Umhverfis- og skipulagsráð - Fundur nr. 258

Umhverfis- og skipulagsráð

Ár 2023, miðvikudaginn 15. febrúar, kl. 09:10 var haldinn 258. fundur umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Alexandra Briem,  Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Hjálmar Sveinsson, Pawel Bartoszek og áheyrnarfulltrúinn Trausti Breiðfjörð Magnússon. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild: Björn Gíslason, Líf Magneudóttir, Marta Guðjónsdóttir og áheyrnarfulltrúinn Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Björn Axelsson, Guðmundur Benedikt Friðriksson og Sigurjóna Guðnadóttir.
Fundarritari var Harri Ormarsson

Þetta gerðist:

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram eftirfarandi tillaga skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar dags. 26. janúar 2023: Lagt er til að umhverfis- og skipulagsráð samþykki að veita heimild fyrir áframhaldandi undirbúningi, verkhönnun og gerð útboðsgagna vegna breytinga á fyrirkomulagi gangstéttar og bílastæða við Brautarholt 16-20 í samræmi við hjálagða skýringarmynd og umboð til að vinna í kjölfarið forhönnun að endurhönnun götunnar í heild þar sem lögð er áhersla vistlegt yfirbragð götunnar þar sem eru góðar aðstæður fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur og gróður. Greinargerð fylgir tillögunni. Einnig eru lögð fram grenndarkynntir aðaluppdrættir, dags. 29. apríl 2019, lóðauppdráttur, dags. 19. júlí 2019, breytingablað dags. 5. nóvember 2020 og umsögn skipulagsfulltrúa dags. 23. ágúst 2019.
    Samþykkt með fimm atkvæðum. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiða atkvæði á móti tillögunni.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Verið er að ljúka framkvæmdum. Breyta þarf fyrirkomulagi á gangstéttum. En er hugsað út í hvar sólin skín þegar verið er að skipuleggja gangstéttir? Talað er um að bæta lýsingu. Alla jafna hlýtur að vera betra að hafa megin gangstéttir við norðurhlið götu. Þar skín sólin. En hér er verið að skipuleggja endurbætur á stétt við suðurhluta götunnar. Uppbyggingin er skuggamegin. Þetta þarf að skoða eitthvað betur að mati fulltrúa Flokks fólksins. Gera þarf einnig ráð fyrir bílastæðum. Annað væri óskynsamlegt og skilaboð um að aðeins ákveðinn hópur með ákveðinn lífsstíl er velkominn að búa á þessum reit.

    Ingvar Jón Bates Gíslason, verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK22120052

    Fylgigögn

  2. Lögð fram fundargerð embættisafgreiðslufunda skipulagsfulltrúa frá 9. febrúar 2023. USK23010150

    Fylgigögn

  3. Lögð fram umsagnarbeiðni svæðisskipulagsnefndar Suðurhálendis, dags. 13. janúar 2023, þar sem óskað er eftir umsögn um tillögu á vinnslustigi að svæðisskipulagi Suðurhálendis 2022-2042. Einnig eru lögð fram drög að greinargerð, dags. 15. desember 2022 og umhverfismatsskýrsla, dags. 15. desember 2022. USK23010197

    Umhverfis- og skipulagsráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Við fögnum því sérstaklega að í svæðisskipulagi Suðurhálendis eru markmið um og byggja upp hjólaleiðir og aðstöðu fyrir hjólafólk á áningarstöðum á svæðinu.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Málið snýst um hvers vegna fámenn sveitarfélög geta verið með altækt skipulagsvald yfir stórum hluta hálendisins. Þjóðgarður lítur hins vegar stjórn sem er tengd Alþingi og þar með allri þjóðinni. Heimamenn hafa sérhagsmuni oft að leiðarljósi og gæta ekki að heildarhagsmunum. Mörg dæmi eru um það á þessu svæði. Þótt núverandi ríkisstjórn geti ekki komið sér saman um að stofna hálendisþjóðgarð getur vel verið að sú næsta geti gert það. Það er svo sem ágætt að til standi að leggja klæðningu á Kjalveg og Sprengisandsleið. Þannig opnast hálendið fyrir fólk, sem ekki á sérútbúna bíla. Þannig verður ekki þessi stéttaskipting sem gerir það að verkum að aðeins þeir sem eiga jeppa geta skoðað hálendið og meiri möguleikar opnast fyrir almenning til að skoða þessar náttúruperlur. Brýr yfir ár á hálendinu myndu draga úr vatnsmengun og slysahættu. Hins vegar má leiða líkur að því að umferð túrista um hálendið muni aukast til muna, verði hálendisleiðirnar með klæðningu. Það vantar umfjöllun í þessa áætlun um bætt aðgengi hreyfihamlaðra að ferðamannastöðum. Allt of algengt er að hreyfihamlaðir geti ekki heimsótt náttúruperlur vegna þess að aðgengi er slæmt og oft þarf ekki að gera miklar breytingar til að opna svæðin fyrir hreyfihömluðum.
     

    Fylgigögn

  4. Lögð fram umsókn Skurnar ehf., dags. 23. janúar 2023, um breytingu á deiliskipulagi Vallár á Kjalarnesi. Í breytingunni sem lögð er til felst að fjölga stæðum fyrir fugla í húsunum í samræmi við kröfur um aðbúnað alifugla, samkvæmt uppdr. TAG teiknistofu ehf. dags. 23. janúar 2023. Einnig lagt fram bréf hönnuðar, dags. 23. janúar 2023. Lagt er til að tillagan verði afgreidd í auglýsingu.

    -    Kl. 9:30 víkur Marta Guðjónsdóttir af fundi.
    -    Kl. 9:30 tekur Friðjón R. Friðjónsson sæti á fundinum.

    Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. Vísað til borgarráðs.

    Þórður Már Sigfússon verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23010259
     

    Fylgigögn

  5. Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa, dags. 7. febrúar 2023. USK22120096

    Fylgigögn

  6. Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. desember 2022, ásamt kæru nr. 149/2022, dags. 27. desember 2022, þar sem sem kærð er ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar um uppsetningu bifreiðastæðis fyrir hreyfihamlaða í Bryggjuhverfi. Einnig er lögð fram greinargerð Reykjavíkurborgar, dags. 8. febrúar 2023. USK22123024

  7. Lagt fram afgreiðslubréf, dags. 8. febrúar 2023, um samþykkt borgarstjórnar á 5. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. febrúar 2023, tillögu að breytingu á deiliskipulagi Vesturbæjarlaugar USK22120092

    Fylgigögn

  8. Lagt fram afgreiðslubréf, dags. 2. febrúar 2023, um samþykkt borgarráðs s.d. á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Skarfabakka, Klettasvæðis, vegna lóðanna nr. 6, 8 og 10 við Skarfagarða. SN220719

    Fylgigögn

  9. Lagt fram afgreiðslubréf, dags. 2. febrúar 2023, um samþykkt borgarráðs s.d. á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Esjumela vegna lóðarinnar nr. 1 við Gullsléttu. SN220460

    Fylgigögn

  10. Lögð fram að nýju tillaga og greinargerð áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um bætt útsýni í Reykjavík fyrir borgarbúa, sbr. 33. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 14. desember 2023. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu aðalskipulags og loftslagsmála, dags. 3. febrúar 2023. USK22120004

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Tekið er undir það að útsýni er einn af þáttum sem skipta máli við byggðaskipulag og að mistök hafa verið gerð þegar ekki var hugað nægilega að þessum þætti. Vissulega er hér um einstaklingsbundna upplifun að ræða. Mörgum finnst útsýni út á sjó mikilvægt og missi fólk það útsýni vegna skyggingar frá nýbyggingu sem það taldi að ekki myndu rísa eru það mikil vonbrigði og gengisfelling á eign þeirra. Útsýni til sólar er einnig mikilvægt. Að sjá lengra en yfir í næsta hús er eitthvað sem flestum þykir dýrmætt. Það er þessi yfirsýn sem veitir fólki gjarnan tilfinningu um frelsi. Margir sem eru innikróaðir af byggingum upplifa innilokunarkennd og að þrengt sé of mikið að þeim. Að hafa vegg fyrir augum sínum í hvert sinn sem litið er út er skiljanlega lýjandi. Ekki allir eiga þess kost að skipta um íverustað.
     

    Fylgigögn

  11. Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um sanddreifingu, sbr. 20. liður fundargerðar borgarráðs, dags. 26. janúar 2023, þar sem fyrirspurninni var vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu borgarlandsins. Einnig er lagt fram svar skriftofu borgarlandsins, dags. 6. febrúar 2023. MSS23010255

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Sanddreifing er alla jafna verri kostur en saltdreifing, þar sem sandurinn situr eftir að vori og veldur þá skaða á stígum og næsta umhverfi þeirra. Sandinn þarf að því að fjarlægja að vori ef vel á að vera og það er kostnaðarsöm aðgerð.
     

    Fylgigögn

  12. Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um saltdreifingu, sbr. 21. liður fundargerðar borgarráðs, dags. 26. janúar 2023, þar sem fyrirspurninni var vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu borgarlandsins. Einnig er lagt fram svar skrifstofu borgarlandsins, dags. 6. febrúar 2023. MSS23010256

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Ekki ætti að spara að dreifa salti þar sem afrennsli af stígum og götum kemst í fráveitulagnir sem ætlaðar eru fyrir slíkt afrennsli. Best er að salta þar sem er afrennsli en stundum þarf að gera það líka þar sem gras er nærri, þótt salt brenni vissulega gróður.
     

    Fylgigögn

  13. Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um götuþrif, sbr. 22. liður fundargerðar borgarráðs, dags. 26. janúar 2023, þar sem fyrirspurninni var vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu borgarlandsins. Einnig er lagt fram svar skriftofu borgarlandsins, dags. 2. febrúar 2023. MSS23010257

    Áheyrnarfulltrúi flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Stefna ætti að því að þvo götur með vatni eins oft og unnt er eða þegar veðurfar leyfir. Sú lausn er alla jafna betri en að rykbinda með magnesíum klóríði og ef afkastamikill tækjabúnaður er til er það líka ódýrara.
     

    Fylgigögn

  14. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um umhverfissálfræði í skipulagsmálum borgarinnar, sbr. 34. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 14. desember 2022. Einnig er lagt fram svar skrifstofu aðalskipulags og loftslagsmála, dags. 3. febrúar 2023. USK22120014

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Spurt er með hvaða hætti er unnið eftir umhverfissálfræði þegar kemur að skipulagsmálum í Reykjavík? Hverjir sinna þeirri vinnu, ef hún er unnin og undir hvaða starfsheiti? Þetta er mjög góðar spurningar enda hafa rannsóknir á sviði m.a. sálfræði gegnt mikilvægu hlutverki í þróun fræða um skipulag og hönnun eins og fram kemur í svari. Það hefur því komið á óvart hversu lítið tillit er tekið til t.d. sálfræðilegra þátta í hönnun og skipulagi hverfa í borginni. Hér má nefna skuggavarp sem þétting byggðar getur valdið. Það hefur sýnt sig að þrengsl og skuggsýni dregur kraft og gleði úr fólki. Stundum er lokað fyrir útsýni þannig að helsta útsýni í mörgum hverfum er inn á gólf í næstu íbúð. Ekki er vitað til að neinn sérstakur umhverfissálfræðingur starfi hjá Reykjavíkurborg en umhverfissálfræði er einmitt vaxandi sérgrein innan sálfræðinnar. Þegar aðal markmiðið er að koma sem flestum á lítinn blett er hætta á að þættir eins og áhrif umhverfis á andlega líðan verði settir út á kant.
     

    Fylgigögn

  15. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokkins um Fálkabakka, sbr. 28. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 25. janúar 2023.
    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar. USK23010274

  16. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hvort fylgst er með aksturslagi strætóbílstjóra, sbr. 27. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 1. febrúar 2023.
    Vísað til umsagnar Strætó bs. USK23020013

  17. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um meðhöndlun kvartana hjá Strætó bs., sbr. 31. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 25. janúar 2023.
    Vísað til umsagnar Strætó bs. USK23010273

  18. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu: 

    Flokkur fólksins leggur til að gerð verði úttekt á götulýsingu við gangbrautir. Gera þarf nákvæma úttekt á hvar þarf að gera betrumbætur strax og hvernig yrði síðan forgangsröðun á lagfæringum með það að markmiðið að gera götulýsingar við gangbrautir fullnægjandi. Dæmi eru um að gangbrautir sjáist illa vegna slæmrar lýsingar við þær. USK23020172

    Frestað.

  19. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Ábendingar hafa borist um töf á sorphirðu í allt að 4-5 vikur. Flokkur fólksins hefur fengið all margar ábendinga að ekki hefur verið sorphirða við hús fólks og tafir séu jafnvel allt að 5 vikur og eru skýringar settar á veður/færð. Óskað er upplýsinga um hverju þetta sætir og hvort svo mikil töf á sorphirðu sé réttlætanleg jafnvel þótt illa ári? USK23020173
     

  20. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Flokkur fólksins óskar upplýsingar um hvenær SORPA telur að þeir muni hefja söfnun á heimilum með meiri flokkun vegna nýrra laga um aukna flokkun og hvenær þeir áætla að því verði lokið? Einnig hvenær nýjar tunnur komast í gagnið? Lögin tóku gildi 1 janúar 2023 og var það vitað með góðum fyrirvara. Enn bólar ekkert á tunnum frá SORPU og nú er komið fram í miðjan febrúar. Hvað veldur töf? Í ljósi tafa sem nú er orðin nokkur, hvenær er áætlað að innleiðingu verði lokið. Er reiknað með meira en árstöf? USK23020173
     

Fundi slitið kl. 9:35

Alexandra Briem Aðalsteinn Haukur Sverrisson

Björn Gíslason Hjálmar Sveinsson

Friðjón R. Friðjónsson Líf Magneudóttir

Pawel Bartoszek

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 15. febrúar 2023