Umhverfis- og skipulagsráð - Fundur nr. 237

Umhverfis- og skipulagsráð

Ár 2022, miðvikudaginn 17. ágúst kl. 9:07, var haldinn 237. fundur umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Alexandra Briem, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Líf Magneudóttir, Pawel Bartoszek og áheyrnarfulltrúarnir Kolbrún Baldursdóttir og Ásta  Þ. Skjalddal Guðjónsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn:, Ólöf Örvarsdóttir, Björn Axelsson, Borghildur Sölvey Sturludóttir, Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, Inga Rún Sigurðardóttir og Sigurjóna Guðnadóttir.

Fundarritari var Glóey Helgudóttir Finnsdóttir.         

Þetta gerðist:

Þetta gerðist:

  1. Göngugötur, niðurstöður starfshóps og tillaga að samþykkt, tillaga USK22060048         Mál nr. US220122

    Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 15. júní 2022 með tillögu að samþykktum fyrir göngugötur í Reykjavík. 

    Leiðrétt bókun frá fundi umhverfis- og skipulagsráðs 22. júní 2022. 

    Rétt bókun er: Samþykkt. Vísað til borgarráðs.

    Vísað til borgarráðs. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Ef horft er á 5. gr. er ekki gengið nógu langt. Íbúar eiga ekki að þurfa að sækja um leyfi fyrir tilfallandi akstri á göngugötu t.d. vegna flutninga eða stærri framkvæmda. Slík umsókn tefur  málið og kallar á auka starfskrafta sem kosta.

    Þegar talað er um göngugötur má ekki gleyma þeim sem eru fótafúnir eða með skerta hreyfifærni.. Fatlað fólk finnur mikið fyrir því núna að geta ekki lagt bílnum sínum í stæði nálægt verslunum og þjónustu. Ef við horfum t.d. á Laugarveginn, þá er ekki hægt að leggja bíl þar. Sérmerktu stæðin eru í hliðargötum. Leigubílar ættu að geta keyrt göngugötu  til að sækja fatlaða einstaklinga. Í þessari bókun er vísað í eftirfarandi umfjöllun í Kjarnanum: https://kjarninn.is/skodun/laerdu-a-thetta/

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í 6. grein samþykktarinnar stendur að það megi hafa viðburði án tónlistar á göngugötum og það þá einungis í klukkustund á sama staðnum. Eftir það megi listamaður ekki halda viðburð nema vera búinn að færa sig um 50 metra. Þetta eru of þröng skilyrði sem er verið að setja fólki. Listafólk má ekki spila tónlist samkvæmt þessu og tjá þannig list sína án þess að sækja um leyfi hjá borginni. Þetta stuðlar ekki að lifandi og spennandi list á göngugötunum og hamlar þeirri tjáningu of mikið. Það að mega ekki vera með viðburð lengur en í klukkustund hamlar því líka að fólk hafi fyrir því að sýna verk sín og leyfa gestum að njóta menningarinnar sem gæti þrifist á göngugötunni.

    -    Kl. 9:08 tekur Hildur Björnsdóttir sæti á fundinum.

    (A)    Skipulagsmál

    Fylgigögn

  2. Afgreiðslufundir skipulagsfulltrúa Reykjavíkur, fundargerð         Mál nr. SN010070

    Lögð fram fundargerð embættisafgreiðslufundar skipulagsfulltrúa frá 11. ágúst 2022.

    Fylgigögn

  3. Kleppsgarðar, skipulagslýsing         Mál nr. SN220409

    Lögð fram skipulagslýsing VSÓ ráðgjafar dags. 22. júní 2022 vegna nýs deiliskipulags að Kleppsgörðum. Tilgangur skipulagsins er að koma fyrir byggingu húsnæðis fyrir viðbragðsaðila á höfuðborgarsvæðinu. Lagt er til að lýsingin verði kynnt og leitað umsagna þeirra aðila sem taldir eru upp í henni.

    Samþykkt er að kynna lýsingu að deiliskipulagi í samræmi við 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Leita skal umsagna um lýsinguna hjá Skipulagsstofnun, Vegagerðinni, Faxaflóahöfnum, Siglingastofnun, Veðurstofunni, Veitum, Ljósleiðaranum, Strætó bs. og Mílu, Minjastofnun, Borgarsögusafni, viðeigandi sviðum hjá Reykjavíkurborg, íbúaráði og einnig skal kynna hana fyrir almenningi. 

    Vísað til borgarráðs.

    Fulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það væri mikil eftirsjá af því græna ósnortna klettasvæði ef það fer allt undir gráa uppbyggingu. Það er því kappsmál að tekið sé tillit til þess og það varðveitt sem mest. Til þess þarf að hugsa út fyrir kassann og meta vel hvort tækifæri séu til að fara með uppbygginguna inn á aðliggjandi bílastæði í Holtagörðum með tilheyrandi kaupum á þeirri lóð.

    Sverrir Bollason frá VSÓ ráðgjöfum tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  4. Laugavegur 20B, breyting á deiliskipulagi     (01.171.5)    Mál nr. SN220003

    Lögð fram umsókn Páls V Bjarnasonar dags. 4. janúar 2022 um breytingu á deiliskipulagi reits 1.171.5, Laugavegs- og Skólavörðustígsreitir, vegna lóðarinnar nr. 20B við Laugaveg. Í umsókninni felst stækkun á byggingarreit lóðarinnar fyrir einnar hæðar viðbyggingu við vesturhlið hússins fram að Klapparstíg með þaksvölum, samkvæmt uppdr. P ARK teiknistofu sf. dags. 30. desember 2021, br. 8. ágúst 2022. Einnig er lögð fram umsögn Minjastofnunar Íslands dags. 20. október 2021. Tillagan var grenndarkynnt frá 16. mars 2022 til og með 13. apríl 2022. Eftirtaldir sendu athugasemdir: Haraldur Ingvarsson f.h. Reykjavík Rent ehf. dags. 12. apríl 2022 og Einar Bjarnason dags. 12. apríl 2022. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 8. ágúst 2022. Lagt er til að tillagan verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til í umsögn skipulagsfulltrúa.

    Samþykkt sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með þeim breytingum sem koma fram í umsögn skipulagsfulltrúa dags. 8. ágúst 2022.

    Vísað til borgarráðs

    Sólveig Sigurðardóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  5. Silfurslétta 9, breyting á deiliskipulagi     (03.453.5)    Mál nr. SN220354

    Lögð fram umsókn Landmótunar sf. dags. 8. júní 2022 um breytingu á deiliskipulagi fyrir athafnasvæði á Esjumelum vegna lóðarinnar nr. 9 við Silfursléttu. Í breytingunni sem lögð er til felst stækkun lóðarinnar til suðausturs, samkvæmt uppdr. Landmótunar dags. 18. maí 2022. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 7. júlí 2022. Lagt er til að tillögunni verði synjað með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa.

    Synjað er beiðni um breytingu á deiliskipulagi með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa dags. 7. júlí 2022.

    Vísað til borgarráðs.

    Björn Ingi Edvardsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  6. Vindás-Brekknaás, breyting á deiliskipulagi         Mál nr. SN220424

    Lögð fram umsókn Landmótunar sf. dags. 4. júlí 2022 um breytingu á deiliskipulagi Vindáss-Brekknaáss. Í breytingunni sem lögð er til felst að bætt er við lóð og byggingarreit fyrir dreifistöð á austurhlið skipulagssvæðisins, samkvæmt uppdr. Landmótunar sf. dags. 3. júní 2022. Lagt er til að tillagan verði samþykkt án grenndarkynningar þar sem hún varðar ekki hagsmuni annarra en umsækjanda og sveitarfélagsins.

    Samþykkt með vísan til a liðar 1. gr. viðauka 1.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, um fullnaðarafgreiðslur umhverfis- og skipulagsráðs án staðfestingar borgarráðs.

    Björn Ingi Edvardsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  7. Grandagarður 16, breyting á deiliskipulagi     (01.114)    Mál nr. SN220426

    Lögð fram umsókn ASK Arkitekta ehf. dags. 4. júlí 2022 um breytingu á deiliskipulagi Vesturhafnar vegna lóðarinnar nr. 16 við Grandagarð. Í fyrirhugaðri breytingu felst að reitur 2 á lóð er færður samsíða byggingu frá norðausturhorni lóðar um ca 20 m til suðvesturs, samkvæmt uppdr. ASK Arkitekta ehf. dags. 30. júní 2022. Lagt er til að tillagan verði samþykkt án grenndarkynningar þar sem hún varðar ekki hagsmuni annarra en umsækjanda og sveitarfélagsins.

    Samþykkt með vísan til a liðar 1. gr. viðauka 1.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, um fullnaðarafgreiðslur umhverfis- og skipulagsráðs án staðfestingar borgarráðs.

    (B) Byggingarmál

    Fylgigögn

  8. Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa, fundargerð         Mál nr. BN045423

    Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa frá 9. ágúst 2022.

    Fylgigögn

  9. Gatnamót Reykjanesbrautar og Bústaðavegar, verkefni samgöngusáttmála, kynning         Mál nr. US220178

    Kynning á stöðu undirbúnings gatnamóta Reykjanesbrautar og Bústaðavegar, verkefni samgöngusáttmálans.

    Bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Gatnamót Bústaðavegar og Reykjanesbrautar eru meðal þeirra verkefna í samgöngusáttmála sem hafa tafist verulega. Lítil sem engin hreyfing var á málinu allt síðasta kjörtímabil. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa um árabil lagt til úrbætur á gatnamótunum og undirstrika nú mikilvægi þess að unnið verði með skjótum og vönduðum hætti að málinu, með bætt umferðaröryggi að leiðarljósi. Jafnframt verði þess gætt að velja leið sem ekki gengur á verndarsvæði Elliðaárdalsins.

    Bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins er færð í trúnaðarbók.

    Berglind Hallgrímsdóttir frá Eflu, Bryndís Friðriksdóttir og Kristján Árni Kristjánsson frá Vegagerðinni og Atli Björn E. Levy yfirverkfræðingur taka sæti á fundinum undir þessum lið. Hjálmar Skarphéðinsson frá Eflu tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

  10. Nýjar göngu- og hjólabrýr í Elliðaárdal, kynning         Mál nr. US220177

    Kynning á stöðu undirbúnings nýrra göngu- og hjólabrúa í Elliðaárdal.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fagna hugmyndum um smíði nýrra göngu- og hjólreiðabrúa í Elliðaárdal og Víðidal. Jafnframt er fagnað löngu tímabærum viðgerðum á göngubrú yfir Dimmu í Víðidal. Í júní 2017, fyrir rúmum fimm árum, bentu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins á slæmt ástand brúarinnar og lögðu til að ráðist yrði í viðgerðir á henni án tafar. Það segir ákveðna sögu um vinnubrögð í borgarkerfinu að það skuli hafa tekið hálfan áratug að bregðast jákvætt við svo einfaldri tillögu, sem varðar sjálfsagðar úrbætur á fjölfarinni leið gangandi og hjólandi vegfarenda.

    Kristinn Jón Eysteinsson byggingartæknifræðingur tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    (D) Ýmis mál

    Fylgigögn

  11. Framgangur uppbyggingaráætlunar fyrir leikskólalóðir, kynning         Mál nr. US220179

    Kynning á framgangi uppbyggingaráætlunar fyrir leikskólalóðir.

    Frestað.

  12. Reynisvatnsás, kæra 88/2022             Mál nr. SN220497

    Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 5. ágúst 2022 ásamt kæru dags. s.d. þar sem kærðar eru tillögur að breyttu deiliskipulagi Reynisvatnsáss.

  13. Tillaga áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokksins, um aðgerðir til að stemma stigu við hraðakstri, umsögn - USK22030169         Mál nr. US190203

    Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokksins um aðgerðir til að stemma stigu við hraðakstri mótorhjóla og vespa á stígnum bak við Fannafell, Gyðufell og Iðufell, sbr. 44. liður fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 26. júní 2019 ásamt umsögn skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 31. mars 2022.

    Tillagan er dregin til baka.

    Fylgigögn

  14. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda sem fara fram hjá útgönguleiðum bílastæðahúsa, sbr. 27 liður fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 9. febrúar 2022 ásamt umsögn skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 31. mars 2022

    Fylgigögn

  15. Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um að gönguljós verði með skynjunarbúnaði, umsögn - USK22030169         Mál nr. US180455

    Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að gönguljós verði með skynjunarbúnaði sem gefi frá sér hljóðmerki þegar fótgangandi nálgast og sem nema og laga sig að umhverfishljóðum, sbr. 19. liður fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 30. janúar 2019 ásamt umsögn skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 31. mars 2022.

    Tillagan er felld. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Flokkur fólksins er ósáttur við  hversu seint þessi tillaga kemur til afgreiðslu. Tillagan var lögð fram í janúar 2019 og er svarað í ágúst 2021.  Á þessum tíma kann margt að hafa breyst.  Tillagan er um að gönguljós verði með skynjunarbúnaði sem gefi frá sér hljóðmerki þegar fótgangandi nálgast og sem nema og laga sig að umhverfishljóðum. Í svari kemur fram “að nú sé gerð krafa um hnappabox sem innihaldi stillanlegan hljóðmerkjagjafa. Hljóðmerkin eru virk hvort sem gangandi vegfarendur eru til staðar eða ekki, en hægt er að stýra því á hvaða tíma sólarhrings þau eru virk”. Þá er það spurning  hvort þessum hljóðmerkjum sé stýrt eða klingja þau kannski allan sólarhringinn? Hvað sem því líður þá hafa án efa orðið framfarir í þessum málum, skyldi  maður halda enda á þriðja ár síðan tillagan var lögð fram.

    Fylgigögn

  16. Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um endurbætur á öllum biðstöðvum strætó, umsögn - USK22030169         Mál nr. US180454

    Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um endurbætur á öllum biðstöðvum strætó, sbr. 18. liður fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 30. janúar 2019 ásamt umsögn skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 12. mars 2022.

    Tillögunni er vísað frá. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins lagði fram tillögu 2019 um  endurbætur á öllum biðstöðvum strætó sem voru þá víða í lamasessi. Tillagan kemur til afgreiðslu nú þremur árum síðar. Í umsögn er minnst á niðurstöður úttektar frá 2020 á aðgengismálum á biðstöðvum Strætó. Þá voru Yfir 500 biðstöðvar  metnar ófullnægjandi. Flokkur fólksins bókaði 2020 að til stæði að lagfæra 12  strætó biðstöðvar sem voru  verst farnar bæði um aðgengi og yfirborð. Aðeins á 11 biðstöðvum af 556 var aðgengi viðunandi. Aðgengi og lélegt yfirborð stétta við strætó biðstöðvar hefur auðvitað komið verst niður á fötluðu fólki.  Í umsögn sem fylgir afgreiðslu þessarar tillögu er staðfest að endurbætur eru á bið vegna væntanlegrar borgarlínu sem búið er að upplýsa um að tefjist um 3-5 ár. Flokkur fólksins óttast að þessi mál verði látin danka og tefjist borgarlínuverkefnið enn frekar er ekki líklegt að skipulagsyfirvöld ráðist í endurbætur sem tengjast væntanlegri borgarlínu á næstunni. Flokkur fólksins telur að endurmeta verði endurbætur á þeim fjölda biðstöðva sem eru í lamasessi í ljósi fyrirsjáanlegrar seinkunar borgarlínu.

    Fylgigögn

  17. Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um bílastæðaklukkur, umsögn - USK22030169         Mál nr. US190230

    Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um bílastæðaklukkur, sbr. 42. liður fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 3. júlí 2019 ásamt umsögn skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 31. mars 2022.

    Tillagan er felld. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins harmar hversu seint er brugðist við málum Flokks fólksins en hér er enn ein tillaga Flokks fólksins sem hér er til afgreiðslu sem er eldgömul, lögð fram 2019. Lagt var til að Reykjavíkurborg skoðaði að leggja af stöðumæla og setja þess í stað bílastæðaklukkur. Í því myndi vera mikill sparnaður og hagræðing. Klukkur og nemar er það sem reynst hefur best annars staðar. Segir í umsögn að ekki verði séð að núverandi fyrirkomulag gjaldheimtu sé haldið slíkum göllum, að ástæða sé til að nota bílastæðaklukkur í stað núverandi kerfis. Flokkur fólksins vill benda á hagkvæmnissjónarmið og að Reykjavíkurborg noti  “kerfi” sem er bæði ódýrt, einfalt og sem virkar. Í umsögn er bent á að hægt sé að greiða fyrir með snjall lausnum. Flokkur fólksins segir þá að það sé gott fyrir þá sem nota snjalllausnir en það séu ekki allir sem noti slíkar lausnir. Nefna má eldri borgara,  ferðamenn og aðra þá sem ekki  eru með snjallsíma.

    Fylgigögn

  18. Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, að ljósabúnaður við innkeyrslu bílakjallara Ráðhússins verður lagaður, umsögn - USK21120067         Mál nr. US210285

    Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að ljósabúnaður við innkeyrslu bílakjallara Ráðhússins verður lagaður, sbr. 20. liður fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 3. nóvember 2021 ásamt umsögn skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 12. ágúst 2022.

    Tillögunni er vísað frá. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Á þeim tíma sem tillagan var lögð fram skapaðist iðulega vandræðaástand þegar ekið var í bílakjallarann eða upp úr honum. Flokkur fólksins lagði til í nóv. sl. að ljósabúnaður við innkeyrslu bílakjallara Ráðhússins verði lagaður. Vandinn fólst í að ljósabúnaður, upplýsingaskilti um laus stæði í kjallaranum og hvort bíll væri á leið úr kjallaranum virkaði ekki sem skyldi þannig að bílar á leið ofan í kjallarann og úr honum mættust. Innkeyrslan er einbreið. Margir lentu í vandræðum. Skýring er sögð vera sú að “vegna innleiðingar nýs aðgangsstýringarkerfis í bílakjallarann varð umrætt upplýsingaskilti tímabundið óvirkt”. Einnig segir í svari að bílastæðasjóður vinnur nú að uppsetningu nýs LED skiltis við innkeyrsluna í bílakjallara ráðhússins en því miður hefur tafist að koma upp skjánum”.

    Fylgigögn

  19. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um samþykkt um göngugötur         Mál nr. US220180

     

    Í samþykkt um göngugötur í Reykjavík þá kemur fram í fjórðu grein að íbúar á göngugötu geti sótt um svokallað göngugötukort til að hafa aðgang að bílastæði. Eingöngu er gefið út eitt göngugötukort fyrir hvert bílastæði. Flokkur fólksins spyr hvort ekki sé hægt að gefa út fleiri en eitt kort við sérstakar aðstæður? Vísað er jafnframt í umfjöllun um þessi mál í Kjarnanum: https://kjarninn.is/skodun/laerdu-a-thetta/

  20. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um stæði fyrir hjól- og fellihýsi         Mál nr. US220181

     

    Nágrannasveitarfélög eins og Hafnarfjörður og Kópavogur hafa komið til móts við eigendur hjól- og fellihýsa með því að bjóða þeim að geyma þau yfir sumarið á svæðum i eigu sveitarfélaganna sem eru illa nýtt. Þetta gæti t.d. verið skólalóð á þeim tíma sem skólar eru í sumarfríi eða við íþróttamannvirki. Það er stefna borgarinnar að fækka bílastæðum og hafa jafn vel undir einu bílastæði fyrir hverja íbúð í byggingu. Mikil fjölgun hefur orðið á hjól og fellihýsum og  margir íbúar Reykjavíkur kjósa að eiga slík hýsi  til frístundaiðkunar og því eðlilegt að Reykjavíkurborg hugi að þessum hópi og kanni hvort að ekki megi þjónusta hann. Ljóst er að þessi hópur er á hrakhólum í dag og spurning hvort að borgin eigi því ekki að koma að þessu. Flokkur fólksins óskar því eftir að fá að vita hver stefna borgarinnar er í þessu málefni.

Fundi slitið klukkan 12:03

Alexandra Briem Aðalsteinn Haukur Sverrisson

Hildur Björnsdóttir Hjálmar Sveinsson

Kjartan Magnússon Líf Magneudóttir

Pawel Bartoszek

PDF útgáfa fundargerðar
237._fundargerd_umhverfis-_og_skipulagsrads_17._agust_2022.pdf