Umhverfis- og skipulagsráð
Ár 2022, miðvikudaginn 19. október kl. 09:11, hélt umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur 245. fund sinn. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð Ráðssalur. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Alexandra Briem, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Líf Magneudóttir, Pawel Bartoszek og áheyrnarfulltrúarnir Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir og Einar Sveinbjörn Guðmundsson. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Björn Axelsson, Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, Guðmundur Benedikt Friðriksson, Inga Rún Sigurðardóttir og Sigurjóna Guðnadóttir.
Fundarritari var Harri Ormarsson.
Þetta gerðist:
Þetta gerðist:
-
Handbók Sambands sveitarfélaga um framkvæmd úrgangsstjórnunar, kynning Mál nr. US220223
Kynning á handbók Sambands sveitarfélaga um framkvæmd úrgangsstjórnunar.
Eygerður Margrétardóttir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Friðrik Klingbeil Gunnarsson, ráðgjafaverkfræðingur, taka sæti á fundinum undir þessum lið.
- Kl. 9:30 tekur Kjartan Magnússon sæti á fundinum.
-
Einholt - Sérákvæði fyrir hreyfihamlaða, tillaga (USK22010020) Mál nr. US220247
Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofa samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 22. september 2022, þar sem lagt er til umhverfis- og skipulagsráð samþykki að bílastæði við Einholt 6 verði merkt sem stæði fyrir hreyfihamlaða. Bifreiðastæðin verði merkt með viðeigandi umferðarmerkjum og yfirborðsmerkingum í samræmi við reglugerð nr. 289/1995, um umferðarmerki og notkun þeirra, með áorðnum breytingum. Í samræmi við ákvæði 1. mgr. 84. gr. umferðarlaga nr. 77/2019, hefur tillagan verið borin undir og hlotið samþykki lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Tillögunni fylgir greinargerð. Lagt er til að tillagan sé samþykkt.
Samþykkt.
Fylgigögn
-
3. Reglur um visthæfar bifreiðar, tillaga (USK22090191) Mál nr. US220250Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofa samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 4. október 2022 þar sem lagt er til að reglur um bifreiðar sem eiga rétt á visthæfum skífum verði ekki endurnýjaðar þegar þær renna út í árslok 2022. Tillögunni fylgir greinargerð. Lagt er til að tillagan sé samþykkt.
Samþykkt. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Fulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:
Í Reykjavík eru yfir 170 þúsund bílastæði, þar af um 30 þúsund almenningsstæði í borgarlandi. Aukin uppbygging og fólksfjölgun í borginni kallar á að við nýtum landsvæðið okkar sem best og endurheimtum mikið almannarými í borgarlandinu sem hefur farið undir bílastæði sem standa mestmegnis auð hálfan sólarhringinn. Bílastæði og rekstur þeirra eru dýr fyrir borgarbúa og það er sjálfsagt og eðlilegt að allir bílnotendur greiði fyrir afnot af borgarlandi því allir bílar, mengandi eða minna mengandi, taka pláss. Þessi ákvörðun er því tímabær og fulltrúi Vinstri grænna fagnar henni.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Skipulagsyfirvöld leggja til að reglur um bifreiðar sem eiga rétt á visthæfum skífum verði ekki endurnýjaðar þegar þær renna út í árslok 2022. Þetta eru vonbrigði. Flokkur fólksins hefði frekar talið nauðsynlegt að útvíkka þessar reglur til þess að hvetja þá sem það geta að kaupa vistvæna bíla og flýta enn frekar fyrir orkuskiptum. Með því að endurnýja ekki þessar reglur er í raun verið að refsa þeim sem eiga vistvæna bíla. Meðal raka skipulagsyfirvalda er að nú sé hlutfall rafmagnsbíla mun hærra en þegar reglurnar voru settar. Flokki fólksins finnst þá enn frekar ástæða til að þessar reglur um ívilnanir séu í gildi. Visthæfar skífur eru enn mikilvægar sem hvati fyrir íbúa til að ferðast um á vistvænum ökutækjum. Við eigum langt í land með að ná fullnægjandi árangri í orkuskiptunum og því er hvorki tilefni né ástæða til að slaka neitt á í þeim efnum.
Fylgigögn
-
Kirkjustræti og Templarasund, kynning, tillaga Mál nr. US220248
Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofa samgöngustjóra og borgarhönnunar dags. 14. október 2022, þar sem lagt er til að umhverfis‐ og skipulagsráð samþykki að veita heimild fyrir áframhaldandi undirbúningi, verkhönnun og gerð útboðsgagna vegna endurhönnunar á Kirkjustræti og Templarasundi á grundvelli meðfylgjandi forhönnunar. Einnig eru lagðar fram glærur með forhönnun göngugatna að Kirkjustræti og Templarasundi dags. ágúst 2022. Lagt er til að tillagan sé samþykkt.
- Kl. 10:09 víkur Einar Sveinbjörn Guðmundsson af fundinum.
- Kl. 10:09 tekur Kolbrún Baldursdóttir sæti á fundinum.
Samþykkt að veita heimild fyrir áframhaldandi undirbúning vegna endurhönnunar á Kirkjustræti og Templarasund. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Við fögnum því að Kirkjustræti verði göngusvæði. Við áréttum að mikilvægt er að Kirkjustrætið verði ekki notað sem akvegur og akstur inn á svæðið ekki leyfður nema í algerum undantekningartilfellum. Við þökkum fallegar tillögur sem bæta umhverfi Austurvallar enn frekar.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins þakkar góða kynningu og tekur fram að vert sé að leggja bæði vinnu og metnað í hönnun á þessum stað. Umhverfið og göngusvæðið þarna þarf að vera vel hannað og fallegt og hugsa þarf einmitt til framtíðar með þá hönnun, eins og virðist gert í þeim tilögum sem kynntar voru. Fulltrúi Flokks fólksins telur þó að í þessu eins og öðru er kemur að hönnun mannvirkja, þá þurfi að hafa í huga bæði kostnað og forgangsröðun. Flokkur fólksins minnir á að í sögulegu samhengi getur bæði hönnun og framkvæmdir rokið fram úr öllum áætlunum og farið úr böndum. Hugmyndir um kostnað ætti skilyrðislaust að birta, því að margt sem nefnt er verður dýrt. Fulltrúi Flokks fólksins tekur fram að ákveðin lokun á aðgengi almennings á hluta þessa svæðis sé ekki í takt við þá hugmyndafræði að aðgengi skuli vera gott og jafnt fyrir alla, fatlaða sem ófatlaða. Gera þarf ráð fyrir akstur P merktra bíla og að þeir geti lagt í sérmerkt stæði á svæðinu. Það er enginn staður í Reykjavík sem hægt er að útiloka alveg að einhver bílaumferð fari um.
Edda Ívarsdóttir, deildarstjóri og Rebekka Guðmundsdóttir, verkefnastjóri, taka sæti á fundinum undir þessum lið.
(A) Skipulagsmál
-
Hringbraut - Hofsvallagata, framkvæmdaleyfi Mál nr. SN220444
Að lokinni grenndarkynningu er lögð fram að nýju umsókn Vegagerðarinnar dags. 12. júlí 2022 um framkvæmdaleyfi vegna breytingar á gatnamótum Hringbrautar og Hofsvallagötu. Framkvæmdin felur í sér malbikun akreina að gatnamótum Nesbrautar 49-05 (hér eftir Hringbraut) og Hofsvallagötu, endurgerð miðeyju við gatnamót, lenging vinstribeygjuvasa og breytingar hægri akreinar austan megin við gatnamót og hliðfærsla akreina Hringbrautar til suðurs vegna endurgerðar miðeyju og endurgerð hluta kantsteina. Endurnýjun og breyting á gatnalýsingu ásamt umferðarmerkjum og yfirborðsmerkingum. Einnig er lagt fram teikningasett CSÓ ráðgjafar dags. í júní 2022, Útboðslýsing VSÓ ráðgjafar dags. í júlí 2022 og yfirlitsmyndir VSÓ ráðgjafar yfir umferðaljósastýringar dags. 13. júní 2022. Tillagan var grenndarkynnt frá 24. ágúst 2022 til og með 21. september 2022. Eftirtaldir sendu athugasemdir: 22 eigendur og íbúar við Hringbraut 52, 54, 56 og 58 dags. 20. september 2022, Bjarni Magnússon dags. 18. september 2022, Jóhannes Bjarki Urbancic Tómasson dags. 18. september 2022, Ásthildur Garðarsdóttir dags. 19. og 20. september 2022, Nick Ward dags. 19. september 2022, Alma Dóra Ríkharðsdóttir dags. 20. september 2022, Steina Dögg Vigfúsdóttir dags. 20. september 2022, Ólöf Magnúsdóttir dags. 20. september 2022, Hrafnkell Sigurðsson dags. 20. september 2022, Magnea Steiney Þórðardóttir dags. 20. september 2022, Nick Ward og Íris Hrund Jóhannsdóttir dags. 20. september 2022, Jón Trausti Bjarnason f.h. Ísholts ehf. dags. 20. september 2022 og Kristín Róbertsdóttir f.h. stjórnar Húsfélags Alþýðu dags. 21. september 2022. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa dags. 13. október 2022.
Samþykkt að gefa út framkvæmdaleyfi með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa dags. 13. október 2022. Vísað til skrifstofu stjórnsýslu og gæða til útgáfu framkvæmdaleyfis. Vakin er athygli á að greiða þarf fyrir útgáfu framkvæmdaleyfis skv. gr. 5.2 í gjaldskrá skipulagsfulltrúa nr. 1051/2022.
Fulltrúar umhverfis- og skipulagsráðs leggja fram svohljóðandi bókun:
Fyrirhugaðar framkvæmdir Vegagerðarinnar við gatnamót Hringbrautar og Hofsvallagötu munu bæta öryggi hjólandi og fótgangandi vegfarenda. Það er fagnaðarefni. Engu að síður er ljóst að þetta er aðeins fyrsta skrefið í að auka öryggi fótgangandi og hjólandi á þessum hættulegu gatnamótum. Nauðsynlegt er að huga sem fyrst að næstu skrefum. Best væri ef Hringbraut væri á forræði Reykjavíkurborgar svo allar framkvæmdir til framtíðar við hana leggi út frá Aðalskipulagi Reykjavíkurborgar og verði öruggar og umhverfisvænar.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Beðið er um að athugasemdir verð teknar alvarlega til skoðunar og ekki verði haldið áfram með þessar framkvæmdir fyrr en íbúar og íbúðareigendur hafa fengið eitthvað um málið að segja. Flokkur fólksins tekur undir þetta enda ætti það að vera sjálfsagt. Ef litið er yfir athugasemdir lúta margar þeirra að bílastæðamálum í ljósi þess að umferð er að aukast. Vandinn er mikill fyrir. Fólki finnst þrengt verulega að sér, og sumir eiga erfitt með að komast inn í hverfið sitt. Komast heim og að heiman. Mjög sennilega mun umferð aukast um bílastæði meðfram Brávallargötu og Grund, með aukinni hættu á slysum vegna umferðar. Það að beina því að íbúum að leggja inn í hverfinu mun valda óþægindum fyrir aðra íbúa í Vesturbænum með tilheyrandi óánægju og nágrannaerjum eins og haft er eftir einum þeirra sem leggja fram athugasemdir. Nú þegar er bílum lagt víða og lítið framboð er af stæðum. Flokkur fólksins hefur áður talað um þá sem eiga erfitt með gang og geta ekki borið vistir heim. Það hljóta að teljast til mannréttinda að geta flutt vistir heim til sín.
Ingvar Jón Bates Gíslason, verkefnastjóri, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Sóltún 2-4, breyting á deiliskipulagi (01.233.101) Mál nr. SN210452
Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju umsókn Studio Nexus slf. f.h. Sóltún 2-4 ehf. dags. 16. júní 2021 um breytingu á deiliskipulagi Ármannsreits, með síðari breytingum, vegna lóðarinnar nr. 2-4 við Sóltún. Breytingin sem lögð er til felst í megin atriðum í því að lóðinni er skipt upp til tveggja nota annarsvegar hjúkrunarheimili í nr. 2 og íbúðir í nr. 4. Breytingar varðandi húshluta nr. 2 er að tvær álmur eru lengdar til að bæta við hjúkrunarrýmum, 5. hæðinni er bætt við að hluta og kjallarinn er stækkaður. Breytingar varðandi húshluta nr. 4 eru þær að formi byggingareits er breytt og notkun er breytt úr hjúkrunarheimili yfir í íbúðir, hæðar heimild er breytt úr 4 hæðum í 5 hæða hús með 6. hæð að hluta. Byggingarmagn og sérskilmálar eru uppfærðir m.v. þetta og bílastæðaskilmálar eru uppfærðir fyrir Sóltún 4, samkvæmt uppdr. Studio Nexus slf. dags. 10. júní 2021, síðast breytt 22. febrúar 2022. Einnig er lögð fram breytt tillaga Studio Nexus, móttekin 19. nóvember 2021, þar sem m.a. húsformi er breytt og samgöngumat unnið af VSÓ dags. febrúar 2022. Tillagan var auglýst frá 23. mars 2022 til og með 11. maí 2022. Eftirtaldir sendu athugasemdir: Helgi Gunnlaugsson dags. 25. apríl 2022, Þ. Toggi Björnsson dags. 25. apríl 2022, Steinþór Steingrímsson og Sólveig Hlín Kristjánsdóttir dags. 25. apríl 2022, Einar Karl Kristjánsson dags. 26. apríl 2022, Tryggvi Magnússon dags. 28. apríl 2022, 21 íbúðaeigendur að Mánatúni 2 dags. 2. maí 2022, Jónína S. Pálmadóttir dags. 5. maí 2022, Harald Isaksen dags. 5. maí 2022, Þórunn Selma Þórðardóttir dags. 8. maí 2022, Böðvar Freyr Stefnisson og Snædís Jóhannesdóttir dags. 9. maí 2022, Rakel Ármannsdóttir, Birna Ketilsdóttir og Halla Bogadóttir fh. húsfélagsins Mánatún 6 dags. 9. maí 2022, Stefán Rafn Geirsson dags. 9. maí 2022, Dóra Stefánsdóttir, dags. 9. maí 2022, Emilía Örlygsdóttir og Ómar Örn Hauksson dags. 9. maí 2022, Waldorfleikskólinn Sólstafir dags. 10. maí 2022, 21 íbúðareigendur í Mánatúni 4 dags. 10. maí 2022, Jóhann P. Jónsson dags. 10. maí 2022, Eiríkur G. Guðmundsson dags. 10. maí 2022, stjórn íbúasamtaka Laugardals dags. 11. maí 2022, Margrét Birgisdóttir, Árni Hallgrímsson dags. 11. maí 2022. Einnig er lögð fram umsögn Veitna dags. 5. maí 2022 og umsögn íbúaráðs Laugardals dags. 10. maí 2022. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa dags. 6. október 2022. Lagt er til að tillagan verði samþykkt með þeim breytingum sem koma fram í umsögninni.
Frestað.
-
Gufunes, Skemmtigarður, breyting á deiliskipulagi (02.2) Mál nr. SN220534
Lögð fram umsókn Skemmtigarðsins ehf. dags. 31. ágúst 2022, ásamt bréfi Eflu dags. 15. ágúst 2022 um breytingu á deiliskipulagi fyrir Skemmtigarðinn í Gufunesi. Í breytingunni sem lögð er til felst að skilgreindir/afmarkaðir eru lóðarreitir fyrir þá starfsemi sem nú er til staðar, samkvæmt uppdr. Eflu verkfræðistofu dags. 11. október 2022. Lagt er til að tillagan verði afgreidd í auglýsingu.
Samþykkt með vísan til a liðar 1. gr. viðauka 1.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, um fullnaðarafgreiðslur umhverfis- og skipulagsráðs án staðfestingar borgarráðs.
Fylgigögn
-
Seljavegur 1, breyting á deiliskipulagi (01.130.2) Mál nr. SN210692
Að lokinni grenndarkynningu er lögð fram að nýju umsókn Maison ehf. dags. 6. október 2021 um breytingu á deiliskipulagi Nýlendureits vegna lóðarinnar nr. 1 við Seljaveg. Í breytingunni sem lögð er til felst að heimilt verði að byggja tveggja hæða hús með þremur smáíbúðum og útisvæðum á þaki ásamt því að setja eitt yfirbyggt bílastæði á norðurhluta lóðar við Nýlendugötu. Við breytinguna hækkar nýtingarhlutfall lóðar og byggingarmagn eykst, samkvæmt deiliskipulaguppdr. Studio Granda dags. 20. ágúst 2021, breytt 15. október 2022. Einnig eru lagðir fram skuggavarpsuppdr. dags. 20. ágúst 2021. Tillagan var grenndarkynnt frá 15. júlí 2022 til og með 22. ágúst 2022. Eftirtaldir sendu athugasemdir: Hildur Eir Jónsdóttir, Jakob Anderssen, Ásthildur Kristjánsdóttir, Guðrún Olsen, Gaukur Úlfarsson, Magnús Benediktsson og Unnur Hjaltadóttir dags. 14. ágúst 2022. Einnig er lögð fram ábending Veitna dags. 4. ágúst 2022. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa dags. 13. október 2022. Lagt er til að tillagan verði samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa.
Samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa dags. 13. október 2022. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Athugasemdir íbúa við Vesturgötu 54 eru settar fram í fimm liðum. Snúa þær að eftirfarandi atriðum: Útsýni, nálægð við lóðarmörk, mikið byggingarmagn / fjöldi íbúða, ósamræmi við götumynd og innviðir í hnút. Flokkur fólksins vill segja nokkur orð um útsýni. Í nánast flestum athugasemdum sem berast umhverfis- og skipulagssviði snúa að útsýni, birtu skerðingu og skuggavarpi. Þetta er bagalegt. Fólk hefur keypt sér fasteign í þeirri trú að það hafi ákveðið útsýni, ákveðna birtu. Þegar fram líða stundir og þétting byggðar er í algleymingi er þetta tekið frá fólki og það skilið eftir með útsýni jafnvel inn í næsta stofuglugga eða í skugga og dimmu. Flokkur fólksins hefur áður bókað um það. Of mikil og óhófleg þétting tekur birtu frá fólki sem hefur neikvæð áhrif á andlega líðan fólks eins og rannsóknir hafa ítrekað sýnt.
Fylgigögn
-
Hverfisgata 98A, 100 og 100A, breyting á deiliskipulagi (01.174.1) Mál nr. SN220616
Lögð fram umsókn Birkis Árnasonar dags. 29. september 2022 um breytingu á deiliskipulagi reits 1.174.1 vegna lóðarinnar nr. 98A, 100 og 100A við Hverfisgötu. Í breytingunni sem lögð er til felst að heimilt verði að rífa veggi á 2. hæð húsanna við Hverfisgötu 98A og 100 og bæta við tveimur hæðum og risi, samkvæmt uppdr. Arkþing/Nordic ehf. dags. 13. september 2022. Einnig er lögð fram Minjastofnun Íslands dags. 10. júní 2022. Lagt er til að tillaga að breytingu verði samþykkt án grenndarkynningar og auglýsingar þar sem hún varðar ekki hagsmuni annarra en umsækjanda og/eða sveitarfélagsins.
Samþykkt með vísan til a liðar 1. gr. viðauka 1.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, um fullnaðarafgreiðslur umhverfis- og skipulagsráðs án staðfestingar borgarráðs.
(B) Byggingarmál
Fylgigögn
-
Afgreiðslufundir byggingarfulltrúa, fundargerðir Mál nr. BN045423
Lagðar fram fundargerðir afgreiðslufunda byggingarfulltrúa frá 11. október 2022.
Fylgigögn
-
Brekkustígur 9, Stækkun húss og breyting lóðar (01.134.202) Mál nr. BN057519
Að lokinni grenndarkynningu er lagt fram að nýju erindi byggingarfulltrúa þar sem sótt er um leyfi til að endurbyggja og hækka hús og byggja stigahús á bakhlið einbýlishúss á lóð nr. 9 við Brekkustíg svr. uppdrætti dags. 8. mars 2022. Erindi var grenndarkynnt frá 14. júní 2022 til og með 13. júlí 2022. Eftirtaldir sendu athugasemdir: Sigrún Baldvinsdóttir dags. 5. júlí 2022, Þorsteinn Geirharðsson dags. 11. júlí 2022 og Kjartan Sveinsson og María Huld Markan Sigfúsdóttir dags. 13. júlí 2022. Einnig eru lögð fram ítarlegri gögn Kanon arkitekta ehf. dags. 20. september 2022 vegna hækkunar húss og skuggavarps. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa dags. 29. september 2022 og uppfærð umsögn skipulagsfulltrúa dags. 13. október 2022. Lagt er til að erindið sé samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa.
Samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa dags. 13. október 2022.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fjölmargar athugasemdir hafa borist. Fram kemur að send hafi verið inn athugasemd árið 2020 varðandi Öldugötu 44 vegna útlits hússins en engar breytingar hafi verið gerðar. Aftur er komið inn á þrengsl og skort á bílastæðum í athugasemdum. Allir vita að Brekkustígurinn er frekar þröng gata og nú þegar er nánast aldrei að kvöldi til hægt að reikna með að bílastæði sé laust í götunni. Gatan er full af bílum síðdegis og svörin frá borginni eru á þann veg að hjólagrindur verði á lóðunum. Vandinn er ekki nýr, svona ástand hefur verið í mörg ár. Þeir sem þurfa að finna bílum sínum stað við hús sín lenda í stökustu vandræðum. Hvað sem þessu líður er mikilvægt að hlustað sé á sjónarmið íbúa í þessu sem öðru og að skilaboð séu skýr. Það virðist einnig gæta einhvers ósamræmis milli þess sem kynnt er í gögnum og þess sem íbúar eru að segja. Hvernig stendur á því? Flokkur fólksins hvetur skipulagsyfirvöld til að taka gott samtal við íbúa.
Hrafnhildur Sverrisdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
(D) Ýmis mál
Fylgigögn
-
Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um sorpkostnað, svar (USK22090138) Mál nr. US220189
Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um sorpkostnað sbr. 29. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 24. ágúst 2022. Einnig er lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða dags. 12. október 2022.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fyrirspurnin varðar kostnað við sorphirðu en svarið er í engu samræmi við spurninguna þar sem svarið tekur aðeins til þess sem sveitarfélagði rukkar íbúa sína beint með gjöldum. Sorphirðugjald sem sveitarfélög leggja á íbúa sína er alls ekki það sama og kostnaður við sorphirðu. Því er svarið alls ekki svar við spurningunni sem lögð er fram. Í svari kemur þó fram að gjöld sem lögð eru á sorphirðu og eyðingu beint frá heimilum er 1.559.680.000,- kr sem í raun stenst ekki sem kostnaður þegar opinberar tölur eru skoðaðar. Samkvæmt upplýsingum frá SORPU kom um 130 kg frá hverjum íbúa Reykjavíkur (húsasorpi), en íbúar Reykjavíkur eru 133.262 (árið 2021) og því er magn úrgangs frá þeim 17.324.060 kg en bara að eyða þessum kg kostar ríflega 952 milljónir samkvæmt gjaldskrá Sorpu. Því ætti kostnaður við að reka allar sorpbifreiðar Reykjavíkurborgar, starfmannahald og kaup á ílátum að vera 607 milljónir á ári, sem stenst enga skoðun þ.e.a.s. að kostnaður við reksturinn sé um 11 þúsund krónur á hvert heimili. Fulltrúi Flokks fólksins mun óska sérstaklega eftir að fá sundurliðaðan kostnað við losun, leigu og förgun hjá heimilum í Reykjavík.
Fylgigögn
-
Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um vinnu stýrihóps um ljósvistarstefnu (USK22090140) Mál nr. US220209
Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um vinnu stýrihóps um ljósvistarstefnu, sbr. 42. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 7. september 2022.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu stjórnsýslu og gæða. -
Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um framgang hreinsunar- og öryggismála í Úlfarsárdal (USK22100014) Mál nr. US220241
Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um framgang hreinsunar- og öryggismála í Úlfarsárdal, sbr. 28. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 10. október 2022.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.
-
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu, um aðstöðu strætisvagnafarþega í Mjódd Mál nr. US220255
Lagt er til ráðist verði í umbætur á skiptistöðinni í Mjódd í því skyni að bæta aðstöðu strætisvagnafarþega. Um fjórar milljónir farþega fara árlega um stöðina og er því um að ræða fjölförnustu umferðarmiðstöð landsins. Að lágmarki verði ráðist í eftirfarandi umbætur: 1. Kvöldopnun. Biðstöðin verði opin farþegum á kvöldin á meðan strætisvagnar ganga. 2. Gæsla verði aukin í biðsalnum og salernisþrifum komið í lag. 3. Sætum í biðsal verði fjölgað og þau löguð sem fyrir eru. Biðsalurinn verði gerður hlýlegri, t.d. með uppsetningu listaverka.Frestað.
-
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu, um Lönguhlíð Mál nr. US220256
Lagt er til að ráðist verði í almennar endurbætur á sunnanverðri Lönguhlíð og hlutverk hennar þannig styrkt sem borgargötu í miðju Hlíðahverfis. Gróður við götuna verði aukinn og hjólreiðabrautir lagfærðar og endurbættar. Æskilegt er að brautirnar verði samfelldar alla leið, tengingar bættar við sinn hvorn enda þeirra og aðkoma lagfærð að Eskitorgi, Miklubraut sem og að biðstöðvum strætisvagna í götunni. Merkja þarf hjólabrautirnar með skýrum og áberandi hætti en núverandi merkingar eru fáar og flestar þeirra máðar. Að minnsta kosti þyrfti að setja upp varúðarmerki þar sem hjólabrautirnar enda án fyrirvara og renna saman við akbrautina.Frestað.
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um bíla- og hjólreiðastefnu Reykjavíkurborgar Mál nr. US220253
Nú hefur Reykjavíkurborg sett fram bíla- og hjólastefnu Reykjavíkurborgar þar sem að miðað er við 1 bílastæði á hverja 75m2 af skrifstofuhúsnæði. Líklega komast um 4 - 5 starfsmenn fyrir í slíku skrifstofuhúsnæði. Þetta er að sjálfsögðu lofsvert umhverfislega séð. Flokkur fólksins hefur áhuga á að vita hvernig þessi stefna virkar þar sem að ljóst er að bílastæðum er fækkað og fáir geta mætt í vinnu á bílum. Því spyr Flokkur fólksins hvernig til hefur tekist, hversu margir lóðahafar hafa sett sér þessa reglu og hver er reynsla þeirra, sem tekið hafa upp þessa stefnu. Fullnægir þessi fjöldi bílastæða þörfum húsnæðisins? -
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um ruðning í húsagötum og nagladekk Mál nr. US220254
Flokkur fólksins óskar því eftir að spyrja hvort skipulagsyfirvöld hyggjast taka á þeim vanda sem leiðir einmitt til þess að stór hópur borgarbúa neyðist til að vera á nagladekkjum? Fulltrúa Flokks fólksins finnst fréttatilkynning frá borginni nokkuð brött, eiginlega bara áróðurskennd og er hér vísað í skeyti frá upplýsingastjóra um nagladekk. Farið er stórum orðum um skaðsemi þeirra á malbikið sem sennilega er rétt. Ennfremur að þau skapi hávaða og auki eldsneytiskostnað bifreiða. Sennilega allt rétt. Hér er verið að vísa í mokstur í húsagötum og ekki í þeirri merkingu að mokað sé illa heldur að breyta þarf verklagi og viðhorfi. Það er rangt að hugsa að það sé sjálfsagt að moka fyrir innkeyrslur og að sjálfsagt þyki að íbúar þurfi þurfi að ryðja frá innkeyrslunni eftir að snjóruðningstæki hefur farið framhjá. Ruðninginn er mun erfiðara að moka en lausamjöll. Þeir sem þurfa að moka hafa hvort eð er engan stað til að setja ruðninginn á en aftur á götuna. Að ryðja fyrir innkeyrslur kallar á að fólk verður sums staðar að vera á nagladekkjum. Sumir treysta sér ekki til að moka og lokast af og í raun væri betra jafnvel að ryðja ekki neitt. -
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, vegna svars við sorphirðukostnaði Mál nr. US220257
Fulltrúi Flokks fólksins óskar því eftir að fá sundurliðaðan kostnað við losun, leigu og förgun á hvert heimili á Reykjavík. Flokkur fólksins lagði fram fyrirspurn um sorpkostnað. Spurt var um hver sorpkostnaður Reykjavíkurborgar er við tæmingu tunna per íbúðareiningu og hver sambærilegur kostnaður er í nágrannasveitarfélögum. Eins og hvert heimili þarf Reykjavíkurborg að horfa vel í alla útgjaldaliði og leita allra ráða til að hagræða. Í fyrirspurninni var vísað í skýrslu sem gefin var út af samkeppniseftirlitinu árið 2016 (Competition in the waste managment sector). Helstu niðurstöður eru þær að sveitarfélög sem nota útboð við meðhöndlun úrgangs spara sér 10 - 47% frá kostnaði við eldri kerfi. Svarið sem barst var ekki í neinu samræmi við spurninguna þar sem svarið tekur aðeins til þess sem sveitarfélagði rukkar íbúa sína beint með gjöldum. Sorphirðugjald sem sveitarfélög leggja á íbúa sína er alls ekki það sama og kostnaður við sorphirðu. Fulltrúi Flokks fólksins óskar því eftir að fá sundurliðaðan kostnað við losun, leigu og förgun hjá heimilum í Reykjavík.
Fundi slitið kl. 11:35
Alexandra Briem Aðalsteinn Haukur Sverrisson
Hildur Björnsdóttir Hjálmar Sveinsson
Kjartan Magnússon Líf Magneudóttir
Pawel Bartoszek
PDF útgáfa fundargerðar
245. fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 19. október 2022.pdf