Umhverfis- og skipulagsráð - Fundur 325

Umhverfis- og skipulagsráð

Ár 2024, miðvikudaginn 6. nóvember, kl. 9:06 var haldinn 325. fundur umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Dóra Björt Guðjónsdóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Hjálmar Sveinsson, Líf Magneudóttir, Pawel Bartoszek og áheyrnarfulltrúarnir Ásta Þ. Skjalddal Guðjónsdóttir og  Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild: Hildur Björnsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Björn Axelsson, Brynjar Þór Jónsson, Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, Inga Rún Sigurðardóttir og Sigurjóna Guðnadóttir.
Fundarritari var Glóey Helgudóttur Finnsdóttir.
 

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram til upplýsinga, uppfært fundardagatal umhverfis- og skipulagsráðs fyrir árið 2024 þar sem fundur ráðsins fellur niður þann 20. nóvember 2024.

    -    Kl. 9:08 tekur Kjartan Magnússon sæti á fundinum. USK23030154
     

    Fylgigögn

  2. Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs og A2F arkitekta að nýju deiliskipulagi fyrir athafnasvæði, áfanga 2 á Hólmsheiði. Um er að ræða 50 ha svæði sem afmarkast af Suðurlandsvegi og Hólmsá í suðri og fyrirhugaðs athafnasvæðis (áfangi 1) í austri. Tillagan gerir ráð fyrir stórum og fjölbreyttum atvinnulóðum, alls sex talsins, undir ýmis konar starfsemi sem fellur að markmiðum Aðalskipulags Reykjavíkur 2040. Áhersla er lögð á að halda í og skapa græna ímynd byggðar og umhverfis á svæðinu og skulu mannvirki, byggingar og önnur manngerð inngrip á lóðum búa yfir arkitektúr sem skapar sterka tengingu við aðliggjandi náttúru, samkvæmt uppdráttum og greinargerð A2F arkitekta, dags. 31. október 2024. Einnig eru lögð fram önnur gögn, þ.e. jarðfræðiskýrsla unnin af COWI í tengslum við sprunguathuganir á svæðinu, dags. maí 2024, og skýrsla Vatnaskila um mat á mögulegri mengunarhættu gagnvart nærliggjandi vatnsbólum, dags maí 2024. Auk þess eru lögð fram minnisblað COWI um meðhöndlun ofanvatns á svæðinu, dags. 22. október 2024, fornleifaskráning og húsakönnun á vegum Borgarsögusafns Reykjavíkur, dags. 2024, og samgöngumat EFLU fyrir áfanga 2, dags. 29. október 2024. Lagt er til að tillagan verði samþykkt í auglýsingu.
    Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
    Vísað til borgarráðs.

    Þórður Már Sigfússon verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. SN210147

    -    Kl. 9:45 tekur Guðmundur Benedikt Friðriksson skrifstofustjóri sæti á fundinum.
     

    Fylgigögn

  3. Lögð fram skipulagslýsing umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa, dags. í nóvember 2024, vegna fyrirhugaðrar breytingar á deiliskipulagi Elliðaárvogs fyrir Geirsnef. Svæðið afmarkast af skipulagsmörkum í gildandi skipulagi í austri og suðri. Það er frá Elliðaá í austri og Vesturlandsvegi í suðri. Að skipulagsmörkum Vogabyggðar 5 í norðvestri og að skipulagsmörkum Vesturlandsvegar, Knarrarvogar og Vogabyggðar 3. Tilgangur deiliskipulagsvinnunnar er að koma á skipulagi á Geirsnefið sem fjölbreyttu útivistarsvæði. Lagt er til að lýsingin verði kynnt og leitað umsagna þeirra aðila sem taldir eru upp í henni.
    Samþykkt er að kynna lýsingu nýs deiliskipulags í samræmi við 1. og 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Leita skal umsagna um lýsinguna hjá Skipulagsstofnun, Minjastofnun Íslands, Borgarsögusafni, hverfisráði og íbúasamtökum, Veitna ohf., Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun, Vegagerðinni, Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, Veiðifélags Elliðavatns, Stangveiðifélags Reykjavíkur, Íþróttafélaginu Þrótti, Dýraþjónustu Reykjavíkur, Félagi ábyrgra hundaeigenda og einnig kynna hana fyrir almenningi.

    Hrönn Valdimarsdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK24100368

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Tekið er undir að Geirsnef er sífellt að verða mikilvægara útivistarsvæði fyrir íbúa. Gert er ráð fyrir að Geirsnef verði borgargarður. Styrkja á náttúru, landslag og útivistarsvæði í borginni. Hér er þó verið að skerða útivistarsvæði hunda og er það miður. Hér vantar samráð og má búast við miklum mótmælum í þessu sambandi, skiljanlega. Hér kemur einnig, sem oft áður þessi sérkenna túlkun skipulagsyfirvalda á hugtakinu líffræðilegum fjölbreytileika: En sagt er : ,,Breytingin verður einnig í samræmi við stefnu borgarinnar um líffræðilegan fjölbreytileika, þar sem lögð verður áhersla á náttúrulegt yfirbragð og eflingu búsvæða”. Þetta hugtak á ekki við einstaka smábletti eins og skipulagsyfirvöld í Reykjavík vilja telja okkur trú um en sífellt tal um slíkt veikir þetta mikilvæga hugtak. En líffræðilegur fjölbreytileiki er eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins skilur hugtak sem lýsir breytileika vistkerfa (náttúruauðs), tegundum og gena í heiminum eða á ákveðnu búsvæði, en ekki einstökum smáblettum eða beðum.
     

    Fylgigögn

  4. Að lokinni kynningu er lögð fram að nýju umsókn Sigrúnar Sumarliðadóttur, dags. 6. mars 2024, ásamt bréfi hönnuðar, dags. 5. mars 2024, um gerð nýs deiliskipulags fyrir syðri hluta jarðarinnar Hrafnhóla á Kjalarnesi. Tilgangur deiliskipulags er að styrkja búrekstur á jörðinni þar sem tvinnað verður saman fjölbreyttum en hófsömum landbúnaði, gistingu, heilsutengdri þjónustu og útivist, samkvæmt skipulagslýsingu Studio Bua, dags. 1. júlí 2024. Einnig er lagt fram teikningasett Studio Bua, dags. 19. janúar 2024 og fornleifaskráning Fornleifastofnunar Íslands, dags. árið 2012. Lýsingin var kynnt frá 29. ágúst 2024 til og með 30. september 2024. Athugasemdir og umsagnir bárust. Athugasemdir og umsagnir vegna skipulagslýsingu kynntar.

    Hrönn Valdimarsdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK24030113

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í sjálfu sér ætti borgin ekki að amast við því að jörðin, Kjalarnes, Hrafnhólar sér nýtt með arðbærum hætti en gæta má nokkurra þversagna í meðfylgjandi gögnum. Í skýrslunni frá Fornleifastofnun er lýst að jörðin hentar ekki til búskapar sbr. segir: ”Fornleifar í túni teljast í hættu vegna þess umróts sem fylgir ábúð og búskap og minjastaðir sem eru á svæði þar sem framtíðar landnotkun er óráðin. Í stórhættu teljast minjastaðir þar sem miklar líkur teljast á að stöðum kunni að verða raskað vegna áætlaðs eða fyrirsjáanlegs umróts”. Einnig kemur fram að jörðin sem slík henti illa til hefðbundins búskapar. Í núgildandi aðalskipulagi Reykjavíkur hins vegar er land Hrafnhóla skilgreint sem landbúnaðarsvæði L1, opin svæði, OP 28. Þar segir meðal annars: “Jafnframt er það markmið aðalskipulagsins að skapa fjölbreytta búsetukosti á landbúnaðarsvæðunum án þess þó að það leiði til þéttbýlisþróunar. Á landbúnaðarsvæðum skal fyrst og fremst gera ráð fyrir íbúðarbyggingum sem tengjast búrekstri á viðkomandi.“ Fulltrúi Flokks fólksins telur að þarna sé því nokkur þversögn því að ætlunin sé að styrkja búrekstur þrátt fyrir að ábúð og búskapur raskar mögulega fornleifum í túni.
     

    Fylgigögn

  5. Að lokinni grenndarkynningu er lögð fram að nýju tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds, dags. 27. júní 2024, að breytingu á deiliskipulaginu Sundin sem samþykkt var þann 8. febrúar 2006, ásamt síðari breytingum. Í breytingunni sem lögð er til felst að afmörkun deiliskipulags Sunda stækkar til suðvestur á mörkum 1., 2. og 3. hluta, þar sem lóðin að Dyngjuvegi 18 er felld að deiliskipulaginu Sundin, stækkun á byggingarreit og hækkun húss ásamt því að heimila kennslustofur tímabundið á lóðinni og niðurrif á lóð Laugarásvegar 77, samkvæmt uppdr. Hornsteina arkitekta, dags. 2. júlí 2024, br. 16. október 2024. Einnig eru lagðir fram skýringar- og skuggavarpsuppdr. Hornsteina arkitekta, dags. 2. júlí 2024, samgöngumat VSÓ Ráðgjafar, útgáfa 4 dags. 17. maí 2024, vegna stækkunar leikskólans Sunnutorgs og skýrsla VSÓ ráðgjafar, dags. í apríl 2024, um kolefnisspors niðurrifs. Erindið var grenndarkynnt frá 23. júlí 2024 til og með 19. september 2024. Athugasemdir bárust. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 16. október 2024. Lagt er til að tillagan verði samþykkt með þeim breytingum sem koma fram í umsögninni.
    Samþykkt sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með þeim breytingum sem koma fram í umsögn skipulagsfulltrúa dags. 16. október 2024.
    Vísað til borgarráðs. USK24060431

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítreka mikilvægi þess að staðið verði að uppbyggingu við Dyngjuveg 18, með þeim hætti að það valdi íbúum í nágrenninu sem minnstu ónæði. Þá er nauðsynlegt að bæta við fleiri bílastæðum á í tengslum við breytingarnar en nú er áformað. Nú þegar eru of fá bílastæði á svæðinu miðað við þá starfsemi sem þar er og ríkir vandræðaástand af þeim sökum. Ekki er á það ástand bætandi.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Eitt og annað í þessu máli Sunnuásar fer fyrir brjóstið á fólki og má nefna hvort ekki hefði átt að leggja fyrst fram frumdrög að teikningum svo nágrannar geti betur tekið afstöðu til deiliskipulagsbreytingarinnar? Eins og staðan er í dag, þá eru engin stæði ekki einu sinni sleppistæði við innganginn að leikskólanum við Laugarásveg. Þess vegna myndast alltaf umferðarteppur þegar foreldrar reyna að leggja annað hvort á Laugarásvegi sjálfum eða hálf uppi á gangstéttinni við Laugarásveg. Mörgum spurningum er ósvarað. Er t.d. áætlað að rífa aðeins Laugarásveg 77 eða á einnig að rífa Dyngjuveg 18 áður en uppbygging hefst? Mun uppbyggingin ekki auka bílastæðaþörf á svæðinu enn frekar? Þetta ætti að kanna nánar áður en endanlegt fyrirkomulag bílastæða er ákveðið. Eða stendur til að breyta Sunnutorgi í bílastæði fyrir leikskólann ef fyrirætlanir um endurbyggingu Sunnutorgs renna út í sandinn? Áhyggjur eru af því að leikskólinn verði „sprunginn“ um leið og endurbótum lýkur? Það virðist ekki vera nein leið til að uppfylla bílastæðaþörfina (31 stæði) án þess að fjarlægja tímabundnu færanlegu einingarnar þegar framkvæmdum lýkur. Ekki gengur að bílastæðaþörfin sé uppfyllt með því að nota bílastæði íbúa í götunum til frambúðar, þótt það sé þolanlegt á meðan endurbótum stendur.  
     

    Fylgigögn

  6. Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa, dags. 29. október 2024. USK24070166
     

    Fylgigögn

  7. Lagt fram málskot Bergs Guðmundssonar, dags., 13. október 2024, vegna neikvæðrar skipulagsfulltrúa frá 12. september 2024 um að setja grindverk og hlið á milli húsanna á lóðum nr. 29 og 31 við Klapparstíg. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 12. september 2024.
    Frestað. USK24100137
     

  8. Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar samgöngustjóra dags. 31. október 2024 ásamt fylgigögnum. USK24010019
     

    Fylgigögn

  9. Lögð fram tillaga um að afturkalla tillögu umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu borgarlandsins, um fækkun áramótabrenna, sbr. 13. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 30. október 2024. 
    Samþykkt. USK24100198

    Fylgigögn

  10. Aflétt úr trúnaðarbók umhverfis- og skipulagsráðs, styrkir úr loftlagssjóði ungs fólks Bloomber Philanthropies Youth Climate Action Fund, sbr. fundargerðir umhverfis- og skipulagsráðs, 2. liður, dags. 21. ágúst 2024 og 3. liður, dags. 25. september 2024;

    Frá fundi 21. ágúst 2024:
    Tillaga um úthlutun styrkja frá loftslagssjóði ungs fólks.
    Samþykkt.
    Vísað til borgarráðs.

    Benedikt Traustason verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins fagnar þessum umsóknum sem er merki um áhuga ungs fólks á loftslagsmálum. Styrkumsóknir eru mismunandi eins og gengur. Votlendi er ein stærsta uppspretta losunar gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Vandasamt er að endurheimta votlendið og eru því allar hugmyndir vel þegnar. Endurheimt votlendi skiptir miklu máli  en Reykjavík er ekki á votlendissvæði, ekki síst því að mýrar sem voru í Reykjavík hafa að mestu verið þurrkaðar upp og vandasamt er að endurheimta þær, svo sem Kringlumýri og Laugarmýri. Þá hefur meirihlutinn  hafnað því að auka skógrækt með kolefnisbindingu í huga.

    Frá fundi 25. september 2024:
    Tillaga um síðari úthlutun styrkja frá loftslagssjóði ungs fólks.
    Samþykkt.
    Vísað til borgarráðs.

    Benedikt Traustason verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það var von fulltrúa Flokks fólksins að út úr þessum verkefnum sem fá styrki verði eitthvað áþreifanlegt, eitthvað sem skilur eftir sig og aðrir geta notið góðs af. Sem dæmi um slík verkefni eru td. gróðursetningar og loftlagstengdar rannsóknir. Leitt yrði ef svona styrkjum  verði sóað í einhvað sem lifir aðeins einu sinni. Engum blöðum er um það að fletta að þátttaka ungs fólks skiptir máli. Kannanir sýna að um 84% ungmenna eru áhyggjufull yfir loftslagsvánni. USK24030270
     

    Fylgigögn

  11. Lagt fram afgreiðslubréf borgarráðs, dags. 17. október 2024, vegna samþykktar borgarráðs s.d. á auglýsingu á tillögu að nærþjónustukjarna innan íbúðarbyggðar í Skerjafirði. USK24020304
     

    Fylgigögn

  12. Lagt fram afgreiðslubréf borgarráðs, dags. 3. október 2024, vegna samþykktar borgarráðs s.d. á á auglýsingu á verklýsingu og drögum að breytingu á landnotkunarheimildum við Hringbraut. USK24100121
     

    Fylgigögn

  13. Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. október 2024 ásamt kæru nr. 122/2024, dags. 18. október 2024, þar sem kærð er ákvörðun byggingarfulltrúa um synjun umsóknar kæranda um endurnýjun á áður gerðir samþykkt er varðar eign kæranda að Njarðargötu 43. USK24100216
     

    Fylgigögn

  14. Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. ágúst 2024 ásamt kæru nr. 84/2024, dags. 8. ágúst 2024, þar sem kært er samþykkt byggingarleyfi fyrir Sólvallagötu 14. Einnig er lagt fram uppfært erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 14. ágúst 2024 ásamt uppfærðri kæru í máli nr. 84/2024, dags. 8. ágúst 2024. Einnig er lögð fram greinargerð Reykjavíkurborgar, dags. 25. september 2024. USK24080058

    Fylgigögn

  15. Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. september 2024 ásamt kæru nr. 94/2024, dags. 2. september 2024, þar sem umsögn skipulagsfulltrúa frá 20. ágúst sl. vegna framkvæmda við Hverafold 50 þar sem gamall skjólveggur var rifinn niður og endurbyggður. Einnig er lögð fram greinargerð Reykjavíkurborgar, dags. 2. október 2024. USK24090036
     

    Fylgigögn

  16. Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. september 2024 ásamt kæru nr. 95/2024, dags. 4. september 2024, þar sem kærð er ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjavíkur dagsett 15. ágúst 2024 um að fella niður áfallnar dagsektir og aðhafast ekki frekar vegna óleyfisframkvæmdar að Grænlandsleið 25. Einnig er lögð fram greinargerð Reykjavíkurborgar, dags. 9. október 2024. USK24090064
     

    Fylgigögn

  17. Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 14. október 2024 ásamt kæru nr. 120/2024, dags. 11. október 2024, þar sem kærð er ákvörðun um útgáfu byggingarleyfis fyrir Haðarstíg 14, 101 Reykjavík. Einnig er lögð fram greinargerð Reykjavíkurborgar, dags. 21. október 2024. USK24100141
     

    Fylgigögn

  18. Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 13. júní 2024 ásamt kæru nr. 62/2024, dags. 12. júní 2024 þar sem kærð er ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar að heimila að sett verði i stað steyptra svalahandriða glerhandrið og klæðningu a suðurhlið. dagsett 14. maí 2024. Einnig er lögð fram greinargerð Reykjavíkurborgar, dags. 26. júní 2024. Jafnframt er lagður fram úrskurður Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. ágúst 2024. Úrskurðarorð: Hafnað er ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. maí 2024 um að samþykkja byggingaráform vegna klæðningar á suðurhlið fjöleignarhússins að Rofabæ 43–47 og fyrir breyttri gerð svalahandriða. USK24060187
     

    Fylgigögn

  19. Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. ágúst 2024 ásamt kæru nr. 87/2024, dags. 10. ágúst 2024, þar sem kærð er ákvörðun ákvörðun um útgáfu lokaúttektarvottorðs byggingarfulltrúa Reykjavíkur vegna Tangabryggju 13 – 15 sem gefið var út 18. júlí 2024. Einnig er lögð fram greinargerð Reykjavíkurborgar, dags. 13. september 2024. Jafnframt er lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. október 2024. Úrskurðarorð: Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. júlí 2024 um að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Tangabryggju 13–15. USK24080100
     

    Fylgigögn

  20. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að fækkun bílastæða við Sólvallagötu fari í kynningu og samráð við íbúa , sbr. 17. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 9. október 2024. Einnig lögð fram umsögn skrifstofu samgangna og borgarhönnunar dags. 23. október 2024.
    Tillögunni er vísað frá með vísan til umsagnar með fimm atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna. Fulltrúa Sjálfstæðisflokksins greiða atkvæði gegn frávísun. USK24100105

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Lagt var til að fyrirhuguð fækkun bílastæða við Sólvallagötu fari í kynningu og samráð við íbúa svæðisins. Í umsögn er hins vegar ekkert minnst á Sólvallagötu heldur aðeins ökutæki á nokkurra metra kafla við gatnamót Framnesvegar annars vegar og Ánanaustar hins vegar. Fulltrúi Flokks fólksins er hins vegar ekki sammála þessari umsögn skipulagsyfirvalda að ekki sé þörf á samráði eða kynningu. Samráð skaðar aldrei. Sjálfsagt er að sýna íbúum virðingu og hlusta á þeirra skoðanir. Annað sýnir hroka og yfirgang. Hér er verið að fela sig bak við reglur og þær notaðar sem afsökun til að tala ekki við íbúa. Það kann ekki góðri lukku að stýra.

    -    Kl. 10:13 víkur Brynjar Þór Jónasson byggingarfulltrúi af fundi.
     

    Fylgigögn

  21. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um umhverfismál, sbr. 35. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 11. janúar 2023. Einnig er lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða, dags. 16. október 2024. Tillögunni er vísað frá með vísan til umsagnar með fimm atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna. Fulltrúa Sjálfstæðisflokksins greiða atkvæði gegn frávísun. USK23010119

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins lagði til að meirihlutinn taki saman þó að ekki væri nema einblöðung til að segja frá hvaða stærri verkefni borgin hefur farið í síðustu 3 árin sem þeir telja að hafi gagnast borgarbúum í umhverfismálum og hvað stendur til að gera næstu 2 árin. T.d. vantar yfirlit yfir hvað borgin hefur keypt marga rafbíla og hversu margir ganga fyrir jarðeldsneyti? Hver er áhersla á skógrækt? Hverju hafa stór verkefni skilað í umhverfismálum? Allt þetta er í raun á huldu fyrir borgarbúum. Tillögunni er hafnað sem er undarlegt. Það er mikilvægt að borgarbúar hafi upplýsingar um hvað hefur verið gert í þessum málum. Flokkur fólksins hefur lagt fram fjölda tillagna í þessum málaflokki sem var öllum hafnað. Sem dæmi lagði flokkurinn til að farið yrði í skógrækt í austur frá borginni og var þeirri tillögu einnig hafnað.
     

    Fylgigögn

  22. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að byggja skuli bráðabirgða göngubrú yfir Sæbraut, sbr. 25. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 2. október 2024. Einnig lögð fram umsögn skrifstofu samgangna og borgarhönnunar dags. 23. október 2024.
    Tillögunni er vísað frá með vísan til umsagnar með fimm atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiða atkvæði gegn frávísun. USK24100017

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Verið er að undirbúa göngubrú á besta stað fyrir slíka brú. Miklu máli skiptir hvernig landið liggur sunnan gatnamótanna. Brúin styttir leiðir fótgangandi og fatlaðra vegfarenda, en þarna verður lyfta.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í ljósi hörmulegs banaslyss sem varð við Sæbraut fyrir skemmstu lagði fulltrúi Flokks fólksins til að hefjast skuli handa strax við að byggja bráðabirgða göngubrú yfir Sæbraut við gatnamót við Skeiðarvog/Kleppsmýrarveg og einnig að komið verði nú þegar upp snjallstýrðum gangbrautarljósum sem les umferðarflæði, aðstæður og hreyfingar vegfarenda. Fram kemur í umsögn að verið sé að vinna í gerð tímabundinnar göngubrúar yfir Sæbraut sem mun gagnast íbúum Vogabyggðar. Af þessu svari má skilja að framkvæmdir standi nú þegar yfir og verktakar séu á staðnum við byggingu brúarinnar. Tímalína þarf að vera skýr t.d. hvenær eru verklok? Mikilvægt er að íbúar á svæðinu geti farið að ganga öruggum skrefum yfir þessa fjölförnu og hættulegu umferðaræð? Flokkur fólksins hefur ítrekað óskað eftir betrumbótum og að hraða máli vegna hættunnar þarna. Síðasta bókun Flokks fólksins var í janúar á þessu ári til að ítreka þetta mál. Huga þarf síðan að framtíðarlausn og að setja snjallstýrð gangbrautarljós.
     

    Fylgigögn

  23. Lögð fram að nýju fyrirspurn borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um borgargarða, sbr. 29. liður fundargerðar borgarráðs, dags. 31. ágúst 2023. Einnig er lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða, dags. 22. október 2024. MSS23080127

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fram kemur í umsögn að engar sérreglur gilda um borgargarða en hluti svæðanna nýtur hverfisverndar og eru á náttúruminjaskrá. Það sem skiptir máli varðandi borgargarða er það sem í þessum görðum er. Eins og kemur fram í umsögn er talað um borgargarða sem kjarnann í vefi göngu- og hjólreiðastíga innan borgarinnar. Það má taka það fram að margt hefur breyst til batnaðar á undanförnum árum á útivistarsvæðum en betur má ef duga skal. Til þess að borgarbúar geti notið borgargarða þurfa ákveðnir innviðir að vera í lagi. Gott aðgengi fyrir alla þarf að vera til staðar hvort sem fólk kemur hjólandi, gangandi eða keyrandi til þess að njóta útivistar í borgarlandinu. Borgargarða og önnur útivistarsvæði ber að vernda og hlúa að. Stundum hefur ekki verið tekið viðeigandi tillit til þessara mikilvægu útivistarsvæða í deiliskipulagi. Má þar nefna sem dæmi bókun frá Flokki fólksins frá 19. júní s.l. um fyrirhugað deiliskipulag borgarhluta 3. Hlíðar sem nær yfir þrjú hverfi. Þar er minnt á umsögn Umhverfisstofnunar að innan þessa svæðis er að finna merkilegar minjar og vinsæl útivistarsvæði sem mögulega gætu raskast vegna uppbyggingar. Það þarf því að vanda vel til verka varðandi hin dýrmætu útivistarsvæði borgarinnar hvort sem þau kallast borgargarðar eða ekki.
     

    Fylgigögn

  24. Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um Hlemm, sbr. 31. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs dags. 21. ágúst 2024. Einnig er lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds, dags. 23. október 2024. USK24080214

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Hlemmsvæðið hefur verið vinnustæði um all nokkurn tíma. Flokkur fólksins hefur oft spurt sig hvort þessi framkvæmd hefði ekki mátt bíða betri tíma enda nóg annað að gera við fjármagn borgarinnar ef gera á betur við börn og fjölskyldur þeirra. Ekki hefur verið hægt að veita alla lögbundna þjónustu. Óljóst er um verklok svo ekki sé minnst á heildarkostnað. Oft þegar unnið er samkvæmt einhverri verðlaunatillögu vill verkið verða dýrara, fara langt fram úr áætlun. Þetta sýnir reynslan. Ljóst er þó að margt er búið að gera. Fram kemur að fyrsta heildstæða tímaáætlun var lögð fyrir og samþykkt sumarið 2022 en hún gerði ráð fyrir að framkvæmdum yrði lokið í lok árs 2025. Er sú tímaáætlun að standast? Ekki liggur fyrir kostnaðaráætlun á þeim áföngum sem eftir eru en það eru Hlemmtorg, Rauðarárstígur suður, Þverholt og Stórholt. Er ekki tímabært að leggja þær fram?
     

    Fylgigögn

  25. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um eyðingu fjara í borgarlandinu, sbr. 32. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 31. maí 2023. Einnig er lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða, dags. 23. október 2024. USK23050330

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins spurði um eyðingu fjara í borginni t.d. hversu stór hluti af fjörum í borgarlandinu hafa verið huldar framandi jarðvegi, steypubrotum og öðrum úrgangi, og sem kallast landfylling innan borgarkerfisins og hversu að stór hluti af þeim eru í Skerjafirði? Svarandi telur að um helmingi fjara hafi verið eytt og tekur fram að ,, Ósnortin eða a.m.k. lítt snortin fjara er um helmingur af strandlengjunni, milli 14 og 15 km. Það er megnið af strönd Skerjafjarðar, Laugarnes, Grafarvogur og svo norðurströndin frá Gufunes að ósum Úlfarsár.” Nú vill svo til að við horfum á eyðingu fjöru við Laugarnes. Fulltrúi Flokks fólksins telur það næsta víst er að ekkert lát er á fjörueyðingu og nú er hugtakið ,,líffræðilegur fjölbreytileiki” víðs fjarri. Í glænýrri frétt segir að Ísland sé langt undir meðaltali OECD ríkjanna þegar kemur að skipulögðum grænum svæðum í þéttbýli. Einungis 3.5% svæða í þéttbýli eru skipulögð sem græn svæði hérlendis samanborið við 17% meðaltal OECD ríkjanna.
     

    Fylgigögn

  26. Lögð fram að nýju fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um almenningsgarða og græn svæði, sbr. 30. liður fundargerðar borgarráðs, dags. 7. desember 2023 og vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagsráðs. Einnig er lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 22. október 2024. MSS23120049
     

    Fylgigögn

  27. Lögð fram að nýju tillaga íbúaráðs Miðborgar og Hlíða um aukna lýsingu í Hljómskálagarðinum, sbr. 14. liður fundargerðar, dags. 19. september 2024. Tillögunni var vísað til umhverfis- og skipulagsráðs til afgreiðslu.
    Vísað til mats og meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu borgarlandsins. MSS24090114
     

    Fylgigögn

  28. Lögð fram að nýju tillaga íbúaráðs Miðborgar og Hlíða um almenningssalerni, sbr. 3. liður fundargerðar, dags. 19. september 2024. Tillögunni var vísað til umhverfis- og skipulagsráðs til afgreiðslu.
    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssvið, skrifstofu borgarlandsins. MSS24090112

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka íbúaráði Miðborgar og Hlíða fyrir þarfa ábendingu þess efnis að fjölga þurfi almenningssalernum í miðborginni, sér í lagi á vinsælum ferðamannastöðum.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins tekur undir tillögu Íbúaráð Miðborgar og Hlíða um að fjölga almenningssalernum í Miðborg, sér í lagi á vinsælum ferðamannastöðum. Almenningssalerni eru of fá í Reykjavík. Það eru 5 salernisturnar Reykjavík, en þar af hefur salernisturn í Hljómskálagarði ekki verið virkur lengi og ekki hefur fundist lausn á því að koma honum í lag aftur, sem er sérkennilegt. Fulltrúi Flokks fólksins veit til þess að komið hafa all margar ábendingar m.a. frá ungu fólki um að fjölga þurfi almenningssalernum í borginni. Eitt er að setja upp klósett og hitt að halda því við og sjá um tilheyrandi þrif. Fátt er meira óaðlaðandi en að koma inn á almenningssalerni sem ekki hefur verið þrifið um tíma. Enn meira óaðlaðandi er að  ganga fram hjá þar sem fólk hefur gert sínar þarfir í görðum og bílastæðahúsum.  
     

    Fylgigögn

  29. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um Nesveg, sbr. 33. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs 30. október 2024.
    Vísað til mats og meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds. USK24100351
     

  30. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um viðhald við bifreiðastæði við Breiðholtskirkju, sbr. 34. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs 30. október 2024.
    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu borgarlandsins. USK24100352
     

  31. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um stöðu Bjarnaborgar, sbr. 35. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs 30. október 2024.
    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu stjórnsýslu og gæða. USK24100350
     

    Fylgigögn

  32. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Lagt er til að úrbætur verði gerðar á gatnalýsingu í Vogabyggð. Níu ljósastaurar eru óvirkir á kafla við Súðarvog (milli Tranavogs og Naustavogs), þrír á kafla við horn Kuggavogs og Drómundarvogs og sjö á kafla við horn Dugguvogs og Skektuvogs. Víðar í hverfinu má finna staka ljósastaura án lýsingar.

    Frestað. USK24110052
     

  33. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Lagt er til að lögð verði sérmerkt hjólarein milli götu og gangstéttar við vesturkant Dugguvogs, milli Skektuvogs og Kleppsmýrarvegar, í tengslum við frágang framkvæmda, sem nú er unnið að á þessum stað.

    Frestað. USK24110053

  34. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Lagt er til að ráðist verði í lagfæringar og/eða endurnýjun gangstétta við Dvergabakka og Eyjabakka. Gangstéttir eru eyddar, sprungnar og ójafnar á köflum við þessar götur.

    Frestað. USK24110054
     

  35. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Lagt er til að ráðist verði í viðgerð og endurbætur á steinsteyptum tröppum, sem liggja frá gönguleið milli Fríkirkjuvegar 1 og Mæðragarðsins, upp á Laufásveg. Umræddar tröppur eru brattar og til að draga úr slysahættu af völdum hálku, er jafnframt lagt til að snjóbræðslukerfi verði sett í tröppurnar eða a.m.k. hluta þeirra.

    Frestað. USK24110055
     

  36. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Hvað hefur borgin keypt marga rafbíla og hversu margir ganga fyrir jarðeldsneyti? Hver er áhersla á skógrækt? Hverju hafa stór verkefni skilað í umhverfismálum? Það er  mikilvægt að borgarbúar hafi upplýsingar um hvað hefur verið gert í þessum málum. Flokkur fólksins hefur lagt fram fjölda tillagna í þessum málaflokki sem var öllum hafnað. Sem dæmi lagði flokkurinn til að farið yrði í skógrækt í austur frá borginni og var þeirri tillögu einnig hafnað. USK24110057

    -    Kl. 10:34 víkur Guðmundur Benedikt Friðriksson skrifstofustjóri af fundi.
    -    Kl. 10:34 víkur Hildur Björnsdóttir.
    -    Kl. 10:36 víkur Ólöf Örvarsdóttir sviðsstjóri af fundi.
     

Fundi slitið kl. 10:53

Dóra Björt Guðjónsdóttir Aðalsteinn Haukur Sverrisson

Hjálmar Sveinsson Kjartan Magnússon

Líf Magneudóttir Pawel Bartoszek

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 6. nóvember 2024