No translated content text
Umhverfis- og skipulagsráð
Ár 2023, miðvikudaginn 18. janúar, kl. 09:05 var haldinn 254. fundur umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Alexandra Briem, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Birkir Ingibjartsson Hildur Björnsdóttir, Kjartan Magnússon, Pawel Bartoszek og áheyrnarfulltrúarnir Halldóra J. Hafsteinsdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild: Líf Magneudóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Björn Axelsson, Borghildur Sölvey Sturludóttir, Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, Guðmundur Benedikt Friðriksson, Inga Rún Sigurðardóttir og Dagný Alma Jónasdóttir.
Fundarritari var Glóey Helgudóttir Finnsdóttir.
Þetta gerðist:
Þetta gerðist:
-
Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofa samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 12. janúar 2023 þar sem lagt er til að umhverfis- og skipulagsráð samþykki þá aðferðarfærði við forgangsröðun borgargatna í Reykjavík sem lýst er í meðfylgjandi skjali. Greinargerð fylgir tillögunni.
Einnig er lögð fram kortlagning á stöðu borgargatna frá VSO ráðgjöf, ásamt greinargerð, dags. júní 2022, uppfært í desember 2022 ásamt yfirliti yfir borgargötur - stöðumat.
Frestað. USK22100096Hlynur T. Torfason hjá VSÓ Rágjöf ásamt Bjarni Rúnar Ingvarsson, deildarstjóra og Rebekku Guðmundsdóttur, verkefnastjóra taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Af gögnum má sjá að óhemju vinna er eftir ef bæta á götur í borginni. Ástandið er svona slæmt vegna áralangra og jafnvel áratuga viðhaldsleysis. Vissulega verður að forgangsraða eftir ástandi gatna en það er erfitt því tugi gatna eru í forgangi 1 ef horft er út frá umferðaröryggi. Kostnaður við endurbætur og að gera sumar götur að borgargötum mun hlaupa á milljörðum. Taka má dæmi um Norðan Laugarásvegar eins og lýst er í gögnum. Þar er gangstéttar beggja megin orðnar slitnar, sprungur, bætur og frekar mjóar (<2,5m). Þar eru samsíða bílastæði austan megin. Málaðir hjólavísar í götu. Akreinar í góðu ástandi en heldur of breiðar > 3,5m. Við Sunnutorg og gatnamót Laugarásvegar eru miðeyjar við gönguþverun (ekki merktar gangbrautir). Sunnan Laugarásvegar breikkar gatan, akreinar 4-5 m hvor auk samsíða bílastæða beggja megin götu (um 14 m milli gangstéttabrúna). Gangstéttar almennt 3 m en víða orðnar lélegar. Þetta eru dæmigerðar lýsingar um fjölmargar aðrar götur. Á þessari götu er stór slysahætta. Flokkur fólksins hefur ítrekað bent á að öryggisþáttum er víða ábótavant í borginni þar á meðal í Laugardal og Úlfarsárdal. Úrbætur ganga allt of hægt, sá hluti borgarkerfisins sem annast þessi mál virkar bæði svifaseint og óskilvirkt.
-
Lögð fram til samþykktar umsögn umhverfis- og skipulagssviðs um loftslagsstefnu höfuðborgarsvæðisins, dagsett september 2022.
Samþykkt. USK22010115Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Hvernig er hægt að leggja að jöfnu blágrænar lausnir- gróður á þökum ,götutré og skógrækt. Skógrækt er mörgum sinnum ódýrari aðgerð en blágrænar lausnir. Blágræna lausnir munu ekki virka nema með mikilli umhirðu og kostnaðarsömu upphafi svo sem dýrari þökum, bæði vegna aukins þunga og lekahættu. Ekki er hægt að rækta á þökum nema að þeim sé haldið blautum. En tillögum um aukna skógrækt hefur verið hafnað af meirihlutanum. Flokkur fólksins telur að bíða eigi með að samþykkja þessa stefnu enda þarf að skoða ýmislegt nánar sbr. það sem fram kemur að hefja þarf fyrst vinnu við endurskoðun stefnu höfuðborgarsvæðisins og viðbótaraðgerða og meta þarf hvernig hægt væri að samþætta loftslagsstefnu höfuðborgarsvæðisins og markmið um kolefnishlutleysi við endurskoðun á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins. T.d. með því að jafnvægi myndist milli íbúafjölda og atvinnutækifæra í einstökum hverfum. Hafa þarf í huga að þekktar mótvægisaðferðir blasa við, einkum aukin ræktun og rafvæðing samgangna.
Fylgigögn
-
Lagðar fram fundargerðir embættisafgreiðslufunda skipulagsfulltrúa frá 8. og 15. desember 2022 og 5. janúar 2023. USK23010150
Fylgigögn
-
Að lokinni grenndarkynningu er lögð fram að nýju umsókn ASK Arkitekta ehf. dags. 10. maí 2022 varðandi breytingu á deiliskipulagi Klettasvæðis vegna lóðarinnar nr. 2 við Köllunarklettsveg. Í breytingunni felst stækkun á lóð til vesturs, stækkun á byggingarreit vegna viðbygginga og hækkun á nýtingarhlutfalli lóðar, samkvæmt uppdr. ASK Arkitekta ehf. dags. 11. júlí 2022, br. 19. desember 2022. Bílastæði á lóð verða í samræmi við Bíla- og hjólastæðastefnu Reykjavíkurborgar. Einnig er lagt fram samþykki Faxaflóahafna dags. 29. apríl 2022. Tillagan var grenndarkynnt frá 11. október 2022 til og með 8. nóvember 2022. Eftirtaldir sendu athugasemdir/ábendingar: Sturla Geirsson f.h. Kró Design dags. 17. október 2022, Helgi Lárusson f.h. Endurvinnslunnar hf. dags. 18. október 2022, Veitur ohf dags. 26. október 2022 og Pétur Jónsson hjá Eflu f.h. Sindraport hf. dags. 7. nóvember 2022. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 12. janúar 2023. Lagt er til að tillagan verði samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa.
Samþykkt með vísan til a. liðar 1. gr. í viðauka 1.1 um fullnaðarafgreiðslur umhverfis- og skipulagsráðs án staðfestingar borgarráðs.Sólveig Sigurðardóttir, verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. SN220279
Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi sósíalista gerir athugasemd við svör skipulagsfulltrúa til Endurvinnslunnar varðandi vöntun á bílastæðum. Það leysir ekki vandann ef starfsfólk hjólar til vinnu. Það er ekki starfsfólk sem kemur með dósir til endurvinnslu og á meðan fólk með dósa- og flöskupoka getur ekki treyst á að vera hleypt um borð í strætisvagnana né heldur nein strætóstoppistöð við móttöku endurvinnslunnar, þá eru ekki margir aðrir ferðamátar eftir nema einkabílar.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Athugasemdir eru einkum þær að skertir verði möguleikar á að leggja bílum. Það kemur Flokki fólksins ekki á óvart enda er það stefna borgarinnar að fækka bílastæðum. Meirihluti athugasemda yfir höfuð hvort sem er frá íbúum eða fyrirtækjum snúa að skerðingu bílastæða og er orðið verulega erfitt fyrir fólk að komast leiðar sinnar á einkabíl og ekki er bitastæðum almennings samgöngum heldur fyrir að fara. Eðli málsins samkvæmt þá fjölgar bílum á sama tíma. Að komast um borgina án stórkostlegra vandkvæða og að finna bílastæði er orðinn mikill höfuðverkur enda þótt þetta sé eitthvað misjafnt eftir hverfum.
Fylgigögn
-
Lagðar fram fundargerðir afgreiðslufunda byggingarfulltrúa frá 13. desember 2022 og 10. janúar 2023. USK22120096
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 5. janúar 2022, vegna staðfestingu borgarráðs á synjun umhverfis- og skipulagsráðs frá 14. desember 2022 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi reits 1.171.4 vegna lóðanna nr. 12B og 16 við Laugaveg. SN220565
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um að íbúðir standi ekki auðar, sbr. 26. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 30. nóvember 2022. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu stjórnsýslu og gæða, dags. 9. janúar 2023.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Tillagan er felld með sex atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Sjálfstæðisflokksins.
Fulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins. USK22120005Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um aðstöðu strætisvagnafarþega við flugstöðina á Reykjavíkurflugvelli, sbr. 19. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 12. október 2022.
Samþykkt með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins að vísa tillögunni til meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar í vinnu um umferðaröryggisáætlun.
Fulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins. USK22100050Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Það eru vonbrigði að fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar skuli ekki samþykkja fyrirliggjandi tillögu um að bæta aðstöðu strætisvagnafarþega við flugstöðina á Reykjavíkurflugvelli heldur vísa henni til ótímabundinnar skoðunar í borgarkerfinu. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiða atkvæði gegn slíkri afgreiðslu. Allir sjá að aðstæður gangandi vegfarenda við flugstöðina er óviðunandi. Því hefði verið æskilegt að samþykkja tillöguna og ráðast í viðeigandi úrbætur ekki síðar en sumarið 2023.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Í þessari tillögu er lagt til „að aðstaða strætisvagnafarþega verði bætt við flugstöðina á Reykjavíkurflugvelli en sú aðstaða er nú óviðunandi.“ Flokkur fólksins styður þessa tillögu í ljósi þess að margir sem nota flugstöðina eru erlendir ferðamenn. Það yrði til bóta að hafa vel merkta gangbraut frá farþegaafgreiðslu flugstöðvarinnar að strætisvagnabiðstöðinni, sem er í um 150 metra fjarlægð. Fyrir liggur að flugvöllurinn er ekki á förum næstu árin og með þessu er verið að gæta hagsmuna ferðamanna sem og annarra sem nota þurfa flugsamgöngur frá flugstöðinni á Reykjavíkurflugvelli.
-
Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um að öryrkjum sé heimilt aðkaupa afsláttarkort á farmiðasölustöðum í borginni, sbr. 30. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 11. janúar 2023.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Vísað til meðferðar Strætó bs. USK23010116
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Í þessari tillögu er lagt er til „að öryrkjar megi kaupa afsláttarkort á þeim farmiðasölustöðum sem aðrir farþegar geta og mega kaupa á.“ Þessi tillaga er svo sjálfsagt mál að hún hlýtur að vera samþykkt á staðnum. Undrun sætir að þetta sé ekki nú þegar hægt og það fyrir löngu. Eins og staðan er núna mega öryrkjar einungis kaupa afsláttarkort sín í gegnum Klapp „appið“ eða með því að fara í móttöku Strætó á Hesthálsi 14. Það er ekki boðleg framkoma við öryrkja að einungis einn sölustaður sé í boði til þess að kaupa slík kort. Þeir ættu að geta keypt afsláttarkortin sín á sömu sölustöðum og aðrir farþegar. Ekki allir eiga kost á eða hafa þekkingu á snjallsímanotkun, og því nauðsynlegt að gott aðgengi sé að miðakaupum með öðrum leiðum eins og segir í greinargerð með tillögunni. Þetta er með öllu óásættanlegt að mati Flokks fólksins
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um skilgreiningu á truflandi áhrifum, sbr. 29. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 30. nóvember 2022.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu stjórnsýslu og gæða. USK22120012
-
Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um aðgerðaráætlun með aðgengisstefnu 2022-2024, sbr. 13. gr. fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 21. september 2022.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds. USK22090116
-
Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að farið verði í minniháttar aðgerðir til að bæta umferðarmál í á skeifusvæðinu. Skoðað verði meðal annars að:
Setja beygjuvasa til að auðvelda akstur inn á stæði Elko/Krónunnar. Bæta gönguleið meðfram götunni Skeifunni, frá Grensásvegi að verslun Hagkaupa. Setja upp stæði fyrir örflæðilausnir.Greinargerð fylgir tillögunni.
Frestað. USK23010201
Fylgigögn
-
Fulltrúar Sjalfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að ráðist verði í úrbætur á gangbraut yfir Norðlingabraut til móts við þjónustuverslun Olís, t.d. með betri merkingum, upphækkun, lýsingu, þrengingu og/eða upplýstri snjallgangbraut. Leiðin er fjölfarin, ekki síst af börnum og unglingum, þar sem umrædd verslun er hin eina í Norðlingaholti.
Frestað. USK23010213
-
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
Ábendingar hafa borist um óþrifnað við grenndarstöð Sorpu við Skógarsel vegna of stopullar losunar pappírsgámsins þar. Umhverfis- og skipulagsráð óskar eftir því við Sorpu að viðeigandi úrbætur verði gerðar. Slíkar úrbætur gætu falist í tíðari tæmingu pappírsgámsins eða að bætt verði við öðru slíkum gámi.
Frestað. USK23010212
-
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
Ábendingar hafa borist um að algengt sé að leið 14, Grandi-Verzló, standist ekki tímaáætlun. Óskað er eftir því að Strætó bs. taki málið til meðferðar og geri viðeigandi úrbætur, t.d. með leiðréttingu á tímatöflu leiðarinnar.
Frestað. USK23010214
-
Fulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi tillögu:
Umhverfis- og skipulagsráð samþykkir að setja saman stýrihóp sem gerir tillögur til ráðsins um aðgerðir til að bregðast við loftmengun á gulum og gráum dögum. Skal stýrihópurinn skila tillögum sínum fyrir lok febrúarmánaðar og vera í góðu samstarfi við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkurborgar og skrifstofu umhverfisgæða.
Frestað. USK23010211
Fundi slitið kl. 10:40
Alexandra Briem Aðalsteinn Haukur Sverrisson
Birkir Ingibjartsson Hildur Björnsdóttir
Kjartan Magnússon Líf Magneudóttir
Pawel Bartoszek
PDF útgáfa fundargerðar
Umhverfis- og skipulagsráð 18.1.2023 - Prentvæn útgáfa