Umhverfis- og skipulagsráð - Fundur nr. 131

Umhverfis- og skipulagsráð

Umhverfis- og skipulagsráð

Ár 2015, miðvikudaginn 23. desember kl. 9:07, var haldinn 131. fundur umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð. Ráðssal. Viðstaddir voru: Magnea Guðmundsdóttir, Gísli Garðarsson, Sverrir Bollason, Júlíus Vífill Ingvarsson,  Herdís Anna Þorvaldsdóttir, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir og Sigurborg Ó Haraldsdóttir sem tekur sæti á fundinum fh. Hjálmars Sveinssonar, sem aðalfulltrúi. Eftirtaldir embættismenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Örn Sigurðsson, Björn Axelsson, Nikulás Úlfar Másson, Ágústa Sveinbjörnsdóttir,  Erna Hrönn Geirsdóttir, Oddrún Helga Oddsdóttir og Marta Grettisdóttir. Fundarritari var Björgvin Rafn Sigurðarson.  

Þetta gerðist:

(D) Ýmis mál

1. Umhverfis- og skipulagsráð, Reykjavíkurflugvöllur, frestun fundar Mál nr. US150276

Borin upp tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins Júlíusar Vífils Ingvarssonar um frestun á fundi umhverfis- og skipulagsráðs.  

Tillagan felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Bjartrar framtíðar Magneu Guðmundsdóttur, fulltrúa  Samfylkingarinnar Sverris Bollasonar,  fulltrúa Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs Gísla Garðarssonar og fulltrúa Pírata Sigurborgar Óskar Haraldsdóttur,  gegn þremur atkvæðum, fulltrúa Sjálfstæðisflokks Júlíusar Vífils Ingvarssonar og Herdísar Önnu Þorvaldsdóttur og fulltrúa framsóknar og flugvallarvina Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur. 

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins Júlíus Vífill Ingvarsson og Herdís Anna Þorvaldsdóttir bóka:“Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja til að málinu verði frestað og það unnið með vönduðum hætti og að höfðu samráði enda hefur ýmislegt breyst frá því að skipulagið var sent í auglýsingu fyrir ári síðan. Enginn fulltrúa meirihlutaflokkanna í umhverfis og skipulagsráði tók þátt í afgreiðslu deiliskipulags Reykjavíkurflugvallar þegar það var til umfjöllunar í ráðum borgarinnar á síðasta kjörtímabili. Aukafundur í umhverfis- og skipulagsráði, boðaður með stuttum fyrirvara, er ekki fullnægjandi yfirferð. Málsgögn eru um 500 síður og deiliskipulagið ásamt aðliggjandi deiliskipulagsáætlunum er með flóknari úrlausnarefnum sem ráðið tekst á við.“ 

Fulltrúi Bjartrar framtíðar Magnea Guðmundsdóttir, fulltrúi  Samfylkingarinnar Sverrir Bollason, fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs Gísli Garðarsson og fulltrúi Pírata Sigurborg Ósk Haraldsdóttir bóka: “Boðað var til fundar í Umhverfis- og skipulagsráði á reglulegum fundartíma ráðsins með hefðbundnum fyrirvara. Fulltrúar meirihlutaflokkanna í umhverfis- og skipulagsráði gera alvarlegar athugasemdir við að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leyfi sér að draga þekkingu og hæfi þeirra opinberlega í efa.”

2. Reykjavíkurflugvöllur, kæra 59/2014, umsögn, úrskurður (01.6) Mál nr. SN140361

Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Skuggasundi 3, 101 Reykjavík

Lagt fram bréf úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 4. júlí 2014 ásamt kæru dags. 3. júlí 2014 þar sem kærð er ákvörðun Reykjavíkurborgar dags. 1. apríl s.á. að breyta deiliskipulagi fyrir Reykjavíkurflugvöll. Einnig lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu sviðsstjóra., dags. 14. júlí 2014 og 19. nóvember 2015. Lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 17. desember 2015. Úrskurðarorð: Hið kærða deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar sem tók gildi með auglýsingu nr. 539/2014 í B-deild Stjórnartíðinda 6. júní 2014, er fellt úr gildi.

Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir bókar: “Niðurstaða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er í samræmi við ábendingar og bókanir Framsóknar og flugvallarvina síðustu 14 mánuðina í umhverfis- og skipulagsráði, borgarráði og borgarstjórn þess efnis að málsmeðferð deiliskipulagsins hafi ekki verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga þar sem breytingar voru gerðar eftir samþykki deiliskipulagsins í borgarstjórn. Ákvæði skipulagslaga eru mjög skýr að slík málsmeðferð er ekki lögum samkvæmt. Meirihluti borgarstjórnar, þ.e. fulltrúar Samfylkingar, Pírata, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna ákváðu hins vegar að hlusta hvorki á ábendingar okkar né fylgja skýrum lagafyrirmælum og viðhafa vandaða stjórnsýsluhætti og gerum við alvarlegar athugasemdir við slík vinnubrögð”.

(A) Skipulagsmál

3. Reykjavíkurflugvöllur, greinargerð varðandi endurskoðun á deiliskipulagi (01.6) Mál nr. SN150775

Lögð fram greinargerð umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 18. desember 2015 varðandi endurskoðun á deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar.

Greinargerð ásamt tillögu umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 18. desember 2015, samþykkt með fjórum atkvæðum fulltrúa Bjartrar framtíðar Magneu Guðmundsdóttur, fulltrúa  Samfylkingarinnar Sverris Bollasonar, fulltrúa Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs Gísla Garðarssonar og fulltrúa Pírata Sigurborgar Óskar Haraldsdóttur,  gegn þremur atkvæðum,  fulltrúa Sjálfstæðisflokks Júlíusar Vífils Ingvarssonar og Herdísar Önnu Þorvaldsdóttur  og fulltrúa framsóknar og flugvallarvina Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur. 

Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir bókar:”Þrátt fyrir að augljóst sé að Reykjavíkurborg fylgdi ekki ákvæðum skipulagslaga við málsmeðferð deiliskipulagsins kemur fram í greinargerðinni afstaða meirihluti umhverfis- og skipulagsráðs, þ.e. fulltrúa Samfylkingar, Pírata, Bjartrar framíðar og Vinstri grænna, að Reykjavíkurborg og þar með meirihlutinn hafi efasemdir um réttmæti úrskurðarins. Sýna slík viðhorf að meirihlutinn í borginni telur sig hafinn yfir lög og vandaða stjórnsýsluhætti. Eru slík viðhorf og vinnubrögð meirihlutans fordæmd. Nær væri að meirihlutinn myndi viðurkenna að hann hafi ekki farið að lögum og upplýsa hvaða afleiðingar þetta hefur í för með sér fyrir deiliskipulag Hlíðarenda sem byggir alfarið á því að flugbrautin sé ekki á skipulagi. Deiliskipulag Hlíðarenda byggist á forsendum sem ekki eru lengur til staðar og er því nú ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar. Deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar sem fellt hefur verið úr gildi var samþykkt á fundi borgarstjórnar 1. apríl 2014, rétt undir lok síðasta kjörtímabils, en með deiliskipulaginu var flugbraut 06/24 tekin út af skipulagi. Þær röksemdir sem notaðar voru við athugasemdir sem bárust við breytingar á deiliskipulagi Hlíðarenda, sem samþykkt var síðar eða í borgarstjórn 2. desember 2014, voru á þá leið að þær ættu ekki við rök að styðjast þar sem flugbrautin væri ekki lengur á deiliskipulagi. 

Í greinargerðinni er ekki að finna stafkrók um það hvaða afleiðingar þetta hefur á skipulag Hlíðarenda og værir nær að slíkt væri tekið fram í stað þess að meirihlutinn haldi því enn fram að vinnubrögðin hafi verið í lagi hjá sér þrátt fyrir úrskurðinn.” 

Fulltrúi Bjartrar framtíðar Magnea Guðmundsdóttir, fulltrúi  Samfylkingarinnar Sverrir Bollason, fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs Gísli Garðarsson og fulltrúi Pírata Sigurborg Ósk Haraldsdóttir gagnbóka: “ Með því að endurauglýsa deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar er Umhverfis- og skipulagsráð að fylgja ákvæðum skipulagslaga við málsmeðferð deiliskipulagsins sem fellt var úr gildi vegna minniháttar formgalla.“

4. Reykjavíkurflugvöllur, nýtt deiliskipulag (01.6) Mál nr. SN150770

Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að nýju deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar frá 1999, samkvæmt uppdr. T.ark, dags. 18. desember 2015.

Samþykkt að auglýsa framlagða deiliskipulagstillögu skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með þeim breytingum sem gerðar voru á grundvelli deiliskipulags sem samþykkt var af borgarstjórn 1.apríl 2014. 

Fallið er frá gerð lýsingar skv. 1, 3 og 4. mgr. 40. gr. þar sem allar meginforsendur deiliskipulagsins liggja fyrir í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. 

Tillagan samþykkt með fjórum atkvæðum fulltrúa Bjartrar framtíðar Magneu Guðmundsdóttur, fulltrúa  Samfylkingarinnar Sverris Bollasonar,  fulltrúa Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs Gísla Garðarssonar og fulltrúa Pírata Sigurborgar Óskar Haraldsdóttur, gegn þremur atkvæðum, fulltrúa Sjálfstæðisflokks Júlíusar Vífils Ingvarssonar og Herdísar Önnu Þorvaldsdóttur og fulltrúa 

Framsóknar og flugvallarvina Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur. 

Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir bókar: „Til að unnt sé að taka upplýsta ákvörðun um lokun flugbrautar þarf að liggja fyrir að lokunin komi ekki niður á flugöryggi. Er bæði órökrétt og óábyrgt að taka flugbraut út af skipulagi, gera ráð fyrir byggingum sem teppa aðflug að flugbrautinni og loka henni, áður en fullvissa um slíkt liggur fyrir. Ekki liggja fyrir nauðsynleg gögn til að taka upplýsta ákvörðun og afstöðu til lokunar flugbrautar 06/24. Því til stuðnings er vísað til niðurstöðu Samgöngustofu frá því í sumar um áhættumatið en þar kemur fram að áhættumat Isavia nái hvorki til áhrifa á flugvallakerfi landsins í heild sinni, neyðarskipulags Almannavarna, áhrifa á sjúkraflutninga né fjárhagslegra áhrifa á flugrekstur. Þá kemur jafnframt fram að gera þurfi sérstakt áhættumat um framkvæmd breytingarinnar komi til þess að ákveðið verði að loka flugbraut 06/24.“ 

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins Júlíus Vífill Ingvarsson og Herdís Anna Þorvaldsdóttir bóka:“Borgarbúar stöðvuðu yfirgang og óréttlæti a.m.k. um skeið. Svar borgarstjóra til þeirra er að það verði drifið í því að endurtaka sama gráa leikinn. Engin afsökunarbeiðni fylgdi til þeirra sem ruðst var yfir án þess að sýnt væri minnsta tillit eða arða af skilningi á högum þeirra. Skipun dagsins nú er hraði. Þrátt fyrir að enginn ráðsmanna í umhverfis- og skipulagsráði hafi átt aðkomu að því á síðasta ári að afgreiða deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar taka þeir afstöðu til mjög flókins skipulagsmáls á einum aukafundi þar sem allt kapp er lagt á að flýta málinu sem mestur kostur er. Vandvirkni, fagmennska og samráð virðast ekki skipta máli. Borgarstjóri hefur gert lítið úr úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála með því að tala um að á skipulagsferlinu hafi verið „minniháttar hnökrar“ sem verði kippt í liðinn. Að halda slíku fram er algjör afneitun á staðreyndum málsins og alvarleika þeirra annmarka sem leiddu til þess að úrskurðarnefndin sá ekki aðra leið færa en að fella deiliskipulagið úr gildi. Stefna Reykjavíkurborgar á hendur innanríkisráðherra vegna neyðarbrautarinnar grundvallast á deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar sem nú hefur verið fellt úr gildi. Grundvöllur dómsmálsins er sem sagt brostinn og málinu verður augljóslega ekki fram haldið.

Fulltrúi Bjartrar framtíðar Magnea Guðmundsdóttir, fulltrúi  Samfylkingarinnar Sverrir Bollason, fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs Gísli Garðarsson og fulltrúi Pírata Sigurborg Ósk Haraldsdóttir bóka: “Deiliskipulag sem nú er samþykkt til auglýsingar er efnislega eins og það sem áður var auglýst.

Skipulagið var fellt úr gildi með úrskurði Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna formgalla  á málsmeðferð en efnisleg málsrök kærenda hlutu ekki hljómgrunn.

Grundvöllur þess að skipulagsáætlunin sem felld er úr gildi er að mati meirihlutans minniháttar líkt og framlögð greinargerð Umhverfis- og skipulagssviðs skýrir. 

Tillagan var unnin á grundvelli samkomulags borgarstjóra og innanríkisráðherra dags 25.10.2013 sem staðfest var af fulltrúum allra flokka í borgarráði á sínum tíma. Skipulagið er í fullu samræmi við gildandi aðalskipulag og allar meginforsendur þess.

Eins og hingað til þegar deiliskipulag er fellt úr gildi vegna formgalla er það auglýst á nýjan leik.”

Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir gagnbókar:

“Samkomulag borgarstjóra og innanríkisráðherra, dags. 25.10.2013, var aldrei staðfest af Framsókn og flugvallarvinum í borgarráði enda var Framsóknarflokkurinn ekki í borgarstjórn á þessum tíma. Í samkomulaginu kemur fram að aðilar ljúki við vinnu við endurskoðun á deiliskipulagi fyrir flugvallarsvæðið og að tilkynnt verði um lokun NA/SV-brautarinnar samhliða auglýsingu þess síðar á árinu. Eðli málsins samkvæmt er slíkt ekki framkvæmanlegt nema fyrir liggi fullvissa um að hægt sé að loka brautinni. Í samkomulaginu kemur skýrt fram að tilkynna á lokun samhliða  auglýsingu deiliskipulagsins og samkvæmt orðanna hljóðan þarf því bæði borgarstjóri og ráðherra að standa saman að því. Helst þetta í hendur við hvort annað og því þarf að uppfylla bæði skilyrðin samtímis sem er ómögulegt meðan enn liggur ekki fyrir fullvissa um að flugöryggi sé tryggt ef brautinni er lokað.“

Vísað til borgarstjórnar.

Fulltrúi T.ark Halldór Eiríksson og Halldóra Hrólfsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

Fleira gerðist ekki.

Fundi slitið kl. 10:50.

Fundargerðin lesin yfir og undirrituð 

Magnea Guðmundsdóttir

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir Júlíus Vífill Ingvarsson

Sverrir Bollason Herdís Anna Þorvaldsdóttir

Gísli Garðarsson Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir