Umhverfis- og skipulagsráð - Fundur nr. 247

Umhverfis- og skipulagsráð

Umhverfis- og skipulagsráð

Ár 2022, miðvikudaginn 2. nóvember kl. 09:08, hélt umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur 247. fund sinn. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð Ráðssal. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Alexandra Briem, Friðjón R. Friðjónsson, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Pawel Bartoszek, Þorvaldur Daníelsson og áheyrnarfulltrúinn Kolbrún Baldursdóttir. Áheyrnarfulltrúinn Ásta Þ. Skjalddal Guðjónsdóttir tekur sæti á fundinum með rafrænum hætti. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Björn Axelsson, Borghildur Sölvey Sturludóttir, Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, Guðmundur Benedikt Friðriksson, Gunnar Hersveinn Sigursteinsson og Dagný Alma Jónasdóttir.

Fundarritari var Glóey Helgudóttir Finnsdóttir.

Þetta gerðist:

(D) Ýmis mál

Þetta gerðist:

  1. Umhverfis- og skipulagsráð, breyting á fundarsetu varamanna (MSS22060046)         Mál nr. US220234

    Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 17. október 2022, þar sem tilkynnt er að á fundi forsætisnefndar þann 14. október 2022 hafi verið samþykkt var að Andrea Helgadóttir taki sæti sem áheyrnarfulltrúi í umhverfis- og skipulagsráði í stað Ástu Þórdísar Skjalddal Guðjónsdóttur og að Ásta taki sæti sem áheyrnarfulltrúi til vara í stað Andreu.

    Fylgigögn

  2. Ársfundur náttúruverndarnefnda sveitarfélaga 2022         Mál nr. US220270

    Ársfundur náttúruverndarnefnda sveitarfélaga verður haldinn 10. nóvember 2022, kl. 11:00 til 15:15, að Austurvegi 1-3, Grindavík. 

    Þórólfur Jónsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    (E) Umhverfis- og samgöngumál

    Fylgigögn

  3. Niðurstöður náttúrufarsúttekta sumarið 2022, kynning         Mál nr. US220224

    Kynning á niðurstöðum náttúrufarsúttekta sumarið 2022
    Frestað.

  4. Grænbók um líffræðilega fjölbreytni íslenskra vistkerfa, umsögn         Mál nr. US220267

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fram kemur í umsögn að ,,Reykjavík fagnar því að vinna sé hafin við endurskoðun á stefnu um líffræðilega fjölbreytni og hefur fullan áhuga á að taka þátt í þeirri vinnu.”  Ekki veitir af  því þar sem stefna borgarinnar í þessum málum hefur verið sérstök. Allar smá framkvæmdir svo sem að gera blómabeð eru talin styrkja líffræðilega fjölbreytni, en eyðing náttúrulegra fjara hefur ekki verið talin valda minnkun á líffræðilegri fjölbreytni.

    Þórólfur Jónsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    (A)    Skipulagsmál

    Fylgigögn

  5. Afgreiðslufundir skipulagsfulltrúa Reykjavíkur, fundargerðir         Mál nr. SN010070

    Lögð fram fundargerð embættisafgreiðslufunda skipulagsfulltrúa frá 27. október 2022.

    Fylgigögn

  6. Keldur, kynning         Mál nr. US220271

    Kynning á stöðu vinnu við undirbúning samkeppni og skipulagsgerðar í landi Keldna,     sem unnin er í samvinnu við Betri samgöngur.

    Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Þökkum góða kynningu. Mjög mikilvægt er að tryggja samfelld græn svæði í fyrirhuguðu skipulagi.  Tryggja þarf áfram grænar tengingar milli Reykjavíkur og Mosfellsbæjar þannig að fólk geti nýtt stíga sem liggja í náttúru og þvera ekki stórar götur, óháð tengingum meðfram borgarlínu. Rétt er að samkeppnislýsing fyrir svæðið komi til umfjöllunar ráðsins áður en samkeppnin er sett af stað.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Æskilegt er að Keldnaland verði skipulagt í góðu samræmi við byggð í aðliggjandi hverfum, þ.e. Foldahverfi og Húsahverfi. Varað er við því að við skipulag hins nýja hverfi verði áhersla lögð á mikla uppbyggingu og hámarksafrakstur af lóðasölu, frekar en að skapa þar fallegt og mannvænlegt hverfi.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Keldur, vel tengt framtíðarhverfi er yfirskrift kynningar um Keldur. Þetta svæði er einstakt og því mikilvægt að vanda sig með. Leggja þarf áherslu á að nýta svæðið fyrir fólk. Atvinnuhúsnæði er rétt hjá t.d. fyrir ofan og norðan Grafarholt. Þetta er grænt svæði og tækifæri til að koma inn með blágrænar ofanvatnslausnir.  Móta á staðaranda, byggð í náttúrulegu umhverfi. Hér skiptir máli að fara ekki út í neinar öfgar, þéttingaöfgar en sjálfsagt er að byggja þétt. Taka þarf mið af öðrum hverfum. Flokkur fólksins spyr eins og fjölmargir aðrir, hvenær er reiknað með að borgarlína verði komin þarna? Það er þessi tímarás sem er nokkuð á reiki. Fyrir liggur að uppbygging Keldnalandsins eigi að haldast í hendur við að borgarlína komi í hverfið.

    Haraldur Sigurðsson, deildarstjóri, Gunnar Hersveinn Sigursteinsson, verkefnastjóri, Hrafnkell Proppé, frá Urbana og Þorsteinn R. Hermannsson, frá Betri samgöngum taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  7. Bræðraborgarstígur 1, 3 og 5, skipulagslýsing         Mál nr. SN220053

    Að lokinni kynningu er lögð fram að nýju umsókn Yrki arkitekta ehf. dags. 26. janúar 2022 ásamt lýsingu dags. 21. júní 2022 vegna gerð nýs deiliskipulags fyrir lóðirnar nr. 1, 3 og 5 við Bræðraborgarstíg. Tilgangur með nýju deiliskipulagi fyrir svæðið er að skilgreina og setja skilmála um umfang nýbygginga á lóðum Bræðraborgarstígs 1 og 3. Markmiðið er að ná fram tillögu sem tekur tillit til nærumhverfisins og virðir sögu staðarins í samræmi við aðferðir og tækniþekkingu okkar tíma. Lýsingin var kynnt frá 19. júlí 2022 til og með 31. ágúst 2022. Eftirtaldir sendu athugasemd/ábendingu/umsögn: Borgarfulltrúi Sósíalista dags. 28. júní 2022, Erla Þórarinsdóttir dags. 27. júlí 2022,  Veitur ohf. dags. 17. ágúst 2022, Guðrún Karlsdóttir, Jón G. Sædal og Berta Andrea Jónsdóttir Snædal dags. 21. ágúst 2022, Sturla Einarsson dags. 24. ágúst 2022, Daði Guðbjörnsson dags. 25. ágúst 2022, Skipulagsstofnun dags. 25. ágúst 2022, Minjastofnun Íslands dags. 29. ágúst 2022, Friðbjörg Ingimarsdóttir, Gunnar Hersveinn, Elna Katrín Jónsdóttir, Jón Ingi Hannesson og Erla Þórarinsdóttir f.h. 55 aðila/nágranna við Bræðraborgarstíg 1, 3 og 5 dags. 31. ágúst 2022, Astrid Lelarge dags. 31. ágúst 2022 og Ásta Olga Magnúsdóttir dags. 31. ágúst 2022. Erindinu var vísað til meðferðar hjá verkefnisstjóra á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 8. september 2022 og er nú lagt fram að nýju ásamt samantekt á athugasemdum og ábendingum vegna skipulagslýsingar, dags. 27. október 2022.

    Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Drög að skipulagslýsingu fyrir Bræðraborgarstíg 1, 3 og 5 sýna mikið byggingarmagn á þröngum reit. Umhverfi reitsins einkennist af fínofnu byggðamynstri við eina elstu götu borgarinnar. Við teljum nauðsynlegt að skipulagslýsingin samræmist betur því mynstri sem fyrir er.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að við deiliskipulagsvinnu fyrir lóðirnar nr. 1, 3 og 5 við Bræðraborgarstíg eigi að taka ríkt tillit til ríkjandi byggingarstíls í nágrenninu. Sérstaklega þarf að gæta þess að byggingarmagn verði ekki of mikið eins og nýleg dæmi eru um úr hverfinu. Horn Bræðraborgarstígs og Vesturgötu er mikilvægt fyrir ásýnd hverfisins en við umræddar götur er ein heillegasta byggð gamalla húsa í Reykjavík. Tekið er undir athugasemdir nágranna um að skipulag reitsins verði að byggja á virðingu fyrir sögunni og menningararfi höfuðborgarinnar.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Talsverð andstaða virðist vera gegn því að sameina lóðirnar 1 og 3. Áhyggjur eru af auknu byggingarmagni, reiturinn er þröngur.  Athugasemdir nágranna eru margar og margs konar.  Flokkur fólksins hvetur skipulagsyfirvöld að hlusta á nágranna og gera það með opnum huga. Vissulega er oft andstaða með breytingum og meta þarf athugasemdir af sanngirni. Ná þarf sátt milli aðila sem að málinu koma. Næsta skref er að vinna deiliskipulagslýsingu. Áhugavert verður að fylgjast með framvindu málsins.

    Ingvar Jón Bates, verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  8. Brautarholt 32, breyting á deiliskipulagi     (01.250.1)    Mál nr. SN210558

    Lögð fram umsókn Kristins Ragnarssonar dags. 3. ágúst 2021 um breytingu á deiliskipulagi Skipholtsreits vegna lóðarinnar nr. 32 við Brautarholt. Í breytingunni sem lögð er til felst breyting á lóðamörkum, hækkun á vegghæð að Brautarholti, hækkun á nýtingarhlutfall vegna minni lóðar og B-rýma ásamt því að gert er ráð fyrir bílakjallara og að skilmálar um bílastæði verði endurskoðaðir, samkvæmt deiliskipulagsuppdr. KRark, dags. 21. september 2022. Lagt er til að tillagan verði afgreidd í auglýsingu.
    Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
    Vísað til borgarráðs.

    Ingvar Jón Bates, verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    (B) Byggingarmál

    Fylgigögn

  9. Afgreiðslufundir byggingarfulltrúa, fundargerðir         Mál nr. BN045423

    Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa frá 25. október 2022. 

    (E) Umhverfis- og samgöngumál

    Fylgigögn

  10. Tillaga um sérákvæði í Vogabyggð, tillaga         Mál nr. US220269

    Skrifstofa samgöngustjóra og borgarhönnunar leggur til að umhverfis- og skipulagsráð samþykki eftirfarandi sérákvæði fyrir umferð:
    1. Drómundarvogur verði vistgata
    2. Umferð frá Bátavogi víki fyrir umferð um Kleppsmýrarveg á biðskyldu.
    3. Kuggavogur verði einstefnugata til norð-austurs milli Dugguvogs og Súðarvogs
    4. Trilluvogur verði einstefnugata til austurs.
    5. Að eftirfarandi götur hafi leyfilegan hámarkshraða 30 km/klst
    a. Dugguvogur milli Tranavogs og Kleppsmýrarvegar
    b. Kleppsmýrarvegur austan Dugguvogs
    c. Tranavogur
    d. Trilluvogur
    e. Súðarvogur
    f. Kuggavogur
    g. Skektuvogur
    h. Arkarvogur
    i. Bátavogur
    6. Eitt stæði við Súðarvog 11 verði merkt sem stæði fyrir hreyfihamlaða
    7. Eitt stæði við Súðarvog 2 verði merkt sem stæði fyrir hreyfihamlaða
    8. Eitt stæði við Skektuvog 2 verði merkt sem stæði fyrir hreyfihamlaða
    9. Eitt stæði við Arkarvog 2 verði merkt sem stæði fyrir hreyfihamlaða
    Ofangreindar ráðstafanir verði merktar með viðeigandi umferðarmerkjum og yfirborðsmerkingu þar sem það á við, í samræmi við reglugerð 289/1995 um umferðarmerki og notkun þeirra ásamt áorðnum breytingum. Tillögunni fylgir greinargerð.

    Samþykkt með vísan til c liðar 1. gr. í viðauka 1.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, um fullnaðarafgreiðslur umhverfis- og skipulagsráðs án staðfestingar borgarráðs í samræmi við 1. og 3. mgr. 84. gr. umferðarlaga nr. 77/2019.

    Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Með tillögunni er lagt til að allar götu í Vogabyggð 1 verði vistgötur eða 30-götur í samræmi við hámarkshraðaáætlun. Við styðjum þessar sjálfsögðu tillögur.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja áherslu á að umferðaröryggi gangandi vegfarenda, ekki síst skólabarna, verði aukið frá Kleppsmýrarvegi að Skeiðarvogi, yfir Sæbraut. Við núverandi aðstæður er öryggi barna stefnt í mikla hættu. Mikilvægt er að komið verði upp tímabundinni göngubrú á kaflanum hið allra fyrsta, meðan beðið er eftir að framkvæmdum við Sæbrautarstokk ljúki.

    (D) Ýmis mál

    Fylgigögn

  11. Furugerði 2, kæra 119/2022     (01.806.3)    Mál nr. SN220679

    Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 20. október 2022 ásamt kæru dags. 18. október 2022 þar sem kærður er dráttur sem orðið hefur á því að Reykjavíkurborg afhendi kæranda gögn í máli vegna fjölgunar bílastæða á lóð Furugerðis 2 í Reykjavík samkvæmt beiðni þar um 15. júlí sl.

  12. Neðstaberg 7, kæra 115/2022, greinargerð     (04.675.2)    Mál nr. SN220657

    Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 9. október 2022 ásamt kæru dags. 3. október 2022 er lýtur að byggingarleyfi viðbyggingar að Neðstabergi 7. Einnig er lögð fram greinargerð Reykjavíkurborgar dags. 20. október 2022.

  13. Vesturgata 67, kæra 118/2022, greinargerð     (01.133.1)    Mál nr. SN220660

    Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 17. október 2022 ásamt kæru dags. 14. október 2022 þar sem kærð er útgáfa á nýju byggingarleyfi dagsett 15. september 2022 fyrir nýbyggingu að Vesturgötu 67. Einnig er lögð fram greinargerð Reykjavíkurborgar dags. 25. október 2022.

  14. Fegrunarviðurkenningar Reykjavíkurborgar 2022, útnefning, trúnaðarmál         Mál nr. SN220386

    Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 22. september 2022 vegna samþykktar borgarráðs s.d. á trúnaðarmerktum tillögum að fegrunarviðurkenningum Reykjavíkurborgar fyrir árið 2022.

    Fylgigögn

  15. Starhagi 11, breyting á deiliskipulagi     (01.555.2)    Mál nr. SN220581

    Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 20. október 2022 vegna samþykktar borgarráðs s.d. á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Starhaga-Þormóðsstaðavegar vegna lóðarinnar nr. 11 við Starhaga.

    Fylgigögn

  16. Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um óbyggðar lóðir í Úlfarsárdal, svar (USK22080046)         Mál nr. US220135

    Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um óbyggðar lóðir í Úlfarsárdal, sbr. 39. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 22. júní 2022, ásamt svari byggingarfulltrúa, dags. 26. október 2022.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fyrirspurn Flokks fólksins gekk út á að fá upplýsingar um óbyggðar lóðir í Úlfarsárdal. Samkvæmt svari virðist sem svo að innan 6  ára frá úthlutun  lóða eigi hús að hafa risið og gengið frá lóð. Þarna hafa lóðir legið auðar í 15-16 ár, nema að á þær hefur ýmislegt ófagurt safnast. En er það bara allt í lagi?  Hvar er eftirlitið, hagur hverfisins  og eða umsjón borgarinnar?  Það á ekki að vera svo að auðar lóðir, sem einhvern tíma verður byggt á, hindri eða  seinki  myndum eðlilegs byggðahverfis.

    Fylgigögn

  17. Tillaga fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar, um Spöngina         Mál nr. US220266

    Lögð fram að nýju tillögu fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar um Spöngina, sbr. 30. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 26. október 2022. Tillögunni fylgir greinargerð.

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa.

    Fylgigögn

  18. Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um að borgarbúar fái sjálfir tækifæri til að forgangsraða verkefnum í borginni.         Mál nr. US220264

    Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að borgarbúar fái sjálfir tækifæri til að forgangsraða verkefnum í borginni, sbr. 31 liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 26. október 2022.

    Tillögunni er vísað frá.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Síðasti meirihluti sem er að mestu sá sami og sá sem ríkir nú talaði og talar mikið um samráð og gegnsæi. Sú tillaga sem hér er lögð fram, „Að borgarbúar fái sjálfir tækifæri til að koma að forgangsröðun verkefna í borginni“ er vísað frá. Í raun má segja að borgarbúar hafi lítið um stóru málin í borginni að segja. Þeir fá jú að hafa rödd þegar ákveða á um minni mál, t.d. hvar blómapottur eða bekkur á að standa en þegar kemur að t.d. að leggja torg eða að fá því framgengt að sett sé meira fjármagn til að liðka fyrir þjónustu við börn, ráða þeir litlu. Það fjármagn sem verið er að sýsla með eru peningar (útsvarsfé) borgarbúa. Auka þarf lýðræði í borginni og bjóða borgarbúum að greiða atkvæði um stórar fjárfestingar, í það minnsta að þeirra skoðun hafi alvöru vægi þegar kemur að ákvarðanatöku.

    Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Borgarbúar hafa tækifæri á að forgangsraða verkefnum í tengslum við verkefnið Hverfið mitt sem einmitt stendur yfir. Þátttakan í verkefninu hefur aldrei verið meiri og hugmyndir borgaranna aldrei fleiri. Ekki er að sjá hverju þessi tillaga um að setja hin ýmsu mál í skoðanakönnun bæti við þá vönduðu umgjörð sem þegar hefur skapast.

  19. Fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um Fossvogsbrú         Mál nr. US220265

    Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um Fossvogsbrú, sbr. 32. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 26. október 2022. 

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

  20. Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um geymslu hjóla- og fellihýsa (USK22100013)         Mál nr. US220238

    Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um geymslu hjóla- og fellihýsa, sbr. 26. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 5. október 2022.

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu stjórnsýslu og gæða. 

  21. Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um stæði fyrir rafskútur (USK22100012)         Mál nr. US220239

    Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um stæði fyrir rafskútur, sbr. 27. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 5. október 2022.

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

  22. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu, um hönnun og skipulag Vogabyggðar         Mál nr. US220273

    Í því skyni að bæta aðstæður til hjólreiða í Vogabyggð er því lagt til að leitast verði við að leggja sérmerktar hjólareinar milli götu og gangstéttar þar sem aðstæður leyfa. Við hönnun og skipulag Vogabyggðar hefur í mörgum tilvikum farist fyrir að leggja sérmerktar hjólareinar milli götu og gangstéttar. Slíkt hefði þó verið hægðarleikur því gangstéttar í hverfinu eru flestar breiðar og rúmgóðar.
     
    Frestað

Fleira gerðist ekki.
Fundi slitið kl. 11:29

Fundargerðin lesin yfir og undirrituð

Alexandra Briem

Hildur Björnsdóttir Friðjón R. Friðjónsson

Hjálmar Sveinsson Kjartan Magnússon

Pawel Bartoszek Þorvaldur Daníelsson

Alexandra Briem Hildur Björnsdóttir

Friðjón R. Friðjónsson Hjálmar Sveinsson

Kjartan Magnússon Pawel Bartoszek

Þorvaldur Daníelsson

PDF útgáfa fundargerðar
247. fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 2. nóvember 2022.pdf