Umhverfis- og skipulagsráð - 81.fundar

Umhverfis- og skipulagsráð

Fundargerð samgöngunefndar

Ár 2004, þriðjudaginn 24. ágúst, var haldinn 81. fundur samgöngunefndar Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Skúlatúni 2 og hófst kl. 09:00.

Þessir sátu fundinn: Árni Þór Sigurðsson, Anna Kristinsdóttir, Gísli Marteinn Baldursson, Haukur Logi Karlsson og Kjartan Magnússon.

Einnig komu á fundinn: Baldvin Baldvinsson, Björg Helgadóttir, Haraldur Sigurðsson, Kjell Nilsson, Ólafur Bjarnason, Ólafur Stefánsson, Pétur Fenger, Sigurður I. Skarphéðinsson, Stefán A. Finnsson, Stefán Haraldsson, Valgarð S. Halldórsson og Werner Nuchterlein.

Fundarritari var Þórhildur Lilja Ólafsdóttir.

Þetta gerðist:

Mál nr. 2004080003.
1. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 03.08.2004, varðandi starfshóp um stofnun símavers Reykjavíkurborgar.

Mál nr. 2001100156.
2. Lagt fram bréf Karls Steinars Valssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns, dags. 13.08.2004, varðandi beiðni um stöðubann við austanvert Ofanleiti, bréf ritara samgöngunefndar, dags. 09.08.2004 og erindi skólastjóra Verslunarskóla Íslands, dags. 22.04.2004, allt um sama mál.

Mál nr. 2004080010.
3. Lagt fram bréf Karls Steinars Valssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns, dags. 06.08.2004, varðandi umferðarmál í Laugardal. Einnig lagt fram minnisblað Árna Friðleifssonar, varðstjóra, dags. 23.07.2004, um sama mál.
Lagt til að Verkfræðistofu Umhverfis- og tæknisviðs verði falið að mynda starfshóp skipaðan fulltrúa Lögreglunnar í Reykjavík, hverfaráði svæðisins, fulltrúa ÍTR auk fulltrúa frá RUT.
Samþykkt.

Mál nr. 2001080103.
4. Lögð fram umsögn yfirverkfræðings Verkfræðistofu RUT, dags. 18.08.2004, vegna erindis Sigurðar Bjarkasonar, dags. 23.05.2003, varðandi beiðni um hraðatakmarkanir í Skálagerði.
Samþykkt.

Mál nr. 2004030031.
5. Lögð fram umsögn forstöðumanns Verkfræðistofu RUT, dags. 18.08.2004, vegna erindis Herdísar Storgaard, dags. 09.03.2004, um umferð á mótum Vesturgötu og Seljavegar.
Samþykkt.

Mál nr. 2003020109.
6. Lögð fram að nýju tillaga og greinargerð framkvæmdastjóra Strætó bs., varðandi heildarendurskoðun á leiðarkerfi Strætó bs.

Fulltrúar sjálfstæðismanna óskuðu bókað:

,,R-listanum hefur gersamlega mistekist það yfirlýsta ætlunarverk á tíu ára valdatíma sínum að efla almenningssamgöngur í Reykjavík. Á þessum tíma hefur þjónusta strætisvagna verið skert verulega og þéttleiki leiðakerfisins minnkað. Fargjöld hafa hins vegar hækkað langt umfram almennt verðlag og farþegum fækkað.
Sjálfstæðismenn fagna þeirri endurskoðun á kerfi almenningssamgangna sem nú stendur yfir á höfuðborgarsvæðinu og telja hana tímabæra. Umbylting leiðakerfis í 180 þúsund manna borg er þó ekki áhættunnar virði nema víst sé að hún hafi ótvíræðan ávinning í för með sér fyrir íbúa svæðisins.
Ef snúa á við þeirri óheillaþróun sem orðið hefur í málefnum almenningssamgangna á valdatíma R-listans, hlýtur það að vera grundvallaratriði að bæta aðgengi borgarbúa að þjónustunni og gera hana þannig ákjósanlega fyrir sem flesta. Jafnframt ætti það að vera meginmarkmið að fjölga farþegum án þess að draga úr þjónustu við þúsundir traustra viðskiptavina sem nú þegar halda tryggð við Strætó bs. Miðað við þau drög að leiðakerfi sem nú liggja fyrir verður því miður ekki séð að þetta verði raunin.
Fulltrúar sjálfstæðismanna hafa miklar efasemdir um að rétt sé að nýtt leiðakerfi grundvallist í grófum dráttum á svipuðum hugmyndum og núverandi kerfi, þ.e. samakstri stofnleiða milli Lækjartorgs og Hlemms. Núverandi kerfi, sem hannað var fyrir Reykjavík á sjöunda áratugi síðustu aldar, miðaðist við allt aðrar aðstæður en nú ríkja. Útfæra hefði þurft betur hugmyndir um að þungamiðja nýs kerfis væri nær landfræðilegri miðju höfuðborgarsvæðisins og frá þessari miðju kæmust strætisvagnar til allra átta með sem greiðustum hætti.
Í greinargerð með tillögunum kemur fram að mikil áhersla sé lögð á að fjölga farþegum með því að höfða til þeirra sem ekki nota þjónustu strætisvagna fyrir. Jafnframt kemur fram að auka eigi hagkvæmni kerfisins og gera vagnana fljótari í ferðum, t.d. með því að minnka akstur um íbúahverfi. Þá segir að heildarvegalengd hins nýja leiðakerfis sé minni en núverandi kerfis.
Þegar hið nýja leiðakerfi er skoðað í heild sinni kemur í ljós að það er gisnara en núverandi kerfi. Ljóst er að í mörgum tilvikum mun gönguvegalengd að biðstöðvum aukast, einkum utan fjölbýlishúsahverfa. Ekki verður betur séð en hverfa eigi frá þeirri stefnu að leiðakerfi strætisvagna þjóni öllum borgarbúum, án tillits til þess hvaða húsagerð þeir hafa valið sér. Mun slíkt fyrirkomulag ekki síst koma niður á þeim sem síst skyldi, þ.e. öryrkjum og eldri borgurum sem þurfa á traustum almenningssamgöngum að halda.
Fulltrúar sjálfstæðismanna vilja þakka fyrir þá miklu vinnu sem lögð hefur verið í tillögurnar af hálfu vinnuhóps Strætó bs. um nýtt leiðakerfi. Í ýmsum tilvikum hefur verið brugðist vel við ábendingum frá farþegum og fulltrúum sjálfstæðismanna í samgöngunefnd og bætt úr göllum. Það breytir þó ekki því að ekki hefur verið tekið tillit til ábendinga nema að takmörkuðu leyti.
Gert var ráð fyrir því að nýtt leiðakerfi yrði ódýrara en það sem fyrir er. Niðurstaðan virðist hins vegar vera sú að kostnaðarauki í hinu nýja kerfi verði a.m.k. 170-180 milljónir króna á ári. ”

Með bókuninni fylgir greinagerð með athugasemdum um einstaka liði leiðarkerfisins.

Fulltrúar Reykjavíkurlistans óskuðu bókað:

,,Reykjavíkurlistanum er ljóst að það er langtímaverkefni að efla almenningssamgöngur og breyta ferðavenjum borgarbúa. Forsenda þess er ekki síst breyttar áherslur í skipulagsmálum, með þéttari byggð og meiri blöndun byggðar. Að þessu hefur verið unnið markvist með nýju aðalskipulagi Reykjavíkur. Ennfremur var stórt skref stigið með sameiningu SVR og AV. Þannig hefur verið lagður góður grunnur að eflingu almenningssamgangna. Tillögur að nýju leiðarkerfi eru metnaðarfullar og byggja á ítarlegri könnun á ferðavenjum íbúa höfuðborgarsvæðisins. Tillögunni fylgja óskir Strætó bs. um aukinn forgang í umferðinni sem R-listinn hefur þegar tekið jákvætt í. Þótt nýtt leiðarkerfi sé vissulega ekki gallalaust teljum við að með því sé lagður góður grunnur að eflingu almenningssamgangna til framtíðar sem tvímælalaust er eitt mikilvægasta verkefni í samgöngu- og umhverfismálum borgarinnar.”

Anna Kristinsdóttir tók sæti á fundinum kl. 9:45.

Bókun samgöngunefndar:

,,Samgöngunefnd samþykkir fyrirliggjandi tillögu Strætó bs. að nýju leiðarkerfi fyrir sitt leyti og vísar því til borgarráðs. Jafnframt leggur nefndin áherslu á að tímatöflur og endanleg kostnaðaráætlun verði kynnt nefndinni þegar það liggur fyrir.”
Samþykkt með 3 atkvæðum, fulltrúar sjálfstæðismanna sátu hjá við afgreiðslu málsins.

Mál nr.
7. Kynning sænskra ráðgjafa í almenningssamgöngumálum.
Werner Nuchterlein, Kjell Nilsson og Valgarð S. Halldórsson kynntu starfsemi fyrirtækisins Connex.

Mál nr. 2004030067.
8. Lagt fram bréf formanns stýrihóps Evrópskar samgönguviku 2004, dags. 19.08.2004.

Fulltrúar sjálfstæðismanna lögðu fram eftirfarandi tillögu:
,,Samgöngunefnd samþykkir að leita álits Laugarvegssamtakanna og Þróunarfélags Miðborgarinnar á fyrirhuguðum lokunum gatna í Miðborginni og aðliggjandi stofnbrautum vegna bíllausa dagsins áður en þær verða ákveðnar.”
Tillagan felld með 3 atkvæðum gegn 2.

Formaður samgöngunefndar lagði fram eftirfarandi tillögu:

,,Legg til að við samþykkjum tillögu stýrihóps með þeirri viðbót að hópnum verði falið að kynna málið rækilega fyrir hagsmunaaðilum, m.a. í miðborginni og þeim hverfisráðum sem málið varðar og hafa skuli samráð við þá við nánari útfærslu.”
Samþykkt með 3 atkvæðum gegn 2.

Fulltrúar sjálfstæðismanna óskuðu bókað:

,,Við teljum að meginmarkmið komandi samgönguviku og bíllausa dagsins sé að vekja almenning með jákvæðum hætti til umhugsunar um samgöngumál í Reykjavík og minna á kosti ólíkra fararmáta. Það er hins vegar ekki hlutverk samgöngunefndar að torvelda umferð almennings um helstu umferðaræðar borgarinnar. Slík aðgerð mun valda töfum og óánægju meðal almennings í stað þess að vekja jákvæða athygli á hinum ágætu markmiðum bíllausa dagsins. Með því að draga úr afkastagetu einnar mikilvægustu umferðaræðar borgarinnar er verið að auka slysahættu og beina umferð inn í íbúahverfi að óþörfu.”

Fulltrúar Reykjavíkurlistans óskuðu bókað:

,,Fulltrúar R-listans eru sammála því að meginmarkmið evrópsku samgönguvikunnar sé að vekja almenning til umhugsunar með jákvæðum hætti um samgöngumál og mismunandi ferðamáta. Aukinn forgangur strætó í umferðinni er tvímælalaust ein leið til að vekja athygli á almenningssamgöngum sem hagkvæmum og þægilegum ferðamáta og hvetja til aukinnar notkunar þeirra, sem frekar er til þess fallið að auka umferðaröryggi.”

Mál nr. 2002020072.
9. Lagt fram bréf ritara samgöngunefndar, dags. 20.08.2004, varðandi erindi sem borist hafa nefndinni.

a. Lagt fram erindi Þorgerðar Sigurðardóttur, f.h. íbúa Ránargötu 1-14, ódags.,
varðandi beiðni um miðamæli. (Mál nr. 2003100042).
Vísað til Bílastæðasjóðs.

b. Lagt fram erindi Einars H. Einarssonar, dags. 12.08.2004,
varðandi ósk um hraðahindrun í Hátúni. (Mál nr. 2004080013).
Vísað til Verkfræðistofu RUT.

c. Lagt fram erindi Margrétar Einarsdóttur, Grettisgötu 70, vegna bílastæðamála.
Vísað til Bílastæðasjóðs. (Mál nr. 2003020003).

d. Lagt fram erindi skrifstofustjóra Sendiráðs Kanada, dags. 18.08.2004,
varðandi ósk um bílastæði. (Mál nr. 2003040079).
Vísað til borgarverkfræðings.

Fleira gerðist ekki og var fundi slitið kl. 11:00
Árni Þór Sigurðsson
Haukur Logi Karlsson
Anna Kristinsdóttir
Gísli Marteinn Baldursson
Kjartan Magnússon