einungis á lánum, hefur einfaldlega ekki efni á þessu. Umhverfis- og skipulagsráð og verkefni þess hljóta að fara flest á ís nema þau allra nauðsynlegustu. Fátækt og ójöfnuður fer vaxandi vegna hækkunar matarverðs og annara nauðsynja. Þess vegna telur fulltrúi Flokks fólksins að þetta verkefni eigi að bíða eins og mörg önnur verkefni meirihlutans sem ekki eru að leysa brýna þörf gagnvart borgarbúum.

  Fylgigögn

 5. Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa, dags. 21. febrúar 2023. USK22120096

  Fylgigögn

 6. Lögð fram fundargerð embættisafgreiðslufundar skipulagsfulltrúa, dags. 23. febrúar 2023. USK23010150

  Fylgigögn

 7. Kynning á stöðu vinnu við hverfisskipulag í borgarhluta 3 Hlíðar og borgarhluta 5 Háaleit-Bústaðir. Í lok árs 2021 og byrjun árs 2022 voru kynntar vinnutillögur fyrir hverfisskipulag fyrir þrjú hverfi í borgarhluta 3 Hlíðar og fjögur hverfin í borgarhluta 5 Háaleit-Bústaðir. Allnokkuð að athugasemdum bárust við þessar vinnutillögur sérstaklega í Háaleiti- Bústöðum. Frá því að kynningu á vinnutillögum lauk hefur staðið yfir vinna við að fullgera tillögur að hverfisskipulagi fyrir þessi hverfi. Stefnt er að því að hverfisskipulag fyrir þrjú hverfi í borgarhluta 3 Hlíðar fari í kynningar- og samþykktarferli í apríl/maí 2023 og að kynningar- og samþykktarferli hefist fyrir fjögur hverfin í borgarhluta 5 Háaleit-Bústaðir í beinu framhaldi.

  Ævar Harðarson, deildarstjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23020335

 8. Lagt fram bréf stjórnar húsfélagsins Skipholti 11-13, dags. 14. febrúar 2023, þar sem mótmælt er væntanlegum framkvæmdum um breytingu á fyrirkomulagi gangstétta og bílastæða við Brautarholt 16-20 og óskað eftir því að borgaryfirvöld endurskoði umrædda hugmynd. USK22120052

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Meirihluti Framsóknarflokks, Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar hyggst fækka bílastæðum við Brautarholt um 19 á sama tíma og íbúðum við götuna fjölgar um a.m.k. 78. Framlögð mótmæli íbúa við Skipholt 11-13 leiðir í ljós að umrædd ákvörðun mun ekki einungis koma sér illa fyrir íbúa í Brautarholti heldur einnig valda íbúum í næsta nágrenni óþarfa átroðningi. Við skorum á meirihlutann að hlusta á íbúa í Holtunum og hætta við fyrirætlanir sínar um fækkun bílastæða í þessu ört vaxandi íbúahverfi. 

  Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúi Sósíalista tekur undir áhyggjur íbúa við Brautarholt. Ef að það er verið að fækka bílastæðum er mikilvægt að almenningssamgöngur á nærliggjandi svæði séu efldar samtímis, svo að strætó sé raunverulegur valkostur. Það er ekki fullnægjandi að fækka bílastæðum til að auka notkun annarra fararmáta en einkabílsins. Tryggja þarf samtímis aukna tíðni strætó og bæta leiðarkerfið svo það þjóni farþegum og íbúum.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúi Flokks fólksins skilur áhyggjur stjórnar húsfélagsins í Skipholti 11-13, varðandi framtíðarhögun bílastæðamála í framhaldi af ákvörðun um byggingu 65 íbúða í Brautarholti. Áætlað er að væntanlegir íbúar þessarar nýju íbúða flytji inn í sumar. Nú þegar eru öll bílastæði fyrir framan húsin og þar í kring, full af bílum. Hafa íbúar í Skipholti upp á síðkastið tekið eftir því að sumir í umræddum húsum við Brautarholt, eru farnir að leggja bílum sínum við Skipholt 11-13 og við Eyja Hótel þar fyrir norðan. Framkvæmdinni er mótmælt og talin óraunhæf í ljósi þess að með þeim 65 íbúðum í Brautarholti 16-20 muni fylgja nokkrir tugir bílar til viðbótar við þá sem fyrir eru, sem íbúar munu reyna að leggja við heimili sín. Þess vegna telur fulltrúinn að endurskoða eigi þessa hugmynd og leita lausna í samráði við íbúa á því svæði sem um ræðir, í stað þess að neita að horfast í augu við það augljósa óhagræði fyrir alla íbúa, sem af þessu verður óbreyttu.

  Fylgigögn

 9. Lagt fram afgreiðslubréf, dags. 16. febrúar 2023, vegna samþykktar borgarráðs s.d. á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Kirkjusands vegna lóðarinnar nr. 2 við Kirkjusand. SN220377

  Fylgigögn

 10. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar um Spöngina, sbr. 30. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 26. október 2022 ásamt umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 24. febrúar 2023.
  Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa, inn í vinnu um hverfisskipulag Grafarvogs. USK22100136

  Fylgigögn

 11. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um uppsetningu skautasvella í hverfum Reykjavíkur sbr. 30. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs dags. 25. janúar 2023. Greinargerð fylgir tillögunni.
  Tillagan er felld með fjórum atkvæðum Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar á móti tveimur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
  Fulltrúi Vinstri grænna situr hjá. USK23010272

  Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

  Tvö yfirbyggð skautasvell eru í Reykjavík í dag, Skautahöllin í Laugardal og skautasvellið í Egilshöll. Að auki hefur Nova-svellið verið sett upp tímabundið á Ingólfstorgi í kringum aðventu, jól og áramót seinustu ár. Kynntar hafa verið hugmyndir um viðbyggingu við Skautahöllina í Laugardal sem gætu falið í sér opið skautasvell með einföldu þaki og gætu nýst almenningi og sem upphitunaraðstaða fyrir iðkendur. Þessar tillögur sem röðuðust í 6. sæti í forgangsröðun í íþróttamannvirkja og hafa verið settar á dagskrá. Tillaga sósíalista um að setja upp ótal skautasvell um alla borg gengur ekki upp fjárhagslega og er í ósamræm sameiginleg framtíðarsýn borgarinnar og íþróttahreyfingarinnar í málaflokknum.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúi Flokks fólksins styður heilshugar allar þær framkvæmdir sem hafa með aukið aðgengi ungs fólks að tómstundaiðkun að gera. Það er alveg frábært ef hægt er að auka aðgengi borgarbúa að þeirri hreyfingu og skemmtum sem gott skautasvell býður upp á. Þess vegna telur fulltrúinn þessa tillögu vera góða og vert að vísa henni áfram til nánari umfjöllunar og útfærslu.

  Fylgigögn

 12. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um ósvaraðar fyrirspurnir og tillögur, sbr. 15. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 8. febrúar 2023.
  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu stjórnsýslu og gæða. USK23020098

 13. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um húsnæði Draumasetursins. Fyrirspurnin var lögð fram á fundi Borgarráðs, þann 12. janúar 2023, sbr. 31. liður og vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagsráðs með tölvupósti, dags. 18. janúar 2023.
  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, byggingarfulltrúa. MSS23010137

  Fylgigögn

 14. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

  Lagt er til að aðstaða strætófarþega á Hlemmi verði bætt með eftirfarandi aðgerðum: 1. Skiptistöðin verði opin farþegum á morgnana meðan strætisvagnar ganga. 2. Aðstaða og upplýsingagjöf við farþega verði bætt inni í skiptistöðvarhúsinu, t.d. með uppsetningu leiðakorts, leiðataflna og rauntímabúnaði, sem sýnir hvenær vagnar eru væntanlegir á stöðina. Þá verði Klapp-kort til sölu í skiptistöðinni. 3. Merkingar verði bættar utandyra á Hlemmi og gerðar sýnilegri en nú er, farþegum til leiðbeiningar. Þetta á ekki síst við um biðstöð B, sem og biðstöðvar austan og vestan megin við húsið.
  Frestað. USK23030007

 15. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

  Lagt er til að fyrirhugað brotthvarf allra almennra bílastæða við Rauðarárstíg (milli Hverfisgötu og Bríetartúns), verði kynnt fyrir íbúum og rekstraraðilum á viðkomandi götukafla sem og í næsta nágrenni og þeim gefinn kostur á að skila athugasemdum um málið áður en gatnafrágangur hefst. Um er að ræða 36 almenn bílastæði. Áhersla verði þannig lögð á samráð við íbúa um breytingar, sem augljóslega snerta ríka hagsmuni þeirra.
  Frestað. USK23030008

 16. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Óskað er eftir rekstraráætlun borgarlínu og jafnframt svörum við því hver muni fjármagna rekstur hennar. USK23030009

 17. Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Fram hefur komið að mikil þörf er á því að endurnýja vagnaflota Strætó bs. Hvað er þörf á því að endurnýja marga vagna og hversu margir vagnar þurfa á endurnýjun að halda? Hver er áætlaður kostnaður vegna þessa? Hers vegna hefur ekki verið ráðist í að framkvæma þau vagnakaup eða viðgerðir sem nauðsynlegar eru og hvenær má búast við því að slíkt verði gert? USK23030010

 18. Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Mun borgarlína lúta sömu lögmálum og Strætó bs. gerir hvað varðar áföll í tekjum borgarsjóðs og annarra sveitarfélaga? Þyrfti að skera niður tíðni ferða borgarlínu ef við yrðum fyrir efnahagsáfalli, líkt og covid-19 hafði á rekstur strætó þegar skera þurfti niður? USK23030012

 19. Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Hversu mörg bílastæði eru fyrir hreyfihamlað fólk í Reykjavík? Hve mikið hefur þeim fjölgað/fækkað síðustu 10 ár? USK23030013

 20. Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 8. febrúar sl. var samþykkt að breyta fyrirkomulagi gangstéttar og bílastæða við Brautarholt 16-20. Þar var m.a. kveðið á um að bílastæðum yrði fækkað úr 25 í 6. Verður hugað að því að efla Strætó á nærliggjandi svæði svo íbúar geti raunverulega nýtt sér hann í stað einkabílsins? Ef svo er, hvernig verður hugað að því? Hefur samtal átt sér stað við Strætó til þess að efla leiðakerfi og tíðni á þeim svæðum þar sem bílastæðum fer fækkandi? Mikilvægt er að almenningssamgöngur séu efldar til muna á sama tíma og bílastæðum fer fækkandi. USK23030014

Fundi slitið kl. 12:26

Alexandra Briem Aðalsteinn Haukur Sverrisson

Hjálmar Sveinsson Kjartan Magnússon

Líf Magneudóttir Marta Guðjónsdóttir

Pawel Bartoszek

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 01.03.2023