Umhverfis- og skipulagsráð - Fundur nr. 257

Umhverfis- og skipulagsráð

Ár 2023, miðvikudaginn 8. febrúar, kl. 9:10 var haldinn 257. fundur umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Alexandra Briem,  Aðalsteinn Haukur Sverrisson,  Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Pawel Bartoszek og áheyrnarfulltrúinn Andrea Helgadóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild: Líf Magneudóttir og áheyrnarfulltrúinn Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Björn Axelsson, Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, Guðmundur Benedikt Friðriksson, Inga Rún Sigurðardóttir og Dagný Alma Jónasdóttir.
Fundarritari var Glóey Helgudóttur Finnsdóttir.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 19. janúar 2023, þar sem tilkynnt er að á fundi borgarstjórnar þann 17. janúar 2023 var samþykkt að Unnur Þöll Benediktsdóttir taki sæti varamanns í umhverfis- og skipulagsráði í stað Gísla S. Brynjólfssonar. MSS22060046

    Fylgigögn

  2. Lögð fram fundargerð embættisafgreiðslufunda skipulagsfulltrúa frá 2. febrúar 2023. USK23010150

    Fylgigögn

  3. Lögð fram skipulagslýsing vegna nýs deiliskipulags Elliðaárvogs-Ártúnshöfða - svæðis 7 (Bíldshöfða/Breiðhöfða) á hluta miðsvæðis M4a og á opnu svæði OP30 skv. Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040. Rammaskipulag Elliðaárvogs-Ártúnshöfða var staðfest árið 2017 og í framhaldi hefur verið unnið að deiliskipulagi minni áfanga á svæðinu. Skipulagssvæðið afmarkast af Bíldshöfða til suðurs, stoðvegg til norðurs (deiliskipulagsmörkum áfanga 1 og 2 skv. rammaskipulagi), Breiðhöfða til austurs og Þórðarhöfða til vesturs. Gert er ráð fyrir blandaðri byggð þar sem stærstur hluti verður íbúðarhúsnæði. Einnig er gert ráð fyrir atvinnuhúsnæði, sérstaklega á götuhæðum við Bíldshöfða og Breiðhöfða. Byggingarmagn og hæðir húsa munu ráðast við gerð deiliskipulags m.t.t. markmiða aðalskipulags um sjálfbæra þróun og gæði byggðar sbr. skipulagslýsingu Nordic dags 25. janúar 2023. Lagt er til að lýsingin verði kynnt og leitað umsagna þeirra aðila sem taldir eru upp í henni.
    Samþykkt er að kynna lýsingu vegna nýs deiliskipulags Elliðaárvogs-Ártúnshöfða - svæðis 7, sbr. 1. og 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Leita skal umsagna um lýsinguna hjá Skipulagsstofnun, íbúaráðum á svæðinu og helstu samráðs- og umsagnaraðilum, sbr. umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 25. janúar 2023, ásamt því að kynna hana fyrir almenningi.

    Sólveig Sigurðardóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23010138

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins finnst það spurning hvort þörf sé á að fá breskt fyrirtæki til að votta byggðina.  ,,Til að hljóta vottun BREEAM Communities þarf skipulag að uppfylla ákveðnar skyldukröfur (fyrsta stigs vottun) en við fullnaðarvottun fær skipulagið lokaeinkunn í samræmi við fjölda krafna sem það uppfyllir.”, segir í gögnum. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér kostnaðinum og hver sé  líklegur ávinningur fyrir borgina. Vinna má gott skipulag án þess að fá vottun. Er stefna borgarinnar að, reglugerðir og vinna arkitekta sé ekki nægilega góðar við að skipuleggja byggð?

    Fylgigögn

  4. Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju umsókn Kurt og Pí ehf. f.h. eiganda dags. 13. júní 2022, varðandi breytingu á deiliskipulagi Kirkjusands vegna lóðarinnar nr. 2 við Kirkjusand. Í breytingunni felst breytt landnotkun og byggingarmagn og breyting á byggingareitum, samkvæmt uppdr. Kurt og Pí ehf. dags. 13. júní 2022, síðast breytt 30. janúar 2023. Tillagan var auglýst frá 21. júlí 2022 til og með 19. september 2022. Eftirtaldir sendu athugasemdir: Kristján Þ. Davíðsson dags. 25. ágúst 2022, Gunnar Ingi Gunnarsson dags. 30. ágúst 2022, Ásthildur S. Rafnar og Þorsteinn Ólafsson dags. 30. ágúst 2022, Björn M. Björgvinsson og Sigfríður Fanney Úlfljótsdóttir dags. 31. ágúst 2022, Þorsteinn G. Þórhallsson dags. 1. september 2022, Hildur Georgsdóttir dags. 7. september 2022, stjórn húsfélagsins að Laugarnesvegi 87-89 dags. 18. september 2022, Björn M. Björgvinsson f.h. stjórnar húsfélagsins að Kirkjusandi 1, 3 og 5 dags. 19. september 2022 og Lilja Sigrún Jónsdóttur dags. 19. september 2022. Einnig eru lagðir fram tölvupóstar Björns M. Björgvinssonar dags. 7. september 2022 og tölvupóstur Gunnars Inga Gunnarssonar dags. 8. september 2022 þar sem óskað er eftir útlitsteikningu, umsögn Veitna dags. 9. september 2022 og áskorun Björns Magnúsar Björgvinssonar og Gunnars Inga Gunnarssonar f.h. húsfélaganna að Kirkjusandi 1, 3 og 5 og Laugarnesvegi 87-89 dags. 12. september 2022 um að heimila niðurrif á gamla Íslandsbankahúsinu þó svo að deiliskipulagsvinnu lóðarinnar sé ólokið. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 2. febrúar 2023. Lagt er til að tillagan er samþykkt með þeim breytingum sem koma fram í umsögninni.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:

    Lagt er til að hámarkshæð húss A4 á Kirkjusandsreit verði fimm hæðir í stað sex. Jafnframt er lagt til að útbúið verði gott leiksvæði fyrir börn og ungmenni á reitnum.

    Breytingartillagan er felld með fimm atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

    Tillaga um breytingu á deiliskipulagi er samþykkt, sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með þeim breytingum sem koma fram í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 2. febrúar 2023.
    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
    Vísað til borgarráðs. SN220377

    Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Deiliskipulagstillaga um uppbyggingu á lóð A við Kirkjusand er að okkar mati vönduð. Gert er ráð fyrir inngörðum og vistvænu umhverfi. Um 240 fjölskyldur fá tækifæri til að búa til að búa á skemmtilegum stað miðsvæðis í borginni. Komið hefur verið móts við áhyggjur nágranna með því að lækka hæð stærsta hússins úr 7 hæðum í 6. Við teljum ekki ástæðu til að ganga lengra og fækka íbúðum.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Sósíalista leggur áherslu á að við breytingar á skipulagi og hönnun á stöðum sem verða fyrir afar áþreifanlegum áhrifum af sterkum vindum, svo sem við strandlengju í norðvesturátt eins og á við um þessa lóð ætti ávallt að fylgja líkan af áhrifum vinda og skjóláhrif af hönnun bygginga. Öryggi gangandi og annarra óvarinna vegfarenda sem verða fyrir afar miklum áhrifum af sterkum vindstrengjum þarf að vera tryggt þegar þétta á íbúðabyggð á slíkum stöðum. Ísing og hálka að vetrarlagi sem fylgir strandlengju sérstaklega gerir þetta enn mikilvægara. Sömuleiðis þarf ávallt að liggja fyrir að uppbygging skóla og annarrar grunnþjónustu, sem og vetrarþjónusta í umhverfi slíkrar þéttingar sé tryggð með hana í huga, og að hún sé tilbúin að taka við fjölgun barna og annarra íbúa um leið og áætlað er að þeir geti flust inn í nýbyggingarnar.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í athugasemdum er kvartað yfir ófullnægjandi kynningu. Einnig er kvartað yfir of miklu skuggavarpi. Enda þótt allar byggingar varpi vissulega einhverjum skugga er hér um að ræða vandamál sem tengist of mikilli þéttingu byggðar og þá  er það þéttingarstefnan sem er vandamálið.  Nefndir eru mögulegir vindstrengir og það er atriði sem á að kanna áður en form bygginga er ákvarðað. Skipulagsyfirvöld sinna þessu atriði lítið sem ekkert með þeim afleiðingum að allt of oft myndast hættulegir vindstrengi nálægt  háum byggingum. Um það eru þekkt dæmi í Reykjavík. Í gögnum  er ekkert fjallað um þennan þátt  sem  ætti að vera  eitt af aðalatriðunum. Bent er á að  leikskóla og skólamál, séu í ólestri í hverfinu. Taka þarf strax á þeim málum. Vonandi verður tekið tillit til þessara athugasemda. Endurskoða þarf samráðs- og kynningarmál frá grunni.

  5. Skrifstofa samgöngustjóra og borgarhönnunar leggur til að umhverfis- og skipulagsráð samþykki að veita heimild fyrir áframhaldandi undirbúningi, verkhönnun og gerð útboðsgagna vegna breytinga á fyrirkomulagi gangstéttar og bílastæða við Brautarholt 16-20 í samræmi við hjálagða skýringarmynd dags. 26. janúar 2023 og vinni í kjölfarið forhönnun að endurhönnun götunnar í heild þar sem lögð er áhersla vistlegt yfirbragð götunnar þar sem eru góðar aðstæður fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur og gróður. Greinargerð fylgir tillögunni.
    Frestað.

    Edda Ívarsdóttir, deildarstjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK22120052

  6. Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa, dags. 31. janúar 2023. USK22120096

    Fylgigögn

  7. Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 21. desember 2022 ásamt kæru nr. 144/2022, dags. 17. desember 2022 þar sem kærð er ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur þann 24. nóvember 2022 um breytingu á deiliskipulagi Ármannsreits er felur í sér auknar heimildir til nýtingar sameinaðrar lóðar að Sóltúni 2-4. Einnig er lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 31. janúar 2023. Úrskurðarorð: Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. USK22123007

  8. Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. júní 2022, ásamt kæru nr. 64/2022, dags. 21. júní 2022, þar sem kærð ákvörðun skipulags- og samgönguráðs frá 9. febrúar 2022 og borgarráðs frá 24. febrúar 2022 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi á Hlíðarenda vegna reita G, H og I. Einnig er lögð fram greinargerð Reykjavíkurborgar, dags. 26. júlí 2022. Jafnframt er lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 30. janúar 2023. Úrskurðarorð: Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs frá 24. febrúar 2022 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Hlíðarenda vega reita G, H og I. SN220430

  9. Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. júlí 2022, ásamt kæru nr. 78/2023, dags. 16. júlí 2022, þar sem kærð er ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur þann 24. febrúar 2022, að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Hliðarenda vegna reita G, H og I. Einnig er lögð fram greinargerð Reykjavíkurborgar, dags. 26. júlí 2022. Jafnframt er lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 30. janúar 2023. Úrskurðarorð: Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs frá 24. febrúar 2022 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Hlíðarenda vega reita G, H og I. SN220461

  10. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðiflokksins um Gangbraut yfir Kollagrund við Klébergsskóla, sbr. 29. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 11. janúar 2023.
    Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar inn í vinnu um umferðaröryggisáætlun. USK23010121

  11. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um umhverfismál, sbr. 35. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 11. janúar 2023. Greinargerð fylgir tillögunni.
    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða. USK23010119

    Fylgigögn

  12. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um kolefnisútblástur stórra og meðalstórra fyrirtækja, sbr. 38. lið fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 11. janúar 2023.
    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða. USK23010118

  13. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um göngu- og hjólastíga, sbr. 41. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 11. janúar 2023.
    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar. USK23010144

  14. Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Í borginni rísa hverfi byggð á hugmyndum um vistvæna byggð og áherslu á aðra fararmáta en einkabíl. Í svörum til íbúa í Vogabyggð kemur fram að vetrarþjónusta verði ekki veitt í hverfinu fyrr en komið sé á eitthvert ótiltekið “framkvæmdarstig”, þó voru fyrstu íbúðir í þessum umbreytingarfasa hverfisins afhentar um haustið 2019 og er þetta því fjórði veturinn nú sem nýir íbúar eru án vetrarþjónustu. Íbúar sem hafa búið í hverfinu enn lengur vitna einnig um að vetrarþjónusta sem miðist að annarri umferð en bifreiða hafi aldrei verið veitt allan þann tíma sem þau hafi haft þar aðsetur en sé jafnvel verri nú en áður. Þrátt fyrir þetta ástand mála í Vogabyggð virðast önnur hverfi sem enn eru í uppbyggingu fá eðlilega vetrarþjónustu skv borgarvefsjá. Sömuleiðis vantar grunninnviði sem tryggja öryggi gangandi vegfarenda að þeim leikskóla sem reistur hefur verið fyrir börn hverfisins. Hvernig er farið að áætlun og skipulagi svokallaðra vistvænna hverfa, þegar kemur að málum sem þessum, er einhver áhersla lögð á að tryggt sé að fólk sem fjárfestir í húsnæði í slíkum hverfum, eða flyst í þau almennt, geti farið ferða sinna í öryggi án bifreiðar og að öðru leyti lifað eftir þeim formerkjum sem hverfin eru auglýst með? USK23020100

  15. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir samantekt á öllum fyrirspurnum og tillögum sem enn er ósvarað/afgreiddar sem lagðar hafa verið fram af Flokki fólksins á þessu og síðasta kjörtímabili á umhverfis- og skipulagsráði USK23020098

  16. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um af hverju SORPA eða einstök sveitarfélög eru ekki búin að skipuleggja/semja um að flytja út sorp til brennslu. Álfsnes er að verða fullnýtt sem urðunarstaður, en er áfram nýtt. Í Evrópu vantar orku og eftirspurn er töluverð eftir úrgangi til brennslu. Félög eins og ÍGF og Terra geta auðveldlega bætt á sig að flytja út sorp til brennslu og þar með létt á urðun á Álfsnesi. Á hverju stendur eiginlega? Nú þarf að að skipuleggja og framkvæma. USK23020099

Fundi slitið kl. 11:20

Alexandra Briem Aðalsteinn Haukur Sverrisson

Hjálmar Sveinsson Kjartan Magnússon

Líf Magneudóttir Pawel Bartoszek

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 8. febrúar 2023