Umhverfis- og skipulagsráð - Fundur nr. 256

Umhverfis- og skipulagsráð

Ár 2023, miðvikudaginn 1. febrúar, kl. 9:12 var haldinn 256. fundur umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Alexandra Briem, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Pawel Bartoszek og áheyrnarfulltrúarnir Kolbrún Baldursdóttir og Trausti Breiðfjörð Magnússon. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild: Aðalsteinn Haukur Sverrisson Hildur Björnsdóttir og Líf Magneudóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Björn Axelsson, Borghildur Sölvey Sturludóttir, Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, Guðmundur Benedikt Friðriksson, Gunnar Hersveinn Sigursteinsson, Inga Rún Sigurðardóttir og Sigurjóna Guðnadóttir.
Fundarritari var Glóey Helgudóttur Finnsdóttir.
 

Þetta gerðist:

  1. Staða og skipulag undirbúnings Borgarlínunnar kynnt.

     

    Arndís Ósk Arnalds og Bryndís Friðriksdóttir frá Vegagerðinni, Bjarni Rúnar Ingvarsson deildarstjóri og Atli Björn Leví verkefnastjóri taka sæti á fundinum undir þessum lið. USK22030185

     

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

     

    Engar beinar framkvæmdir eru farnar af stað vegna borgarlínunnar sjálfrar. Búið er að kynna nýja kostnaðaráætlun vegna verkefna samgöngusáttmálans. Kostnaður við tengd verkefni eykur heildarkostnaðinn. Nýlega var fjallað um það að kostnaður við samgöngusáttmálann aukist um 120 í rúma 170 milljarðar króna og fyrsti áfangi borgarlínu kostar 28. milljarða. Kostnaður við borgarlínu fer úr 49.6 í 68.6 milljarða einmitt vegna þessa fyrsta áfanga. Tugir milljarða fara í stokka. Þetta á að fjármagna m.a. með þróun Keldnalandsins og tafagjöldum, verði ákveðið að leggja þau á. Flokkur fólksins hefur áður bent á þennan “annan kostnað” sem tengist borgarlínuverkefninu sem að ekki mun bókast sem kostnaður við borgarlínuna. Jafnvel tug milljarða stokkar við Sæbraut og Miklubraut sem tekið verður sem samgönguverkefni. Hluti af því er til að mynda rými fyrir borgarlínuna. Nú er Reykjavíkurborg að biðja um að stokkar verði sérstyrktir til að halda hugsanlegum byggingum við stokkinn. Svo verður að taka inn í reikninginn að umferðartafir vegna þessa stokkaframkvæmda mun verða gríðarlegur. Hvert er þjóðhagslegt tjón af þeim töfum og hefur það verið reiknað út? Þá veit engin hvað rekstrarkostnaður borgarlínunnar verður. Margur “annar kostnaður” mun því gera þetta verkefni dýrara en lagt er upp með.
     

  2. Kynning á matsáætlun og væntanlegu samráðsferli vegna gatnamóta Reykjanesbrautar og Bústaðavegar, verkefni samgöngusáttmála.

     

    Berglind Hallgrímsdóttir frá Eflu, Bryndís Friðriksdóttir og Kristján Árni Kristjánsson frá Vegagerðinni, Atli Björn Levy verkefnastjóri og Bjarni Rúnar Ingvarsson deildarstjóri taka sæti á fundinum undir þessum lið. USK21120157

     

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Breytingar á gatnamótum Reykjanesbrautar og Bústaðavegar hafa lengi verið til umræðu og nú eru valmöguleikarnir að verða skýrir. Það er mikilvægt að nú farið verði í öflugt samráð við íbúa og kynningu á þeim möguleikum sem í boði eru. Það skiptir máli að leysa úr þessum umferðarþungu gatnamótum í eins mikilli sátt og kostur er. Áhrif á almenningssamgöngur og legu borgarlínu eru hluti af því sem þarf að taka afstöðu til, en einnig áhrif á bústaðahverfi og Blesugróf.

     

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

     

    Þetta verkefni er hluti af samgöngusáttmálanum. Allar tillögur sem snúa að Borgarlínu á þessum stað bjóða ekki upp á tengingu inn á Reykjanesbraut til vinstri. Leita þarf annarra leiða af Bústaðavegi. Ástandið þarna er slæmt núna og nú liggur fyrir að mikil seinkun er á borgarlínu. Bæta þarf umferðarflæði á gatnamótum Reykjanesbrautar og Breiðholtsbrautar. Það vandamál þarf að leysa. Vandinn þar er áratuga gamall og hafa tafir á umferð kostað sitt, bæði í tíma og eldsneytiskostnaði. Umferðarflæðið snertir einkum Breiðholtsbúa, auk þeirra sem koma úr syðri sveitarfélögum. Þessi gatnamót eru talin vera ein hættulegustu gatnamót höfuðborgarsvæðisins og er það mat fjölmargra að ef einhvers staðar ættu að vera mislæg gatnamót þá er það þarna. Sjálfsagt er að kanna hvort stokkalausnir eru mögulegar, einkum með tilliti til umhverfisáhrifa. Auka þarf afkastagetu í sátt við borgarbúa náttúru á þessum stað. Raskið á Elliðaárdalnum vegna mislægra gatnamóta á þessum stað er mun minna en verður á Elliðaárdalnum vegna tengingar Arnarnesvegar við Breiðholtsbraut samkv. sérfræðingum. Lausnir sem framkalla hávaða þarf að skoða vandlega því hljóðmanir duga ekki til að dempa hávaða frá umferð. Erfitt er að leysa hljóðvist í Blesugróf.
     

  3.  Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar dags. 26. janúar 2023 þar sem lagt er til að umhverfis- og skipulagsráð samþykki að veita heimild fyrir áframhaldandi undirbúningi, verkhönnun og gerð útboðsgagna, í samvinnu við Vegagerðina, vegna breytinga á fyrirkomulagi á gatnamótum Sæbrautar og Skeiðarvogs/Kleppsmýrarvegs. Breytingarnar felast í að: ein vinstribeygjuakrein verði af Kleppsmýrarvegi, við Sæbraut, í stað tveggja. Miðeyjur á Sæbraut verði lagfærðar. Gönguleið sunnan Kleppsmýrarvegar verði breikkuð. Gangbrautir verði á öllum framhjáhlaupum með hraðalækkandi aðgerðum. Götulýsing verði bætt . Greinargerð fylgir tillögunni. Einnig eru lögð fram minnisblöð frá umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkur dags. 26. janúar 2023 og Eflu dags. 27. september 2022. Samþykkt að veita heimild fyrir áframhaldandi undirbúningi, verkhönnun og gerð útboðsgagna, í samvinnu við Vegagerðina, vegna breytinga á fyrirkomulagi á gatnamótum Sæbrautar og Skeiðarvogs/Kleppsmýrarvegs. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins situr hjá við afgreiðslu máls.

     

    Berglind Hallgrímsdóttir frá Eflu, Bryndís Friðriksdóttir, Katrín Halldórsdóttir og Kristján Árni Kristjánsson frá Vegagerðinni, Atli Björn Levy verkefnastjóri, Bjarni Rúnar Ingvarsson deildarstjóri og Höskuldur R. Guðjónsson verkefnastjóri taka sæti á fundinum undir þessum lið. USK23010060

     

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

     

    Bráðbrigðabreytingar á gatnamótum Sæbrautar og Kleppsmýrarvegs auka öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda á meðan unnið er að uppsetningu göngubrúar. Við fögnum þeim.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

     

    Í gögnum er slysasaga við þessi gatnamót rakin og hún er talsverð. Það liggur fyrir að hraði bíla minnkar vegna hraðaminnkandi aðgerða. Nú á að gera breytingar á umferðarflæði og það er til bóta. Nú er vinstri beygja á tveimur akreinum frá Kleppsmýrarvegi á sama tíma og gangandi vegfarendur fara yfir Sæbraut sem er mjög óæskilegt m.t.t. umferðaröryggis. Fækka á um aðra vinstribeygjuna á Kleppsvegi. Aðgerðin, að aðeins sé ein vinstri beygjurein frá Kleppsmýrarvegi, suður Sæbraut mun óhjákvæmilega minnka flæði ökutækja frá Kleppsmýrarvegi á annatíma. Ávinningur m.t.t. umferðaröryggis er ótvíræður og er það gott. Í undirbúningi er að gera bráðabirgðagöngubrú til að auka öryggi gangandi vegfarenda á leið yfir Sæbraut enn frekar þar til stokkur verður gerður. Hraða þarf að koma í gang alvöru aðgerðum til að leysa þessi hættulegu gatnamót sem er brú og stokkur. Á meðan munu þessar tímabundnu lausnir vonandi virka sem skyldi.
     

    Fylgigögn

  4. Lögð fram tillaga  umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar dags. 25. janúar 2023 þar sem lagt er til að umhverfis- og skipulagsráð samþykki eftirfarandi sérákvæði fyrir umferð: Gönguþverun yfir frárein af Sæbraut inn á Skeiðarvog verði merkt sem gangbraut, gönguþverun yfir frárein af Sæbraut inn á Kleppsmýrarveg verði merkt sem gangbraut, gönguþverun yfir aðrein af Kleppsmýrarveg inn á Sæbraut verði merkt sem gangbraut og gönguþverun yfir aðrein af Skeiðarvogi inn á Sæbraut verði merkt sem gangbraut. Ofangreindar ráðstafanir verði merktar með viðeigandi umferðarmerkjum og yfirborðsmerkingum í samræmi við reglugerð nr. 289/1995, um umferðarmerki og notkun þeirra, með áorðnum breytingum. Greinargerð fylgir tillögunni. Einnig er lagt fram bréf Vegagerðarinnar dags. 10. janúar 2023. Samþykkt. USK22010020

     

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

     

    Um er að ræð upphækkanir og merkingar á gangbrautum þvert yfir veg á gatnamótum Sæbrautar og Skeiðarársvogs/Kleppsmýrarveg. Að gera gangbrautir vel sýnilegar með upphækkun er sjálfsagt mál og þarna sem annars staða á að taka mikið tillit til gangandi vegfaranda.
     

    Fylgigögn

  5. Skrifstofa samgöngustjóra og borgarhönnunar leggur til að umhverfis- og skipulagsráð samþykki að veita heimild fyrir áframhaldandi undirbúningi, verkhönnun og gerð útboðsgagna vegna breytinga á fyrirkomulagi gangstéttar og bílastæða við Brautarholt 16-20 í samræmi við hjálagða skýringarmynd dags. 26. janúar 2023 og vinni í kjölfarið forhönnun að endurhönnun götunnar í heild þar sem lögð er áhersla vistlegt yfirbragð götunnar þar sem eru góðar aðstæður fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur og gróður. Greinargerð fylgir tillögunni. Frestað. USK22120052

  6. Lögð fram umsagnarbeiðni Skipulagsstofnunar dags. 16. desember 2022 vegna breytingar á Hamraneslínum 1 og 2, ásamt skýrsla Landsnets dags. 13. desember 2022: Breytingar á Hamraneslínum 1 og 2 fyrirspurn um matsskyldu. Einnig er lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, um breytingar á Haraneslínu 1 og  2, dags. 23. janúar 2023.

     

    Þórólfur Jónsson deildarstjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK22122937

     

    Umhverfis- og skipulagsráð leggur fram svohljóðandi bókun:

     

    Í aðalskipulagi Reykjavíkur hefur til áratuga verið gert ráð fyrir að Hamraneslínur víki úr Heiðmörk. Með þessari endurnýjun virðist vera stefnt að því að lengja líftíma þeirra um 30 ár í núverandi legu og eru það vonbrigði. Ráðið leggur áherslu á að opnað verði á samtal við Landsnet um framtíðaráform þar sem komið verði til móts við Reykjavíkurborg og það samkomulag sem talið var að væri í gildi.

     

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

     

    Breyting á Hamraneslínum 1 og 2, umsögn. Líklega er hér um nauðsynlega aðgerð að ræða, en sýnir einnig að lagning jarðstrengs er ekkert einfalt mál. Þetta svæði er ekki í borgarlandinu. Breytingin á sér ekki stað í Reykjavík en línan liggur hjá Rauðavatni og beint suður til Hafnarfjarðar. Hafnarfjörður vill þetta í burtu til að skipuleggja íbúðahverfi og vilja því færa línuna í jörð. Fram kemur í umsögn og tekið er undir það að það eru vonbrigði að “línurnar séu ekki að fara úr útivistarsvæðinu í Heiðmörk þó skilningur sé á forsendubreytingum fyrir valkosti sem orðið hafa, þ.e. eldvirkni á Reykjanesi.” Fulltrúi Flokks fólksins telur að umsögnin hefði mátt taka á fleiri þáttum í þessu sambandi og þá að ávarpa þróun málsins til framtíðar.
     

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf Orkuveitu Reykjavíkur, dags. 31. janúar 2023,  um samstarf um endurheimt náttúrugæða í Elliðaárdal vegna niðurlagningaráætlunar Elliðaárvirkjunar og endurskoðunar á gildandi deiliskipulagi svæðisins. Einnig er lögð fram samantekt Orkuveitu Reykjavíkur, ódags. og samanburðaáætlun Verkís, dags. í september 2022.

     

    Eiríkur Hjálmarsson frá Orkuveitu Reykjavíkur tekur sæti á fundinum með rafrænum hætti. USK23010309

     

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar, Sjálfstæðisflokksins, Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:

     

    Ekki er gerð athugasemd við að umhverfis-og skipulagssvið hefji undirbúning á endurskoðun deiliskipulags Elliðaárdals samhliða gerð niðurlagningaráætlunar sem Orkuveitu Reykjavíkur ber að vinna. Mikilvægt er náin samvinna sé milli Orkuveitu og Reykjavíkurborgar við hvoru tveggja og leggja skal áherslu á samtal við hagaðila og vandaða upplýsingagjöf í ferlinu öllu.

     

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

     

    Það er afstaða fulltrúa Flokks fólksins að varðveita náttúru eins og hægt er. Því miður hefur verið gengið freklega á græn svæði, fjörur og aðra náttúru í borgarlandinu. Nú þegar er Elliðaárdalurinn heilmikið mótaður af mönnum og náttúran hefur vikið. Skoðun fulltrúa Flokks fólksins er að náttúran eigi að njóta vafans og unnið verði að því að Elliðaárnar renni eins og áður en þær voru virkjaðar. Ef heldur áfram sem horfir með þá stefnu sem meirihlutinn rekur þá mun að lokum hvergi finnast ósnortin náttúra lengur í borgarlandinu. Stíflan hefur verið varanlega tæmd og fyrir liggur að OR er hætt raforkuframleiðslu í Elliðaám. Hvort stíflan fari eða veri og veri hún, hvort þá verði gert eitthvað með hana er allt opið eftir því sem fram kemur í skýrslu sem liggur fyrir um málið. Þar kom m.a. fram að nauðsynlegt er að hafa enn viðameira samráð og við fleiri aðila til að komast hjá óþarfa árekstrum. Tryggja verður alvöru samtal, samráð og upplýsingaflæði á meðal lykilaðila, íbúa og áhugafólks um dalinn. Þeir sem vilja stífluna burt rökstyðja mál sitt þannig að öðruvísi verði Elliðaárdalurinn ekki færður í fyrra form. Einnig er þetta spurning um hið “sjónræna” Dalurinn verður þá ekki lengur tvískiptur.
     

    Fylgigögn

  8. Lögð fram fundargerð embættisafgreiðslufunda skipulagsfulltrúa frá 26. janúar 2023. USK23010150

    Fylgigögn

  9. Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa, dags. 24. janúar 2023. USK22120096

    Fylgigögn

  10. Lagt fram uppgjör umhverfis- og skipulagssviðs janúar - nóvember 2022.

     

    Hreinn Ólafsson fjármálastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23010311
     

  11. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 19. janúar 2023, vegna samþykktar borgarráðs s.d. á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Spöngina, einingu H, vegna hjúkrunarheimilis við Mosaveg. SN220067

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 19. janúar 2023, vegna samþykktar borgarráðs s.d. á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi reits 1.184.0, Bergstaðastrætisreita, vegna lóðanna nr. 4, 4B, 6 og 6B við Spítalastíg. USK22122958

    Fylgigögn

  13. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 19. janúar 2023, vegna samþykktar borgarráðs s.d. á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi reits 1.133.1, Landhelgisgæslureits, vegna lóðarinnar nr. 61 við Vesturgötu. SN220428

    Fylgigögn

  14. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 25. janúar 2023, vegna samþykktar borgarstjórnar þann 6. desember 2022 á 3. lið fundargerðar borgarráðs frá 24. nóvember 2022 um breyting á deiliskipulagi Ármannsreits vegna Sóltúns 2-4. SN210452

    Fylgigögn

  15. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 25. janúar 2023, vegna samþykktar borgarstjórnar þann 6. desember 2022 á 2. lið fundargerðar borgarráðs frá 24. nóvember 2022 um deiliskipulag fyrir Presthús á Kjalarnesi. SN210265

    Fylgigögn

  16. Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. janúar 2023, ásamt kæru, dags. 16. janúar 2023, þar sem kærð er samþykkt borgarstjórnar frá 6. desember 2022 um nýtt deiliskipulag fyrir jörðina Prestshús á Kjalarnesi. USK23010279

  17. Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. nóvember 2022, ásamt kæru nr. 131/2022, dags. 15. nóvember 2022, þar sem kærð er ákvörðun Reykjavíkurborgar um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar nr. 26 við Kvistaland. Einnig er lögð fram greinargerð Reykjavíkurborgar, dags. 24. janúar 2023. SN220758

  18. Kynning á umsögn um tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um lýsingartíma við götur og göngu- og hjólastíga, sem lögð var fram á fundi umhverfis- og skipulagsárs, dags. 25. janúar 2023. Samþykkt. Fulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins.

     

    Hjalti Jóhannes Guðmundsson, skrifstofustjóri og Ársæll Jóhannsson, byggingartæknifræðingur taka sæti á fundinum undir þessum lið. USK22110142

     

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar, Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:

     

    Líkt og fram kemur í umsögn sviðsins var ákveðið að breyta lýsingatíma gatnalýsingar í́ Reykjavík til samræmis við önnur nágrannasveitarfélög um seinustu áramót. Efni tillögunnar hefur því þegar komið til framkvæmda en ráðið styður þær aðgerðir sem í henni fólust.
     

    Fylgigögn

  19. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um fjölda íbúða sem standa auðar núna hjá Félagsbústöðum vegna standsetningar eða vegna annarra ástæðna, sbr. 39. lið fundargerðar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 14. desember 2022. Einnig er lagt fram svar Félagsbústaða, dags. 26. janúar 2023. USK22122900

     

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

     

    Fulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir upplýsingum fjölda íbúða sem standa auðar hjá Félagsbústöðum vegna standsetningar eða af öðrum ástæðum. Spurt er vegna erfiðleika á húsnæðismarkaði og því mikilvægt að nýta íbúðir Félagsbústaða sem best. Í svari segir að þann 26. janúar 2023 eru 65 íbúðir/leigueiningar skráðar í standsetningu/viðhald og er staða þeirra mismunandi. Það sem skiptir hvað mestu máli er sá tími sem tekur að standsetja íbúðirnar og koma þeim í gagnið aftur. Af svari að dæma er sá tími sem það tekur ekki óeðlilegur eða frá 3 vikum í 8 vikur en lengur fyrir þær íbúðir sem þurfa heildarendurnýjun.
     

    Fylgigögn

  20. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um stoppistöð Strætó við Esjuna, sbr. 28. lið fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 11. janúar 2023.

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar. USK23010122

  21. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um strætóleið nr. 14, sbr. 15. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 18. janúar 2023.

    Tillögunni er vísað til meðferðar Strætó bs. USK23010214

  22. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Vinstri grænna um stýrihóp fyrir aðgerðir til að bregðast við loftmengun á gulum og gráum dögum, sbr. 16. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 18. janúar 2023.

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar. USK23010211

  23. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um strætó og orkumál, sbr. 34. lið fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 11. janúar 2023.

    Vísað til meðferðar Strætó bs. USK23010123

  24. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um Siglunes, sbr. 40. lið fundargerðar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 14. desember 2022.

    Tillögunni er vísað frá. USK22122901

     

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

     

    Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram á síðasta fundi fyrirspurn um hvernig meirihlutinn ætlar að taka á áskorun fjölmargra um að hætta við að loka siglingafélaginu Siglunesi eins og meirihlutinn hefur lagt til? Fyrirspurninni er vísað frá með þeim rökum að umhverfis- og skipulagsráð getur ekki svarað henni. Meðal sparnaðartillagna meirihlutans voru því miður nokkrar tillögur sem höggva þungt, skerða þjónustu og starfsemi sem stór hópur fólks nýtur og þarfnast. Ekkert samráð var haft um það að leggja niður starfsemi Sigluness. Ein þessara ákvarðana hefur verið snúið til baka, Vin dagsetur fær að halda áfram alla vega til áramóta. Unglingasmiðjurnar Stígur og Tröð leggjast af markhópi úrræðanna verði sinnt í samstarfi fagfólks félagsmiðstöðva sem nú þegar anna nú þegar ekki starfseminni. Unglingasmiðjurnar Stígur og Tröð hafa tekið á móti unglingum sem hafa orðið fyrir einelti, eru óframfærnir eða óvirkir, sýna einkenni kvíða og þunglyndis. Starfsemi Siglunes er einstök, fyrst og fremst fyrir þær sakir að þar er ekki rekið hefðbundið íþróttastarf. Iðkendur stunda ekki æfingar, keppa ekki og þar er engin afreksstefna. Þar fá öll börn, og sér í lagi þau sem ekki finna sig í hefðbundnu afreksstarfi íþróttafélaganna, að finna kröftum sínum farveg til að eflast og þroskast á jafningja grundvelli.
     

  25. Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi tillögu:

     

    Lagt er til að Reykjavíkurborg tryggi aukna tíðni hjá Strætó á þeim leiðum sem ganga innan borgarinnar. Leiðirnar gangi þannig á 10 mínútna fresti á virkum dögum. Greinargerð fylgir tillögunni.

    Frestað. USK23020017

    Fylgigögn

  26. Fulltrúi Viðreisnar leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

     

    Reglulega koma fram fyrirspurnir frá íbúum um að breyta bílskúrum. Algengast er að óskað sé eftir að þeim sé breytt í íbúðir, vinnustofur eða atvinnuhúsnæði. Svörin við fyrirspurnum geta verið misjöfn eftir staðsetningu, gildandi skipulagi, fyrirhugaðri notkun og fleiri þáttum. Óskað eftir lista yfir innsendar fyrirspurnir um breytingar á bílskúrum frá 2021  ásamt stuttri reifun á niðurstöðu í hverju þeirra. USK23020020
     

  27. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

     

    Flokkur fólksins óskar upplýsingar um hvort fylgst sé með aksturslag strætóbílstjóra og hvort þeir fylgi eftir þjónustu stefnunni. Óskað er eftir yfirlit  yfir stöðu þjónustumála síðustu 5 ár. Ökulag, ekið of hratt og ekki varkárni gætt. Flokkur fólksins hefur fengið ábendingar um að stundum er ekið af stað áður en fólk hefur komið sér í sæti og t.d. fólk með börn hefur næstu verið dottið. Eins er mikilvægt að bílstjórar sýni vinsemd og kurteisi eins og flestir bílstjórar gera án efa. Minnt er á þjónustustefnu Strætó sem stjórn hefur einmitt verið að státa sig af. Segir í henni að bílstjórar og annað starfsfólk eigi að vera vingjarnlegt og hjálpfúst gagnvart öllum viðskiptavinum. Bílstjóri ber ábyrgð á sínum farþegum og  að þeir komist heilir út úr vagninum. Staða strætisvagnabílstjóra er eins og staða flugstjóra. Velferð og öryggi farþega á að vera þeim mikilvæg. USK23020013
     

  28. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

     

    Nú stendur til árið 2024 að hefja framkvæmdir við Sæbraut í stokk. Sú framkvæmd á að taka 3 ár og á meðan verður einungis ein akrein í hvora átt. Það mun þýða að álag mun aukast á aðrar brautir og mögulega Skeiðarvog þegar bílar eru að reyna að komast fram hjá Sæbraut. Fulltrúi Flokks fólksins óskar að spyrja hvort þetta hafi verið skoðað eða kannað? Nú er töluverð umferð bíla um Súðarvog og Skeiðarárvog norðan frá. Súðarvogi verður alfarið lokað 2024 og því mun umferð aukast um Skeiðarárvog og Skútuvog og hugsanlega inn í hverfi. En fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um hvert fer umferðin af Sæbraut fer? Þarf að hafa stokk frá Ártúnshöfða að Skeiðarárvogi? Sá stokkur mun alla vega kosta  15 milljarða. Ef að umferðin beinist inn í hverfi, mun þá slysahætta aukast þar? Þarf að fara í aðgerðir til að minnka þá hættu? USK23020015
     

  29. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

     

    Fulltrúi Flokks fólksins fékk sent erindi frá borgarbúa sem sendi inn ábendingu inn á ábendingarvefinn en fékk óljóst og óskýrt svar. Um varð að ræða umferðaröryggi á Laugarásvegi. Þar vantar merkingar um að hraði var lækkaður í 30 km/klst. fyrir nokkru síðan. Sárlega vantar skýrar og sýnilegar bæði sérskilti og að málað sé á götuna. Þetta er ein lengsta íbúðargata í hverfinu sem veldur því að bílar keyra iðulega mjög hratt og langt umfram hámarkshraða á götunni. Vinsamlegast gangið í málið sem allra fyrst, það er fjöldinn allur af börnum sem búa við þessa götu. Í svari til viðkomanda sem sendi inn ábendinguna segir að „ábendingunni hefði verið lokað“. Ekki stóð neitt frekar hvað yrði gert ef eitthvað. Engin frekari skýring. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvaða reglur gilda um þegar fólki sem sem sendir inn ábendingar er svarað. Spurt er hér hvað þetta þýðir að svara „að ábendingu hafi verið „lokað“ og hvaða ályktanir eigi að draga að svari sem þessu. USK23020022

     

    -             Kl. 12:09 víkur Hildur Björnsdóttir af fundi.

Fundi slitið kl. 12:22

Alexandra Briem Aðalsteinn Haukur Sverrisson

Hjálmar Sveinsson Kjartan Magnússon

Líf Magneudóttir Pawel Bartoszek

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 1. febrúar 2023