Umhverfis- og skipulagsráð
Þriðjudaginn 27. apríl, ár 2004, kl. 09:00 var haldinn 75. fundur samgöngunefndar Reykjavíkur í Skúlatúni 2, 5. hæð.
Þessir sátu fundinn: Gísli Marteinn Baldursson, Haukur Logi Karlsson, Kjartan Magnússon, Óskar Dýrmundur Ólafsson og Steinunn Valdís Óskarsdóttir.
Einnig komu á fundinn: Ívar Pálsson, Ólafur Bjarnason, Sigurður I. Skarphéðinsson, Stefán Agnar Finnsson og Stefán Haraldsson.
Fundarritari var Þórhildur Lilja Ólafsdóttir.
Þetta gerðist:
Mál nr.
1. Lögð fram að nýju svohljóðandi ályktunartillaga um Stekkjarbakka 2, bensínafgreiðslu við Staldrið:
„Samgöngunefnd átelur þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið vegna umsóknar um starfrækslu bensínstöðvar við Stekkjarbakka. Við meðferð málsins hefur samþykkt Reykjavíkurborgar um bensínstöðvar og bensínsölulóðir frá 20. júní 1995 verið þverbrotin. Í umræddri samþykkt segir m.a. að bensínsölulóð með aðkomu frá stofnbraut skuli sýna á aðalskipulagi. Þá segir að allar bensínsölulóðir skuli sýna á deiliskipulagi sem skuli samþykkt af borgarráði eftir umfjöllun skipulagsnefndar og umferðarnefndar.
Umrætt leyfi var samþykkt í skipulags- og byggingarnefnd og byggingarframkvæmdir hafnar án þess að deiliskipulag lægi fyrir, málið hlaut ekki tilskylda fjögurra vikna kynningu og því var ekki vísað til samgöngunefndar. Svo virðist sem reynt hafi verið að keyra málið í gegnum borgarkerfið í meiri flýti en áður hefur þekkst í sambærilegum málum. Þar sem lóðaúthlutanir til olíustarfsemi eru ætíð viðkvæmar er mikilvægt að farið sé í einu og öllu eftir gildandi reglum og réttur íbúa og annara hagsmunaaðila virtur í hvívetna.
Ljóst er að vísa hefði átt málinu til samgöngunefndar og er óskað eftir því að nefndin fái það til umfjöllunar eins og umrædd samþykkt gerir ráð fyrir.“
Einnig lögð fram umsögn yfirverkfræðings verkfræðistofu RUT dags. 26. apríl 2004 og útskrift úr gerðabók skipulags og byggingarnefndar frá 21.apríl 2004.
Fulltrúar í samgöngunefnd Reykjavíkur gera ekki athugasemdir við kynningu á málinu.
Formaður samgöngunefndar lagði til að ályktunartillögunni yrði vísað frá.
Samþykkt með 3 atkvæðum, fulltrúi sjálfstæðismanna greiddi atkvæði gegn frávísunartillögunni.
Fulltrúar Reykjavíkurlistans í samgöngunefnd Reykjavíkur óskuðu bókað:
Ljóst er að skipulags og byggingarnefnd Reykjavíkur átti að vísa umsókn um starfrækslu bensínstöðvar við Stekkjarbakka til samgöngunefndar Reykjavíkur og fagnar samgöngunefndin því að það hafi nú verið gert i samræmið við samþykkt Reykjavíkurborgar um bensínstöðvar og bensínsölulóðir frá 20. júní 1995. Samgöngunefnd ítrekar mikilvægi þess að þessum reglum sé fylgt og telur að svo hafi verið í þessu tilviki.
Fulltrúi sjálfstæðismanna í samgöngunefnd lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka fyrir kynningu á þessu viðkvæma máli, en harma jafnframt það sleifarlag sem var við alla meðferð þess. Af því tilefni óska fulltrúar Sjálfstæðisflokksins eftir upplýsingum um það hvort formanni nefndarinnar og/eða embættismönnum var kunnugt um gildandi reglur borgarráðs frá 1995. Ef svo var vekur það spurningar um hvers vegna ekki var farið eftir þeim en ef svo var ekki vekur það spurningar um vinnubrögð á vettvangi nefndarinnar.
Fleira gerðist ekki og var fundi slitið kl. 09:30
Katrín Jakobsdóttir
Gísli Marteinn Baldursson
Haukur Logi Karlsson
Steinunn Valdís Óskarsdóttir