Umhverfis- og skipulagsráð - Fundur nr. 250

Umhverfis- og skipulagsráð

Ár 2022, miðvikudaginn 23. nóvember kl. 09:04, hélt umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur 250. fund sinn. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð Ráðssal. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Alexandra Briem, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Líf Magneudóttir, Pawel Bartoszek og áheyrnarfulltrúinn Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Björn Axelsson, Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, Guðmundur Benedikt Friðriksson, Inga Rún Sigurðardóttir og Dagný Alma Jónasdóttir.
Fundarritari var Glóey Helgudóttir Finnsdóttir.

Þetta gerðist:

 1. Afgreiðslufundir skipulagsfulltrúa Reykjavíkur, fundargerðir         Mál nr. SN010070

  Lögð fram fundargerð embættisafgreiðslufundar skipulagsfulltrúa frá 18. nóvember 2022.

  Fylgigögn

 2. Bryggjuhverfi við Grafarvog, breyting á deiliskipulagi vegna Tangarbryggju 6-8, 10, 12 og 12A og Naustabryggju 17-19 og 31-33     (04.0)    Mál nr. SN210816

  Að lokinni grenndarkynningu er lögð fram að nýju tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að breytingu á deiliskipulagi Bryggjuhverfis vegna lóðarinnar nr. 31-33 við Naustabryggju. Í breytingunni sem lögð er til felst að komið er fyrir bílastæði fyrir hreyfihamlaða á lóð. Tillagan var grenndarkynnt frá 7. mars 2022 til og með 4. apríl 2022. Eftirtaldir aðilar sendu athugasemdir: Baldur Ólafsson dags. 1. apríl 2022, Jónína R. Einarsdóttir dags. 1. apríl 2022, Ólafur Helgi Móberg Ólafsson dags. 3. apríl 2022, Haukur Bragason dags. 4. apríl 2022, Iris Edda Nowenstein dags. 4. apríl 2022, Arna Kristjánsdóttir og Benedikt Óskarsson f.h. húsfélags Naustabryggju 31-33 dags. 4. apríl 2022 og Björn Jón Bragason f.h. Lóðafélagsins Naustabryggju 21-29 og 41-57 dags. 30. mars 2022. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 18. nóvember 2022. Lagt er til að tillagan verði samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa.

  Samþykkt með vísan til a. liðar 1. gr. í viðauka 1.1 um fullnaðarafgreiðslur umhverfis- og skipulagsráðs án staðfestingar borgarráðs. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. 

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Ekki verður séð að fyrirliggjandi tillaga leysi þann vanda, sem fyrir hendi er vegna skorts á aðgengi fyrir hreyfihamlaða og neyðaraðila. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska eftir því að allra leiða verði leitað til að ná viðunandi lausn á vandanum og sátt meðal íbúa hverfisins um málið. Slíkt verði gert í nánu samráði og samstarfi við alla fasteignaeigendur við Naustabryggju og Tangarbryggju sem hagsmuna eiga að gæta, en ekki aðeins hluta þeirra eins og virðist hafa verið gert. Óviðunandi er ef rétt er að beina eigi umferð um einkalóðir án samþykkis viðkomandi eigenda og/eða húsfélaga.

  Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

  Hér er einfaldlega verið að bregðast við úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis og auðlindamála og tryggja aðgengi fyrir hreyfihamlaða á svæðinu.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Eftir því sem lesið er úr gögnum var reglugerð ekki fylgt á sínum tíma en samkvæmt henni eiga að vera þrjú stæði fyrir hreyfihamlaða og athafnasvæði fyrir útkallsaðila / skammtímaaðgengi fyrir t.a.m. leiguakstur fyrir hreyfihamlaða. Vonandi finnst á þessu máli viðunandi lausn.
   

  Fylgigögn

 3. Háskólinn í Reykjavík, breyting á deiliskipulagi     (01.751)    Mál nr. SN220421

  Lögð fram umsókn Kanon arkitekta ehf. f.h. Grunnstoðar / Háskólans í Reykjavík dags. 4. júlí 2022 ásamt bréfi dags. 8. júlí 2022 varðandi breytingu á deiliskipulagi Háskólans Í Reykjavík vegna lóðarinnar nr. 83-89 við Nauthólsveg. Í breytingunni felst m.a. fjölgun íbúða um 10, úr 415 íbúðum í 425 íbúðir, fækkun byggingarreita fyrir svonefnd stakstæð hús á reit A og B ásamt stækkun á byggingarreit fyrir stakstæð hús og að gert verður ráð fyrir félagsaðstöðu fyrir íbúa háskólagarðanna á fyrstu hæð stakstæðs húss á reit A ásamt því að íbúðir deiliskipulagssvæðisins munu dreifast á reiti A, B og C í stað A, B, C og D áður, en ekki verður gert ráð fyrir íbúðum á reit D, samkvæmt uppdr. Kanon arkitekta ehf. dags. 14. október 2022. Lagt er til að tillagan verði afgreidd í auglýsingu.

  Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
  Vísað til borgarráðs.

  Sólveig Sigurðardóttir, verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  Fylgigögn

 4. Mógilsá og Kollafjörður, breyting á deiliskipulagi     (34.2)    Mál nr. SN220727

  Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að breytingu á deiliskipulagi  Mógilsár-Kollafjarðar vegna lóðarinnar Mógilsá-Kollafjarðar. Í breytingunni sem lögð er til felst að núverandi lóð sem er skilgreind sem frístundalóð (sumarhúsalóð) er breytt í íbúðarlóð, samkvæmt uppdr. Landmótunar dags. 15. nóvember 2022. Lagt er til að tillagan verði samþykkt án grenndarkynningar og auglýsingar þar sem hún varðar ekki hagsmuni annarra en umsækjanda og/eða sveitarfélagsins.

  Samþykkt með vísan til a liðar 1. gr. viðauka 1.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, um fullnaðarafgreiðslur umhverfis- og skipulagsráðs án staðfestingar borgarráðs.

  Þórður Már Sigfússon, verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  (B) Byggingarmál

  Fylgigögn

 5. Afgreiðslufundir byggingarfulltrúa, fundargerðir         Mál nr. BN045423

  Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa frá 15. nóvember 2022.

  (E) Umhverfis- og samgöngumál

  Fylgigögn

 6. Rafhlaupahjólanotkun Reykvíkinga, kynning
           Mál nr. US220288
  Lögð fram skýrsla Gallup um Rafhlaupahjólanotkun Reykvíkinga, dags. september-október 2022.

  Jóna Karen Sverrisdóttir, Gallup tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Þessi könnun er mjög yfirgripsmikil og fróðleg. Það er augljóst að það er mikil rafhlaupahjólanotkun hjá ungu fólki  og  samkvæmt könnuninni er notkunin mest eftir skemmtanir sem kemur kannski ekki á óvart. Fólki kann að finnast í lagi að hjóla undir áhrifum sem er auðvitað alls ekki. Það þarf að skoða hvernig hægt er að upplýsa fólk um hættuna á að hjóla undir áhrifum áfengis-og vímuefna. Setja þarf skýr lög um að „eftir einn, ei hjóli neinn“ (sbr. eftir einn, ei aki neinn). Á hjóli er manneskjan með öllu óvarin lendi hún í árekstri við annað hjól eða bíl. Slysum fjölgar gríðarlega og nú þegar hafa orðið tvö banaslys. Það sem brennur á Flokki fólksins að vita er hvort notkun almenningssamgangna hafi minnkað vegna aukinnar notkunar rafhlaupahjóla.  Samkvæmt niðurstöðum þá er meiri notkun hjá fólki í vesturbænum og fólki nær miðbænum og þess vegna er enn mikilvægara að auka almenningssamgöngur við  byggðir fjær miðbænum. Margt í þessari könnun þarf þó að útskýra betur og best væri ef í henni væri einhvers konar samantektar- eða skrifaður niðurstöðukafli þar sem helstu og markverðustu niðurstöður eru reifaðar.

  (D) Ýmis mál

  Fylgigögn

 7. Lýsing: Svæðisskipulagbreyting - breyting á vaxtamörkum, Rjúpnahlíð í Garðabæ         Mál nr. US220287

  Lögð fram til samþykktar lýsing að breytingu á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2015 - 2040. 

  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, deildarstjóra aðalskipulags.

  Hrafnkell Proppé, frá Urbana tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  Fylgigögn

 8. Breytingar á gjaldsvæðum bílastæða í Reykjavíkurborg, tillaga, Leiðrétt bókun         Mál nr. US220263

  Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofa samgöngustjóra og borgarhönnunar, bílastæðasjóðs dags. 18. október 2022 þar sem lagt er til að umhverfis- og skipulagsráð samþykki eftirfarandi tillögu að breytingum á gjaldsvæðum bílastæða Reykjavíkurborgar. Um er að ræða eftirfarandi stækkanir gjaldsvæða:
  1. Gjaldsvæði 1
  a. Grettisgata milli Rauðarárstígs og Snorrabrautar
  2. Gjaldsvæði 2
  a. Hrannarstígur
  b. Öldugata, Bárugata, Ránargata og Vesturgata á milli Ægisgötu og Stýrimannastígs
  c. Stýrimannastígur
  d. Blómvallagata
  e. Ásvallagata og Sólvallagata austan Hofsvallagötu
  f. Hávallagata milli Hofsvallagötu og Blómvallagötu
  g. Tjarnargata frá nr. 33 að Hringbraut
  h. Bjarkargata
  i. Baldursgata frá Freyjugötu að Skólavörðustíg
  j. Lokastígur og Þórsgata austan Baldursgötu
  k. Inngarður afmarkaður af Laugavegi, Rauðarárstíg og Bríetartúni, Skúlagarður
  3. Gjaldsvæði 3
  a. Baldursgata og Bragagata frá Nönnugötu að Freyjugötu
  b. Freyjugata frá Baldursgötu að Njarðargötu
  Annað er óbreytt frá gildandi afmörkun gjaldsvæða.
  Í samræmi við 2. mgr. 86. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 hefur tillagan verið borin undir og hlotið samþykki lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Tillögunni fylgir greinargerð.

  Samþykkt að taka ofangreint mál á dagskrá.

  Leiðrétt bókun frá fundi dags. 26. október 2022. Rétt bókun er:

  Samþykkt með vísan til c liðar 1. gr. viðauka 1.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, um fullnaðarafgreiðslur umhverfis- og skipulagsráðs án staðfestingar borgarráðs. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

  Fylgigögn

 9. Brautarholt 32, breyting á deiliskipulagi     (01.250.1)    Mál nr. SN210558

  Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 11. nóvember 2022 vegna samþykktar borgarráðs frá 10. nóvember 2022 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Skipholtsreits vegna lóðarinnar nr. 32 við Brautarholt.

  Fylgigögn

 10. Tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um að innri endurskoðun rannsaki eftirlitsaðila vegna brunans á Bræðraborgarstíg, umsögn - R20060261, USK2020120024         Mál nr. US210004

  Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að innri endurskoðun rannsaki eftirlitsaðila vegna brunans á Bræðraborgarstíg, sbr. 25. liður fundargerðar skipulags- og samgönguráðs, dags. 27. janúar 2021. Tillagan var lögð fram á fundi borgarráðs, dags. 2. júlí 2020 og send skipulags- og samgönguráði til meðferðar þann 7. desember 2020 ásamt umsögn innri endurskoðanda Reykjavíkurborgar, dags. 23. nóvember 2020. Einnig er lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 18. nóvember 2022 ásamt skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, ódags. og minnisblaði Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, dags. 5. október 2020.

  Tillagan er felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Fulltrúi Vinstri grænna situr hjá. 

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Innri endurskoðun vísaði málinu frá sér og yfir til skipulags- og samgönguráðs sem ætti að greina framgang þessa máls gagnvart sínum skyldum og með hvaða hætti ætlað er að vinna að úrbótum. Afstaða byggingarfulltrúa liggur nú fyrir og rekur hann það sem búið er að gera og telur að brugðist hafi verið við atburðinum með því m.a. að gera heildstæðar úttektir  á ástandi brunavarna og lagðar fram ítarlegar tillögur til úrbóta. Flokkur fólksins hefur bókað um þetta mál  frá því að þessi hörmulegi atburður gerðir. Spurt hefur verið um hvort eftirlitsaðilar eigi ekki að fá ríkar valdheimildir til að taka nauðsynleg skref til að grípa inn ef grunur leikur á um að brunavörnum séu ábótavant. Byggingarfulltrúi, sem hefur sérþekkingu og skriflegar upplýsingar um aðstæður þarf að fá heimild til að fara inn í hús og sannreyna upplýsingar sem lúta að öryggismálum. Í eftirmála atburðarins kom ítrekað fram að byggingarfulltrúi hafði ekki þessar heimildir sem hefðu verið fyrirbyggjandi. Vandamálið er að heimildir byggingarfulltrúa hafa ekki tekið breytingum frá því sem var fyrir þann tíma þegar Bræðraborgarstígur brann. Heimildir og skylda til eftirlits af hálfu byggingarfulltrúa grundvallast á ákvæðum laga um mannvirki og byggingarreglugerðar.

  Fylgigögn

 11. Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um umferð í miðbænum á hátíðum, umsögn (USK22090081)         Mál nr. US220195

  Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um umferð í miðbænum á hátíðum sbr. 26. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 24. ágúst 2022. Einnig er lögð fram umsögn samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 10. nóvember 2022.

  Vísað frá með fimm atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata Viðreisnar og Vinstri grænna. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. 

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Flokkur fólksins lagði til að ekki verði lokað eins mikið fyrir bílaumferð á menningarnótt og 17. júní eins og tíðkast hefur. Gengið er of langt í að loka fyrir bílaumferð og með því er loku fyrir það skotið að ákveðinn hópur geti lagt leið sína í bæinn. Frítt í strætó og skutluferðir leysa ekki vanda þeirra sem eiga erfitt með gang og komast hvergi nærri hátíðarsvæði borgarinnar. Ekki einu sinni bílar með stæðiskort fá leyfi til að aka inn á lokað svæði. Á menningarnótt  lentu margir í vandræðum. Víðfeðmar lokanir urðu til þess að fjölmargir gátu ekki tekið þátt í hátíðarhöldunum. Engu að síður er þessari tillögu vísað frá án þess að breytingar séu fyrirhugaðar fyrir næstu hátíðarhöld. Takmörkun bílaumferðar er gengin út í öfgar þegar ekki er séð til þess að fatlað fólk geti notið hátíðahalda. Hávær gagnrýni kom fram vegna strætóferða á menningarnótt ýmist vegna þess að þeir voru of fáir, of seinir eða óku fram hjá fólki. Vegna  róttækra lokana fylltust vagnar af fjölskyldum með barnavagna. Líkamlega fatlaður einstaklingur á erfitt með að nota strætó undir slíkum kringumstæðum. Eins sniðug og skutluþjónusta er þá var hún ekki að virka á menningarnótt. Skoða þarf hvað þarf að gera  betur.

  Fylgigögn

 12. Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um úrbætur á Breiðholtsbraut, umsögn (USK22080101)         Mál nr. US220153

  Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um úrbætur á Breiðholtsbraut, sbr. 44. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 29. júní 2022 ásamt greinargerð. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 7. október 2022.

  Vísað frá með fimm atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Flokkur fólksins lagði til að tafarlaust verði leyst úr umferðarvandamáli á Breiðholtsbraut enda ríkir þar vandræðaástand sem hvorki Reykjavíkurborg né Vegagerðin virðist vera að skoða. Nauðsynlega þarf að skoða ljósastýringu og losa um þá hindrun sem orsakar að bílar sitja  meira og minna fastir í brautinni. Tillögunni er vísað frá. Í umsögn um tillöguna frá umhverfis- og skipulagssviði  er vandinn sagður á ábyrgð Vegagerðarinnar.  Segir jafnframt að ræddar hafi verið breytingar á ljósastýringu til að greiða fyrir umferð og jafnframt bæta umferðaröryggi, sem í vissum tilfellum getur dregið úr afkastagetu gatnamóta. Flokki fólksins finnst athyglisvert hvernig talað er um afkastagetu. Ef skipulagsyfirvöld er umhugað um afkastagetu væri vert að skoða áhrif hraðamyndavélar sem búið er að koma fyrir á Breiðholtsbrautinni. Þar sem myndavélin er eru hvorki gangandi né hjólandi vegfarendur nálægir. Varla er hægt að neita því að myndavél sem þessi hefur áhrif á afkastagetu gatnamóta? Fram kemur einnig að verkefnið er eitt af verkefnum samstarfshóps um umferðarljósastýringar á höfuðborgarsvæðinu sem er skipaður fulltrúum Vegagerðarinnar, Betri samgangna og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Varla er hægt að hrósa hér fyrir afkastagetu í vinnubrögðum.

  Fylgigögn

 13. Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, um umferðarflæði og kolefnisspor eftir tekjuhópum, svar (USK22080110)         Mál nr. US220154

  Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um umferðarflæði og kolefnisspor eftir tekjuhópum, sbr. 47. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 29. júní 2022. Einnig er lagt fram svar skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 9. nóvember 2022.

  Fylgigögn

 14. Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, um bætta nýtingu á bílastæðahúsum eftir miðnætti, svar (USK22080113)         Mál nr. US220172

  Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um um bætta nýtingu á bílastæðum við ráðuneyti á Lindargötu, sbr. 55. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 10. ágúst 2022. Einnig er lagt fram svar skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 9. nóvember 2022.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Flokkur fólksins hefur verið með nokkur mál, tillögur og bókanir sem lúta að einmitt þessari fyrirspurn um hvort ekki væri  skynsamlegri nýting að leyfa íbúum að nýta bílastæðahúsin yfir nóttina og minnka þannig þörf á bílastæðum meðfram götum. Flokkur fólksins lagði fram eftirfarandi tillögu  5. sept.  2019: Flokkur fólksins leggur til að bílastæði í bílastæðahúsum borgarinnar verði gjaldfrjáls á nóttum. Bílastæðaskortur er vaxandi vandamál í miðborg Reykjavíkur. Íbúar borgarinnar finna fyrir þeim skorti en lítið bólar á úrræðum til úrlausnar á vandanum. Á sama tíma rekur Reykjavíkurborg 6 bílastæðahús með yfir þúsund bílastæðum. Bílastæðahúsin eru alls ekki nógu vel nýtt yfir daginn og notkun þeirra er enn minni á nóttunni. Gjaldskylda í bílastæði fellur niður á kvöldin en gjaldskylda er allan sólarhringinn í bílastæðahúsum. Til að stemma stigu við bílastæðavanda miðborgarinnar er því lagt til að það verði gjaldfrjálst að leggja í bílastæðahús á nóttunni, nánar tiltekið milli kl. 22:00 og kl. 8:00. Þannig er hægt að koma til móts við bílastæðavanda miðborgarinnar og auka notkun bílastæðahúsa. Þá er það einnig íbúum til góðs að leggja bílum sínum þar sem þeir njóta skjóls frá veðri og vindum. Tillagan var felld.

  Fylgigögn

 15. Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um samþykkt um göngugötur, svar (USK22090083)         Mál nr. US220180

  Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um samþykkt um göngugötur sbr. 19. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 17. ágúst 2022. Einnig er lagt fram svar skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 10. nóvember 2022.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram fyrirspurn um göngugötukort og hefur nú borist svar frá skipulagsyfirvöldum. Göngugötukort eru kort sem íbúar geta sótt um til að hafa aðgang að bílastæði.  Eingöngu er gefið út eitt göngugötukort fyrir hvert bílastæði. Flokkur fólksins spurði hvort ekki sé hægt að gefa út fleiri en eitt kort við sérstakar aðstæður? Vísað er jafnframt í umfjöllun um þessi mál í Kjarnanum: https://kjarninn.is/skodun/laerdu-a-thetta. Svarið er „the computer says no“ tegund af svari. Í reglum segir að aðeins sé hægt að gefa út eitt göngugötukort fyrir hvert bílastæði. En það segir einnig í reglunum að það sé markmið borgarinnar að veita góða þjónustu. Það er mat Flokks fólksins að ef ósveigjanleiki ráða ríkjum er varla hægt að veita góða þjónustu. Reglum er hægt að breyta sé vilji til. Fulltrúi Flokks fólksins finnst of mikið einblínt á það eitt að draga úr notkun bíla og til þess að ná því markmiði er bíleigendum gert erfitt fyrir að “eiga bíl”. Hafa bíleigendur sem hér um ræðir verðir spurðir álits? Fjölskyldur geta verið mannmargar og þurfa að sækja störf og nám um alla borg eins og gengur. Engin er borgarlínan sem er ekki  einu sinni í sjónmáli og almenningssamgöngur eru hvorki fugl né fiskur.

  Fylgigögn

 16. Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um stæði fyrir rafskútur, svar (USK22100012)         Mál nr. US220239

  Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um stæði fyrir rafskútur, sbr. 27. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 5. október 2022. Einnig er lagt fram svar skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 10. nóvember 2022.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Flokkur fólksins spurði um hvort skipulagsyfirvöld fylgjast með hvernig rafskútum/rafhlaupahjólum er lagt og skilið við þær út í hverfum. Borist hefur svar. Ástæða fyrirspurnir eru þær að nokkuð hefur borið á að þær eru skildar eftir á miðjum göngustígum og hefur legið við slysum vegna þess.  Spurt var hvort það stæði til að koma upp föstum stæðum / hleðslustöð fyrir rafskútur og önnur rafhjól sem leigð eru út í hverfum? Í svari segir að gott samband sé milli skrifstofu samgöngustjóra og hjólaleiga í Reykjavík. Samningur er alveg skýr, þjónustuaðili á að fjarlægja hjól sem hindra almenna umferð eða veldur óþægindum. Flokkur fólksins er með fyrirspurn sinni að varpa ljósi á að það sem stendur í samningnum er kannski ekki alveg að raungerast, og hvað ætla skipulagsyfirvöld að gera í því? Kallað er eftir fleiri stæðum og er verið að verða við því upp að vissu marki en það er engin eftirfylgni með að reglum sé fylgt. Þar stendur hnífurinn í kúnni að mati fulltrúa Flokks fólksins. Eitt er að eitthvað standi í samningi en  það dugar skammt ef ekki er farið eftir því. Þessar rafskútur/rafhlaupahjól er skildar eftir á víð og dreif og eru miklar slysagildrur.

  Fylgigögn

 17. Tillaga fulltrúa Vinstri grænna, um umferðarþrengingar á Furumel (USK22110104)         Mál nr. US220285

  Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Vinstri grænna um umferðarþrengingar á Furumel, sbr. 26. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 16. nóvember 2022.

  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar. 

 18. Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um talningar á nagladekkjum (USK22110068)         Mál nr. US220281

  Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um talningar á nagladekkjum, sbr. 19. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 9. nóvember 2022.

  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

 19. Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um sektir vegna niðurníðslu og viðhaldsleysi á byggingum i borginni (USK22110067)         Mál nr. US220279

  Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um sektir vegna niðurníðslu og viðhaldsleysi á byggingum i borginni , sbr. 18. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 9. nóvember 2022.

  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, byggingarfulltrúa.

   

 20. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu, um lýsingartíma við götur og göngu- og hjólastíga         Mál nr. US220298

  Lagt er til að lýsingartími við götur og göngu- og hjólastíga verði lengdur í borginni í því skyni að auka umferðaröryggi vegfarenda. Í skammdeginu er áberandi að ljós séu tendruð fullseint á götuljósvitum í mörgum íbúðahverfum að kvöldi og slökkt of fljótt að morgni.

  Frestað.

 21. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu, um lýsingu við Sundhöll við Barónsstíg         Mál nr. US220299

  Lagt er til að lýsing verði bætt við inngang og bifreiðastæði Sundhallarinnar við Barónsstíg. 

  Frestað.

 22. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um bækling Nordic Safe         Mál nr. US220296

  Í Aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar gegn ofbeldi 2022 - 2024 kemur fram að Nordic Safe Cities hafa gefið út bæklingana The Nordic Safe Cities Guide og Safe Urban Spaces. Um er að ræða upplýsingabækling um skipulag og hönnun  með áherslu á fyrirbyggjandi lausnir og hvernig megi fella öryggisráðstafanir inn í umhverfið. Fram kemur að það sé á ábyrgð umhverfis og skipulagssviðs að útbúa drög að efni, svo sem stefnu, leiðbeiningar eða verklag varðandi arkitektúr og hönnun fyrir Reykjavíkurborg sem fléttar öryggissjónarmið saman við borgarskipulag. Segir jafnframt í aðgerðaráætluninni gegn ofbeldi  að drögin eigi að vera tilbúin haustið 2022. Nú er haust 2022 liðið og Flokkur fólksins spyr hvar eru þessi drög?

 23. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um lýsingu í borgarlandi         Mál nr. US220297

  Undanfarið hafa borgarbúar kvartað mikið vegna myrkurs í borginni og slysum sem rekja má beint til ónógrar lýsingar í borginni. Það að hafa myrkur skapar ekki öruggt borgarrými eins og stefnt er að samkvæmt aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar gegn ofbeldi 2022- 2024. Þar segir að byggja eigi á  leiðbeiningum frá Nordic Safe Cities um öruggar borgir. Það hlýtur að skapa meira öryggi að hafa meiri birtu í borginni. Flokkur fólksins spyr hvort breytingar hafi verið gerðar á lýsingu í borgarlandinu?

 24. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um eftirlitsdeild umhverfis- og skipulagssviðs         Mál nr. US220300

  Eftir hinn hörmulega atburð sem átti sér stað á Bræðraborgarstíg og kostuðu mannslíf voru meðal helstu varnarraka borgarinnar að byggingarfulltrúa hefði skort heimildir til að hafa afskipti af leiguhúsnæði í einkaeigu og geti ekki beitt sér nema með leyfi eiganda jafnvel þótt ábendingar liggi fyrir um að öryggismálum er ábótavant.  Atburðurinn hefur verið rannsakaður og gera átti alvöru úrbætur. Sett hefur verið á laggirnar sérstök Eftirlitsdeild USK. Flokkur fólksins taldi víst að allt kapp yrði lagt á að borgaryfirvöld færu fram á lagabreytingu til að byggingarfulltrúi, sem hefur sérþekkingu og skriflegar upplýsingar um aðstæður, fái heimild til að fara inn í hús og sannreyna upplýsingar sem lúta að öryggismálum án tillits til hvort eigandi leyfir eða ekki. Staðan er óbreytt, alla vega hvað þetta atriði varðar Flokkur fólksins spyr hvað er Eftirlitsdeildin og sviðið að gera til að fá  ríkisvaldið til að fá þessum lögum breytt þannig að yfirvöld geta farið inn í hús þar sem öryggismálum eins og brunavörnum eru stórlega ábótavant? Slökkviliðið hefur þessar heimildir en byggingarfulltrúi þarf að hafa þær líka að mati Flokks fólksins. Ekki er alltaf hægt að treysta á samstarf við aðra í svo erfiðum og viðkvæmum málum.

Fleira gerðist ekki.
Fundi slitið kl. 11:18

Fundargerðin lesin yfir og undirrituð

Alexandra Briem

Aðalsteinn Haukur Sverrisson Hildur Björnsdóttir
Hjálmar Sveinsson Kjartan Magnússon
Líf Magneudóttir Pawel Bartoszek

Alexandra Briem Aðalsteinn Haukur Sverrisson

Hildur Björnsdóttir Hjálmar Sveinsson

Kjartan Magnússon Líf Magneudóttir

Pawel Bartoszek