Umhverfis- og skipulagsráð - Fundur nr. 255

Umhverfis- og skipulagsráð

Ár 2023, miðvikudaginn 25. janúar, kl. 09:10 var haldinn 255. fundur umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Alexandra Briem, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Líf Magneudóttir, Marta Guðjónsdóttir, Pawel Bartoszek, Unnur Þöll Benediktsdóttir og áheyrnarfulltrúarnir Helga Þórðardóttir og Trausti Breiðfjörð Magnússon. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Björn Axelsson, Borghildur Sölvey Sturludóttir, Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, Guðmundur Benedikt Friðriksson, Guðmundur Hersveinn Sigursteinsson, Inga Rún Sigurðardóttir og Dagný Alma Jónasdóttir.
Fundarritari var Erna Hrönn Geirsdóttir.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa, dags. 17. janúar 2023. USK22120096

    Fylgigögn

  2. Lögð fram og kynnt ársskýrsla Byggingarfulltrúans í Reykjavík fyrir árið 2022 ásamt yfirliti yfir úrskurði kærumála 2022 hjá Úrskurðanefnd umhverfis- og auðlindamála.

    Nikulás Úlfar Másson, byggingarfulltrúi tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23010174

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í skýrslunni er yfirlit yfir samþykkt byggingarmagn á árinu 2022 og það borið saman við byggingarmagn síðustu ára. Í Fasteignaskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar voru 1.062 nýjar íbúðir skráðar fullgerðar og teknar í notkun á árinu 2022. Mótteknir uppdrættir eru hlutfallslega fáir 2022. En svo má spyrja hvort þessar tölur séu áreiðanlegar. Komið hefur í ljós að mælaborð borgarinnar yfir uppbyggingu húsnæðis á vefsíðu Reykjavíkurborgar er ekki í samræmi við mælaborð Húsnæðis og mannvirkjastofnunar en það er mælaborð sem er rauntímauppbygging á húsnæði á landinu öllu. Það eru tvö mælaborð í gangi, sem er út af fyrir sig afar sérstakt, þ.e. að Reykjavíkurborg skuli fjárfesta í slíku þegar HMS hefur þetta aðallega á sinni könnu. Svo virðist sem ekki sé tenging þarna á milli en gerð mælaborðs af þessu tagi hlýtur að kosta peninga og tíma. Ef leggja ætti mat á þessar upplýsingar þá er lítill gangur í byggingargeiranum og klárlega ekki nóg byggt sem er ávísun á að íbúðaverð verði enn hátt. Fram kemur að mesta byggingarmagn var samþykkt árið 2018. Meirihlutinn hefur klifað stöðugt á því að aldrei hafi verið byggt eins mikið í Reykjavík og nú en það er ekki rétt samkvæmt þessari ársskýrslu.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram fundargerð SORPU bs., nr. 475, dags. 9. desember 2022. USK23010167

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Liður 5 og 6. Gallamál sem tengjast GAJU voru til umræðu undir þessum lið en engar niðurstöður eru birtar sem er bagalegt. Borgarbúar, meirihlutaeigendur SORPU, hafa ekki grænan grun um hvað fer fram bak við tjöldin í SORPU. Þetta getur varla talist góð stjórnsýsla eða gagnsæi til eigenda. Alvarleg mistök voru gerð hjá SORPU á síðasta kjörtímabili og er margt ennþá óljóst í þeim efnum. Til dæmis liggur ekki fyrir heildarkostnaður vegna byggingar GAJU, gas- og jarðgerðarstöðvar SORPU bs. Endanlegar upplýsingar um kostnað vegna galla liggja ekki fyrir og heldur ekki hver kostnaður hefur verið af málaferlum, endurbótum og viðgerðum sem gerðar hafa verið.

    Fylgigögn

  4. Lagðar fram fundargerðir embættisafgreiðslufunda skipulagsfulltrúa frá 12. og 19. janúar 2023. USK23010150

    Fylgigögn

  5. Lögð fram umsókn Faxaflóahafna sf., dags. 14. nóvember 2022, ásamt bréfi, dags. 11. nóvember 2022, varðandi breytingu á deiliskipulagi Skarfabakka, Klettavæðis vegna lóðanna nr. 6, 8 og 10 við Skarfagarða. Í breytingunni sem lögð er til felst sameining lóðanna, afmörkun lóðar breytist og stækkar til norðurs, bætt er við nýjum byggingarreit og núverandi byggingarreitur fellur niður, samkvæmt uppdr. Arkís arkitekta 16. janúar 2023. Erindinu var vísað til meðferðar verkefnisstjóra og er nú lagt fram að nýju. Lagt er til að tillagan verði afgreidd í auglýsingu.
    Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
    Vísað til borgarráðs. SN220719

    Fylgigögn

  6. Kynning á ljósmyndaverkefni sem unnið er í samvinnu skipulagsfulltrúa og Borgarsögusafns Reykjavíkur.

    Guðbrandur Benediktsson, forstöðumaður Borgarsögusafns tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23010232

  7. Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju umsókn K.J.ARK slf., dags. 20. júlí 2022, um breytingu á deiliskipulagi Esjumela vegna lóðarinnar nr. 1 við Gullsléttu. Í breytingunni sem lögð er til felst að heimilt verði að skipta upp lóðinni í fjórar lóðir, breyta byggingareitum, færa innkeyrslur til ásamt því að bæta einni við og hækka/samræma hæðina á húsunum óháð því hvort um vegghæð eða mænishæð er að ræða, samkvæmt uppdr. K.J.ARK slf., dags. 19. júlí 2022. Einnig lagður fram tölvupóstur íbúaráðs Kjalarness dags. 3. nóvember 2022, þar sem óskað er eftir framlengdum athugasemdartíma. Tillagan var auglýst frá 27. september 2022 til og með 24. nóvember 2022. Eftirtaldir sendu athugasemdir: íbúaráðs Kjalarness, dags. 3. nóvember 2022, og Sigríður Ingólfsdóttir, dags. 8. nóvember 2022. Einnig er lögð fram ábending Veitna, dags. 7. október 2022. Jafnframt er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 19. janúar 2023. Lagt er til að tillagan verði samþykkt.
    Samþykkt sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
    Vísað til borgarráðs. SN220460

    Fylgigögn

  8. Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að breytingu á deiliskipulagi Vesturbæjarlaugar. Í breytingunni felst að lóðarmörk við Einimel 18-26 eru færð út sem nemur 3,1 m og minnkar lóð Vesturbæjarlaugar sem því nemur, samkvæmt deiliskipulags- og skýringaruppdr. Eflu dags. 27. janúar 2022, br. 30. nóvember 2022. Tillagan var auglýst frá 2. mars 2022 til og með 13. apríl 2022. Eftirtaldir sendu athugasemdir/ábendingu: Þórhallur Ólafsson dags. 25. febrúar 2022, Jónína Ólafsdóttir dags. 2. mars 2022, Guðný Kjartansdóttir dags. 2. mars 2022, Ólafur Jóhannsson dags. 2. mars 2022, Daði Þorsteinn Sveinbjörnsson dags. 8. mars 2022, A. Hlín Brynjólfsdóttir dags. 17. mars 2022, Andri Ólafsson dags. 18. mars 2022, Sigríður Guðmundsdóttir dags. 21. mars 2022, Jón Gunnar dags. 21. mars 2022, Jónas Þór Snæbjörnsson dags. 21. mars 2022, Filipus Th Ólafsson dags. 21. mars 2022, Rósa Björk Gunnarsdóttir dags. 21. mars 2022, Ævar Rafnsson dags. 21. mars 2022, Gylfi Garðarsson dags. 22. mars 2022, Ólafur Örn Jónsson dags. 22. mars 2022, Árni Snævarr dags. 23. mars 2022, Snorri Þór Sigurðsson dags. 23. mars 2022, Björn B. Björnsson dags. 29. mars 2022, Teitur Atlason dags. 9. apríl 2022, Örn Úlfar Sævarsson dags. 12. apríl 2022 og Stefán A. Svensson f.h. íbúa Einimels 22, 24 og 26 dags. 13. apríl 2022. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa dags. 28. nóvember 2022. Lagt er til að tillagan verði samþykkt með þeim breytingum sem koma fram í umsögninni.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til að málinu verði frestað. Tillagan er felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum Sjálfstæðisflokksins. Fulltrúi Vinstri grænna situr hjá.

    Samþykkt með fjórum atkvæðu fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar, sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með þeim breytingum sem koma fram í umsögn skipulagsfulltrúa dags. 28. nóvember 2022.
    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiða atkvæði gegn tillögunni.
    Fulltrúi Vinstri grænna situr hjá.
    Vísað til borgarráðs USK22120092

    Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er jákvætt að hægt sé að leysa úr lóðamálum á opna svæðinu við Vesturbæjarlaug með nýrri deiliskipulagstillögu. Tillagan gerir ráð fyrir að almenningssvæðið stækki umtalsvert frá því sem reyndin er nú. Málið er flókið og á sér langa sögu. Í þeim tilvikum þar íbúar vilja halda í hluta af lóðunum þurfa þeir að greiða fullt verð fyrir.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fyrirliggjandi tillaga felur í sér að mörk nokkurra einkalóða eru færð út um allt að 3,1 metra og að Sundlaugartúnið, sem er borgarland, minnki sem því nemur. Með breytingunni mun Sundlaugartúnið minnka um nokkur hundruð fermetra. Slíkt er óforsvaranlegt. Skortur er á grænum svæðum í Vesturbænum þar sem þeim hefur farið fækkandi á undanförnum árum. Með þessari ákvörðun heldur meirihluti Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar áfram á þeirri braut. Sundlaugartúnið er vinsælt leiksvæði barna og unglinga en með þessari ákvörðun er dregið úr möguleikum til notkunar þess og frekari þróunar sem almenningssvæðis. Stækkun einnar lóðarinnar um þrjá metra til norðurs er sérstakt áhyggjuefni. Með því er gengið á hverfisstíg, sem þjónar gangandi og hjólandi umferð margra Vesturbæinga. Til dæmis þeirra er sækja leikskólann Vesturborg, Melaskóla, Vesturbæjarsundlaug, grenndargáma við túnið og þjónustu bakarís og verslana við Hofsvallagötu. Stígurinn er þröngur og frekar ætti að leita leiða til að breikka hann en festa þrengingu hans í sessi eins og hér er lagt til. 

    Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Því skal haldið til haga að þó svo lóðamörk séu í einhverjum tilvikum færð utar og lóðahafar greiði fyrir það, þá eru girðingar sem hafa staðið til áratuga færðar innar og opið borgarland stækkar til muna með þessu samkomulagi.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Sósíalistar mótmæla því að lóðarmörk við Einimel 22-26 séu færð út og yfirtaki hluta af lóð við Vesturbæjarlaug sem er í eigu borgarbúa. Íbúar í einbýlishúsum við Einimel reistu girðingar inn fyrir það svæði og hindruðu þannig aðgang að almannalóð. Í stað þess að segja að slíkt sé óboðlegt ætlar borgin að gefa undan og stækka lóð viðkomandi. Með því er verið að setja slæmt fordæmi sem sendir þau skilaboð að með því að taka almannalóðir af borginni sé möguleiki á að hún gefi undan. Fulltrúi Sósíalista veltir því fyrir sér hvar slíka undangjöf er að finna gagnvart fátækum borgarbúum sem er oft og tíðum mætt með stálhnefa. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Færa á lóðarmörk við Einimel 18-26 sem nemur 3,1 m og minnkar lóð Vesturbæjarlaugar sem því nemur. Íbúar fá leyfi meirihlutans til að stækka lóð sína inn á tún Vesturbæjarlaugar. Ár er liðið frá því að tillögu um breytingu á lóðamörkum við Vesturbæjarlaug var fagnað og tilkynnt að sátt væri um málið. Samkvæmt athugasemdum í gögnum er greinilegt að þessi sátt var eingöngu sátt á milli meirihlutans og lóðareigenda. Haft var eftir meirihlutanum í bókun frá 2022 að með breytingunni stækkaði túnið miðað við raunverulega stöðu síðustu áratuga. Flokki fólksins finnst þetta sérkennileg röksemdafærsla því borgin á þetta land. Íbúar við Einimel fá leyfi meirihlutans til að stækka lóð sína inn á tún Vesturbæjarlaugar. Fulltrúi Flokks fólksins finnst verulega hæpið að leyfa stækkun lóða sem gengur á almennt grænt svæði. Eftir auglýsingu tillögunnar kemur fram mikil andstaða sem er eðlilegt enda fer landið úr almenningseigu í einkaeigu. Hér er um dýrmætt svæði að ræða og verðmæti sennilega það hæsta á öllu landinu. Landrými á þessu svæði er eftirsótt. Flokkur fólksins telur að þarna sé verið að minnka möguleikana á að skapa fjölreytt útivistarsvæði við Vesturbæjarlaug.

    Fylgigögn

  9. Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 12. janúar 2023 þar sem lagt er til að umhverfis- og skipulagsráð samþykki þá aðferðafræði við forgangsröðun borgargatna í Reykjavík sem lýst er í meðfylgjandi skjali. Greinargerð fylgir tillögunni. Einnig er lögð fram kortlagning á stöðu borgargatna frá VSO ráðgjöf, ásamt greinargerð, dags. júní 2022, uppfært í desember 2022 ásamt yfirliti yfir borgargötur - stöðumat.
    Frestað. USK22100096

  10. Lagt fram bréf Félag atvinnurekenda um samstarfsverkefni um nýtingu rafbíla við vörudreifingu í miðborg Reykjavíkur.
    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar. MSS22100082

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta gott eirndi og tekur heilshugar undir 1. lið þess sem er að borgin veiti i undanþágu frá reglum um hámarkslengd vörubifreiða sem nota má við vörudreifingu í miðborginni. Núgildandi reglur kveða á um 8 metra hámarkslengd, en Volvo-bíllinn sem Ölgerðin hefur tryggt sér er 8,5 metrar svo dæmi sé tekið. Varðandi lið 2 þar sem óskað er heimildar að rafknúnum vörubifreiðum verði leyft að aka á sérakreinum sem eingöngu strætó, leigubílum og neyðarumferð er heimilt að nota í dag skal hafa í huga að það mun þá tefja umferð á sérakreinum. Ef þessi fengju líka forgang þá þurfa aðrir að bíða. Að veita forgang kostar aðra alltaf eitthvað.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. nóvember 2022, ásamt kæru nr. 127/2022, dags. 14. nóvember 2022, þar sem sem kærð er ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 22. september 2022 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Mela vegna lóðarinnar nr. 66 við Reynimel, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs 14. september 2022. Einnig er lögð fram greinargerð Reykjavíkurborgar, dags. 3. janúar 2023. SN220751

  12. Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. desember 2022, ásamt kæru nr. 135/2022, dags. 2. desember 2022, þar sem kærð er ákvörðun um breytingu á deiliskipulagi fyrir Reynimel 66, sbr. auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda nr. 1218/2022, útgefin 8. nóvember 2022. Einnig er lögð fram greinargerð Reykjavíkurborgar, dags. 3. janúar 2023. SN220800

  13. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokks um lýsingartíma við götur og göngu- og hjólastíga, sbr. 20. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 23. nóvember 2022. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu borgarlandsins, dags. 16. janúar 2023.
    Frestað. USK22110142

    Fylgigögn

  14. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um bætta nýtingu á bílastæðum við ráðuneyti á Lindargötu, sbr. 55. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 10. ágúst 2022. Einnig er lagt fram svar skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 19. janúar 2023 USK22080114

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta gott eirndi og tekur heilshugar undir 1. lið þess sem er að borgin veiti i undanþágu frá reglum um hámarkslengd vörubifreiða sem nota má við vörudreifingu í miðborginni. Núgildandi reglur kveða á um 8 metra hámarkslengd, en Volvo-bíllinn sem Ölgerðin hefur tryggt sér er 8,5 metrar svo dæmi sé tekið. Varðandi lið 2 þar sem óskað er heimildar að rafknúnum vörubifreiðum verði leyft að aka á sérakreinum sem eingöngu strætó, leigubílum og neyðarumferð er heimilt að nota í dag skal hafa í huga að það mun þá tefja umferð á sérakreinum. Ef þessi fengju líka forgang þá þurfa aðrir að bíða. Að veita forgang kostar aðra alltaf eitthvað.

    Fylgigögn

  15. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um nýtingu bílahúsa, sbr. 34. liður fundargerðar skipulags- og samgönguráðs, dags. 24. nóvember 2021. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 19. janúar 2023. USK21120060

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins hefur lagt fram nokkrar tillögur um að auka nýtingu bílastæðahúsa. Fram kemur í svari að mest er notkun á dagvinnutíma á virkum dögum. Í einhverjum húsum er einnig mikil notkun á fimmtudags og föstudagskvöldum. Innan vikunnar er minnsta notkunin í húsunum á sunnudögum. Minnst er notkunin að nóttu til en það er þó mismunandi á milli húsa frá því að vera innan við 10% í rúmlega 40% á Vesturgötu um helgi samkv. svari. Fulltrúa Flokks fólksins finst það undarlegt að byggja bílahús og hafa nýtingu svo slaka sem raun ber vitni. Mikill skortur er á bílastæðum á götum og á meðan eru bílastæðahúsin hálf tóm. Margt er hægt að gera til að gera bílastæðahúsin meira aðlaðandi t.d. hafa meiri þjónustu og hafa þau opin allan sólarhringinn.

    Fylgigögn

  16. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um skilgreiningu á truflandi áhrifum, sbr. 29. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 30. nóvember 2022. Einnig er lagt fram svar skrifstofu stjórnsýslu og gæða, dags. 18. janúar 2023. USK22120012

    Fylgigögn

  17. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um lýsingu í borgarlandi, sbr. 23. lið fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 23. nóvember 2022. Einnig er lagt fram svar skrifstofu borgarlandsins, dags. 16. janúar 2023. USK22110145

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins spurði um lýsingu í borginni en borgarbúar hafa kvartað vegna mikils myrkurs og rekja má slys til ónógrar lýsingar í borginni. Í svari kemur fram að um síðustu áramót var lýsing bætt. Allt jákvætt um það að segja. Í borginni eru þó að finna dimm svæði þar sem bæta þarf lýsingu. Verkefni af þessu tagi þarf að vera í stöðugri endurskoðun og taka þarf öllum ábendingum sem berast vel. En allt kostar þetta og vissulega þarf að forgangsraða. Ef borgin ætlar að vera einhver alvöru þátttakandi í Nordic Safe Cities um öruggar borgir er ekki nóg að hafa það á blaði.

    Fylgigögn

  18. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar um umferðaröryggisaðgerðir í Skeifunni, sbr. 12. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 18. janúar 2023. Greinargerð fylgir tillögunni.
    Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar í vinnu um umferðaröryggisáætlun. USK23010201

    Fylgigögn

  19. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um Norðlingabraut, sbr. 13. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 18. janúar 2023.
    Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar í vinnu um umferðaröryggisáætlun. USK23010213

  20. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um Skógarsel, sbr. 14. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 18. janúar 2023.
    Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Í von um skjóta og góða úrlausn samþykkja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins þá afgreiðslu að tillögunni verði vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða. Einfaldara og betra hefði þó verið að vísa erindinu beint til Sorpu bs., sem sér um rekstur og losun umræddrar grenndarstöðvar við Skógarsel.

    Kl. 11:37 víkur Líf Magneudóttir af fundi. USK23010212

  21. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um að Umhverfis- og skipulagsráð samþykkir að fulltrúi leigjenda sitji í ráðinu, sbr 32. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 11. janúar 2023. Greinargerð fylgir tillögunni.
    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. USK23010114

    Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Breytingar á samþykktum þurfa að fara í gengum forsætisnefnd og borgarstjórn. Af okkar hálfu væri ekki rétt að bjóða fulltrúum hagaðila sæti í ráðinu. Það myndi strax kalla á óskir um að áheyrnarfulltrúum hagaðila væri fjölgað, með tilheyrandi, kostnaði og flækjustigi. Tillögunni er því vísað frá.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Samtök leigjenda hafa verið til í áratug og fengið umboð þúsunda leigjenda, verkalýðshreyfinga og stjórnvalda. Þarna er um samtök með mikla þekkingu á málum leigjenda að ræða. Leiguverð í Reykjavík og aðstæður leigjenda hafa versnað til muna að undanförnu. Í kosningabaráttunni voru flestir borgarfulltrúar opnir fyrir því að berjast fyrir leiguþaki/bremsu. En eftir þær var ljóst að gjörðir fylgdu ekki orðum. Í stað þess að beita sér fyrir hagsmunum leigjenda hefur umhverfis- og skipulagsráð ítrekað veitt verktökum og lóðabröskurum völdin yfir húsnæðismálunum. Þeirra hagsmunir ráða alfarið för. Þegar síðan er lagt til að leigjendur hafi eitthvað um þau mál að segja bregst meirihlutinn við með mikilli vörn. 

    Fylgigögn

  22. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um að borgin dragi til baka útvistanir í snjómokstri, sbr. 31. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 11. janúar 2023. Greinargerð fylgir tillögunni.
    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu borgarlandsins. USK23010115

    Fylgigögn

  23. Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Vinsti grænna um yfirlit forgangsröðunar fyrir árið 2023 á umferðaröryggi í húsagötum skv. Umferðaröryggisáætlun 2019-2023, sbr. 36. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 11. janúar 2023.
    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar. USK23010145

  24. Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Vinsti grænna um framfylgd stefnumörkunar um fækkun bílastæða í borgarlandinu, sbr. 37. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 11. janúar 2023.
    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar. USK23010146

  25. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um aðgengi á viðburðum, sbr. 14. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 21. september 2022.
    Vísað frá með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. USK22090117

  26. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um Svansvottun byggingar, sbr. 39. lið fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 11. janúar 2023.
    Vísað frá með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. USK23010113

  27. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um umferðamál, sbr. 40. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 11. janúar 2023.
    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

    Kl. 11:56 víkur Marta Guðjónsdóttir af fundi. USK23010147

  28. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Bifreiðar og strætisvagnar, hafa ítrekað lent í vandræðum í Fálkabakka vegna mikillar hálku að undanförnu. Um er að ræða þekkt og langvinnt vandamál en við slæmar aðstæður getur alvarleg hætta skapast í hálli brekkunni. Lagt er til að málið verði skoðað í samráði við Strætó bs. og viðeigandi úrbætur gerðar. Í því skyni að auka umferðaröryggi verði skoðaður sá kostur að hita upp götuna þar sem brattinn er mestur. Einnig verði skoðað að hafa þá strætisvagna á nagladekkjum, sem aka Fálkabakka í vetrarfærð. USK23010274
    Frestað.

  29. Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Fulltrúi Sósíalista leggur til að Reykjavíkurborg geri úttekt á því hvernig íbúðir í borginni skiptast í eignar- og leiguíbúðir (með leiguíbúðum er átt við fjölda íbúða sem eru til leigu). Einnig verði kannað hvernig eignarhaldi á þeim leiguíbúðum er háttað, hve hátt hlutfall þeirra sé í eigu hagnaðardrifinna/óhagnaðardrifinna leigufélaga, einstaklinga, félaga á vegum verkalýðsfélaga, Félagsbústaða og annarra aðila sem átt gæti við. Auk þessa verði gerð úttekt á fjölda ósamþykktra íbúða sem vitað er að búið sé í eða grunur leikur á að búið sé í. Greinargerð fylgir tillögunni. USK23010270
    Frestað.

    Fylgigögn

  30. Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að borgin setji upp skautasvell í öllum hverfum Reykjavíkur. Þau séu starfandi yfir köldustu vetrarmánuðina. Aðgangur að þeim verði gjaldfrjáls. Einnig er lagt til að boðið verði upp á að leigja skauta gegn vægu gjaldi. Umhverfis- og skipulagssvið tryggi uppsetningu og staðsetningu skautasvellanna, ÍTR sjái um reksturinn. Greinargerð fylgir tillögunni. USK23010272
    Frestað.

    Fylgigögn

  31. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvernig eftirliti sé háttað vegna kvartana um ófullnægjandi þjónustu í almenningssamgöngum í Reykjavík. Ástæðan er endurteknar kvartanir fólks sem berast til Flokks fólksins vegna ófullnægjandi þjónustu strætó. Dæmi: Heilbrigðisstarfsmaður sem þarf að mæta snemma til vinnu og þarf því að taka fyrsta vagn dagsins. Viðkomandi lendir í því endurtekið að fyrsti vagn mætir alls ekki og eftir langa bið mætir loks næsti vagn. Heilbrigðisstarfsmaðurinn spyr ávallt hvers vegna viðkomandi vagn hafi ekki komið. Því miður hefur starfsmaðurinn ekki fengið skýringu eða afsökunarbeiðni frá vagnstjórum í öll þau fjögur skipti sem þetta hefur gerst undanfarnar fjórar vikur. Þessi einstaklingur er búinn að gefast upp og ætlar að fjárfesta í bíl en fjölskyldan hefur reynt að láta einn bíl duga fyrir fjölskylduna. Flokkur fólksins telur að það sé afar mikilvægt að fólk geti treyst því að útgefin áætlun standist. Traust til almenningssamgangna er algjört lykilatriði til að fá fólk til að nýta þær. Staðan í dag er þannig að almenningur lítur ekki á almenningssamgöngur sem raunverulegan valkost við einkabílinn. Þetta sjáum við og upplifum á degi hverjum með síaukinni bílaumferð. USK23010273

Fundi slitið kl. 12:14

Alexandra Briem Hjálmar Sveinsson

Kjartan Magnússon Pawel Bartoszek

Unnur Þöll Benediktsdóttir