Umhverfis- og skipulagsráð - 93. fundur

Umhverfis- og skipulagsráð

VINNUSKÓLI  REYKJAVÍKUR

Ár 2004, föstudaginn 6. febrúar, hélt stjórn Vinnuskóla Reykjavíkur 93. fund sinn.

Fundurinn var haldinn á Skúlagötu 19 og hófst kl. 10,00.
Mættir voru: Kolbeinn Óttarsson Proppé, formaður, Guðrún Ebba Ólafsdóttir og Sigrún Jónsdóttir.

Auk þeirra sátu fundinn Ellý K. J. Guðmundsdóttir, Bergþóra Gísladóttir og Arnfinnur U. Jónsson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Skólastjóri Vinnuskólans lagði fram skýrslu um könnun á viðfangsefnum unglinga í Reykjavík sumarið 2003. Könnunin er sambærileg sams konar könnun sem gerð var 1999. Í skýrslunni eru niðurstöður þessara tveggja kannana bornar saman. Niðurstöðurnar verða nú settar inn á heimasíðu Vinnuskóla Reykjavíkur á netinu,  vinnuskoli.is.

2. Formaður lagði fram eftirfarandi bókun:

Stjórn Vinnuskóla Reykjavíkur telur réttmætt að laun leiðbeinenda og annarra sambærilegra starfsmanna sem starfa hjá Vinnuskólanum taki mið af kjarasamningi Reykjavíkurborgar og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar með þeim réttindum og skyldum sem starfsmenn njóta samkvæmt þeim samningi.
Stjórn Vinnuskóla Reykjavíkur felur skólastjóra Vinnuskólans að fylgja þessari bókun eftir með viðræðum við Kjaraþróunardeild Reykjavíkurborgar og Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar.

Greinargerð:
Það er óeðlilegt að laun leiðbeinenda og annarra sambærilegra starfsmanna Vinnuskólans séu ákveðin árlega af Kjaraþróunardeild, í stað þess að fylgja samningum stéttarfélaga.  Um þessa tímabundnu starfsmenn borgarinnar ættu að gilda sömu reglur og aðra sem líkt háttar um, s.s. leiðbeinendur hjá ÍTR.  Starf leiðbeinenda Vinnuskólans er margþætt.  Þeir gegna uppeldis- og fræðsluhlutverki, um leið og þeir sinna almennum störfum vinnuhópa sinna.  Því er eðlilegt að horfa til Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar með launakjör í huga, líkt og t.a.m. er gert með leiðbeinendur ÍTR.

Bókunin var samþykkt með þremur samhljóða atkvæðum.

3. Tillaga stýrihóps um undirbúning að gerð tillögu um stofnun þjónustu-miðstöðva í hverfum.
Lagt fram til umsagnar stjórnar Vinnuskóla Reykjavíkur.
Frestað.

4. Lagt fram yfirlit um gjaldtöku fyrir garðaþjónustu fyrir eldri borgara og öryrkja allt frá árinu 1988 þegar Vinnuskólinn byrjaði að veita þessa þjónustu.
Frestað að taka ákvörðun um upphæð gjalds fyrir þessa þjónustu sumarið 2004.

Fundi slitið kl. 11,10

Kolbeinn Óttarsson Proppé
Guðrún Ebba Ólafsdóttir
Sigrún Jónsdóttir